Guðrún Hannesdóttir

BLÚSSANDI SKÁLDSKAPUR, BASL OG VÍMA – Um Ástusögur

Ásta SIgurðardóttir var ein af fyrstu módernísku höfundunum hér á landi og hafði áhrif á bókmenntir, menningu og samfélag svo eftir var tekið. Hún skrifaði um málefni sem tengjast reynsluheimi konu; nauðgun, misrétti, fordóma, valdaleysi og drykkju kvenna.

Út er komin bókin Ástusögur, líf og list Ástu Sigurðardóttur, skrifuð til heiðurs skáldkonunni því liðin eru 90 ár frá því hún fæddist. Ritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir sá um hönnun og umbrot. Í bókinni er stefnt saman fræðikonum og skáldkonum auk þess em  fjölskyldumeðlimir skrifa í bókina og varpa á Ástu margvíslegu ljósi –  og skuggum.

Margt er merkilegt í  bókinni, bæði er þar vönduð fræðimennska og fallegur skáldskapur. Þar er að finna áður óbirt uppkast að smásögunni Frostrigningu sem einhver hefur ritskoðað af nokkru offorsi og einlæg bréf sem Ásta skrifaði systur sinni. Þá fjallar  Bergljót Soffía Kristjánsdóttir um kveðskap Ástu sem sýnir skýrt að skynjun hennar var óvenjuleg og Soffía Auður Birgisdóttir túlkar smásöguna Súpermann á nýstárlegan hátt. Í grein eftir Kolbein Þorsteinsson og Silju Aðalsteinsdóttur er m.a. rætt um þær miklu væntingar sem til Ástu voru gerðar sem skáldkonu og áttu etv þátt í hnignun hennar og falli. Dagný Þorsteinsdóttir ritar minningar um móður sína sem láta engan ósnortinn. Sigrún Margrét, annar ritstjóranna, skrifar ritrýnda grein um kvengotnesk viðfangsefni hjá Ástu. Og loks má nefna grein Dagnýjar Kristjánsdóttur þar sem m.a. er fjallað um þá drusluskömmun sem Ásta varð fyrir, svo dæmi séu tekin um áhugavert efni í bókinni.

Sjö skáldkonur heiðra Ástu í bókinni. Guðrún Hannesdóttir tekur upp þráð frá Ástu, þar sem hún skrifaði um heimahaga sína:  „…má allt eins kalla ljóð eins og svo margt óbundið mál hennar“:

Ég vildi láta grafa mig í flæðarmáli að loknum ævidögum eins og sumir landnámsmenn. Ekki þó af sömu ástæðim og þeir, enda byggðust þær á misskilningi eins og öll trú. Ef sjórinn „vígir“ sér það svæði sem hann ríkir yfir, er sú vígsla heiðin. Heiðni er eðli lands og hafs, lofts og elds, þetta heiða, kreddulausa lífsviðhorf sem er ekki skoðun og ekki trú, heldur eðli og lögmál, eilíft eins og náttúran. Í svölum hreinum ægissandi vil ég verða að engu, láta brimgnýinn kveða mig inn í þessa eilífu hringrás, meðan tær sjórinn þvær bein mín og tandurhreinn skeljasandur fágar þau hvít og breytir þeim í sína mynd (174).

Síðan ævisaga Ástu Minn hlátur er sorg kom út 1992, hefur vantað heildstætt rit með pælingum um höfundarverk þessarar merku skáldkonu. Lífi hennar og list eru gerð fagmannleg (tvær greinar eru ritrýndar) og fagurfræðileg skil, af virðingu og skilningi sem hún ekki naut í lifanda lífi. Ásta var fjölhæf og listræn, lifði hratt og dó ung, líf hennar var blússandi skáldskapur, basl og víma. Sögupersónur hennar eru utangarðs og áttavilltar í ríkjandi smáborgarahætti, „og eina leiðarljósið er oft og tíðum sígarettan“ eins og fram kemur í grein Ástu Kristínar Benediktsdóttur en þar segir að ljóst sé að frægar ljósmyndir Kaldals af skáldkonunni með sígarettuna hafi átt stóran þátt í að efla og varðveita ímynd Ástu sem uppreisnarkonu, bóhems og róttæklings – sem reyndist svo hvorki sanngjarnt né heilladrjúgt.

Birt á skáld.is 20. nóvember 2022

Prísundarfiskar og annálamyrkur

Í nýjustu ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Kallfæri, eru um 60 ljóð. Aftast eru nokkrar skýringar. Guðrún á brýnt erindi, hún þarf sannarlega að komast í kallfæri við lesendur og nú er það okkar að hlusta. 

Ljóðin eru mörg hver flugbeitt og tekin er skýr afstaða gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og og hvers kyns yfirgangi. Sum bera með sér söknuð eftir fortíð eða tengjast náttúrunni; þar blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja. Víða er frost og ís í ljóðunum, vetrarhörkur og klakahröngl og „rabarbarastóðið fyrir utan kreppir tærnar í angist” (35).  Rödd ljóðmælanda er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint. 

Fyrstu tvö ljóðin í bókinni draga fram liðinn tíma sem mörgum er ókunnur og svipað þema er í ljóðinu „myrkur” á bls. 55. Í amstri daganna, umferðarnið og síbylju, heyrist ekki hátt í birtingarhljómi, fjaðraþyt eða fornu tauti og skrjáfi en við ættum kannski að leggja eyrun við og muna uppruna okkar og fortíð. 

Þriðja ljóðið „tónverk í smíðum” er í sama dúr. Þar eru fyrirboðar þess að verið er að eyðileggja náttúruna með endalausri græðgi. Áður en við er litið er búið að leggja landið okkar undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur.  Orðið prísundarfiskur kemur þar fyrir;  lax sem elst upp í keri eða kví.

Í  ljóðinu „Jeríkó, þaulæft atriði” er vísað til þess að stríð hafa verið háð um aldir og þau bitna mest á börnum. Lúmskt fyndið er ljóð um internetið (já, reynið bara að yrkja eitthvað bitastætt um það óskáldlega fyrirbæri) og yfirvofandi endalok þess.  Og ljóð um hlátur kvenna snerti mig, það minnir á lífsbaráttu formæðra okkar og upp rifjuðust ummæli skáldkonunnar Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim – konur óttast að karlar drepi þær.

VINDHANAHLÁTUR

í þann tíð hlógu konur

hvorki dátt né lengi

kannski stöku álfkona á nýársnótt

eða stúlka í hópi barna

undir rökkursvefninn

í þessu landi var hlátur jafn galinn

og vindhani á bæjarburst

hefði ekki lafað þar lengi

nema ryðgaður skakkur

með óþolandi ískri

til einkis að tjasla við hann

slitinn úr öllu samhengi við vindáttina

og nauðsynleg jafnaðargerð

eins gott að sleppa honum alveg

(32)

Guðrún er meistari í orðasmíð og hugrenningatengslum eins og ótal dæmi sýna; „reynið bara að segja upphátt: þrír vetur í röð … og fallið er bratt niður í dimmt annálamyrkur” (36). 

Ekki eiga mávar sér marga málsvara en Guðrún dregur upp mynd af þeim, leitandi sér eilíflega að góðum stað til að deyja á.  Ruslahaugarnir þar sem þeir dvelja löngum eru friðsæll staður; með volgri vélarolíu  og ryðrauðum salla sem fellur hljóðlaust (41). Allt á sinn tilverurétt í heimsmyndinni.

Lljóðin í Kallfæri eru ort af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Þau eru hvert öðru betra. Ég staldraði oft við mörg þeirra og naut þess að lesa þau, s.s. telos, gullgerðarlist og „dátarnir staðföstu. 

Bókin endar á himnabréfi til lesenda en skv. gamalli trú voru það bréf sem skrifuð voru á himnum og bárust síðan til manna. Þeir sem komust yfir slík bréf töldust hólpnir í þessu lífi og öðrum (61). Í Kallfæri er sannarlega reynt að koma himnabréfinu til okkar, vara okkur við og veita sáluhjálp. En við þurfum að leggja eyrun við.

Ekki er það útdautt enn…

400px-Pinguinus_impennus_(Audubon)

Slitur úr orðabók fugla (2014) er fjórða ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur. Hún fer sér hægt í ljóðagerðinni en ferill hennar spannar nú tuttugu ár. Í nýju bókinni eru 33 ljóð sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt eins og titillinn gefur til kynna. Hér birtast m.a. kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga þessir fuglar við okkur erindi.

Hér er á ferð útpæld, þematísk og heildstæð ljóðabók með skemmtilegum vinklum. Myndmálið tengist þemanu náið, fugl er algengt tákn í bókmenntum sem skírskotar í ýmsar áttir en stendur oft fyrir frelsi og frelsisþrá. Myndmálið er skýrt og einkennist af vísdómi og fáguðum smekk, ljóðlínurnar haganlega smíðaðar, húmor aldrei langt undan og niðurstaðan oft óvænt, ef ekki íronísk.

Táknum eins og vængjum, fjöðrum, hvössum goggum og krepptum klóm bregður fyrir í ljóðunum og yfir flögrar lúmsk ádeila sem birtist m.a. í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum. Vísanir eru víða, t.d. í bókmenntir fyrri alda, s.s. Egils sögu, sumar skýrðar í athugasemdum í bókarlok, aðrar svífa yfir vötnum þar til þær tengjast einhverju í huganum sem kalla má almenna þekkingu (miðaldra fólks), eins og t.d. „litla gula fræ / það var ég sem fann þig / svona hnöttótt og skínandi / og stútfullt af möguleikum“ (8).

Eftirfarandi er gott dæmi um ljóð úr bókinni. Hér talar geirfuglinn en eins og kunnugt er dó hann út um miðja 19. öld vegna ofveiði, hann var eltur uppi ófleygur og varnarlaus. Í ljóðinu lýsir fuglinn örvæntingu sinni og feigð. Formið er frjálst en takturinn minnir á forna bragarhætti:

geirfugl

(ertu aftur farinn að gráta?)

skerið mitt sokkið

öndvegið víðsýna

leikvangur ljóssins

og hreiðurklöppin mín fegurst allra

hjarta mitt skelfur

líkt og dauðaþögnin

rétt fyrir jarðskjálftann mikla

angistin nístir sem

logandi teinn

eggið mitt kólnar

á skötuskeri

tjóðraður við

minn titrandi skugga

bíð ég komu mannanna

með bareflin

brugðnu

(25)

Það er alltaf von á góðu frá Guðrúnu Hannesdóttur. Á meðan skáldskapur eins og Slitur úr orðabók fugla er til á Íslandi þarf ekki að óttast að ljóðið hljóti sömu örlög og geirfuglinn.

Birt í Kvennablaðinu 12. mars 2015

Ljóð spegluð af Guðrúnu Hannesdóttur

Rakst á þessi frábæru, fallegu, fornu ljóð frá Finnlandi, „spegluð af“ Guðrúnu Hannesdóttur, í Stínu (apríl 2013)

Ef vinur minn kæmi gangandi

fengi ég enn minn vin að sjá

kæmi hann til mín langt úr fjarska

ég rétti honum hiklaust hönd mína styrka

þó héldi hann á eiturnöðru

munnur minn leitaði hans í kossi

þó drypi af vörum  hans úlfablóð

ég félli honum fast að hálsi

þó sleginn væri hann líkþrá sárri

legðist fegin við hlið hans niður

þó lakið væri drifið blóði.

Sokkar handa dauðanum

ég lofaði dauðanum

að prjóna á hann sokka

tæki hann mig auma

úr táradal þessum

en það gerði hann ekki

skömmin sú arna

greip bara með sér

þá glöðu og ríku

– gerpið atarna

skeytti hvorki

um skömm né sóma

tók lukkunnar börn

í lífsins blóma

skildi mig eftir

skarn allra barna

í dimmu horni

– fanturinn svorni

hvað geri ég nú?

hvers á ég að gjalda?

gráta mun ég

þurrum tárum

þó sokkalaus skeinist hann

um veröld sárkalda

– um aldir alda!

(ort út frá fornri hálfkæringsvísu með kúnstugu rími)

Sumarkoma

mýrar þiðna

skarir gliðna

sandkorn losna

eitt frá öðru

tjarnir hlýna

strendur sindra

losnar allt

úr íssins viðjum

djúpt í hafi

kviknar ylur

seint mun hlýna

kalið hjarta

sorg mín handan

þíðumarka