Prague

Prag, borgin fagra

25695288912_45634b5ea8_o

Nákvæmlega í dag er eitt ár síðan ég pakkaði fataleppum og bókum í tösku, yfirgaf fjölskyldu og vini á Íslandi og fór til hálfs árs námsdvalar við einn elsta háskóla í Evrópu, Univerzita Karlova í Prag. Fyrstu dagana var snjór yfir öllu og kuldinn óskaplegur. Það vandist fljótt og ég dvaldi í borginni í hálft ár og naut hverrar mínútu, enda á Kafkaslóðum. Prag er svo falleg og menningin stórbrotin, saga landsins löng og skrautleg, tungumálið og bókmenntirnar maður minn! Veðrið er gott, verðlag hagstætt, fólkið er yndislegt, samgöngur frábærar og svo mætti lengi telja. Aldrei langaði mig aftur heim. Ég sakna enn hellulagðra strætanna, ævagamalla húsanna, hinna margvíslegu brúa yfir Karlsána, kaffihúsanna, bókabúðanna, háskólans, safnahúsanna, sporvagnanna… Þarna kynntist ég frábæru fólki, bæði samnemendum frá Erasmus og innfæddum, og fékk til mín góða gesti. Ég kvaddi þessa fögru borg með söknuði á sjóðheitum sumardegi og er staðráðin í að heimsækja hana aftur. Við Íslendingar getum nefnilega margt lært af Tékkum, t.d. nægjusemi, núvitund, skipulag almenningssamganga og ölgerð.

Hjálagt er myndaalbúmið:

Albúm frá Prag

Kastalinn

Í mars sl. brá mér í skoðunarferð til Sternberger-kastala sem er í um 2 klst akstursfjarlægð frá Prag. Bygging hans hófst um það leyti sem Snorri Sturluson var veginn á Íslandi. Kastalinn er rammgerður og reisulegur, hann stendur á skógi vaxinni hæð, lítið þorp hefur byggst við rætur hennar og í gegnum það liðast falleg á. Það kostar skilding að fá að skoða kastalann og aukaskilding ef teknar eru ljósmyndir. Leiðsögumaðurinn var ung stúlka sem hefur unnið þarna mörg sumur, algjörlega heilluð af staðnum, ættgöfginni og fínheitunum. Þetta er algjör draumur, sagði hún, að búa hér á þessum fallega stað við forna frægð og gnótt fjár en þarna hefur Sternberger-ættin búið frá upphafi, nema þegar kommúnistar réðu ríkjum í Tékkó og hröktu aðalinn frá búum sínum. Af einhverjum óþekktum ástæðum fengu Sternbergarnir þá einir að snúa aftur og sýsla með sitt góss þótt kastalinn væri þá eign ríkisins. Þegar valdatíma kommúnista lauk, komst kastalinn aftur í eigu fjölskyldunnar sem hefur búið þar síðan.

kast

Sternberger-kastali í Tékklandi

Í kastalanum svífur andi íburðar, ríkidæmis og forréttinda. Skjaldarmerki ættarinnar, átta arma stjarna, er greypt í veggi og hurðir, gólf og skápa, salarkynni eru prýdd listaverkum og fallega útskorin húsgögnin eru sum frá 18. öld, bækur allt frá þeirri sextándu; postulín og kristall, flauel og mahóný hvert sem litið er. Herbergin hafa nöfn og hlutverk: guli salur til að taka á móti gestum, morgunverðarstofan snýr að sólaruppkomunni og veiðisalurinn er þakinn uppstoppuðum dýrahausum, reykherbergi er til skrafs og ráðagerða og kapellan er með öllu tilheyrandi. Mér varð hugsað til þess hvað við Íslendingar vorum að bralla meðan Sternberger-ættin bjó þarna um sig. Berjast um skitinn heiður og landamerki, grafa okkur inn í torfkofa, þjóna Noregskonungi, stjana við Dani, stauta grálúsugir í myrkri og myglu? Hefðum betur smíðað verkfæri en vopn, höggvið stein frekar en tré. Það eina sem eftir stendur eru handritalufsurnar, sem við höfum ekki einu sinni manndóm í okkur til að sýna almennilega virðingu.

Sá hluti kastalans sem er opinn ferðamönnum er ekki í notkun hjá fjölskyldunni og ekki upphitaður þótt honum sé haldið ágætlega við. Nístingskulda leggur frá  veggjunum sem eru um armslengd að þykkt, hann umvefur slitin húsgögnin, ævaforn gólfteppin, kulnaðan arininn og 300 kílóa kristalsljósakrónurnar eins og verndarhjúpur. Núlifandi Sternberger er 92 ára og býr í kastalanum. Rúmið sem hann svaf í frá bernsku til fullorðinsára er til sýnis. Reykjarpípur afa hans prýða hillur, portrett af forfeðrum og bollastell langömmu troðfylla stofurnar. Svipir fortíðar eru alls staðar. Mér varð hugsað til þessa gamla manns sem þarna lifir og deyr. Langaði hann kannski að gera eitthvað allt annað í lífinu? Djamma í Prag, flytja til Íslands? Það er nefnilega ekkert endilega eftirsóknarvert að vera af gamalli og göfugri ætt, ræða stjórnmál í reykherbergi, fara á dýraveiðar, dreypa á sjérríi úr kristalskaröflu og skipa þjónustufólki fyrir, þegar maður er hálfpartinn til sýnis og þarf að búa í ísköldum og afskekktum kastala til dauðadags.

 

Höllin

Er að stúdera þessa brellnu skáldsögu. Það endar í Midterm Essay í námskeiðinu Kafka in Prague við Charles University þar sem Kafka sjálfur stúderaði forðum. Góðar pælingar eru hér í Víðsjá, þeim vandaða útvarpsþætti.

https://player.fm/series/bk-vikunnar/hllin-eftir-franz-kafka

kafka_franz_obraz

Mynd af geographical imaginations . com