ferðalög

Í regnskóginum

Tristes tropique eða Regnskógabeltið raunamædda (1955, á íslensku 2011) er einkennileg blanda af ferðasögu, sjálfsævisögu, mannfræðirannsókn og heimspekipælingum. Hinn frægi og goðsagnakenndi Claude Leví-Strauss starfað um hríð sem háskólakennari í Sao Paulo, stórborg í Brasilíu, og ferðaðist um frumskóga Amasón undir lok fjórða áratugar síðustu aldar.

Regnskógabeltið fjallar um ferðalög, landkönnuði og túrista, mannfræði og heimspeki, vestræna menningu andspænis suðrænni, mann og náttúru, um nýlendukúgun og arðrán, landnám Evrópubúa og þjóðarmorð. Það er skrifað í mjög myndrænum og útspekúleruðum (strúktúralískum) stíl og svarthvítar ljósmyndir höfundar úr regnskóginum prýða bókina.

Leví-Strauss lést 2009 rúmlega aldar gamall en þá voru allir hinir frægu, frönsku heimspekipoppararnir dauðir. Hann sjálfur var orðinn fótsár af ævinnar eyðimörk og hafði dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir löngu. Pétur Gunnarsson vann að þýðingu bókarinnar úr frummálinu í hjáverkum um 17 ára skeið, listavel eins og hans er von og vísa. Áður hefur komið út eftir Leví-Strauss á íslensku ritgerðin Formgerð goðsagna (Sporin, 1991), sem ég las í háskólanum hjá Matthíasi Viðari á sínum tíma og var sannarlega hugvekja.

Það var áhugavert að rifja þessa bók upp í námskeiði um Travel Studies við Univerzita Karlova í Prag á dögunum. Einkum vegna þess að einn nemandinn er frá Mexíkó og hafði sterkar skoðanir á sýn höfundar á frumbyggjana og benti á dæmi þess að Leví-Strauss væri sjálfur ekki alveg laus við þann hroka og yfirgang sem hann gagnrýnir í bók sinni.

A-PROPOS-DE-TRISTES-TROPIQUES-PR_medium

Úr Tristes Tropique, zaradoc.com

Sporvagninn Kind

Sporvagnar eru algjör snilld. Umhverfisvænir, ódýrir, hljóðlátir, hraðskreiðir og einfaldir í notkun. Alla vega einfaldir fyrir þá sem til þekkja og búa hér í Prag þar sem almenningssamgöngur eru til mikillar fyrirmyndar. Ég hef alltaf verið löt að setja mig inn í hvernig lestakerfi virkar, bara látið ferðafélagana sjá um það fyrir mig enda algjör óþarfi að allir séu að rýna í þær rúnir, og strætó hef ég ekki tekið í 30 ár. Hægri þekki ég varla frá vinstri og áttir eru í mínum huga bara upp og niður. Nú er ég ein að ferðast og þarf að bjarga mér á eigin spýtur.

12662432_1243715535645065_910818331177259886_n

Hvert ætli þessi sé að fara?   (Ljósm. Brynjar Ágústsson)

Ég hugðist taka sporvagninn heim til mín eftir heils dags þramm í gamla bænum, sárfætt, þyrst og svöng. Ég fyllti á matarbirgðirnar í næstu Billa-búð og rogaðist með feng minn í sporvagn nr 22 sem ég hafði tekið daginn áður örstuttan spöl með góðum árangri. En fljótlega áttaði ég mig á því að þessi vagn var að fara eitthvert allt annað, í öfuga átt. Nú voru góð ráð dýr. Myrkrið var að skella á, ekkert netsamband, stoppistöðvarnar hétu óskiljanlegum nöfnum og ég þorði ekki að hreyfa mig af ótta við að verða strandaglópur. Ég ákvað í örvæntingu að sitja áfram og vona að vagninn færi hring og kæmi á endanum á stoppistöðina mína.

Áfram hélt vagninn, lengra og lengra frá miðbænum, það dimmdi, fólk kom og fór en ég sat sem fastast. Loks stöðvaðist vagninn og rödd í hátalara tilkynnti að þetta væri endastöð, allir út. Ég þorði ekki annað en gegna. Reyndi að gefa mig á tal við lestarstjórann en hann virti mig ekki viðlits. Ég hrökklaðist út á lestarpallinn og sá að fólk streymdi inn í undirgöng og þaðan hvarf það út í myrkrið. Ég elti og reyndi að láta engan sjá á mér að ég væri villuráfandi sauður. Umhverfið var eyðilegt, skuggaleg  háhýsi og útkrotaðir veggir og fáir á ferli og mér var ekki orðið um sel. Þarna yrði ég örugglega rænd eða drepin eða eitthvað þaðan af verra. Af fyrirhyggju var ég með makkann og vegabréfið í bakpokanum, rándýr sólgleraugu, nokkra tékkneska þúsundkalla og æfóninn í brjóstvasanum. Sannkallaður happafengur. Sá svo óljóst í gegnum nærsýni og náttblindu að hinum megin voru fleiri lestarspor sem hlytu að liggja í bæinn aftur. Ég sá hins vegar enga leið þangað aðra en tipla yfir teinana, sem ég gerði með lífið í lúkunum. Tók svo sömu lest til baka og fékk illt auga frá lestarstjóranum sem kannaðist greinilega við þessa skrýtnu konu sem setið hafði í lestinni í 40 mínútur og virtist ætla að sitja aðrar 40.

Nú sneri allt rétt og á endanum stöðvaðist vagninn á minni stoppistöð og mikið var ég fegin þegar ég skreið upp tröppurnar að íbúðinni minni, örmagna á sál og líkama. Óttaleg kind get ég verið.

 

Dýravernd II

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hve oft hundar hafa orðið ferðamönnum að liði, og oft og einatt bjargað lífi þeirra með því að rata í dimmviðrum eða vara við ófyrirséðri hættu. Allir ferðamenn, sem láta hund fylgja sér, skyldu því sýna þessum góða förunaut sínum mestu nákvæmni í allri meðferð, ekki síst á langferðum.

Dýraverndarinn, 1955