útihlaup

Út að hlaupa

Nýju skórnir

Nýju skórnir

Á föstudaginn var Windows 8 sett upp á tölvuna mína. Það þarf tilfæringar til að það geti stutt Garmin og ég er að vinna í því. Svo ég verð að tjá mig hér um æfingarnar þar til úr rætist. Þótt úti virðist kalt ætti maður ekki að láta það stoppa sig í að fara út að skokka. Það þarf bara að klæða sig í mjúkar ullarbuxur og ullarbol innanundir hlaupafötin og hafa góða húfu og vettlinga. Og vera með gott endurskin. Þegar maður hefur hlaupið 10 skref er allur hrollur úr manni, ferska lorftið streymir ofan í lungun, roði færist í kinnar, hjartað styrkist og vöðvarnir vinna. Í dag fór ég 7,35 km á 45 mínútum, s.s. nokkra rólega hringi á Kópavogsvellinum. Er soldið stirð í nára og lærum eftir laugardagshlaupið sem var fulllangt eftir langt hlé svo ég vildi ekki sperra mig neitt. Bara býsna ánægð með þetta. Og  skórnir eru alveg að gera sig, þeir eru hálfu númeri stærri en ég hef áður keypt, gott rúm fyrir tærnar. .

Hlaupaæfing nr 3

20130119-192524.jpg

Æfing árla morguns hjá Bíddu aðeins, um 12 manns mættir og létu veðrið ekki á sig fá.  Lagt af stað kl 9 og við fórum stóran hring í rólegheitum. Fyrst upp að Veðurstofu, svo yfir Miklatún og niður Laugaveginn og Öskjuhlíðina heim. Þetta er lengsti hringur sem ég hef farið á ævinni eða 13 km. Frekar stolt af sjálfri mér, á nýju Asics skónum sem ég keypti í gær, á góðu verði  á útsölu. Ég er komin í gírinn og ekkert stoppar mig núna!

Fyrsta hlaupaæfing ársins

Undanfarnir mánuðir hafa einkennst af önnum, þreytu og veikindum. Pabbi hefur verið mjög veikur og verið á spítala síðan á aðfangadag. Sjálf hef ég verið lasin og orkulaus síðan í lok október en nú er komið að því að herða sig upp og láta sér líða vel. Ég hef ætlað lengi að drífa mig en ekki fundist ég nógu hress til þess, full af kvefi og aum alls staðar. En í dag fékk ég nóg, það þýðir ekki að bíða lengur eftir að maður hressist. Fyrsta hlaup ársins var því í dag, með Bíddu aðeins. Samtals fór ég um 7 km, þar af 4 km í hringi  á Breiðabliksvellinum, í myrkri og kulda. En mikið var það hressandi.

Skokka eitthvað

Þeysti smáspöl á Þeistareykjum í sumar

Það er alltaf verið að skokka eitthvað en nú er enginn staður til að safna sprettunum saman eða skrá þá, eftir hakkaraárásina á hlaup.com. Á mánudaginn fór ég frá MK, fyrir Kársnesið og eftir stígnum inn allan Fossvoginn að sjoppunni og til baka í MK. Það voru rúmir 10 km, tími 63 mín. Veðrið var frábært og playlistinn góður svo ég var í góðu stuði. Í dag fór ég styttra en ég ætlaði í upphafi, aðallega vegna kuldans en vindurinn nísti í gegnum merg og bein. Skrönglaðist þó 7 km. Hjartahlaupið er á sunnudaginn og ég mæti bara ef veðrið verður gott.