Bíddu aðeins

Þannig standa stigin

Æfingar með Bíddu aðeins standa sem hæst hjá mér þessa dagana. Ég finn mikinn mun á hversu vel mér líður, andlega og líkamlega, þegar ég skokka. Ég byrjaði í janúar sl., tók mér hlé hálfan febrúar og staðan nú er þessi:

Æfingar 14. jan- 12. mars: 18

Km 14.  jan- 12. mars: 150,99

Meðalhraði, km á klst: 8,2

Brennsla: 10.580 kal

Þessar upplýsingar getur maður grafið upp á garmin.com en úrið mitt góða safnar þessu öllu saman. Hlaupahópurinn samanstendur af skemmtilegu fólki, aðallega konum, allt frá einbeittum  járnkonum og maraþonmönnum til byrjenda og tómstundaskokkara. Í gær mættu 35 manns, við hlupum í sólinni og nutum hverrar mínútu. Æfingar hópsins eru á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 17.30 og laugardögum kl. 9. Mæting við Kópavogslaug. Og allir eru velkomnir!

_BAG7308

 

Langur laugardagur

Í gær vaknaði ég snemma eins og undanfarna laugardagsmorgna 2013, þ.e. síðan ég gekk til liðs við hlaupahópinn Bíddu aðeins. Var mætt við Kópavogslaug kl 9 eftir próteinsheik Þorbjargar Hafsteins og væna vítamínskammta og framundan var hlaup dagsins. Síðasta laugardag setti ég persónulegt met, hljóp 14 km, úr Kópavogi yfir í Garðabæ og í kringum Vífilsstaðvatn. Það fannst mér frekar strembið, mishæðótt og brekkur og mótvindur og svo fékk ég blöðru á hægri fót. Nú skipti engum togum að ég hljóp með nokkrum sprækum konum það sem okkur var sett fyrir  samtals 17,3 km sem er nýtt persónulegt met í vegalengd.  Á hverjum laugardagsmorgni slæ ég orðið mitt eigið met og er harla ánægð. Þetta laugardagshlaup var ekki erfitt, mest á jafnsléttu, gott veður og frábær félagsskapur, öflugar konur sem draga mann áfram,  meðalpace 4,25 (er það gott?) og nóg eftir í endasprett. Var móð og másandi, rennsveitt og það lagaði blóð úr tánum á mér en rígmontin og harla glöð með árangurinn, ef þetta gengur svona vel áfram stefni ég á hálfmaraþon í apríl, OMG!

11 km í rigningu og roki

Í gær var skokkað, í mígandi rigningu og roki. Hópurinn hittist við Kópavogslaug að venju um níuleytið,  um 20 manns höfðu rifið sig framúr til að mæta á 90 mínútna hlaupaæfingu og engin miskunn var sýnd. Það var farið fyrir Kársnesið, upp í Fossvogsdal og Elliðaárdal. Er skemmst frá því að segja að ég var orðin algerlega gegndrepa áður en yfir lauk, vettlingarnir orðnir níðþungir, það sullaði í skónum mínum og rass og lær voru algerlega dofin. Hefði átt að klæða mig betur. Endaði samt með 11 km sem voru eins og 15 í mótvindinum og var mjög sátt þegar heim kom. Skellti mér svo í nudd í Reykjavík-Wellness, það var alveg dásamlegt.  Febrúar byrjar vel

Hlaupaæfing nr 3

20130119-192524.jpg

Æfing árla morguns hjá Bíddu aðeins, um 12 manns mættir og létu veðrið ekki á sig fá.  Lagt af stað kl 9 og við fórum stóran hring í rólegheitum. Fyrst upp að Veðurstofu, svo yfir Miklatún og niður Laugaveginn og Öskjuhlíðina heim. Þetta er lengsti hringur sem ég hef farið á ævinni eða 13 km. Frekar stolt af sjálfri mér, á nýju Asics skónum sem ég keypti í gær, á góðu verði  á útsölu. Ég er komin í gírinn og ekkert stoppar mig núna!