Mér tókst að ljúka hálfmaraþoni í RM í sumar. Ég var búin að strengja þess heit að gera þetta á árinu 2014 en var soldið hikandi, mér fannst undirbúningur minn ekki nógu góður. Ég hafði hlaupið mest 19 km og það var í apríl! En æft nokkuð stöðugt í sumar, stuttar vegalengdir, 5-8 km, 2-3 í viku. En félagar mínir í hlaupahópnum höfðu mikla trú á að ég gæti þetta og ég lét spana mig. Síðustu dagana fyrir hlaupið var ég ótrúlega „peppuð“, fór 11, 13 og 15 km og hlakkaði til hlaupsins. Í 10 km hlaupinu í fyrra var ég ekki svona kát, þá var tímapressa á mér, en nú vissi ég ekkert hvað ég var að fara út í og var hin glaðasta. Stutta útgáfan er sú að eftir 5 km fékk ég krampa í kálfann sem varði allt hlaupið svo segja má að ég hafi farið þetta á einni löpp! En þetta var æðislegt! Tíminn 2,10 og ég er alsæl með árangurinn. Næst er það hlaup í útlöndum, ekki spurning!
Hlaup
Skokkað í dölunum
RM 2013
10 km hlaupið að baki og tíminn liggur fyrir. Fór á 60 mín (flögutími) svo til sléttum og er frekar svekkt með það. Gerði þau mistök að fara of aftarlega í röðina, stillti mér upp í 60-65 en hefði átt að vera framar. Þvagan þokaðist af stað og dýrmætar mínútur fóru til spillis. Pace-ið var 5,5 mestallan tímann og ég var í góðum gír, hefði átt að fara þetta á 57 allavega. Gengur betur næst! Veðrið var gott, allir glaðir og hvetjandi, Odda í markinu eins og í fyrra og toppurinn á deginum var að Gunna systir og Jóhanna Sigrún voru komnar niður í bæ og fögnuðu mér að hlaupi loknu!
Hlaup í mars
Laugardagsæfing
Datt í hug að prófa að upplóda laugardagsskokkinu hér. Og viti menn, allt hægt með Garmin.
Laugardagsæfing by SteinunnInga at Garmin Connect – Details.
Þannig standa stigin
Æfingar með Bíddu aðeins standa sem hæst hjá mér þessa dagana. Ég finn mikinn mun á hversu vel mér líður, andlega og líkamlega, þegar ég skokka. Ég byrjaði í janúar sl., tók mér hlé hálfan febrúar og staðan nú er þessi:
Æfingar 14. jan- 12. mars: 18
Km 14. jan- 12. mars: 150,99
Meðalhraði, km á klst: 8,2
Brennsla: 10.580 kal
Þessar upplýsingar getur maður grafið upp á garmin.com en úrið mitt góða safnar þessu öllu saman. Hlaupahópurinn samanstendur af skemmtilegu fólki, aðallega konum, allt frá einbeittum járnkonum og maraþonmönnum til byrjenda og tómstundaskokkara. Í gær mættu 35 manns, við hlupum í sólinni og nutum hverrar mínútu. Æfingar hópsins eru á mánudögum, miðvikudögum og fimmtudögum kl. 17.30 og laugardögum kl. 9. Mæting við Kópavogslaug. Og allir eru velkomnir!
Langur laugardagur
Í gær vaknaði ég snemma eins og undanfarna laugardagsmorgna 2013, þ.e. síðan ég gekk til liðs við hlaupahópinn Bíddu aðeins. Var mætt við Kópavogslaug kl 9 eftir próteinsheik Þorbjargar Hafsteins og væna vítamínskammta og framundan var hlaup dagsins. Síðasta laugardag setti ég persónulegt met, hljóp 14 km, úr Kópavogi yfir í Garðabæ og í kringum Vífilsstaðvatn. Það fannst mér frekar strembið, mishæðótt og brekkur og mótvindur og svo fékk ég blöðru á hægri fót. Nú skipti engum togum að ég hljóp með nokkrum sprækum konum það sem okkur var sett fyrir samtals 17,3 km sem er nýtt persónulegt met í vegalengd. Á hverjum laugardagsmorgni slæ ég orðið mitt eigið met og er harla ánægð. Þetta laugardagshlaup var ekki erfitt, mest á jafnsléttu, gott veður og frábær félagsskapur, öflugar konur sem draga mann áfram, meðalpace 4,25 (er það gott?) og nóg eftir í endasprett. Var móð og másandi, rennsveitt og það lagaði blóð úr tánum á mér en rígmontin og harla glöð með árangurinn, ef þetta gengur svona vel áfram stefni ég á hálfmaraþon í apríl, OMG!
11 km í rigningu og roki
Í gær var skokkað, í mígandi rigningu og roki. Hópurinn hittist við Kópavogslaug að venju um níuleytið, um 20 manns höfðu rifið sig framúr til að mæta á 90 mínútna hlaupaæfingu og engin miskunn var sýnd. Það var farið fyrir Kársnesið, upp í Fossvogsdal og Elliðaárdal. Er skemmst frá því að segja að ég var orðin algerlega gegndrepa áður en yfir lauk, vettlingarnir orðnir níðþungir, það sullaði í skónum mínum og rass og lær voru algerlega dofin. Hefði átt að klæða mig betur. Endaði samt með 11 km sem voru eins og 15 í mótvindinum og var mjög sátt þegar heim kom. Skellti mér svo í nudd í Reykjavík-Wellness, það var alveg dásamlegt. Febrúar byrjar vel
Út að hlaupa
Á föstudaginn var Windows 8 sett upp á tölvuna mína. Það þarf tilfæringar til að það geti stutt Garmin og ég er að vinna í því. Svo ég verð að tjá mig hér um æfingarnar þar til úr rætist. Þótt úti virðist kalt ætti maður ekki að láta það stoppa sig í að fara út að skokka. Það þarf bara að klæða sig í mjúkar ullarbuxur og ullarbol innanundir hlaupafötin og hafa góða húfu og vettlinga. Og vera með gott endurskin. Þegar maður hefur hlaupið 10 skref er allur hrollur úr manni, ferska lorftið streymir ofan í lungun, roði færist í kinnar, hjartað styrkist og vöðvarnir vinna. Í dag fór ég 7,35 km á 45 mínútum, s.s. nokkra rólega hringi á Kópavogsvellinum. Er soldið stirð í nára og lærum eftir laugardagshlaupið sem var fulllangt eftir langt hlé svo ég vildi ekki sperra mig neitt. Bara býsna ánægð með þetta. Og skórnir eru alveg að gera sig, þeir eru hálfu númeri stærri en ég hef áður keypt, gott rúm fyrir tærnar. .
Hlaupaæfing nr 3
Æfing árla morguns hjá Bíddu aðeins, um 12 manns mættir og létu veðrið ekki á sig fá. Lagt af stað kl 9 og við fórum stóran hring í rólegheitum. Fyrst upp að Veðurstofu, svo yfir Miklatún og niður Laugaveginn og Öskjuhlíðina heim. Þetta er lengsti hringur sem ég hef farið á ævinni eða 13 km. Frekar stolt af sjálfri mér, á nýju Asics skónum sem ég keypti í gær, á góðu verði á útsölu. Ég er komin í gírinn og ekkert stoppar mig núna!