Höfundur: Steinunn Inga Óttarsdóttir

"Maður hélt útsýni valda víðsýni, en endurtekningin er þrengri en mjór fjörður..." Guðbergur Bergsson, Anna 1969

HIÐ RÓTGRÓNA MERKI FÁTÆKTAR OG UMKOMULEYSIS – um Tvenna tíma

Bókaforlagið Angústúra réðst árið 2017 í endurútgáfu ævisögunnar Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason (kom fyrst út 1949), síðustu bók Elínborgar Lárusdóttur sem var afkastamikill rithöfundur um miðja síðustu öld. Útgáfan er vönduð og eiguleg, með orðskýringum, formála og eftirmála, orðskýringum og ljósmyndum úr einkasafni og er ómetanleg heimild um horfinn tíma og harða lífsbaráttu, ekki síst kvenna. Hætt er við að nútímafólk trúi varla að barn hafi þurft að þola þá meðferð sem Hólmfríður Margrét Björnsdóttir (1870-1948) fékk í uppvexti sínum í Skagafirði undir lok 20. aldar. En þetta var hlutskipti margra íslenskra barna og vinnukvenna fyrr á öldum.

Byrjaði að vinna 5 ára

Ekki er mikið fjallað um tilfinningalíf, drauma og þrár í þessari ævisögu frekar en öðrum frá þessum tíma. En mikinn fróðleik er hér að finna um matargerð, híbýli og aðbúnað fólks og um félagslega stöðu töku- og fósturbarna en Hólmfríður var send til vandalausra aðeins fárra daga gömul. Hún var farin að sinna ýmsum verkum um 5 ára aldurinn, s.s. að prjóna, tæja ull og rífa hrís til eldiviðar. Átta ára varð hún að fara að vinna fyrir sér á kotbæ og voru henni þá falin verstu verkin, m.a. að bera vatn og mó, sópa og moka snjó. Föt sem hún fékk send þangað frá fósturmóður sinni fékk hún ekki afhent en börn húsbændanna voru klædd í þau og berfætt gekk hún sumrin löng. „Oft var Hólmfríður svo hungruð að hana sveið að innan… Oft var hún barin, og aldrei talað til hennar hlýtt orð og aldrei fannst þeim hjónum hún vinna nóg“ (46).

Í uppvextinum var hún jafnan vot í fætur og í skjóllausum görmum. Erfiðisvinna, veikindi og vannæring settu mark á heilsu litlu stúlkunnar, svo hún beið þess aldrei bætur (52). Hraktist hún á milli bæja við misjafnt atlæti, alls var hún á 12 bæjum fyrstu 19 ár ævi sinnar (155). Vinnuþrælkun var mikil og munaði verulega á kjörum karla og kvenna. Þótt allir ynnu mikið fengu karlar hærri laun (75 krónur á ári en konur 24). Þjónaði hver vinnustúlka einum karlmanni fyrir utan venjulegan vinnudag og átti að þvo af honum á sunnudögum (99). Það er frekar dulið í textanum hvað Hólmfríði sjálfri fannst um þennan ójöfnuð en hann er vissulega dreginn skýrt fram. En henni sárnaði að fá ekki að læra að skrifa og var hún orðin 16 ára áður en það varð.

Förukonur

Hólmfríður hefur haft næmt auga fyrir umhverfi sínu og segir m.a. skemmtilega frá nokkrum förukonum. Sumar voru útsjónarsamar og risu gegn stöðnuðu samfélagi, aðrar báru harm í brjósti eða áttu engan að. Átakanleg er frásögn af systkinunum Jakobi og Rannveigu á Minni-Brekku. Ljóst má vera að Jakob beitti systur sína miklu ofbeldi og vissu það allir. Þessi endurminning situr í Hólmfríði og hafði djúp áhrif á hana:

„Broslegt var að sjá þau saman í smiðjunni systkinin, hann í úlpunni, gyrtan reiptagli og berandi þrjá til fjóra hatta á höfði, hana í verstu görmum, svarta af sóti og skít, hokna í herðum og síhrædda, skotrandi hræðslulegum augunum upp á hinn mikla meistara og lesandi fyrirskipanir, þóknun eða vanþóknun úr hinum þóttalega svip hans. Svo mikið er víst, að hún vildi ekki styggja hann, enda má segja að allt líf hennar snerist um það, að reyna að gera honum til hæfis, létta undir með honum og vinna sem allra mest. En laun hennar urðu smá. Má vel vera, að hún hafi liðið í kyrrþey, þótt aldrei hefði hún orð á því og kvartaði ekki“ (88).

Kannski hefur Hólmfríður rifjað þetta upp þegar hún giftist síðar, manni sem hún leit mjög upp til og hafði völdin í farsælu hjónabandinu.

Hólmfríður kynntist ágætlega hinum fræga Sölva Helgasyni sem jafnan rogaðist með málaraborðið á bakinu á flakki sínu. „En ekki hafði fólk auga fyrir þessari list, sem honum sjálfum þótti svo mikils um vert, að hann fórnaði lífi sínu fyrir hana, en hlaut ekki annað að launum en hrakning og pyndingar“ segir Hólmfríður (93).

Ævintýri líkast…

Vorið 1897 giftist Hólmfríður Guðmundi Hjaltasyni, heimiliskennara og fyrirlesara, sem var sautján árum eldri en hún, og fluttist með honum á Langanes. Guðmundur var framfaramaður í menntamálum, skrifaði greinar í blöðin um kjör kvenna og barna og vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir ungmennafélög í landinu. Þótti eiginkonan unga honum varla samboðin, honum var t.d. boðið í mat á prestsetrið, en ekki Hólmfríði (107). Þau settust að á Þórshöfn vorið 1900 en bauðst svo að flytja til Noregs þar sem hagur þeirra vænkaðist.

Hólmfríður var þá um þrítugt og fékk í fyrsta sinn greitt í peningum fyrir vinnu sína (113) og fann til þess að hún var komin í aðra stétt. Hún bjó í notalegu húsnæði á fallegum stað, eignaðist vini og leið vel, henni var sýnd virðing og hún tók að rétta úr kútnum eftir að hafa allt sitt líf verið haldið niðri: „Minnimáttarkenndin, hið rótgróna merki fátæktar og umkomuleysis, hafði verið fylgifiskur hennar allt til þessa“ (120). Aldrei langaði hana aftur til Íslands en þar kom að hún varð að fylgja Guðmundi sem þráði að komast heim og starfa fyrir þjóð sína. Kjör þeirra versnuðu, þau misstu eitt barna sinna og loks dó Guðmundur 1919, 66 ára að aldri. Síðustu árin varð Hólmfríður því að fara aftur í vinnumennsku og lést síðan á elliheimili í Reykjavík. Þó fannst henni að líf sitt hefði verið „líkast ævintýri“ (142). Afkomendur þeirra hjóna eru merkismenn, m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðni Th. Jóhannesson.

Viðbót við sögu eiginmannsins?

Þegar að er gáð eru forfeður og formæður okkar flestra vinnufólk og niðursetningar sem strituðu alla ævi í harðbýlu landi. Saga Hólmfríðar er saga margra íslenskra kvenna og það er dýrmætt að hún hafi varðveist. Þótt Hólmfríður sé hógvær og dul var það „eindregin ósk“ hennar að bókin yrði skrifuð. Guðmundur Hjaltason skrifaði sjálfsævisögu sína sem út kom 1923 og bendir Soffía Auður Birgisdóttir á það í fróðlegum eftirmála að hugsanlega hafi sagnaritarinn Elínborg eða Hólmfríður sjálf hugsað bók sína sem viðbót við sögu eiginmannsins. Hvað sem því líður er Tvennir tímar sjálfstæð saga og yndislestur fyrir alla sem vilja þekkja uppruna sinn og fortíð.

Birt á skáld.is 2 febrúar 2022

BLÚSSANDI SKÁLDSKAPUR, BASL OG VÍMA – Um Ástusögur

Ásta SIgurðardóttir var ein af fyrstu módernísku höfundunum hér á landi og hafði áhrif á bókmenntir, menningu og samfélag svo eftir var tekið. Hún skrifaði um málefni sem tengjast reynsluheimi konu; nauðgun, misrétti, fordóma, valdaleysi og drykkju kvenna.

Út er komin bókin Ástusögur, líf og list Ástu Sigurðardóttur, skrifuð til heiðurs skáldkonunni því liðin eru 90 ár frá því hún fæddist. Ritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir sá um hönnun og umbrot. Í bókinni er stefnt saman fræðikonum og skáldkonum auk þess em  fjölskyldumeðlimir skrifa í bókina og varpa á Ástu margvíslegu ljósi –  og skuggum.

Margt er merkilegt í  bókinni, bæði er þar vönduð fræðimennska og fallegur skáldskapur. Þar er að finna áður óbirt uppkast að smásögunni Frostrigningu sem einhver hefur ritskoðað af nokkru offorsi og einlæg bréf sem Ásta skrifaði systur sinni. Þá fjallar  Bergljót Soffía Kristjánsdóttir um kveðskap Ástu sem sýnir skýrt að skynjun hennar var óvenjuleg og Soffía Auður Birgisdóttir túlkar smásöguna Súpermann á nýstárlegan hátt. Í grein eftir Kolbein Þorsteinsson og Silju Aðalsteinsdóttur er m.a. rætt um þær miklu væntingar sem til Ástu voru gerðar sem skáldkonu og áttu etv þátt í hnignun hennar og falli. Dagný Þorsteinsdóttir ritar minningar um móður sína sem láta engan ósnortinn. Sigrún Margrét, annar ritstjóranna, skrifar ritrýnda grein um kvengotnesk viðfangsefni hjá Ástu. Og loks má nefna grein Dagnýjar Kristjánsdóttur þar sem m.a. er fjallað um þá drusluskömmun sem Ásta varð fyrir, svo dæmi séu tekin um áhugavert efni í bókinni.

Sjö skáldkonur heiðra Ástu í bókinni. Guðrún Hannesdóttir tekur upp þráð frá Ástu, þar sem hún skrifaði um heimahaga sína:  „…má allt eins kalla ljóð eins og svo margt óbundið mál hennar“:

Ég vildi láta grafa mig í flæðarmáli að loknum ævidögum eins og sumir landnámsmenn. Ekki þó af sömu ástæðim og þeir, enda byggðust þær á misskilningi eins og öll trú. Ef sjórinn „vígir“ sér það svæði sem hann ríkir yfir, er sú vígsla heiðin. Heiðni er eðli lands og hafs, lofts og elds, þetta heiða, kreddulausa lífsviðhorf sem er ekki skoðun og ekki trú, heldur eðli og lögmál, eilíft eins og náttúran. Í svölum hreinum ægissandi vil ég verða að engu, láta brimgnýinn kveða mig inn í þessa eilífu hringrás, meðan tær sjórinn þvær bein mín og tandurhreinn skeljasandur fágar þau hvít og breytir þeim í sína mynd (174).

Síðan ævisaga Ástu Minn hlátur er sorg kom út 1992, hefur vantað heildstætt rit með pælingum um höfundarverk þessarar merku skáldkonu. Lífi hennar og list eru gerð fagmannleg (tvær greinar eru ritrýndar) og fagurfræðileg skil, af virðingu og skilningi sem hún ekki naut í lifanda lífi. Ásta var fjölhæf og listræn, lifði hratt og dó ung, líf hennar var blússandi skáldskapur, basl og víma. Sögupersónur hennar eru utangarðs og áttavilltar í ríkjandi smáborgarahætti, „og eina leiðarljósið er oft og tíðum sígarettan“ eins og fram kemur í grein Ástu Kristínar Benediktsdóttur en þar segir að ljóst sé að frægar ljósmyndir Kaldals af skáldkonunni með sígarettuna hafi átt stóran þátt í að efla og varðveita ímynd Ástu sem uppreisnarkonu, bóhems og róttæklings – sem reyndist svo hvorki sanngjarnt né heilladrjúgt.

Birt á skáld.is 20. nóvember 2022

SKÁLDSKAPUR EÐA MINNINGABROT? Um Arfleifð óttans

Arfleifð óttans sem út kom á dögunum er fyrsta skáldsaga Unnar Sólrúnar Bragadóttur (f. 1951) en hún hefur sent frá sér á annan tug skáldverka á íslensku og sænsku frá 1971.

Sagan gerist á síðustu öld, líklega í kringum 1960 eða þar um bil. Í upphafi hvers kafla eru margvíslegar tilvitnanir sem endurspegla tíðarandann. 

Aðalsöguhetjan er Hanna, sem er utangarðs að mörgu leyti í fjölskyldunni, mögulega er hún ekki dóttir föður síns, hún stelur og lýgur, er í einhvers konar ómarkvissri uppreisn gegn ríkjandi gildum og stéttaskiptingu, hún vill ekki falla inn í hefðbundið kynhlutverk og hefur orðið fyrir alvarlegu áfalli í bernsku sem rænir hana ró og svefni alla ævi. Á einu tímaplani sögunnar er Hanna komin á æskuslóðir og upplifir bernskutrámað aftur sem vonandi frelsar hana.

Saga (nafnlausrar) móður hennar er áhugaverð; saga margra kvenna áður en kvenfrelsi kom til sögunnar. Hún ólst upp hjá föðurbróður sínum og sá um öll heimilisstörf frá níu ára aldri. Giftist ung, er í ástlausu hjónabandi og þrælar alla daga, bæði heima og í frystihúsinu og hefur lagt alla sína drauma á hilluna. Húsbóndinn er á sjó, í húsinu er kalt, erfitt að þurrka föt og stígvél barnanna, vatn þarf að sækja í brunn og mataræðið er einhæft. Sorg og vanmáttur er daglegt brauð, þreyta og vonleysi hellast yfir hana en ekki dettur þeim karli hennar eða syni í hug að létta undir með henni á nokkurn hátt þar sem kynhlutverkin eru fastskorðuð á þessum tíma. Karlar eru á vertíð og lesa bók í frístundum, eru í lúðrasveit eða verkalýðsfélagi og því fær ekkert breytt. Sjálfur ólst pabbinn upp við mikla fátækt og erfiðisvinnu. Fjölskyldan flytur síðan í þéttbýlið í leit að betra lífi en þar reynist svo vera sama harkið og þrældómurinn. 

Hanna hafði fengið munnhörpu og vildi gjarnan vera með í lúðrasveitinni.

„Þar eru engar stelpur“, sagði Gunni með fyrirlitningarrómi, „og ekki heldur munnhörpur. Stelpur eiga bara að hjálpa til heima.“

Hanna varð bæði sár og reið. „Hjálpaðu til sjálfur.“

Hún var dugleg á munnhörpuna og afhverju fékk hún ekki líka að spila í lúðrasveitinni. Það var óréttlátt. Þóra huggaði hana og sagði henni að hætta þess væli. 

„Lærðu bara að elda mat í staðinn,“ sagði hún, „það fær Gunni ekki.“

Stuttu seinna þegar Gunni ætlaði að æfa sig á trompetið fann hann ekki munnstykkið. Hann leitaði alls staðar og Þóra hjálpaði honum. Hanna fylgdist þögul með leitinni og Þóra spurði hana hvort hún hafði séð munnstykkið. Hanna leit frökk á Þóru og sagði svo eftir augnablik. „Ég er stelpa og veit ekkert um munnstykki. Er það kannski grautarsleif?“

Munnstykkið fannst stuttu seinna í grautarpotti í eldhúsinu. (72-3)

Í upphafi bókar er tekið fram að sagan sé skáldskapur í bland við minningabrot um atburði og persónur „úr eigin lífi“ en hugmyndaflugið ráði.

En það er ekki laust við að hvarfli að lesanda að sagan standi sögumanni mun nær en látið er í veðri vaka.

Birt á skáld.is 26. nóvember 2022

VERST AÐ VERA HEIGULL. Læknirinn í Englaverksmiðjunni

Í bókinni Læknirinn í Englaverksmiðjunni segir Ásdís Halla Bragadóttir sanna sögu í skáldlegum búningi af bróður langalangafa síns. Moritz Halldórsson var læknir menntaður í Kaupmannahöfn og við hann voru bundnar miklar vonir. Hann hugðist líka ná langt í lífinu en snemma kemur fram að ekki hugnaðist honum að fara að þeim lögum og reglum sem honum þóttu sjálfum ranglát.

Hans Moritz Edvard fæddist í Reykjavík 19. apríl 1854  inn í fína fjölskyldu, móðir hans hét Leópoldína og var af dönskum ættum en faðir hans var Halldór Friðriksson, yfirkennari í Lærða skólanum. Nafn og fortíð þessa ættingja Ásdísar Höllu var sveipað þögn sem vakti forvitni hennar. Þegar hún fór að grafast fyrir hvernig á því stóð kom dramatísk saga í ljós.

Breyskur læknir

Í ítarlegum eftirmála gerir Ásdís Halla grein fyrir því hvernig hún viðaði að sér og fékk innblástur af umfangsmiklum heimildum um Moritz og samtíma hans og hvernig hún breytir þeim í skáldskap. Hún segir söguna í fyrstu persónu og tekst mjög vel að setja sig í spor og lýsa um leið hinum breyska lækni, sem var sannarlega eldhugi sem vildi vel. Hann vildi lækna og þjóna föðurlandinu og leit á sig sem frjálslyndan og framfarasinnaðan mann.

Sagan hefst þegar Moritz er kominn á efri ár, fremur bugaður og sinnir læknisstörfum þreytulega og ung íslensk stúlka leitar á náðir hans. Þá rifjast upp fyrir honum fortíð sem hann hefur flúið undan, m.a. námsár hans í Kaupmannahöfn, heitar stjórnmálaskoðanir og brottför til Ameríku. Lesendur fá líka smátt og smátt innsýn í þær þrengingar sem kona hans og börn hafa gengið í gegnum hans vegna en hann tók of mikla áhættu í læknisverkum sínum sem hafði afleiðingar fyrir þau öll. 

Verst að vera heigull

Allir vissu að konur hafa reynt frá örófi alda að losa sig við óvelkomna þungun með ýmsum ráðum en við því voru hörð viðurlög. Það var samt regla hjá ýmsum læknum í Danmörku að ef ekki væri hægt að finna spark væri „réttlætanlegt að losa móðurina við burðinn, sérstaklega ef hún væri ung og ógift“ (113). Moritz lét freistast, bæði vildi hann hjálpa og greiðslan kom að góðum notum. Mörgum árum síðar áttar hann sig á því að „Það er engin skömm að vera fátækur maður en það er ófyrirgefanlegt að vera fátæk sál. Verst af öllu er að vera heigull“ (274). Skuldum vafinn læknirinn var e.t.v. ekki nógu sterkur á siðferðissvellinu en neyð kvenna skildi hann. 

Moritz var algjörlega á þeirri skoðun að það væri ekki sanngjarnt að konan ein bæri ábyrgð því að verða barnshafandi utan hjónabands og sæti uppi með skömmina. Það þarf tvo til: Var það svikull vonbiðill eða vegfarandi með klóróform í vasaklút? Eða virðulegur frændi sem smeygði sér inn um miðja nótt og hélt fyrir munn hennar? Garðyrkjumaðurinn girnilegi? (sbr. 86). Og Moritz hefur séð margt í aðbúnaði barna í sínum læknisheimsóknum í gegnum árin, s.s. ofbeldi og vanrækslu, og þess vegna glímir hann við erfiða þversögn: „Lífið varð að vernda. Alveg þar til það leit dagsins ljós“ (89).

Dramatískt mál

Moritz tengdist dramatísku barnamorðmáli sem mikið var gert úr í blöðunum í Kaupmannahöfn og galt þess að það þurfti að finna blóraböggul. Ljósi er varpað á tvískinnunginn í því að daglega var fóstrum eytt, börn dóu úr hungri og fátæklingar myrtir í stórborginni en alla jafna skipti sér enginn af því. En þegar það varð að blaðamáli þurfti að bregðast við til að láta stjórnvöld líta betur út.

Ásdís Halla fer einkar vel með efnið, fangar tíðarandann og vinnur úr margvíslegum heimildum á sannfærandi og skapandi hátt. Moritz var hvorki fullkominn engill né forhert fúlmenni og nú liggur saga hans og saga fjölda kvenna í erfiðum aðstæðum ekki lengur í þagnargildi. 

Birt á skáld.is 20 mars 2022

DEUS, DUFT og HÖGNI – UPPGJÖR VIÐ OFBELDI OG VANRÆKSLU

Ef marka má bókmenntirnar um þessar mundir eru tímabært að vinna með og gera upp vanrækslu, geðveiki og ofbeldi í æsku og reyna að koma auga á einhverja von í þessum hrjáða heimi. A.m.k. þrjár nýjar íslenskar skáldsögur eftir frábærar skáldkonur fjalla um slíkt uppgjör hver með sínum hætti.

Heimsendir í nánd

Í DEUS eftir Sigríði Hagalín sætir Ísabella Ósk gegndarlausu einelti og ofbeldi af hendi skólasystkina. Móðir hennar er í neyslu og hún verður að hírast hjá hörkutólinu ömmu sinni.  Strætóbílstjórinn Sigfús, hirðskáldið trygga, verður fyrir vitrun en missir vitið og leitar að guði. Hann hefur brugðist Helga  syni sínum svo oft að feðgarnir hafa ekkert samband lengur og það nístir þá báða.

Skáldið missir tökin, leggst út og leitar að ljósinu, m.a. í samræðum við spjallmennið Pastor sem er gervigreindarlíkan sem býður upp á sálusorgun og trúarlega leiðsögn beint í símann. Leiðsögnin beinist að þeim vandamálum sem hrjá mannkynið, er eins konar heilaþvottur: „samtalsviðmót með bæði ritstýrðri og sjálfvirkri námstækni til að veita andlega handleiðslu (42)“ . Þarna er risamarkaður fyrir útsmogið þekkingarfyrirtæki til að græða á fólki sem leitar að huggun.

Þegar Sigfús hverfur eftir að hafa rústað gervigreindinni þarf sonurinn að leita hans, læra að fyrirgefa honum veikleika og bresti og Ísabella þarf að læra að svara fyrir sig. Sjónarhornið er til skiptis hjá persónunum og þær hafa allar hver sitt málsnið; skáldamál, unglingamál og stofnanamál, bæði úr kirkjunni og tölvubransanum. Inn á milli eru frábær ljóð sem ljóma og skína enda kærleikur og skáldskapur það eina sem getur bjargað heiminum. Þessi bók boðar bráðan heimsendi, hún er troðfull af snjöllum hugmyndum og hefði mátt vera lengri. 

Tíðarandi og gróðabrall

Í DUFTI eftir Berþóru Snæbjörnsdóttur segir frá Veróniku sem elst upp í markaleysi hálfklikkaðrar móður og meðvirkt eftirlæti föðurins, bullandi ríkidæmi og alls konar óreiðu. Hún beitir síðan annað fólk einelti og yfirgangi, þjökuð af minnimáttarkennd, útlitsfordómum og sjálfshatri. Sá hluti bókarinnar sem gerist í Reykjavík í kringum 1980/90  þegar líkamsræktarstöðvar eru að komast á legg er algerleg frábær og fangar tíðarandann fullkomlega.

Skipt er um gír þegar Verónika er orðin fullorðin kona, vellríkur töffari með lotugræðgi. Hún telur sig bera ábyrgð á mannsláti og sér til yfirbótar gefur hún sig á vald Prins sem er forstjóri nýaldarfyrirtækis á Tenerife sem vill gera heiminn betri með því að framleiða bætiefnaduft fyrir þurfandi allsnægtafólk – áþekk pæling og í Deus um að græða á sársauka og ótta mannkyns. Þar beitir hún sjálfa sig því harðræði sem tíðkast í vinnubúðunum, fer í gegnum kryfjandi viðtöl og situr undir fyrirlestrum Prins um að mannkynið sé að drepast úr þægindum og þurfi róttæka hugarfarsbreytingu. En Verónika kemst að því að hjálpsemin er yfirskyn, undir yfirborðinu er þrælahald og ofbeldi og Prins mokgræðir auðvitað á trúgirni fólks. Duft er mössuð saga, sterk og áleitin. Og svo margt fallegt innan um grimmdina og ljótleikann:

„Þegar ég fæddist var ég enn rótarlaus á yfirborði heimsins, jafn varnarlaus og sandkorn sem ræður engu um hvert það fýkur. Lungu mín fylltust í fyrsta sinn af súrefni, nítrógeni og koldíoxíð. Plöntur og manneskjur deyja og molna án nítrógens. Sé of mikið af því geta þær ekki skotið rótum (345)“. 

Neggað og gaslýst

Hinn veimiltítulegi HÖGNI hrokagikkur eftir Auði Jónsdóttur tiplar í kringum drykkfellda móður og föður sem kemur út úr skápnum. Hann er einmana og vanrækt barn eftir skilnað foreldranna, rembist við að vera ekki fyrir neinum, reynir að vera fyndinn til að öðlast viðurkenningu en nær engu máli , beittur ofbeldi af skólasystkinunum.

Sambönd Högna við annað fólk á fullorðinsárum, einkum konur, eru brengluð og hægt að saka hann um að steinveggja, gósta, smætta, negga og gaslýsa (198) eiginlega án þess að hann átti sig á því, hann er svo firrtur og skemmdur karl. Óþolandi besserwisser sem óttast nánd og „kvennarök“ en þó svo vel smíðaður að eiginlega er ekki annað hægt en finna til með honum. Hann missir stjórn á sér í strætó sem auðvitað er tekið upp á síma og dreift um allt. Áður en hann veit af er hann úthrópaður í samfélaginu og á sér varla viðreisnar von. 

En kettir koma alltaf niður á lappirnar. Vinkonan Bergrós reynist betri en engin hvort sem það er nú  gerendameðvirkni eður ei, hún virðist ekki ætla að gefast alveg upp á honum og reynir að leggja honum einföldu lífsregluna sem við ættum öll að tileinka okkur: „Reyndu bara að meiða ekki aðra, manstu, aðgát skal höfð í nærveru sálar“ (198). Átakanleg saga af falli og niðurlægingu en líka um upprisu, mörk og mátt fyrirgefningarinnar – kannski er vonarglæta eftir allt saman. 

AÐ UPPSKERA FALLEGT OG GOTT LÍF. Um Þræði sem fléttast

Elínborg Angantýsdóttir, Ella, gaf út bók á eigin kostnað árið 2022, sem hún nefndi Þræðir í lífi Bertu. Sagan hefst um 1960 þegar Berta er lítil stelpa í sveitinni. Margar persónur koma við sögu og fylgst er með þeim og fjölskyldum þeirra í gleði og sorg, sigrum og vonbrigðum.

Nú er komið sjálfstætt framhald fyrri bókar og heitir Þræðir sem fléttast. Sagan hefst árið 1988. Berta og co halda áfram með lífið, hún elur upp syni sína og finnur ástina sem var nær en hún hélt, sama hendir Karólínu vinkonu hennar og Hall frænda.

Halla Sól tekur upp á að rekja þráð sem liggur til afans sem enginn þekkti, vanrækt barn fær skjól hjá fjölskyldunni og amman deyr södd lífdaga. Þettta og margt fleira drífur á dagana og öllu er lýst af einlægni, væntumþykju og virðingu fyrir persónunum og aðstæðum þeirra á ylhýru máli. 

Í upphafi bókarinnar ávarpar sögumaður lesendur og ekki er annað að sjá en sagan sé byggð á sönnum atburðum með skáletruðum innskotum höfundar við frásögnina. Þetta er ljúf lesning þótt fjallað sé um sorgir og áföll, sveitalíf og samfélag á 9. áratug síðustu aldar þegar enn voru skrifuð bréf og farið á æfingar í Þjóðdansafélaginu; allt er þetta ljóslifandi.

„Hér hef ég skrifað af einlægni um líf mitt og fólksins sem mér þykir vænt um. Um þræðina sem við búum til með því að vera þau sem við erum og gera það sem við gerum. Stundum flétta örlögin lífsþræðina okkar saman, eins og af hreinni tilviljun, en stundum tökum við líka stjórnina í eigin hendur og oftar en ekki uppskerum við fallegt og gott líf. Líf sem er þess virði að því sé lifað og er gaman að segja frá“ segir Ella í bókarlok.  

EN HVERNIG GENGUR AÐ VERA RITHÖFUNDUR OG HÚSMÓÐIR?

Árið 1989 kom út ástar- og spennusagan Sekur flýr þó enginn elti eftir Birgittu Halldórsdóttur. Sjöunda bók höfundar en bækur hennar seldust eins og heitar lummur og slógu Snjólaugu Bragadóttur út af vinsældalista á bókasöfnum landsins. Út kom ein bók á ári eftir Birgittu frá 1983-2002 og sex bækur komu út frá 2004 til 2025 en fyrir stuttu small nýjasta bók hennar, Undir óskasólu,  inn á storytel. 

Persónusköpun og frásagnarháttur í Sekur flýr… eru einföld og sagnaformúlan oftast svipuð í bókunum öllum.

Aðalpersónan Stella er fögur og óreynd stúlka,  gæðablóð og dyggðum prýdd. Hún hittir lífsreyndan mann sem heillar hana en hún reynir að verjast af öllum mætti með skynsemina að vopni en ástríðurnar sigra.

Á sveitabænum Sjávarbakka þar sem sagan gerist er líka gamall vinur sem nýlega var látinn laus úr fangelsi; stjúpsonur sem er nýkominn frá útlöndum, feitur, frekur og dökkleitur; áhrifagjörn systir hans sem hefur tapað áttum í lífinu og vinkona hennar gellulega Dísa Dögg sem kemur úr sollinum í Reykjavík. Á bænum er auðvitað amman sem veit sínu viti. Að ógleymdum Viðari hinum harðgifta og lífsreynda sem bankar uppá um miðja nótt, hann er 15 árum eldri en Stella og með ómótstæðileg augu. Auðvelt er að sjá strax af lýsingunum hvern mann persónurnar hafa að geyma og nokkuð fyrirsjáanlegt hver morðinginn er. En sagan er góð fyrir því. 

Grípum niður í blaðið Einherja, blað Framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra, í nóvember 1989. Þar er skáldkonan, sem er starfandi bóndi í Húnaþingi, í viðtali og er spurð tveggja spurninga:

En hvenær skyldi áhugi höfundar fyrir að semja sögur hafa byrjað?

„Eg byrjaði strax sem barn” sagði Birgitta þegar þessi spurning var lögð fyrir hana á dögunum. Þegar ég var að alast hér upp bjó hérna hjá okkur amma mín Pálína Jónsdóttir. Hún sagði mér ákaflega mikið af sögum og ég held að sögurnar hennar hafi í rauninni vakið áhuga minn fyrir að semja sjálf. Eg var t.d. búin að semja heilmikið áður en fyrsta bókin mín kom út. Það er meðal annars til handrit að heilli bók frá þessum árum, en það er ólíklegt að það komi nokkurn tímann út.”

En hvernig gengur að vera rithöfundur og húsmóðir á sveitaheimili?

,,Það gengur nokkuð vel. Eg hef nokkuð góðan tíma yfir veturinn að semja en legg síðan pennann að mestu á hilluna yfir sumarið. Eg skilaði t.d. handritinu af bókinni Sekur flýr þó enginn elti frá mér í mars s.I. og fór þá fljótlega að undirbúa handrit af þeirri næstu og er núna þessa dagana að vinna í því á fullu. Svo gríp ég í að semja ljóð og smásögur annars slagið. Því er ekkert að leyna að ég hef ákaflega gaman af að semja og hef yfirleitt fengið heldur jákvæða dóma fyrir það sem ég hef sent frá mér t.d. hefur fólkið hér heima í Húnaþingi hvatt mig til að halda áfram að skrifa og meðan bækurnar seljast betur ár frá ári hlýt ég að geta verið ánægð ”sagði Birgitta Halldórsdóttir að lokum.

Hér er safaríkur kafli úr Sekur flýr þó enginn elti (1989):

 

Þau drukku koníakið þegjandi og Stella fann yndislega værð koma yfir sig. Hún fann vel fyrir heitum líkama Viðars við sinn. Slopparnir höfðu runnið til og fætur þeirra lágu nú saman, naktir.
 – Ég verð að fara inn í rúm. Við verðum að hvílast.
 – Við erum að hvílast.
 – Fóturinn á þér. Við verðum að gera eitthvað fyrir hann.
 – Mér líður vel núna. Hafðu engar áhyggjur. Þú ert alltof góð stúlka. Þú hugsar um annað fólk fyrst, þó þér sjálfri líði ekki vel. Meira að segja mig sem þú þekkir lítið. Hann fór að strjúka henni létt um öxlina sem hann hélt um og Stella fann fyrir einhverjum óviðráðanlegum fiðringi sem fór um hana alla. Þetta var samt gott og hana langaði til að hann héldi áfram. En þetta var bilun. Hún reyndi að líta hlutlausum augum á þetta. Þetta gat ekki gengið lengur. Hún, ung og þekkt fyrir allt annað en daður eða ólifnað og hann, mikið eldri, harðgiftur, ókunnur maður. Nei, svona lagað var ekki hægt. Hann kyssti hana á hálsinn og henni fannst hún svífa. Ósjálfrátt hreyfði hún sig og stundi værðarlega.
 – Þetta er ekki hægt.
 Hún ýtti honum blíðlega frá sér og horfði þá í þessi djúpu augu sem gerðu hana að gjalti.
 – Það er allt hægt.
 Hann hélt áfram að kyssa hana. Heimurinn stóð kyrr. Hún vildi síst af öllu að þessu lyki og áður en hún vissi af var hún farin að endurgjalda atlot hans af ekki minni ákafa en hann. Hún fann að hana hungraði í þennan mann. Hver sem hann var og hversu rangt sem þetta var. Öll heilbrigð skynsemi hvarf á braut. Engar hömlur voru lengur til. Ástríður sem hún hafði ekki vitað að hún ætti til brutust fram og blinduðu hana. Gerðu hana stjórnlausa. Atlot hans gerðu hana að einhverju frumstæðu villidýri sem hún vissi ekki að væri til í henni. Engin heilbrigð hugsun, aðeins nautnin. Stormurinn æddi fyrir utan, regnið lamdi litla kofann. En þau vissu ekki af því. Þetta var undarleg, viðburðarík nótt. Máninn braust fram úr skýjum og glotti er hann horfði innum gluggann á kofanum og sá þessar tvær ólíku manneskjur sameinast og verða að elskendum.
 Stella komst til sjálfrar sín. Það var eins og þetta ætlaði aldrei að taka enda. Hún sem aldrei hafði upplifað fullnægingu fyrr. Þvílík unun. Það var eins og eitthvað hefði brostið í líkama hennar. Eins og hann væri loks lifandi og tæki frá henni alla skynsamlega hugsun. Það eina sem komst að var maðurinn. Þessi ókunni maður sem á svo undursamlegan hátt hafði lyft henni til skýjanna. Þau lágu í faðmlögum. Samanfléttuð eins og þau væru hrædd um að einhver reyndi að slíta þau í sundur (bls. 59-60).

VEL ÞEKKT, MEINLAUS DÝRATEGUND

Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú, spyr Hildur Hákonardóttir í bók sinni frá 2019 um ævi níu kvenna sem allar voru biskupsfrúr í Skálholti. Hildur sem áður hefur skrifað fræðibækur sest nú á bak skáldafáki og nýtir sér samtalsform til að rekja sögu frúa og fyrirkvenna frá 1510-1623. Konur þessar hafa sótt að Hildi af miklum krafti, vöktu hana á morgnana, setjast í huga hennar og neita að láta hana í friði fyrr en hún hefur komið sögu þeirra á blað. Þungamiðja frásagnanna er afleiðingar siðaskiptanna og aftöku Jóns Arasonar og sona hans sem í þessari bók birtast sem ribbaldar og yfirgangsmenn.

Safaríkar sögupersónur

Meðal annars er rætt í bókinni við Guðrúnu dóttur Gottskálks biskups grimma, en fyrsta konan sem færði ævisögu í skáldlegan búning, Torfhildur Hólm, fjallaði einmitt um hana í bók sinni, Jón Arason (1950). Guðrún er safarík sögupersóna, hún varð ófrísk meðan hún beið trúlofuð eftir Gissuri Einarssyni tilvonandi biskupi sem var í erindagjörðum erlendis. Hún eignaðist þríbura sem dóu allir. Gissur vildi taka hana í sátt þrátt fyrir að hafa fallerast en því boði tók hún ekki, heldur bjó hjá Oddi bróður sínum til dauðadags. Fátt lætur Guðrún þó uppi um þessa atburði í samtalinu.

Önnur biskupsfrú, Katrín Eyjólfsdóttir (f. 1515) var komin af ríkum höfðingjum en hrökklaðist að heiman unglingur þegar upp komst að hún og systir hennar urðu báðar ófrískar eftir bróður þeirra. Það hefur gengið á ýmsu í vestfirska húminu.

Úr myrkviði horfinna alda

Frásagnir af konunum níu er fróðlegar og settar fram frjálslega, eins og setið sé á notalegu spjalli. Mismikið efni er til um frúrnar og þá fer frásögnin stundum út í aðra sálma, eins og um fatatísku, húsaskipan, matargerð o.fl. Auðvelt er að finna til samkenndar með konum þessum sem lifðu umbrotatíma í trúarlífi þjóðarinnar. Saga þeirra er dregin fram „úr myrkviði horfinna alda enda er oftlega fjallað um konur fortíðar nánast eins og um væri að ræða vel þekkta, meinlausa dýrategund sem deilir landinu með körlum.“

Annað bindi væntanlegt

Hildur Hákonardóttir er fædd 1938 og er myndlistarkona. Hún er höfundur Ætigarðsins – handbók grasnytjungsins, sögu um kvennadaginn, Já, ég þori, get og vil, og Blálandsdrottningarinnar sem fjallar um ræktunarsögu kartaflna á Íslandi. Biskupsfrúabók Hildar má skilgreina sem skáldverk og fram kemur á bókarkápu að von er á framhaldi.

Birt á skáld.is 13.7.2020

Sjá viðtal við Hildi: Eins og huldukonur í sögu þjóðarinnar.

Fulldempað rafmagnshjól, endalausir möguleikar

Frá því ég byrjaði að hjóla af einhverju viti árið 2016 hefur margt breyst, bæði í bransanum og hjá mér sem hjólreiðakonu. Ég fór frá því að nota hjólið sem fararskjóta til og frá vinnu yfir í að brúka það mér til skemmtunar, sem heilsubót, áskorun um að fara út fyrir þægindaramma, og til samveru með karli mínum. Nú er staðan aftur þannig að ég á tvö hjól, racerinn minn rauða og svo rafmagnshjól en gamla Wheelerinn gaf ég frá mér fyrir löngu.

Fulldempað rafmagnshjól gaf Brynjar mér í haustið 2021 en hann tosar mig alltaf lengra en ég held ég geti, þori og vilji sjálf. Hann fékk sér slíkt sjálfur sumarið áður og það breytti alveg gangi leiksins. Algjör bylting enda hafði þessi tegund hjólreiða slegið í gegn um þessar mundir, ekki síst meðal miðaldra fólks. En vel að merkja; ekki falla í þá gryfju að kaupa ódýrt hjól sem ekki er fulldempað. Það verður fljótt stirt og leiðigjarnt að hjóla á því.

Hjólið mitt er risastórt og í rauninni alltof stórt fyrir píslina mig – 16″ og 25 kg sanseraður fjólublár hlunkur með þremur hraðastillingum og fullt af gírum. Allt rafmagnsknúið, svo einfalt og þægilegt að skipta um gír. Batteríið er líka stórt, ég kemst 80 km á því fullhlöðnu. Fyrst var ég afar klaufsk á þessu flykki en B datt í hug að það væri sniðugt fyrir mig að byrja ferilinn á því að hjóla gamla veginn upp Kambana! Ekki alveg byrjendaverkefni. Ég steyptist síðan á hausinn á því hér á jafnsléttu á Hlíðarveginum rétt fyrir jól fyrir einberan klaufaskap og braut á mér öxlina. En eftir því sem ég æfði mig meira gekk allt betur og ég varð öruggari og sífellt djarfari.

Ég kemst allt á þessu hjóli og það er svo frábært! Allt öðru vísi hjólreiðar en á racernum en hvort tveggja er gaman. Það er snilld að geta gripið í Boozt-stillinguna til að ýta sér upp erfiðar og torfærar brekkur, fara á Eco niður brekkur til að spara rafmagn og Trail til að príla fjallastíga! Hjólið fékk ég auðvitað í Everest, það er sama merki og racerinn minn, og heitir Stevens E-Inception ED 7.6.1 GTF. Það gefur mér færi á að hjóla á allskonar undirlagi, á krókóttum stígum eins td í Heiðmörk, í drullu og vatni, fjörusandi, grýttri götu og snjó og ís á nöglum.

Það er hrikalega gaman að hjóla um malar- og skógarstíga, moldartroðninga og upp torfærar brekkur eins og ekkert sé. Dekkin eru mjúk og breið og gleypa allar misfellur svo það er hreinlega eins og að svífa á hjólinu. Margar góðar stundir hef ég átt á þessu dásamlega hjóli en hátindurinn var líklega þegar við B hjóluðum upp á Úlfarsfell og niður aftur!

Um Hvíldardaga eftir Braga Ólafsson

Yfir Hvíldardögum, fyrstu skáldsögu Braga Ólafssonar, hvílir einstök yfirvegun og undraverð rósemi. Á tæpum tvö hundruð blaðsíðum er lýst rúmri viku í lífi þrjátíu og fimm ára gamals manns sem býr einn í Reykjavík og hefur verið skikkaður í sumarfrí í þrjá mánuði. Sögumanni, sem allan tímann er nafnlaus, gefst nú nægur tími til að gera nákvæmlega það sem honum sýnist. Framundan eru tímamót, endurfundir gagnfræðaskólaárgangsins, og drjúgur tími fer í að undirbúa sig fyrir það. Hann íhugar að nota frídagana m.a. til að skreppa upp í Heiðmörk með nesti og njóta náttúrufegurðarinnar þar. Bíllinn bilar, síminn hringir og allt í einu hefur hann svo mikið að gera að hann veit ekkert hvernig hann á að haga sér.


Líf þessa manns hefur hingað til einkennst af vana, einveru og sjúklegri öryggisþörf. Strax í byrjun bókar er gefið í skyn að líf hans muni taka breytingum. Honum finnst sjálfum eins og margt sé að losna eða liðast í sundur í kringum hann, eitthvað sem ekki sé hægt að tjasla saman aftur (bls. 93). Sögumaðurinn er einfari og nörd. Honum gengur frekar illa að eiga samskipti við aðra, orð og tillit trufla hann. Líf hans er eins og kvikmynd sem er sýnd hægt, smávægilegustu ákvarðanir vefjast fyrir honum eða þeim er skotið endalaust á frest. Í huga hans kvikna allskonar myndir af minnsta tilefni, ímyndunaraflið leikur lausum hala og gamlar minningar streyma fram. Hann veltir fyrir sér undarlegustu hlutum, s.s. merkingu tímans, að fólk sé aldrei óhult, hvernig komið verði að manni dauðum o. s. frv. Honum finnst hann vera einn í heiminum og að hann sé stundum ekki raunverulegur, einkum ef hann er innan um annað fólk (58). Ósköp er hann vinafár, á sunnudögum klukkan tvö heimsækir hann alltaf kunningja sinn Hall en samband þeirra er ekki náið og samræðurnar ganga stirðlega. Stundum heimsækir hann Dóru frænku sína og les blöðin hjá henni. Móður sína og systur kærir hann sig ekki um að heimsækja og vill heldur ekki að þær heimsæki hann. Hann er nægjusamur í einsemd sinni en þegar hann lítur yfir farinn veg rennur upp fyrir honum að hann hefur ekki afrekað neitt, ekki skilið neitt eftir sig, ekki skapað sér nafn og aldrei sigrast á neinu. Til að finna hvort hann  sé yfrleitt til hugleiðir hann að láta sig hverfa.


Yrkisefni Hvíldardaga eru einsemd og öryggisleysi vorra tíma. Sögumaðurinn nær undarlegum tökum á manni, hann er vinalegur og brjóstumkennanlegur, einangraður í þröngum heimi sem er að hruni kominn. Hvíldardagar er ótrúlega mögnuð og seiðandi bók. Bygging sögunnar er þaulhugsuð, kyrrð og fegurð ríkja yfir stíl, orðavali og efnistökum í þessari frábæru skáldsögu.


„Ég hef aldrei þekkt manneskju sem ég veit að er einmana“ segir sögumaður (57)með ísmeygilegri íroníu. Allar persónurnar eru einmana, búa einar og umgangast fáa. Erindi höfundar við lesendur er tímabært, á dögum sífellt meiri hraða og tækni eykst fjarlægð milli fólks og viðkvæmir hugsuðir, nördar og furðufuglar eins og sögumaður Hvíldardaga verða utanveltu. Lík þeirra finnst kannski seint og síðar meir í Heiðmörk.