Auður Jónsdóttir

Að burðast með sögu sína

Titill skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Stóri skjálfti, frá árinu 2015, gefur til kynna eitthvað afdrifaríkt. Hann er lokahrinan, þegar uppsafnaðir kraftar brjótast út, eftir hann er allt breytt, kannski horfið eða hrunið. Eins og í tilfelli Sögu en hún rankar við sér eftir heiftarlegt flogakast og man sáralítið út lífi sínu. Hún fetar sig hikandi í gegnum óminnið og kemst brátt að því að hún er nýskilin við rithöfundinn Berg og þau eiga einn son, Ívar. Hún hefur alist upp við drykkju og ofbeldi föður síns sem steyptu fjölskyldunni í ógæfu. Síðan þá grúfir sorgin yfir og aldrei grær um heilt; ótti, meðvirkni og bæling hvíla á öllum eins og mara. Kvikmynd eftir bókinni er komin í bíó.

Sjúk sambönd

Í slíkum fjölskyldum verða til sjúk sambönd milli fólks.  Duldar reglur verða til um hlutverk hvers og eins, hvað má segja og hvað ekki í brengluðu samskiptamynstri sem allir mótast af. Auður hefur áður fjallað um þetta efni af raunsæi, innsæi og list, s.s. í Fólkinu í kjallaranum (2004) og Ósjálfrátt (2012).

Þegar Saga kemur til baka úr floginu og hefur glutrað niður reglunum og mynstrinu sem hafa stjórnað samskiptum í fjölskyldunni fer allt á hvolf. Viðbrögð hennar t.d. við  hvarfi móðu sinnar sem Saga upplifði sem barn eru önnur en hinir eiga að venjast sem veldur tortryggni en skapar um leið mögulegt svigrúm fyrir lausnir og uppgjör.

Saga hefur alltaf upplifað sjálfa sig sem fyndna og klára konu sem hristir af sér vandamálin (110) og krækir framhjá öllu því óþægilega en eftir skjálftann er hún vanmáttug og ráðalaus og líður eins og líf hennar hafi verið fáránlegt. Hún hefur algjörlega misst fótanna og finnst hún vera að sligast undan þunga eigin tilveru (226). Sjálf vill hún ekki brjótast úr hlutverki sínu og raska venjum fjölskyldunnar, hún reynir að leyna minnisleysinu fyrir sínum nánustu og breiða yfir misfellurnar af gömlum vana, sem skapar skrautlega atburðarás.

Syndir feðranna

Sagt er að syndir feðranna komi niður á börnunum og það gera þær svo sannarlega hér. Pabbi Sögu var yfirgefinn, ástlaus og vanræktur í æsku og bar þess aldrei bætur. Mamma hennar átti þunglyndan og fálátan föður og móður sem drekkti sér í vinnu og stjórnaði með augnaráðinu einu saman. Marvaðinn er troðinn endalaust í límkenndu minni aldanna og spurt er hvort nokkurrar undankomu sé auðið (177). Saga sjálf á í flóknu ástar-/haturssambandi við foreldra sína sem eru sligaðir af áralangri þöggun og bælingu og hvað bíður Ívars litla ef vítahringurinn er ekki rofinn? Hún þurfti svo sannaralega á því að halda að missa minnið til þess að muna (225).

Drekinn

Í verkinu eru margir þræðir spunnir. Einn þeirra er hlutverk mannsheilans við varðveislu minninga. Svokallaður dreki (hippocampus) er talinn sjá um að flokka minningar í eins konar gagnabanka en þegar Saga reynir að sækja upplýsingar þangað og púsla tilverunni saman á ný valda erfiðu minningarnar hræðilegum höfuðverk, fortíðin bankar upp á og sýnir enga miskunn enda löngu komið að skuldadögum.

Í skáldsögu Stine Pilgaard sem heitir Mamma segir (2012) er fengist við höfnun, uppeldi og ástarsorg og meginuppistaða hennar er langir og ljóðrænir kaflar um drekann (í líki sæhests) og hlutverk hans í minningasafninu. Skemmtileg tilviljun. Það verður sífellt áleitnara í samtímaskáldskap að fjalla um minni og minningar, grafast fyrir um fortíðina, uppeldið og áhrif þess á sjálfsmynd og tilvist manneskjunnar.

Gömul reiði

Annar þráður verksins er flogaveikin sem er lýst sem árásarmanni og nauðgara, sem liggur í leyni og getur ruðst fram hvenær sem er til að taka stjórn og koma fram vilja sínum. Og ástin er enn eitt umfjöllunarefnið, en gengur hún ekki út á að safna góðum minningum og skapa nýjar? Eða gengur hún út á erfiðar minningar sem fólk á sameiginlegar? Gömul reiði er versti óvinur ástarinnar og það sannast í samskiptum Sögu og Bergs , sjúklegur ótti hennar um soninn á rætur að rekja til fjölskylduhörmunganna sem hún upplifði sem barn og hafa aldrei verið gerðar upp. Saga er stjórnsöm og bitur og pirrast endalaust á manninum sínum sem á endanum gefst upp á henni.  Eftir stóra skjálftann man Saga aðeins góðu stundirnar með Bergi en það er sorglega augljóst að arfurinn úr uppeldinu hefur fylgt henni og eyðilagt sambandið.

Stóri skjálfti kraumar af sárum tilfinningum sem umlykja orð og athafnir persónanna sem eru vanar að dylja það sem þeim býr í brjósti. Við vinarþel gjósa þær og streyma fram, það lætur engan ósnortinn:

…Það skiptir ekki máli héðan í frá. Þú gerðir það sem þú gast.

Hún horfir vantrúuð á mig.

Ég er viss um það, segi ég.

Þú getur ekki verið viss, segir hún og kæfir grát í fæðingu.

Þú passaðir mig alltaf, bæti ég við, sjálfri mér að óvörum og finn þakklæti leysa upp kökkinn í hálsinum. Ekki gleyma því!

Hún brosir feimnislega meyr en það þyrmir jafnóðum yfir hana.

(203)

Gjöf og gjald

Minnisleysi getur verið bæði gjöf og gjald, í gleymskunni er maður alltaf nýr og ferskur og eins og laus undan oki en um leið einhvern veginn úr samhengi og týndur. Það er ögrandi viðfangsefni í skáldskap að koma hlutlaus að málum og hafa annað sjónarhorn og minningar en aðrir og ekki síður að velta upp spurningum um hvernig mörkum minninga og ímyndunar er háttað.

„Nú veit ég að allt sem ég hef gleymt hefur gert mig að mér, ég er summan af eigin gleymsku. Og ég held áfram að gleyma, það styttist í að ég gleymi sjálfri mér. En óminnið getur aldrei eytt því sem gerðist, atburður lifir í eftiröldum sínum og ást sem eitt sinn var, hún var, og það sem var, það verður. Söknuðurinn er sönnun þess. Þá hlýtur veröld mín að vera eitthvað meira en skáldskapur…? (230)

Sagan stefnir að óumflýjanlegu uppgjöri sem sviðsett er með áhrifamiklum réttarhöldum. Sögulokin eru opin til túlkunar, stefnir í Sögulok. Stóri skjálfti er vel skrifuð saga um áleitið efni, um raunverulegt vandamál, upplausn og lífsháska. Erum við ekki öll að burðast með okkar eigin sögu, áföll og fjölskyldudrama, í leit að merkingu og sátt í trylltum heimi?

(Á smekklegri bókarkápunni sem Lubbi hannar er heilalínurit höfundarins sem minnir helst á plötuumslag Joy Division, Unknown Pleasures, söngvari þeirrar hljómsveitar var flogaveikur…)

Birt fyrst í Kvennablaðinu.


Sögumaður sem þegir

„Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár, um bókina Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgård sem nýlega kom út í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

680

Stundum eru skáldsögur ágengar og djúpar í einfaldleika sínum, stórar í smæð sinni, fáorðar um svo margt. Líkt og þríleikur hins norska Jon Fosse (2016) sem lýsir sögu kynslóða í Noregi á fyrri öldum með svo knöppum stíl að það er undravert; svo sannarlega efniviður í óralanga sjónvarpsþáttaröð eða 3ja tíma dramatíska bíómynd. Sænski rithöfundurinn Linda Boström Knausgård (f. 1972) er einnig spör á stóru orðin þegar hún lýsir geðveiki og örvæntingu brotinnar fjölskyldu á 95 blaðsíðum í glænýrri bók sem ber þann vongóða titil, Velkomin til Ameríku.

Á bókarkápu er svarthvít sjálfsmynd af stúlku sem heldur á einhverju, kannski fornri selfie-stöng (því ljósmyndarinn dó 1981). Stúlkan horfir ekki í myndavélina, hún lítur undan og hárið hylur andlit hennar. Myndin er ekki í fókus og öll frekar óskýr og drungaleg sem slær svo sannarlega tóninn fyrir stemninguna sem koma skal.

Sögumaðurinn er ellefu ára stúlka en skynjun hennar á heiminum er fullorðinsleg og uggvekjandi, hún er einmana og öryggislaust barn sem  heldur fast í myrkrið (32), með eilífan kvíðahnút í maganum og óskar þess að deyja, hún sér enga aðra útleið. Hún hefur þolað margs konar ofbeldi og niðurlægingu á sinni stuttu ævi; orðið fyrir geðveiku stjórnleysi föður síns og beygt sig undir líkamlegt og andlegt ofbeldi bróður síns sem situr um að kvelja hana. Hún heitir Ellen og hún hugsar með sér – en segir það ekki upphátt: „Það er ekki auðvelt að alast upp“ (82).

Því segir hún það ekki upphátt? Tja, Ellen lumar nefnilega á aðferð til að lifa af í hörðum heimi. Það er þögnin, hún hefur ekki mælt orð frá vörum í langan tíma. „Ég hætti að tala þegar ég byrjaði af vaxa of hratt. Ég var viss um að ég gæti ekki bæði talað og vaxið“ (6). Hún hefur rekið sig á að tungumálið er lika hvort sem er fullt af lygum. Hún vill heldur ekki skemma þá glansmynd sem hampað er af fjölskyldulífinu né afhjúpa léttinn innra með sér; hún óskaði þess svo heitt að pabbi dæi og óskin rættist.

Á heimili Ellenar eru tæplega nokkur samskipti milli móður og barna, þar er eilíf valdabarátta: „Kannski fannst bróður mínum að ég réði, og mér fannst það vera hann og mamma hélt að það væri hún, þó að í raun vissi hún það ekki. Það var eins og friðsældin, sem ég upplifði stundum heima, orsakaðist af því að þar væri fínriðið net af skilningi og góðvild, að enginn braut gegn óskrifuðu reglunum. Allir urðu að leggja sitt af mörkum, annars brysti allt“ (92). Ellen hefur mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu: á hvatvísinni, hugsunum sínum, vexti líkamans; að endurraða húsgögnunum í litla heiminum sínum, teygja á þráðum öryggisnetsins með þrjóskunni (92) og reyna þannig að halda fjölskyldunni saman.

Bróðirinn er alltaf með lúkurnar á lofti, lokar sig heiftúðugur inni í herberginu sínu og hefur neglt dyrnar aftur. Mamman er heillandi leikkona, valdamikil með gleði sína og styrk, „það er bjart yfir fjölskyldunni okkar“ (10), segir hún í tíma og ótíma, í einhverri undarlegri afneitun eða til að verjast myrkrinu sem ásækir þau öll, en þegar hún bugast og grætur eftir skapofsaköstin fellur heimurinn saman (16). Kannski er hún alltaf að leika leikrit á sviði (95) þar sem pabba er ekki hleypt inn til að trufla sýninguna. Ellen elskar og dáir mömmu sína og lítur á hana sem náttúruafl og frelsara þrátt fyrir að hún sé augljóslega djúpt sokkin í sjálfsblekkingu, jafnvel sjálfhverfu. Pabbinn var drykkfelldur og geðveikur, þrúgaði allt heimilislífið og heldur því áfram eftir skilnað og dauða, hann birtist í herbergi Ellenar, horfir á hana sofa, treður sér inn í líf hennar. Sjálf segist Ellen vera ljúflynd og góð stelpa, hún heldur dauðahaldi í minningar um útivist, veiðiferðir og hamingjuríka barnæsku áður en ógæfan dundi yfir, og hún býr yfir  djúpri bókstafslegri barnatrú. En hún hefur tekið á sig ábyrgð á velferð annarra, axlað sorg þeirra og geðveiki. Með því að velja þögnina ver hún sig, þá er færra sem þarf að taka ábyrgð á, færra sem þarf að hafa stjórn á en afleiðingarnar eru yfirþyrmandi einsemd og skömm. „Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Ellen hefur ákveðið að þegja en hvorki mamman né bróðirinn nýta sér tungumálið heldur. Þögnin hentar fjölskyldunni ágætlega, þannig kemst hún af. „Þögnin í kringum mig óx og varð líka að þeirra þögn. Mamma talaði enn við mig en hún gerði ekki ráð fyrir að fá svar. Ég held það hefði hrætt hana ef ég hefði skyndilega sagt eitthvað. Það er líkt og allar aðstæður leiti jafnvægis. Þegar við rekumst hvert á annað við ísskápinn, er hver einasta stund eins og eitthvað sem þarf að jafna út með einhverju öðru. Að búa saman var kannski einmitt þetta. Að færa jafnvægispunktinn til þar til allir væru sáttir. Margar leiðir voru mögulegar. Eitt var ekki verra en annað“ (30).

Í tungumálinu felst menning, vald, sjálfsmynd, gildismat, kennisetningar, kerfi, karlveldi, kúgun og útilokun svo eitthvað sé nefnt og það er merkingarþrungin ákvörðun að snúa við því baki. Svo sannarlega er það áskorun fyrir rithöfund að lýsa því með sjónarhorni persónu á mörkum bernsku og unglingsára og fjalla um trámatíska reynslu og uppeldi sem mótar og herðir, þroskar í besta falli eða eyðileggur til frambúðar, án þess að verkið verði klénn sálfræðiþriller eða hvunndagsleg vandamálasaga. Það tekst í þessari meitluðu bók. Að alast upp við aðstæður Ellenar er ekki boðlegt en viðgengst samt alltof oft víða í skeytingarleysi og sjálfhverfu vorra tíma. Ef nefna ætti höfund sem hefur helst verið á þessum slóðum í íslenskum bókmenntum koma Vigdís Grímsdóttir og Auður Jónsdóttir fyrst upp í hugann en í sögum þeirra má sjá álíka örvæntingarfullar tilraunir barna til að lifa af og halda heimi fjölskyldu sinnar saman.

Harmsaga pabbans, geðveiki hans og dauði, er undiraldan í sögunni. Sjálf þekkir Linda Boström Knausgard andleg veikindi enda hefur hún glímt við þau  sjálf, sem frægt er orðið. Bók Lindu er sjálfsævisöguleg að hluta, sjálf valdi hún þögnina á tímabili í eigin uppvexti og átti í býsna flóknu sambandi við móður sína.

Bókin kom út seint á síðasta ári í Svíþjóð, var þýdd snarlega á flest Norðurlandamálin og er nú komin út, í aprílmánuði hinum grimma, í glóðvolgri, íslenskri útgáfu. Það er vert að lofa metnaðarfullt og lofsvert framtak íslenskra  bókaútgefenda sem leggja kapp á að vera tímanlega með það nýjasta í bókmenntum í öndvegisþýðingum. Þýðing Þórdísar Gísladóttur úr frummálinu er fullkomlega tær og myndrík og lýsir spennu milli þroskaðrar sögumannsraddar og sjónarhorns ellefu ára barns. Orðalag Ellenar er víða fullorðinslegt, mér fannst til dæmis gaman að sjá hana nota orðið „heybrók“ um „feg jävel“ (48). „Tystnad“ á sænsku er þögn á íslensku, mikið er nú íslenskan falleg.

Velkomin til Ameríku vísar allkaldhæðnislega til fyrirheitna landsins, lands tækifæra og frelsis og tengist þeirri ímynd sem móðirin býr til af fjölskyldulífinu. Þetta er margfalt stærri bók en hún lítur út fyrir að vera og ágeng eftir því. Allt sem þögnin leynir brýst fram í meitluðum, viðkvæmnislegum stíl sem er fullur af átakanlegu trúnaðartrausti og von um betri daga:

„Það er bjart yfir fjölskyldunni okkar…“

Við heyrðum Göran Engdal plokka gítarstrengi og sænsku hljómsveitina Knife taka lögin The Silent Shout og Heartbeats. Í lokin ómaði Dýrð í dauðaþögn eftir Ásgeir Trausta.

Víðsjá, 24. apríl 2017

10 magnaðar skáldsögur eftir konur

Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagn­rýn­andi Kvennablaðsins teygir sig í bókahillu og tekur fram tíu skáld­sögur eftir íslenskar konur.

Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir 2003

Nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernsku- og skáldævisagna sem karlar hafa verið iðnir við að fylla í gegnum árin. Upp­eldisaðstæður einkennast sífellt meir af teygjanlegum fjöl­skyldu­böndum; stjúpforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd sem fólk glímir við ævina á enda.

Blátt blóð
Oddný Eir 2015

Femínískt og persónulegt verk. Fjallað er um egglos, getnað, með­göngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, og hið kven­lega og karllega í lífinu. Sorg vegna barnleysis er lýst hisp­urs­laust og sagt frá ást, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það er ekki þurrt auga í salnum.

Dísusaga
Vigdís Grímsdóttir 2013

Sagan fjallar um skáldskap, ást og ofbeldi. Dísa og Gríms hafa undirtökin á víxl og reyna að yfirgnæfa hvor aðra. Þegar Dísa var 10 ára var hún beitt kynferðisofbeldi sem hafði mikil áhrif á sálarlíf hennar og persónuleika. Sakleysið var frá henni tekið en afneitun, þöggun og skömm fylgja henni hvert fótmál. Um leið er þetta saga um það að verða skáld og rithöfundur, um það að elska og skrifa til að geta haldið áfram með líf sitt.

Hvítfeld
Kristín Eiríksdóttir 2012

Ættar- og fjölskyldusaga sem gerist í Reykjavík á níunda áratugnum. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegn­sýra líf fjölskyldu Jennu sem sjálf er sjúklega metnaðargjörn. Hún spinnur upp sögur af velgengni sinni í útlöndum til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og lesandinn flækist í lygavef hennar. Persónurnar eru breyskar og harmrænar, glíma við fíkn og áföll sem aldrei var unnið úr og lifa í blekkingu sem viðheldur óhamingjunni. Um leið er sagan samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna.

Jöklaleikhúsið
Steinunn Sigurðardóttir 2002

Sagan gerist á Papeyri, vinabæ rússneska skáldsins Antons Tsjékovs. Frumsýna á eitt leikrita Tsjekovs með karlmenn í öllum aðalhlutverkum og hefjast þrotlausar leikæfingar með stór­skemmtilegum uppákomum. Kynferði og kynhneigð eru helstu þemu sögunnar eða öllu heldur afkynjun og kven­leiki sem valda því að allt fer á hvolf hjá íbúum Papeyrar. Leiftrandi fyndin saga þar sem karl- og kveneðli er sýnt í íron­ísku ljósi, gróðahyggja og listamannslund takast á með­an ástin ýmist blómstrar eða deyr.

Óreiða á striga
Kristín Marja Baldursdóttir 2007

Mikil kvennasaga, um sterkar konur og sjálfstæðar. Femínísk tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tengjast kvenfrelsisbaráttu, samstöðu og skyldum sem lífið skaffar konum. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið geti verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár.

Rán
Álfrún Gunnlaugsdóttir 2008

Hér er fjallað um tíma, fjarlægð og minningar. Rán hefur allt sitt líf verið á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd. Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjóna­bandi en áttar sig á því á gamals aldri að það hefur verið henni dýrkeypt. Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu. Einstaklega vel skrifað, af skapandi táknsæi og listfengi.

Snaran
Jakobína Sigurðardóttir 1968

Frásagnarform Jakobínu var einsdæmi á sínum tíma en hún var módernisti og einn af merkustu rithöfundum Íslendinga. Snaran er eintal manns sem lætur dæluna ganga og endurspeglar orðræðu um pólitík samtímans. Sjálfur er hann leiðindapúki og skræfa, afsprengi samfélags þar sem auðvald og eftirlit halda fólki í helgreipum. Jakobína er íslenskur Orwell með myrka framtíðarsýn sem illu heilli færist nær því að rætast með ári hverju.

Tryggðapantur
Auður Jónsdóttir 2007

Áleitin og pólitísk saga um vald og valdaleysi, ríkidæmi og fátækt. Söguna má lesa sem allegóríu um flóttafólk og innflytjendur sem er eitt brýnasta úrlausnarefni samfélags þjóðanna um þessar mundir. Skýr og mikilvægur boðskapur sem vekur til umhugsunar.

Undantekningin
Auður Ava Ólafsdóttir 2012

Meistari femínískra tákna, orðræðu og margræðni. María stendur frammi fyrir skilnaði, veltir fyrir sér orsaka­sam­henginu og hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Perla sem býr í kjallaranum er dvergur og sálgreinandi rithöfundur sem kemur til skjalanna með nýja sýn á óreiðuna. Kyn og kynhlutverk eru til umræðu ásamt ástinni og listinni og um leið bítur sagan í skottið á sér með vísunum í heimspeki og sálfræði, skáldskapinn og tilurð hans.

 

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?