Höfundur: Steinunn Inga Óttarsdóttir

"Maður hélt útsýni valda víðsýni, en endurtekningin er þrengri en mjór fjörður..." Guðbergur Bergsson, Anna 1969

Framkvæmdir að nýju

Eftir allt brasið í stofu og eldhúsi 2020 tókum við okkur gott hlé en erum nú aftur farin af stað með framkvæmdir í fallega húsinu okkar. Að þessu sinni er það þvottahúsið (Harlem) og forstofan, sem þýðir að við verðum þá að lokum búin að endurbæta öll rými hússins nema bílskúrinn og planið sem bíða betri tíma. Í þvottahúsinu hékk uppi af gömlum vana innrétting frá 1963 svo það er alveg tímabært að endurnýja. Þvottakona heimilisins hefur sýnt ómælda og undirgefna þolinmæði í gegnum árin því vinnuaðstaðan þarna inni er þröng og raunar alveg glötuð og kallar á allskonar óþarfa bogr og beygjur. Það hefur þó ekki komið niður á gæðum þjónustunnar…

Allt hófst þetta árið 2022 með því að við fengum Margréti Sigfúsdóttur hjá Formax til að teikna rýmin fyrir okkur. Hún kom með þá frábæru hugmynd að færa dyrnar inn í bílskúrinn til að fá meiri heildarsvip og betri nýtingu í forstofunni. Það leist mér strax afskaplega vel á en húsbóndinn sá strax í hendi sér að þetta yrði heljarvesen og nennti engan veginn svona pjatti. Svo drífur ýmislegt á dagana og fókusinn fer vítt og breitt og úr varð að verkefnið fór í bið – þar til nú, vorið 2025. Þá féllst Brynjar á þetta hurðarvesen, ekki síst fyrir hvatningu frá yfirsmiðnum – karlarnir standa saman!

Þann 20. apríl tók Brynjar niður allan panelinn í forstofunni og skápana sem voru alltaf heldur óhentugir. Hvað er hægt að geyma í efstu skápahillunum sem enginn nær eða sér uppí? Þar voru hafðar húfur, vettlingar og treflar og endalaust verið að standa uppi á stól til að leita. Betra er að láta yfirhafnir hanga uppi og hafa góðar hirslur fyrir neðan. Skáparnir voru fyrir þegar við fluttum inn 2004 en spónlagðar hurðirnar hafði ég málað með hvítu lakki fyrir rúmum 20 árum um leið og ég málaði panelinn með þunnri hvítri málningu. Þetta kom svo vel út að það hefur haldist óbreytt síðan.

Einnig braut B upp alltof endingargóðar gólfflísar og skóf eldgamla málningu af þeim veggjum sem ekki á að setja gifsplötu á. Fjarlægði líka sérlega fallega pottofna (þeir eru enn undir húsvegg) sem hafa nú þjónað sínu hlutverki dyggilega frá því húsið var byggt 1963. Þá var komið að píparanum að skera fyrir lögnum til að fá hita í gólfið. Fengum við Grétar, frábæran pípara sem Gunna syst benti á í verkið, hann var snöggur og lausnamiðaður og allt stóð eins og stafur á bók hjá honum. Gummi Múr mætti síðan með sitt lið og hellti floti yfir allt og sléttaði.

Yfirsmiðurinn rak saman sökkla undir fataskápana og þvottahúsinnréttinguna sem bíða nú á nýflotuðu gólfinu. Eitthvað rugl var með teikningarnar að innréttingunni í þvottahúsinu og hornskápur var til vandræða. Margrét sendi nýja tillögu að lausn fyrir nokkrum dögum og við samþykktum hana. Þá ætti að vera hægt að taka saman lista til að panta úr Ikea og mun þá reyna verulega á þolinmæði, rýmisgreind og geðprýði húsbóndans við að setja innréttinguna saman. Vill svo vel til að hann er ríkulega búinn öllum þessum eiginleikum og hefur auk þess allan heimsins tíma.

Þannig er staðan nú, þremur mánuðum eftir að við byrjuðum ferlið.

Gamla forstofan mínm, búið að taka niður stóran spegil sem var fyrir ofan stólinn þar sem útlitið og dressið var tékkað á hverjum morgni

Staðan í apríl áður en byrjað var á gólfinu

HANDRIT BÍÐA Í DYNGJUM

Bókin Kurteisleg kvæði og dýrlegar diktanir. Bókmenntagreinar og handritamenning á sautjándu öld eftir Þórunni Sigurðardóttur, er komin út hjá Árnastofnun. Í bókinni, sem er 500 bls doðrantur, eru átján greinar sem Þórunn hefur birt í tímaritum og bókum á undanförnum árum, bæði á ensku og íslensku. 

„Þær stundir sem ég hef haft til fræðiiðkana og textaútgáfu hafa margar farið í „að brjótast í gegnum…dyngjur af handritum á Landsbókasafni, Árnastofnun og víðar. Sú vegferð hefur verið lærdómsrík og gefandi – og skemmtileg“ segir Þórunn í formála bókarinnar.

Þórunn hefur rannsakað og skrifað heilmikið, allt frá árinu 1994 eins og fram kemur í ritaskrá hennar. Bókin er fræðileg útgáfa, ætluð fræðimönnum fyrst og fremst enda margir textanna sem til umfjöllunar eru einungis varðveittir í handritum. Leikmenn geta þó alveg fundið sitthvað áhugavert ef leitað er grannt. 

Vísbendingar um líf og tilfinningar

Í greinunum er lögð áhersla á félagslegt umhverfi skálda og viðtakenda bókmenntanna, tilurð þeirra, dreifingu og varðveislu, og samspil texta og umhverfis eða samhengi textanna við það samfélag sem þeir eru sprottnir úr. Sýnt er fram á að í bókmenntunum er hægt að fá vísbendingar um daglegt líf og tilfinningar, bæði skálda og samtímamanna þeirra, jafnt úr veraldlegum sem trúarlegum textum.

Greinunum er skipt í fimm kafla eftir meginviðfangsefni: Menntun og bókmenning; Handritamenning; Höfundareignun; Konur í bókmenntum síðari alda; Bókmenntagreinar á sautjándu öld.  Aftast er heimildaskrá auk nafnaskrár og handritaskrár. Myndir í bókinni eru flestar af handritum en engin skrá er yfir þær. 

Eins og fram hefur komið bíða handrit í dyngjum eftir því að vera lesin og rannsökuð og þau geyma eflaust merkilega sögu. T.d.  eru ótal textar frá 17. öld lítt rannsakaðir (eða „árnýöld“ eins og tímabil fyrri alda er kallað í bókinni) og bíða eftir að þeim verði gaumur gefinn. Þar leynist margur fjársjóðurinn. Það er mjög áhugavert að lesa um áður óþekkt kvæði sem Þórunn fjallar ítarelga um og er mjög líklega er eftir Hallgrím Pétursson, en handrit þess er að finna í Svíþjóð. Eins var gaman að lesa um áður óþekkt ljóðabréf eftir séra Einar í Eydölum sem varðveitt er í einu handriti á Landsbókasafni. Mjög áhugavert er að kynnast sr. Guðmundi Erlendssyni í Felli, sem hefur lítt verið hampað en kemur víða fyrir í þessari bók. Hann var vinsælt en mistækt skáld, samtímamaður Hallgríms Péturssonar og stóð sumpart í skugga hans. 

Siðsamar jómfrúr

Einn kafli heitir „Konur í bókmenntum síðari alda“. Þar er m.a. fjallað um birtingarmynd kvenna í t.d. tækifæris- og siðatextum, dyggðakvæðum, harm-og erfiljóðum og sálmum. Á þessum tíma var konan ekki sjálfstæður einstaklingur heldur hluti af karlinum, meðhjálp hans og yndisauki (274) og hennar hlutverk var að fjölga mannkyninu. „Siðsamar jómfrúr eiga að hegða sér vel, forðast vondan félagsskap, illan munnsöfnuð, ótuktlegan dans og vikivaka, dreissugan klæðaburð… Konurnar eiga að vera kyrrlátar, ljúfar og vingjarnlegar…Undirgefni, hlýðni og þénustusemi eru þannig grundvöllur kvenlegra dyggða. Hin dyggðum prýdda, hlýðna og kyrrláta kona er hafin á stall og jafnframt hlutgerð“ segir Þórunn. Konum var oft líkt við sól eða skæra lampa í bókmenntum 17. aldar og þær áttu i senn að vera bæði gagnlegar á heimilinu og prýða það.

Í grein sem ber heitið „Dyggðafull kona er ein eðla gáfa“, segir frá konum sem tókust á hendur óhefðbundin hlutverk og er getið í bókmenntum, s.s. Guðrún Árnadóttir (d. 1619) sem lærði að lesa, skrifa og reikna og má skilja af harmljóði um hana að hún hafi verið skrifari fóstra síns áður en hún giftist (293). Á 17. öld fjölgar verulega þeim bókmenntatextum sem ætlað var að halda konum á sínum stað og skilgreina hlutverk þeirra sem var að styðja við karlinn og þar með þjóðskipulagið. En ekki er þar  með sagt að þær hafi allar hlýtt því alltaf, nægir að nefna t.d. Halldóru Guðbrandsdóttur biskups Þorlákssonar sem hafði karlmannshug í konubrjósti sem kunnugt er.

Vannýttar heimildir

Þórunn telur að  skilgreining á bókmenntagreinum (genre) sé mikilvæg fyrir lestur, skilning og túlkun bókmennta. Hún les heilmargt út úr sálmum annað en guðrækni og trúfræði. „Sálmarnir voru ekki aðeins ortir í trúarlegum tilgangi heldur einnig félagslegum, til að heiðra, lofa, hugga, gleðja, fræða, bæta kristilegt siðferði, til minningar um látna, til að syngja yfir börnum og óska náunganum heilla, gefa heilræði, veita áminningu og deila á bresti og veikleika mannanna, græðgi og valdafíkn, svo nokkuð sé nefnt“ (405).

Þórunn segir að líta megi á safn íslenskra sálma og andlegra kvæða frá 17. öld sem vannýttar heimildir um mannlíf, samfélag og menningu. Það er sannarlega áhugavert og gjöfult sjónarhorn sem á vonandi eftir að laða fleiri til að leggja stund á íslensk fræði og sinna rannsóknum á okkar dýrmætu handritum, varpa mögulega nýju ljósi á samfélag og mannlíf fyrri tíma og vera hvatning til þess að gera menningararfinn áhugaverðan og aðgengilegan nútímafólki. 

Látið of lítið gott af mér leiða…

Það er dýrmætt að geta kynnt sér hæglega texta, ljóð og minningar skrifandi kvenna fyrri alda sem annars liggja í handritaskúffum á bókasafninu. Guðrún Ingólfsdóttir hefur búið endurminningar Helgu Sigurðardóttur á Barkarstöðum (1847–1920) til birtingar á vef Handritasafns LBS. Hér er textinn í heild. Þar segir m.a.:

Ég vildi óska þess að allir væru sem bestir og breyttu sem réttast og sanngjarnast hver við annan, þá væri þessi tilvera mörgum geðfelldari en oft vill verða og brestur einna mest kærleiksvöntunin. Ég finn það svo daglega hjá sjálfri mér og öðrum hvað ég læt sitja í fyrirrúmi að koma mínu fram en skeyti of lítið um aðra og er það af kærleiksleysinu. Þetta kemst þráfaldlega til tals á mínu fámenna heimili og er þá skoðanamunur. Hún vill hugsa meira um að gera náunganum þann greiða sem hún getur en mér hættir alltaf við að hugsa fyrst um hag minn áður en ég hjálpa öðrum. Þetta er áreiðanlega skakkt skoðað af mér og er ég oft hugsandi út af þessu þegar á elliárin er komið og máski heldur seint að iðrast eftir dauðann. Ég set það fyrir mig að ég hafi látið of lítið gott af mér leiða á meðan ég hafði meiri efni en nú orðið. Ég hef oft hugsað um það að ég álít nauðsynlegt að unga fólkið fái að læra það sem það hefur sterka löngun til að nema til þess að verða nýtari menn í mannfélaginu.

Ljósmynd af Helgu: Sarpur

Litríkar persónur valsa um skrautlegt svið

Þuríður formaður Einarsdóttir (1777-1863) var merkiskona sem segir frá í ýmsum heimildum. Hún sótti sjó í 66 ár og var formaður á opnum báti á 26 vetrarvertíðum og aldrei fórst nokkur af hennar áhöfn. Til er ævisaga hennar, rituð af henni sjálfri þótt óskrifandi væri (birt í 2. b. Skyggnis).  Til er lýsing á henni höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni fræðaþul sem kenndur er við Minna-Núp (1838-1914) í bókinni Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum sem e.t.v. kemst næst því hvernig hún kom fyrir sjónir. Og bréf og stefnur eru til í hennar nafni því hún lét ekki hlut sinn fyrir neinum, nema einu sinni þegar sýslumaður fékk hana til að bera vitni gegn svonefndum Kambránsmönnum* sem kunnugt er.

Brynjúlfur frá Minna-Núpi Iýsir Þuríði formanni svo:

Þuríður var snemma stórhuga og fljóthuga, skipti sér af öllu og vildi öllu ráða, enda sást það brátt að hún var bæði snarráð og hagráð; vann hún sér því traust þeirra er með henni voru. Hún var brjóstgóð við bágstadda, en óvægin og einbeitt við meiri menn og lét eigi undan neinum; var og einskis manns að yrðast við hana svo var hún orðheppin og gagnorð, enda skynsöm vel; aldrei beitti hún stóryrðum eða illyrðum, þó henni mislíkaði, en þá varð hún fljótmæltari og hraðmælari. Aldrei brá henni svo við neitt, að menn fyndu, að hún tapaði sér. Hún tók svo vel eftir öllu er hún sá og heyrði, að fágætt þótti, svo fljóthuga sem hún þó var, enda hafði hún gott minni; af þessu kom að hún varð vísari en aðrir um marga hluti er um var að ræða. Í þá daga naut alþýða engrar menntunar og Þuríður því eigi heldur, enda var hún meira hneigð fyrir útistörf en innisetu; gengu verk furðu vel undan henni, eigi burðameiri en hún var. Hún var grannvaxin, en þó nokkuð þykk um herðar, í meðallagi há eða vel það. Andlitið var mjög einkennilegt, yfirbragðið mikið, augun hörð og snör, niðurandlitið mjög lítið. Allt látbragð hennar Iýsti óvenjulegu fjöri. Málrómurinn var eigi mjúkur og þó eigi óviðfelldinn. Framburðurinn var djarflegur og áhugalegur. Í flestu þótti hún frábrugðin og einkennileg.

Auður Styrkársdóttir, áður forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, hefur nú skrifað öndvegis bók um Þuríði sem ber titilinn Kona á buxum. Nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns (2024). Þetta er vel stíluð saga og skrifuð af þekkingu á samfélagi þeirra tíma og stöðu alþýðunnar, af innsæi í margvíslegt misrétti sem þá viðgekkst og djúpri samúð með stöðu kvenna, barna og fátækra. Þetta er safaríkt efni að moða úr, nafnkunnar og litríkar persónur valsa um skrautlegt svið átjándu og nítjándu aldar. Tekur höfundur sér víða skáldaleyfi og prjónar skemmtilega í kringum heimildirnar.

Sagan hefst þegar Þuríður er lítil telpa. Hún er snemma kjörkuð og kjaftfor, glögg og útsjónarsöm. Ellefu ára fann hún upp á því að pissa með ærhorni þegar hún var á sjó. Svo er hún komin í stuttbrók innanundir pilsið sem engin kona var þá búin að fatta, bæði vildi hún skýla sér betur og gera gröðum körlum erfiðara fyrir þegar þeir vildu koma fram vilja sínum. Og karlmannsfötum gekk hún jafnan í á seinni árum með hatt á höfði og kallaði sig stundum Þormóð.

Ekki er hún eins sterk og sterkur karlmaður, en hún fiskar meir en aðrir og hún kann allan sjóinn, og svo hefur hún þessa stórkostlega léttu lund. Nú um sumarið gengur hún að slætti að Gaulverjabæ eins og karlmaður og fær karlmannakaup (122).

Það var reyndar ekki óalgengt að konur færu á sjó á þessum tímum. Flestar sóttu sjóinn í eyjabyggðum, s.s. í Breiðafirði, og í Árnessýslu er vitað um einar 17 sjókonur. Þuríður er þeirra kunnust og sú eina sem formannsheiti festist við. Árið 1830 fékk hún verðlaun úr konungssjóði fyrir jarðrækt og sjósókn. Hún mun vera eina konan, sem fékk þessi verðlaun.

Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi  50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt. 

Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi  50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt. 

Sagan er skrifuð á sérlega litríku og  fornlegu máli og lýsingar allar á umhverfi og atburðum svo myndrænar að bragð úr sögunni finnst á tungu og lykt situr í nefi. Nægir að nefna sem dæmi um þetta sérlega lipurlega skrifaðan kafla um aftöku Sigurðar Gottsveinssonar sem var forsprakki Kambránsmanna en sú lýsing er löng og skemmtileg (265 o. áfr.) eða inngöngu hinnar víðförlu Idu Pfeiffer í íslenskan torfbæ: „Hér er aldagamall daunn af fólki og skepnum, votri ull, fúkka og slaga, súrri mjólk og úldnum fiski og ýmsu torkennlegu, sem hið austurríska nef hennar ekki kann að greina, en er aldeilis hroðalegt…“ (293).

Við sögu kemur margt merkisfólk eins og t.d. Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og Valgerður Jónsdóttir biskupsfrú. Ekki er virðingu eða aðdáun fyrir að fara þegar Þuríður veltir fyrir sér hinum frægu Fjölnismönnum sem þóttust koma með frelsi og sjálfstæði til þjóðarinnar en koma alþýðunni alls ekki þannig fyrir sjónir. Þetta hugsar Þuríður:

Jónas. Tómas. Konráð. Brynjólfur. Hvað vita þeir svo sem um okkar hagi? Víst voru þeir hér bornir og barnfæddir, en tæplega rifu þeir fiskiroð og bruddu bein, synir presta og stórbænda allir saman. Og vínþrúgur og fuglasteikurí Kaupinhafn breiða yfir menn þægilegan hægindahjúp. Mér þykir Fjölnir harður í okkar garð…Eða þá kvæðið hans Jónasar: Hvar er þín fornaldar frægð og þá riðu hetjur um héruð! Hefur nokkur maður heyrt annað eins?! Já, frægðin, hún liggur í þeirra mannsmorðum og gripdeildum! Á það minnist ekki skáldið, ef skáld skyldi þá kalla, og ekki minnist Jónas þeirra sem hér hafa þraukað öldum saman og lifað þá voðalegustu eldganga og landskjálfta sem mannkyn man, og lifað samt, og lifað fullt eins góðu lífi og þar sem fuglasteikurnar fljúga sjálfkrafa í munna og vín flýtur um borð. Og svo kallar skáldið þetta kvæði Ísland! Ja svei! (288-9).

Sagan rennur vel og lýsir á trúverðugan hátt lífi og kjörum fólks. Væntanlega hafa fæstar konur á þessum tíma búið yfir þeim styrk sem Þuríður hafði og varð til þess að hún réði sér sjálf mestan part ævinnar. Henni eru lagðar í munn nútímalegar skoðanir, t.d. er skemmtileg sena þegar hún og Jón Sigurðsson rökræða um alþingi. Þuríður stingur kokhraust upp á því við hann að konur fái að sitja á þingi (310-311). Líklega lágu leiðir þeirra þó aldrei saman og þessi hugmynd fékk ekki hljómgrunn fyrr en löngu síðar sem kunnugt er.

Höfundur aflaði sér margvíslegra heimilda við ritun bókarinnar og greinir frá því ítarlega í eftirmála hvernig þær eru nýttar og hvar skáldskapurinn fær að flæða. Þuríður hefur verið einstök manneskja meðan hún var á dögum og er stórskemmtileg sögupersóna með alla sína öfga, sérvisku og ríku réttlætiskennd.

Fram kemur í eftirmála höfundar að nýverið kom út önnur bók um Þuríði formann, Woman, Captain, Rebel eftir Margaret Willson. Sannarlega var Þuríður Kona og Kafteinn og reis gegn feðraveldinu. Frábært er að henni er sómi sýndur með því að gera hana  eftirminnilega og ódauðlega með þessari bók sem óhætt er að mæla með fyrir alla sem unna sögulegum skáldsögum.

*Kambsránið svokallaða var framið aðfararnótt  9. febrúar 1827.  Fjórir grímuklæddir menn brutust inn í baðstofu á bænum Kambi í Flóa, lögðu hendur á bóndann og heimilisfólk hans og hótuðu pyndingum og dauða til þess að fá afhent fé bóndans. Höfðu þeir á brott með sér margt fémætt, m.a. 1000 ríkisdali að sögn bóndans. Vitnisburður Þuríðar m.a. varð til þess að þeir fengu þunga dóma en eftir stóðu uppleyst heimili.

Beinhvít blöð, vot af tárum

Út er komin ný ljóðabók eftir Ásdísi Óladóttur (f. 1967). Fyrsta ljóðabók Ásdísar, Birta nætur, kom út 1995. Úrval úr ljóðum hennar, Sunnudagsbíltúr, var gefið út 2015 þannig að á næsta ári spannar skáldferill hennar 30 ár. 

Nýja ljóðabókin heitir Rifsberjadalurinn. Hún skiptist í tvo hluta, Allt nema ég og Á nefi mínu hvílir regnhlíf. Fyrri hlutinn er bálkur sem lýsir glímu ljóðmælanda við ranghugmyndir, sektarkennd og ofsóknaræði; raddir heyrast í höfðinu og sjálfsvígshugsanir leita á. Þetta eru raunsæisleg og hreinskilin ljóð, ómyrk í máli um hvernig geðveiki nær undirtökum, um einhvers konar lækningu með lyfjum („Lífæð mín 30 mg“) og einhverjum bata. 

Kláraði námið 

en fékk enga stjörnu

á rassinn.

Minna veik

og varð minna

og minna veik.

Var komin 

í rifsberjadalinn

eða á lyfið

sem ég tók inn.

Rifsberjadalur hefur skemmtilega tengingu við lyfið Risperdal sem virkar á flest einkenni geðklofa og er notað við bráðum og langvinnum geðtruflunum. Dalur þessi er væntanlega sólríkur og notalegur staður þar sem hægt er að leita skjóls, svipað og að vappa inn í Víðihlíð í samnefndu ljóði Megasar. 

Í seinni hluta bókarinnar kveður við öðruvísi tón og skáldlegri. Þar eru japönsk ljóð skrifuð á blöð kirsuberjatrjánna, draumar eru fiskar sem eru dregnir á land og glerbrotum rignir um nótt. En sársaukinn er enn til staðar og einsemdin alltumlykjandi: „allt í góðu lagi nema ég“ (46).

Ljóð sem heitir Samtal fjallar um orð og þar er „nú-na“ endurtekið stef. Því lífið er stutt og dauðinn þess borgun, eins og annað skáld kvað forðum, og boðskapurinn er að allt okkar streð verður fyrr en varir gleymt og grafið.

ÆVI

Maðkur,

sandmaðkur

skilur eftir sig 

á leirunni 

flókna

slóð,

minnisvarða 

um ferð.

Það fellur að.

Síðast kom út ljóðabók frá Ásdísi 2020, Óstöðvandi skilaboð, þar sem einsemdin er einnig alls ráðandi. Sársaukinn er mikill í báðum þessum bókum og skáldkonan veltir fyrir sér hvort orðin nái almennilega utan um hann. Dregin eru upp eftirminnileg mynd: Orðin fæðast og falla: „á beinhvít blöð / vot af tárum“.

Prísundarfiskar og annálamyrkur

Í nýjustu ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Kallfæri, eru um 60 ljóð. Aftast eru nokkrar skýringar. Guðrún á brýnt erindi, hún þarf sannarlega að komast í kallfæri við lesendur og nú er það okkar að hlusta. 

Ljóðin eru mörg hver flugbeitt og tekin er skýr afstaða gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og og hvers kyns yfirgangi. Sum bera með sér söknuð eftir fortíð eða tengjast náttúrunni; þar blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja. Víða er frost og ís í ljóðunum, vetrarhörkur og klakahröngl og „rabarbarastóðið fyrir utan kreppir tærnar í angist” (35).  Rödd ljóðmælanda er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint. 

Fyrstu tvö ljóðin í bókinni draga fram liðinn tíma sem mörgum er ókunnur og svipað þema er í ljóðinu „myrkur” á bls. 55. Í amstri daganna, umferðarnið og síbylju, heyrist ekki hátt í birtingarhljómi, fjaðraþyt eða fornu tauti og skrjáfi en við ættum kannski að leggja eyrun við og muna uppruna okkar og fortíð. 

Þriðja ljóðið „tónverk í smíðum” er í sama dúr. Þar eru fyrirboðar þess að verið er að eyðileggja náttúruna með endalausri græðgi. Áður en við er litið er búið að leggja landið okkar undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur.  Orðið prísundarfiskur kemur þar fyrir;  lax sem elst upp í keri eða kví.

Í  ljóðinu „Jeríkó, þaulæft atriði” er vísað til þess að stríð hafa verið háð um aldir og þau bitna mest á börnum. Lúmskt fyndið er ljóð um internetið (já, reynið bara að yrkja eitthvað bitastætt um það óskáldlega fyrirbæri) og yfirvofandi endalok þess.  Og ljóð um hlátur kvenna snerti mig, það minnir á lífsbaráttu formæðra okkar og upp rifjuðust ummæli skáldkonunnar Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim – konur óttast að karlar drepi þær.

VINDHANAHLÁTUR

í þann tíð hlógu konur

hvorki dátt né lengi

kannski stöku álfkona á nýársnótt

eða stúlka í hópi barna

undir rökkursvefninn

í þessu landi var hlátur jafn galinn

og vindhani á bæjarburst

hefði ekki lafað þar lengi

nema ryðgaður skakkur

með óþolandi ískri

til einkis að tjasla við hann

slitinn úr öllu samhengi við vindáttina

og nauðsynleg jafnaðargerð

eins gott að sleppa honum alveg

(32)

Guðrún er meistari í orðasmíð og hugrenningatengslum eins og ótal dæmi sýna; „reynið bara að segja upphátt: þrír vetur í röð … og fallið er bratt niður í dimmt annálamyrkur” (36). 

Ekki eiga mávar sér marga málsvara en Guðrún dregur upp mynd af þeim, leitandi sér eilíflega að góðum stað til að deyja á.  Ruslahaugarnir þar sem þeir dvelja löngum eru friðsæll staður; með volgri vélarolíu  og ryðrauðum salla sem fellur hljóðlaust (41). Allt á sinn tilverurétt í heimsmyndinni.

Lljóðin í Kallfæri eru ort af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Þau eru hvert öðru betra. Ég staldraði oft við mörg þeirra og naut þess að lesa þau, s.s. telos, gullgerðarlist og „dátarnir staðföstu. 

Bókin endar á himnabréfi til lesenda en skv. gamalli trú voru það bréf sem skrifuð voru á himnum og bárust síðan til manna. Þeir sem komust yfir slík bréf töldust hólpnir í þessu lífi og öðrum (61). Í Kallfæri er sannarlega reynt að koma himnabréfinu til okkar, vara okkur við og veita sáluhjálp. En við þurfum að leggja eyrun við.

Hanna

Þau Ari og Hanna í Hvammi tóku mér afskaplega vel þegar ég birtist í bæjardyrunum sem tengdadóttir þeirra á níunda áratug síðustu aldar. Tötraleg unglingsstelpa, týnd og uppreisnargjörn, fann í Hvamminum ást, frið og frelsi sem hún þurfti þá.

Í Hvammi var um þessar mundir mannmargt heimili, fjárbúskapur og refarækt. Mikið var um gestakomur, gripið í spil og spjallað yfir kaffiglasi og brúntertusneið í notalegu eldhúsinu með útsýni yfir Þistilfjörðinn. Alltaf var gott að leita til Hönnu, hún hafði þann einstaka eiginleika að finna alltaf það góða í hverjum og einum. Dómharka var ekki til hjá henni, hún umvafði alla með kærleika sínum.

Við Vignir slitum samvistum en sonur okkar átti alltaf öruggt skjól hjá ömmu sinni hvernig sem veröldin veltist. Fyrir það er ég ævinlega þakklát, fyrir vináttuna sem alltaf hélst, fyrir örlætið og æðruleysið sem Hanna ávallt sýndi.

Ari lést fyrir aldur fram í mars 1986. Hanna var fædd 1940 og lést 2020.

Arnþór

Frændi minn, Arnþór Karlsson (1954-2022), var hetja sem hafði mikil áhrif á okkur öll sem honum kynntust. Sem ungur maður lamaðist hann upp að hálsi í slysi og var upp frá því í hjólastól. Fyrst um sinn bjó hann áfram með foreldrum sínum, þeim heiðurshjónum Hauki og Vilborgu ömmusystur minni, í Borgarfelli á Þórshöfn. Þangað var alltaf gott að koma og þar naut hann frábærrar umönnunar fjölskyldunnar.

Hvernig átti lamaður maður, búsettur á Langanesi á áttunda áratug síðustu aldar, að hafa ofan fyrir sér? Hann gerði svo sannarlega allt sem hann gat, sá um bókhald í fyrirtæki sem hann stofnaði með bróður sínum og mági og hann pantaði kost og fleira fyrir báta á miðunum í gegnum talstöð. Þegar ég var á rúntinum á Þórshöfn forðum daga með vinahópnum var oft kallað í Arnþór og gantast lengi kvölds í talstöðinni: 6817, 6817? Ásgarður kallar! Yfir! Seint þreyttist hann á ruglinu í okkur. En fyrir rúmum 30 árum flutti hann svo úr þorpinu sínu og keypti sér fallega íbúð í SEM-húsinu á Sléttuvegi í Reykjavík. Þar fékk hann góða þjónustu og bjó þar til dauðadags.

Arnþór var skynsamur og traustur, húmoristi og mikill mannvinur. Hann undi sínu þungbæra hlutskipti án biturðar og einstök skapgerð hans einkenndist lífsgleði, æðruleysi og umhyggju fyrir öðrum. Hann var vinmargur og ættrækinn, það var oft gestkvæmt á Sléttuveginum og alltaf gaman að koma til hans. Hann kom alltaf auga á hið spaugilega í tilverunni og var hafsjór af fyndnum sögum og fróðleik. Arnþór var höfðingi heim að sækja og hélt ótal frábær partí, þá var djammað og dansað eins lengi og sjúkraliðarnir leyfðu. Hann sætti því að þurfa aðstoð við allar athafnir daglegs lífs og tók því af einstakri þolinmæði. Hann vann áfram við bókhald um skeið en okkar samfélag býr reyndar ekki sérlega vel að fólki sem hefur skerta starfsgetu. Hann var því feginn þegar hann komst á eftirlaun og hætti að vera öryrki! Miklar skoðanir hafði hann á stjórnmálum og var jafnaðarmaður í hjarta sínu. Við áttum margar góðar stundir í gegnum árin, hann fylgdist vel með mér og uppvexti barna minna enda einstaklega barngóður og lét sér annt um fólkið sitt. Um skeið fórum við saman í Kringluna á Benzinum um jólaleytið til að kaupa gjafir og hápunkturinn var að fá okkur hressingu á kaffihúsi að því búnu. Hann hélt þjóðleg matarboð og elskaði að fá sér siginn fisk og þorramat. Það var svo gaman að koma til hans á sumrin og fara með kaffið út á svalir, hann elskaði sólina! Arnþór var innsti koppur í búri í Átthagafélagi Þórshafnar og var lengi í stjórn þess. Við vorum bæði í nefndinni sem stofnaði það ágæta félag, héldum fyrstu samkomuna í salnum á Sléttuveginum og þar er enn haldinn fjölmennur félagsfundur í maí þegar svartfuglseggin koma úr björgunum.

Aldrei heyrði ég Arnþór frænda kvarta yfir sínu hlutskipti í lífinu og af honum lærði ég að vera ekki að væla yfir smámunum. Aldrei vildi hann láta á sér bera eða hafa mikið fyrir sér umfram það sem þurfti. Hann var sáttur þegar hann kvaddi og ósk hans var að útförin færi fram í kyrrþey – það er dæmigert fyrir hann. Minningin lifir um mann sem tókst á við mótlæti með hugrekki og jafnaðargeði og gladdi aðra með hlýrri nærveru, kærleika og hárfínum húmor. Allri stórfjölskyldu Arnþórs, Kristínu og vinum hans sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og þakka fyrir allt. Yfir og út.

Viðtal við Arnþór, 1995

Ellý og Vilhjálmur

Ég hef alltaf haft tónlistaráhuga. Lærði lög og texta fljótt og auðveldlega sem barn. En aldrei lærði ég almennilega á neitt hljóðfæri þótt mér hafi boðist það heldur varð unglingauppreisn og eilífðargelgja til þess að ég hunsaði vilja og ráð foreldra minna. Ég syng mikið og dansa í eldhúsinu við alls konar tónlist; gömul dægurlög sem ég ólst upp við, t.d. lög Ellýjar og Vilhjlálms, popp og diskó, en ekki síður nýjustu slagarana sem unglingarnir fíla, elska remix, þjóðlög innlend og erlend, og svo mætti lengi telja.

Síðustu vikur hef ég fengið mikinn áhuga á klassískri tónlist, og hef sérlega gaman af að hlusta á Magnús Lyngdal velja Greatest hits af gulnuðum nótnablöðum á rás eitt. Nýlega hóf ég að æfa með Árkórnum, skemmtilegasta kór á landinu, og komst að því hvað það er gaman að syngja með öðrum og skapa samhljóm sem hefur heilandi áhrif á sál og líkama.

Við mamma fórum í Borgarleikhúsið í gær á leiksýninguna um Ellý sem nú er vegna mikillar eftirspurnar sýnd í takmarkaðan tíma Þetta er í annað sinn sem við sáum sýninguna, sem er frábær. Nýrri uppsetningin er lítillega breytt til batnaðar, meira er farið á dýpið; sársaukinn vegna drykkfelldra eiginmanna, fjarvista frá ungum börnum og áfalls við bróðurmissinn, virðist einhvern veginn meiri en áður. En tónlistin er jafnyndisleg og ljóst að þau systkinin Ellý og Vilhjálmur eiga sérstakan sess í huga fólks. Ekki var þurrt auga í salnum þegar fregnin um slysið í Lúxemborg barst Ellý og Björgvin Franz söng Söknuð. Sjálf man ég vel hver mikil áhrif skyndilegt fráfall Vilhjálms hafði á alla sem ég þekkti; segja má að ríkt hafi þjóðarsorg.

Heima á Akureyri var mikið hlustað á þau Ellý og allar plöturnar þeirra voru í rekka í stofunni og spilaðar daginn út og inn. Þau boðuðu líka alltaf komu jólanna á heimilinu. Plötur þeirra beggja seldust í bílförmum enda höfðaði tónlistin til fjölbreytts hóps hlustenda og gerir enn. Salurinn í gærkvöldi var troðfullur af ungum sem öldnum – nokkrar göngugrindur biðu upp við vegg eftir aðdáendum – en tónlistin höfðar til breiðs hóps og má segja að hún sé orðin sígild.

Allir fara leikarar vel með hlutverk sín í sýningunni en Katrín Halldóra er algjörlega frábær, það er eins og Ellý holdgerist á sviðinu og sjarminn streymir frá henni. Og Björgvin Franz fer algjörlega á kostum í sínum mörgu hlutverkum. Hann er Vilhjálmur með bartana, ungur og óöruggur, skrifar undir lélegan samning við SG hljómplötur, hann er KK og Raggi Bjarna með alla sína takta, breitt bros og húmor. Svo er þarna alvöru hljómsveit á sviðinu enda ekki annað boðlegt þegar fengist er við líf og tónlist dáðustu dægurlagasöngkonu landsins. Við mamma mælum með að ná sæti á einhverja af sýningunum sem framundan eru, þær verða samtals 258 og sú síðasta er 28. desember nk.

Hinsegin sýnileiki

Skáldsagan Ljósbrot hittir vel á lesendur nú þegar nýbúið er að kjósa forseta Íslands því hún fjallar öðrum þræði um forsetaframboð. En höfundur hefur sagt í viðtali að hugmyndin að bókinni hafi kviknað löngu fyrir forsetakosningarnar sl sumar. Og meginþemað er samkynhneigðar ástir. Samnefnd bíómynd sem verið er að sýna þessa dagana tengist bókinni ekkert!

Önnur aðalpersóna bókarinnar er Kolbrún sem fer í framboðsslag. Hún er frama- og fjölskyldukona með stóra drauma en tilveran snýst á hvolf þegar hún verður skyndilega hugfangin af konu og stefnir þar með öllu í voða. Hin aðalpersónan er Dóra sem elst upp við drykkju föður síns og fálæti móðurinnar og leitar huggunar hjá bestu vinkonunni en brátt kviknar ást á milli þeirra tveggja – ást sem Dóra er hvorki tilbúin til að gangast við né opinbera. Það er óvenjulegt við bókina Ljósbrot að ástir aðalpersónanna eru lesbískar. Ekki veitir af að sýna þannig söguheim líka í íslenskum bókmenntum – þar sem fyndni homminn og trukkalessan eru víðast heldur einsleitar persónur í aukahlutverkum. Það vantar tillfinnanlega meira af fjölbreytileika, ást og umburðarlyndi í þennan heim.

Sagan rennur vel og er þægileg aflestrar, sjónarhornið er til skiptis hjá Kolbrúnu og Dóru sem báðar standa í ströngu.  Sviðsetningar sem snúast um brasið við framboðið eru sannfærandi, teymið í kringum Kolbrúnu er á fullu að framleiða auglýsingar og hanna ímynd til að veiða atkvæði.  Katla heitir konan sem heillar Kolbrúnu. Hún sér um samfélagsmiðlana í framboðsteyminu, löngu komin út, hvílir sátt í sínu skinni. Orka og sjálfsöryggi geisla af henni. Orð hennar endurspegla skynsemi og fordómaleysi:

„Það besta sem ég hef gert var að koma út og ég myndi aldrei breyta því. Ég elska að vera lesbía,“ bætti hún við og brosið færðist yfir andlitið. Það var eitthvað við þetta orð sem sló Kolbrúnu út af laginu. Lesbía. Hún vissi að það var ekki skammaryrði og að það ætti ekki að vekja hjá henni nein sérstök viðbrögð. En hún gat ekki varist þeirri tilfinningu. Eins og þetta orð hefði einhverja stærri og meiri merkingu en flest önnur orð. Að minnsta kosti þegar það kom af vörum Kötlu.“ (69).

Sagan af Dóru og afneitun hennar á eigin tilfinningum er sögð af nærfærni og skilningi á feluleik og togstreitu við að koma út úr skápnum með tilfinningar sínar og kynhneigð. Það er mikið frelsi fólgið í því að hætta feluleik og sjálfshatri og losna við skömmina en það er stórt skref og ekki auðvelt. Unglingar t.d. ættu að geta haft mikið gagn af sögunni og speglað sig í aðstæðum.

„Dóra fann hvernig kökkur fór að myndast í hálsinum. Hún vildi að sjálfsögðu líka vera með Önnu. Tilfinningarnar sem hún fann voru ólíkar öllu sem hún hafði fundið áður. Svona átti henni að líða. En hún vissi samt að þetta væri rangt. Að minnsta kosti fyrir sumum. Þar á meðal foreldrum hennar. Hún hafði heyrt niðrandi tal um samkynhneigða heima hjá sér frá því hún mundi eftir sér. Hún hafði eflaust látið slík orð falla á einhverjum tímapunkti og í því fólst kannski mesta skömmin. Hún samsamaði sig heldur ekki með neinum samkynhneigðum konum. Konum sem voru lesbíur. Henni fannst orðið nánast skítugt. En Önnu virtist ekki líða eins. Hún virtist ekki vitund hrædd við að fólk vissi af þeim tveimur“ (112).

Ingileif Friðriksdóttir hefur áður sent frá sér barnabækur ásamt konu sinni um Úlf og Ylfu. Hún hlaut Uppreisnarverðlaunin 2023 fyrir að auka sýnileika hinsegin fólks í samfélaginu.. Það gerir hún svo sannarlega með þessari bók og því ber að fagna.