
Dísin Arwen

Dísin Arwen

Á leið út í gönguferð?
Það hefur gengið á ýmsu í hundalífinu síðustu daga. Fyrir rúmri viku fórum við Arwen út að ganga í roki og rigningu og vorum að togast á, ég er að kenna henni að troðast ekki fram fyrir mig, gera ekki árás á alla hunda og ketti sem hún sér eða hlaupa snuðrandi í hringi í gönguferðinni. Ekki vildi betur til en svo að ég skall kylliflöt í götuna með olnbogann á kaf í malbikið, hnakkinn og rófubeinið fengu sömuleiðis skell. Þessu fylgdi gríðarlegur sársauki fyrir utan sjóðheita bræði og niðurlægingu – en sem betur fer var svo vont veður að það var enginn áhorfandi að þessu. Ég hef gengið með umbúðir og teygjusokk um olnbogann í viku og það er fyrst í dag sem ég er ekki sárkvalin í hendinni. Í fyrradag birtist svo óboðinn gestur á stigaskörinni þegar við Arwen komum heim en það var allvígalegur loðköttur að vísitera í hverfinu. Á mig kom fát og ég stökk til og ætlaði að henda honum út áður en Arwen réðist á hann (en það skynsamlega í stöðunni hefði verið að loka hana inni fyrst) en kötturinn leit hvorki á mig sem bjargvætt sinn né lífgjafa heldur sem óvin ríkisins nr 1 og sökkti í mig hárbeittum klónum, orgaði og hvæsti og barðist um eins og sært ljón. Ég orgaði engu minna, sleit hann af mér og nú fór allt í hund og kött. Upp hófst eltingarleikur upp á líf og dauða sem endaði með því að mér tókst að handsama tíkina og loka hana inni í þvottahúsi og þeytti kettinum út á hlað í loftköstum með tilheyrandi orðbragði um skítlegt eðli hans sjálfs og kynþáttar hans. Kattarklórið á framhandleggjum mínum tók að bólgna svo og þrútna um kvöldið og til að gera langa sögu stutta neyddist ég til að leita á náðir heilsugæslunnar og endaði með sáraumbúðir, penisilín og stífkrampasprautu. Arwen er búin að vera doldið lúpuleg síðan þessir atburðir gerðust en við látum ekki nokkur sár eða væg taugaáföll spilla vinskapnum.

Bílafælin fegurðardís
Þá er þessi blauti og kaldi vetur búinn, alla vega að nafninu til. Sumarið komið, jafnblautt og kalt, ef marka má sumardaginn fyrsta. En hvað er betra en íslenskt sumar, ferskt og svalandi?
Á sumardagskránni er aðallega þetta: útivist og ferðalög í húsbílnum góða og framkvæmdir á svölum hússins. Planið er að fara í a.m.k. tvær gönguferðir með Heiðari og Signe auk hefðbundinna útilega með systrum mínum og Sossu, og að ferðast um Vestfirði í fylgd Einars og Gyðu (og Bessa). Einnig ætlum við í styttri ferðir á húsbílnum og þá reynir á Arwen Dís Brynjarsdóttur að vera til friðs þar til komið er á áfangastað. Hún vælir enn í bílnum, þessi elska, sem er stóralvarlegt mál þar sem við getum ekki haft hana með okkur í 3-6 tíma keyrslu á dag ef hún er ýlfrandi allan tímann.
Heima við þarf hins vegar bæði þarf að laga svalagólf og vegg og setja upp handrið, fjárfrekar og flóknar framkvæmdir sem hafa lengi setið á hakanum. Annasamt og skemmtilegt sumar framundan.

Fallegur dagur á Vatnsleysuströnd
Fallegur sunnudagur er brátt á enda, þorskflak í ofni og hrísgrjón krauma í skálduðum potti, hundslappadrífa liðast niður og Sommer er i fjernsynet i aften.
Við fengum okkur göngutúr á ströndinni í blíðunni í dag, Arwen til mikillar gleði en hún fékk að hlaupa og leika sér, laus og liðug. Hún er byrjuð með stæla þegar hún á að fara inn í bíl eftir útivistina, á fimmtudaginn vorum við á Nesjavallaleið og þá stakk hún hreinlega af, brokkaði bara framhjá og þóttist ekkert vilja með okkur hafa. Þá var nú „pabbi“ reiður. En nú settum við ólina á hana í tæka tíð svo hún komst ekki upp með neitt múður en hún reyndi það samt. Þótt hún sé falleg og blíð og mörgum kostum búin, hefur hún allmarga ósiði sem þarf að venja hana af. Til dæmis: að gelta og ryðjast niður stigann þegar dyrabjöllunni er hringt, að gelta að því sem hún sér út um gluggann, væla og sífra um athygli, að ýlfra í bílnum þangað til barið er bylmingshögg í búrið, að hlýða skipunum ekki alveg strax, að reyna að stjórna og toga í ólina í gönguferðum og gelta í tryllingi á hunda og ketti sem verða á vegi hennar. Það er ærinn starfi framundan.
Í dag kom Albert, hundaþjálfari Íslands, og sagði Arwen til syndanna. Fyrst var hún laus í bílnum og þegar hún vældi sprautaði hann vatni framan í hana. Eftir ca. 10 gusur hætti hún að væla. Svo setti hann hana í búr og breiddi teppi yfir búrið svo hún sæi ekki út (áreitin úr umhverfinu spenna hana upp). Þegar hún fór að væla barði hann bylmingshögg í búrið og sagði bannorð. Eftir 2-3 högg hætti hún að kvarta og heyrðist ekki í henni meir! Svo fór hann með hana í stuttan göngutúr og vandi hana af því að troðast fram fyrir og draga mann hálfhlaupandi á eftir sér. Þetta tók hann ca. hálftíma. Þetta er algjör snllingur, sér algjörlega inn í huga hundsins og gjörþekkir eðli hans. Nú þurfum við bara að halda þessu við, með aga og ákveðni og hrósi þegar við á. Þegar hún er búin að læra þetta almennilega ætlum við að æfa hana í að vera kyrra uppi þegar gestir koma, ekki gelta og ryðjast niður stigann að dyrunum, heldur bíða þar til gestunum þóknast að heilsa henni. Það er nefnilega gaman að vera hundur þegar hann veit til hvers er ætlast og að hann þarf ekki að hafa umsjón með öllu og stjórna heimilislífinu.
Við fögnuðum of snemma! Dísin Arwen hefur aftur tekið upp fyrri ósiði í bílnum og er nú fallin í ónáð hjá hundasálfræðingnum. Hún er mjög góð í að vera ein heima, liggur í bæli sínu og hlustar á rás eitt, sötrar vatn og nagar bein, hún er til fyrirmyndar í alla staði nema í bílnum. Hvað er til ráða?

Fílar sig ekki í bíl
Í dag fórum við upp fyrir Hellisheiðarvirkjun, gengum þar á góðan hól í blíðunni og nutum útsýnisins. Við vorum á leið til Óttars Haraldssonar í afmælisveislu í Holtunum. Óttar er flottur á því, hann á ekki bara afmæli á bjórdaginn heldur er hann líka með sundlaug í garðinum. Tíkin Arwen fékk að sjálfsögðu að skottast með. Við höfum verið að æfa hana í að vera til friðs í bílnum en í fyrsta skipti sem við fórum með hana vældi hún og spangólaði allan tímann. Nú er hún eins og ljós, situr kyrr eða liggur og dormar. Þeim, sem vilja læra að venja hunda af ósiðum, er bent á Brynjar hundasálfræðing!

Á toppnum

Frábært að fá að hlaupa frjáls úti í náttúrunni

Arwen hin fagra

Arwen Tumadóttir