Uppskriftir

Mínar eigin, ekki verið prófaðar á dýrum

Anne mad á íslensku

Ég horfi á allt danskt í sjónvarpinu. Nú er það Anne Mad sem ég sit slefandi yfir. Anne er ástriðufullur sjónvarpskokkur og nautnabelgur sem hefur skrifað 6 matreiðslubækur. Fyrr í kvöld var Nigella í sjónvarinu að sulla einhverju saman úr krukkum og dósum en Anne býr m.a.s. til sitt eigið hnetusmjör og er bara ligeglad.  Snilldarlax með sesamloki og andabringusalat með mangó er einfalt, hollt og gott, og nú á íslensku:

Andabringusalat með mangó

Ein sæmilega stór andabringa, olía til steikingar

Bringan er skorin þvert í tæplega fingurbreiðar sneiðar (með fitunni), sneiðarnar fyrst steiktar á pönnu og síðan marineraðar.

Marinering:  Smá hoisin-sósa, smá chili-sósa (sæt) og safi úr 1-2 læmi. Blandað saman í skál og kjötið látið kólna í marineringunni. Andabringusneiðunum er síðan raðað ofan á salatið

Salatið: Nokkrar lúkur af salati (t.d. rúkóla, spínat, iceberg o.fl.), nokkur myntu- og kóríanderblöð, læm-blöð (fást frosin), sítrónugras, chilipipar og vorlaukur, allt mjög smátt skorið, 1-2 mangó í bitum

Salatið sett á fat ásamt kryddjurtunum. Mangó skorið í bita og dreift yfir salatið. Síðan eru ylvolgar andabringusneiðarnar lagðar ofan á, safanum af bringunum og marineringunni hellt yfir og að lokum er smátt skornu  grænmetinu og kryddjurtunum stráð yfir.

Lax með sesamloki

1 vænt laxaflak, ristuð sesam- og sólblómafræ, sæt chilisósa, sæt soyasósa (ketjap), safi úr 1-2 læmi

Laxaflakið lagt á smjörpappír í ofnskúffu með roðhliðina niður. Fræblandan er ristuð á þurri pönnu þar til fræin verða stökk og gullin. Chili- og soyasósu og læmsafa blandað saman þar til úr verður mauk. Þykku lagi af maukinu er smurt ofan á laxaflakið, bakað í ofni við 200 í ca. 15-20 mín.

Mangóís

Nú er 6 vikna átakið í Hreyfingu búið og antisportistinn búinn að kaupa 6 vikur í viðbót. Enda orðin svo löguleg og liðug og búin að ná af mér tilætluðum 2 cm. Ísskápurinn okkar gaf upp öndina í gær og til að bjarga rjómaslettu og þroskuðu mangói frá eyðileggingu prófaði ég að gera mangóís eftir uppskrift sem ég fann á netinu. Ég átti ekki sítrónusafa sem gert er ráð fyrir í uppskriftinni en notaði smá steyttan rósapipar, mér finnst það mætti vera meiri rjómi og minni mjólk (skítt með alla centimetra), en hér er uppskriftin:

 
1  þroskað mangó, flysjað og steinhreinsað, skorið í bita
90g (hrá)sykur
2 matskeiðar hunang
2 matskeiðar sítrónusafi
50ml rjómi (má vera meiri rjómi)
200ml nýmjólk
1 eggjarauða

Maukið mangóið saman við sítrónusafann, sykurinn, hunangið, mjólkina og eggjarauðuna. Hrærið rjómanum saman við. Passið vel að allt sé vel blandað saman. Fryst (tekur 3-4 klst að frjósa). Það þyrfti að vera einhver góð sósa með þessu, einhver?

Mangóísinn gerði góða lukku

Kjúlli Kristjáns Jóhannssonar

Ein afar einföld, holl og góð uppskrift sem ég  rakst á í Fréttablaðinu 29. jan.sl. og prófaði óðara:

3-4  kjúklingabringur, smjör, ólífuolía, 1 sítróna, salt og (sítrónu)pipar.

Bringur skornar í þunnar sneiðar (flattar út) og slegnar létt niður svo þær verði þunnar. Kryddaðar og steiktar á pönnu úr samblandi af smjöri og olíu. Þegar bringurnar eru fullsteiktar er meira smjöri skellt á pönnna og þegar það er bráðið á að kreista yfir safa úr einni sítrónu: „ed ecco tutto é pronto!“ segir Kristján. Sítrónan gefur frábært bragð og gyllir kjúklingabringurnar og sítrónusmjörsósan sem verður til er dásamleg. Borið fram með hrísgrjónum og því sem vill. Ég prófaði þessa í sumarbústað um daginn og uppskar einróma lof.

Holl súkkulaðikaka

Fékk þessa hollu kökuuppskrift frá þjálfaranum í Hreyfingu, rosalega góð. Nú eru þrjár vikur búnar af átakinu, eitt kíló fór í viku tvö og hálft er komið aftur á sinn stað. Ég er nú ekki í neinni megrun en er mun lögulegri og liðugri og fíla mig í botn, rennsveitt í spinning, lóðalyftingum og magaæfingum.

Sunnudagssúkkulaðikaka

100 g möndlur, 100 g kókosmjöl, 2 msk rifið appelsínuhýði, 250 g döðlur, 2-3 msk hreint kakóduft, 1/2 msk hreint vanilluduft. Allt sett í matvinnsluvél og þjappað ofan í form og sett í frysti.  

Súkkulaðikrem

1 dl kaldpressuð ólífu- eða kókosolía, 1 dl hreint kakóduft, 1/2 dl agave síróp. Setjið olíuna í skál sem er svo sett ofan í heitt vatn svo hún verði fljótandi. Hrærið svo restinni saman við og berið ofan á kalda kökuna.

Morgunmatur

Spínatdrykkur

1 lúka frosið spínat, 1/2-1 banani,  2-3 msk frosin ber, 6-8 bitar ávextir (frosnir eða ferskir, ég notaði frosna mangó- og papayabita sem fást í handhægum pokum í Kosti og nokkra niðursoðna ananasbita frá því í gær), smá múslí og ca hálft glas af köldu vatni. Allt sett í mixer og sötrað á eftir lýsinu.

Þegar spínat er farið að láta á sjá í ísskápnum og dugar ekki lengur í salatið er gott sparnaðar- og húsráð að setja það í nokkra litla poka inn í frysti og nota það svo útí drykki og súpur. Ég er bara nýbúin að átta mig á að það er hægt að frysta spínat.

Döðlukjúklingur

Þessi uppskrift varð til í pottunum um helgina, einföld, ódýr og bragðið kemur skemmtilega á óvart!

Tvær til þrjár kjúklingabringur (ein á mann, mega vera frosnar)

Sæt kartafla, 1-2 tómatar, 1 laukur, 3-5 hvítlauksrif,  1 epli (með hýðinu), 10-15 döðlur

3-4 msk af Patak´s Madras Curry Paste, (cumin and chili, hot) eða öðru góðu karríi. Hræra það út í slatta af matarolíu

Aðferð: Setja bringurnar í eldfast mót. Skera grænmetið gróft niður og dreifa yfir, demba svo döðlunum ofan á, þær eru aðalmálið í þessum rétti. Hella karríolíumaukinu yfir. Pipra örlítið. Inn í ofn, þar til bringurnar eru eldaðar í gegn, gott að hafa álpappír yfir mótinu, döðlurnar mega ekki brenna. Hrísgrjón með og spínat ef vill.

Engin jól eru án jólaboða

Við systur skiptumst á að halda  jólaboð á annan í jólum fyrir stórfjölskylduna þar sem mamma og pabbi eru heiðursgestir. Í ár var boðið hér í Hrauntungu og var glatt á hjalla. Gunna sá um glæsilegan forrétt, Brynjar eldaði dýrindis nautasteik með eðalsósu eftir kúnstarinnar reglum og Þura bauð uppá berjaís undir heitum marenshjúpi. Svo var farið í pakkaleikinn fræga og gantast fram á kvöld. Allir voru mættir nema Óttar V sem er í vellystingumí sveitinni en Arnþór Brynjarsson sá um að halda uppi stuði í hans stað. Hér er uppskrift af kartöflumús sem var í boðinu og er einstaklega jólaleg (sjá fremst á myndinni í ferköntuðu eldföstu móti):

JÓLALEG KARTÖFLUMÚS MEÐ PEKANHNETUM

3-4 meðalstórar sætar kartöflur (1 kg), 70 g smjör, 1 msk púðursykur, 1 tsk kanell, negull á hnífsoddi og slatti af pekanhnetum. Aðferð: Skræla kartöflurnar og skera í bita, sjóða í léttsöltu vatni í 10-15 mín. Stappa með gaffli eða hræra örstutt í Kitchen Aid. Blanda saman bræddu smjöri, púðursykri, kanel og negul (kanli og negli?) og hræra útí kartöflumúsina. Setja í eldfast mót, strá pekanhnetum yfir og baka í 10-15 mín, ca. 200°C.

Áströlsk bomba með karamellukremi

235g döðlur

1 tsk matarsódi

120g mjúkt smjör

5 msk sykur

2 stk egg

3 dl hveiti

½ tsk salt

½ tsk vanilludropar

1 1/3 msk lyftiduft

Þeytið smjör og sykur vel saman og bætið eggjunum í, einu í senn. Þeytið vel og blandið síðan hveitinu, saltinu og vanilludropunum saman við. Bætið lyftiduftinu út í. Setjið döðlurnar í pott og látið vatn fljóta yfir. Látið suðuna koma upp, slökkvið á hitanum og látið döðlumaukið standa í pottinum í 3 mínútur. Bætið matarsódanum útí. Hellið ¼ bolla af döðlusoðinu út í og hrærið varlega. Blandið öllu döðlusoðinu útí að lokum. Smyrjið u.þ.b. 8 cm hátt lausbotna form, sem er 24 cm í þvermál, og setjið deigið í formið. Bakist í 30 – 40 mín við 180°C. Berið fram með þeyttum rjóma og karamellusósu:

120g smjör

115g  púðursykur

½ tsk vanilludropar

¼ bolli rjómi

 Soðið við vægan hita í 3 mínútur. Hrærið í á meðan.

Hrísgrjónagrautur

Í kvöld er hnausþykkur hrísgrjónagrautur á borðum, með rúsínum og kanel, ásamt digrum blóðmörskepp. Galdurinn við góðan graut er að láta hrísgrjónin (nota grautargrjón, ekki venjuleg hrísgrjón og alls ekki eitthvað basmati – jasmín eða neitt slíkt)  liggja í vatni í amk 1-2 klst áður en grauturinn er soðinn. Sjóða svo hægt og lengi, hræra oft og ekki spara mjólkina. Alls ekki fara eftir uppskrift Helgu Sig (1991:36) sem reiknar sér í mesta lagi hálftíma í verkið. Mikla þolinmæði og alúð þarf í þennan rétt sem ég er nú alls ekki viss um að sé sérlega hollur en hann er ódýr, bragðgóður og saðsamur.

Snilldarsalat Söru P

Mexíkó-ostur, púrrulaukur,  paprika, vínber og sýrður rjómi.

Býsna frjálsleg hlutföll grænmetis og ávaxta en ca. 1/4 púrrulaukur ætti að nægja. Smátt skorið og hrært saman við sýrða rjómann.  Gott með kexi og brauði. Fleiri girnileg ostasalöt í litunarklúbbinn, saumóinn og brönsinn  er að finna hér.

Góður í salöt, súpur og sósur

Góður í salöt, súpur og sósur