Álfrún Gunnlaugsdóttir

Vandinn að lifa

Persónur Fórnarleika eru allar í vondri stöðu í lífsins tafli. Ógæfa fjölskyldu viðhelst mann fram af manni, vegna skapgerðarbresta, bælingar eða misskilinna fórna. Álfrún Gunnlaugsdóttir, einn af okkar fremstu rithöfundum, sendir frá sér magnaða fjölskyldusögu.

Rithöfundurinn og friðarsinninn Magni Ríkharðs- og Regínuson hyggst rekja harmsögu ættar sinnar og skrifa það sem hann kallar hina „óskálduðu skáldsögu“ með því að nota upptökur á snældum sem móðir hans lét eftir sig. Það reynist þó flóknara en hann hélt:

„Þó að persónur í lífinu og persónur í skáldskap eigi það sammerkt að rekast hver á aðra og ef til vill kynnast, miðast sú tilviljun í skáldskapnum að settu marki. Skáldsaga stefnir ævinlega í átt að tilteknum endalokum. Samverkanin milli persóna hefur sinn tilgang, og persónur opna ekki munninn án þess að það hafi merkingu eða afleiðingu fyrir framvindu sögunnar. Þessu er auðvitað öðruvísi háttað í lífinu. Ég hafði ímyndað mér að ég gæti fyllt upp í eyðurnar milli hins raunverulega lífs og hins skapaða lífs, en reyndist erfitt, því að persóna í skáldskap verður að hafa til að bera vissa samkvæmni í hegðun og hugsun, til að tekið sé fyllsta mark á henni (198-9)…“

Mæðgur takast á

fornarleikar_72Allt sitt líf hefur Magni tiplað á tánum í kringum drykkfellda móður sína. Hún sneri ólétt og próflaus heim frá Spáni á dögum Francos og átti erfitt með að fóta sig í tilverunni. Móðir hennar, Arndís, er fálát og aðfinnslusöm í viðleitni sinni til að vernda dóttur sína og sjálfa sig eftir að Guðgeir, eiginmaður hennar, framdi sjálfsmorð. Samskipti mæðgnanna eru erfið og þvinguð, vonbrigðin svíða og gamall sársauki er aldrei gerður upp.

Fórnarleikar er breið, epísk ættarsaga sem nær yfir fimm kynslóðir. Sagan er margradda, sjónarhornið hjá persónunum á víxl  og sögusamúðinni jafnt útdeilt en Magni hefur alla þræði í hendi sér. Atburðir og minningar úr fortíðinni lifna við og raðast í heilsteypta mynd af venjulegu fólki sem glímir við vandann að lifa. Saga Guðgeirs og Arndísar er fyrirferðarmest og áhugaverðust, hún gerist á stríðsárunum þegar erlendir straumar flæða að íslensku samfélagi sem einkennist af þröngsýni og kyrrstöðu. Það hillir undir önnur viðhorf og ný tækifæri sem kveikja von í brjósti ungu hjónanna:

„Fátæktin hafði verið reglan, ekki undantekningin, og það kom við auman blett í brjóstinu. Fátæktin hafði lokað svo mörgum dyrum og skilið svo fáar eftir opnar. En það hafði verið unnið að því  sigggrónum höndum að gera hana burtræka svo framtíðin blasti við með alla sína möguleika og splunkunýja siðmenningu. Eyjarembingurinn færi sína leið í fylgd með þröngsýninni og sjálfumgleðinni“  (59).

En björtu vonirnar lognast út af þegar Guðgeir er þvingaður til að taka við fyrirtæki föður síns og Arndís er löngum þrúguð af ábyrgð, skyldum og réttlætiskennd. Ekki er annað hægt en að finna til með þessum harmrænu persónum sem fara í gegnum lífið á hnefanum og færa fórnir sem engum er þægð í.

Hverfulleikinn

Víða eru áhugaverðar pælingar um skáldskap í verkinu, um hið forna og þögla samkomlag höfundar og lesanda (200), um mörk veruleika og ímyndunar og um hverfulleikann; hvað er eftir þegar allir eru farnir, myndirnar fölnaðar og raddirnar þagnaðar?

„Skrýtið annars … rödd á spólu tengist ekki líkama, líkt og hún hafi öðlast eigið líf. Röddin varð eftir þegar líkaminn fór, og svipaður draugagangur á sér stað með ljósmyndir. Á þeim er andartakið fryst að eilífu þó að allir séu farnir, og verða þar þangað til þetta sama andartak, svipbrigðin, brosið, þurrkast endanlega út. Hið sama gildir um hljóð sem tekið er upp, að lokum verður aðeins þögnin eftir“ (11).

Djúp viska

Fórnarleikar er bók þrungin djúpri visku, yfir henni svífur einhvers konar æðruleysi gagnvart örlögunum og boðskapur sögunnar á erindi við okkur öll sem lesendur og manneskjur. Það er mikilvægt hverri manneskju að missa ekki sjónar af sögu sinni og minningum. Og það er engum hollt að brjótast áfram í þrjóskulegri einsemd: „Maður var aldrei búinn undir neitt, það var meinið, varð að fóta sig einn, skilja flestallt upp á eigin spýtur eins og það væri í fyrsta sinn í sögu mannkyns sem það gerðist“ (88). Erfið samskipti, þögn og tengslaleysi geta haft afleiðingar út yfir gröf og dauða.

Magni virðist ætla að skora hverfulleikann á hólm og rjúfa vítahringinn því saga hans „ber í sér frjókorn annars konar lífs“ en á sama tíma þiggur hann fórn konu sinnar. Það er því ekki mikil von til að kynslóðirnar muni nokkurn tíma læra af reynslu og mistökum annarra.

Forlagið, 2016

216 bls.

10 magnaðar skáldsögur eftir konur

Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagn­rýn­andi Kvennablaðsins teygir sig í bókahillu og tekur fram tíu skáld­sögur eftir íslenskar konur.

Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir 2003

Nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernsku- og skáldævisagna sem karlar hafa verið iðnir við að fylla í gegnum árin. Upp­eldisaðstæður einkennast sífellt meir af teygjanlegum fjöl­skyldu­böndum; stjúpforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd sem fólk glímir við ævina á enda.

Blátt blóð
Oddný Eir 2015

Femínískt og persónulegt verk. Fjallað er um egglos, getnað, með­göngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, og hið kven­lega og karllega í lífinu. Sorg vegna barnleysis er lýst hisp­urs­laust og sagt frá ást, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það er ekki þurrt auga í salnum.

Dísusaga
Vigdís Grímsdóttir 2013

Sagan fjallar um skáldskap, ást og ofbeldi. Dísa og Gríms hafa undirtökin á víxl og reyna að yfirgnæfa hvor aðra. Þegar Dísa var 10 ára var hún beitt kynferðisofbeldi sem hafði mikil áhrif á sálarlíf hennar og persónuleika. Sakleysið var frá henni tekið en afneitun, þöggun og skömm fylgja henni hvert fótmál. Um leið er þetta saga um það að verða skáld og rithöfundur, um það að elska og skrifa til að geta haldið áfram með líf sitt.

Hvítfeld
Kristín Eiríksdóttir 2012

Ættar- og fjölskyldusaga sem gerist í Reykjavík á níunda áratugnum. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegn­sýra líf fjölskyldu Jennu sem sjálf er sjúklega metnaðargjörn. Hún spinnur upp sögur af velgengni sinni í útlöndum til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og lesandinn flækist í lygavef hennar. Persónurnar eru breyskar og harmrænar, glíma við fíkn og áföll sem aldrei var unnið úr og lifa í blekkingu sem viðheldur óhamingjunni. Um leið er sagan samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna.

Jöklaleikhúsið
Steinunn Sigurðardóttir 2002

Sagan gerist á Papeyri, vinabæ rússneska skáldsins Antons Tsjékovs. Frumsýna á eitt leikrita Tsjekovs með karlmenn í öllum aðalhlutverkum og hefjast þrotlausar leikæfingar með stór­skemmtilegum uppákomum. Kynferði og kynhneigð eru helstu þemu sögunnar eða öllu heldur afkynjun og kven­leiki sem valda því að allt fer á hvolf hjá íbúum Papeyrar. Leiftrandi fyndin saga þar sem karl- og kveneðli er sýnt í íron­ísku ljósi, gróðahyggja og listamannslund takast á með­an ástin ýmist blómstrar eða deyr.

Óreiða á striga
Kristín Marja Baldursdóttir 2007

Mikil kvennasaga, um sterkar konur og sjálfstæðar. Femínísk tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tengjast kvenfrelsisbaráttu, samstöðu og skyldum sem lífið skaffar konum. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið geti verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár.

Rán
Álfrún Gunnlaugsdóttir 2008

Hér er fjallað um tíma, fjarlægð og minningar. Rán hefur allt sitt líf verið á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd. Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjóna­bandi en áttar sig á því á gamals aldri að það hefur verið henni dýrkeypt. Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu. Einstaklega vel skrifað, af skapandi táknsæi og listfengi.

Snaran
Jakobína Sigurðardóttir 1968

Frásagnarform Jakobínu var einsdæmi á sínum tíma en hún var módernisti og einn af merkustu rithöfundum Íslendinga. Snaran er eintal manns sem lætur dæluna ganga og endurspeglar orðræðu um pólitík samtímans. Sjálfur er hann leiðindapúki og skræfa, afsprengi samfélags þar sem auðvald og eftirlit halda fólki í helgreipum. Jakobína er íslenskur Orwell með myrka framtíðarsýn sem illu heilli færist nær því að rætast með ári hverju.

Tryggðapantur
Auður Jónsdóttir 2007

Áleitin og pólitísk saga um vald og valdaleysi, ríkidæmi og fátækt. Söguna má lesa sem allegóríu um flóttafólk og innflytjendur sem er eitt brýnasta úrlausnarefni samfélags þjóðanna um þessar mundir. Skýr og mikilvægur boðskapur sem vekur til umhugsunar.

Undantekningin
Auður Ava Ólafsdóttir 2012

Meistari femínískra tákna, orðræðu og margræðni. María stendur frammi fyrir skilnaði, veltir fyrir sér orsaka­sam­henginu og hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Perla sem býr í kjallaranum er dvergur og sálgreinandi rithöfundur sem kemur til skjalanna með nýja sýn á óreiðuna. Kyn og kynhlutverk eru til umræðu ásamt ástinni og listinni og um leið bítur sagan í skottið á sér með vísunum í heimspeki og sálfræði, skáldskapinn og tilurð hans.