Steinunn Sigurðardóttir

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021

Staðir og stef

Sigurdardottir1.jpg

Mynd: toutelisande.fr

Nýjasta bók Steinunnar Sigurðardóttur, Af ljóði ertu komin, er sú níunda í röð ljóðabóka hennar frá því hún kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1969. Tæp 10 ár eru síðan Steinunn sendi síðast frá sér ljóðabók svo aðdáendur hennar voru orðnir ansi langeygir eftir molum frá drottningunni. Þeir verða ekki sviknir af nýju bókinni. Nú er örstutt í að að það verði hálf öld síðan Sífellur, fyrsta ljóðabók Steinunnar, kom út og því finnst mér tilvalið að lesa eitt ljóðanna úr henni.

„Nú skal aðgát höfð
og fólk einungis sært af lipurri einurð og umhyggju,
því nægar eru þær fyrir
þjáningar mannssálarinnar
já sízt á þær bætandi
svo hjálpi mér guð“

Þarna eru þau þegar mætt, kunnugleg stefin; íronía, orðaleikir og vísanir sem síðar urðu meðal helstu höfundareinkenna Steinunnar. Gagnrýnendur tóku bókinni sæmilega en fæstir áttu von á hinum glæsta ferli þessarar nítján ára gömlu skáldkonu.

Óendanleikinn allt um kring

Nýja ljóðabókin er tileinkuð einu flottasta og mest kvótaða skáldi módernismans á Íslandi, Sigfúsi Daðasyni, sem er sjálfsagt mjög sáttur við þann heiður. Bókin skiptist í nokkra hluta eða ljóðaflokka sem tengjast hafi og ást, dauða og sorg. Fyrst eru Siglingaljóð, sem þó eru engir sjómannavalsar. Endilöng manneskja í áralausum bát kemst að því að ástin sem hún þáði var stærri en sú sem hún gaf og að það er ekki alltaf land fyrir stafni, stundum er bara óendanleikinn allt um kring.

Ljóðið „Siglandi“ hittir beint í mark með taktföstum hljómi og hrynjandi og  hnyttnum myndhverfingum, heilsteyptri nýgervingu, um tilfinningarnar sem koma til manns á viðeigandi fleytum, heyrum brot úr því:

„Allt kemur það siglandi til mín:
Síðbúna Ástin á manndrápsfleyi.
Kæruleysispramminn.
Óstöðvandi gufuskipið Sorg.
Dauðinn á tundurspillinum.
Kemur Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu.
Og Unaðurinn á flotholtinu samsíða.“ (15)

Írónían aldrei langt undan

Í næsta hluta bókarinnar kemur nóvember við sögu í öllum ljóðunum. Og allt er þar forgengilegt, meira að segja „The Girl from Ipanema“, sem bregður fyrir,  sú sem er hávaxin og sólbrún, ung og elskuleg í samnefndu dægurlagi, það sér á henni eins öllu öðru, allt hverfur, allt fer…

Í þeim hluta sem ber nafnið „Um allt og ekkert þvert“, hefjast ljóðin á einmitt orðunum Allt, Ekkert og Þvert. Þetta eru heimspekileg ljóð um kunnugleg stef, um tímann og fleira, og íronían sem Steinunn er þekkt fyrir að beita svo listilega er ekki langt undan:

„Allt er fyrirhöfn
að klína marmelaði á brothætt tekex, tjónka við rugludalla, búa sig á ballið, skreppa á klóið enn eina ferðina,
mála vegginn ófaglærður.

Af því að allt er fyrirhöfn
er maðurinn alltaf þreyttur;

eilíflega á leiðinni að leggja sig.

Þó vill hann allt annað en það þegar tími er kominn til að
leggja sig alveg.

Sitjandi upp við dogg heldur hann dauðahaldi í líftóruna.
Neitar að leggjast út af.

Það er mesta fyrirhöfnin þegar verst stendur á.

Því þá er maðurinn alverst í stakk búinn til að standa
í stórræðum
þegar deyja skal.

Loksins
Eftir lífsins óbilandi fyrirhöfn og málningarbras.“ (43)

Ísmeygileg kaldhæðni kemur í veg fyrir væmni án þess að breiða yfir boðskapinn. Í ljóðaflokknum eru líka þessar íhugulu hendingar sem sitja í manni:

„Af því að ekkert gerist um leið og það gerist,
Er lífið samsett úr andartökum sem við missum af“ (50)

Staðir eru Steinunni hugleiknir í skáldskap, og hér má finna staði fyrirheita, óskastaði, nafnlausa staði og eyðistaði. Kaflinn „Staðbundin ljóð“ sýnir kunnuglega hjartastaði sem eru myndrænir og eiga sér sögu, eins og Vatnsmýrin, Akureyri og Mokka. Í samnefndu ljóði er Ísjakaskipstjóri við Labrador að pæla í þessum fallegu ljóðlínum: „Enn er hjartað bundið í hafi, eyðimörkinni bundið, náttstað og eldi, sandrifi meðfram stjörnum“ (31). Áðurnefndur Sigfús hefði verið ánægður með þetta.

Dauðinn fer í Sundhöllina

Í þeim hluta sem kallast „Hinstu rök“ stígur dauðinn fram sem elskhugi, prakkari, flagari og fyllibytta. Þetta er hefðbundin myndhverfing sem á sér djúpar og alþjóðlegar rætur í bókmenntasögunni. Mynd Steinunnar af kauða er máluð íslenskum sauðalitum, hann fer í Sundhöllina með rakdótið og svo í Alþýðuhúsið með pela í buxnastrengnum. Þótt við reynum að forðast hann, verður hann á vegi okkar um síðir og býður upp í hinsta dans. Þetta hljómar eins og gömul tugga, en það er eitthvað við þetta.

„Dánir vinir“ er ísmeygilega kaldhæðinn ljóðaflokkur eins og sést af eftirfarandi broti sem er mjög Steinunnarlegt: „Dánir vinir vita ekkert í sinn haus, ekki um eftirleikinn, og það er eitt af því sem er svo þreytandi við þá“ (58).

Síðasti hlutinn er svo „Öldutrall“, gullfalleg ljóð þar sem hverflyndar öldur tralla og fjarræn golan sönglar um sorg og söknuð.

Lagt á djúpið

Ljóð Steinunnar Sigurðardóttur eru útpæld, full af einhverju fallegu og ljúfu, bæði lífsreynslu og lífsgleði. Sígild þemu eins og ástin, dauðinn og tíminn sem gætu virkað þreytt og máð, verða alltaf eins og ný í hennar meðförum. Ljóðin eru hlý, gefandi, heimspekileg og mannbætandi. Hún hefur frábært vald á tungumálinu, gjörþekkir mátt orðsins, kraft þess og kynngi. Þótt kímnin sé að vanda með í för liggur sorgin líka „í loftinu allar götur“ – og tengist við æskustaði, Blágresisbrekku og Hrauntjarnir (66).

Af ljóði ertu komin, (athugið að í titlinum er talað til kvenkynsins) er sérlega heilsteypt ljóðabók, hér er ekkert grunnsævi eða gutl, það er lagt á djúpið. Eini gallinn er kannski sá að hún er of stutt, hvert orð og hvert ljóð vandlega valið – við viljum alltaf meira.

Bókmenntagagnrýni · Menning · Víðsjá, 6. janúar 2017

10 magnaðar skáldsögur eftir konur

Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagn­rýn­andi Kvennablaðsins teygir sig í bókahillu og tekur fram tíu skáld­sögur eftir íslenskar konur.

Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir 2003

Nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernsku- og skáldævisagna sem karlar hafa verið iðnir við að fylla í gegnum árin. Upp­eldisaðstæður einkennast sífellt meir af teygjanlegum fjöl­skyldu­böndum; stjúpforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd sem fólk glímir við ævina á enda.

Blátt blóð
Oddný Eir 2015

Femínískt og persónulegt verk. Fjallað er um egglos, getnað, með­göngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, og hið kven­lega og karllega í lífinu. Sorg vegna barnleysis er lýst hisp­urs­laust og sagt frá ást, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það er ekki þurrt auga í salnum.

Dísusaga
Vigdís Grímsdóttir 2013

Sagan fjallar um skáldskap, ást og ofbeldi. Dísa og Gríms hafa undirtökin á víxl og reyna að yfirgnæfa hvor aðra. Þegar Dísa var 10 ára var hún beitt kynferðisofbeldi sem hafði mikil áhrif á sálarlíf hennar og persónuleika. Sakleysið var frá henni tekið en afneitun, þöggun og skömm fylgja henni hvert fótmál. Um leið er þetta saga um það að verða skáld og rithöfundur, um það að elska og skrifa til að geta haldið áfram með líf sitt.

Hvítfeld
Kristín Eiríksdóttir 2012

Ættar- og fjölskyldusaga sem gerist í Reykjavík á níunda áratugnum. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegn­sýra líf fjölskyldu Jennu sem sjálf er sjúklega metnaðargjörn. Hún spinnur upp sögur af velgengni sinni í útlöndum til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og lesandinn flækist í lygavef hennar. Persónurnar eru breyskar og harmrænar, glíma við fíkn og áföll sem aldrei var unnið úr og lifa í blekkingu sem viðheldur óhamingjunni. Um leið er sagan samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna.

Jöklaleikhúsið
Steinunn Sigurðardóttir 2002

Sagan gerist á Papeyri, vinabæ rússneska skáldsins Antons Tsjékovs. Frumsýna á eitt leikrita Tsjekovs með karlmenn í öllum aðalhlutverkum og hefjast þrotlausar leikæfingar með stór­skemmtilegum uppákomum. Kynferði og kynhneigð eru helstu þemu sögunnar eða öllu heldur afkynjun og kven­leiki sem valda því að allt fer á hvolf hjá íbúum Papeyrar. Leiftrandi fyndin saga þar sem karl- og kveneðli er sýnt í íron­ísku ljósi, gróðahyggja og listamannslund takast á með­an ástin ýmist blómstrar eða deyr.

Óreiða á striga
Kristín Marja Baldursdóttir 2007

Mikil kvennasaga, um sterkar konur og sjálfstæðar. Femínísk tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tengjast kvenfrelsisbaráttu, samstöðu og skyldum sem lífið skaffar konum. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið geti verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár.

Rán
Álfrún Gunnlaugsdóttir 2008

Hér er fjallað um tíma, fjarlægð og minningar. Rán hefur allt sitt líf verið á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd. Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjóna­bandi en áttar sig á því á gamals aldri að það hefur verið henni dýrkeypt. Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu. Einstaklega vel skrifað, af skapandi táknsæi og listfengi.

Snaran
Jakobína Sigurðardóttir 1968

Frásagnarform Jakobínu var einsdæmi á sínum tíma en hún var módernisti og einn af merkustu rithöfundum Íslendinga. Snaran er eintal manns sem lætur dæluna ganga og endurspeglar orðræðu um pólitík samtímans. Sjálfur er hann leiðindapúki og skræfa, afsprengi samfélags þar sem auðvald og eftirlit halda fólki í helgreipum. Jakobína er íslenskur Orwell með myrka framtíðarsýn sem illu heilli færist nær því að rætast með ári hverju.

Tryggðapantur
Auður Jónsdóttir 2007

Áleitin og pólitísk saga um vald og valdaleysi, ríkidæmi og fátækt. Söguna má lesa sem allegóríu um flóttafólk og innflytjendur sem er eitt brýnasta úrlausnarefni samfélags þjóðanna um þessar mundir. Skýr og mikilvægur boðskapur sem vekur til umhugsunar.

Undantekningin
Auður Ava Ólafsdóttir 2012

Meistari femínískra tákna, orðræðu og margræðni. María stendur frammi fyrir skilnaði, veltir fyrir sér orsaka­sam­henginu og hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Perla sem býr í kjallaranum er dvergur og sálgreinandi rithöfundur sem kemur til skjalanna með nýja sýn á óreiðuna. Kyn og kynhlutverk eru til umræðu ásamt ástinni og listinni og um leið bítur sagan í skottið á sér með vísunum í heimspeki og sálfræði, skáldskapinn og tilurð hans.

 

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Fyrir Lísu

Fyrir Lísu„Gott ætti sá sem væri með abstrakt sál. Mín er meira konkret og hún er svo illa lömuð greyið að hún er afskaplega mikið fyrir. Ég er alltaf að detta um hana. Svo reyni ég að standa upp. Mér gengur best þegar ég er kyrr. Í gröfinni verð ég mest kyrr. Og þá verður loksins búið að jarða afturgönguna í mér.“ (129-130)

Segir Lísa sem ásamt litla bróður var misnotuð af föður sínum um árabil. Martin Montag álpaðist í bílskúrinn til pabba hennar þegar hann var 8 ára saklaus drengur og er síðan stórskemmdur á sálinni. Hvort í sínu lagi reyna þau Lísa að tjasla saman brotunum og lifa eðlilegu lífi og taka til sinna ráða þegar leiðir þeirra liggja saman. Bók Steinunnar Sigurðardóttur, framhaldið af Jójó, Fyrir Lísu, er full af sársauka. Þemað er siðferði og afleiðingar kynferðisofbeldis á fórnarlambið og aðstandendur þess, langvinn áhrif á ástarsamband, vináttu og fjölskyldu. Martin treystir engum, vill ekki eignast börn, hann pínir líkama sinn með áti og svelti og hlaupum og höndlar ekki snertingu, ekki einu sinni frá Petru, yndislegri eiginkonu sinni. Enginn subbuskapur er í bókinni, engar ofbeldislýsingar, heldur bara sálarkvöl sem lýst er á nærfærinn og ljóðrænan hátt. Samtölin eru skrýtin enda persónurnar sér á parti en þau eru skemmtileg og fyndin þótt undir búi átakanleg sorg. Ástin í ýmsum myndum er viðfangsefni sem er Steinunni hugleikið og hún fer afar vel  með. Eins og alltaf í bókum Steinunnar er nóg af rauðvíni, ostum og góðum mat, klassískri tónlist og notalegri stemningu sem er í senn stundarfró og flótti fyrir hrjáðar sögupersónur. Bókin sækir á mann að lestri loknum og smellpassar svona svaðalega í fjölmiðlaumræðuna akkúrat núna.