Auður Ava Ólafsdóttir

10 magnaðar skáldsögur eftir konur

Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagn­rýn­andi Kvennablaðsins teygir sig í bókahillu og tekur fram tíu skáld­sögur eftir íslenskar konur.

Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir 2003

Nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernsku- og skáldævisagna sem karlar hafa verið iðnir við að fylla í gegnum árin. Upp­eldisaðstæður einkennast sífellt meir af teygjanlegum fjöl­skyldu­böndum; stjúpforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd sem fólk glímir við ævina á enda.

Blátt blóð
Oddný Eir 2015

Femínískt og persónulegt verk. Fjallað er um egglos, getnað, með­göngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, og hið kven­lega og karllega í lífinu. Sorg vegna barnleysis er lýst hisp­urs­laust og sagt frá ást, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það er ekki þurrt auga í salnum.

Dísusaga
Vigdís Grímsdóttir 2013

Sagan fjallar um skáldskap, ást og ofbeldi. Dísa og Gríms hafa undirtökin á víxl og reyna að yfirgnæfa hvor aðra. Þegar Dísa var 10 ára var hún beitt kynferðisofbeldi sem hafði mikil áhrif á sálarlíf hennar og persónuleika. Sakleysið var frá henni tekið en afneitun, þöggun og skömm fylgja henni hvert fótmál. Um leið er þetta saga um það að verða skáld og rithöfundur, um það að elska og skrifa til að geta haldið áfram með líf sitt.

Hvítfeld
Kristín Eiríksdóttir 2012

Ættar- og fjölskyldusaga sem gerist í Reykjavík á níunda áratugnum. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegn­sýra líf fjölskyldu Jennu sem sjálf er sjúklega metnaðargjörn. Hún spinnur upp sögur af velgengni sinni í útlöndum til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og lesandinn flækist í lygavef hennar. Persónurnar eru breyskar og harmrænar, glíma við fíkn og áföll sem aldrei var unnið úr og lifa í blekkingu sem viðheldur óhamingjunni. Um leið er sagan samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna.

Jöklaleikhúsið
Steinunn Sigurðardóttir 2002

Sagan gerist á Papeyri, vinabæ rússneska skáldsins Antons Tsjékovs. Frumsýna á eitt leikrita Tsjekovs með karlmenn í öllum aðalhlutverkum og hefjast þrotlausar leikæfingar með stór­skemmtilegum uppákomum. Kynferði og kynhneigð eru helstu þemu sögunnar eða öllu heldur afkynjun og kven­leiki sem valda því að allt fer á hvolf hjá íbúum Papeyrar. Leiftrandi fyndin saga þar sem karl- og kveneðli er sýnt í íron­ísku ljósi, gróðahyggja og listamannslund takast á með­an ástin ýmist blómstrar eða deyr.

Óreiða á striga
Kristín Marja Baldursdóttir 2007

Mikil kvennasaga, um sterkar konur og sjálfstæðar. Femínísk tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tengjast kvenfrelsisbaráttu, samstöðu og skyldum sem lífið skaffar konum. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið geti verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár.

Rán
Álfrún Gunnlaugsdóttir 2008

Hér er fjallað um tíma, fjarlægð og minningar. Rán hefur allt sitt líf verið á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd. Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjóna­bandi en áttar sig á því á gamals aldri að það hefur verið henni dýrkeypt. Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu. Einstaklega vel skrifað, af skapandi táknsæi og listfengi.

Snaran
Jakobína Sigurðardóttir 1968

Frásagnarform Jakobínu var einsdæmi á sínum tíma en hún var módernisti og einn af merkustu rithöfundum Íslendinga. Snaran er eintal manns sem lætur dæluna ganga og endurspeglar orðræðu um pólitík samtímans. Sjálfur er hann leiðindapúki og skræfa, afsprengi samfélags þar sem auðvald og eftirlit halda fólki í helgreipum. Jakobína er íslenskur Orwell með myrka framtíðarsýn sem illu heilli færist nær því að rætast með ári hverju.

Tryggðapantur
Auður Jónsdóttir 2007

Áleitin og pólitísk saga um vald og valdaleysi, ríkidæmi og fátækt. Söguna má lesa sem allegóríu um flóttafólk og innflytjendur sem er eitt brýnasta úrlausnarefni samfélags þjóðanna um þessar mundir. Skýr og mikilvægur boðskapur sem vekur til umhugsunar.

Undantekningin
Auður Ava Ólafsdóttir 2012

Meistari femínískra tákna, orðræðu og margræðni. María stendur frammi fyrir skilnaði, veltir fyrir sér orsaka­sam­henginu og hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Perla sem býr í kjallaranum er dvergur og sálgreinandi rithöfundur sem kemur til skjalanna með nýja sýn á óreiðuna. Kyn og kynhlutverk eru til umræðu ásamt ástinni og listinni og um leið bítur sagan í skottið á sér með vísunum í heimspeki og sálfræði, skáldskapinn og tilurð hans.

 

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Menningarleg

Ég skapp á fyrirlestra um utangarðsmenn og flökkufólk fortíðar í bókhlöðunni í gær sem haldnir voru í tengslum við sýningu sem heitir Utangarðs? Það var stórfróðlegt. Að vera ekki í vinnumennsku eða vist var stranglega bannað og því voru þeir sem lögðust í flakkir skilgreindir sem glæpamenn. Þó voru þeir víða aufúsugestir og lífguðu upp á tilveruna. Þarna kom fram að Yngvi Leifsson skrifaði sögu ellefu flakkara á Norðurlandi 1783-1816 í nýrri MA-ritgerð sem er því miður læst í Skemmunni. Merkilegt var að heyra um afdrif handrits Guðrúnar Ketilsdóttur,  sem líklega er fyrsta sjálfsævisaga íslenskrar konu. Karlveldið og bókmenntastofnunin gerðu handritið að skrípatexta svo það lenti utangarðs og hlaut ekki þann sess sem það á skilið. Í Norræna húsinu hlustaði ég síðan á Auði Övu Ólafsdóttur flytja erindi á bókmenntahátíð sem hún nefnir Dvergar og stríð og var bæði fyndið og flugbeitt.

Image