Þessi útvarpsþáttur er aðgengilegur til 8. september!
Oddný Guðmundsdóttir
Skil
Þann 4. maí sl. skilaði ég MA-ritgerð um Oddnýju Guðmundsdóttur, skáldkonu frá Hóli á Langanesi (1908-1985). Ritgerðin var afrakstur margra mánaða vinnu sem var bæði skemmtileg og gefandi. Ég elska að grúska, finna samhengi, kynnast fólki úr fortíðinni og miðla sögu þeirra til nútímans. Að kvöldi 11. maí skilaði ég svo tveimur útvarpsþáttum um skáldkonuna til yfirferðar hjá mesta útvarpsþáttagerðarsnillingi á Íslandi. Kannski þarf ég að laga eitthvað, kannski er þetta bara gott, kemur í ljós í vikunni. Ég er allavega fegin, sátt og glöð og ætla ekki að finna mér aðrar áskoranir næstu mánuði. Bara læra að gutla á gítarinn minn og hjóla sem lengst og oftast.
Illa skiljandi
Slegið á þráðinn til Flosa Ólafssonar í Nýja Tímanum, 20. maí 1984:
„Hitt er annað mál að mönnum gengur misvel að skilja þennan kveðskap. Hún Oddný Guðmundsdóttir sem stundum skrifaði í gamla Tímann hneykslaðist t.d. mikið á því að verið væri að birta eftir mig þetta djöfuls leirhnoð. Þá orti ég þessa vísu:
Oddný þú ert orðin full
illa skiljandi.
Alltaf þegar ég yrki bull
er það viljandi.
Ókei, bæ!
„Ég er vön að byrja móðurmálskennslu á því að venja börnin af að japla endalaust ókey og kveðja með by-by. (Hvortveggja stafsett eftir framburði ókei og bæbæ). Ég segi þeim að þetta sé sóðalegur munnsöfnuður. Sýni þeim svo á töflunni, hvernig sú fagra kveðja „Guð blessi þig“ er smám saman orðin að stuttu, hvellu bofsi á slangurmáli stórþjóðar, sem alltaf hefur skort þá alþýðumenningu, sem á Íslandi lifði af öll hallæri. Guð blessi þig varð á ensku God bless you og að lokum by by. „Þróunin“ bendir til, að nýja bókmálið okkar verði mjög blandað hljóðritaðri ensku – sem enginn enskumælandi maður skilur á prenti“ (55).
Oddný Guðmundsdóttir. Orðaleppar og aðrar ljótar syrpur , 1976
Oddný með hjólið
Kjartan Guðjónsson myndskreytti ferðasögu eftir Oddnýju sem birtist í Þjóðviljanum á gamlársdag 1952.
Hjólaði nær alla akvegi landsins
Punktalínan sýnir farnar leiðir Oddnýjar Guðmundsdóttur skáldkonu á reiðhjóli sínu.
Mynd með viðtali við Oddnýju, í tímaritinu Melkorku, 1955.
Framför í mannúð
„Æ, mamma, heldurðu, að vel kveðin vísa geti læknað taugaveiklun á háu stigi?“
„Ætli þær hafi ekki einhvern tímann gert það, vísurnar. Að minnsta kosti eyðileggja þær engin líffæri, eins og þessar töflur, sem fólk er að rífa í sig gegn sálarangist. Ef einhver framför hefur orðið í mannúð, er það ekki árangur af efnafræðivísindum.“
Oddný Guðmundsdóttir, Síðasta baðstofan (1979:180)
Mynd dagsins
Mynd af Oddnýju skáldkonu í Útvarpstíðindum 1943
Jeg hefi búið það til sjálf
„Jeg sendi þér kort, en verð að geta þess að jeg hefi búið það til sjálf, – ef þú skyldir halda að þetta væri útlendur iðnaður. (Það er ekki gert eftir fyrirmynd).“
Oddný Guðmundsdóttir málaði árið 1930.
Að fara sínar eigin leiðir
Jeg iðrast ekki eftir því , þó ég færi til Akureyrar. Jeg hefi kynst mörgu frá öðrum hliðum en áður. Reyndar held ég að flestu fólki, sem jeg kynntist hafi fallið illa við mig, ekki geðjast framkoma mín. Jeg hefi meir að segja eignast óvin, án þess þó að hafa gert neitt illt af mjer, svo ég viti. Það hefi jeg oft heyrt að menn sjeu nauðbeygðir til að semja sig að siðum fjöldans, en jeg segi það enn, og af meiri reynslu en áður, að það er hægðarleikur, að fara sínar eigin leiðir.
Oddný Guðmundsdóttir í bréfi til bróður síns, 6. mars 1932