Perlan

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu

Skinka dauðans og skuggahliðar netfrægðarinnar

Perlan

Hvernig  verður maður drottning samkvæmislífsins, síðan hirðfífl þjóðarinnar og karakter í áramótaskaupinu? Það fékk Perla Sveins að reyna, eftir að hafa verið sú sætasta í Réttó og fjörugasta í MH, og loks með heitustu trendin, vinsælasta bloggið og rosalegustu djammfréttirnar frá Reykjavík og New York um langa hríð. En í hruninu töpuðu allir húmornum fyrir þessu gríni og Perla varð táknmynd yfirborðsmennsku og hégómleika; skinka dauðans.

Drekkir sér í bleikum kokteil

Perla hefur verið villuráfandi sauður alllengi. Í New York þar sem hún býr hefur lífið snúist um djamm og hark með hljómsveitargaurum og leikurum. En nú eru yngri stelpur, ferskari og viljugri, farnar að mæta í partýin og tilboðum og tækifærum fer fækkandi . Hún er einmana í stórborginni, fljót að klippa á tengsl við annað fólk og afgreiðir hlutina hratt í huga sér, drekkir þeim einfaldlega í bleikum kokteil. Undanfarið hefur Perla fundið fyrir æ meiri angist og einmanaleika. Um borð í flugvél skrifar hún langan tölvupóst til vinkonuhópsins á Íslandi þar sem hún segir loksins hreinskilnislega frá lífi sínu og líðan. En á síðustu stundu guggnar hún á að senda hann og skrifar annan þar sem lyginni um hressu og svölu heimskonuna er haldið við. En hversu lengi getur þetta gengið?

Birna Anna Björnsdóttir skrifar Perluna, hressilega skáldsögu um „meinta skinkuvæðingu íslensku kvenþjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins“, eins og segir á bókarkápu. Perla minnir kannski örlítið á Ragnheiði Birnu, fræga persónu úr skáldsögu Hallgríms Helgasonar (Þetta er allt að koma, 1994) sem rembdist alla ævi við að verða fræg en aumlegar tilraunir hennar spegla og skilgreina meðalmennsku í lífi og list á íronískan hátt. Í bók Birnu Önnu er engin slík íronía en þar er frægðin til umfjöllunar og skoðað er grannt hvað er undir öllu meikinu og feikinu í prófæl-myndinni.

Gremja góða fólksins

Þeim fer sífellt fjölgandi sem eru frægir fyrir það eitt að taka myndir af matnum sínum, máta föt og mála sig á samfélagsmiðlum. Í bókinni er spáð í hvort konur  í þessum geira séu afurð menningar og orðræðu eða táknmyndir um bakslag kvennabaráttunnar á 21. öld. Og hvort það megi þá beina að þeim allri þeirri beiskju og kaldhæðni sem kraumar hjá hinum ófrægu, hjá góða fólkinu. En er eitthvað að því að konur taki sér pláss í samfélagi og menningu með þeim hætti sem þær sjálfar kjósa? Er vatnslitamynd endilega göfug en meiköppvídeó ömurlegt?

Sögunni vindur fram með hlykkjóttri tímalínu. Sjónarhornið er hjá ýmsum sögupersónum, til dæmis hjá fyrrverandi kærasta Perlu, Bjarna, sem er á kafi í sjálfshjálparprófum á netinu og lafhræddur við nýju kærustuna, og hjá móður hennar sem er innantóm snobbhæna. Ein mikilvæg persóna bókarinnar er Ingigerður Ásgeirsdóttir, einmana og heimakær stundakennari í kynjafræði, en þær Perla eiga það sameiginlegt að líf þeirra er í tómu tjóni. Það dregur til tíðinda þegar fundum þeirra ber saman. Svo vill til að Ingigerður hefur varið miklum tíma í að stúdera Perlu og kynna  hana í fræðilegri lokaritgerð sem aðalskinku landsins, án þess að Perla hafi hugmynd um.

Uppgjör óumflýjanlegt

Uppgjör er því óhjákvæmilegt; Ingigerður þarf að endurskoða dólgafemínisma sinn og Perla að taka einhverja heiðarlega stefnu í lífinu. Þetta er einföld og skemmtileg flétta og í rauninni sígilt þema: hroki og hleypidómar og eftirsókn eftir vindi. Fjallað er um muninn á ímynd og staðreynd, og um smættun og hlutgervingu kvenna í samtímanum ásamt skuggahliðum netfrægðarinnar. Það er þó hvorki kafað djúpt né hugmyndum bylt, allt er þetta á léttum nótum. Talmálskenndur og afslappaður stíllinn er heldur tilþrifalítill en fellur vel að efni og persónum; ég efast um að þær gætu hugsað eða tjáð sig öðru vísi nema tapa trúverðugleikanum. LOL.

Víðsjá, 20 desember 2017