Soffía Bjarnadóttir

Táknþrungin endurfæðing

cf136036 (1)

Listaverk: Konstantin Antioukhin

Ný skáldsaga Soffíu Bjarnadóttur, Hunangsveiði, er djúp og safarík. Löðrandi í sætu hunangi orða og skapandi myndmáls um líkamlegan sársauka og andlegar þjáningar, ástina og fyrirgefninguna. Líkt og í fyrstu skáldsögu Soffíu, Segulskekkju, er arfur kynslóðanna til umfjöllunar; áföll og angur erfast og eru helsi á framfarir mannkyns (sjá umfjöllun um Segulskekkju).

 Hunangsveiðimenn eru í rauninni til. Þeir spranga í klettum Nepals og safna dýrmætu hunangi meðan býflugurnar sveima öskureiðar í kringum þá, stinga þá jafnvel í augun. Silva Saudade, aðalpersóna sögunnar, er með vængjað skordýr fast í vinstra auga, dapurlegt tákn fyrir hana sjálfa sem berst um í eðjunni og getur ekki breitt út vængina. Silva er buguð þegar hún leitar til tengslafræðingsins Tómasar O. sem fer með hana í ferðalag um fortíðina ásamt hinum bráðmyndarlega Rónaldi sem firrtur og fjarlægur nærist á hverri konu sem verður á vegi hans.

 Í sögunni seytla blóð, sæði, tár og sviti þar sem þau þrjú dvelja á niðurníddu heilsuhæli sorgmæddra í Portúgal í leit að svörum við lífsgátunni. Öll skynfærin eru virkjuð, húðin er ofurnæm, lykt leggur af öllu, sársauki býr um sig í augunum. Textinn er ákaflega fallegur, myndrænn og mergjaður, þrunginn táknum; seigfljótandi mjakast sagan áfram í átt að uppgjöri en ekki er víst að öll þrjú komist af. Það dregur jafnt og þétt af þeim, skynjunin víkkar og sársaukinn vex, það er næstum óbærilegt að lesa síðustu kaflana.

 Skordýr hafa áberandi hlutverk í sögunni og prýða bókarkápuna þar sem pera og píka renna saman. Í líffræði skordýra felst endurfæðing sem vonandi er það sem Silvu hlotnast eftir allar þjáningarnar. En þegar skordýrin deyja er ekki lengur lífvænlegt á jörðinni.

„Sorgin hylmdi yfir það sem raunverulega á sér stað. Þjáningin er og við leitum stöðugt að leið út úr henni. Við þurfum ekki endilega að hugsa um sorg, Hún er þarna. Hún kemur og fer og kemur aftur upp úr djúpinu. Eins og selur lyftir kolli sínum upp úr sjó. Hún er. Við því verður ekkert gert. Allt er hverfult og það er sorglegt. Skordýrin eiga sér líka langa sársaukafulla sögu. Hugsið ykkur alla umbreytinguna og hamskiptin. Að klekjast út úr sjálfum sér, endurfæðast.“ (79)

Birt á skald.is, 24.11. 19

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu

Að ná áttum

Ofbeldi og vanræksla gagnvart börnum er mun stærra vandamál í samfélagi okkar en við gerum okkur almennt grein fyrir. Börn sem alast upp við slíkt atlæti bera þess merki þegar þau vaxa úr grasi og eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Í Segulskekkju, fyrstu skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, segir frá konu sem hefur lent í ýmsu í uppeldinu og sambandinu við móður sína, Siggý, sem hún tignar og hræðist í senn.

Segulskekkja-175x274

Geðveiki, „leikhúsleg tilþrif“ (44) og furðulegt uppeldi hafa sett mark sitt á Hildi sem í æsku veit aldrei hvernig aðkoman er heima, hvort mamman er með réttu ráði, hvort fjölskylda er að flytja búferlum eina ferðina enn eða hvort Pétur stóri bróðir hefur fengið nóg og er farinn. Eina ráðið sem hún gat gripið svo hún hrapaði ekki fram af brúninni með Siggý var að slíta öll tengsl við hana. Byrja síðan að byggja upp sjálfsmynd, sætta sig við orðinn hlut og stefna fram á við.

En afleiðingar uppeldisins eru ekki auðveldlega umflúnar; bæling, sjálfsmorðshugleiðingar og sjálfshatur verða hennar fylgifiskar, tilfinningaleg flatneskja, höfnunarkennd og skömm heltaka hana.

Þetta er afskaplega vel skrifuð og falleg saga þótt hún lýsir angist og grimmd, sem verður átakanlegast þegar sjónarhorn barnsins ræður. Í tuttugasta kafla er brugðið upp mynd af heimilinu þar sem þær mæðgur bjuggu síðast saman, þar eru ömurleikinn og hjálparleysið hyldjúp og yfirþyrmandi en því er lýst með myndmáli sem er bæði fagurt og frumlegt.

Dýr koma víða fyrir í textanum og eru táknræn, bæði fuglar, ýmist vængstýfðir eða kramdir, kettir og köngulær. Gullbrá skýtur upp kolli en hún þurfti sem kunnugt er að prófa graut, stól og rúm til að vita hvort hún passaði inn á heimilið og Lína langsokkur á óborganlega senu í sögunni, sterkasta fyrirmynd sem til er. Stíllinn er svo ljóðrænn að sumir kaflarnir gætu staðið einir og sér sem ljóð:

„Regndroparnir eru hreint ekki svo slæmur félagsskapur. Þeir eru taktfastir og það er hægt að stóla á komu þeirra. Yfir dáleiðandi slætti þeirra velti ég fyrir mér hvort hægt sé að vera með áfalla- og streituröskun alla ævi, frá barnæsku og fram í elli. Hvort slík hugtök geti átt við um almenna líðan. Þrumu- og regnguðinn Indra hefur líklega haft auga með mér frá barnsaldri. Þegar ég heyri í honum kalla til mín af himnum og hann rífur upp festinguna verð ég undarlega sátt við það að búa undir þessum himni “ (43).

Við andlát Siggýjar skríður Hildur í skjól í hús hennar á Flatey á Breiðafirði. Þar gerir hún upp við minningarnar og stefnir kannski í átt að frelsandi uppgjöri og sátt og jafnvel ást í kaupbæti en þó er ekkert víst í þeim efnum vegna segulskekkjunnar í lífinu. En í bókarlok er Hildur a.m.k. farin að hallast frekar að því að lifa en deyja.

Sögumaður spyr guð í örvæntingu hvar skekkjumörkin liggi, hvar segulnálin sé (87) og í hvaða átt skuli halda. Eru engin takmörk fyrir hvað er lagt á sumt fólk? Það er ljóst að hér er um keðjuverkun og vítahring að ræða, undir yfirborðinu er þetta ættarsaga fjögurra kynslóða sem allar eru áttavilltar og hafa orðið fyrir einhverju tilfinningalegu hnjaski sem erfitt er að bæta, amman er þögul og lokuð, mamman klikkuð, Hildur skemmd og sonur hennar sjálfsagt eitthvað flæktur þótt hann segist vera kúl.

Fólk reynir að komast undan sársaukanum á ýmsa vegu, með kaldhæðni, vímu eða trú á guð, ástina og fyrirgefninguna. Siggý, með allt sitt rugl og kenjar, er eina manneskjan í ættinni sem hefur kjark til að biðjast fyrirgefningar, þótt það sé eftir dauðann. Vonandi nær Hildur áttum, samúð lesandans er með henni og öllum vanræktum börnum heimsins.

Birt í Kvennablaðinu 2. feb. 2015