Magnús Stephensen

Fullkominn endir

Á átjándu öld var ástandið hér á landi orðið svo bágborið vegna náttúruhamfara, hungursneyðar og viðskiptaeinokunar, að kóngur vor í Kaupinhafn sá sig tilneyddan að ganga í málið. Hann hafði lengi haft nokkurn ama af þessari kotþjóð og fulltrúum þeirra við dönsku hirðina sem voru sífellt nauðandi um kjara- og réttarbætur, en hafði líka af henni nokkurn arð, m.a. af skreið og lýsi, og sá fram á að tekjulind þessi mundi þverra ef ekkert yrði að gert. Ungur vísindamaður er því fenginn til að fara til Íslands í þeim tilgangi að gera úttektarskýrslu eða „allsherjarprotocoll“ eins og það er kallað, svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana, þ.e. að flytja þá tæplega 40.000 Íslendinga sem enn tórðu á brott og fá þeim sæmilegt húsnæði og atvinnu í dönskum kaðla- og spunaverksmiðjum.

Kona frá 18. öld í íslenskum búningi

Skáld og fífl

Þetta er í örstuttu máli sögulegur bakgrunnur Lifandi lífslækjar, nýrrar skáldsögu Bergsveins Birgissonar; eins konar leiktjöld fyrir ísmeygilega ádeilu á vald, forréttindi og fordóma. Eitt af hlutverkum skáldsögu er að afhjúpa valdið í öllum sínum myndum og hér er það einkar vel gert, líkt og fyrri verkum Bergsveins, t.d. Geirmundar sögu heljarskinns (2016) þar sem landnám Íslands er undir og sýnt í nýju ljósi sem brölt valdagráðugra þrælahaldara. Gaman er að geta þess að Bergsveinn sjálfur birtist í þeirri bók eins og einhvers konar Stan Lee, í örlitlu hlutverki skálds sem fær háðulega meðferð og hann birtist líka í Lifandi lífslæk; fífl sem hjalar óráð og þylur illar spár og skapar þannig spennu hjá fulltrúum ólíkra viðhorfa til skynseminnar. 

Ljós skynseminnar

Sagan hefst í Kaupmannahöfn á ráðagerðum Dana og þar lifna við þjóðkunnir karlar, Magnús Stephensen og Jón Eiríksson, framfarasinnaðir embættismenn og sérfræðingar í málefnum Íslands sem þó er ekkert hlustað á í ráðuneyti konungs. Í borginni ferðast vellauðug verslunarelítan um upplýst stræti og torg í hestvagni, ilmandi af lavender og kryddvíni. Það eru nýir tímar, vísindin hafa tekið þann sess í huga fólks sem guð skipaði áður, hjátrú og hindurvitni tilheyra myrkri fortíðar en myndmál hins nýja hugsanagangs einkennist af ljósi skynseminnar. Þar með eru örlög fólks ekki lengur í hendi guðs, hægt er að halda því fram að fátækt og eymd séu manni sjálfum að kenna og lag fyrir valdhafa að skáka í því skjóli.

Draugar og mörur

Aðalsöguhetjan, Magnús Árelíus Egede, tilheyrir danskri forréttindastétt. Hann er metnaðargjarn landkönnuður og dyggur aðdáandi vísinda og upplýsingar, með nýtískulega hárkollu, klæddur hvítu vesti og blúndum skreyttur. Hann er skrýtin blanda af manni (165), upplýstur vísindamaður sem verður eins og lítill drengur þegar hann talar íslensku, sitt annað móðurmál (54), skotið dönskuslettum og latínufrösum (en mál og stíll sögunnar er bæði mergjað og drepfyndið og efni í langa stúdíu). Hann þjáist af flogaveiki og er í ofanálag rammskyggn. Í flogaveikiköstum og óráði sækja draugar og mörur að honum, íslensk alþýða stígur fram og lýsir kúgun í gegnum aldir. Kvendraugur rekur hroðalega sögu sína af misnotkun og ofbeldi og niðursetningur sem var barinn og sveltur til dauðs tíu ára gamall, sest á rúmstokk Markúsar og talar um arðrán og gerspillt vald sem gegnsýrir allt á landi hér:

„Það er óttinn sem límir það allt saman, óttinn sem stýrir, óttinn er samhengið. Og þar sem óttinn ræður er aldrei langt í fyrirlitninguna og litlir menn óttast upp á við og fyrirlíta niður á við og gera eins og þeim er sagt og herma eftir herrum sínum að ofan. Þeir læra af þeim hæstu herrum að hata sitt eigið fólk. Allt frá froðunni úr kjafti valdsins til barnings á þeim lægsta tala ég. Óttinn byrjar hjá þeim sem eiga landið, þaðan til æðstu embætta valds og verslunar og sótast þaðan yfir í okkur hin. Þeir óttast að vera ekki starfi sínu vaxnir gegn hærri herrum og traðka því sem mest þeir mega á bændum, ohoho, klapp vilja þeir á kollinn fyrir hvert traðk og hverja píning, leigur og tolla, skatta og gjöld, dálitla umbun fyrir hverja fyrirlitningu sem þeir sýna niður á við, hvert húðlát er umsnúinn ótti…“ (250).

Vor missjón!

Magnús fékk í sinn hlut að rannsaka mannlíf á Hornströndum og segir hátíðlega við upphaf siglingar til Íslands: „Vor missjón er missjón vísindanna er ekkert fær stöðvað“ (57). En brátt rekst hans lærdómur harkalega á raunveruleikann, teoría og praktík stangast á, vísindaleg latínuheiti, flokkun og tegundagreining leiða ekki til haldbærrar þekkingar né koma að gagni í lífsbaráttunni í harðbýlu landi. Háðulega meðferð í sögunni fær hin vísindalega greinandi hugsun þegar stórvaxin bein sem standa út út sjávarkambi eru álitin vera af risum sem talið var að hefðu verið á Íslandi til forna, þau eru sæmd latneska heitinu Gigantes og pakkað inn til að setja á safn í Köben en innfæddir vita að þau eru úr hval sem strandaði í fjörunni fyrir löngu. Eftir því sem lengra líður á ferðasöguna skarast kategóríurnar innra með embættismanninum sem efast æ meir um hlutverk sitt og tilgang. „Hvað átti hann með að ákveða hvar væri góð eða slæm lífsskilyrði? Einmitt sá sem tekur sér það bessaleyfi að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu, það er sá sem skilur ekki neitt, hvorki í manneskju né menningu“ (197).

Á maðurinn val?
Tvo aðstoðarmenn hefur Magnús með sér í ferðinni, Bárð Grímkelsson, hjáleigubónda úr Dölunum sem þjáist af hlandstíflu og Jón Grímsson sem hefur áður ferðast um landið í umboði Danakonungs til að kenna þjóð sinni kálgarðarækt en án árangurs, báðir eru málpípur innfæddra sem gefa lítið fyrir „vísendi“ og lærdóm Magnúsar Árelíusar enda kann hann ekkert á land og þjóð. En síðan er hann einn á ferð enda kominn svo langt frá mannabyggð að enginn hættir sér þangað. Þá þarf hann ekki lengur að strögla og sýnast fyrir aðstoðarmönnum sínum, persónan þroskast og breytist; fínu fötin kolast, hárkolla lærdómsmannsins verður mórauð (129) og hann allur svo móbrúnn að yfirbragði að margir tóku hann fyrir innlendan brennivínssölumann (175). Honum vitrast að kannski er hann sá fátæki en hið fáfróða og arma fólk ríkt – af trú og sögum í sínum þrönga og endurtekningasama heimi. Var það hans eigin menning sem bar feigðina í sér en ekki þeirra sem hann átti að bjarga? Það molnar úr brothættri sjálfsmyndinni en vísindaferðin gæti enn snúist upp í sigurför hans sjálfs. En þá reynir á manninn, hefur hann frjálsan vilja, hefur hann val?

Loks kemst hann við illan leik á Strandir. Öndvert við bágborið ástand í sveitum á Vatnsnesi og víðar, eru Strandamenn hressir og hraustir. Þar drýpur smjör af stráum, þar eru kýr og veiðarfæri, postulín og sápa, enda skipta þeir við hollenskar duggur og hunsa þann kóng sem vill að þegnar hans séu þrælar. Svona gæti líf Íslendinga verið um land allt ef þeir fengju að ráða sér sjálfir.

Sumarið 1785

Sagan líður áfram í sínum sérstaka og stórskemmtilega 18. aldar stíl, með hárfínni íroníu, listilega skrifuðum bréfum og mögnuðum draugagangi. Ferðamaðurinn kemur á bæi og lærir sitthvað, hann er á mærum menningarheima og öðlast aðra sýn á nýlenduþjóðina og ekki síður á sína eigin þjóð. Honum tekst að kveða niður djöfla sína með kærleika sem hann vissi ekki að hann ætti til og Sesselja, hin mállausa sem sætt hefur óskiljanlegu ofbeldi, elskar hann óverðskuldað en það eru kaldhæðnisleg örlög rökfasta vísindamannsins að eiga allt sitt undir henni og hinum töfrum slungna lífslæk.

Sögumaður stendur frammi fyrir flóknu verkefni, hvaða veruleika á andi sögunnar að segja frá? (110). Hversu nákvæmlega á að lýsa ferð eins manns með beyg í brjósti á framandi slóðum sumarið 1785? „Eða hver var ekki með beyg í brjósti sumarið 1785?“ (174). Sögumaður þykist hafa afstöðu sagnaritara en leikur tveimur skjöldum, í síðustu köflunum talar hann um að ekki séu til fleiri heimildir fyrir þessari frásögn og ekki í boði að skálda einhverjar „rómankúnstir“ (286) þótt það flikkaði óneitanlega upp á söguna að segja frá konu sem grætur ofan í visinn blómvönd.

Í Epilogus er hins vegar nóg af heimildum, m.a. skýrslur og bréf, og þar er píla til okkar sem nú lifum á Íslandi og virðumst stefna í að selja það allt undir „bræðslur, olíuhreinsistöðvar, járnblendi-, súráls- og brennisteinsverksmiðjur og risaorkuver“ (292). Frú Sigrid Andersen ráðherra hefur gert sölu landsins að kappsmáli sínu og miðar býsna vel.

Fullkominn endir

Myndin sem dregin er upp af því sem hefði getað orðið ef danskt skrifræði hefði fengið sitt fram er ansi nöturleg og ætti að vera okkur til varnaðar á okkar viðsjárverðu tímum þegar stjórnvöld hafa margsinnis sýnt að þeim eru mislagðar hendur. Seinasta sagnabrotið, þegar tjaldið fellur við sögulok og maðurinn horfist í augu við eigin fordóma og hefur misst allt þrátt fyrir forréttindi sín, er ekki „verifíserað“ af sögumanninum en mikið er það fallegt og harmþrungið; fullkominn endir.

Víðsjá, 11. desember 2018

Herjans tussa á kletti

Látra-Björg (1716-1784) var hörkukelling sem sótti sjó og tók á móti börnum, orti fleygar vísur og lagðist í flakk. Hún er ein af fáum konum frá 18. öld sem urðu nafnkunnar en margt það sem konur ortu þá og rituðu hefur glatast. Björg kemur við sögu í nokkrum nýlegum skáldverkum og heimildamynd er í smíðum um hana. Hermann Stefánsson gerir Björgu að aðalpersónu í nýrri skáldsögu sinni, Bjargræði, og segir frá hinstu kaupstaðarferð hennar.

15046235_10154722000288390_442348561_n-png

Sagan af Björgu gerist í nútímanum, á kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur sem hún kallar„rass veraldar“ (12). Þangað hefur Tómas, tuttugustu aldar líkkistusmiður, dregið Björgu nauðuga til að fá hjá henni ráð. Hún lætur gamminn geisa yfir kaffinu um klerka og hrokafulla valdsmenn, duglausar ríkisstjórnir, homma og túrista; tengslaleysi, ástleysi og áhugaleysi í nútímanum og hvernig fólk hefur tapað tengingunni við náttúruna; orðhvöss og napuryrt sem fyrr. Já, það stendur út úr henni blábunan, eins og hún segir iðulega í bókinni.

Mergjaðir tímar

Björg fæddist fyrir réttum þrjú hundruð árum, ólst upp hjá vandalausum á Látrum við sult og seyru og fór ung til sjós. Hún var harðdugleg og fékk sama hlut aflans og karlar, sem þótti tíðindum sæta. Oft var illt orð lagt til hennar, hún jafnvel þjófkennd og grunuð um galdra. Hún lagðist í flakk og fann á eigin skinni að það er „óbrigðult mæliker á hvert samfélag hvernig komið er fram við umrenninga“ (51).  Björg var uppi á mergjuðum tímum í Íslandssögunni þegar djöfullinn sat um sálina, huldufólk bjó í steinum, orðin höfðu magn og jurtir lækningamátt. Og hún var barn síns tíma: „ég er orðanna, ekki skilgreininganna, galdursins og ekki vísindanna“ (29).

Hofmóðugir gikkir

Magnús Stephensen, embættismaður og ríkisbubbi á átjándu öld, sem hataðist við alþýðukveðskap, er jafnan talinn helsti boðberi fræðslustefnu sem kallast upplýsing hér á landi. Efst á stefnuskránni var að bægja burt myrkri hjátrúar og fáfræði með ljós skynseminnar að vopni. Viðhorf almúgans til framfarabröltsins í forsprökkum upplýsingarinnar birtist vel hjá Björgu. Hún getur ekki fallist á að hafa fálmað í myrkri alla sína tíð og að lausnina við öllum vanda sé að finna í endalausum umbótum og hofmóðugri upplýsingu – hún er jafn svöng og fátæk fyrir því. Það eina sem hún fær að kenna á er hroki, valdníðsla og lygi (151-152). Björg rís gegn valdinu og gengur hnakkakert móti straumnum í  samfélaginu ef því er að skipta:

Þó að gæfan sé mér mót
og mig í saurinn þrykki
get ég ekki heiðrað hót
hofmóðuga gikki

(239)

„Hvílíkt þvaður“

Sjónarhorn sögunnar er frumlega útfært. Björg masar allan tímann en Tómas kemst aldrei að. Hún hefur yfirsýnina, alla þræði í hendi sér, þekkir fortíð og framtíð, allar hugsanir og þrár. Þetta er einræða þar sem talað er við 2. persónu, erfiður frásagnarháttur sem er örsjaldan notaður og því sérlega gaman þegar svo vel tekst til eins og í þessu verki.

Orðræða Bjargar einkennist af innibyrgðri sorg og reiði.  Hún verið rægð, útilokuð og hrakin allt sitt líf. Ekki er hún sátt við skrif Tómasar Guðmundssonar, skálds, um sig í Konum og kraftaskáldum, þar sem segir að hún hafi mótast af ástarsorg: „hvílíkt þvaður, melódrama úr froðusnakki, hvílíkur hroki gagnvart liðinni tíð“ (30). Og aðrir fræðimenn sem um hana hafa fjallað fá einnig makið um bakið. Hún getur þó ekki verið annað en ánægð með Hermann Stefánsson sem dregur hér upp fádæma skemmtilega mynd af henni.

Fótbrotinn köttur

Málfar Bjargar er kröftugt, myndrænt, meinfyndið og fyrnt, stuðlað og taktfast, heimspekilegt (hávaxið fólk stendur nær himinum, 35); ljóðrænt (sinugult sumartungl, 42); og fyndið („þar sem var svo þýft að eitt sinn fótbrotnaði þar köttur,“ 43). Það er hrein unun að lesa þennan texta. Og það lýstur einhverju fallegu saman í huga lesandans þegar notuð eru 18. aldar orð og hugtök til að lýsa nútímanum; bera t.d. saman kaffihús og baðstofu og stöðu útigangsmanna fyrr og nú. Orðfærið er dillandi gamaldags, greinilega grafið upp úr gulnuðum skjölum: „Þannegin, óekkí, læknirnarnir, einnegin, spesímen og dokúment…“.  Björg tekur fyrir helstu búsvæði nútímamanna (200) með aðferðum sem minna á Ferðabók Eggerts og Bjarna þar sem íbúar hvers landshluta fá lyndiseinkunn; stórskemmtilegt er t.d. hvernig helstu hverfin í Reykjavík koma Björgu fyrir sjónir og vei þeim bjálfum sem búa í Kópavogi eða Garðabæ!

Langanes er ljótur tangi

Björg var þjóðþekkt fyrir að yrkja beinskeytt kvæði um bæi sem hún kom á þegar hún var á flakki og fékk misjafnar viðtökur, s.s. vísuna landsfrægu: „Langanes er ljótur tangi…“. Víða eru kunn kvæði Bjargar felld smekklega inn í söguna og einnig er ort í anda hennar:

Hér eru menn með flírugt fas
firrtir dagsins striti
vaða elg með argaþras
engu þó af viti
ráfa í svefni um rótlaust líf
rata hvergi en dorma
iðka mont og kvart og kíf
klína sig við storma
í vatnsglösum og vælið þý
væmna kyrjar sálma
um blýþungt fiður, fiðrað blý
en fúlir hundar mjálma…

(50-51)

Listilega gert

„Sannleikurinn er mín íþrótt, kúgandi valdið fjandmaðurinn, stuðlarnir mitt lífsmagn og rímið mitt skjól (37), segir Björg borubrött. Bjargræði er skáldsaga um skáldkonu og skáldskap og hún fjallar líka um vald og ást og pólitík; helstu drifkrafta mannlegrar tilveru á öllum tímum. Nútíminn er skoðaður í spegli fortíðar og það hallar verulega á „nútíðarmennin“ sem þvælast dekruð og þýlynd með sjálfustöng í þunnildislegu borgartildri og vita hvorki í þennan heim né annan.

Og á meðan bunan stendur út úr Björgu, fer einnig fram sögu af ástarraunum Tómasar. Þannig tala aldir og kyn saman um ástina, hið sígilda yrkisefni, sem breytist lítið í tímans rás. Björg vandar honum ekki kveðjurnar þegar hann klúðrar sínum ástamálum hrapallega:

„Tómas, þú ert helvítis taðsekkur, herjans tussa á kletti, galapín og gorvambarhaus, ég hef megnustu skömm á þér, guddilon, hérvillingur, hémóna og geðluðrunnar guddilon og vesalingur og bjálfi“ (141).

Það kemur í ljós undir lok sögunnar að Látra-Björg hvílir ekki í friði því hún á erindi við Tómas, líkt og fortíðin á alltaf erindi við nútímann. Bjargræði er listilega skrifað hjá Hermanni Stefánssyni, sama hvar gripið er niður.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2016

307 bls með eftirmála

 

Birt í Kvennablaðinu, 29. nóv. 2016

Napóleon norðursins. Um Íslands eina kóng

Átjánda öldin hefur löngum verið talin eitt mesta hörmungatímabil í sögu Íslands. Náttúruhamfarir, farsóttir, einokun og stéttskipt samfélag einkenndu tímabilið og mesta furða að landsmenn skuli ekki barasta hafa geispað golunni, allir með tölu. En þeir þrjóskuðust við, þá eins og nú, og hjörðu áfram í sárri fátækt, eymd og volæði. En þrátt fyrir allt gerðist það á þessum tíma að hugmyndir um sögulegan samtíma og einstaklingsvitund brutust fram og róttækar breytingar urðu á efni og formi bókmenntanna.

Þegar Jörgen Jörgensen, nefndur Jörundur hundadagakonungur, kom til Íslands sumarið 1809 í viðskiptaerindum, var hér heldur dauflegt um að litast. Í Reykjavík bjuggu um 400 manns og var heldur lágt á þeim risið. Íslendingar þorðu ekki að eiga vöruskipti við Jörund og félaga hans vegna einokunar Dana, svo hann hreinlega hrifsaði völdin af stiftamtmanni og lýsti því yfir að dönsk yfirráð væru fallin úr gildi.

Í tvo mánuði ríkti hann yfir landinu, gaf út tilskipanir á báða bóga, veitti föngum sakaruppgift og strikaði út skuldir eins og enginn væri morgundagurinn. Þessu stutta blómaskeiði lauk þegar hann var snautlega settur af og þar réðu gróðasjónarmið einnig för ásamt undirliggjandi ótta valdhafa við almenna uppreisn og frekari byltingu.

Ekki ber öllum saman um að þessi maður sé Jörgen Jörgensen. Önnur mynd og óhuggulegri var til á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 18974 / MMS 18974) en hefur ekki sést lengi.

Einar Már Guðmundsson fjallar um Jörund  í nýjustu skáldsögu sinni, Hundadögum, sem einnig kemur út á dönsku þessa dagana í þýðingu hins eitursnjalla Eriks Skyum Nielsen. Lífshlaup Jörundar er sannarlega skrautlegt og gjöfult viðfangsefni. Einar Már er þó ekki fyrstur til þess  að sækja í þennan frjóa efnivið og sennilega ekki síðastur. Áður hafa m.a. bæði Ragnar Arnalds (Eldhuginn, 2005) og Sarah Blakewell (2015) skrifað skáldsögur um skrautlegan feril Jörundar.  Og leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið  hann Jörund, sem fyrst var sett upp í Iðnó 1970 smaug beint inn í hjörtu þjóðarinnar á sínum tíma. Það hefur margoft verið sett á fjalirnar síðan, síðast 2014 í leikgerð Eddu Þórarinsdóttur, og rataði ísjónvarp 1994. Auk þess skrifaði Jörundur sjálfur ævisögu sína í nokkrum útgáfum eftir því hvernig lá á honum. Svo það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær gerð verður stórmynd um stormasama ævi og örlög þessa margbrotna manns.

Hundadagar-175x268Efnistök Einars Más eru af öðrum toga en fyrirrennara hans; þau eru frumlegri, fjölskrúðugri, skáldlegri og meira skapandi en áður hefur sést. Jörundur er breysk persóna, hann er myndarlegur, vel greindur en ógæfusamur ævintýramaður sem hrekst í ólgusjó fíknar og metorðagirndar en á sér líka betri hliðar.

Ástæðurnar fyrir byltingunni á Íslandi eru í raun viðskiptahagsmunir, það er engin rómantíseruð frelsishugmynd þar að baki. Einar Már tengir byltingu Jörgens við búsáhaldabyltinguna 200 árum síðar, þegar óheiðarleg viðskipti með sýndarmilljarða urðu efnahag þjóðarinnar að fjörtjóni til frambúðar og forsætisráðherra kallaði almenning skríl, líkt og enski skipherrann sem setur sig á háan hest gagnvart þegnum Jörundar, og leggur út af þeim samanburði um eðli manns, sögu og skáldskapar.

Sögumaðurinn er alls staðar nálægur á notalegum spjallnótum. Hann er kammó og kærulaus og slær um sig með orðum eins og díll, djobb og gaur . Hann er ýmist „við“ eða „ég“ og hefur yfirsýn yfir orsök og afleiðingu, liðna tíma og núið. Hann fer á flug í pælingum um skáldskap og veruleika, sögu og túlkun. Persónurnar anda og lifa í gegnum hann, ætli það séu nema tvö bein samtöl í allri bókinni?

Aldagamalt ryk er dustað af gulnuðum skjölum, þau eru dregin úr gömlu þurrlegu samhengi og skeytt saman á ný svo úr verður skrautleg, eldfjörug og kostuleg saga sem minnir um margt á svonefndar skálkasögur sem voru vinsælar á bernskudögum  skáldsögunnar.

Sögumaður snýr upp á tímann eins og hann lystir „af því að saga okkar er í aðra röndina andleg  og ekkert er í réttri röð þegar fram líða stundir“ (190). Bítlarnir og Jörundur eru nefndir í sömu andránni og Jón Steingrímsson, hinn magnaði eldklerkur, er sömuleiðis leiddur fram en Jón hafði verið dauður í tuttugu ár þegar Jörundur kom til landsins.

Fleiri nafnkunnir menn koma við sögu, m.a. Magnús Stephensen, konungshollur tækifærissinni og fulltrúi valdastéttarinnar á Íslandi, og Finnur Magnússon, sem fékk skjótan frama sem leyndarskjalavörður Danakonungs, féll svo úr háum sessi og var ekki gæfusamur í einkalífinu, skuldugur og einmana.

Svo er fylgst með Guðrúnu Johnsen, ægifagurri ástkonu Jörundar sem þráir að vera hefðarmær en endar sem betlikona, hrekst milli manna og ræður minnstu um örlög sín sjálf. Sögufrægar persónur eru sýndar í nýju ljósi, t.d. hefur Íslandsvinurinn mikli, hinn kunni SirJoseph Banks, svifið um mannkynssöguna á rómantískri ímynd en reynist svo ekki allur þar sem hann er séður.

Undir öllum kammóheitunum, gáskanum og skapandi heimildaúrvinnslunni lúrir ádeila á nýlendustefnu, kúgun og stéttaskiptingu og hrokann sem hélt ástandinu við og gerir enn.Veislan fræga í Viðey sem Ólafur Stephensen hélt Jörundi og félögum dregur skýrt fram muninn á ríkidæmi valdhafa og kjörum alþýðunnar.

Kort af Íslandi frá 1761

Íslenskir embættismenn höfðu skömm á valdabrölti Jörundar nema þeir sem nutu góðs af eða þorðu ekki annað „af ótta við að hann myndi sigra en urðu þá enn hræddari stuttu síðar þegar ljóst var að hann hafði tapað“ (199). Alþýðan tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti, vön því í gegnum aldir að beygja sig undir yfirvaldið mótþróalaust og vera ekki spurð álits á neinu. Einar Már færir listilega saman líkindin með fortíð og nútíma og sýnir að valdapólitíkin er alltaf söm við sig.

Var Jörundur hundadagakonungur fulltrúi nýrra tíma, djarfur ofurhugi, misskilinn snillingur og frelsishetja? Eða gróðapungur, götustrákur og föðurlandssvikari? Hvað sem því líður var yfirlýstur tilgangur hans að bæta ástandið á Íslandi og að tryggja landsbúum frið og hamingju sem þeir hafa lítið haft af að segja til þessa“ (194).

Það er ekki fyrr en í fangelsi sem raunveruleg ásýnd spillingar, kúgunar og einokunar á Íslandi skýrist fyrir Jörundi. Eldheitar ræður hans um frelsi og réttlæti, frjáls viðskipti og jafnan rétt manna streyma skyndilega fram. Þá nær mikilmennskubrjálæðið hámarki, þá er hann Napóleon norðursins, Íslands eini kóngur fyrr og síðar.

Jörundi er fylgt áfram eftir Íslandsævintýrið í útlegð að endimörkum heimsins og til dauðadags. Mynd af honum og konu hans, hinni ungu og drykkfelldu Nóru, er talin steypt í brúarsporð í bænum Ross í Tasmaníu, „útskorin eins og kóngur og drottning á spilum“ (333). Mynd Jörundar lifir væntanlega í skáldskap Einars Más meðan bækur eru enn lesnar á Íslandi.

Skáldsaga Mál og menning, 2015 341 bls

Gullfalleg bókarkápa: Alexandra Buhl / Forlagið

Birt í Kvennablaðinu, 15. nóv. 2015