Við komum í Selárdal þar sem listamaðurinn með barnshjartað, Samúel Jónsson, bjó og stundaði list sína. Verið er að endurgera hús hans við hlið rústanna af þvi gamla sem var orðið gjörónýtt. Hópur fólks vinnur þarna í sjálfboðavinnu við að komá staðnum í upprunalegt horf. Kirkjan sem Samúel reisti við hlið hússins er afar sérstök í frumstæðri fegurð sinni. Skammt frá kirkjustaðnum Selárdal eru Uppsalir þar sem Gísli blessaður bjó, annar einfari í lífinu. Það er einnig verið að gera upp hús hans. Á Uppsölum ná grasstráin manni í mitti, allt ilmar af lyngi, sól og greni, og lágir grjótgarðar hlykkjast um í undarlegu tilgangsleysi. Lífsbaráttan var hörð í Selárdal eins og víðar á síðustu öld og það snertir streng í brjóstinu að virða fyrir sér tóftir bæjarhúsa þar sem fólk átti börn og buru, bjó sér heimili við ysta haf, ræktaði sinn túnblett, gerði út bátskel og glímdi við náttúruöflin. Árið 1900 fórust fimm bátar úr sveitinni í óveðri, 24 börn urðu föðurlaus og 11 konur ekkjur.
Ferðalög
Reisan á enda

Endalaus fegurð
Eftir hálfs mánaðar reisu á húsbílnum sný ég aftur í borgarysinn. Veðrið lék við okkur ferðalangana, það var barasta sól og blíða allan tímann. Hvítir sandar, klettar og fjöll, sögustaðir, stórkostlegt landslag, Ég tók myndina út um bílgluggann í Örlygshöfn, Arwen virðir fyrir sér endalausa fegurð Vestfjarða á einum sólskinsdeginum. Ferðasagan bíður betri tíma.
Loftkastalar
Nú fer ég á Vestfirðina fögru með karl og tík í húsbílnum góða. Ég er með nokkrar góðar bækur í farteskinu, hef sparað mér Loftkastala Stieg Larsons (Luftslottet som sprängdes) sem Laufey lánaði mér og ætla að njóta þess að lesa hana í fríinu. Nú hefst sænskulestur með tilþrifum, held ég byrji bara strax í Borgarnesi.

Salander og Blomkvist iðin við kolann
Klósett #1

Salernisaðstaða á tjaldstæðinu við Arnarstapa á Snæfellsnesi
Leyndardómar Snæfellsness
Fyrsta ferðalag sumarsins var á hið fagra Snæfellsnes. Dísin Arwen hegðaði sér mjög vel í ferðinni en vildi ekki éta matinn sinn, heldur kaus að ræna grillmat og eggjabrauði frá okkur ferðalöngunum. Fyrri nóttina var gist í Grundarfirði á fínu tjaldstæði þar sem var nóg pláss og snyrtileg salerni. Grundarfjörður er bæði fallegur og menningarlegur bær, þar er fínasta sundlaug, sólsetrið yndislegt og höfnin fögur. Á nesinu var mikil umferð um helgina og seinni nóttina gistum við á týpísku tjaldstæði við Arnarstapa þar sem úði og grúði af Íslendingum á risapallbílum með fjórhjól, kajaka, felli- og hjólhýsi fyrir milljónir, gaulandi slagara fram undir morgun. Við Arnarstapa er mikið fuglalíf og ég skil ekki í því hvað krían er þrautseig að koma þarna ár eftir ár eins og ágangurinn er á varpsvæðinu og sjófuglar hafa tæpast frið heldur fyrir glápi túrista. Veðrið var yndislegt, ótrúlega hlýtt og milt og sólin bakaði okkur. Inga fór á hestbak og í sund á Lýsuhóli eins og þaulvön sveitastelpa. Reisan endaði í Hyrnunni í Borgarnesi, með viðbjóðslegum hammara, á meðan átti Arwen að bíða í bílnum en gelti stanslaust og var við það að fá taugaáfall.

Hundur og stórmerki

Ég kláraði bókina um helgina
Við fórum í smáútilegu á húsbílnum um helgina. Aðallega til að kanna hvernig Arwen tæki því að hossast í bílnum. Við fórum á bara stutt, gistum á Króksmýri í Reykjanesfólkvangi, það er hugguleg grasflöt með litlum bunulæk og salernisaðstöðu. Við Arwen vorum afturí á leiðinni, hún átti að liggja eða sitja í bælinu sínu og ég var við hlið hennar, klappaði henni og hughreysti hana eftir föngum. Hún var óörugg og vældi smá en lét sig hafa það til að byrja með, stutt í einu. En þegar leið á ferðalagið var hún alveg hætt að þola þetta, var sífellt að standa upp og vesenast. Samt var þetta ekki nema tæpur klukkutími, að vísu á holóttum vegi. Í útilegunni var hún hin glaðasta og lék allar hundakúnstir. Við vorum ekki bjartsýn á heimferðina. Ég fékk þá snilldarhugmynd að prófa að hafa hana frammí, við hliðina á mér en þar eru sæti fyrir þrjá. Er skemmst frá því að segja að hún kúrði hálf ofan á mér alla leiðina, ég hélt utan um hana með báðum höndum og hún æmti hvorki né skræmti. Hún breyttist í stóran og níðþungan kjölturakka. Hún var bara eins og fín frú, horfði pollróleg út um gluggana og hjúfraði sig svo að mér. Nú er bara spurning hvort við getum látið þetta viðgangast og hvort þetta er hægt á langferðum.
Stóra Kóngsfell og Drottning

Hressandi fjallganga
Í gær var farin svaðilför: gengið á þau konungshjónin í Bláfjallalandi, Drottningu og Stóra Kóngsfell (602 mys). Við Hella, Sossa og Odda slógumst í hóp 30 (annarra) göngugarpa. Ferðin hófst rúmlega sex um kvöldið og við vorum komnar til baka á bílastæðið um hálf níu, alls rúmlega 4,5 km. Það var frekar hvasst og kalt, fjöllin eru laus í sér svo maður var mikið að spóla í grjóti og mold. Útsýnið af fjallstindunum var stórkostlegt. Ég hef ekki áður farið í svona hópgöngu, þá gengur maður hraðar en ella. En hins vegar þá horfði ég ekki eins mikið í kringum mig og ég hefði annars gert, var mest að feta í fótspor þess sem var fyrir framan mig hverju sinni. En það hleypir kappi í kinn að vera í hóp, ekki vill maður verða síðastur á toppinn.
Gleðilegt sumar

Bílafælin fegurðardís
Þá er þessi blauti og kaldi vetur búinn, alla vega að nafninu til. Sumarið komið, jafnblautt og kalt, ef marka má sumardaginn fyrsta. En hvað er betra en íslenskt sumar, ferskt og svalandi?
Á sumardagskránni er aðallega þetta: útivist og ferðalög í húsbílnum góða og framkvæmdir á svölum hússins. Planið er að fara í a.m.k. tvær gönguferðir með Heiðari og Signe auk hefðbundinna útilega með systrum mínum og Sossu, og að ferðast um Vestfirði í fylgd Einars og Gyðu (og Bessa). Einnig ætlum við í styttri ferðir á húsbílnum og þá reynir á Arwen Dís Brynjarsdóttur að vera til friðs þar til komið er á áfangastað. Hún vælir enn í bílnum, þessi elska, sem er stóralvarlegt mál þar sem við getum ekki haft hana með okkur í 3-6 tíma keyrslu á dag ef hún er ýlfrandi allan tímann.
Heima við þarf hins vegar bæði þarf að laga svalagólf og vegg og setja upp handrið, fjárfrekar og flóknar framkvæmdir sem hafa lengi setið á hakanum. Annasamt og skemmtilegt sumar framundan.
Íþróttir
Við frænkur og vinkonur, Unnur, Odda, Sossa og Hella, gengum á Helgafellið í dag í blíðskaparveðri, 4,25 km alls og tók tæpa tvo tíma. Íþróttaafrekum mínum fer fjölgandi, á skírdag gengum við Brynjar alllengi með hundinn við Kleifarvatn og á annan í páskum fórum við systur í Elliðaárdalinn og þrömmuðum 5 km. Svo löbbum við Arwen á hverjum degi a.m.k. 1-2 km. Í mínum uppvexti var ekki mjög hvatt til íþróttaiðkunar en öllu meira til bóklestrar og menntunar. Pabbi var alltaf léttur á sér og liðugur þegar hann var ungur, lék sér að því að ganga á fjöll, renna sér á skautum og skíðum og keppa í fótbolta án þess að blása úr nös. Mamma stundaði aldrei neina markvissa líkamsrækt en var alltaf vel á sig komin en sjálf var ég alltaf rýr og föl, kýrstirð og léleg í leikfimi. Ég var hrædd við bolta, óttaðist að beinbrotna við að stökkva yfir kubbinn/kistuna eða hestinn (sem er fáránleg og hreinlega hættuleg leikfimiæfing), mér fannst dýnan hörð og vond lykt af henni, gat ekki klifrað í köðlum og fannst óþægilegt að svitna. Alltof lítil fjölbreytni og sveigjanleiki er í íþróttakennslu á Íslandi enn þann dag í dag, amk. í þeim skólum sem ég þekki til, en ég held samt að hesturinn sé úr sögunni og ekki er vel séð lengur að láta foringja kjósa í lið þar sem hinir feitu og einmana voru alltaf kosnir síðastir, niðurlægingin algjör.
Eldveggur eftir Henning Mankell

Óbeislaður kraftur
Við brugðum okkur í bústað múttu og padre í Grímsnesinu um páskahelgina. Renndum upp að Geysi sem kraumaði í rólegheitum og sáum Strokk gjósa ásamt hundruðum túrista hvaðanæva úr heiminum. Ágangur er mikill á svæðinu sem er illa merkt og lítt umhirt en peningaplokk er verulegt í þjónustumiðstöðinni. Það var skítakuldi úti en hlýtt og notalegt að liggja undir teppi og lesa góða bók. Massaði Eldvegg eftir Henning Mankell, um rannsóknarlögreglumanninn Kurt Wallander og félaga hans. Wallander finnst hann vera orðinn gamall og þreyttur, kann ekkert á tölvur og er að bugast á firringu, grimmd og heimsku mannanna. En rökhyggja hans og næmt innsæi klikkar ekki.