Grúsk dagsins

Íslandsbréf 1874

itayloy001p1

Bayard Taylor, 1825-1878 (Brittanica)

Bandarískt skáld, Bayard Taylor að nafni (1825-1878), var meðal erlendra gesta á þjóðhátíð Íslendinga árið 1874. Hann hafði verið á ferðalagi um Egyptaland og var staddur í Bretlandi þegar dagblaðið New York Tribune bað hann að skreppa á hátíðarhöldin og senda fréttir yfir hafið. Hann kom til landsins á gufuskipinu Albion og var Eiríkur Magnússon (1833-1913, bókavörður og þýðandi) honum samferða frá Cambridge. Taylor gaf síðan út ferðabók um reisurnar, Egypt and Iceland in the Year 1874, sem kom út samtímis í New York og London 1875.

Tómas Guðmundsson, skáld, leitaði lengi að bók Taylors til þýðingar í fornbókaverslunum í Englandi og víðar en árangurslaust þar sem hún er mjög sjaldgæf. Honum tókst loks að fá hana góðfúslega lánaða hjá Þórði Björnssyni, sakadómara „sem sennilega á stærra safn ferðarita um Ísland en nokkur annar“. Íslandsbréf 1874 kom út hjá Almenna bókafélaginu 1963 og ritaði Tómas greinargóðan formála og segir þar m.a.:

Samt ætla ég, að sumar þær þjóðlífsmyndir, sem þar er brugðið upp, varpi allskírri birtu yfir ævikjör og umkomuleysi fólksins á þessum tíma, sem nú er flestum okkar horfinn … Og þá er það líka nokkurs vert, að  hér kynnast menn mjög geðfelldum og drengilegum höfundi, sem fjallar um menn og málefni af óvenjuglöggum skilningi og ríkri samúð (10).

Rakst á þessa bók í dag í hillu og sökkti mér í hana. Bók úr safni föður míns og/eða afa sem báðir voru ástríðufullir bókasafnarar, unnu þjóðlegum fróðleik, hagmæltir heiðursmenn.

Nú er hægt að lesa bók Taylors á rafrænu arkívi.

Einsýnn porri

…Jón var fremur lágur vexti, en hverjum manni harðgerðari og snarmenni hið mesta, svo að fáir eður engir stóðust honum snúning. Hann var vel greindur maður. Réttust lýsing á  Jóni er í vísu, er hann kvað um sjálfan sig, þótt hún hafi ekki mikið skáldskaparlegt gildi. Vísan er þannig:

Einsýnn porri er að skálda

æði mikla vitleysu.

Hann er líkur gráum fálka,

þegar hann er í skinnpeysu.

 

(Laxárdals menn í Hrunamannahreppi eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Blanda, fróðleikur gamall og nýr VI, bls.277.

Vísa eftir Sigurð Breiðfjörð

Í veizlu á Hjaltabakka í Húnavatnssýslu var Sigurður Breiðfjörð gestur og var orðinn svo drukkinn, að tveir menn fóru út með hann um kvöldið eða nóttina, til þess að hjálpa honum að kasta af sér vatni. Sjór var fallinn hátt. Lítur Sigurður þá fram á sjóinn og segir:

Fallegt er, þá fellur sjór

að fjalla klónum.

Einn er guð í öllu stór

og eins í sjónum.

 

(eftir blöðum að norðan, Blanda, fróðleikur gamall og nýr VII, 1940-1943, bls. 380)

Fáráðlingur deyr

Úr Hrafnagilsannál

1745

Gengu frost svo mikil, að lagði allan fjörðinn. Maður bráðkvaddur við Mývatn, sótti vatn handa lömbum sínum og dó á vatnsveginum. Maður hengdi sig á Þingeyrum í fjósi. Annar skar sig á háls, þar nálægt. Einn lærbrotnaði í sömu sýslu. Annar fótbrotnaði. Barn fæddist í Ísafjarðarsýslu, var leon að mitti, var ei grafið að kirkju…

1. Jan. fæddust tvö börn á Kerhóli í Möðruvallasókn, samföst eður einn líkami frá viðbeini og ofan fyrir nafla. Sáust tveir naflarnir og geirvörtur utar og ofar en almennilega. Þetta voru kvenbörn, skírð Guðrúnar. Bæði grétu undir eins, sváfu undir eins, lifðu ellefu vikur, dóu nærri því á sömu stund. 2. Febr. varð úti Jón Þórisson á Grund, fáráðlingur, gekk út í hríð mót allri venju berhentur og ber á brjósti, fannst hjá Miðgerði dauður, og höfðu hrafnar þá kroppað úr honum augað annað.

Eyðing skóganna

Sakna ég úr Selvogi

sauðanna minna og ánna,

silungs bæði og selveiði,

en sárast allra trjánna.

(síra Jón Vestmann orti um 1840. Uppblástur, sandfok og eldiviðarnýting eyddi öllum gróðri á stóru svæði í Selvogi, Blanda I, 1918-1920).

Vísur Mag. Gísla Vigfússonar (d. 1673)

 

Gísli var útskrifaður úr Skálholtsskóla 1658; sigldi sama ár; var í Leiden 1661; skólameistari á Hólum 1664-1667; trúlofaðist þá Guðríði dóttur síra Gunnars Björnssonar á Hofi á Höfðaströnd, sigldi 1668 og varð magister. Kom út aptur 1669. Giptist Guðríði 1670. Vísurnar eru því ortar 1668-69.

 

Langt er síðan eg langvíu sá

liggjandi í böndum, –

eg er kominn oflangt frá

öllum mínum löndum

Norðurfjöllin  nú eru blá,

neyð er að slíku banni, –

eg er kominn oflangt frá

ástar festu ranni.

Ýtar sigla í önnur lönd

auðs að fylla sekki.

Eigðu Hof á Höfðaströnd,

hvort þú vilt eða ekki.

 

(Blanda I, 1918-1920, bls 233)

Leiði Kára löngu týnt

Breiðármörk hefur bær heitið, og bygð fyrir 14 árum; var hálf konungs eign, en hálf bænda eign, öll 6 hdr. að dýrleika. Hún er nú af fyrir jökli, vatni og grjóti; sést þó til tópta. Þar hafði verið bænhús, og sá þar til tóptarinnar fyrir fáum árum, og garðsins í kring. Þar lá milli dyraveggjanna í bænhústóptinni stór hella, hálf þriðja alin á leingd, en á breidd undir 2 álnir, víðast vel þverhandar þykk, hvítgrá að lit, sem kölluð var Kárahella, og þar liggur á leiði Kára Sölmundarsonar, hverja hann hafði sjálfur fyrir dauða sinn heim borið, til hverrar nú ekki sést. Þó kunna menn að sýna, hvar hún er undir.

(Njála segir skýlaust, að Kári og Hildigunnur hafi fluttzt að Breiðá hér um bil 1017, og búið þar „fyrst“.)

Úr skrá Ísleifs sýslumanns Einarssonar um eyddar jarðir í Öræfum. Blanda I, Reykjavík 1918-20.