Bergþóra Snæbjörnsdóttir

DEUS, DUFT og HÖGNI – UPPGJÖR VIÐ OFBELDI OG VANRÆKSLU

Ef marka má bókmenntirnar um þessar mundir eru tímabært að vinna með og gera upp vanrækslu, geðveiki og ofbeldi í æsku og reyna að koma auga á einhverja von í þessum hrjáða heimi. A.m.k. þrjár nýjar íslenskar skáldsögur eftir frábærar skáldkonur fjalla um slíkt uppgjör hver með sínum hætti.

Heimsendir í nánd

Í DEUS eftir Sigríði Hagalín sætir Ísabella Ósk gegndarlausu einelti og ofbeldi af hendi skólasystkina. Móðir hennar er í neyslu og hún verður að hírast hjá hörkutólinu ömmu sinni.  Strætóbílstjórinn Sigfús, hirðskáldið trygga, verður fyrir vitrun en missir vitið og leitar að guði. Hann hefur brugðist Helga  syni sínum svo oft að feðgarnir hafa ekkert samband lengur og það nístir þá báða.

Skáldið missir tökin, leggst út og leitar að ljósinu, m.a. í samræðum við spjallmennið Pastor sem er gervigreindarlíkan sem býður upp á sálusorgun og trúarlega leiðsögn beint í símann. Leiðsögnin beinist að þeim vandamálum sem hrjá mannkynið, er eins konar heilaþvottur: „samtalsviðmót með bæði ritstýrðri og sjálfvirkri námstækni til að veita andlega handleiðslu (42)“ . Þarna er risamarkaður fyrir útsmogið þekkingarfyrirtæki til að græða á fólki sem leitar að huggun.

Þegar Sigfús hverfur eftir að hafa rústað gervigreindinni þarf sonurinn að leita hans, læra að fyrirgefa honum veikleika og bresti og Ísabella þarf að læra að svara fyrir sig. Sjónarhornið er til skiptis hjá persónunum og þær hafa allar hver sitt málsnið; skáldamál, unglingamál og stofnanamál, bæði úr kirkjunni og tölvubransanum. Inn á milli eru frábær ljóð sem ljóma og skína enda kærleikur og skáldskapur það eina sem getur bjargað heiminum. Þessi bók boðar bráðan heimsendi, hún er troðfull af snjöllum hugmyndum og hefði mátt vera lengri. 

Tíðarandi og gróðabrall

Í DUFTI eftir Berþóru Snæbjörnsdóttur segir frá Veróniku sem elst upp í markaleysi hálfklikkaðrar móður og meðvirkt eftirlæti föðurins, bullandi ríkidæmi og alls konar óreiðu. Hún beitir síðan annað fólk einelti og yfirgangi, þjökuð af minnimáttarkennd, útlitsfordómum og sjálfshatri. Sá hluti bókarinnar sem gerist í Reykjavík í kringum 1980/90  þegar líkamsræktarstöðvar eru að komast á legg er algerleg frábær og fangar tíðarandann fullkomlega.

Skipt er um gír þegar Verónika er orðin fullorðin kona, vellríkur töffari með lotugræðgi. Hún telur sig bera ábyrgð á mannsláti og sér til yfirbótar gefur hún sig á vald Prins sem er forstjóri nýaldarfyrirtækis á Tenerife sem vill gera heiminn betri með því að framleiða bætiefnaduft fyrir þurfandi allsnægtafólk – áþekk pæling og í Deus um að græða á sársauka og ótta mannkyns. Þar beitir hún sjálfa sig því harðræði sem tíðkast í vinnubúðunum, fer í gegnum kryfjandi viðtöl og situr undir fyrirlestrum Prins um að mannkynið sé að drepast úr þægindum og þurfi róttæka hugarfarsbreytingu. En Verónika kemst að því að hjálpsemin er yfirskyn, undir yfirborðinu er þrælahald og ofbeldi og Prins mokgræðir auðvitað á trúgirni fólks. Duft er mössuð saga, sterk og áleitin. Og svo margt fallegt innan um grimmdina og ljótleikann:

„Þegar ég fæddist var ég enn rótarlaus á yfirborði heimsins, jafn varnarlaus og sandkorn sem ræður engu um hvert það fýkur. Lungu mín fylltust í fyrsta sinn af súrefni, nítrógeni og koldíoxíð. Plöntur og manneskjur deyja og molna án nítrógens. Sé of mikið af því geta þær ekki skotið rótum (345)“. 

Neggað og gaslýst

Hinn veimiltítulegi HÖGNI hrokagikkur eftir Auði Jónsdóttur tiplar í kringum drykkfellda móður og föður sem kemur út úr skápnum. Hann er einmana og vanrækt barn eftir skilnað foreldranna, rembist við að vera ekki fyrir neinum, reynir að vera fyndinn til að öðlast viðurkenningu en nær engu máli , beittur ofbeldi af skólasystkinunum.

Sambönd Högna við annað fólk á fullorðinsárum, einkum konur, eru brengluð og hægt að saka hann um að steinveggja, gósta, smætta, negga og gaslýsa (198) eiginlega án þess að hann átti sig á því, hann er svo firrtur og skemmdur karl. Óþolandi besserwisser sem óttast nánd og „kvennarök“ en þó svo vel smíðaður að eiginlega er ekki annað hægt en finna til með honum. Hann missir stjórn á sér í strætó sem auðvitað er tekið upp á síma og dreift um allt. Áður en hann veit af er hann úthrópaður í samfélaginu og á sér varla viðreisnar von. 

En kettir koma alltaf niður á lappirnar. Vinkonan Bergrós reynist betri en engin hvort sem það er nú  gerendameðvirkni eður ei, hún virðist ekki ætla að gefast alveg upp á honum og reynir að leggja honum einföldu lífsregluna sem við ættum öll að tileinka okkur: „Reyndu bara að meiða ekki aðra, manstu, aðgát skal höfð í nærveru sálar“ (198). Átakanleg saga af falli og niðurlægingu en líka um upprisu, mörk og mátt fyrirgefningarinnar – kannski er vonarglæta eftir allt saman. 

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu