bókmenntir

Áföll frosin föst í minni mínu – Um Hirðfíflið

Anna Ragna Fossberg (f. 1966) hefur sent frá sér bókina Hirðfíflið sem hún gefur út sjálf. Áður hefur hún sent frá sér skáldsöguna Auðnu út árið 2018 sem er dramatísk fjölskyldusaga og ástarsöguna Hugfanginn.

Aðalsögupersóna bókarinnar, Inga Stella, elst upp við alkóhólisma móður og kynferðisofbeldi af hendi föður síns. Í bókinni ávarpar hún foreldra sína til skiptis, rifjar upp atvik úr bernskunni og reynir að átta sig á því hvernig þetta allt gat viðgengist.

Faðir hennar, sem ekki er nafngreindur í bókinni, er virtur maður í þjóðfélaginu sem hóf sig upp úr fátækt og bæklun til mennta og metorða. Yngsta barnið og pabbastelpan gerir hvað sem er til að fá athygli hans. Ofbeldið varð sífellt grófara en þögul hróp hennar um hjálp heyrast ekki. „Ég vildi óska að þú hefðir stigið inn og bjargað mér, náð mér frá þessum hættulega manni“ (126) segir Inga Stella í bókinni og ávarpar móður sína. Löngu síðar áttar hún sig á að móðirin var á valdi fíknar sinnar, veik og valdalaus hafði hún hvorki bolmagn né kjark til að taka dóttur sína úr þessum aðstæðum, þótt hún vissi hvað gekk á.

„Þegar heim kemur vaknar hirðfíflið úr dvala“ segir á einum stað í sögunni (135). Hirðfífl þarf konung sem pantar sýninguna, hlær og klappar. Hvort er hirðfíflið í sögunni, pabbinn eða barnið? Á viðbjóðslegan hátt stillir faðirinn dæminu upp eins og dóttirin vilji ofbeldið. En hún er bara barn að reyna að lifa af. „Í mínum augum er þetta lífsnauðsynlegt leikrit sem gengur út á að þjóna þér, gleðja þig svo allt verði gott“ (136). 

Afleiðingar ofbeldisins fylgja Ingu Stellu allt til þessa dags; sjálfshatur, áfallastreita, skömm og reiði, ofsakvíði og innilokunarkennd. Með bókarskrifunum varpar hún ábyrgðinni á hegðun föðurins af sér og skilar henni þangað sem hún á heima. Batinn tekur mörg ár með mikilli sjálfsvinnu og samkenndarmiðaðri nálgun sem byggir á núvitund og góðvild í eigin garð sem er forsenda þess að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Engum blöðum er um það að fletta að Inga Stella er Anna Ragna sjálf. 

Frásögnin er öll í nútíð sem færir atburðina nær lesandanum. Raunsæið er allsráðandi í lýsingum á líkömum, skömm, ofbeldi og blæðingum og bókinni fylgir kort af íbúðinni þar sem fjölskyldan bjó.

Að vera beitt kynferðisofbeldi í æsku er áfall sem hefur varanleg og djúpstæð áhrif á þroska og mótun barns. Hirðfíflið er saga af hrikalegu ofbeldi sem var þagað um og tók áratugi að vinna úr. Sannleiksgildi frásagna þolenda kynferðisofbeldis er oft dregið í efa og umdeilt hvort eigi að segja frá. En fyrir áhrif frá #metoo- og #höfumhátt-umræðu stíga æ fleiri fram og segja sögu sína. Það er hvorki auðvelt né sársaukalaust að raða saman brotum og erfiðum minningum í eina heild eins og segir á titilblaði bókarinnar, en hver einasta saga meitlar örlitla sprungu í þagnarhjúpinn:

Þótt áföll hafi frosið föst í minni mínu 

hefur þurft mikla túlkun

til að setja þau í samhengi og

koma sögunni í heild sinni á blað. 

Þú ert sannarlega hugrökk, Anna Ragna.

Birt á skáld.is 18.11.25

Fjarveran og afskiptaleysið – Um Útreiðartúrinn

Nýjasta bók Rögnu Sigurðardóttur, Útreiðartúrinn, er „áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni“ eins og segir á bókarkápu. Þar segir frá Sævari, Helgu konu hans og 14 ára einkasyninum Pétri sem eru nýflutt á Álftanes. Kvöld eitt kemur sonurinn heim í lögreglufylgd en svo virðist sem þrír strákar hafi ráðist á hann og Sindra vin hans að tilefnislausu. Þegar frá líður birtist myndband á netinu af árásinni og þá fer Sævar að gruna að Pétur hafi ekki sagt satt um atburðinn. Þegar Pétur síðan pínir Sindra til að borða rótsterkt chili til að birta sem grín á tiktok, fara að renna tvær grímur á Sævar. Getur verið að Pétur hans sé „bully“ og ofbeldismaður?

Glósur, gón og káf

Frásögnin hefst á dularfullu andláti í útreiðartúr ungs fólks á Álftanesi í júní 1881. Erfitt reynist að henda reiður á hvort það var slys eða ekki. Einn er síðan grunaður um morð en sluksað var við rannsóknina. Sá grunaði, Eyjólfur, er langalangafi Sævars. Þetta var þaggað niður í fjölskyldunni og Sævari finnst mannorðshnekkir að vera kominn af morðingja (98). Hann ætlar samt að segja Pétri söguna í þeirri von um að hún veki áhuga hans og tengi þá feðga saman. En þetta er of fjarlægt og snertir hann ekki: „Kúl saga“ segir Pétur (37). Svo tekur Sævar til við að rannsaka málin sjálfur, bæði gamla morðmálið og árásina.

Í þessum þætti sögunnar er dregin er upp mynd af samfélagi þar sem stéttaskipting er mikil og vinnufólk hefur um fátt að velja. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Guðnýjar, formóður Sævars, sem freistar þess að komast frá vinnukonulífinu í dalnum og skapa sér framtíð á Álftanesi með téðum Eyjólfi. Skiljanlega vill hún komast burt; hlutskipti vinnukonunnar, sem ofan á húsverkin felst í að þjóna vinnumönnunum á bænum sem í skjóli forréttinda sinna fara sínu fram:

„Frá því hún mundi eftir sér höfðu þeir hreytt í hana ónotun, ýtt við henni, skammað hana, skipað henni fyrir, hæðst að henni og hlegið framan í hana um leið og þeir gerðu ráð fyrir sífelldri þjónustu. Þegar hún stálpaðist og það fór að móta fyrir brjóstunum undir treyjunni störðu þeir opinskátt og slefandi. Þeir þreifuðu á rassinum á henni þar sem hún stóð við pott með sjóðandi vatni og gat sig hvergi hreyft. Þeir földu þetta ekki, hvorki glósurnar, gónið né káfið. Því skyldu þeir gera það?“ (139).

Eyjólfur er öðruvísi en aðrir vinnumenn, hann er vænn og myndarlegur. En það eru brestir í honum, hann virðist vera hálfgerð rola, uppburðarlítill og drykkfelldur. Þegar þau koma á Álftanes reynast aðstæður öðruvísi en til stóð.

Saga útreiðarfólksins er byggð á raunverulegu sakamáli, svonefndu Kristmannsmáli. Útreiðarfólkið var hneppt í varðhald og yfirheyrt en svo reyndist merkilega lítill áhugi yfirvalda á að upplýsa málið. Málið lognaðist svo útaf en orðrómurinn lifði. Í bókarlok er málið hins vegar loksins upplýst!

Landslag og kynslóðabil

Landslagið á Álftanesi leikur stórt hlutverk í þeim sögum sem fram vindur í bókinni, enda er gróið holtið óbreytt frá fornu fari, „þúfurnar áþekkar og mosagróið hraungrýtið sömuleiðis. Grjótið var samt, lyngið og mosinn á holtinu. Sjávarlyktin sú sama.“ (35). Landslagið er bæði  leikmynd og táknmynd fyrir tíma og tilfinningar. Kynslóðabilið er ekki bara á milli langalangafans og Sævars, það er síst minna á milli Sævar og Péturs:

„Gargandi mávar tóku dýfur fyrir ofan okkur, hestar stóðu á beit í móanum fyrir neðan holtið, sólin merlaði á sjónum allt í kring. Innra með mér toguðust á sólskinið og skuggarnir í hrauninu, vitneskja um söguna sem leiðsögumaðurinn átti eftir að segja okkur uppi á holtinu, fjarlægðin sem ég fann fyrir milli okkar Péturs. Ég saknaði stráksins míns og mig langaði að ná til hans … Ég fylgdist með Pétri feta sig óöruggur yfir þúfur og áttaði mig á að hann var ekki vanur því. Hvernig gat verið að hann kynni ekki að ganga í þúfum?… (33)“.

Glæpir eru víða

Sævar er heimavinnandi og nostrar við bókaskreytingar á vinnustofunni sinni. Hann nær engu sambandi við son sinn sem hann margoft langar að faðma og sýna umhyggju og vinsemd en hikar alltaf og heldur aftur af sér. Pétur er að breytast úr barni í fullorðinn og Sævar nær ekki utan um þær andlegu og líkamlegu breytingar sem verða á honum. Hann finnur fyrir sektarkennd yfir að hafa skipulagt að flytja með Pétur á viðkvæmum aldri úr hverfinu sem litla fjölskyldan  hafði búið í síðan hann fæddist.

Stutt er í sjálfsásökun, reiði og skömm hjá Sævari. Hann á erfitt með sig vegna yfirgangs og gaslýsingar sem hann varð fyrir sem gutti, af hendi Togga sem hann leit á sem sinn besta vin. Sá þráður er rakinn til sumardvalvar í sveitinni hjá ömmu og afa á Álftanesi þar sem Sævar kynntist Togga fyrst í kringum 1980. Þá koma til sögunnar kynni Sævars af rannsóknarblaðamanninum Bergi sem skyndilega var ekki lengur velkominn í heimsókn eftir að hann skrifaði grein um morðmálið frá 1881 og reif þar með upp gömul sár.

Glæpirnir eru víða; Bergur hafði sem blaðamaður hagnast á þiggja mútur fyrir að hilma yfir skattsvikum og eignaðist þannig lóð á Álftanesi. Hann dró fjölskylduna sína nauðuga með sér þangað (sjá  magnaða senu á bls. 206-209), rétt eins og Sævar telur sig hafa gert. Bergur var fjarhuga faðir sem ráðskaðist með fjölskyldu sína en hlustaði aldrei. Sævar veltir fyrir sér hvort hann sjálfur sé sama manngerð: „Viltu hlusta á mig?“ sagði Helga stundum við mig og það hafði svo oft pirrað mig. „Ég er að hlusta,“ sagði ég þá, en kannski var ég ekki að því. Af hverju væri hún annars að biðja mig sérstaklega um það? (209).

Samband þeirra hjóna Sævars og Helgu virðist einkennast af fálæti og afskiptaleysi sem hlýtur að varpast yfir á Pétur.

„Helga fann að eitthvað var að  en hún gerði líklega ráð fyrir að það væri vinnan, að ég væri í tímapressu og mér gengi ekki nógu vel en þá átti ég til að verða þögull og afundinn. Við höfum okkar rútínu eftir meira en tveggja áratuga hjónaband. Henni hefur lærst með tímanum að láta mig í friði þegar þannig stendur á. … Og ef mér finnst Helga vera fjarlæg eða ég finn að eitthvað hvílir á henni sem hún ræðir ekki við mig treysti ég henni til að leysa úr því og hleyp auka hring til að ná betra jafnvægi. Við þurfum ekki lengur að ræða alla hluti“ (125).

Helga stendur í skugga og er eingöngu sýnd með augum Sævars. Undir lok sögunnar er hún orðin ein taugahrúga, með bauga undir augunum og þráhyggjukennda hegðun.

Pétur er trúverðugur unglingur sem spilar ofbeldisfulla tölvuleiki einn og afskiptalaus í herberginu sínu, svarar með hnussi eða eins atkvæðisorðum og er með hausinn á kafi í samfélagsmiðlum. Hann bæði horfir á ofbeldismyndbönd og býr þau til og finnst það ekkert tiltökumál. 

Allar þessar sögur, persónur og svið speglast á margs konar hátt og draga fram bresti, skömm og sektarkennd sem kynslóðirnar burðast með. Sindri og Sævar eru t.d. hliðstæður því þeir upplifa báðir að besti vinurinn bregst þeim og þeir skammast sín fyrir að hafa lent í ofbeldi. Sævar skammast sín svo mikið fyrir það sem Pétur gerði að hann forðast að hitta fólk (263) og fjarlægist fjölskyldu sína. Eyjólfur á sér ekki viðreisnar von eftir atburðinn í útreiðartúrnum og skömmin hrekur hann burt frá konu og barni.  Guðný skammast sín fyrir að hafa ekki klárað útreiðartúrinn og grípur því til lygi í yfirheyrslunum. Toggi og Pétur beita báðir vini sína ofbeldi.

Grunnt á grimmdinni

Á bókakápunni er grimmdarleg sena og það er grunnt á grimmdinni, án aðhalds og marka getur hún flætt yfir bakka sína. Hvað verður um Pétur? Mun hann einhvern tímann sjá mun á réttu og röngu, mun hann alltaf þræta fyrir misgjörðir? Stendur litla fjölskyldan þetta af sér eða sundrast?  Sævar þekkir hvorki son sinn né sjálfan sig, hann skilur ekki hvaðan reiðin kemur sem grípur hann stundum. Hann elskar Pétur og stendur frammi fyrir því að velja hvort eigi að hilma yfir með honum eða draga hann til ábyrgðar.  Og sektarkenndin nagar hann.

„Ef ég hefði bara verið betri pabbi. Hvað ef ég hefði fylgst betur með, tekið breytingarnar alvarlega, sýnt nýju vinunum hans meiri áhuga? Hefði verið strangari, haft stjórn á hverju Pétur hafði aðgang að í símanum sínum, stjórnað hverja hann hitti, hvar og hvenær.“ (258).

Hugurinn hvarflar til metsölubókarinnar Kvöldverðurinn eftir hollenskan höfund, Herman Koch, sem kom hingað á bókmenntahátíð 2013. Í þeirri bók fremja 15 ára bræðrasynir ódæði og siðferðislegar spurningar vakna varðandi afstöðu foreldranna þegar piltarnir þekkjast á upptöku úr öryggismyndavél.  Sagan endurtekur sig og ofbeldið í heiminum margfaldast. 

Útreiðartúrinn glímir á hugvekjandi hátt við sömu sígildu spurningar, með djúpstæðri tengingu við land og sögu, sekt og skömm. Persónur sögunnar í nútímanum reyna að  fóta sig í grimmum heimi alveg eins og forfeðurnir, þar sem gildin eru fljótandi, sannleikurinn og siðferðið líka. Áður fyrr var það samfélagsgerðin sem gróf undan jafnræði, staðfestu og heilindum, núna er það fjarveran og afskiptaleysið.

Birt á skáld.is 22.11.25

Beinhvít blöð, vot af tárum

Út er komin ný ljóðabók eftir Ásdísi Óladóttur (f. 1967). Fyrsta ljóðabók Ásdísar, Birta nætur, kom út 1995. Úrval úr ljóðum hennar, Sunnudagsbíltúr, var gefið út 2015 þannig að á næsta ári spannar skáldferill hennar 30 ár. 

Nýja ljóðabókin heitir Rifsberjadalurinn. Hún skiptist í tvo hluta, Allt nema ég og Á nefi mínu hvílir regnhlíf. Fyrri hlutinn er bálkur sem lýsir glímu ljóðmælanda við ranghugmyndir, sektarkennd og ofsóknaræði; raddir heyrast í höfðinu og sjálfsvígshugsanir leita á. Þetta eru raunsæisleg og hreinskilin ljóð, ómyrk í máli um hvernig geðveiki nær undirtökum, um einhvers konar lækningu með lyfjum („Lífæð mín 30 mg“) og einhverjum bata. 

Kláraði námið 

en fékk enga stjörnu

á rassinn.

Minna veik

og varð minna

og minna veik.

Var komin 

í rifsberjadalinn

eða á lyfið

sem ég tók inn.

Rifsberjadalur hefur skemmtilega tengingu við lyfið Risperdal sem virkar á flest einkenni geðklofa og er notað við bráðum og langvinnum geðtruflunum. Dalur þessi er væntanlega sólríkur og notalegur staður þar sem hægt er að leita skjóls, svipað og að vappa inn í Víðihlíð í samnefndu ljóði Megasar. 

Í seinni hluta bókarinnar kveður við öðruvísi tón og skáldlegri. Þar eru japönsk ljóð skrifuð á blöð kirsuberjatrjánna, draumar eru fiskar sem eru dregnir á land og glerbrotum rignir um nótt. En sársaukinn er enn til staðar og einsemdin alltumlykjandi: „allt í góðu lagi nema ég“ (46).

Ljóð sem heitir Samtal fjallar um orð og þar er „nú-na“ endurtekið stef. Því lífið er stutt og dauðinn þess borgun, eins og annað skáld kvað forðum, og boðskapurinn er að allt okkar streð verður fyrr en varir gleymt og grafið.

ÆVI

Maðkur,

sandmaðkur

skilur eftir sig 

á leirunni 

flókna

slóð,

minnisvarða 

um ferð.

Það fellur að.

Síðast kom út ljóðabók frá Ásdísi 2020, Óstöðvandi skilaboð, þar sem einsemdin er einnig alls ráðandi. Sársaukinn er mikill í báðum þessum bókum og skáldkonan veltir fyrir sér hvort orðin nái almennilega utan um hann. Dregin eru upp eftirminnileg mynd: Orðin fæðast og falla: „á beinhvít blöð / vot af tárum“.

Prísundarfiskar og annálamyrkur

Í nýjustu ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Kallfæri, eru um 60 ljóð. Aftast eru nokkrar skýringar. Guðrún á brýnt erindi, hún þarf sannarlega að komast í kallfæri við lesendur og nú er það okkar að hlusta. 

Ljóðin eru mörg hver flugbeitt og tekin er skýr afstaða gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og og hvers kyns yfirgangi. Sum bera með sér söknuð eftir fortíð eða tengjast náttúrunni; þar blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja. Víða er frost og ís í ljóðunum, vetrarhörkur og klakahröngl og „rabarbarastóðið fyrir utan kreppir tærnar í angist” (35).  Rödd ljóðmælanda er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint. 

Fyrstu tvö ljóðin í bókinni draga fram liðinn tíma sem mörgum er ókunnur og svipað þema er í ljóðinu „myrkur” á bls. 55. Í amstri daganna, umferðarnið og síbylju, heyrist ekki hátt í birtingarhljómi, fjaðraþyt eða fornu tauti og skrjáfi en við ættum kannski að leggja eyrun við og muna uppruna okkar og fortíð. 

Þriðja ljóðið „tónverk í smíðum” er í sama dúr. Þar eru fyrirboðar þess að verið er að eyðileggja náttúruna með endalausri græðgi. Áður en við er litið er búið að leggja landið okkar undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur.  Orðið prísundarfiskur kemur þar fyrir;  lax sem elst upp í keri eða kví.

Í  ljóðinu „Jeríkó, þaulæft atriði” er vísað til þess að stríð hafa verið háð um aldir og þau bitna mest á börnum. Lúmskt fyndið er ljóð um internetið (já, reynið bara að yrkja eitthvað bitastætt um það óskáldlega fyrirbæri) og yfirvofandi endalok þess.  Og ljóð um hlátur kvenna snerti mig, það minnir á lífsbaráttu formæðra okkar og upp rifjuðust ummæli skáldkonunnar Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim – konur óttast að karlar drepi þær.

VINDHANAHLÁTUR

í þann tíð hlógu konur

hvorki dátt né lengi

kannski stöku álfkona á nýársnótt

eða stúlka í hópi barna

undir rökkursvefninn

í þessu landi var hlátur jafn galinn

og vindhani á bæjarburst

hefði ekki lafað þar lengi

nema ryðgaður skakkur

með óþolandi ískri

til einkis að tjasla við hann

slitinn úr öllu samhengi við vindáttina

og nauðsynleg jafnaðargerð

eins gott að sleppa honum alveg

(32)

Guðrún er meistari í orðasmíð og hugrenningatengslum eins og ótal dæmi sýna; „reynið bara að segja upphátt: þrír vetur í röð … og fallið er bratt niður í dimmt annálamyrkur” (36). 

Ekki eiga mávar sér marga málsvara en Guðrún dregur upp mynd af þeim, leitandi sér eilíflega að góðum stað til að deyja á.  Ruslahaugarnir þar sem þeir dvelja löngum eru friðsæll staður; með volgri vélarolíu  og ryðrauðum salla sem fellur hljóðlaust (41). Allt á sinn tilverurétt í heimsmyndinni.

Lljóðin í Kallfæri eru ort af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Þau eru hvert öðru betra. Ég staldraði oft við mörg þeirra og naut þess að lesa þau, s.s. telos, gullgerðarlist og „dátarnir staðföstu. 

Bókin endar á himnabréfi til lesenda en skv. gamalli trú voru það bréf sem skrifuð voru á himnum og bárust síðan til manna. Þeir sem komust yfir slík bréf töldust hólpnir í þessu lífi og öðrum (61). Í Kallfæri er sannarlega reynt að koma himnabréfinu til okkar, vara okkur við og veita sáluhjálp. En við þurfum að leggja eyrun við.

Stórhættuleg bók?

Berglind Gunnarsdóttir hefur ort ljóð, þýtt ljóð, skrifað eina ævisögu og tvær skáldsögur. Önnur þeirra er Tímavillt frá 2007, um Áróru sem eftir traumatíska bernsku og meðvirkt uppeldi lifir kyrrlátu lífi innan um bækur. Einmanaleg tilvera hennar fer á hvolf þegar hún byrjar í ástarsambandi með miklu yngri manni (nafnlaus í sögunni). Sambandið er sjóðheitt, tilfinningarnar djúpar, ástriðurnar ólga en margt er mótdrægt, ekki síst áfengissýki hans og ótti hennar um að ástarsælan muni ekki endast.

Bókin skiptist í fimm kafla: Búðin, Bókasafnið, Ástin, Fallið og Vegurinn. Textinn minnir um margt á ljóð líkt og í fyrri skáldsögu Berglindar, Flugfiski (1992). Innan um eru tilvitnanir í gamlan skáldskap og bréf enda ástin tímalaus/tímavillt fyrirbæri sem setur allt á annan endann.

Tíminn er stef sem birtist af og til í sögunni. Endalok æsku og ungdóms, eilífðin, samtíminn, skammvinn ástin. „(Áróra) er líka rugluð í tímanum af því með honum lifir hún annan tíma en sinn eigin; tími hans verður líka tími hennar. Þannig stækkkar tímavídd hennar“ (54).

Og hún veltir fyrir sér tíðarandanum sem er líklega um 2007 þegar bókin kom út, bullandi uppgangur, djamm og velferð sem endaði illa eins og við vitum nú: „Hún fæddist inn í nútíma sem var að komast á legg og finnst hún núna lifa endalok hans. Það fór saman við hennar eigið líf sem var gengið henni úr greipum. Hvaða tími tók þá við?“

Að veslast upp í eigin skugga

Persónum sögunnar og þróun ástarsambandsins, risi þess og falli, er lýst af innsæi og á ljóðrænan, merkingarþrunginn hátt.

„Undanhald hans verður biturra eftir því sem lengra líður. Hún veit það, hann hefur sagt henni frá því hvernig birta glersins verður að veröld skuggamynda þar sem sérhvert ljósbrot smýgur langt inn í vitund hans, heggur hann snöggu, sársaukafullu lagi. Meðan hann var nógu ungur var það leikur einn og hann leikinn í að komast undan. Síðan harðnaði leikurinn og svik hans við sjálfan sig urðu svo margslungin að á endanum var hann farinn að veslast upp í eigin skugga (73).“

Stórhættuleg bók?

Gaman er að glugga í nokkra ritdóma um bókina frá því hún kom út,  í Fréttablaðinu sáluga, Mogganum og TMM. Viðtökurnar eru ólíkar. Tvær konur og einn karl skrifa um bókina.

Elísabet Brekkan segir í ritdómi í Fréttablaðinu 18. nóvember 2007:

„Þetta er kannski stórhættuleg bók sem getur ruglað allar miðaldra „spikk og span“ konur í ríminu þannig að þær fara að leita sér að ungum ástmönnum? Gæti virkað eins og dulítil uppskriftarbók fyrir konur á gráum dröktum.“

Hrund Ólafsdóttir fjallaði um bókina í Mbl, 22. nóvember 2007:

„Tilfinningar aðalpersónunnar sem Berglind lýsir eru djúpar, einlægar, fallegar, gleðilegar og sorglegar en umfram allt er þeim lýst mjög ljóðrænt og næstum alltaf er ókomin sorg yfirvofandi: ,,… eins og ekkert sé til nema heitir og yfirkomnir líkamar þeirra fléttaðir saman í þrá sem blandast kvöl yfir að verða aftur aðskildir. (59) Ástin er vonin og lífsneistinn sem lesandi vonar að bjargi aðalpersónunni frá depurðinni en heildarmyndin, sagan öll, með sálfræðilegri leit að skýringum veldur því að ekkert er eðlilegra en að svo verði ekki. Tímavillt er dapurleg, falleg saga höfundar sem óttast ekki að snerta lesendur.“

Vantar upp á gredduna

Í TMM 1. nóvember 2008 fjallar Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um Tímavillt og aðra bók í sama ritdómi undir fyrirsögninni Ófullnægja hvunndagsins og finnst talsvert vanta upp á gredduna í báðum bókum.

„Flestir lifa sínu lífi án þess að eftir því sé tekið. Sé tekið eftir því er það út af því að viðkomandi hefur brugðið út af vananaum, líkt og í tilfelli Áróru. Það þýðir þó ekki að ekkert gerist bakvið tjöldin … Líkt og lesandi þessarar greinar hefur  tekið eftir er hún fremur þurr og litlaus, e.t.v. líkt og hvunndagurinn sjálfur og endurspeglar um margt bækurnar sjálfar. En þótt hvorug bókin gefi ballfróartilefni eru þær um margt áhugaverðar og varpa ljósi á hvað getur gerst í ófullnægju hvunndagsins ásamt því að veita okkur innsýn í hvunndag sem stendur okkur ef til vill of nærri til að við nemum hann almennilega. Þó kemst maður ekki hjá því að hugsa með sér að vel hefði mátt gera sér meiri mat úr efniviðnum, þá sérstaklega í Hliðarspori; sú saga býður upp á nokkuð óvænt plott sem hnýtir haganlega saman þræði bókarinnar. En þó að allt sé vel úr garði gert, bæði í henni og Tímavillt, vantar talsvert upp á gredduna, sem er auðvitað bagalegt í ljósi innihaldsins. Því þótt ófullnægju sé vissulega fyrir að fara í hvunndeginum er hann svo sannarlega graður.“

Austurstræti helgarnæturinnar

Undir lok sögunnar er rómantíkin búin og kaldur raunveruleikinn tekinn við. Áróra gengur um miðbæinn, „í risavöxnum draumi ölvunarinnar í Austurstræti helgarnæturinnar.“ (105) Hún gengur fram hjá porti þar sem konu var nauðgað, fram hjá götuhorni þar sem ungmenni var barið og skilið örkumla eftir í blóði sínu. Hún veltir fyrir sér hvatalífinu, upphafningu efnisins, trúlausum timanum. Hvernig fíknin étur upp góðvildina, hvernig þorstinn í ölvun og gleymsku er allsráðandi. En hjartahlýjan, sem er alls staðar ef að er gáð, lífsgleðin og kröftugt hljómfall tónlistar verða samt til þess að hún finnur sátt og von. Þegar þau fyrrum kærustuparið rekast saman í bænum halda þau orðalaust hvort í sína áttina. 

Sjá einnig á skáld.is 5.4.23

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021

„Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var“

Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.

Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.

Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.

„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).

Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.

Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.

Birt á skáld.is, 21. nóvember 2021

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021

Öndvegis sjálfshjálparbók

738858

Mynd: mbl.is

Það liggur eitthvað í loftinu. Menn eru að verða svo meyrir og nostalgískir, menn horfa til baka, gera upp líf sitt, kafa ofan í uppeldið, ástina, eineltið, fátæktina, fíknina og skömmina, hjónabandið, geðveikina, dauðann. Og pæla í hvernig varð ég nú skáld, ballettdansari, prestur  eða róni – hvað gerði mig að því sem ég er?

Tilhneiging sjálfsverunnar til að gera upp fortíðina birtist víða í skáldverkum samtímans, í ljóðum, sjálfs-/skáldævisögum, myndlist og kvikmyndum. En það er ekki oft sem sjálfsævisaga er ekki skrifuð að sjálfinu, af þeim sem sagan snýst um. Ég verð að viðurkenna að það ergði mig dulítið í fyrstu að handleika Þúsund kossa, (sjálfs)ævisögu Jógu eftir Jón Gnarr. Af hverju er karl að skrifa fyrir konu? Er þetta enn eitt dæmið um karl sem tekur efni konu, sögu hennar og ljóð, og býr til prentunar, raðar upp, skrifar formála og athugasemdir og klippir burt eða bætir í að eigin geðþótta eins og svo mörg dæmi eru um úr bókmenntasögunni? Jóhanna Jóhannsdóttir, sem alltaf er kölluð Jóga, hefur orðið í bókinni og segir frá hverju klandrinu á fætur öðru í lífi sínu en Jón, eiginmaður hennar, skráir og er höfundurinn. Er Jóga dáin eða mállaus? Er hann búktalari fyrir Jógu? Hvað er málið?

Jóga segir: „Ég veit ekki mikið um bækur. Ég hef ekki lesið margar bækur og aldrei skrifað bók, en ég hugsaði sem svo að kannski gæti hann farið í gegnum þetta með mér með því að skrifa söguna“ (272).

Nú nú, allt í lagi, gefum þessu sjens, Jón er fínn rithöfundur og textasmiður og styður við bakið á konu sinni. Sagan hefst á notalegum árum í Kópavoginum þar sem Jóga elst upp, hress og opin, soldið fiðrildi og krútt, hæfileikarík og sjálfstæð stúlka. Þeir kaflar eru léttir og ljúfir og mesta furða hvað hægt er að búa þar til úr litlu efni. Í fyrri hluta bókarinnar er lesandinn búinn undir að Jóga muni reka sig harkalega á í tilverunni, sakleysi hennar og trúnaðartraust mun sannarlega tortímast.

Nítján ára gömul fer Jóga sem au pair til New York, lendir þar í alvarlegu bílslysi 1981 og tilveran fer á hvolf. Eftirmálin eru með mestu ólíkindum, allt klúðrast sem klúðrast getur og Jóga snýr aftur heim, niðurbrotin og skömmustuleg. Það er fyrst núna, þrjátíu og fimm árum síðar, sem hún kastar af sér byrðum áralangrar sjálfsásökunar og skoðar hlutina í nýju ljósi.

Það kemur á daginn að Jón Gnarr er hvergi nálægur í þessari bók, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Honum tekst afar laglega að halda sjálfum sér utan við söguheiminn og skrásetja frásögnina án þess að troða Jógu um tær. Hann (eða þau?) skapa trúverðugan og viðkunnanlegan sögumann, sem í senn er „Viking Woman“ og „óttalegur njóli“. Ung og hrekklaus verður Jóga fyrir alvarlegu áfalli, staulast síðan um með brotna sjálfsmynd, fótsár og vegmóð af illsku heimsins. Þetta er vel gert og nærfærnislega í bókinni og ekki annað hægt en finna til samúðar og samkenndar með stúlkunni í öllum hremmingunum.

Það sem kom fyrir Jógu í Ameríku er viðkvæmt mál en í bókarlok tekur hún saman hvaða mark þessi erfiða reynsla hefur sett á hana. Skömmin er stór hluti af afhjúpuninni og uppgjöri við fortíðina. Það þarf mikið hugrekki til að opinbera það sem maður hefur blygðast sín fyrir alla ævi en það er líka léttir. Saga Jógu er um svikið sakleysi en hún fjallar líka um fyrirgefningu; um það að geta fyrirgefið sjálfum sér.

Jóga segir: „Ég veit ekki alveg ennþá hver tilgangurinn með þessari bók er. Kannski er einhver frekari heilun fólgin í því fyrir mig að koma þessari reynslu frá mér. Kannski styrkir það mig að hafa gengið í gegnum þetta upprifjunarferli. Ég veit það ekki enn. Kannski getur saga mín hjálpað öðrum á einhvern hátt, gefið styrk eða von. Ég vona það af öllu hjarta“ (281).

Ég er viss um að skrifin skila einhverju góðu fyrir hana og Jón. Lesendur munu áreiðanlega hafa gaman af bókinni; dúndrandi eitís-fílingnum, heiðarleikanum, hugrekkinu og uppgjörinu; og jafnvel draga af henni nokkurn lærdóm enda er þetta öðrum þræði öndvegis sjálfshjálparbók. En ég velti fyrir mér hvort það sé alveg bitið úr nálinni. Er Jóga tilbúin að bera höfuðið hátt eða ætlar hún að standa að baki Jóni, hinum vel skrifandi karli? Það eru nokkrar myndir í bókinni úr einkasafni en engin almennileg mynd af Jógu, á bls 180 er mynd af þeim hjónum þar sem sést ekki framan í hana og á bókarkápunni heldur hún fyrir andlitið.

Víðsjá, 30 nóv 2017

Íslenskur djammveruleiki

Jónas Reynir Gunnarsson sendir nú frá sér sína fyrstu skáldsögu sem heitir Millilending. Steinunn Inga Óttarsdóttur fjallaði um bókina í Víðsjá.

Steinunn Inga Óttarsdóttir skrifar:

nightlife-in-reykjavik-1„Ég er ekki vön að keyra full. Ég veit alveg að það er sjálfselskt og heimskulegt að láta sér detta það í hug en ég var bara búin með tvo bjóra sem ég hafði líka ælt og eitthvað smá af grasgufu sem ég vissi ekki einu sinni hvort virkaði, þannig að ég keyrði bara af stað. Annars væri ekki það versta sem gæti gerst að vera tekin af löggunni og fá að gista í fangaklefa“ (87).

Svo mælir María, aðalpersóna í Millilendingu, nýrri skáldsögu eftir nýjan höfund, Jónas Reyni Gunnarsson. Hún kemur við í Reykjavík á leið til Köben og það gengur á ýmsu þennan sólarhring sem hún stoppar. Líf hennar er í tómarúmi, hún er nýhætt með kærasta og á ekki í nein hús að venda nema þá til pabba, sem er alltaf að skamma hana, eða ömmu sem krefst þess að hún fullorðnist.

María er alveg laus við að rogast með framtíðarplön, hún pælir ekkert í hlutunum heldur hugsar bara í hringi og berst með straumnum; ástand sem flestir kannast við frá einhverju skeiði ævi sinnar. Pabbi hefur keypt handa henni farmiða til CPH og hún veit sosum ekkert hvað bíður hennar þar. Og fær þá skyndihugdettu að fara bara hvergi, með eftirfarandi rökum: „Og ef það átti hvort eð er að neyða mig til að vera óhamingjusöm og finna mér einhverja vinnu sem ég hataði þá gæti ég alveg eins verið í Reykjavík“ (51).

Broguð sjálfsmynd

Framganga Maríu í sögunni einkennist af uppgjöf sem birtist m.a. í því að hún á erfitt með draga andann, getur varla geispað eða fyllt lungun. Sjálfsmynd hennar er eitthvað broguð, henni finnst hún líta út eins og hún sé 11-15 ára, fötin hennar eru ljót, síminn „Samsung piece of shit“ (8); þegar hún lítur í spegil er eins og það sé eitthvað að henni og hollningin er eins og hún hafi strokið af leikskóla. Svefnvana og hálfdópuð þvælist hún á milli staða og fólkið sem verður á vegi hennar er annað hvort hrikalega pirrandi eða alveg sama um allt. Hún hugsar hún með sjálfri sér í hrakningunum: „Áður en ég dey væri ég til í að hitta manneskju sem líður í alvörunni vel“ (148).

Lífið er flókið og erfitt þegar maður er ungur og lesandinn sveiflast milli þess að ætla að taka Maríu litlu í faðminn og vernda hana eða hrista óþyrmilega. Sýn hennar á tilveruna ber ekki vott um mikinn þroska eða bjartsýni, henni finnst t.d. frekar ósanngjarnt þegar pabbi hennar segir henni að hætta þessari vitleysu og taka sig á: „eins og allt sem ég lendi í sé mér að kenna“ (163).

Djúp kreppa

Lesandi fær lítið að vita um bernsku eða fortíð Maríu. Móðir hennar kemur hvergi við sögu en María virðist heimavön hjá ömmu sinni. Hún er reikul og ráðvillt og tilvistarkreppa hennar er töluverð en varla neitt verulega sár eða knýjandi. „Þegar ég hugsa um fortíðina man ég bara eftir einhverju sem lætur mér líða eins og fávita. Það er eins og allt sem ég geri endi með hræðilegri eftirsjá og nú fannst mér eins og það væri ekki lengur nein bið á því, mér leið bara alltaf eins og fávita yfir öllu sem ég var að díla við um leið og ég var að díla við það“ (117).

Þegar María rifjar upp samverustundir með pabba sínum man hún eftir ókláraðri mynd af Friðriki mikla á listasafni í Berlín sem þau skoðuðu saman forðum. Loksins fann hún til samkenndar, henni finnst hún vita hvernig málaranum líði; pirraður yfir að geta ekki lokið verkinu; og hvernig hershöfðingjunum líður sem með útkrotuð andit bíða fyrirmæla og mæna á auðan blett á striganum þar sem Friðrik mikli átti að standa (170-171). Táknrænt fyrir Maríu; hún er auður strigi og bíður eftir því að fá að vita hvernig hún eigi að lifa þessa orrustu af (171) – hún ætlar ekki að sigra, bara lifa af.

María og vinir hennar, Gaui og Brynja, eru af svokallaðri velmegunarkynslóð  eða Y-kynslóð sem fæddist um síðustu aldamót og er að verða fullorðin núna. Þetta er kynslóðin sem ólst upp við fjölmiðlabyltingu og tækniframfarir, sökkti sér í  tölvuleiki og kann á alla samskiptamiðla og snjalltæki. Kynslóð sem hugsar öðruvísi en fyrri kynslóðir, sér t.d. sáralítinn tilgang með fastri 9-5 vinnu. Vinnan sem Gaui sér fyrir sér að gæti hentað honum er að passa sadda ketti sem fólk færir honum, að vera „helgarpabbi fyrir ketti“ (40). Pælingin er að leggja ekkert á sig, bara chilla og hafa það geðveikt næs, spila Fallout og póker á netinu og panta pitsu. Þegar svona plön ganga ekki eftir, mætir fólk af velmegunarkynslóðinni mótlæti sem það kann ekki að takast á við, heldur verður magnvana og þunglynt. Í stærstum hluta bókarinnar líður Maríu illa; á flótta með ælubragð í munni og þjökuð af hugarórum.

En María er fyndin og orðheppin manneskja í þessum ömurlegu aðstæðum. Þrátt fyrir doðann sem heldur henni í helgreipum, tekur hún eftir ýmsu í kringum sig, rifjar upp alls kyns atburði og lýsir ítarlega og miskunnarlaust klósettferðum og ælugusum, ropum, svita, hori og húðfrumum, skítugum sokkum, feitum bumbum og  vondri lykt. En hörðust er hún þó við sjálfa sig.

Millilending er vel stíluð saga, fyndin og sár í senn, skemmtilega afslöppuð og leynir á sér. Hér er dreginn fram kimi sem er sjaldan á dagskrá, íslenskur djammveruleiki og samtími nýrrar kynslóðar. Myrkt og drungalegt vetrarumhverfið er leikmynd einmanakenndar og þrúgandi vanlíðunar þessa unga fólks sem leitar lífsfyllingar í hverfulum heimi og flýr á náðir vímu, hálfkærings og afstöðuleysis.

Í lokin hefur María náð botninum, komin upp í rúm hjá lúðalegum gaur í von um samskipti sem eru ekki bull (166). Orðalagið þegar hann „byrjaði að sofa hjá mér“ sýnir annað hvort það hversu María er fjarlæg sjálfri sér að átta sig ekki á hvað er að gerast, eða þá að það þykir ekki við hæfi að tala um að ríða eða nauðga í svona flottri skáldsögu eftir svona efnilegan höfund fyrir svona teprulega lesendur.

Víðsjá8 nóv 2017: http://www.ruv.is/frett/islenskur-djammveruleiki-i-skaldsogu