Tristes tropique eða Regnskógabeltið raunamædda (1955, á íslensku 2011) er einkennileg blanda af ferðasögu, sjálfsævisögu, mannfræðirannsókn og heimspekipælingum. Hinn frægi og goðsagnakenndi Claude Leví-Strauss starfað um hríð sem háskólakennari í Sao Paulo, stórborg í Brasilíu, og ferðaðist um frumskóga Amasón undir lok fjórða áratugar síðustu aldar.
Regnskógabeltið fjallar um ferðalög, landkönnuði og túrista, mannfræði og heimspeki, vestræna menningu andspænis suðrænni, mann og náttúru, um nýlendukúgun og arðrán, landnám Evrópubúa og þjóðarmorð. Það er skrifað í mjög myndrænum og útspekúleruðum (strúktúralískum) stíl og svarthvítar ljósmyndir höfundar úr regnskóginum prýða bókina.
Leví-Strauss lést 2009 rúmlega aldar gamall en þá voru allir hinir frægu, frönsku heimspekipoppararnir dauðir. Hann sjálfur var orðinn fótsár af ævinnar eyðimörk og hafði dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir löngu. Pétur Gunnarsson vann að þýðingu bókarinnar úr frummálinu í hjáverkum um 17 ára skeið, listavel eins og hans er von og vísa. Áður hefur komið út eftir Leví-Strauss á íslensku ritgerðin Formgerð goðsagna (Sporin, 1991), sem ég las í háskólanum hjá Matthíasi Viðari á sínum tíma og var sannarlega hugvekja.
Það var áhugavert að rifja þessa bók upp í námskeiði um Travel Studies við Univerzita Karlova í Prag á dögunum. Einkum vegna þess að einn nemandinn er frá Mexíkó og hafði sterkar skoðanir á sýn höfundar á frumbyggjana og benti á dæmi þess að Leví-Strauss væri sjálfur ekki alveg laus við þann hroka og yfirgang sem hann gagnrýnir í bók sinni.

Úr Tristes Tropique, zaradoc.com