Ferðalög

Aðallega fjallabílaferðir

Steinbítur

Ég sá aðallega um eldamennskuna í húsbílnum í sumar. Það er mjög gaman að elda á gashellum, maður er eldsnöggur og hefur algera stjórn á hitanum, aldrei viðbrennt eða ofsoðið. Reiddir voru fram dýrindis réttir, s.s. saltfiskur með döðlum og tómat, kjúklingaréttur með kókos og karrí, smjörsteiktar kartöflur með fersku kryddi,  grænmetispanna með kjúklingabaunum, matarmikið salat og svo mætti lengi telja. Brynjar fór líka á kostum þegar hann tók sig til og eldaði steinbít með engifer, chili og hvítlauk.

Skagaströnd

Á Skagaströnd er ekki bara Kántribær. Þar er líka skemmtilegt kaffihús sem heitir Bjarmanes. Sérlega huggulegt, gömul og falleg húsgögn og rósótt bollastell, góðar heimabakaðar kökur og snarpheitt kaffi. Við fengum kaffið úti og nutum veðurblíðunnar með rabarbarapie og gulrótarköku. Rétt hjá er Spákonuhúsið, þar er hægt að skoða hvernig menn bjuggu snemma á tuttugustu öldinni, þrjár fjölskyldur í 50 fm. Í húsinu fékk ég bæði lófalestur og spilaspá svo framtíðin liggur fyrir, björt og fögur.

Hringferð lokið

Þá erum við lent eftir þriggja vikna hringferð um landið á húsbílnum góða. Það rigndi mest allan tímann sem við vorum á ferðinni en það kom sosum ekki að sök. Teknar voru snilldarmyndir,  lesnar yfir 1500 blaðsiður af góðum litteratúr, farið í ótal gönguferðir auk ljúfrar samveru og afslöppunar. Við vorum örþreytt við heimkomuna og hundurinn reisti ekki haus frá bæli í heilan sólarhring. En nú erum við endurnærð og strax farin að plana næstu útilegu. Myndin var tekin þegar skipt var um olíu á bílnum á Blönduósi en þá skein sólin glatt og tóm gafst til að líta í bók. Ferðasagan sem var samviskusamlega rituð jafnóðum verður birt hér á síðunni með myndum innan skamms.

Djúpivogur

Loksins eru m við komin úr rigningunni fyrir norðan. Vorum í rigningu í Mývatnssveit og hellidembu við Dettifoss. Öll hálendisplön eru lögð til hliðar í bili. Hér á Djúpavogi er þurrt og hlýtt og notalegt. Allt viðrað og hrist og hengt til þerris áður en haldið verður til Hafnar en þar hefur gula flykkið hefur boðað komu sína á himininn.

Vor í lofti

Tíkin sleikir sólina á gæruskinni í suðurglugganum

Þegar húsbíllinn er kominn í hlaðið er vorið komið. Allt brumar og blómstrar, grasið grænkar, rigningin er mild og golan hlý. Sumarið skipulagt í þaula, framkvæmdir, ferðalög og ljúft líf. Arwen er strax farin að hlakka til að hossast í húsbílnum og fá að hlaupa frjáls um óbyggðirnar.

Frænkur fara á kostum

Dans gleðinnar

Draugar?

Buddur á góðri stund

Árlegir snyrtibudduleikar voru haldnir í Vaglaskógi um síðustu helgi í flottasta sumarbústað norðan heiða. Mættar voru 14 hressar konur, frænkur og vinkonur og var mikið um dýrðir. Glæsilegur morgunverður, snyrting og dekur, fræðsla og menning, spurningakeppni, ræðuhöld, heitur pottur, gönguferð og kleinur frá Dillu, veislumatur, dans og það mikilvægasta: yndisleg samvera.
Fleiri myndir eru  hér.

Föstudagurinn langi

Fram að páskahátíðinni vorum við svo lánsöm að dvelja með Sossu og Hafsteini í bústað í Úthlíð í góðu yfirlæti. Við nutum þess að dorma, borða veislumat í hvert mál, busla í potti og flatmaga með bók og dvd. Á föstudaginn langa var farið í gönguferð (6 km), upp að svokölluðu Básagili. Veðrið  var rysjótt en allir sprækir og vel búnir (nýja parið í nýju dressi).

Útivist

 

Ljósm. Brynjar snilli

Í dag var skrönglast áleiðis upp Esjuna. Veðrið í suðurhlíðum Kópavogs var mun betra en í Esjuhlíðum, þar var hörkuvindur og örlítil hríð en við vorum ágætlega búin. Við fórum eins langt og við nenntum, ég lít á svona ferð sem samveru,  heilsubót og útsýnistúr en Brynjar setur ljósmyndun og aflraunir í fyrsta sæti. Bæði fengum við fyrir okkar snúð. Arwen fannst ekki sérlega gaman að vera í bandi en naut sín svo í botn á niðurleiðinni þegar hún fékk að hlaupa frjáls en þá fórum við útaf stígnum og inn í þennan gullfallega lerkiskóg sem sést á myndinni.