Kvikmyndir

Hressar brúðarmeyjar

Ég fór á Brúðarmeyjarnar (Bridesmaids) í gær. Þetta er mjög fyndin mynd, sem dettur ekki í neina ameríska brúðkaupsvæmni. Samt eru klisjurnar allar mættar: trúlofunarveislan, feita, graða, saklausa og ríka brúðarmærin og sú klaufska sem Kristen Wiig leikur snilldarlega, Húmorinn er langt frá því að vera væminn og margar senurnar eru alveg óborganlegar og groddalega fyndnar. Stelpur, drífið ykkur í  bíó!

Tími nornarinnar á rúv

Ég er ánægð með þann fyrsta af sjónvarpsþáttunum sem byggðir eru á Tima nornarinnar eftir Árna Þórarinsson. Einar blaðamaður er skemmtileg týpa, töffari, eldklár og ófyrirleitinn, með ískaldan húmor og heitar skoðanir, alveg tilvalinn á bíótjald eða sjónvarpsskjá. Mér fannst leikurinn áberandi góður í þættinum, Hjálmar Hjálmarsson er bara alveg eins og Einar. Allir eru einhvern veginn afslappaðir og kasjúal, málfarið eðlilegt og tilsvör fyndin. Íslenskir leikarar eru oft svo stirðir og leikritslegir í bíó, bæði í orðfæri og framsögn, en það fer þó batnandi. Svo er líka gaman að sjá ný andlit á skjánum, Þórunn Magnea sýndi dramatíska takta á elliheimilinu og flissandi menntaskólastelpur voru frábærar. Myndataka og klipping er til mikillar fyrirmyndar, gaman að norðlensku vetrarríki sem leikmynd og bíll Einars, sem gerir það gott í upphafs- og lokastefi þáttanna, er bara algjört brill. Ekki spillir að sagan gerist á Akureyri, þeim fagra bæ. Ég bíð spennt eftir framhaldinu.

Takmarkalaust

Ef til væri lyf sem virkjaði allar heilastöðvarnar (en fæstar eru í brúki dagsdaglega hjá venjulegu fólki), tryggði manni  ótrúlega hæfileika, gerði mann eldkláran, hugmyndaríkan, ötulan og útsjónarsaman en bæri í sér feigð og sjúkdóma ef töku þess væri hætt, myndi maður taka það? Í Limitless segir frá glötuðum gaur (Bradley Cooper) sem kemst yfir slíkt lyf, tekur það inn og allt snýst honum í hag. En þetta er hættuspil, fleiri vilja komast í pillurnar með öllum ráðum og ofbeldið er gengdarlaust. Alltaf er gaman að sjá DeNiro og Cooper er algjört augnayndi. Hörkuspennandi mynd en handritið er stundum doldið furðulegt.

Hereafter

Hereafter fjallar um mann á flótta undan magnaðri skyggnigáfu sinni, fréttakonu sem dó næstum því og lítinn strák sem missir bróður sinn. Leiðir persónanna liggja saman í frekar miklu melódrama um dauðann og líf að loknu þessu. Framvindan er hæg og persónurnar rista ekki sélega djúpt. Umfjöllunin um framhaldslífið ekki heldur. Gamli Clint leikstýrir og semur m.a.s. músíkina líka, ekki af baki dottinn. Hvorki mannskemmandi né sérlega merkileg mynd. Kom samt alveg út tárunum á mér en ég er reyndar frekar meyr og viðkvæmur áhorfandi.

Vont veður, vondar myndir

Í vonda veðrinu undanfarið höfum við kúrt inni og horft á þrjár nýjar bíómyndir sem við komum höndum yfir með ólöglegum hætti. Þetta eru reyndar myndir sem ég hefði aldrei keypt mér aðgang að í kvikmyndahúsi svo enginn skaði er skeður.

 Gulliver´s Travels með Jack Black er afar klén og ófyndin og tölvugrafíkin frámunalega léleg. Myndin öll eitthvað hallærisleg, illa farið með gott efni. Black Swan er áhrifamikil og vel leikin en mér fannst erfitt að finna til samúðar með þessari einþykku, geðveiku og grindhoruðu ballerínu. Margar senur eru samt flottar og tónlistin í Svanavatninu svíkur engan.  The Tourist er svo hæg, klisjuleg og léleg að ég bara skil ekkert í Angelinu að láta Brad vera einan heima með krakkana í margar vikur til að „leika“ í þessari hörmung. 

Kóngur heldur ræðu

Fór á Kóngur heldur ræðu (The King´s Speech) í gærkvöldi með Steinunni Har en áður hafði ég trimmað 7 km í Kársnesi með kall og hund. Myndin er afar vönduð í alla staði, vel leikin, flott tekin og flottar dramatískar senur. Hún fær mjög góða dóma á IMDb og er tilnefnd til fjölda Óskarsverðlauna. Colin Firth (mig dreymdi hann í alla nótt) sýnir rosa góða takta sem uppstökkur, bældur og örvæntingarfullur stamandi prins. Hann þarf að brjóta odd af oflæti sínu gagnvart óvenjulegum talmeinafræðingi, snilldarleikaranum Geoffrey Rush, sem hirðir lítt um titlatog og yfirborðsmennsku en kafar miskunnarlaust í sálardjúp prinsins. Eldri bróðir prinsins og konungsefni átti í ástarsambandi við Wallis Simpson og afsalaði sér krúnunni  í nafni ástarinnar sem frægt er orðið en myndin sem dregin er upp af turtildúfunum er ekki sérlega rómantísk. Ræðan er rosa drama og óborganlegur breskur húmorinn er ísmeygilega fágaður og fallegur, alveg eins og þú, ó Colin draumaprins!

Inception

Loksins komst ég á Inception í gær, þá rómuðu bíómynd eftir Chris Nolan með Leonardo frá Caprí í aðalhlutverki. Ég var búin að snúa frá tvisvar því það hefur verið uppselt, meira að segja í lúxussal. Er skemmst frá því að segja að myndin er svaðalega spennandi og vel gerð, vel leikin og endirinn flottur. Plottið gengur út á að hægt sé að planta hugsunum og skoðunum í undirmeðvitund fólks, það er frekar óhugguleg framtíðarsýn. Þetta er soldið hugsað eins og tölvuleikur, því dýpra sem er farið, því flóknara og erfiðara borð í tölvuleiknum. Draumapælingarnar hefðu mátt vera fyrirferðarmeiri, heimur  undirmeðvitundarinnar býður jú upp á óteljandi möguleika. Ætli Nolan sé ekki nú þegar farinn að láta sig dreyma um Inception 2?

Framboð

Ég hef verið að horfa á framboðsþætti til sveitarstjórnarkosninga í Kastljósi. Þar er farið yfir stöðuna í  hverju plássi, spjallað við landsbyggðarfólk og sýndar fallegar myndir af húsum og landslagi, farið á bryggjuna og í kaupfélagið. Menn eru frekar slakir yfir þessum kosningum, allflestir. Frábærir þættir eins og allt sem Gísli Einarsson kemur nálægt með einlægni sinni, glettni, mannskilningi og tilgerðarleysi. Á eftir leigðum við okkur mynd, Harry Brown, með sjarminum Michael Caine. Myndin gerist á Englandi og segir frá ekkjumanni sem lendir átökum við uppivöðslusama  unglinga/glæpagengi. Er skemmst frá því að segja að myndin var blóði drifin og hrikaleg og ég held að allir sem ætla að bjóða sig fram til þings eða sveitarstjórna og ætla að starfa í þágu almennings og samfélags ættu að horfa á hana. Svona (eins og í myndinni) fer fyrir fólki sem kerfið bregst, það býr við kröpp kjör í skítahverfi, án atvinnu, skólinn er lélegur, það kann enga mannasiði og lendir í dópi og rugli. Hvernig verða dreggjar samfélagsins til og hvað ætlum við – og frambjóðendurnir – að gera til þess að koma í veg fyrir að aðstæður verði svona í okkar samfélagi?

Mamma Gógó

Hrikalega ljótt plakat!Við Óttar fórum að sjá Mömmu Gógó í dag. Dramatísk, hjartnæm og falleg mynd um ást og elli og fjölskyldu á tímamótum og öðrum þræði um harkið í íslenskri kvikmyndagerð. Trúverðugar senur, fagmannlega teknar og vel leiknar, flott sett, yndisleg íbúð mömmunnar og falleg sólsetur, enginn vafi um framhaldslíf en hrunið er yfirvofandi, bankakallarnir ráða ráðum sínum við risaskrifborð og fara svo í lax. Myndin var vel leikin, bæði Kristbjörg Kjeld og Hilmir Snær voru frábær og Gunnar Eyjólfsson er eilífðartöffari. Kristbjörg túlkaði snilldarvel hnignun og dauða þessarar reffilegu og ráðagóðu konu sem ávallt hafði haldið sínum hlut og kunnað að njóta lífsins en þarf svo að takast á við alzheimsersjúkdóminn með öllu tilheyrandi. Aðfangadagskvöldið kom tárunum aldeilis út á mér. Mér fannst ganga furðu fljótt að fá inni á hjúkrunarheimilinu fyrir gömlu og lyfin virka furðu vel, held að hvorugt sé raunin. Svo er spurning hvort trikkið með 79 af stöðinni virkar (doldið langt) en það er soldið gaman að því.

Avatar

Brugðum okkur í bíó á Avatar, teikni/tölvu/leikna mynd sem gerist í fjarlægri framtíð á plánetunni Pandóru þar sem Navi-þjóðin hefur búið öldum saman í sátt og harmóníu við náttúruna en grimmir og gráðugir jarðarbúar vilja komast yfir auðlindir hennar. Mögnuð mynd frá James Cameron sem klikkar ekki, fær klikkaðar hugmyndir og gerir klikkaðar myndir. Frábær skemmtun, vísindi og rómantík, furðudýr og geimverur, sprengingar og bardagar, flottar persónur, skemmtilegt handrit (sennilega mikið klippt út því sums staðar voru gloppur) og hvílíkt hugmyndaflug.