Útivist

Esjan

Akranes í baksýn

Mætt við Esjurætur kl. 9 í morgun, kraftganga upp á topp (914 m.y.s.) og svo skokkað í sólbráðnu hjarni áleiðis að Hábungu. Yndislegt veður. Svo var hlaupið niður, bara harkan sex. Arwen var ekkert sérlega lipur í klettunum en lét sig hafa það.

Á toppnum

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Hlaupaskór

Ég fór í hlaupagreiningu í Afreksvörum. Þá kom í ljós að ég stíg mjög skakkt niður, ekki síst vinstra megin, sem kemur ekki á óvart miðað við mína fótasögu. Svo ég keypti skó með extra stuðningi innan fótar og mjúkum hæl, það er allt annað að trimma á þeim en gömlu Nike Air skónum  sem ég hélt að væru toppurinn í dag. Svo nú er mér ekkert að vanbúnaði og get þotið um brekkur, stíga og götur eins og elding.

Doris deyr

Doris deyr, smásagnasafn eftir Kristínu Eiríksdóttur kom mér verulega á óvart. Hún er spútnik í íslenskum bókmenntum og sögurnar eru frábærar. Þær eru blátt áfram, einlægar, segja frá einmana og ráðvilltu fólki í grimmum og absúrd heimi. Endirinn er óvæntur eða enginn, dramað sérstakt, persónurnar brjóstumkennanlegar. Flott bók (dómur hér og hér).

Að lestri loknum var tími í hlaupanámskeiðinu og ég þeyttist áfram í hraðasprettum og trimmaði á milli í Laugardalnum, held það hafi verið ca 4 km í skítakulda. En mér er illt í vinstri kálfanum, það er eins og sinarnar séu að slitna í sundur. Sennilega hleyp ég eitthvað vitlaust. Áhugasamir geta fylgst með hlaupadagbókinni minni á hlaup.com (félagar) en þar kemur í ljós hvort ég hef þetta af.

Kóngur heldur ræðu

Fór á Kóngur heldur ræðu (The King´s Speech) í gærkvöldi með Steinunni Har en áður hafði ég trimmað 7 km í Kársnesi með kall og hund. Myndin er afar vönduð í alla staði, vel leikin, flott tekin og flottar dramatískar senur. Hún fær mjög góða dóma á IMDb og er tilnefnd til fjölda Óskarsverðlauna. Colin Firth (mig dreymdi hann í alla nótt) sýnir rosa góða takta sem uppstökkur, bældur og örvæntingarfullur stamandi prins. Hann þarf að brjóta odd af oflæti sínu gagnvart óvenjulegum talmeinafræðingi, snilldarleikaranum Geoffrey Rush, sem hirðir lítt um titlatog og yfirborðsmennsku en kafar miskunnarlaust í sálardjúp prinsins. Eldri bróðir prinsins og konungsefni átti í ástarsambandi við Wallis Simpson og afsalaði sér krúnunni  í nafni ástarinnar sem frægt er orðið en myndin sem dregin er upp af turtildúfunum er ekki sérlega rómantísk. Ræðan er rosa drama og óborganlegur breskur húmorinn er ísmeygilega fágaður og fallegur, alveg eins og þú, ó Colin draumaprins!

Hlaupár?

Ég hef verið að jogga með nokkrum kerlum í vinnunni í haust, skokka þetta 3-5 km í rólegheitum einu sinni í viku. Meðfram las ég hina handhægu bók Running and Walking for Women over forty sem Ingibjörg samstarfskona mín lánaði mér. Nú erum við Brynjar búin að skrá okkur á hlaupanámskeið fyrir byrjendur sem hefst í dag hjá Daníel í Afreksvörum.  Markmiðið er að hlaupa í Jökulsárhlaupinu sem er 6. ágúst, í ægifögru umhverfi og auðvitað sól og blíðu. Smá nöldur: Bæði Daníel og skrifari síðunnar um Jökulsárhlaupið nota orðið „reynslumikill“ um þá sem hafa hlaupið lengi og markvisst, er ekki miklu betra að vera „reyndur“ hlaupari?