bókmenntagagnrýni

Fokkið ykkur öll. Um smásögur Steinars Braga, Allt fer

Smásagnasafn Steinars Braga, Allt fer, er hnausþykkt og efnismikið og inniheldur nítján langar og fullburða sögur. Þær eru hvorki fallegar né meinlausar og ekki allar nýjar, þær eru margar og misgóðar en það er í þeim miskunnarlaus kraftur. Ef Steinar Bragi fær ekki bókmenntaverðlaunin, af þeim sem tilnefndir eru 2016, eru þau bara prump.

Hvergi verður maðurinn eins lítill og ófrjáls, svo augljóslega roðhundur og þræll, eins og í fríhöfninni, þeim óskáldlega stað þar sem „meira að segja skórnir voru tortryggðir“ (11). Þar gengst fólk undir lög, vald og skrifræði af fúsum og frjálsum vilja, „Hver einasti fermetri verðlagður og öryggisvottaður oft á dag“ (11) og sætir sjálfviljugt rannsókn á persónulegum farangri, jafnvel eigin líkama. Glansandi fríhöfnin er sögusvið fyrstu sögunnar í safninu, „Reykjavík er að vakna“ þar sem firring vestrænnar menningar er undirtónninn, þar sem hjarðhegðunin nær hámarki. Engin tilviljun að þetta er fyrsta sagan í safninu, hún er þrusugóð.

Karnívalísk útrás

Myndir úr fleiri sögum safnsins sitja fastar á heilaberkinum að loknum lestri. Í „Kaiser Report“ hittast tveir kunningjar sem báðir eru búnir að mála sig út í horn. Kyrkislanga og kettlingar koma við sögu og atburðarásin er svo hrollvekjandi að ráðsettur lesandi unir ekki lengur undir leslampanum heldur hrökklast fram á bað til að skvetta framan í sig köldu vatni. „Páfastóllinn“ er sprenghlægileg, um par sem glímir við ófrjósemi, og karnivalísk útrásin nær hámarki í órum rúnksenu á læknastofu í Smáralind; verulega kröftugt atriði. „Kristalsgíraffinn“ er nútímalegt ævintýri um að selja sál sína djöflinum, það er sígilt þema sem vísar ekki síst til nútímamannsins sem gín yfir öllu. Sama þema er  á ferð í „Sögunni af þriðjudegi“. Báðar nöturlegar frásagnir af mannlegri eymd.

„Hvíti geldingurinn“ vekur upp þanka um tilvist mannsins. Hvað verður um mann sem ekki aðeins glatar frelsi sínu heldur er kynhvötin líka frá honum tekin? Hvað drífur þann áfram sem er án löngunar, án ástar? Sagan er ofbeldisfull og grimmdarleg en með sérkennilegu seiðmagni, ein af myndrænustu sögunum í safninu. Í „Ósýnileikanum“ nýtir kona sér að geta horfið sjónum annarra, hún njósnar um fólk og hnýsist í sjálfan dauðann, rýfur friðhelgi á viðkvæmum tímum þegar vanmáttur og óreiða ríkir, hún mætir í jarðarfarir og erfidrykkjur og sest við banabeð:

_Fyrstu tvær jarðarfarirnar sat ég úti í sal með hinum, svo færði ég mig upp á altarið til prestsins, ekki til að vanvirða neinn, en ég er forvitin, mig langaði að sjá andlit allra í kirkjunni, horfa í andlit sorgarinnar. Úti í kirkjuskipinu sér maður aldrei nema út eftir sætaröðinni, inn í hnakkann á fólkinu fyrir framan og það er ókurteist að teygja fram hausinn og glápa. Af hverju sitjum við ekki í hring í kirkjum – þær eru formaðar fasískt og við horfum aldrei nema í andlit prestsins og það er andstætt öllu sem munnurinn á honum segir um bræðralag og kærleika!“ (312).

Allt í rassgati

Titill smásagnasafnins Allt fer vísar í ýmsar áttir; til forgengileika, missis og hrörnunar sem er kannski klisja, hver segir sosum að allt þurfi alltaf að halda áfram (296) en líka til þess að allt fer einhvern veginn, tíminn líður og hugsjónir og draumar fjara út, fólk þroskast saman eða í sundur, dofið af dópi eða vana í bullandi sjálfhverfu. Hverjum er það að kenna þegar flosnar upp úr sambandi sögumanns og Jennýjar í raðhúsahverfinu inni í rassgatinu á Sigmundi Davíð?

„Við erum bæði ágætis manneskjur  og viljum vel og ég segi það í alvöru: ef helmingur þessara endaloka skrifast á brestina í okkur og allt helvítis kjaftæðið úr æskunni, fullyrði ég að hinn helmingurinn fellur skuldlaust á leigumarkaðinn og  barninginn í öll þessi ár og helvítis pólitíkusa sem hafa gleymt því fyrir hverja þeir vinna, og græðgina í bönkunum og Gísla í Gamma og gamla Quarashi-tillann Sölva viðskiptafræðing, allt þetta lið sem liggur eins og vampírur á hjörtum okkar sem gæðum miðbæinn lífi – fokkið ykkur öll (299-300).

Trump-týpan

Síðasta sagan, „Garðurinn“, er glæsilegur endasprettur á þessu sagnamaraþoni. Stórgrósser á ráðstefnu  vopnasala í sótugri Shanghai er sama týpa og Donald Trump: erkiillmenni, siðblindur, firrtur og lyginn, glúrinn á markaðstækifæri en orðinn mettur á lífinu. Hann hefur reynt allt, keypt allt og fyrir honum er veröldin tóm og grimm flatneskja:

„Í partýi um daginn fékk ég hugmynd sem rifjast upp fyrir mér núna: að reisa verulega há og sparsöm háhýsi með engum gluggum sem þýðir allt önnur lögmál í burðarþoli, en fella skjái í innanverða veggina, alla með sérsniðnu útsýni – allir fengju hornskrifstofur með útsýni af hundruðustu hæð yfir borg að eigin vali, eða breytilegt, með mánudaga á tindi Everest, þriðjudaga úr Alþjóðlegu geimstöðinni. Skjáir eru orðnir ódýrari en gluggar og kostar ekkert að þrífa þá, upplausnin HD í metersfjarlægð, færa sig svo yfir í þrívíddina. Þemadagar á föstudögum með útsýni yfir Kabúl, Raqqua eða Jemen og hádegisfyrirlestur um þær sætu hörmungar, eftir því við hvað fyrirtækin í húsinu eru að díla“ (324-325).

„Garðurinn“ er bæði reiðilestur yfir mannkyni sem skilur eftir sig sviðna jörð en líka elegía um mennskuna sem er á niðurleið, ástina sem er glötuð og ógeðið sem alls staðar viðgengst.

Manneskjan er bara líkami

Smásagnasafn Steinars Braga sker sig bæði að öllu leyti frá hinum óvenju mörgu smásagnasöfnum  sem út komu 2016 og frá öðrum skáldverkum síðustu áratuga.   Það er ekki verið að gæla við tungumálið, stílinn, orðlistina. Ekki verið að daðra við ismana, tala undir rós eða blikka ljóðrænuna. Það eru hugmyndirnar sem ráða ríkjum, þær vella fram, tæpitungulaust. Brýnt erindi og eldmóður einkenna þessar sögur allar, skapandi kraftur og ádeila sem helst minna á skáldskap Guðbergs Bergsson á góðum degi. Hið háleita er einskis vert, manneskjur eru ekkert merkilegar eða dularfullar,  þær eru bara líkamar.  „ – Líkamar að gera eitthvað við sjálfa sig, við aðra líkama eða við hluti… En líklega værum við ekkert án þessara litlu leyndarmála okkar, hvert í sínu horni að pota í holur, skera okkur með naglaþjöl, kasta upp. Hvað veit ég“ (307).

Engin miskunn

Á sagnaslóðum Steinars Braga eru fáir á ferli, hér eru óskáldlegir staðir eins og Eiðistorg, Perlan og Húsasmiðjan, skítugar stórborgir, fráhrindandi persónur, barnagirnd, tabú og töfrar og ógnvekjandi atburðir. Maður er hvergi óhultur, hræðilegir hlutir gerast í sífellu og alls staðar. Og það er enga miskunn að finna, aðeins myrka heimsmynd og dapurlega framtíðarsýn: „Ég er lappalaus fugl, hugsaði ég, líf mitt er sífellt flug úr einum stað í annan og ég get hvergi lent eða fundið hvíld“ (301).

Smásögur eru í senn bæði strangt og róttækt bókmenntaform sem býr yfir sérstökum áhrifamætti. Steinar Bragi hefur fullkomin tök á forminu og sýnir frábæra takta.  Allt smellur.

Birtist í Kvennablaðinu, 10. janúar 2017

Fjarveran og afskiptaleysið – Um Útreiðartúrinn

Nýjasta bók Rögnu Sigurðardóttur, Útreiðartúrinn, er „áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni“ eins og segir á bókarkápu. Þar segir frá Sævari, Helgu konu hans og 14 ára einkasyninum Pétri sem eru nýflutt á Álftanes. Kvöld eitt kemur sonurinn heim í lögreglufylgd en svo virðist sem þrír strákar hafi ráðist á hann og Sindra vin hans að tilefnislausu. Þegar frá líður birtist myndband á netinu af árásinni og þá fer Sævar að gruna að Pétur hafi ekki sagt satt um atburðinn. Þegar Pétur síðan pínir Sindra til að borða rótsterkt chili til að birta sem grín á tiktok, fara að renna tvær grímur á Sævar. Getur verið að Pétur hans sé „bully“ og ofbeldismaður?

Glósur, gón og káf

Frásögnin hefst á dularfullu andláti í útreiðartúr ungs fólks á Álftanesi í júní 1881. Erfitt reynist að henda reiður á hvort það var slys eða ekki. Einn er síðan grunaður um morð en sluksað var við rannsóknina. Sá grunaði, Eyjólfur, er langalangafi Sævars. Þetta var þaggað niður í fjölskyldunni og Sævari finnst mannorðshnekkir að vera kominn af morðingja (98). Hann ætlar samt að segja Pétri söguna í þeirri von um að hún veki áhuga hans og tengi þá feðga saman. En þetta er of fjarlægt og snertir hann ekki: „Kúl saga“ segir Pétur (37). Svo tekur Sævar til við að rannsaka málin sjálfur, bæði gamla morðmálið og árásina.

Í þessum þætti sögunnar er dregin er upp mynd af samfélagi þar sem stéttaskipting er mikil og vinnufólk hefur um fátt að velja. Sagan er sögð út frá sjónarhorni Guðnýjar, formóður Sævars, sem freistar þess að komast frá vinnukonulífinu í dalnum og skapa sér framtíð á Álftanesi með téðum Eyjólfi. Skiljanlega vill hún komast burt; hlutskipti vinnukonunnar, sem ofan á húsverkin felst í að þjóna vinnumönnunum á bænum sem í skjóli forréttinda sinna fara sínu fram:

„Frá því hún mundi eftir sér höfðu þeir hreytt í hana ónotun, ýtt við henni, skammað hana, skipað henni fyrir, hæðst að henni og hlegið framan í hana um leið og þeir gerðu ráð fyrir sífelldri þjónustu. Þegar hún stálpaðist og það fór að móta fyrir brjóstunum undir treyjunni störðu þeir opinskátt og slefandi. Þeir þreifuðu á rassinum á henni þar sem hún stóð við pott með sjóðandi vatni og gat sig hvergi hreyft. Þeir földu þetta ekki, hvorki glósurnar, gónið né káfið. Því skyldu þeir gera það?“ (139).

Eyjólfur er öðruvísi en aðrir vinnumenn, hann er vænn og myndarlegur. En það eru brestir í honum, hann virðist vera hálfgerð rola, uppburðarlítill og drykkfelldur. Þegar þau koma á Álftanes reynast aðstæður öðruvísi en til stóð.

Saga útreiðarfólksins er byggð á raunverulegu sakamáli, svonefndu Kristmannsmáli. Útreiðarfólkið var hneppt í varðhald og yfirheyrt en svo reyndist merkilega lítill áhugi yfirvalda á að upplýsa málið. Málið lognaðist svo útaf en orðrómurinn lifði. Í bókarlok er málið hins vegar loksins upplýst!

Landslag og kynslóðabil

Landslagið á Álftanesi leikur stórt hlutverk í þeim sögum sem fram vindur í bókinni, enda er gróið holtið óbreytt frá fornu fari, „þúfurnar áþekkar og mosagróið hraungrýtið sömuleiðis. Grjótið var samt, lyngið og mosinn á holtinu. Sjávarlyktin sú sama.“ (35). Landslagið er bæði  leikmynd og táknmynd fyrir tíma og tilfinningar. Kynslóðabilið er ekki bara á milli langalangafans og Sævars, það er síst minna á milli Sævar og Péturs:

„Gargandi mávar tóku dýfur fyrir ofan okkur, hestar stóðu á beit í móanum fyrir neðan holtið, sólin merlaði á sjónum allt í kring. Innra með mér toguðust á sólskinið og skuggarnir í hrauninu, vitneskja um söguna sem leiðsögumaðurinn átti eftir að segja okkur uppi á holtinu, fjarlægðin sem ég fann fyrir milli okkar Péturs. Ég saknaði stráksins míns og mig langaði að ná til hans … Ég fylgdist með Pétri feta sig óöruggur yfir þúfur og áttaði mig á að hann var ekki vanur því. Hvernig gat verið að hann kynni ekki að ganga í þúfum?… (33)“.

Glæpir eru víða

Sævar er heimavinnandi og nostrar við bókaskreytingar á vinnustofunni sinni. Hann nær engu sambandi við son sinn sem hann margoft langar að faðma og sýna umhyggju og vinsemd en hikar alltaf og heldur aftur af sér. Pétur er að breytast úr barni í fullorðinn og Sævar nær ekki utan um þær andlegu og líkamlegu breytingar sem verða á honum. Hann finnur fyrir sektarkennd yfir að hafa skipulagt að flytja með Pétur á viðkvæmum aldri úr hverfinu sem litla fjölskyldan  hafði búið í síðan hann fæddist.

Stutt er í sjálfsásökun, reiði og skömm hjá Sævari. Hann á erfitt með sig vegna yfirgangs og gaslýsingar sem hann varð fyrir sem gutti, af hendi Togga sem hann leit á sem sinn besta vin. Sá þráður er rakinn til sumardvalvar í sveitinni hjá ömmu og afa á Álftanesi þar sem Sævar kynntist Togga fyrst í kringum 1980. Þá koma til sögunnar kynni Sævars af rannsóknarblaðamanninum Bergi sem skyndilega var ekki lengur velkominn í heimsókn eftir að hann skrifaði grein um morðmálið frá 1881 og reif þar með upp gömul sár.

Glæpirnir eru víða; Bergur hafði sem blaðamaður hagnast á þiggja mútur fyrir að hilma yfir skattsvikum og eignaðist þannig lóð á Álftanesi. Hann dró fjölskylduna sína nauðuga með sér þangað (sjá  magnaða senu á bls. 206-209), rétt eins og Sævar telur sig hafa gert. Bergur var fjarhuga faðir sem ráðskaðist með fjölskyldu sína en hlustaði aldrei. Sævar veltir fyrir sér hvort hann sjálfur sé sama manngerð: „Viltu hlusta á mig?“ sagði Helga stundum við mig og það hafði svo oft pirrað mig. „Ég er að hlusta,“ sagði ég þá, en kannski var ég ekki að því. Af hverju væri hún annars að biðja mig sérstaklega um það? (209).

Samband þeirra hjóna Sævars og Helgu virðist einkennast af fálæti og afskiptaleysi sem hlýtur að varpast yfir á Pétur.

„Helga fann að eitthvað var að  en hún gerði líklega ráð fyrir að það væri vinnan, að ég væri í tímapressu og mér gengi ekki nógu vel en þá átti ég til að verða þögull og afundinn. Við höfum okkar rútínu eftir meira en tveggja áratuga hjónaband. Henni hefur lærst með tímanum að láta mig í friði þegar þannig stendur á. … Og ef mér finnst Helga vera fjarlæg eða ég finn að eitthvað hvílir á henni sem hún ræðir ekki við mig treysti ég henni til að leysa úr því og hleyp auka hring til að ná betra jafnvægi. Við þurfum ekki lengur að ræða alla hluti“ (125).

Helga stendur í skugga og er eingöngu sýnd með augum Sævars. Undir lok sögunnar er hún orðin ein taugahrúga, með bauga undir augunum og þráhyggjukennda hegðun.

Pétur er trúverðugur unglingur sem spilar ofbeldisfulla tölvuleiki einn og afskiptalaus í herberginu sínu, svarar með hnussi eða eins atkvæðisorðum og er með hausinn á kafi í samfélagsmiðlum. Hann bæði horfir á ofbeldismyndbönd og býr þau til og finnst það ekkert tiltökumál. 

Allar þessar sögur, persónur og svið speglast á margs konar hátt og draga fram bresti, skömm og sektarkennd sem kynslóðirnar burðast með. Sindri og Sævar eru t.d. hliðstæður því þeir upplifa báðir að besti vinurinn bregst þeim og þeir skammast sín fyrir að hafa lent í ofbeldi. Sævar skammast sín svo mikið fyrir það sem Pétur gerði að hann forðast að hitta fólk (263) og fjarlægist fjölskyldu sína. Eyjólfur á sér ekki viðreisnar von eftir atburðinn í útreiðartúrnum og skömmin hrekur hann burt frá konu og barni.  Guðný skammast sín fyrir að hafa ekki klárað útreiðartúrinn og grípur því til lygi í yfirheyrslunum. Toggi og Pétur beita báðir vini sína ofbeldi.

Grunnt á grimmdinni

Á bókakápunni er grimmdarleg sena og það er grunnt á grimmdinni, án aðhalds og marka getur hún flætt yfir bakka sína. Hvað verður um Pétur? Mun hann einhvern tímann sjá mun á réttu og röngu, mun hann alltaf þræta fyrir misgjörðir? Stendur litla fjölskyldan þetta af sér eða sundrast?  Sævar þekkir hvorki son sinn né sjálfan sig, hann skilur ekki hvaðan reiðin kemur sem grípur hann stundum. Hann elskar Pétur og stendur frammi fyrir því að velja hvort eigi að hilma yfir með honum eða draga hann til ábyrgðar.  Og sektarkenndin nagar hann.

„Ef ég hefði bara verið betri pabbi. Hvað ef ég hefði fylgst betur með, tekið breytingarnar alvarlega, sýnt nýju vinunum hans meiri áhuga? Hefði verið strangari, haft stjórn á hverju Pétur hafði aðgang að í símanum sínum, stjórnað hverja hann hitti, hvar og hvenær.“ (258).

Hugurinn hvarflar til metsölubókarinnar Kvöldverðurinn eftir hollenskan höfund, Herman Koch, sem kom hingað á bókmenntahátíð 2013. Í þeirri bók fremja 15 ára bræðrasynir ódæði og siðferðislegar spurningar vakna varðandi afstöðu foreldranna þegar piltarnir þekkjast á upptöku úr öryggismyndavél.  Sagan endurtekur sig og ofbeldið í heiminum margfaldast. 

Útreiðartúrinn glímir á hugvekjandi hátt við sömu sígildu spurningar, með djúpstæðri tengingu við land og sögu, sekt og skömm. Persónur sögunnar í nútímanum reyna að  fóta sig í grimmum heimi alveg eins og forfeðurnir, þar sem gildin eru fljótandi, sannleikurinn og siðferðið líka. Áður fyrr var það samfélagsgerðin sem gróf undan jafnræði, staðfestu og heilindum, núna er það fjarveran og afskiptaleysið.

Birt á skáld.is 22.11.25

Um Hvíldardaga eftir Braga Ólafsson

Yfir Hvíldardögum, fyrstu skáldsögu Braga Ólafssonar, hvílir einstök yfirvegun og undraverð rósemi. Á tæpum tvö hundruð blaðsíðum er lýst rúmri viku í lífi þrjátíu og fimm ára gamals manns sem býr einn í Reykjavík og hefur verið skikkaður í sumarfrí í þrjá mánuði. Sögumanni, sem allan tímann er nafnlaus, gefst nú nægur tími til að gera nákvæmlega það sem honum sýnist. Framundan eru tímamót, endurfundir gagnfræðaskólaárgangsins, og drjúgur tími fer í að undirbúa sig fyrir það. Hann íhugar að nota frídagana m.a. til að skreppa upp í Heiðmörk með nesti og njóta náttúrufegurðarinnar þar. Bíllinn bilar, síminn hringir og allt í einu hefur hann svo mikið að gera að hann veit ekkert hvernig hann á að haga sér.


Líf þessa manns hefur hingað til einkennst af vana, einveru og sjúklegri öryggisþörf. Strax í byrjun bókar er gefið í skyn að líf hans muni taka breytingum. Honum finnst sjálfum eins og margt sé að losna eða liðast í sundur í kringum hann, eitthvað sem ekki sé hægt að tjasla saman aftur (bls. 93). Sögumaðurinn er einfari og nörd. Honum gengur frekar illa að eiga samskipti við aðra, orð og tillit trufla hann. Líf hans er eins og kvikmynd sem er sýnd hægt, smávægilegustu ákvarðanir vefjast fyrir honum eða þeim er skotið endalaust á frest. Í huga hans kvikna allskonar myndir af minnsta tilefni, ímyndunaraflið leikur lausum hala og gamlar minningar streyma fram. Hann veltir fyrir sér undarlegustu hlutum, s.s. merkingu tímans, að fólk sé aldrei óhult, hvernig komið verði að manni dauðum o. s. frv. Honum finnst hann vera einn í heiminum og að hann sé stundum ekki raunverulegur, einkum ef hann er innan um annað fólk (58). Ósköp er hann vinafár, á sunnudögum klukkan tvö heimsækir hann alltaf kunningja sinn Hall en samband þeirra er ekki náið og samræðurnar ganga stirðlega. Stundum heimsækir hann Dóru frænku sína og les blöðin hjá henni. Móður sína og systur kærir hann sig ekki um að heimsækja og vill heldur ekki að þær heimsæki hann. Hann er nægjusamur í einsemd sinni en þegar hann lítur yfir farinn veg rennur upp fyrir honum að hann hefur ekki afrekað neitt, ekki skilið neitt eftir sig, ekki skapað sér nafn og aldrei sigrast á neinu. Til að finna hvort hann  sé yfrleitt til hugleiðir hann að láta sig hverfa.


Yrkisefni Hvíldardaga eru einsemd og öryggisleysi vorra tíma. Sögumaðurinn nær undarlegum tökum á manni, hann er vinalegur og brjóstumkennanlegur, einangraður í þröngum heimi sem er að hruni kominn. Hvíldardagar er ótrúlega mögnuð og seiðandi bók. Bygging sögunnar er þaulhugsuð, kyrrð og fegurð ríkja yfir stíl, orðavali og efnistökum í þessari frábæru skáldsögu.


„Ég hef aldrei þekkt manneskju sem ég veit að er einmana“ segir sögumaður (57)með ísmeygilegri íroníu. Allar persónurnar eru einmana, búa einar og umgangast fáa. Erindi höfundar við lesendur er tímabært, á dögum sífellt meiri hraða og tækni eykst fjarlægð milli fólks og viðkvæmir hugsuðir, nördar og furðufuglar eins og sögumaður Hvíldardaga verða utanveltu. Lík þeirra finnst kannski seint og síðar meir í Heiðmörk.

Litríkar persónur valsa um skrautlegt svið

Þuríður formaður Einarsdóttir (1777-1863) var merkiskona sem segir frá í ýmsum heimildum. Hún sótti sjó í 66 ár og var formaður á opnum báti á 26 vetrarvertíðum og aldrei fórst nokkur af hennar áhöfn. Til er ævisaga hennar, rituð af henni sjálfri þótt óskrifandi væri (birt í 2. b. Skyggnis).  Til er lýsing á henni höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni fræðaþul sem kenndur er við Minna-Núp (1838-1914) í bókinni Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum sem e.t.v. kemst næst því hvernig hún kom fyrir sjónir. Og bréf og stefnur eru til í hennar nafni því hún lét ekki hlut sinn fyrir neinum, nema einu sinni þegar sýslumaður fékk hana til að bera vitni gegn svonefndum Kambránsmönnum* sem kunnugt er.

Brynjúlfur frá Minna-Núpi Iýsir Þuríði formanni svo:

Þuríður var snemma stórhuga og fljóthuga, skipti sér af öllu og vildi öllu ráða, enda sást það brátt að hún var bæði snarráð og hagráð; vann hún sér því traust þeirra er með henni voru. Hún var brjóstgóð við bágstadda, en óvægin og einbeitt við meiri menn og lét eigi undan neinum; var og einskis manns að yrðast við hana svo var hún orðheppin og gagnorð, enda skynsöm vel; aldrei beitti hún stóryrðum eða illyrðum, þó henni mislíkaði, en þá varð hún fljótmæltari og hraðmælari. Aldrei brá henni svo við neitt, að menn fyndu, að hún tapaði sér. Hún tók svo vel eftir öllu er hún sá og heyrði, að fágætt þótti, svo fljóthuga sem hún þó var, enda hafði hún gott minni; af þessu kom að hún varð vísari en aðrir um marga hluti er um var að ræða. Í þá daga naut alþýða engrar menntunar og Þuríður því eigi heldur, enda var hún meira hneigð fyrir útistörf en innisetu; gengu verk furðu vel undan henni, eigi burðameiri en hún var. Hún var grannvaxin, en þó nokkuð þykk um herðar, í meðallagi há eða vel það. Andlitið var mjög einkennilegt, yfirbragðið mikið, augun hörð og snör, niðurandlitið mjög lítið. Allt látbragð hennar Iýsti óvenjulegu fjöri. Málrómurinn var eigi mjúkur og þó eigi óviðfelldinn. Framburðurinn var djarflegur og áhugalegur. Í flestu þótti hún frábrugðin og einkennileg.

Auður Styrkársdóttir, áður forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, hefur nú skrifað öndvegis bók um Þuríði sem ber titilinn Kona á buxum. Nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns (2024). Þetta er vel stíluð saga og skrifuð af þekkingu á samfélagi þeirra tíma og stöðu alþýðunnar, af innsæi í margvíslegt misrétti sem þá viðgekkst og djúpri samúð með stöðu kvenna, barna og fátækra. Þetta er safaríkt efni að moða úr, nafnkunnar og litríkar persónur valsa um skrautlegt svið átjándu og nítjándu aldar. Tekur höfundur sér víða skáldaleyfi og prjónar skemmtilega í kringum heimildirnar.

Sagan hefst þegar Þuríður er lítil telpa. Hún er snemma kjörkuð og kjaftfor, glögg og útsjónarsöm. Ellefu ára fann hún upp á því að pissa með ærhorni þegar hún var á sjó. Svo er hún komin í stuttbrók innanundir pilsið sem engin kona var þá búin að fatta, bæði vildi hún skýla sér betur og gera gröðum körlum erfiðara fyrir þegar þeir vildu koma fram vilja sínum. Og karlmannsfötum gekk hún jafnan í á seinni árum með hatt á höfði og kallaði sig stundum Þormóð.

Ekki er hún eins sterk og sterkur karlmaður, en hún fiskar meir en aðrir og hún kann allan sjóinn, og svo hefur hún þessa stórkostlega léttu lund. Nú um sumarið gengur hún að slætti að Gaulverjabæ eins og karlmaður og fær karlmannakaup (122).

Það var reyndar ekki óalgengt að konur færu á sjó á þessum tímum. Flestar sóttu sjóinn í eyjabyggðum, s.s. í Breiðafirði, og í Árnessýslu er vitað um einar 17 sjókonur. Þuríður er þeirra kunnust og sú eina sem formannsheiti festist við. Árið 1830 fékk hún verðlaun úr konungssjóði fyrir jarðrækt og sjósókn. Hún mun vera eina konan, sem fékk þessi verðlaun.

Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi  50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt. 

Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi  50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt. 

Sagan er skrifuð á sérlega litríku og  fornlegu máli og lýsingar allar á umhverfi og atburðum svo myndrænar að bragð úr sögunni finnst á tungu og lykt situr í nefi. Nægir að nefna sem dæmi um þetta sérlega lipurlega skrifaðan kafla um aftöku Sigurðar Gottsveinssonar sem var forsprakki Kambránsmanna en sú lýsing er löng og skemmtileg (265 o. áfr.) eða inngöngu hinnar víðförlu Idu Pfeiffer í íslenskan torfbæ: „Hér er aldagamall daunn af fólki og skepnum, votri ull, fúkka og slaga, súrri mjólk og úldnum fiski og ýmsu torkennlegu, sem hið austurríska nef hennar ekki kann að greina, en er aldeilis hroðalegt…“ (293).

Við sögu kemur margt merkisfólk eins og t.d. Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og Valgerður Jónsdóttir biskupsfrú. Ekki er virðingu eða aðdáun fyrir að fara þegar Þuríður veltir fyrir sér hinum frægu Fjölnismönnum sem þóttust koma með frelsi og sjálfstæði til þjóðarinnar en koma alþýðunni alls ekki þannig fyrir sjónir. Þetta hugsar Þuríður:

Jónas. Tómas. Konráð. Brynjólfur. Hvað vita þeir svo sem um okkar hagi? Víst voru þeir hér bornir og barnfæddir, en tæplega rifu þeir fiskiroð og bruddu bein, synir presta og stórbænda allir saman. Og vínþrúgur og fuglasteikurí Kaupinhafn breiða yfir menn þægilegan hægindahjúp. Mér þykir Fjölnir harður í okkar garð…Eða þá kvæðið hans Jónasar: Hvar er þín fornaldar frægð og þá riðu hetjur um héruð! Hefur nokkur maður heyrt annað eins?! Já, frægðin, hún liggur í þeirra mannsmorðum og gripdeildum! Á það minnist ekki skáldið, ef skáld skyldi þá kalla, og ekki minnist Jónas þeirra sem hér hafa þraukað öldum saman og lifað þá voðalegustu eldganga og landskjálfta sem mannkyn man, og lifað samt, og lifað fullt eins góðu lífi og þar sem fuglasteikurnar fljúga sjálfkrafa í munna og vín flýtur um borð. Og svo kallar skáldið þetta kvæði Ísland! Ja svei! (288-9).

Sagan rennur vel og lýsir á trúverðugan hátt lífi og kjörum fólks. Væntanlega hafa fæstar konur á þessum tíma búið yfir þeim styrk sem Þuríður hafði og varð til þess að hún réði sér sjálf mestan part ævinnar. Henni eru lagðar í munn nútímalegar skoðanir, t.d. er skemmtileg sena þegar hún og Jón Sigurðsson rökræða um alþingi. Þuríður stingur kokhraust upp á því við hann að konur fái að sitja á þingi (310-311). Líklega lágu leiðir þeirra þó aldrei saman og þessi hugmynd fékk ekki hljómgrunn fyrr en löngu síðar sem kunnugt er.

Höfundur aflaði sér margvíslegra heimilda við ritun bókarinnar og greinir frá því ítarlega í eftirmála hvernig þær eru nýttar og hvar skáldskapurinn fær að flæða. Þuríður hefur verið einstök manneskja meðan hún var á dögum og er stórskemmtileg sögupersóna með alla sína öfga, sérvisku og ríku réttlætiskennd.

Fram kemur í eftirmála höfundar að nýverið kom út önnur bók um Þuríði formann, Woman, Captain, Rebel eftir Margaret Willson. Sannarlega var Þuríður Kona og Kafteinn og reis gegn feðraveldinu. Frábært er að henni er sómi sýndur með því að gera hana  eftirminnilega og ódauðlega með þessari bók sem óhætt er að mæla með fyrir alla sem unna sögulegum skáldsögum.

*Kambsránið svokallaða var framið aðfararnótt  9. febrúar 1827.  Fjórir grímuklæddir menn brutust inn í baðstofu á bænum Kambi í Flóa, lögðu hendur á bóndann og heimilisfólk hans og hótuðu pyndingum og dauða til þess að fá afhent fé bóndans. Höfðu þeir á brott með sér margt fémætt, m.a. 1000 ríkisdali að sögn bóndans. Vitnisburður Þuríðar m.a. varð til þess að þeir fengu þunga dóma en eftir stóðu uppleyst heimili.

Beinhvít blöð, vot af tárum

Út er komin ný ljóðabók eftir Ásdísi Óladóttur (f. 1967). Fyrsta ljóðabók Ásdísar, Birta nætur, kom út 1995. Úrval úr ljóðum hennar, Sunnudagsbíltúr, var gefið út 2015 þannig að á næsta ári spannar skáldferill hennar 30 ár. 

Nýja ljóðabókin heitir Rifsberjadalurinn. Hún skiptist í tvo hluta, Allt nema ég og Á nefi mínu hvílir regnhlíf. Fyrri hlutinn er bálkur sem lýsir glímu ljóðmælanda við ranghugmyndir, sektarkennd og ofsóknaræði; raddir heyrast í höfðinu og sjálfsvígshugsanir leita á. Þetta eru raunsæisleg og hreinskilin ljóð, ómyrk í máli um hvernig geðveiki nær undirtökum, um einhvers konar lækningu með lyfjum („Lífæð mín 30 mg“) og einhverjum bata. 

Kláraði námið 

en fékk enga stjörnu

á rassinn.

Minna veik

og varð minna

og minna veik.

Var komin 

í rifsberjadalinn

eða á lyfið

sem ég tók inn.

Rifsberjadalur hefur skemmtilega tengingu við lyfið Risperdal sem virkar á flest einkenni geðklofa og er notað við bráðum og langvinnum geðtruflunum. Dalur þessi er væntanlega sólríkur og notalegur staður þar sem hægt er að leita skjóls, svipað og að vappa inn í Víðihlíð í samnefndu ljóði Megasar. 

Í seinni hluta bókarinnar kveður við öðruvísi tón og skáldlegri. Þar eru japönsk ljóð skrifuð á blöð kirsuberjatrjánna, draumar eru fiskar sem eru dregnir á land og glerbrotum rignir um nótt. En sársaukinn er enn til staðar og einsemdin alltumlykjandi: „allt í góðu lagi nema ég“ (46).

Ljóð sem heitir Samtal fjallar um orð og þar er „nú-na“ endurtekið stef. Því lífið er stutt og dauðinn þess borgun, eins og annað skáld kvað forðum, og boðskapurinn er að allt okkar streð verður fyrr en varir gleymt og grafið.

ÆVI

Maðkur,

sandmaðkur

skilur eftir sig 

á leirunni 

flókna

slóð,

minnisvarða 

um ferð.

Það fellur að.

Síðast kom út ljóðabók frá Ásdísi 2020, Óstöðvandi skilaboð, þar sem einsemdin er einnig alls ráðandi. Sársaukinn er mikill í báðum þessum bókum og skáldkonan veltir fyrir sér hvort orðin nái almennilega utan um hann. Dregin eru upp eftirminnileg mynd: Orðin fæðast og falla: „á beinhvít blöð / vot af tárum“.

„Ekkert kann ég fyrir mér nema krossmarkið“

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.

Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.

Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.

Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.

Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).

Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).

Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:

Hús með meiru

Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu

byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma

varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,

svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum

í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um

hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál

eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er

vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún

stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér

ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og

fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig

nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að

slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema

krossmarkið.

(80)

Birt á skáld.is, 27 júlí 2021

„Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var“

Guð leitar að Salóme en Salóme leitar að kettinum sínum og skrifar bréf til Helgu en tíu ár er liðin síðan ástarsambandi þeirra lauk með látum. Síðan hafa þær ekki sést. Loksins herðir Salóme sig upp í að krota fortíð sína, sem hún hefur byrgt inni, á kisubréfsefni og senda Helgu eitt bréf á dag, frá 1.-24. desember árið 2010. Þetta er umgjörð frumlegrar bréfaskáldsögu Júlíu Margrétar Einarsdóttur, ástar- og raunasögu úr rammíslenskum aldamótaveruleika, í fjólubláu bandi prýdd grænum glugga með mynd af rúllustiga.

Saga Salóme er samofin sögu formæðra hennar á Akranesi, ömmunnar blíðu sem missti ung manninn sinn, gleðipinnann Pétur, sjómann og tásuskrýmsli sem endalaust nennti að leika við rauðhærðar tvíburadætur sínar, Stellu, móður Salóme, og Láru. Sviplegur dauði hans og meint heimsókn hans framliðins um nótt varð til þess að samband tvíburasystranna rofnaði harkalega og þær héldu hvor í sína áttina. Stella hitti síðan sæta organistann, og Salóme ólst upp við rifrildi, reiðiköst og alkóhólisma sem setja mark sitt á hana, auk eineltis í skóla. Bæði hún og Pétur bróðir hennar eru sködduð eftir meðvirkt uppeldi og trúarinnrætingu föðurins.

Salóme er brotin, hirðulaus „ljósmyndastelpa“ og lúði af Skaganum, eins og hún lýsir sér sjálf, í íþróttagalla og rifinni kápu. Þegar hún flytur að heiman og fær vinnu í búð í Kringlunni kemur „klikkhausinn“ Helga inn í líf hennar og frelsar hana frá einsemdinni. Salóme tekur upp nýtt nafn til að lappa upp á sjálfsmyndina og hefja betra líf í búðinni Betra líf. Í kringum Helgu er djamm, uppátæki og leikir en líka geðsveiflur og sorgardrungi. Þessar týndu sálir sameinast í heitri ást sem heillar Salóme en skömmin er alltaf skammt undan. Samkynhneigð er ekki samþykkt. Og áfram heldur dramað á Skaga, eineltið hættir ekki, systrasambandið lagast ekki og hræðilegur atburður frá því Salóme var 11 ára gleymist ekki.

„Mér fannst svolítið eins og við þræddum í gegnum óraunverulegar minningar, eins og Akranes væri kvikmyndasett um nótt þegar búið væri að slökkva á myndavélinni og allir farnir heim. Minnisvarði um eitthvað sem eitt sinn var, væri ekki lengur raunverulegt, og yrði vonandi aldrei aftur“ (304).

Guð leitar að Salóme er margslungin saga um sársauka og skömm, örlög og erfið samskipti. Sögutíminn er heillandi, um aldamótin síðustu voru samfestingar í tísku, geisladiskar seldir í Skífunni, Myndbönd mánaðarins komu út, stuðið var á Astró, Kóklestin brunaði og BT músin brá á leik. Sögusviðið er sömuleiðis heillandi, þorpið með slúðri og smásálum. Júlía Margrét hefur þetta allt á valdi sínu.

Ástin á sér margar birtingarmyndir en andstæðan við hana er skeytingarleysi (366), það sem ógnar öllu mannlífi. Salóme ætlar að taka af skarið þegar síðasta bréfið hefur verið skrifað, þegar áratugur hefur liðið frá því ástin hvarf úr lífi hennar. Lesendur verða að finna út hvort það er orðið of seint.

Birt á skáld.is, 21. nóvember 2021

„Að búa við farsæld og kynlíf í standard lofthæð“

Óhætt er að segja að bókmenntaumræðan sé fjörug í fjölmiðlunum um þessar mundir. Bergsveinn Birgisson sakar nú Ásgeir Jónsson um ritstuld og Guðmundur Andri er ekki hrifinn af hugmynd Braga Páls um að drepa Arnald Indriðason í samnefndri bók. Einnig spunnust umræður um Systu megin eftir Steinunni Sigurðardóttur sem fjallað var um í Kiljunni nýverið. Þeir Árni Óskarsson og Þorleifur Hauksson skrifuðu grein í Fréttablaðið um að umfjöllunin hefði verið villandi í þættinum, sem Þorgeir Tryggvason svaraði síðan á facebook-síðu sinni. Það er gaman að sjá að enn ólgar blóð í bókmenntaþjóðinni og að fólk nenni að hafa skoðun á skáldskap.

Dolludrós

Umrædd og umdeild bók Steinunnar, Systu megin, fjallar um konu rétt skriðna yfir þrítugt sem lifir undir fátæktarmörkum og utan bótakerfis í ömurlegri kjallaraholu í Reykjavík (mynd á bókarkápu). Hún dregur fram lífið með dósasöfnun og ruslatunnuróti og þarf að velta fyrir sér hverri krónu. Sagan gerist um jól, á einum af þeim tímapunktum ársins þar sem fólk finnur sárast til fátæktar sinnar. Systa man betri daga með gleðilegum jólum á Fjólugötunni og sveitasælu í Fljótshlíð sem gerir hlutskipti hennar síst betra þótt hún orni sér við minningarnar. Ljóst er af þeim hugrenningum að ferlíkið móðir hennar hefur líklega átt við andlega erfiðleika að glíma, kannski afleiðingar skorts í bernsku, og faðirinn var oft fjarverandi á sjónum en sinnti Systu og litla bróður af alúð þegar hann var í landi uns hann féll frá þegar Systa var 14 ára. Eftir það gekk hún Brósa sínum í foreldrastað; „en hver gekk mér í hvaða stað?“ spyr hún sjálfa sig í allsleysi sínu og einstæðingsskap (63).

„Þegar ég velti Mömmu fyrir mér, sem ég geri nú helst sem minnst af, þá verður ekki hjá þeim sannleika komist að þetta er nískasta manneskja sem uppi hefur verið í samanlagðri heimskristninni. Leið hann Faðir minn sálugi mjög fyrir það, sérstaklega að Mamma sparaði ekki bara við okkur alsystkinin í mat heldur líka í klæðnaði. Áttum við Brósi bró tæpast til skiptanna á köflum.“

Af hrakningum sínum í lífinu hefur Systa fengið þá hugmynd að hún eigi sér tæplega tilverurétt; „einstaklingur eins og ég“, „dolludrós“ og „dósasysturafmán“ sem „á auðvitað ekki að sjást.“ Löngum hefur verið horft í aðra átt þegar rætt er um fátækt á Íslandi og helst viljum við sem minnst af henni vita en hún er sannarlega skammarblettur á okkar ríka samfélagi. Systa lítur svo á að tilveran sé takmörkuð, „Mín tilvera auðvitað alveg sérstaklega, sem kemur til af mínum eigin takmörkunum“ (87). Hana langar í barn, hana langar til að vera snert en hvorugt hlotnast henni. Vitað er að fátækt brýtur sjálfsvirðinguna niður og það má glöggt sjá af reynslu, aðstæðum og sjálfsmynd Systu. En saga hennar er sögð án biturðar, án reiði, án fordæmingar.

Aðlögunarhæfni er það sem hefur skilað mannkyninu áfram í lífinu og sannarlega hefur Systa allar klær úti til að afla sér lífsbjargar. Dregin er upp sérlega íronísk mynd af útsjónar- og nægjusemi Systu. Hún sér tækifæri í óborguðu kaffi, almenningssalerni, bóklestri á bókasafninu og ábót á súpuna, hún áttar sig á mikilvæginu sem felst í „orkugjöf sykurmolans“ og happinu í að komast yfir „torfengnar hitaeiningar.“ Dapurlegt og meinfyndið í senn.

Fjárfest í kjötsúpu

Fornlegur stíll og einstakur húmor skapa í sögunni spennuþrungið tvítog, nístandi íroníu sem Steinunn hefur svo gott vald á. Orð eins og samastaðarígildi, plús, markaðsverð, á ársgrundvelli, þvottaefnisútgjöld, skortur á loftgæðum, fjárfesting í kjötsúpu, vítamínstatus og næringar- og stoðkerfisástand sem Systa notar til að lýsa aðstæðum sínum hljóma eins og úr munni hagfræðings eða stjórnmálamanns sem talar í frösum í fjölmiðlum. Kafli sem ber heitið Næringarkerfið lýsir því hvað Systa borðar allan ársins hring og er í senn meinhæðinn og sárgrætilegur, uppsettur eins og næringarfræðileg matardagbók sem þó inniheldur alltof lítið af mat og bætiefnum.

„Alla daga, hafragrautur. Á laugardögum með eplabitum úr hálfu epli, þegar markaðsverð er hagstætt. Á sunnudögum með hinum helmingnum af eplinu. Grautur soðinn með kanil, ef birgðastaða á kanil leyfir.“

Særð systkini

Undirtitill sögunnar er leiksaga, formið er brotið upp með leikþáttum og persónur bresta jafnvel í söng. Brotin eru í anda absúrdisma og þar sér lesandinn aðstæður Systu í mun grimmdarlegra ljósi en í sögunni. Þar koma m.a. fram hið hrokafulla og loðpelsaklædda jólafólk sem er skeytingarlaust um aðbúnað annarra og þrælahaldarinn Ketill sem ásælist starfskrafta og frelsi Systu. Önnur absúrd sögupersóna er einfætta hárgreiðslukonan Lóló sem „stendur höllum fæti í sömu sporum“ (47); útigangskona sem hefur misst allt og er enn verr sett en Systa. Styttan af Mömmu birtist af og til með miklar skoðanir framtíðaráformum Systu. Þar er líka samtal „særðra systkina“ (132), þar sem draumar eru byggðir upp og rifnir jafnóðum niður svo sker í hjartað.

„Ég veit að margt er það í lífi venjulegs fólks sem ég ber ekki skynbragð á, svosem það að búa við velsæld og kynlíf í standard lofthæð, en það er líka margt sem almenningur mundi ekki átta sig á í mínu lífi“ (121) segir Systa. Fátæktin er söm við sig, hvort sem hún stafar af nísku, andlegri og líkamlegri, eða misskiptingu auðsins sem skapast í þjóðfélaginu. Systa og Brósi voru vanrækt sem börn, svelt og neitað um ást og snertingu. Það hefur sínar afleiðingar, Systa er skorturinn uppmálaður, Brósi lætur allt yfir sig ganga fyrir ástina. Það versta sem til er hjá mannkyni er níska og skeytingarleysi.

„Ef ég ætti peninga held ég að ég mundi reyna að gera öðrum gott og gauka að lítilmagna eins og sjálfri mér“ (155) segir Systa og er gott að hafa þetta í huga í allsnægtunum.

Birt fyrst á skáld.is, 11. des. 2021

Ofurfínlegt lítið ljóð…

komdu

fylltu hús mitt litum heitum

hlæjandi litum

kyntu rauðan eld brenndu mig

 

ein skínandi perla

ein stund af lífi

handan hversdagsleikans.

 

Langt úr fjarska yljar hann nú

unaður þess sem aldrei gerðist.

segir Unnur Eiríksdóttir í ofurfínlegu litlu ljóði, Úr fjarska, sem engu að síður segir margt um kvæðalag hennar. Sannleikurinn er sá að yrkisefni, orðfæri hennar má ekki verða rómantískt um of (Jónsvökudans, Logar), þarf á að halda efnivið verulegrar reynslu og tilfinningalífs til að takast til hlítar. Ekki lætur henni heldur alls kostar að yrkja út af „vandamálum“ heims og mannlífs, pólitískum tilefnum (Martin Luther King, Lúmúmba, Víetnam) þótt hún freisti þess í þriðja þætti bókarinnar, ljóðum sem i sjálfu sér eru allvel gerð.

Ólafur Jónsson (1936-1984), fjallaði um ljóðabók Unnar Eiríksdóttur, Í skjóli háskans (1971), í Vísi, 1. febrúar 1972 og sagði henni í leiðinni aðeins til.  Ég velti hins vegar fyrir mér hvað það er sem er ofurfínlegt og lítið í þessu samhengi, þetta er reyndar ekki ljóð eftir Unni heldur brot úr þremur ljóðum hennar. Svo heldur hann áfram:

„Unnur Eiríksdóttir hefur áður birt skáldskap, Ijóð og sögur, í blöðum og tímaritum, og ein skáldsaga eftir hana held ég að hafi komið út, Villibirta, árið 1969. Sú bók fór framhjá mér á sínum tíma. En Ijóð hennar, Í skjóli háskans, er einkar viðfelldinn lestur, vandaður og smekklegur texti það sem hann nær: Unnur reynist einn af þeim höfundum er maður hefur af lauslegan pata úr blöðum en kemur reyndar á óvart í bókarlíki.“

Unnur (1921-1976) sendi svo frá sér smásagnasafnið Hvítmánuð 1974 sem fékk litla sem enga umfjöllun. Helstu yrkisefni Unnar eru konur, samskipti, sambönd, frelsi og tilvist.

Hún þýddi m.a. Friedrich Durrenmatt, Jean Paul Sartre og Colette.

Hér má lesa þrjú ljóð eftir Unni og smásöguna Konan og dagurinn, sem birtist í 19. júní 1976.

Screen Shot 2018-03-04 at 10.34.54

Unnur Eiríksdóttir