Alexandra Buhl

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Napóleon norðursins. Um Íslands eina kóng

Átjánda öldin hefur löngum verið talin eitt mesta hörmungatímabil í sögu Íslands. Náttúruhamfarir, farsóttir, einokun og stéttskipt samfélag einkenndu tímabilið og mesta furða að landsmenn skuli ekki barasta hafa geispað golunni, allir með tölu. En þeir þrjóskuðust við, þá eins og nú, og hjörðu áfram í sárri fátækt, eymd og volæði. En þrátt fyrir allt gerðist það á þessum tíma að hugmyndir um sögulegan samtíma og einstaklingsvitund brutust fram og róttækar breytingar urðu á efni og formi bókmenntanna.

Þegar Jörgen Jörgensen, nefndur Jörundur hundadagakonungur, kom til Íslands sumarið 1809 í viðskiptaerindum, var hér heldur dauflegt um að litast. Í Reykjavík bjuggu um 400 manns og var heldur lágt á þeim risið. Íslendingar þorðu ekki að eiga vöruskipti við Jörund og félaga hans vegna einokunar Dana, svo hann hreinlega hrifsaði völdin af stiftamtmanni og lýsti því yfir að dönsk yfirráð væru fallin úr gildi.

Í tvo mánuði ríkti hann yfir landinu, gaf út tilskipanir á báða bóga, veitti föngum sakaruppgift og strikaði út skuldir eins og enginn væri morgundagurinn. Þessu stutta blómaskeiði lauk þegar hann var snautlega settur af og þar réðu gróðasjónarmið einnig för ásamt undirliggjandi ótta valdhafa við almenna uppreisn og frekari byltingu.

Ekki ber öllum saman um að þessi maður sé Jörgen Jörgensen. Önnur mynd og óhuggulegri var til á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 18974 / MMS 18974) en hefur ekki sést lengi.

Einar Már Guðmundsson fjallar um Jörund  í nýjustu skáldsögu sinni, Hundadögum, sem einnig kemur út á dönsku þessa dagana í þýðingu hins eitursnjalla Eriks Skyum Nielsen. Lífshlaup Jörundar er sannarlega skrautlegt og gjöfult viðfangsefni. Einar Már er þó ekki fyrstur til þess  að sækja í þennan frjóa efnivið og sennilega ekki síðastur. Áður hafa m.a. bæði Ragnar Arnalds (Eldhuginn, 2005) og Sarah Blakewell (2015) skrifað skáldsögur um skrautlegan feril Jörundar.  Og leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið  hann Jörund, sem fyrst var sett upp í Iðnó 1970 smaug beint inn í hjörtu þjóðarinnar á sínum tíma. Það hefur margoft verið sett á fjalirnar síðan, síðast 2014 í leikgerð Eddu Þórarinsdóttur, og rataði ísjónvarp 1994. Auk þess skrifaði Jörundur sjálfur ævisögu sína í nokkrum útgáfum eftir því hvernig lá á honum. Svo það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær gerð verður stórmynd um stormasama ævi og örlög þessa margbrotna manns.

Hundadagar-175x268Efnistök Einars Más eru af öðrum toga en fyrirrennara hans; þau eru frumlegri, fjölskrúðugri, skáldlegri og meira skapandi en áður hefur sést. Jörundur er breysk persóna, hann er myndarlegur, vel greindur en ógæfusamur ævintýramaður sem hrekst í ólgusjó fíknar og metorðagirndar en á sér líka betri hliðar.

Ástæðurnar fyrir byltingunni á Íslandi eru í raun viðskiptahagsmunir, það er engin rómantíseruð frelsishugmynd þar að baki. Einar Már tengir byltingu Jörgens við búsáhaldabyltinguna 200 árum síðar, þegar óheiðarleg viðskipti með sýndarmilljarða urðu efnahag þjóðarinnar að fjörtjóni til frambúðar og forsætisráðherra kallaði almenning skríl, líkt og enski skipherrann sem setur sig á háan hest gagnvart þegnum Jörundar, og leggur út af þeim samanburði um eðli manns, sögu og skáldskapar.

Sögumaðurinn er alls staðar nálægur á notalegum spjallnótum. Hann er kammó og kærulaus og slær um sig með orðum eins og díll, djobb og gaur . Hann er ýmist „við“ eða „ég“ og hefur yfirsýn yfir orsök og afleiðingu, liðna tíma og núið. Hann fer á flug í pælingum um skáldskap og veruleika, sögu og túlkun. Persónurnar anda og lifa í gegnum hann, ætli það séu nema tvö bein samtöl í allri bókinni?

Aldagamalt ryk er dustað af gulnuðum skjölum, þau eru dregin úr gömlu þurrlegu samhengi og skeytt saman á ný svo úr verður skrautleg, eldfjörug og kostuleg saga sem minnir um margt á svonefndar skálkasögur sem voru vinsælar á bernskudögum  skáldsögunnar.

Sögumaður snýr upp á tímann eins og hann lystir „af því að saga okkar er í aðra röndina andleg  og ekkert er í réttri röð þegar fram líða stundir“ (190). Bítlarnir og Jörundur eru nefndir í sömu andránni og Jón Steingrímsson, hinn magnaði eldklerkur, er sömuleiðis leiddur fram en Jón hafði verið dauður í tuttugu ár þegar Jörundur kom til landsins.

Fleiri nafnkunnir menn koma við sögu, m.a. Magnús Stephensen, konungshollur tækifærissinni og fulltrúi valdastéttarinnar á Íslandi, og Finnur Magnússon, sem fékk skjótan frama sem leyndarskjalavörður Danakonungs, féll svo úr háum sessi og var ekki gæfusamur í einkalífinu, skuldugur og einmana.

Svo er fylgst með Guðrúnu Johnsen, ægifagurri ástkonu Jörundar sem þráir að vera hefðarmær en endar sem betlikona, hrekst milli manna og ræður minnstu um örlög sín sjálf. Sögufrægar persónur eru sýndar í nýju ljósi, t.d. hefur Íslandsvinurinn mikli, hinn kunni SirJoseph Banks, svifið um mannkynssöguna á rómantískri ímynd en reynist svo ekki allur þar sem hann er séður.

Undir öllum kammóheitunum, gáskanum og skapandi heimildaúrvinnslunni lúrir ádeila á nýlendustefnu, kúgun og stéttaskiptingu og hrokann sem hélt ástandinu við og gerir enn.Veislan fræga í Viðey sem Ólafur Stephensen hélt Jörundi og félögum dregur skýrt fram muninn á ríkidæmi valdhafa og kjörum alþýðunnar.

Kort af Íslandi frá 1761

Íslenskir embættismenn höfðu skömm á valdabrölti Jörundar nema þeir sem nutu góðs af eða þorðu ekki annað „af ótta við að hann myndi sigra en urðu þá enn hræddari stuttu síðar þegar ljóst var að hann hafði tapað“ (199). Alþýðan tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti, vön því í gegnum aldir að beygja sig undir yfirvaldið mótþróalaust og vera ekki spurð álits á neinu. Einar Már færir listilega saman líkindin með fortíð og nútíma og sýnir að valdapólitíkin er alltaf söm við sig.

Var Jörundur hundadagakonungur fulltrúi nýrra tíma, djarfur ofurhugi, misskilinn snillingur og frelsishetja? Eða gróðapungur, götustrákur og föðurlandssvikari? Hvað sem því líður var yfirlýstur tilgangur hans að bæta ástandið á Íslandi og að tryggja landsbúum frið og hamingju sem þeir hafa lítið haft af að segja til þessa“ (194).

Það er ekki fyrr en í fangelsi sem raunveruleg ásýnd spillingar, kúgunar og einokunar á Íslandi skýrist fyrir Jörundi. Eldheitar ræður hans um frelsi og réttlæti, frjáls viðskipti og jafnan rétt manna streyma skyndilega fram. Þá nær mikilmennskubrjálæðið hámarki, þá er hann Napóleon norðursins, Íslands eini kóngur fyrr og síðar.

Jörundi er fylgt áfram eftir Íslandsævintýrið í útlegð að endimörkum heimsins og til dauðadags. Mynd af honum og konu hans, hinni ungu og drykkfelldu Nóru, er talin steypt í brúarsporð í bænum Ross í Tasmaníu, „útskorin eins og kóngur og drottning á spilum“ (333). Mynd Jörundar lifir væntanlega í skáldskap Einars Más meðan bækur eru enn lesnar á Íslandi.

Skáldsaga Mál og menning, 2015 341 bls

Gullfalleg bókarkápa: Alexandra Buhl / Forlagið

Birt í Kvennablaðinu, 15. nóv. 2015