Virginia Woolf

Horft á sirkusinn fyrir innan – Um Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf

Breska skáldkonan Virginia Woolf (1882-1941) er einn fremsti rithöfundur 20. aldar, frumkvöðull módernisma og femínisma í skáldskap og baráttukona fyrir réttindum kvenna. Það var hún sem mælti þau fleygu orð að kona þyrfti að hafa sérherbergi til að geta verið rithöfundur. Á árunum 1939-40 ritaði hún endurminningar sínar, sem hún nefnir í textanum „útlínur“, en náði ekki að koma þeim í bók því hún batt enda á líf sitt sem kunnugt er. En það sem hún þó náði að skrifa um uppvöxt sinn er fallegur og áhrifaríkur texti um gleðistundir, atvik og áföll og fjölskyldulíf í samfélagi sem er þrúgað af eftirhreytum Viktoríutímans. Í fyrra kom bókin út í íslenskri þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur, í flokki sígildra samtímabókmennta hjá Unu útgáfuhúsi og ber titilinn Útlínur liðins tíma

Gljúpt ílát

Bókin er ekki bara línuleg frásögn af lífshlaupi heldur inniheldur m.a. pælingar um hvernig eigi að fanga persónuleika í ævisögu er en á sama tíma og Virginina Woolf skráir  endurminningar sínar er hún einnig að skrifa ævisögu þekkts listmálara. Virginia segir að hún ætli ekki að dvelja um of við formið á þessum minningum. Áherslan er á manneskjuna og tilvist hennar, upplifun af atburðum og hughrifum, hljóð eins og skrjáf í laufi, ilm og form og sterkar tilfinningar sem skilja eftir sig spor (13), „moments of being“ (sem minnir á pælingar Roland Barthes um  „biographemes“ eða „ævifleyga“, þ.e. fleygur úr textaheild sem gengur inn í vitund lesanda, smýgur inn í kviku og fangar skynjunina augnablik). Þannig tengist spegill í forstofunni blygðun og sektarkennd og borðplata fyrir framan borðstofudyrnar tengist kynferðisofbeldi sem Virginia varð fyrir mjög ung og skömm sem hún upplifði í kjölfarið. Frásagnaraðferð Virginiu felst í að draga fram augnablik og ævifleyga, rýna í tengsl, áhrif, myndir og mannlýsingar, kannski eins og hún lýsir sjálf: „Í yfirfærðri merkingu gæti ég notað myndmál til að útskýra hvað ég meina. Ég er gljúpt ílát á floti í tilfinningum, ljósnæm plata berskjölduð fyrir ósýnilegum geislum… (124)

Ljón og api

Stór hluti endurminninganna snýst um foreldra Virginiu sem voru dæmigerð fyrir sína kynslóð. Meðan Juliu móður hennar naut við var lífið gleðiríkt og hún var sú sem hélt öllu saman – fögur, blíð og gáfuð. Systkinin voru alls sjö, faðir Virginiu var seinni maður Juliu og mun eldri en hún. Stórfjölskyldan bjó í Lundúnum og dvaldi á sumrin við sjávarsíðuna í St. Ives í Cornwall sem voru þeirra bestu stundir. En móðirin lést aðeins 49 ára gömul og þá var sælan á enda. Skömmu síðar lést systir Virginiu, nýgift og barnshafandi. Seinna efnilegur bróðir aðeins 26 ára. Sorg og harðstjórn föðurins urðu allsráðandi í lífi fjölskyldunnar næstu árin. Samband föður og dóttur var flókið, eins konar blanda ástar og haturs. Hann hvatti Virginu til lestrar og skrifa en kúgaði hana og systur hennar um leið með skapofsa og tiktúrum. Virginiu leið eins og hún væri taugaveiklaður api inni í búri með skapstyggu ljóni (96). Um leið og hann lést mörgum árum síðar fluttu systurnar í Bloomsbury-hverfið eins og frægt er og létu allar hömlur og kreddur fyrri kynslóða lönd og leið. Til varð rými fyrir ástir, frelsi og listræna sköpun og Virginia blómstraði í þessu umhverfi.

Feðraveldismaskínan

Áhugaverð er greining Virginiu á hinum hefðbundnu siðvenjum Viktoríutímans, þessu gamla sniðmáti og kröfum sem ríktu í samfélaginu. Faðir hennar ólst upp í íhaldssamri mótmælendafjölskyldu, menntamaður en hafði ekki náð þeim hæðum sem til stóð og ætlast var til, varð gramur og sjálfselskur og fór alveg út af sporinu við konumissinn. Bræður hennar fetuðu hlýðnir þá leið sem mörkuð var fyrir þá, fóru í heimavistarskóla, gengust inn á smásmugulegar hefðir eldri borgarastéttarinnar og unnu opinber störf. Systurnar nutu heimakennslu, áttu að fara í gönguferðir daglega og sá elsti dró þær með ruddalegri frekju í hvert drepleiðinlegt kvöldverðarboðið á fætur öðru. Þeir tilheyrðu öðrum heimi, þeir trúðu því að konur ættu að vera hreinlífar og karlar hreystimenni (155), þeir ræddu um pósthús og réttarsali (167) en þær áttu að vera snyrtilegar og viðeigandi klæddar og sýna þeim aðdáun og hlýðni. Hjá bræðrunum ríktu hefðirnar en hjá systrunum blómstaði vitsmunalíf. Þær teiknuðu, lásu og skrifuðu þær stundir sem þær áttu lausar en hlýddu annars leikreglum samfélagsins sem einkenndust af  bælingu og skyldurækni. Þeir höfðu til ráðstöfunar þúsund pund á ári en Virginia fimmtíu (157). Í bókinn er feðraveldi Viktoríutímans líkt við maskínu sem hrifsar tíu ára drengi til sín og hakkar þá í sig, og spýtir þeim út sem húsbændum, eiginmönnum og embættismönnum. Samkvæmislífið var sama maskínan, ungar stúlkur áttu enga möguleika í greipum hennar og Virginia lýsir þessu svo:

„Maskínan sem okkar uppreisnargjörnu líkömum var þröngvað inn í um aldamótin 1900 hélt okkur ekki aðeins í heljargreipum heldur beit stöðugt í okkur sínum beittu tönnum“ (155). 

Liðinn tími

Virgina veit ekki betur á ritunartíma Útlínanna en að hún eigi eftir að hafa nægt tóm til að ljúka við verkið. Á bls. 125 segir hún t.d. þegar hún er komin út fyrir efnið: „Ég set hér niður vegvísi til að merkja æð sem ég mun einhvern tíma reyna að nýta til fullnustu og sný mér aftur að yfirborðinu, það er að segja St. Ives…“ En frá unglingsaldri glímdi hún við geðröskun og sjálfsmorðshugleiðingar og bókin endar í miðjum klíðum. Hún er ókláruð en samt furðu heilleg.

Ekkert er hægt að setja út á þýðingu Soffíu Auðar, enda var bókin tilnefnd til Þýðingarverðlaunanna; málfar er blæbrigðaríkt og vandað og textinn rennur vel. Í bókinni eru afar fræðandi neðanmálsgreinar og eftirmáli eftir Soffíu Auði, m.a. um útgáfusögu handrits Virginu að Útlínunum, helstu æviatriði hennar og pælingar um enudrminningar og ævisagnagerð.

Það er svo margt í þessari bók sem vert er að hugsa um. Í henni eru í senn dregnar sjálfsævisögulegar útlínur glögga greinandans og baráttukonunnar sem Virginia var og ljósi varpað á líf og samfélag á liðnum tíma.

Það augnablik (moment of being) eða ævifleygur (biographem) sem fangaði skynjun mína einna helst við lesturinn er þessi tilfinning sem birtist í að vera eins konar útlagi eða utangarðs og geta þarafleiðandi verið greinandi: „Mér leið eins og sígauna eða barni sem stendur við tjaldopið og horfir á sirkusinn fyrir innan“  (157).

Hér má heyra áhugavert samtal Soffíu Auðar og Jórunnar Sigurðardóttur um bókina. 

Erum við bara ánægð með lífið? Dauflegt bókmenntaár

screen-shot-2018-01-01-at-12-06-04

Árið 2017 var heldur dauflegt í bókmenntunum. Engin teljandi stórmerki eða furður áttu sér stað og harla lítið var um nýbreytni eða frumleika, allavega í þeim íslensku skáldsögum sem ég komst yfir að lesa á árinu. Það var miklu meira stuð í ljóðagerðinni og algjör flugeldasýning á þýðingahimninum.

 Einhver fortíðarþrá einkennir margar íslenskar skáldsögur nú um stundir. Langdregið uppgjör hefur átt sér stað við bernsku og æskuár, um það að verða skáld, um veröld sem er horfin. En skáldsögurnar Aftur og afturMillilending og Perlan fjalla um tíðarandann núna, samfélagsmiðlana, firringu og tilgangsleysi; þar er verið að glíma við það hver maður er á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er ekki búin að lesa Sögu Ástu né Elínu Ýmislegt sem eru áhugaverðar. Ég hafði eiginlega mest gaman að tveimur bókum 2017 sem hvorug er skáldsaga:

Í Stofuhita eftir Berg Ebba er einhver kraftur. Þar er tíðarandinn speglaður, hugmyndir viðraðar, samfélagsmiðlar rannsakaðir og sitthvað fleira í einhvers konar sjálfsmyndar- og þjóðfélagsstúdíu um kjöraðstæður manneskjunnar í flóknum og hættulegum heimi. Tvennir tímar​, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason skráðar af Elínborgu Lárusdóttur, þótti mér skemmtileg. Saga alþýðukonu sem bjó við sáran skort og vinnuþrælkun hjá vandalausum um miðja síðustu öld. Minnir okkur á upprunann, við erum flest komin af niðursetningum og sauðaþjófum.

Svo er ég í stuði fyrir torræðar og dularfullar ljóðabækur þessa dagana, svo Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur kemur strax upp í hugann. Þar er fjallað um samtíma, samhengi og samfélag; ljóðin eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta, eru torskilin og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur og seiðandi. Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði smella inn í umræðuna núna þegar verið er að draga valdið í efa og rýna í skrifræði og vélræn kerfi.

Fleiri góðar ljóðabækur mætti nefna, Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem er ansi hreint mögnuð og Ég er hér eftir Soffíu Bjarnadóttur. Ég hlakka til að lesa nýjustu bók Elísabetar Jökulsdóttur sem mér skilst að sé óður til móður hennar.

Óratorrek eftir Eirík Örn Norðdahl fannst mér flugbeitt. Frasar og tuggur sem umlykja okkur og hafa gríðarleg áhrif á skoðanir okkar og lífsviðhorf á degi hverjum eru afbyggð og sett fram í samhengi sem hlýtur að vekja sofandi þjóð. Skapandi endurtekningar, íronía, leikur að hugmyndum, stigmögnun og taktur sem hrífur lesandann í djöfladans. Heildstætt og ögrandi verk, sem við þurfum á að halda til að takast á við samfélag sem er allt í rugli.

Ljóðabók Hallgríms Helgasonar, Fiskur af himni, er bæði falleg og ljúf. Þar birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á skáldinu. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt við. Fallegt þegar kaldhæðni og töffaraskapur lætur undan síga fyrir einlægni og heiðarleika.

Barna- og unglingabókmenntir döfnuðu vel á árinu, það komu út öndvegisbækur eins og eftir Kristín Helgu GunnardótturÆvar vísindamannGunnar HelgasonBrynhildi Þórarinsdóttur, svo dæmi séu tekin. Gerður Kristný sendi frá sér unglingabók, held ég. Bók Haraldar F. Gíslasonar, Bieber og Botnrössu, fylgdi lag á youtube og hún rokseldist. Það er bara óendanlega mikilvægt nú sem aldrei fyrr að unga fólkið lesi svo þessar fínu bækur.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þýðingar eru hressandi blóðgjöf fyrir íslenskar bókmenntir. Ég hlakka til að lesa Konu frá öðru landi eftir rússneskan höfund í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur. Heimsbókmenntir eftir Virginiu Woolf kom út á árinu, Orlando í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttir og Mrs Dalloway í nýrri þýðingu Atla Magnússonar. Lísa í Undralandi kom líka í þjálli þýðingu Þórarins Eldjárn með frábærum myndum. Velkomin til Ameríku eftir Lindu Boström Knausgard (Þórdís Gísladóttir þýddi) ætti að ýta við öllum lesendum og Einu sinni var í austri, er átakanleg uppvaxtarsaga í þrekmikilli þýðingu Ingunnar Snædal. Mannsævi er stutt skáldsaga sem leynir verulega á sér og segir svo miklu meira en virðist við fyrstu sýn, í frábærri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Neonbiblían er svo sannarlega heimsbókmenntir eftir „undrabarn í bandarísku bókmenntalífi“ eins og Uggi Jónsson segir í eftirmála öndvegisþýðingar sinnar. Höfundurinn var aðeins 16 ára gamall þegar hann skrifaði bókina. Í sögunni segir frá David sem elst upp með fjarhuga föður, ruglaðri móður og brjóstgóðri frænku í afskekktum dal í Suðurríkjunum um miðja síðustu öld. Og til að ljúka upptalningunni verð ég að nefna bókmenntaviðburði eins og þýðingar á Walden, Lífið í skóginum og Loftslagi eftir Max Frisch.

Í stuttu máli, ekkert stórvægilegt en margt gott að meðaltali. Örlar á makindalegum vana, hiki og íhaldssemi í bókmenntum góðærisins? Erum við bara ánægð með lífið?

Ég vil helst fá meira fjör 2018, meira blóð á tennurnar.

Birt 1. janúar 2018 í Kvennablaðinu