Grúsk dagsins

SKAM-æðið

Nú geisar SKAM-æði á Íslandi. Allir hafa séð þessa norsku sjónvarpsþætti, allir elska þá, ungir sem aldnir. Yfir sjö þúsund manns eru í íslensku SKAM-aðdáendagrúppunni á facebook. Þrjár seríur eru í sarpinum á Rúv og sú fjórða á leiðinni. Og ef maður byrjar að horfa, er engin leið að hætta.

SKAM segir frá nokkrum unglingum í Hartvig Nissen-menntaskólanum í Ósló. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum eru hressar stelpur að unglingast, hamast í símanum og tölvunni, verða ástfangnar, djamma og sofa hjá. Þær eru líka að reyna að þóknast, fá viðurkenningu, vera mjóar og vinsælar en ekki druslur. Í þriðju seríu er kastljósið meira á strákunum, sem eru nokkurn veginn í sama gírnum . Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi eða frumlega, hvað er það við þetta efni sem verður til þess að það fer eins og eldur í sinu um alla heimsbyggðina?

Það er markaðssetningin og máttur samfélagsmiðlanna sem skapa þessar gríðarlegu vinsældir. Áður en þættirnir fóru í loftið voru þeir kynntir á heimasíðu þáttanna og öllum samfélagsmiðlum og markhópurinn var aðallega ungar stúlkur. Aðalpersónur þáttanna eru með instagram og facebook-prófíl sem þúsundir fylgja þar sem má sjá efni úr skálduðu lífi þeirra á degi hverjum áður en það birtist svo í heild í sjónvarpinu/netinu. Allt gerist hægt í þáttunum sem eru í dogmastíl, það eru langar þagnir, svipbrigði sem fá svigrúm og slómó-senur sem skapa stemninguna og tilfinningu fyrir rauntíma, raunsæi og trúverðugleika. Átta manna harðsnúið lið sér svo um að halda samfélagsmiðlunum á fullu stími allan sólarhringinn. Samt er þetta ódýrasta þáttagerð sem NRK hefur nokkurn tímann ráðist í.

Handritshöfundurinn, Julie Andem, lagði á sig mikla rannsóknarvinnu áður en hún skrifaði þættina. Hún las ótal skýrslur um hag og líðan unglinga og tók viðtöl við fjöldann allan af norskum skólakrökkum til að komast sem næst veruleika þeirra. Handritið er líka ansi gott,  bæði sannfærandi, dramatískt og fyndið en líka sárt. Margar persónanna bera harm í hjarta og þær eru einar á báti, eiginlega munaðarlausar eins og t.d. bæði Noora og William. Þarna er allt þetta vandræðalega frá unglingsárunum sem allir kannast við, eins og bólur, blankheit og standpína. Og Skömmin er alls staðar, í hremmingum Nooru, í sjálfsmynd Vildu, að Eva stakk undan Ingrid og er alltaf blindfull í partýum, í kynhneigð Isaks og fortíð Williams. Múslimastúlkan Sana hins vegar skammast sín ekki fyrir neitt og Chris, sú þybbna, er algjör nagli með sjálfstraustið í lagi. Eskild, meðleigjandi Nooru og seinna Isaks, er afar vel gerð persóna, bæði fyndinn og klár, og svo er hjúkrunarfræðingurinn í skólanum frábær karakter.

Skömmin setur mark sitt á líf allra, líka kynlífið enda vita allir að norskir strákar sleikja ekki píkur þótt þeir vilji hins vegar ólmir fá tott. Í þáttunum er fjallað um mikilvæg mál á mannlegum nótum, svo sem staðalmyndir, fordóma, lystarstol, femínisma og hrelliklám.

Það er mikill kostur að karakterarnir eru venjulegir í útliti. Sumir eru laglegir en ekki eins og í mörgum amerískum sjónvarpsþáttum þar sem áherslan er á hár, förðun og merkjaföt og allir líta eins út. Og það er enginn hamingjusamur hollywood-endir á hlutunum í Skam. Heyrst hefur að í bígerð sé að gera ameríska útgáfu af þáttunum, sem er algjör katastrófa þar sem Skam er einmitt andsvar við sápuóperum Kananna þar sem fólk er matað á glysi.

Þýðing Matthíasar Kristiansen á fyrstu tveimur þáttaröðunum er ansi klaufaleg og gamaldags en Erla E. Völudóttir þýðir þriðju seríuna lipurlega. Ennþá er hægt að sjá þættina á rúv.is en að hika er sama og að tapa því þeir verða þar ekki til eilífðar.

Leyfðu ljúfum markaðsöflum að heilla þig með Skömm, taktu prófið HÉR; hvaða SKAM-persóna ert þú?

Um Hvíldardaga eftir Braga Ólafsson

Yfir Hvíldardögum, fyrstu skáldsögu Braga Ólafssonar, hvílir einstök yfirvegun og undraverð rósemi. Á tæpum tvö hundruð blaðsíðum er lýst rúmri viku í lífi þrjátíu og fimm ára gamals manns sem býr einn í Reykjavík og hefur verið skikkaður í sumarfrí í þrjá mánuði. Sögumanni, sem allan tímann er nafnlaus, gefst nú nægur tími til að gera nákvæmlega það sem honum sýnist. Framundan eru tímamót, endurfundir gagnfræðaskólaárgangsins, og drjúgur tími fer í að undirbúa sig fyrir það. Hann íhugar að nota frídagana m.a. til að skreppa upp í Heiðmörk með nesti og njóta náttúrufegurðarinnar þar. Bíllinn bilar, síminn hringir og allt í einu hefur hann svo mikið að gera að hann veit ekkert hvernig hann á að haga sér.


Líf þessa manns hefur hingað til einkennst af vana, einveru og sjúklegri öryggisþörf. Strax í byrjun bókar er gefið í skyn að líf hans muni taka breytingum. Honum finnst sjálfum eins og margt sé að losna eða liðast í sundur í kringum hann, eitthvað sem ekki sé hægt að tjasla saman aftur (bls. 93). Sögumaðurinn er einfari og nörd. Honum gengur frekar illa að eiga samskipti við aðra, orð og tillit trufla hann. Líf hans er eins og kvikmynd sem er sýnd hægt, smávægilegustu ákvarðanir vefjast fyrir honum eða þeim er skotið endalaust á frest. Í huga hans kvikna allskonar myndir af minnsta tilefni, ímyndunaraflið leikur lausum hala og gamlar minningar streyma fram. Hann veltir fyrir sér undarlegustu hlutum, s.s. merkingu tímans, að fólk sé aldrei óhult, hvernig komið verði að manni dauðum o. s. frv. Honum finnst hann vera einn í heiminum og að hann sé stundum ekki raunverulegur, einkum ef hann er innan um annað fólk (58). Ósköp er hann vinafár, á sunnudögum klukkan tvö heimsækir hann alltaf kunningja sinn Hall en samband þeirra er ekki náið og samræðurnar ganga stirðlega. Stundum heimsækir hann Dóru frænku sína og les blöðin hjá henni. Móður sína og systur kærir hann sig ekki um að heimsækja og vill heldur ekki að þær heimsæki hann. Hann er nægjusamur í einsemd sinni en þegar hann lítur yfir farinn veg rennur upp fyrir honum að hann hefur ekki afrekað neitt, ekki skilið neitt eftir sig, ekki skapað sér nafn og aldrei sigrast á neinu. Til að finna hvort hann  sé yfrleitt til hugleiðir hann að láta sig hverfa.


Yrkisefni Hvíldardaga eru einsemd og öryggisleysi vorra tíma. Sögumaðurinn nær undarlegum tökum á manni, hann er vinalegur og brjóstumkennanlegur, einangraður í þröngum heimi sem er að hruni kominn. Hvíldardagar er ótrúlega mögnuð og seiðandi bók. Bygging sögunnar er þaulhugsuð, kyrrð og fegurð ríkja yfir stíl, orðavali og efnistökum í þessari frábæru skáldsögu.


„Ég hef aldrei þekkt manneskju sem ég veit að er einmana“ segir sögumaður (57)með ísmeygilegri íroníu. Allar persónurnar eru einmana, búa einar og umgangast fáa. Erindi höfundar við lesendur er tímabært, á dögum sífellt meiri hraða og tækni eykst fjarlægð milli fólks og viðkvæmir hugsuðir, nördar og furðufuglar eins og sögumaður Hvíldardaga verða utanveltu. Lík þeirra finnst kannski seint og síðar meir í Heiðmörk.

Látið of lítið gott af mér leiða…

Það er dýrmætt að geta kynnt sér hæglega texta, ljóð og minningar skrifandi kvenna fyrri alda sem annars liggja í handritaskúffum á bókasafninu. Guðrún Ingólfsdóttir hefur búið endurminningar Helgu Sigurðardóttur á Barkarstöðum (1847–1920) til birtingar á vef Handritasafns LBS. Hér er textinn í heild. Þar segir m.a.:

Ég vildi óska þess að allir væru sem bestir og breyttu sem réttast og sanngjarnast hver við annan, þá væri þessi tilvera mörgum geðfelldari en oft vill verða og brestur einna mest kærleiksvöntunin. Ég finn það svo daglega hjá sjálfri mér og öðrum hvað ég læt sitja í fyrirrúmi að koma mínu fram en skeyti of lítið um aðra og er það af kærleiksleysinu. Þetta kemst þráfaldlega til tals á mínu fámenna heimili og er þá skoðanamunur. Hún vill hugsa meira um að gera náunganum þann greiða sem hún getur en mér hættir alltaf við að hugsa fyrst um hag minn áður en ég hjálpa öðrum. Þetta er áreiðanlega skakkt skoðað af mér og er ég oft hugsandi út af þessu þegar á elliárin er komið og máski heldur seint að iðrast eftir dauðann. Ég set það fyrir mig að ég hafi látið of lítið gott af mér leiða á meðan ég hafði meiri efni en nú orðið. Ég hef oft hugsað um það að ég álít nauðsynlegt að unga fólkið fái að læra það sem það hefur sterka löngun til að nema til þess að verða nýtari menn í mannfélaginu.

Ljósmynd af Helgu: Sarpur

SVEFN

eftir Vilhjálm frá Skáholti

Hann kom svo þreyttur, þetta var um kvöld,
er þögull skugginn gamalt húsið vafði,
því það var haust, og mjöllin, mjöllin hvít
sinn mjúka feld á gluggann okkar lagði.

Svo var hans auglit dularfullt og dimmt,
sem dáinn vœri endur fyrir löngu,
án festu og kjarks sem þjáðum hug er hent,
að hafa með á lífsins píslargöngu.


Hann missti eitthvað innst úr hjartarót,
sem öllum stundum lífið hetju geymir,
Og sefur enn svo undur rótt sem fyr,
og allt er hljótt í kringum mann sem dreymir.


Hann, þessi maður, átti yfir fjöll
að arka um nóttu fyrir þjáða lýði,
en hversu bljúgur svefninn seig á brá,
var sorgleg upþgjöf manns i þeirra striði.


Sjá, langt i burtu, bak við myrkvuð fjöll
hans biða hjörtu stöðugt þjáð, og sakna.
Og hvað mun þá um þau sem biða hans,
ef þessi maður skyldi aldrei vakna?

Vinnan, 1948

Ólæs maður

„Hvers vegna er mönnum ekki talið það til gildis i skóla að vera vel að sér um land og þjóð? Tungumálakunnátta i eigu þeirra, sem eru ómenntaðir að öðru leyti, er þeim til harla litils þroska. Nema hvað þeir geta bjargað sér á erlendum gistihúsum. Enda eru þaö helztu rök þeirra, sem vilja kenna stirðlæsum börnum ensku, að sá, sem kann ensku, geti ferðazt um allan hnöttinn — hvaða erindi, sem ólæs maður á um allan hnöttinn.“

Oddný Guðmundsdóttir, 1978

Annáll þjóðhátíðarársins

Hvurgi er komið að tómum kofa hjá Oddnýju minni:

Með sóma er hátíðarárið á enda.

En á það mig langar þó snöggvast að benda,

sem áður var sannað i sextíu ræðum

og samhljóða lofað i rituðum fræðum.

Þær hljóðuðu svona, þær sextiu ræður,

og sægur af greinum og minningaskræðum:

(Ég segi það hérna i örfáum orðum,

i örlitlum brag til að syngja undir borðum).

Háttvirtu landar, nú hefur það sannazt,

að háöldruð þjóð getur endalaust mannazt.

Heilan dag stóðum við hljóðir og prúðir,

með hugann við Þingvalla fornhelgu búðir.

Við stóðum sem hetjur á stöðugum fótum,

í stað þess að skriða i vilpumog gjótum.

Þar voru engir fólar með víndrykkjublaður.

Það var ekki drepinn einn einasti maður.

Menn óku ekki: fullir á stokka og steina,

en stefndu í rétta átt götuna beina,

og vegmóðir fengu ekki vambfylli neina.

Nú veitti ekki Ríkið sinn þjóðlega beina.

Menn fóru ekki um tjöldin með ráni og rupli

og reyndu ekki að auðgast á smávegis hnupli.

Trjágróður var ekki rifinn með rótum,

og remma var engin frá sorphaugum ljótum.

Einhverjir bjuggust við allt öðrum fregnum

af íslenzka ríkisins kynbornu þegnum.

Nú er ekki blessaður Frónbúinn feiminn.

Frægð okkar berst út um gjörvallan heiminn.

 

Oddný Guðmundsdóttir, 1974

Mannlýsing

Ég þekkti Hallgrím vel, og við vorum alltaf kunningjar, og hafði ég alltaf gaman að sjá hann og tala við hann. – Hann var að mörgu leyti merkilegur maður og öðruvísi en fólk er flest. Heldur var hann lítill vexti og grannholda, en svaraði sér heldur vel. Dálítið var hann tileygður og blindur á öðru auga frá æsku, hafði lítinn en fallegan hnakka, allmjög var hann útskeifur, en hnén mjög náin.

Úr Heimdraga II, 1965, bls. 71.

Cavling svalt sig í hel

download (17)„DANSKI ástarsöguhöfundurinn Ib Henrik Cavling svalt sig í hel, að því er dönsk blöð segja, en Cavling er nýlátinn á Ítalíu, sextugur að aldri. Rétt fyrir andlátið kom út sextugasta bók hans.

Maður gekk undir manns hönd til að fá Cavling til að neyta matar, en síðustu tvo mánuði ævi sinnar lét hann ekki matarbita inn fyrir varir sínar. Vinir Cavlings komu til Genúa frá Danmörku til að dekstra hann en allt kom fyrir ekki. Cavling léttist um fimmtán kíló á mjög skömmum tíma, og fór heilsufari hans hrakandi dag frá degi unz hjartað gafst upp.

Margir hafa furðað sig á því hversu afkastamikill Cavling var, því að hann þótti drykkfelldur. Síðustu árin hafði hann þó farið vægar í sakirnar en áður og fékk sér aðeins duglega neðan í því þegar hann hafði skilað af sér handriti að nýrri bók.

Cavling var vellauðugur, enda voru margar bækur hans metsölubækur. Hann vakti athygli hvar sem hann fór fyrir glæsibrag og óaðfinnanlegan klæðaburð. Hann ók í Rolls Royce, sveiflaði í kringum sig silfurslegnum göngustaf, og hélt sig ríkmannlega í hvívetna og var annálaður fyrir örlæti.

Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 1952. Það var „Erfinginn“, og sú saga gerðist eins og aðrar sögur höfundar í umhverfi, þar sem allir eru ríkir og fallegir. Þrátt fyrir það eru vegir ástarinnar framan af þyrnum stráðir, en að lokum fellur allt í ljúfa löð.“

Mbl, 7. nóv. 1978