
Kona með hund



Inga hélt lítið kaffiboð á sunnudaginn og prentaði sjálf út uppskriftir að þeim réttum sem hún vildi hafa. M.a. var sítrónukaka og brownies úr Gestgjafanum sem hvort tveggja bragðaðist mjög vel. Nú er hún sjálfráða og telst því til fullorðins fólks framvegis..Á myndinni eru þau feðgin í boðinu, glaðbeitt.
Æfing árla morguns hjá Bíddu aðeins, um 12 manns mættir og létu veðrið ekki á sig fá. Lagt af stað kl 9 og við fórum stóran hring í rólegheitum. Fyrst upp að Veðurstofu, svo yfir Miklatún og niður Laugaveginn og Öskjuhlíðina heim. Þetta er lengsti hringur sem ég hef farið á ævinni eða 13 km. Frekar stolt af sjálfri mér, á nýju Asics skónum sem ég keypti í gær, á góðu verði á útsölu. Ég er komin í gírinn og ekkert stoppar mig núna!
Franski rithöfundurinn Michel Houellebecq var hér á landi á dögunum og las bæði upp eigin ljóð (m.a. hið fræga Playa Blanca) og brot úr nýrri bók sinni, Kortið og landið, með aðstoð þýðenda sinna. Það var gaman að hlusta á hann tuldra upp úr nýju bókinni og muldra ljóðin sín á frönsku. Hann hefur skarpa sýn á hlutina og er óvæginn í gagnrýni sinni á eðli mannskepnunnar og samfélagið, það er yfir honum bæði dekadens, einmanaleiki og sjálfshatur. Friðrik Rafnsson spurði hann nokkurra spurninga um skáldskap hans og Torfi Túliníus túlkaði snilldarvel. Þýðingar Hallgríms Helgasonar á ljóðum Houellebecq eru frábærar (hvar er hægt að ná í þær?) og upplestur hans yndislegur. Ég er mikill aðdáandi verka Houellebecqs og hjartað hamaðist í brjóstinu þegar ég stóð í röð og beið eftir áritun. Hann er lítill og mjór og stórfurðulegur og hann varð brátt slompaður af nokkru magni af rauðvíni sem hann innbyrti undir upplestrinum og meðan hann svaraði fyrirspurnum. Þegar röðin kom að mér horfði á mig með skrýtnu augnaráði, ekki fjandsamlegu, og muldraði eitthvað, fyrst á frönsku og svo á ensku en ég skildi hann ekki. Loks ritaði hann nafn sitt í bókina og ég varð þeirri stundu fegnust að sleppa frá honum.
