Letilíf í dag eins og vera ber á sunnudegi. Fékk góða gesti í kvöldmat til mín í gær, systur mínar báðar og Jónínu Ingibjörgu, og við fórum svo að sjá Jesú lítla í Borgarleikhúsinu. Það er skemmst frá því að segja að þettas er alveg stórskemmtileg sýning. Snilldarleikur hjá trúðunum þremur, rosalegt hugmyndaflug og æðislegur húmor.
Í dag var einstaklega fallegt veður og himinninn eins og listaverk. Myndin var tekin í hrauninu við Garðabæ þar sem við röltum í blíðunni með Arwen sem fær þar að hlaupa um, frjáls og frí.


Það rignir mikið þessa dagana en það er ekkert gefið eftir í göngutúrunum með hundinn. Hér má sjá Arwen hlaupa af sér hornin í dag, í dimmum og dularfullum haustskógi (…göngustígur hérna rétt hjá).
Það er mikið að gerast í hormónunum hjá Arwen þessa dagana, hún sem er alltaf svo yfirveguð er nú alveg friðlaus. Hún þráir flottan, fjörugan og stæltan rakka, ekki seinna en strax. En af því verður ekki, hún verður að bæla löngunina og þrána, greyið. Svona er hundalífið.
Fyrsta ferðalag sumarsins var á hið fagra Snæfellsnes. Dísin Arwen hegðaði sér mjög vel í ferðinni en vildi ekki éta matinn sinn, heldur kaus að ræna grillmat og eggjabrauði frá okkur ferðalöngunum. Fyrri nóttina var gist í Grundarfirði á fínu tjaldstæði þar sem var nóg pláss og snyrtileg salerni. Grundarfjörður er bæði fallegur og menningarlegur bær, þar er fínasta sundlaug, sólsetrið yndislegt og höfnin fögur. Á nesinu var mikil umferð um helgina og seinni nóttina gistum við á týpísku tjaldstæði við Arnarstapa þar sem úði og grúði af Íslendingum á risapallbílum með fjórhjól, kajaka, felli- og hjólhýsi fyrir milljónir, gaulandi slagara fram undir morgun. Við Arnarstapa er mikið fuglalíf og ég skil ekki í því hvað krían er þrautseig að koma þarna ár eftir ár eins og ágangurinn er á varpsvæðinu og sjófuglar hafa tæpast frið heldur fyrir glápi túrista. Veðrið var yndislegt, ótrúlega hlýtt og milt og sólin bakaði okkur. Inga fór á hestbak og í sund á Lýsuhóli eins og þaulvön sveitastelpa. Reisan endaði í Hyrnunni í Borgarnesi, með viðbjóðslegum hammara, á meðan átti Arwen að bíða í bílnum en gelti stanslaust og var við það að fá taugaáfall.



