Hundalíf

Besti og fallegasti hundurinn

Jesús litli *****

Letilíf í dag eins og vera  ber á sunnudegi. Fékk góða gesti í kvöldmat til mín í gær, systur mínar báðar og Jónínu Ingibjörgu, og við fórum svo að sjá Jesú lítla í Borgarleikhúsinu. Það er skemmst frá því að segja að þettas er alveg stórskemmtileg sýning. Snilldarleikur hjá trúðunum þremur, rosalegt hugmyndaflug og æðislegur húmor.

Í dag var einstaklega fallegt veður og himinninn  eins og listaverk. Myndin var tekin í hrauninu við Garðabæ þar sem við röltum í blíðunni með Arwen sem fær þar að hlaupa um, frjáls og frí.

Jólahundurinn

Arwen hefur staðið sig vel á jólunum, notið félagsskaparins við familíuna og útiverunnar en hún hefur m.a. farið í Heiðmörk og  Laugardalinn til að viðra sig og okkur. Endalaust matarstúss finnst henni samt doldið þreytandi þar sem hún fær bara reykinn af réttunum og svo sitt hundafóður… að vísu hafa dottið ofan í hana rjúpnalæri, strútssneið og andarbringubiti auk annarra kræsinga þegar enginn sér. En hvernig á maður að haga sér með hana á áramótunum, verður hún ekki ægilega hrædd við flugeldana, elsku litla músin?

Knús

Um helgina verður aðallega lesið í  bókum enda þarf ég að standa skil á tveimur ritdómum og nokkrum þýðingum fyrir mánudag. Það verður smá tími gefinn fyrir gönguferð, góðan mat,  tiltekt og kannski smá knús. Myndin var tekin í Heiðmörk um síðustu helgi í sól og skítakulda, við Arwen skemmtum okkur vel. Hún er mikið knúsuð, þessi elska.

Rakki óskast – ekki

Það er mikið að gerast í hormónunum hjá Arwen þessa dagana, hún sem er alltaf svo yfirveguð er nú alveg friðlaus. Hún þráir flottan, fjörugan og stæltan rakka, ekki seinna en strax. En af því verður ekki, hún verður að bæla löngunina og þrána, greyið. Svona er hundalífið.

Reisan á enda

Endalaus fegurð

Endalaus fegurð

Eftir hálfs mánaðar reisu á húsbílnum sný ég aftur í borgarysinn. Veðrið lék við okkur ferðalangana, það var barasta sól og blíða allan tímann. Hvítir sandar, klettar og fjöll, sögustaðir, stórkostlegt landslag, Ég tók myndina út um bílgluggann í Örlygshöfn, Arwen virðir fyrir sér endalausa fegurð Vestfjarða á einum sólskinsdeginum. Ferðasagan bíður betri tíma.

Leyndardómar Snæfellsness

Á GrundarfirðiFyrsta ferðalag sumarsins var á hið fagra Snæfellsnes. Dísin Arwen hegðaði sér mjög vel í ferðinni en vildi ekki éta matinn sinn, heldur kaus að ræna grillmat og eggjabrauði frá okkur ferðalöngunum. Fyrri nóttina var gist í Grundarfirði á fínu tjaldstæði þar sem var nóg pláss og snyrtileg salerni. Grundarfjörður er bæði fallegur og menningarlegur bær, þar er fínasta sundlaug, sólsetrið yndislegt og höfnin fögur. Á nesinu var mikil umferð um helgina og seinni nóttina gistum við á týpísku tjaldstæði við Arnarstapa þar sem úði og grúði af Íslendingum á risapallbílum með fjórhjól, kajaka, felli- og hjólhýsi fyrir milljónir, gaulandi slagara fram undir morgun. Við Arnarstapa er mikið fuglalíf og ég skil ekki í því hvað krían er þrautseig að koma þarna ár eftir ár eins og ágangurinn er á varpsvæðinu og sjófuglar hafa tæpast frið heldur fyrir glápi túrista.  Veðrið var yndislegt, ótrúlega hlýtt og milt og sólin bakaði okkur.  Inga fór á hestbak og í sund á Lýsuhóli eins og þaulvön sveitastelpa. Reisan endaði í Hyrnunni í Borgarnesi, með viðbjóðslegum hammara, á meðan átti Arwen að bíða í bílnum en gelti stanslaust og var við það að fá taugaáfall.

Þessi þrjú voru í framsætinu

Kvennahlaup og Bjólfur

Þá er enn ein helgin liðin í aldanna skaut. Ég mætti eins og vanalega í kvennahlaupið með Sossu, rúlluðum upp fimm kílómetrum án þess að blása úr nös. Hvar voruð þið, Þura, Nína, Hella og allar hinar, mínar frábæru systur, frænkur og vinkonur? Arwen hljóp með okkur, hún var án efa stærsti hundurinn í hlaupinu og sá sem vakti mestan ugg (og aðdáun) en þarna voru alls konar hundar samankomnir með eigendum sínum, sumir voru íklæddir kvennahlaupsbol, aðrir í bleikum burberry-regnkápum og nokkrir í heimaprjónuðum lopapeysum.

Nú er Bjólfskviða loksins komin á dvd, þar má sjá Brynjari bregða fyrir ef maður rýnir vandlega en hann lék í myndinni síðsumars 2004.

Ekki alveg nógu gott handrit

Ekki alveg nógu gott handrit hjá Sturlu og Óttar hefði mátt komast í klippigræjurnar

Til hvers að hafa Georg Butler þegar völ er á svona glæsibringu?

Til hvers að hafa Gerard Butler í aðalhlutverki þegar völ er á svona glæsibringu?

Lady Arwen

Tvö á palli

Tvö á palli

Það er alltaf sól og sæla á fínu svölunum, ekki síst seinnipart dags þegar lygnir.  Á myndinni eru Brynjar og Arwen í rólegheitum, hún heldur sig í skugganum en hann les sér til um handriðasmíð. Nú er fundað um framtíð Arwenar, við elskum hana öll, þessi keli-og dekurrófu, en hún getur ekki verið í bíl, hvorki á ferð né meðan við t.d.skreppum í búð eða sund. Hvernig gengur það upp? Eigum við að senda hana til föðurhúsanna? Nú er hún orðin svo ljúf í taumi að m.a.s. Inga fer með hana út að ganga eins og ekkert sé, við setjum bara tauminn undir annan framfótinn og þá er hún eins og ljós, alveg ótrúleg breyting! Það er mjög gaman að fara með hana út, hún er svo falleg og skemmtileg. Maður gleymir jafnvel að skamma hana fyrir að gelta á aðra hunda, trylla kettina og urra eða gelta á vegfarendur. Hún vekur alls staðar mikla athygli fyrir fegurð og glæsileik og margir leggja lykkju á leið sína til að heilsa upp á hana þegar hún er úti að spássera eins og hefðarfrú.

Hundur og stórmerki

Ég kláraði bókina um helgina

Ég kláraði bókina um helgina

Við fórum í smáútilegu á húsbílnum um helgina. Aðallega til að kanna hvernig Arwen tæki því að hossast í bílnum. Við fórum á bara stutt, gistum á Króksmýri í Reykjanesfólkvangi, það er hugguleg grasflöt með litlum bunulæk og salernisaðstöðu. Við Arwen vorum afturí á leiðinni, hún átti að liggja eða sitja í bælinu sínu og ég var við hlið hennar, klappaði henni og hughreysti hana eftir föngum. Hún var óörugg og vældi smá en lét sig hafa það til að byrja með, stutt í einu. En þegar leið á ferðalagið var hún alveg hætt að þola þetta, var sífellt að standa upp og vesenast. Samt var þetta ekki nema tæpur klukkutími, að vísu á holóttum vegi. Í útilegunni var hún hin glaðasta og lék allar hundakúnstir. Við vorum ekki bjartsýn á heimferðina. Ég fékk þá snilldarhugmynd að prófa að hafa hana frammí, við hliðina á mér en þar eru sæti fyrir þrjá. Er skemmst frá því að segja að hún kúrði hálf ofan á mér alla leiðina, ég hélt utan um hana með báðum höndum og hún æmti hvorki né skræmti. Hún breyttist í stóran og níðþungan kjölturakka. Hún var bara eins og fín frú, horfði pollróleg út um gluggana og hjúfraði sig svo að mér. Nú er bara spurning hvort við getum látið þetta viðgangast og hvort þetta er hægt á langferðum.