Frá því ég byrjaði að hjóla af einhverju viti árið 2016 hefur margt breyst, bæði í bransanum og hjá mér sem hjólreiðakonu. Ég fór frá því að nota hjólið sem fararskjóta til og frá vinnu yfir í að brúka það mér til skemmtunar, sem heilsubót, áskorun um að fara út fyrir þægindaramma, og til samveru með karli mínum. Nú er staðan aftur þannig að ég á tvö hjól, racerinn minn rauða og svo rafmagnshjól en gamla Wheelerinn gaf ég frá mér fyrir löngu.
Fulldempað rafmagnshjól gaf Brynjar mér í haustið 2021 en hann tosar mig alltaf lengra en ég held ég geti, þori og vilji sjálf. Hann fékk sér slíkt sjálfur sumarið áður og það breytti alveg gangi leiksins. Algjör bylting enda hafði þessi tegund hjólreiða slegið í gegn um þessar mundir, ekki síst meðal miðaldra fólks. En vel að merkja; ekki falla í þá gryfju að kaupa ódýrt hjól sem ekki er fulldempað. Það verður fljótt stirt og leiðigjarnt að hjóla á því.
Hjólið mitt er risastórt og í rauninni alltof stórt fyrir píslina mig – 16″ og 25 kg sanseraður fjólublár hlunkur með þremur hraðastillingum og fullt af gírum. Allt rafmagnsknúið, svo einfalt og þægilegt að skipta um gír. Batteríið er líka stórt, ég kemst 80 km á því fullhlöðnu. Fyrst var ég afar klaufsk á þessu flykki en B datt í hug að það væri sniðugt fyrir mig að byrja ferilinn á því að hjóla gamla veginn upp Kambana! Ekki alveg byrjendaverkefni. Ég steyptist síðan á hausinn á því hér á jafnsléttu á Hlíðarveginum rétt fyrir jól fyrir einberan klaufaskap og braut á mér öxlina. En eftir því sem ég æfði mig meira gekk allt betur og ég varð öruggari og sífellt djarfari.
Ég kemst allt á þessu hjóli og það er svo frábært! Allt öðru vísi hjólreiðar en á racernum en hvort tveggja er gaman. Það er snilld að geta gripið í Boozt-stillinguna til að ýta sér upp erfiðar og torfærar brekkur, fara á Eco niður brekkur til að spara rafmagn og Trail til að príla fjallastíga! Hjólið fékk ég auðvitað í Everest, það er sama merki og racerinn minn, og heitir Stevens E-Inception ED 7.6.1 GTF. Það gefur mér færi á að hjóla á allskonar undirlagi, á krókóttum stígum eins td í Heiðmörk, í drullu og vatni, fjörusandi, grýttri götu og snjó og ís á nöglum.
Það er hrikalega gaman að hjóla um malar- og skógarstíga, moldartroðninga og upp torfærar brekkur eins og ekkert sé. Dekkin eru mjúk og breið og gleypa allar misfellur svo það er hreinlega eins og að svífa á hjólinu. Margar góðar stundir hef ég átt á þessu dásamlega hjóli en hátindurinn var líklega þegar við B hjóluðum upp á Úlfarsfell og niður aftur!










