Útivist

Langur laugardagur

Í gær vaknaði ég snemma eins og undanfarna laugardagsmorgna 2013, þ.e. síðan ég gekk til liðs við hlaupahópinn Bíddu aðeins. Var mætt við Kópavogslaug kl 9 eftir próteinsheik Þorbjargar Hafsteins og væna vítamínskammta og framundan var hlaup dagsins. Síðasta laugardag setti ég persónulegt met, hljóp 14 km, úr Kópavogi yfir í Garðabæ og í kringum Vífilsstaðvatn. Það fannst mér frekar strembið, mishæðótt og brekkur og mótvindur og svo fékk ég blöðru á hægri fót. Nú skipti engum togum að ég hljóp með nokkrum sprækum konum það sem okkur var sett fyrir  samtals 17,3 km sem er nýtt persónulegt met í vegalengd.  Á hverjum laugardagsmorgni slæ ég orðið mitt eigið met og er harla ánægð. Þetta laugardagshlaup var ekki erfitt, mest á jafnsléttu, gott veður og frábær félagsskapur, öflugar konur sem draga mann áfram,  meðalpace 4,25 (er það gott?) og nóg eftir í endasprett. Var móð og másandi, rennsveitt og það lagaði blóð úr tánum á mér en rígmontin og harla glöð með árangurinn, ef þetta gengur svona vel áfram stefni ég á hálfmaraþon í apríl, OMG!

11 km í rigningu og roki

Í gær var skokkað, í mígandi rigningu og roki. Hópurinn hittist við Kópavogslaug að venju um níuleytið,  um 20 manns höfðu rifið sig framúr til að mæta á 90 mínútna hlaupaæfingu og engin miskunn var sýnd. Það var farið fyrir Kársnesið, upp í Fossvogsdal og Elliðaárdal. Er skemmst frá því að segja að ég var orðin algerlega gegndrepa áður en yfir lauk, vettlingarnir orðnir níðþungir, það sullaði í skónum mínum og rass og lær voru algerlega dofin. Hefði átt að klæða mig betur. Endaði samt með 11 km sem voru eins og 15 í mótvindinum og var mjög sátt þegar heim kom. Skellti mér svo í nudd í Reykjavík-Wellness, það var alveg dásamlegt.  Febrúar byrjar vel

Páskar 2012

Páskarnir voru haldnir hátíðlegir á Akureyri, þeim fagra bæ, að þessu sinni. Þar var ég í tómri gleði og veislum hjá vinum og vandamönnum. Hápunktur ferðarinnar var fjallganga með Heiðari og Signe, fræknum fjallageitum. Við gengum á Súlur (1213 mys), það gekk glimrandi vel þótt síðasti spölurinn hafi verið erfiður og ansi svalt á toppnum.

Viðra sig

Ekki hefur beinlínis viðrað til að viðra hundinn. Laugardagurinn var þó bjartur og fagur og við drifum okkur í Heiðmörkina, útivistarparadís innan seilingar. Arwen er samt ekki mikill snjóhundur og verður fljótt kalt. Held ég verði að prjóna á hana peysu eða kaupa kápu handa henni…