ævisaga

Horft á sirkusinn fyrir innan – Um Útlínur liðins tíma eftir Virginiu Woolf

Breska skáldkonan Virginia Woolf (1882-1941) er einn fremsti rithöfundur 20. aldar, frumkvöðull módernisma og femínisma í skáldskap og baráttukona fyrir réttindum kvenna. Það var hún sem mælti þau fleygu orð að kona þyrfti að hafa sérherbergi til að geta verið rithöfundur. Á árunum 1939-40 ritaði hún endurminningar sínar, sem hún nefnir í textanum „útlínur“, en náði ekki að koma þeim í bók því hún batt enda á líf sitt sem kunnugt er. En það sem hún þó náði að skrifa um uppvöxt sinn er fallegur og áhrifaríkur texti um gleðistundir, atvik og áföll og fjölskyldulíf í samfélagi sem er þrúgað af eftirhreytum Viktoríutímans. Í fyrra kom bókin út í íslenskri þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur, í flokki sígildra samtímabókmennta hjá Unu útgáfuhúsi og ber titilinn Útlínur liðins tíma

Gljúpt ílát

Bókin er ekki bara línuleg frásögn af lífshlaupi heldur inniheldur m.a. pælingar um hvernig eigi að fanga persónuleika í ævisögu er en á sama tíma og Virginina Woolf skráir  endurminningar sínar er hún einnig að skrifa ævisögu þekkts listmálara. Virginia segir að hún ætli ekki að dvelja um of við formið á þessum minningum. Áherslan er á manneskjuna og tilvist hennar, upplifun af atburðum og hughrifum, hljóð eins og skrjáf í laufi, ilm og form og sterkar tilfinningar sem skilja eftir sig spor (13), „moments of being“ (sem minnir á pælingar Roland Barthes um  „biographemes“ eða „ævifleyga“, þ.e. fleygur úr textaheild sem gengur inn í vitund lesanda, smýgur inn í kviku og fangar skynjunina augnablik). Þannig tengist spegill í forstofunni blygðun og sektarkennd og borðplata fyrir framan borðstofudyrnar tengist kynferðisofbeldi sem Virginia varð fyrir mjög ung og skömm sem hún upplifði í kjölfarið. Frásagnaraðferð Virginiu felst í að draga fram augnablik og ævifleyga, rýna í tengsl, áhrif, myndir og mannlýsingar, kannski eins og hún lýsir sjálf: „Í yfirfærðri merkingu gæti ég notað myndmál til að útskýra hvað ég meina. Ég er gljúpt ílát á floti í tilfinningum, ljósnæm plata berskjölduð fyrir ósýnilegum geislum… (124)

Ljón og api

Stór hluti endurminninganna snýst um foreldra Virginiu sem voru dæmigerð fyrir sína kynslóð. Meðan Juliu móður hennar naut við var lífið gleðiríkt og hún var sú sem hélt öllu saman – fögur, blíð og gáfuð. Systkinin voru alls sjö, faðir Virginiu var seinni maður Juliu og mun eldri en hún. Stórfjölskyldan bjó í Lundúnum og dvaldi á sumrin við sjávarsíðuna í St. Ives í Cornwall sem voru þeirra bestu stundir. En móðirin lést aðeins 49 ára gömul og þá var sælan á enda. Skömmu síðar lést systir Virginiu, nýgift og barnshafandi. Seinna efnilegur bróðir aðeins 26 ára. Sorg og harðstjórn föðurins urðu allsráðandi í lífi fjölskyldunnar næstu árin. Samband föður og dóttur var flókið, eins konar blanda ástar og haturs. Hann hvatti Virginu til lestrar og skrifa en kúgaði hana og systur hennar um leið með skapofsa og tiktúrum. Virginiu leið eins og hún væri taugaveiklaður api inni í búri með skapstyggu ljóni (96). Um leið og hann lést mörgum árum síðar fluttu systurnar í Bloomsbury-hverfið eins og frægt er og létu allar hömlur og kreddur fyrri kynslóða lönd og leið. Til varð rými fyrir ástir, frelsi og listræna sköpun og Virginia blómstraði í þessu umhverfi.

Feðraveldismaskínan

Áhugaverð er greining Virginiu á hinum hefðbundnu siðvenjum Viktoríutímans, þessu gamla sniðmáti og kröfum sem ríktu í samfélaginu. Faðir hennar ólst upp í íhaldssamri mótmælendafjölskyldu, menntamaður en hafði ekki náð þeim hæðum sem til stóð og ætlast var til, varð gramur og sjálfselskur og fór alveg út af sporinu við konumissinn. Bræður hennar fetuðu hlýðnir þá leið sem mörkuð var fyrir þá, fóru í heimavistarskóla, gengust inn á smásmugulegar hefðir eldri borgarastéttarinnar og unnu opinber störf. Systurnar nutu heimakennslu, áttu að fara í gönguferðir daglega og sá elsti dró þær með ruddalegri frekju í hvert drepleiðinlegt kvöldverðarboðið á fætur öðru. Þeir tilheyrðu öðrum heimi, þeir trúðu því að konur ættu að vera hreinlífar og karlar hreystimenni (155), þeir ræddu um pósthús og réttarsali (167) en þær áttu að vera snyrtilegar og viðeigandi klæddar og sýna þeim aðdáun og hlýðni. Hjá bræðrunum ríktu hefðirnar en hjá systrunum blómstaði vitsmunalíf. Þær teiknuðu, lásu og skrifuðu þær stundir sem þær áttu lausar en hlýddu annars leikreglum samfélagsins sem einkenndust af  bælingu og skyldurækni. Þeir höfðu til ráðstöfunar þúsund pund á ári en Virginia fimmtíu (157). Í bókinn er feðraveldi Viktoríutímans líkt við maskínu sem hrifsar tíu ára drengi til sín og hakkar þá í sig, og spýtir þeim út sem húsbændum, eiginmönnum og embættismönnum. Samkvæmislífið var sama maskínan, ungar stúlkur áttu enga möguleika í greipum hennar og Virginia lýsir þessu svo:

„Maskínan sem okkar uppreisnargjörnu líkömum var þröngvað inn í um aldamótin 1900 hélt okkur ekki aðeins í heljargreipum heldur beit stöðugt í okkur sínum beittu tönnum“ (155). 

Liðinn tími

Virgina veit ekki betur á ritunartíma Útlínanna en að hún eigi eftir að hafa nægt tóm til að ljúka við verkið. Á bls. 125 segir hún t.d. þegar hún er komin út fyrir efnið: „Ég set hér niður vegvísi til að merkja æð sem ég mun einhvern tíma reyna að nýta til fullnustu og sný mér aftur að yfirborðinu, það er að segja St. Ives…“ En frá unglingsaldri glímdi hún við geðröskun og sjálfsmorðshugleiðingar og bókin endar í miðjum klíðum. Hún er ókláruð en samt furðu heilleg.

Ekkert er hægt að setja út á þýðingu Soffíu Auðar, enda var bókin tilnefnd til Þýðingarverðlaunanna; málfar er blæbrigðaríkt og vandað og textinn rennur vel. Í bókinni eru afar fræðandi neðanmálsgreinar og eftirmáli eftir Soffíu Auði, m.a. um útgáfusögu handrits Virginu að Útlínunum, helstu æviatriði hennar og pælingar um enudrminningar og ævisagnagerð.

Það er svo margt í þessari bók sem vert er að hugsa um. Í henni eru í senn dregnar sjálfsævisögulegar útlínur glögga greinandans og baráttukonunnar sem Virginia var og ljósi varpað á líf og samfélag á liðnum tíma.

Það augnablik (moment of being) eða ævifleygur (biographem) sem fangaði skynjun mína einna helst við lesturinn er þessi tilfinning sem birtist í að vera eins konar útlagi eða utangarðs og geta þarafleiðandi verið greinandi: „Mér leið eins og sígauna eða barni sem stendur við tjaldopið og horfir á sirkusinn fyrir innan“  (157).

Hér má heyra áhugavert samtal Soffíu Auðar og Jórunnar Sigurðardóttur um bókina. 

Grúsk vikunnar

Photo389127

„Það hefur farið með versta móti um hjartað í mér undanfarið. Það hefur lamist lengi, og upp á síðkastið hefur verið þröngt um það í brjóstinu eins og brjóstið og hjartað eigi ekki saman lengur. Eitthvað er sem þrengir að rifjunum og í sambandi við þetta gína mér kolsvört leiðindi og hræðsla í allar áttir, stundum svo að mér verður flökurt. Nú er tími til að byrja á bókinni um píslirnar. Engin lifandi sál nærri, að heitið geti, fegurð heimsins fjarri mér, nema einhver ögn af fegurð himinsins. Það sem ég hef fyrir augum eru veggirnir, rúmin, konurnar í rúmunum, fólkið sem hefur þann leiðindastarfa með höndum að stjana við okkur, rytjulegir fuglar sem tína í sig mola af hvítabrauði til að gera sig heilsulausa, grimmilegir sjófuglar að hakka í sig kryddað ket og þykir vont, skima í kringum sig við hvern bita til að forða því að frá þeim verði hrifsað, ljótir veggir, ljót þök og afarljótur strompur, rytjulegar jurtir að deyja í leirkerum sínum. Samt er jörðin full af auði og allsnægtum, og jörðin er góð, vindar hennar og birta og fjöldamargt annað, og líklega einhverjar sálir til einhverstaðar, þó að þær séu vandfundnar og hittist helst í bókum –“.

Málfríður Einarsdóttir

1899-1983

Að brenna húsið til að sjá mánann

„Maður man og á í höfði sínu dýrindis upptökur og bara kveikir á og fer þangað“, segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, í sjálfsævisögu sinni, Stúlka með höfuð. Sagan er smiðshöggið í ættarsöguþríleik en formæður hennar voru stúlkur með fingur og maga.

Einlæg og nærgöngul

Stulkamedhofud-175x261Í sjálfsævisögum  ganga höfundar misjafnlega nærri sjálfum sér enda markmið og tilgangur þeirra margvíslegur. Sjónarhornið ræður miklu og áhugavert að skoða hvað ratar í ævisögu og hverju er sleppt til að búa til ímynd eða sjálfsmynd úr brotakenndum minningum. Aðferðirnar eru mismunandi, margir fegra og göfga sögu sína, fæstir afhjúpa lífshlaup sitt grímulaust en fela heldur og bæla það sem ekki kemur þeim vel í heildarmyndinni, loks er sumu hreinlega stungið undir stól. En skemmst er frá því að segja að einlæg og nærgöngul sjálfsævisaga eins og Þórunnar er sjaldséð og mikill happafengur.

Tíminn er ekki lína

Sagan hefst í föðurhúsum, Tóta litla elst upp meðal sjö systkina, pabbinn er flugkappi, móðirin einkabarn og stúdent. Farið er yfir skólaárin, samband  foreldranna sem endar með sársaukafullum skilnaði, sumarstörfin, sveitadvölina og fiskvinnuna, vinkonurnar, sjensana og menntaskólann. Þá er heimdraganum hleypt, utanlandsferðir, námsárin og svo hjónalíf og barneign. Lífshlaupið er dæmigert (a.m.k. framan af) fyrir manneskju sem fædd er á Íslandi um miðja síðustu öld og sett í skáldlegt og þroskað samhengi, líkt og hjá fleiri höfundum af 68-kynslóð sem skrifa nú í óða önn minningabækur sínar.

Mesta áherslan er á æskuna og fram yfir tvítugt, einkum á það tráma sem skilnaður foreldranna var. Þegar hún kemst til vits og ára tekur bóhemlífið við með ýmsum tilfæringum og skemmtilegum tilraunum. Sagan er ekki alveg í krónískri röð heldur kvikna hugrenningar hver af annarri og tengjast á ýmsa vegu. Tíminn er heldur ekki lína, „Þetta eru tvenn ímynduð lönd, fortíðin og framtíðin. Hrygglengjan er föst í núinu, vængirnir dreyma sig burt. Hvor í sína átt“ (315).

Skrýtin gimbur

Þórunn hefur mikinn húmor fyrir sjálfri sér og kallar sig skrýtna gimbur, galning og lukkugæs. Hún hefur líka húmor fyrir lífinu og kokkar enga sorgarsúpu eins og hún orðar það þrátt fyrir erfiðleika og skakkaföll og vill ekki að skrifa ljótt um samferðafólk sitt. Hér eru engir skandalar, ekkert slúður eða illmælgi. Allir eru yndislegir, fagrir og góðir á sinn hátt í minningunni. Það er hins vegar galli að alltof margir  eru nefndir til sögunnar í svip og hér hefði mátt skerpa línur, sérstaklega í kaflanum um menntaskólaárin.

Foreldrarnir fá skilning og samúð þrátt fyrir brotalamir sínar, því frá þeim kemur sitthvað sem gerir mann að því sem maður er. Þórunn segir að sér hafi í gegnum árin tekist að stilla saman ólíka heima foreldra sinna og þannig vanist mótsögnum í sjálfri sér og  lífinu (162). Það er stórt skref í lífi og þroska sérhverrar manneskju.

„Gangandi taugaþúfa“

Einlægnin í sögunni er einstök, það nennir enginn að lesa prakkaralegar drengjabækur, glansmyndakenndar frægðarsögur eða karlagrobb eftir að hafa lesið Stúlku með höfuð. Og höfuðið er stórt, það er „gangandi taugaþúfa“, fullt af alls konar hugsunum og minningum; um Reykjavík síðustu aldar, laugardagsbaðið og sveskjugraut í vömbinni, uppeldisaðferðir og atlæti kynslóðar sem hafði lifað heimstyrjöld – um veröld sem  var.

Það er svo margt sem hefur áhrif á þroskann og sjálfsmyndina, margs konar áföll og sigrar, álit annarra, tíska og hippamenning, hass og sýra, vinátta, kynlíf og ástarsambönd en á endanum kemst stúlkuhausinn furðu heill frá þessu öllu. Sjálfsmyndin hefur breyst frá bólóttum og viðkvæmum gleraugnaglámi sem er skrýtinn að innan og ömurlegur í leikfimi yfir í fallega og lífsreynda konu sem er þakklát fyrir gjafir lífsins.

Frábær stílisti

Stíllinn er ljóðrænn, fyndinn og tregafullur, fullur af dásamlegu trúnaðartrausti. Orðfærið er mjög skemmtilegt, forneskjulegt og frumlegt í senn, enda Þórunn frábær stílisti. Sem dæmi mætti nefna að taka trú dýrúðar (gerast grænmetisæta), mánatíðir (blæðingar), eiga flugpabba, að landlasta o.m.fl.

Bókina prýða bæði ljósmyndir (af sparihliðunum) og teikningar Þórunnar sjálfrar sem gefa sögunni enn frekar yfirbragð nándar og trausts .Víða er stuðst við gömul bréf og jafnvel gægst í facebook til að athuga hvað orðið hefur um gamla kærasta. Og öllu brasinu slegið upp í grín: „Hvað er maður alltaf að reyna að útskýra allt. Böl sagnfræðinámsins. Böl mannlífsins“ (259).

Líkaminn og kynhvötin

Saga Þórunnar er mjög líkamleg, hún er öðrum þræði um ástarsambönd, kynþroska og hormóna, blæðingar, afmeyjun og fullnægingar. Allt það sem þvælist endalaust fyrir stúlku með kristilegt uppeldi,  sem hefur lesið rómantískar ástarsögur og er alin upp við borgaralegt siðferði.

Líkaminn og kynhvötin eru alls staðar í textanum og húmor og viska alltumlykjandi: „Ég man pissandi píkurnar á kúnum, svo líkar manns eigin sem kona getur aldrei séð gera slíkt hið sama. Víst eru til speglar en á þá pissar maður ei“ (147).

Erfðasyndin

Syndin er lævís og lipur og leggst af þunga á stelpuskjátuna, hún ætlar að stela pening fyrir sælgæti, þorir ekki að lúra hjá svölum Eyjapeyja því þá er hún svo mikil hóra og svo kremur hún hjörtu aðdáenda sinna. Og nú nagar hún sig í handarbökin yfir að hafa sleppt mörgum góðum sjens vegna misskilinnar tryggðar og niðurdrepandi sektarkenndar.

Langan tíma tekur að losna undan uppeldi og samfélagi þar sem bæling er alls ráðandi og dyggð barnsins felst í að láta lítið fyrir sér fara, ekki biðja um neitt, vera ekki fyrir. Strangleiki föðurins býr til endalausar sjálfsásakanir, ástarsorg móðurinnar býr til fælni við náin kynni og hvort tveggja fylgir alla ævi.

Útlínur minnisins

Sorgin knýr dyra eins og gengur og setið er í ekkjudómi eftir góðan mann sem lést sviplega og var öllum harmdauði. Fram kemur að hann vildi ekki vera í bókinni svo sagan endar þar sem hann kemur til skjalanna. Sagan er drifin áfram í sorg eftir hann og fjarvera hans er kvika sem sífellt minnir á sig, þannig er lesanda aftur og aftur kippt inn í nútíðina. Það er auðséð að sögumaður er enn að fóta sig í nýrri tilveru eftir missinn, reyna að leggja drög að nýrri framtíð og takast á við ný verkefni með sátt og fyrirgefningu í farteskinu.

Þórunn Jarla hefur lært hvað það er að elska, missa, gráta og sakna og að gleðjast um leið yfir öllu því fallega og góða sem lífið hefur upp á að bjóða:

„…því ég er orðin gangandi æðruleysi. Þegar Eggert dó hætti allt að skipta máli. Líka hvort ég lifi eða dey eða þjáist. Þið getið ekki klipið mig með glóandi töngum, ég flýg burt, er úr eter og hverf sem skuggi fyrir sólu. Stundum þarf að brenna húsið til að sjá mánann“ (194).

 

Stúlka með höfuð, sjálfsævisaga

JPV, 2015

321 bls

Birt í Kvennablaðinu, 19 des. 2015

Dægradvöl

Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson (1826-1907) er nýkomin út í kilju, merktri „íslensk klassík“ (síðast birtist hún á rafbók 2010). Ég er alveg dottin ofan í hana og er með ritdóm í smíðum sem birtist í Kvennablaðinu fljótlega. Dægradvöl er eitt af lykilverkum íslenskrar bókmenntasögu, á gullaldarmáli, fyndin og fróðleg og einstök meðal íslenskra sjálfsævisagna, því Gröndal hlífir engum í samtíðarspegli sínum, síst sjálfum sér. Í grúski mínu rakst ég á þessa mynd af Gröndal (eftir Ólaf Th. Ólafsson), hún er táknræn og doldið falleg. Bóhem með sveitalegt skólasetrið í bakgrunni, bókamaður og fagurkeri sem sker sig úr umhverfi sínu.

 

Image