þýðingar

Ástir vitavarðarins

Hverfum aftur í tímann um heila öld og yfir hálfan hnöttinn, alla leið til Ástralíu. Stríðshetjan Tom Sherbourne gerist vitavörður á afskekktri eyju í leit að sálarró eftir erfiða æsku og hörmungar heimstyrjaldarinnar fyrri. Hann unir hag sínum vel í einverunni en þegar hann hittir hina ungu og ástríðufullu Isabel verða tímamót í lífi hans. Þau fella hugi saman, giftast og flytja út í eyjuna. Hjónabandið er ástríkt en Isabel missir þrásinnis fóstur og er farin að örvænta um að þau eignist nokkurn tímann afkomanda þegar bát rekur að eyjunni. Um borð er lík og grátandi ungabarn. Tom og Isabel standa þá frammi fyrir erfiðu vali. Er siðferðið annað fjarri mannabyggð? Gilda reglurnar bara þegar einhver sér til? Er ástin réttlæting alls?

Þetta er í stuttu máli plottið í spennu- og ástarsögunni Ljós af hafi, fyrstu skáldsögu ástralska höfundarins Margot L. Stedman sem vermt hefur metsölulista um heim allan. Sagan nær slíkum heljartökum á lesandanum að þótt hún sé löng og á köflum svolítið yfirdrifin og hæg er ekki hægt að leggja hana frá sér fyrr en ljóst er hver málalokin verða. Persónur sögunnar eru tragískar og þannig úr garði gerðar að það er ekki hægt annað en að samsama sig við þær og hafa samúð með misviturlegum ákvörðunum þeirra. Isabel er tilfinningavera, rómantísk og hvatvís en Tom er skynsemin og reglufestan uppmáluð. Dulur og ábyrgðarfullur finnur hann langþráðan frið við að fylgja rútínu og skýrum reglum við vitavörsluna og lítur svo á að það sé hlutverk hans að vernda konu sína fyrir öllu illu, þótt það geti kostað hann lífið.

Ljos_af_hafi-175x275

Skrautlegar aukapersónur tínast inn á sögusviðið eftir því sem atburðarásin verður dramatískari og þær eru dregnar skýrum dráttum. Það er auðvelt að hrífast með sögunni, bæði eru umhverfis- og samfélagslýsingar heillandi og á efninu eru ýmsar spennandi siðferðislegar og sammannlegar hliðar.

Á frummálinu heitir bókin The Light between Oceans; eyjan þar sem vitinn er liggur að tveimur höfum og titill bókarinnar undirstrikar það sem skilur Isael og Tom að. Það rúmast ekki í íslensku þýðingunni á titlinum en gerir sosum ekki mikið til. Þýðing Guðna Kolbeinssonar er óaðfinnanleg eins og hans er von og vísa.

Það er eitthvað sjarmerandi við vita. Teinréttur og draugalegur varpar hann ljósi út á hafið til verndar sjófarendum. Í bókmenntum hefur viti mörg og mismunandi tákngildi, hann er bæði fastur punktur í tilverunni og útvörður siðmenningar, tákn styrks og skjóls en líka innilokunar. Í huga Toms öðlast vitinn táknræna merkingu þegar hann kvelst af sálarangist vegna þeirra þjáninga sem hann hefur valdið öðrum: „Hann beindi athyglinni að snúningi geislans og hló beisklega að þeirri tilhugsun að stefnan á honum þýddi að eyjan sjálf var alltaf í myrkri. Viti er fyrir aðra, getur ekki lýst upp svæðið sem næst honum er“ (224).

Ljós af hafi er áhrifarík og dramatísk saga sem hefur dimman undirtón um stríð, ást og missi. Hún hreyfir við lesandanum, knýr hann til að taka afstöðu og krefst svara um hvort mögulegt og réttlætanlegt sé að byggja líf sitt á blekkingum og sorg og óhamingju annarra þegar eigin sálarheill er í húfi.

Nú er bíómynd í vændum eftir bókinni með Aliciu Vikaner og Michael Fassbinder í hlutverkum Isabel og Toms. Þegar er byrjað að markaðssetja myndina og er hennar er beðið með mikilli óþreyju. Það verður spennandi að sjá hvort hún verður eins mögnuð og bókin.

Birt í Kvennablaðinu, 18. júlí 2015

Upphitun fyrir annað og betra?

 Í nýjustu bók Lizu Marklund, Hamingjuvegi, glíma blaðakonan Annika Bengtzon og Nina Hoffman rannsóknarfulltrúi við sérkennilegt og sorglegt mál um leið og ritstjóri Kvöldblaðsins sætir netofsóknum og gömul mál og persónur úr fyrri bókum skjóta upp kolli. Upphaf sögunnar er hrikalega ofbeldisfullt og varla hægt að stauta sig fram úr því án þess að verða hálfóglatt. Stjórnmálamaðurinn Lerberg finnst alvarlega limlestur á heimili sínu eftir ótrúlegar pyntingar og konan hans er horfin sporlaust. Börn þeirra hjóna eru kynnt til sögunnar, örvingluð og yfirgefin enda þau hugsanlega í vondu fóstri en það er kaldhæðnisleg og sænskuskotin ádeila á einkavæðingu og kapítalisma að Lerberg hafði einmitt barist fyrir því á sínum stjórnmálaferli að félagsþjónusta og fósturheimili yrðu lögð niður.

Þær stöllur Annika og Nina rannsaka málið en verður lítið ágengt, m.a. þar sem einkalífið tekur sitt pláss. Í því stússi er Annika mannleg og breysk persóna sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um. Hún þarf m.a. að glíma við illskeyttan fyrrverandi eiginmann, stjúpbörn núverandi sambýlismanns og léttklikkaða systur svo hún hefur í mörg horn að líta. Nina á að baki flókna fortíð og á erfitt með umgengni við annað fólk, en það er jú þekkt minni úr nýlegum skandinavískum bókmenntum og kvikmyndum að lögreglukonur þurfa að vera hálfskrýtnar og næstum fatlaðar í samskiptum til að vera trúverðugar.

Stieg Larsson var einna fyrstur til að lýsa tölvunotkun sögupersóna ítarlega í sínum frægu bókum, til að undirstrika ráðsnilli þeirra á tækniöld. Nú hafa margir tekið upp þetta trix sem virkaði flókið og spennandi þegar var verið að lýsa glæpum á netinu og starfsaðferðum hakkara en er ekki sérlega áhugavert þegar verið er að teygja lopann: „Hendur hennar sveimuðu ofan við lyklaborðið, hún vissi ekki hvernig forritin virkuðu en grundvallaratriðin hlutu að vera eins og á PC-tölvu. Neðst á skjánum var röð af táknum fyrir ýmis forrit, þau stækkuðu þegar hún færði bendilinn yfir þau. Hún smellti á pósthólfið, í innhólfinu var eitt skeyti“(356).

Annika Bengtzon er heillandi sögupersóna, hún er eldklár hörkunagli, hirðuleysisleg í útliti en hugurinn er sístarfandi. Hún er fyrsta kvenkyns aðalpersóna í sænskri glæpasagnaflóru og í bókum um hana er fókusinn jafnan á stöðu kvenna og barna. Bækur Lizu Marklund um þessa eldkláru blaðakonu hafa selst í 15 milljónum eintaka og verið þýddar á 30 tungumál. Þýðing Ísaks Harðarsonar er ágæt, þyrfti ekki að vera samræmi milli titilsins Hamingjuvegar (Lyckliga gatan) og þeirrar Hamingjugötu sem verður endastöðin í lok bókarinnar?

Hamingjuvegur er hörkuspennandi bók og stendur alveg fyrir sínu en er langt í frá besta bók Lizu Marklund. Maður hefur á tilfinningunni að hún sé upphitun fyrir næstu bók þar sem margir lausir endar þvælast fyrir í sögulok. Fyrrverandi eiginmaður Anniku hefur t.d. eitthvað misjafnt í hyggju, Valter starfsnemi í fjölmiðlun, er kynntur til sögu en gufar svo bara upp og kannski fær Annika stöðuhækkun innan skamms. Hún hefur allavega ekki sagt sitt síðasta orð og næstu bók verður tekið fagnandi.

Birt í Kvennablaðinu, 12. júlí 2015

Íslenskar heimsbókmenntir

images

Þýðingar heimsbókmennta á íslensku eru jafnan hvalreki enda gegna þær mikilvægu hlutverki fyrir tungu okkar og menningu. Bandalag þýðenda og túlka (thot.is) hafa frá árinu 2005 efnt til árlegra verðlauna fyrir bestu þýðingu á erlendu skáldverki. Þriggja manna nefnd les þýðingar hvers árs og velur fimm bestu, samhliða tilnefningum til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þýðingarverðlaunin eru afhent í Gljúfrasteini á afmælisdegi Laxness sem jafnframt er dagur bókarinnar, 23. apríl nk. Í ár eru þrjár þýðingar úr ensku, ein úr spænsku og ein úr japönsku (reyndar þýtt úr ensku).

Eftirtaldir þýðendur eru tilnefndir 2014:

Jón St. Kristjánsson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á Burial Rites eftir Hannah Kent. Á íslensku nefnist bókin Náðarstund og segir frá síðustu dögum í lífi Agnesar Magnúsdóttur sem dæmd var fyrir morð og tekin af lífi í Húnavatnssýslu, 12. janúar 1830. Hannah Kent er áströlsk og sá strax söguefni í dramatísku lífshlaupi Agnesar. Þýðingin er afbragðsgóð, íslenskum veruleika 19. aldar er komið firnavel til skila á kjarnyrtu máli sem er eiginlega betra en frumtextinn. Jón var tilnefndur til þýðingarverðlaunanna 2011 fyrir Reisubók Gúllívers.

Gyrðir Elíasson er ekki bara listaskáld sjálfur heldur einnig afkastamikill ljóðaþýðandi undanfarin ár, þaulvanur að fást við orð og merkingu, túlkun og stemningu. Hann er tilnefndur fyrir undurfagrar þýðingar sínar á völdum ljóðum hins heimsfræga Shuntaro Tanikawa sem skrifað hefur um 60 bækur af margvíslegu tagi á sinni löngu ævi. Japönsk samtímaljóðlist á íslensku hljómar eins og fjarlægur draumur sem Gyrðir gerir að veruleika. Bókin ber heitið Listin að vera einn og er bæði falleg og djúp, þrungin ljóðrænni lífspeki og léttleika. Gyrðir hreppti verðlaunin 2012 fyrir Tunglið braust inn í húsið.

Kanadíski rithöfundurinn Alice Munro er nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2014. Hún semur frumlegar smásögur sem fjalla m.a. um konur, ást, firringu, vanrækslu og ofbeldi. Verk hennar hafa ekki áður verið gefin út á íslensku. Sögur Munro eru flóknari og margræðari en virðist við fyrstu sýn. Silja Aðalsteinsdóttir er þaulreyndur þýðandi með einstaklega gott vald á bæði frummáli og íslensku og í þessu smásagnaúrvali, Lífið að leysa, fer hún á kostum.

Hermann Stefánsson þýðir Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares, argentískan rithöfund (d. 1999). Þessi saga er þekktasta verk Casares en ekki hefur verið þýtt eftir hann áður.Sagan birtist í tímaritinu 1005. Hermann var tilnefndur til þýðingarverðlaunanna fyrir Laura og Julio (2009) en hann hefur frábært vald á tungumálinu. Hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því Uppfinning Morels er ekkert áhlaupaverk, heimspekileg vísindaskáldsaga um ást og ódauðleika.

Út í vitann (1927) er eitt af þekktustu verkum ensku skáldkonunnar Virginiu Woolf. Helga Kress þýddi frægasta verk Woolf, Sérherbergi, á íslensku 1983 en þýðing Vitans er frumraun Herdísar Hreiðarsdóttur sem stimplar sig nú rækilega inn. Woolf, sem var hörkufemínisti og langt á undan sinni samtíð, gerði margvíslegar tilraunir með módernisma í verkum sínum, .s.s. með að láta hugsanir persónanna flæða fram, söguþræði var gefið langt nef og atburðarásin hæg og óljós með þungum undirtóni. Stíllinn er lotulangur og flókinn og er þýðing Herdísar einstaklega vel af hendi leyst, vönduð og nákvæm.

Hremmið þessar þýðingar í næstu bókabúð og fylgist með á fimmtudaginn þegar tilkynnt verður hver hlýtur þýðingarverðlaunin 2014!

Birt í Kvennablaðinu, 22. apríl 2015

Murakami, úr þýðingu Ingunnar Snædal

„In any case, the boy named Tsukuru Tazaki had died. In the savage darkness he´d breathed his last and was buried in a small clearing in the forest. Quietly, secretly, in the predawn while everyone was still fast asleep. There was no grave marker. And what stood here now, breathing, was a brand-new Tsukuru Tazaki, one whose substance had been totally replaced. But he was the only one who knew this. And he didn´t plan to tell.

„Drengurinn sem hét Tsukuru Tazaki var í það minnsta dáinn. Hann hafði tekið síðasta andvarpið í grimmu myrkrinu og var grafinn í litlu rjóðri í skóginum í kyrrþey og á laun, rétt fyrir dögun meðan allir voru enn sofandi. Gröfin var ómerkt. Sá sem stóð hér nú og dró andann var glænýr Tsukuru Tazaki, úr gerólíku efni. Hann var sá eini sem vissi af þessu. Og hann ætlaði ekki að segja neinum“.

Hinn litlausi Tsukuru Tazaki og pílagrímsár hans, þýðing: Ingunn Snædal

Murakami, úr þýðingu Ugga Jónssonar

“So that’s how we live our lives. No matter how deep and fatal the loss, no matter how important the thing that’s stolen from us–that’s snatched right out of our hands–even if we are left completely changed, with only the outer layer of skin from before, we continue to play out our lives this way, in silence. We draw ever nearer to the end of our allotted span of time, bidding it farewell as it trails off behind. Repeating, often adroitly, the endless deeds of the everyday. Leaving behind a feeling of immeasurable emptiness.”

Þannig lifum við sem sagt lífinu. Engu skiptir hversu djúpur og banvænn missir okkar er, engu skiptir hversu mikilvægir þeir hlutir eru sem er stolið frá okkur – sem eru beinlínis hrifsaðir úr höndum okkar – jafnvel þótt við séum gjörbreytt eftir á og einungis ytra byrði húðarinnar hið sama og áður, þá höldum við áfram að haga lífi okkar á þennan hátt, í þögn. Við nálgumst stöðugt endimörk þess tíma sem okkur er úthlutaður, köstum kveðju á hann þar sem hann hverfur smám saman að baki. Endurtökum, oft af leikni, endalausar athafnir hversdagsins. Og sitjum uppi með ómælanlega tómleikatilfinningu.

Spútnik-Ástin, þýð. Uggi Jónsson

Fásinna

Fásinna eftir Horacio Castellanos Moya (f. 1957, suðuramerískur) er eftirminnilegt og hárbeitt verk. Hún byggir líklega á sannsögulegum atburðum, þ.e. þjóðarmorði í Guatamala á árunum 1960-1996 þar sem þúsundum  indjána, frumbyggjum landsins, var útrýmt. Væskilslegum, ógeðfelldum og ístöðulausum manni er falið að prófarkalesa hnausþykka skýrslu sem kaþólska kirkjan lét gera um málið (það er eitthvað dularfullt við það) og efnið hefur gríðarleg áhrif á hann, sem vonlegt er. Lýsingar og setningar sem hafðar eru eftir fólki sem lifðu af hörmungarnar enduróma í huga hans og gera hann vitlausan enda þrungnar hrikalegri sorg eftir áföll og ofbeldi. Stíllinn er lotulangur, keyrður út að ystu mörkum og minnir oft á efnistök Dostojevskís þegar örvæntingin tekur öll völd. Þýðing Hermanns er afar þýð en ég þekki þó ekki frumtextann, textinn rennur vel þótt setningar séu óralangar, fleygaðar og flóknar og fari í marga hringi. Verkið snýst um áhrifamátt tungumálsins, kúgun, grimmd og ofbeldi, þöggun og geðveiki. Eflaust hafa óteljandi grimmdarverk verið framin um heim allan og verið þögguð niður meðan við lifum okkar þægilega og verndaða lífi. Fásinna er áleitið verk sem eltir mann uppi og lætur mann síðan ekki í friði.