Kvikmyndir

SKAM-æðið

Nú geisar SKAM-æði á Íslandi. Allir hafa séð þessa norsku sjónvarpsþætti, allir elska þá, ungir sem aldnir. Yfir sjö þúsund manns eru í íslensku SKAM-aðdáendagrúppunni á facebook. Þrjár seríur eru í sarpinum á Rúv og sú fjórða á leiðinni. Og ef maður byrjar að horfa, er engin leið að hætta.

SKAM segir frá nokkrum unglingum í Hartvig Nissen-menntaskólanum í Ósló. Í fyrstu tveimur þáttaröðunum eru hressar stelpur að unglingast, hamast í símanum og tölvunni, verða ástfangnar, djamma og sofa hjá. Þær eru líka að reyna að þóknast, fá viðurkenningu, vera mjóar og vinsælar en ekki druslur. Í þriðju seríu er kastljósið meira á strákunum, sem eru nokkurn veginn í sama gírnum . Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi eða frumlega, hvað er það við þetta efni sem verður til þess að það fer eins og eldur í sinu um alla heimsbyggðina?

Það er markaðssetningin og máttur samfélagsmiðlanna sem skapa þessar gríðarlegu vinsældir. Áður en þættirnir fóru í loftið voru þeir kynntir á heimasíðu þáttanna og öllum samfélagsmiðlum og markhópurinn var aðallega ungar stúlkur. Aðalpersónur þáttanna eru með instagram og facebook-prófíl sem þúsundir fylgja þar sem má sjá efni úr skálduðu lífi þeirra á degi hverjum áður en það birtist svo í heild í sjónvarpinu/netinu. Allt gerist hægt í þáttunum sem eru í dogmastíl, það eru langar þagnir, svipbrigði sem fá svigrúm og slómó-senur sem skapa stemninguna og tilfinningu fyrir rauntíma, raunsæi og trúverðugleika. Átta manna harðsnúið lið sér svo um að halda samfélagsmiðlunum á fullu stími allan sólarhringinn. Samt er þetta ódýrasta þáttagerð sem NRK hefur nokkurn tímann ráðist í.

Handritshöfundurinn, Julie Andem, lagði á sig mikla rannsóknarvinnu áður en hún skrifaði þættina. Hún las ótal skýrslur um hag og líðan unglinga og tók viðtöl við fjöldann allan af norskum skólakrökkum til að komast sem næst veruleika þeirra. Handritið er líka ansi gott,  bæði sannfærandi, dramatískt og fyndið en líka sárt. Margar persónanna bera harm í hjarta og þær eru einar á báti, eiginlega munaðarlausar eins og t.d. bæði Noora og William. Þarna er allt þetta vandræðalega frá unglingsárunum sem allir kannast við, eins og bólur, blankheit og standpína. Og Skömmin er alls staðar, í hremmingum Nooru, í sjálfsmynd Vildu, að Eva stakk undan Ingrid og er alltaf blindfull í partýum, í kynhneigð Isaks og fortíð Williams. Múslimastúlkan Sana hins vegar skammast sín ekki fyrir neitt og Chris, sú þybbna, er algjör nagli með sjálfstraustið í lagi. Eskild, meðleigjandi Nooru og seinna Isaks, er afar vel gerð persóna, bæði fyndinn og klár, og svo er hjúkrunarfræðingurinn í skólanum frábær karakter.

Skömmin setur mark sitt á líf allra, líka kynlífið enda vita allir að norskir strákar sleikja ekki píkur þótt þeir vilji hins vegar ólmir fá tott. Í þáttunum er fjallað um mikilvæg mál á mannlegum nótum, svo sem staðalmyndir, fordóma, lystarstol, femínisma og hrelliklám.

Það er mikill kostur að karakterarnir eru venjulegir í útliti. Sumir eru laglegir en ekki eins og í mörgum amerískum sjónvarpsþáttum þar sem áherslan er á hár, förðun og merkjaföt og allir líta eins út. Og það er enginn hamingjusamur hollywood-endir á hlutunum í Skam. Heyrst hefur að í bígerð sé að gera ameríska útgáfu af þáttunum, sem er algjör katastrófa þar sem Skam er einmitt andsvar við sápuóperum Kananna þar sem fólk er matað á glysi.

Þýðing Matthíasar Kristiansen á fyrstu tveimur þáttaröðunum er ansi klaufaleg og gamaldags en Erla E. Völudóttir þýðir þriðju seríuna lipurlega. Ennþá er hægt að sjá þættina á rúv.is en að hika er sama og að tapa því þeir verða þar ekki til eilífðar.

Leyfðu ljúfum markaðsöflum að heilla þig með Skömm, taktu prófið HÉR; hvaða SKAM-persóna ert þú?

Casting by

Midnight Cowboy (1969) er eftirminnleg bíómynd. Hún hefur elst ágætlega og er með 8,9 á Rotten Tomatoes sem telst nokkuð gott. Í þessari grátbroslegu og dramatísku bíómynd stigu sín fyrstu spor sem alvöruleikarar þeir Dustin Hoffmann og Jon Voight, sem er svo ekki verður um villst faðir Angelinu Jolie. Áhugaverð heimildamynd var sýnd í gær á Rúv um Marion Dougherty (d. 2011) sem var „casting director“ í Hollywood í tæpa hálfa öld og valdi einmitt þessa tvo snilldarleikara í myndina og kom síðan m.a. Travolta, Jeff Bridges, Robert Redford, Glenn Close, Danny Clover o.m.fl. á kortið. Áður var nefnilega valið í hlutverk í bíómyndum af miklum metnaði og sálfræðilegu innsæi en ekki bara eftir frægð, fögru útliti og gróðasjónarmiðum.

sjff_01_img0322

Geimkonan

Skellti mér á Gravity í gærkveldi. Mjög ögrandi verkefni, einkum fyrir lofthrædda. Sandra Bullock stóð sig eins og hetja í mjög svo þvingandi og óþægilegum búningi og þröngu rými, George Clooney bjargar húmornum (ég var að hugsa um að fara heim og fá endurgreitt í hléinu þegar örlög hans réðust), tölvugrafíkin er frábær og það er aldrei dauð stund í myndinni. Flott leikstjórn, flottar tökur, trúverðug saga. Ég tók andköf og saup hveljur margsinnis, hvernig dettur fólki í hug að þvælast um geiminn og ráða ekki neitt við sig og stóla á stopult Houston-samband? Sandra leikur lítt reyndan geimfara sem missir allt út úr höndunum, kann ekkert á græjurnar, rekur sig í, stynur og æpir, grætur og gefst upp, það er Clooney sem stjórnar og heldur henni við efnið, þaulreyndur, öruggur, fórnfús og fyndinn. Í ár eru akkúrat 50 ár síðan kona fór út í geim í fyrsta sinn, það var sovéski geimfarinn Valentina Tereshkova.

Fyrsta geimkonan

Súpermann

Á ferð og flugi

Á ferð og flugi

Man of Steel, Stálmaðurinn, var á bíótjaldinu í gærkveldi (leikstj. Zach Snyder). Stórkostlegar brellur á ferð, rosalegt show, flott geimskip og hugljúf saga af fæðingu og uppvexti Súpermanns. Leikarann kannast ég ekki við (Henry Cavill, breskur, fæddur 1983), hann er doldið eins og Ken, massaður og sviphreinn, með klassískt andlistfall, sterklega kjálka og afar vel tenntur. Súpermann er frekar einfaldur maður, góður og hrekklaus og dyggur þjóðfélagsþegn (frá Kansas). Held að hann sé líka hreinn sveinn, 33ja ára. Geimverurnar eru dökkar og grimmar, skip þeirra eru svört og drungaleg og minna á pöddur því nú eru ekki lengur hvít, krómuð og stílhrein skip í tísku eina og var fyrir Matrix (1999). Geimverurnar vilja leggja undir sig jörðina enda plánetan þeirra, Krypton, sprungin í tætlur því íbúar hennar og æðstu stjórnvöld tóku ekkert tillit til náttúrunnar og misnotuðu orkulindir og landsgæði.  Súpermann á ættir að rekja til Krypton eins og alþjóð veit og er líka gangandi forðabúr fyrir gen hinnar útdauðu Kryptonþjóðar. Söguþráður er ekki flókinn en atburðarásin er hröð, heimsendir í nánd og bara Súpermann og ameríski herinn sem er réttsýnn og rogginn geta forðað heimsbyggðinni frá því að verða útrýmt. Blaðakonan snjalla, Lois Lane (Amy Adams), er sjarmernandi með rautt hár og uppbrett nef, alltaf á réttum stað á réttum tíma. Gaman að sjá Lawrence Fishburne í hlutverki ritstjórans, ég hélt kannski að hann kæmi með frasa um sýndarveruleikann sem við lifum í. Ég hefði viljað hafa smá brýningu um umhverfismál í myndinni (og minna þá af þjóðrembu) og smá húmor hefði mátt vera með. En þetta er besta Súpermannmyndin sem ég hef séð.

Star Trek Into Darkness

Image

Star Trek 2 Into darkness (JJ Abrahams) er mögnuð hasarmynd, hörkuspennandi strax frá upphafi. Nú reynir aldeilis á vináttu kafteins Kirk, sem beitir dómgreind sinni og innsæi á ögurstundum en lætur reglur Stjörnuflotans lönd og leið, og hálfvélmennisins Spock  sem  er kórréttur og löghlýðinn rökhugsuður. Saman eru þeir ósigrandi og tilbúnir til að fórna lífi sínu ef því er að skipta. Heill framtíðar og jarðarinnar er í húfi því hinn helfrosni Khan kemur til skjalanna svo það stefnir í styrjöld sem mun granda öllu lífi fyrir fullt og allt. Myndin er í þrívídd og brellur allar listilega gerðar, græjurnar flottar, búningarnir æðislegir, tónlistin dramatísk, vel leikin mynd, hröð atburðarás og stundum fyndin tilsvör, allt leggst á eitt til að gera magnaða  bíómynd.  Sumar senur er skrýtnar, t.d. birtist gamli Spock aftur en hann var líka í fyrri myndinni, og undurfögur ljóska spókar sig á nærfötunum eitt augnablik. Get varla beðið eftir næstu StarTrek því Klingónar eiga harma að hefna.

Geðröskun í Hollywood

Ég fór á forsýningu á Silver Linings Playbook, rómantískri gamanmynd um tvo einstaklinga sem eru tæpir á geði og mætast í myrkrinu. Pat (Bradley Cooper) er í vondum málum, útskrifaður af geðveikrahæli og nýskilinn í nálgunarbanni þegar hann hittir Tiffany (Jennifer Lawrence) sem er léttgeggjuð en tekur hann til bæna. Í fyrri hlutanum er ágæt innsýn gefin inn í veikindi, hugarheim og aðstæður Pats en svo tekur rómantíkin öll völd. Myndin er í heild krúttleg og fyndin, hér er ekki fengist við geðraskanir á djúpan, afhjúpandi eða fræðilegan hátt og hvorki verið að reyna það né gefa sig út fyrir það, heldur skautar hún á yfirborðinu og gerir gott úr öllu, smyr bara allt með sætum glassúr. Sem er í lagi í þessu tilfelli, því þetta er fallegt fólk, skemmtileg átök, flott myndataka og farsæll endir. Robert DeNiro er frábær sem snarklikkaður pabbi með létta þráhyggju og meðvirka mamman (Jacki Weaver) er líka snilld, íbúðin þeirra er alveg dásamlega  „tacky“.  Þetta var góð skemmtun, ef maður hefur húmor fyrir alvörunni.

En kongelig affære

En kongelig affære / Royal Affaire kallast á íslensku Kóngaglenna sem er frekar furðuleg þýðing. Sagan gerist á seinni hluta 18. aldar og segir frá völdum, áhrifum og endalokum dr. Johanns Struensee en hann giljar Caroline drottningu og er besti vinur, einkalæknir og ráðgjafi geðveika kóngsins, Kristjáns sjöunda. Ríkisráðið unir ekki áformum Struensee um innleiðingu upplýsingarstefnunnar, skerðingu á völdum kirkjunnar, afnám bændaánauðar, ritskoðunar og pyntinga til sagna. Struensee vinnur ötullega að góðum áformum og umbótum fyrir almenning en vopnin snúast í höndunum á honum, ritfrelsið er notað til að útbreiða slúður og skrípó af spilltu hirðlífinu og alþýðan sem hann er að berjast fyrir hatar hann. Í myndinni er mikið drama, valdabrölt, ást í meinum og dapurleg örlög. Leikararnir eru allir frábærir og  myndatakan flott og smekklega farið með efnið. Í myndinni er sem betur fer hvorki klæmst á sambandi Struensee og Caroline né farið út í hrikaleg smáatriði í grimmdarlegu lífláti hans. Skáldsagan Líflæknirinn (2003) eftir Per Olov Enquist fjallar ítarlega um þetta sama efni, mögnuð bók þar sem átökin eru aðallega milli nýrra hugmynda um jafnrétti, frelsi og bræðralag og hinnar gömlu heimsmyndar þar sem aðallinn nýtur allra forréttinda sem hugsast geta.

Mads Mikkelsen leikur Struensee

Innan þriggja daga

Þessi mynd er rosa spennandi, og temmilega mikið ofbeldi, drama og spenna í henni fyrir minn smekk. Russel Crowe er miðaldra ístrubelgur og fjölskyldufaðir, órakaður og úfinn, en alveg með sjarmann þegar hann tekur til sinna ráða gagnvart óréttlátu dómskerfi. Elízabeth Banks er fín leikkona og sannfærandi, bæði sem glæsileg framakona og vondaufur fangi. Plottið gengur s.s. ekki út á að drepa sem flesta heldur að gera pottþétt flóttaplan þar sem hugsað er fyrir hverju smáatriði. Ég var á sætisbrúninni allan tímann og nagaði neglur Leikstjóri er Paul Haggis sem gerði Crash ofl. Mæli með þessari afþreyingu á vetrarkvöldi þegar sjónvarpsdagskráin er alveg glötuð.

Lífsins tré

Sjónvarpsdagskráin á rúv í gærkvöldi var alveg hörmung. Ekki var hundi út sigandi svo ég kúrði undir teppi og horfði á Tree of Life í leikstjórn Terence Malick, alveg furðulega mynd með Brad Pitt o.fl. Í myndinni eru sýnd brot eða svipmyndir af O´Brien-fjölskyldunni í Bandaríkjunum á 5.-6. áratugnum, þrúgandi ást drottnandi föður á bældum sonum og áhrifum þess á uppvöxt og sálarlíf elsta sonarins aðallega. Móðirin (Jessica Chastain) er ljúf og góð og heimilislífið  þægilegt þegar pabbinn er að heiman.  Elsti sonurinn er þverlyndur, afbrýðisamur og þráir viðurkenningu föður síns. Fjölskyldan verður fyrir miklu áfalli þegar miðsonurinn deyr 19 ára að aldri og það hvílir á þeim eins og mara. Í myndinni eru langdregnar trúartengingar, s.s. um upphaf heimsins með tilheyrandi syndaflóði og um miklahvell og loftsteina, og þar má m.a. sjá mörg glæsileg myndbrot af íslensku landslagi. Fæðing heimsins tengist fæðingu barnanna, alheimurinn og litla fjölskyldan eru samtengd og annað spegla hitt. Margar senur sýna glæsileg mannvirki og manngert umhverfi andspænis fegurð náttúrunnar. Sean Penn leikur elsta soninn á fullorðinsaldri, hann er ráðvilltur, dapur og leitandi og mælir ekki orð af vörum í myndinni. Brad er enginn súkkulaðidrengur í þessari mynd, með skúffukjaft og nasistahár og sýnir stjörnuleik. Persónurnar tala lítið saman en beina orðum sínum að áhorfendum eða út í tómið og spyrja samhengislausra spurninga um lífið og tilveruna, sekt og sátt, dauðann og ástina. Myndin er hlaðin táknum, t.d. tréð í garðinum, sjórinn, þröngar dyr, háaloft, brú, ljós og skuggar o.s.frv. Í lokin er dramatísk sena í flæðarmáli sem líklega táknar sáttauppgjör við fortíðina. Þessi mynd er eingöngu ætluð mjög þolinmóðum áhorfendum.

Endalok Harry Potter?

Skellti mér á hinstu Harry Potter myndina í gær. Þar er lopinn teygður verulega og aldeilis búið að tutla þetta dæmi til enda skulum við vona. Mörg atriði í myndinni voru alltof löng og hæg og endirinn orðinn verulega fyrirsjáanlegur. Stríðið um Hogwarts var aldrei tvísýnt eða spennandi að nokkru leyti, ekki eins og t.d. í Lord of the Rings þar sem spennan í bardögunum var næstum óbærileg og blóð og gor spýttist um allt. Þá vantaði alveg almennilegt drama og krefjandi spurningar um að fjölmargir unglingar létu lífið í baráttunni gegn hinum illu öflum Voldemorts. Bíómiðinn kostaði 1400 krónur og þrívíddargleraugun 140 að auki. Popp og kók 700 á mann. Ef fjögurra manna fjölskylda hefur séð allar myndirnar átta  í bíó erum við að tala um fimmtíuþúsund kall á heimili sem hafa runnið til draumaverksmiðjunnar í gegnum árin. Góður bissness það.