bókmenntir

Kantata

Kantata eftir Kristínu Marju Baldursdóttur fjallar um gömul leyndarmál og glansmynd úr fjölskyldualbúminu. Nanna og Gylfi hótelstjóri eru sæt hjón sem ættingjarnir hafa gaman af að heimsækja og einkadóttirin er augasteinninn þeirra, Finnur, bróðir Gylfa, er sérvitringur sem hýsir ungan frænda sinn og hundinn hans, hlustar á sígilda tónlist og virðist næs náungi. Hjálmar er sonur bróður Finns og Gylfa (ef ég skildi þetta rétt), leikari með fortíð og situr uppi með móður sína, snobbaða og afskiptasama en svo vill til að hún er skemmtilegasta persónan í bókinni. Þegar útlenskur ljósmyndari birtist með elskulegheit, framandi siði og furðulega ljósmynd, fer allt á annan endann í öllum litlu fjölskyldunum, ýmislegt er óuppgert og gríman gliðnar. Í ljós kemur að í fallega og vel ræktaða garðinum hennar Nönnu leynast óféti, að sumir elska suma á laun, að hótelbókhaldið er býsna götótt, að einkadóttirin hatar foreldra sína, að náttúran er ekki öll þar sem hún er séð. Allt gerist hægt í sögunni, ein persóna stíga fram í stutta stund, hverfur svo af sviðinu með sögu sína, tilfinningar og vandamál, og önnur fær orðið. Þetta eru vel skapaðar persónur og trúverðugar, þær tilheyra íslenskri miðstétt sem hefur komið sér vel fyrir, vinnur mikið en nýtur líka lífsins í matarboðum og veiðiferðum. Loksins undir lokin kemur skrið á söguna og uppgjörið ætti að vera framundan. En allt í einu er sagan búin og lesandinn er skilinn eftir í lausu lofti, veit ekki einu sinni afdrif persóna í lífshættu. Samt er þetta ekki hluti af þríleik eða framhaldssaga. Kristín Marja lætur lesendum eftir að botna söguna. Það finnst mér ekki sanngjarnt, alltof margir endar eru lausir og stefnan óljós. Og kantötupælinguna fatta ég ekki, er lífið eða sagan eins og tónverk sem hefst í jafnvægi en svo fer allt á fleygiferð? Það er nú doldið banalt. Af hverju hafa svo margar bækur Kristínar Marju upphafsstafinn K?! Ég hefði viljað sjá meiri tilþrif, dýpri pælingar og jafnvel betri stíl. Aðeins meiri ögrun, þetta er alltof þægileg lesning.

Guðbergur Nóbell

Allir sem einhvers máttu sín litu svo á að tungan væri aðeins fyrir Íslendinga, einu þjóðina í heiminum sem fékk að hafa móðurmál sitt í friði fyrir öðrum, þótt friðurinn stafaði einungis af gagnsleysi þess fyrir utan landsteinana. Tungan var ekki einu sinni nothæf til að selja með henni þorskalýsi og lopa á erlendum mörkuðum. Hið algera gagnsleysi varði tunguna, ekki hún sjálf með notagildi sínu. Menn hrósuðu sér af því að eiga tungumál sem væri svo djöfullega snúið að ekki væri á færi annarra en innfæddra að læra það og fæstum tókst það fullkomlega… (Ein og hálf bók, hryllileg saga 2006)

Endalausir gullmolar eru í verkum hins síunga snillings, Guðbergs Bergssonar. Þetta t.d. rakst ég á í gær, á áttræðisafmæli hans, þegar ég seildist í eina bók úr hillunni af handahófi. Hver einasta bók hans hefur sinn sjarma og snilld, það er stíllinn og orðaforðinn, háðið, kaldhæðnin, viska og yfirsýn, ádeila, tabú, þjóð og menning, remba og rotinpúrra, útnáraháttur, skáldskapur, pólitík, kellingar, æska og elli, ást og hjónaband osfrv. Mest held ég uppá Önnu og bernskubækurnar. Hvenær fær hann eiginlega nóbelinn?

50 Shades

Það er allt á suðupunkti í 50 Shades of Grey (þýðingin 50 gráir skuggar er ekki að gera sig). Herra Grey (27) hefur læst klónum í Anastasiu (22), hreina og eldheita mey, sem roðnar af minnsta tilefni og fellur fyrir fegurð hans, ríkidæmi og sjarma. Hann hyggst fá útrás fyrir annarlegar hvatir sínar og drottnunargirni með því að gera hana að kynlífsþræli sínum. Ekkert kúr eða kelerí, takk, heldur skriflegur samningur, harðir skilmálar og dýrar gjafir. En hún kemur honum sannarlega á óvart með hreinskiptni sinni, bálandi kynhvöt og ást. Ætli þetta krúttlega daður og fjöruga kynlíf endi svo með giftingu? Þessi söguþráður hljómar  frekar kunnuglega. Höfundurinn (heimasíða hennar) virkar stórfurðulegur í viðtali hér og á saurblaði segir að bókin sé byggð á „earlier serialized version online with different characters“ sem birt var undir dulnefni. Ég er komin þar í sögunni að kvenremban í mér þolir varla mikið meir. Merkilegt að í svona “klámbók” sé hvorki minnst á píku (cunt) né typpi (dick). Bara “my sex”, down there” og “his erection”.

Áferð eftir Ófeig

„Jaðrar hverrar miðborgar eru bestu blettirnir, er bara hvar sem engir túristar eru, og pláss fyrir flakkara og náttúrurannsakanda eins og mig, manninn frá landinu sem er alltaf alls staðar, manninn sem er er alltaf innfæddur, kamelljónið… Jaðrarnir já, því þangað sem túristar leita, er okur garanterað. Fyrst er okrað, svo restinni rænt. Þetta er nýtt lögmál. Og jaðrarnir færast út, það er þeirra náttúra. Útþensla heimsins; rotnunin breiðist út frá miðjunni, innan frá. Það er mengun túristanna, afmáning hefðanna, sem byrjar í miðju hverrar borgar og við sérstæð náttúrufyrirbrigði, og dreifir sér síðan um alla jörðina. Hið fagra er fyrst til að rotna. Allar fallegar borgir eru þegar rústir einar, og náttúran niðurtroðin og yfirbyggð. Að ferðast og sjá nýja staði er ekkert merkilegt lengur, það er ekkert nýtt að sjá, allt er eins alls staðar, eða á hraðri leið í þessa einsleitni. Staðsetningar eru smávægilegar. Að fara á framandi slóðir er ekki hægt, allt sama óupprunalega draslið…“ (35)

Rakst á þessa stórskemmtilegu bók (2005) eftir Ófeig Sigurðsson. Sögumaður er einn á þvælingi um heiminn, án annars tilgangs eða fyrirheits en að kynnast landi og þjóð, læra að þekkja sjálfan sig, lenda í ævintýrum, mannast, drepa tímann. Mér sýnist að hann sé kannski í Afganistan eða Suður-Ameríku en það eiginlega skiptir engu máli. Það er farið út á ystu nöf. Sögumaður er oft nær dauða en lífi í öllu ruglinu, fullur og peningalaus, kynnist alls kyns furðufuglum og grimmum örlögum, sér skrýtnar siðvenjur og borðar ógeðslegan mat, lendir í klóm grimmra landamæravarða og verður ástfanginn. Hann pælir og pælir í tilgangi jarðlífsins, eðli mannsins og fáránleikanum í heiminum. Hrikalega fyndnar persónur og aðstæðurnar óborganlegar. Efitr lesturinn situr bæði ælubragð í munni og skítaykt í nösum og það er snilld, Langt síðan ég hef lesið svona krassandi og magnaða ferðasögu, vel skrifaða og eftirminnilega. Áferð myndar tengsl við Áform eftir Houellebecq (2001), þá mögnuðu bók, þar sem túrisminn, markaðshyggjan, einmanaleiki og firring mannsins fara út í átakanlegar öfgar.

Brakið

Brakið, Veröld 2011

Lauk við Brakið eftir Yrsu. Hef verið þokkalega ánægð með sumar Þórubækurnar en ekkki var þetta skemmtileg lesning. Víða kauðslega skrifað, persónur einhliða og grunnar og söguþráðurinn soldið út úr kú. Höfundur fer þó vel með margt, s.s. lýsingar á sorg aðstandenda fórnarlambanna og mörg samtöl eru vel uppbyggð. Sögusviðið er m.a. snekkja útrásarvíkings og þar er helsta spennan í gangi en frekar er dauft uppi á landi þar sem Þóra og hin frekar pirrandi  Bella símamær vaða í vilu og svíma. Þema sögunnar er grægðin og boðskapurinn alveg skýr en endalokin eru einhvern veginn slöpp.  Hér þarf góða ritstjórn og grimman yfirlestur hjá bókaforlaginu því hæfileikar, hugmyndir og frásagnargáfa eru fyrir hendi. Sagan mun fara vel á hvíta tjaldinu, ekki spurning.

Meistaraverkið

Ekki er ég sérlega hrifin af Meistaraverkinu eftir Ólaf Gunnarsson. Í bókinni eru 14 smásögur. Mér finnst hreinlega eins og sögurnar hafi verið geymdar í skúffu í áratugi, allavega var í þeim afar gömul sál og gamall tími sem þarf ekki endilega að vera slæmt ef vel er með farið. En það vantar í þær allan kraft, neista, spurn, átök. Þær gerast flestar í fortíðinni og snúast um svekkta og bælda karla, kynslóðabil og ást. Kvenpersónur sagnanna eru þrúgaðar, heimskar eða vergjarnar. Sögurnar eru langdregnar, með fyrirsjáanlega ófyrirsjáanlegu skúbbi í lokin og stíllinn flatur. Þessi bók Ólafs sem annars er í uppáhaldi hjá mér er langt frá því að bera nafn með rentu.

Forlagið