Undanfarnir mánuðir hafa einkennst af önnum, þreytu og veikindum. Pabbi hefur verið mjög veikur og verið á spítala síðan á aðfangadag. Sjálf hef ég verið lasin og orkulaus síðan í lok október en nú er komið að því að herða sig upp og láta sér líða vel. Ég hef ætlað lengi að drífa mig en ekki fundist ég nógu hress til þess, full af kvefi og aum alls staðar. En í dag fékk ég nóg, það þýðir ekki að bíða lengur eftir að maður hressist. Fyrsta hlaup ársins var því í dag, með Bíddu aðeins. Samtals fór ég um 7 km, þar af 4 km í hringi á Breiðabliksvellinum, í myrkri og kulda. En mikið var það hressandi.
Hlaup
Skokka eitthvað
Það er alltaf verið að skokka eitthvað en nú er enginn staður til að safna sprettunum saman eða skrá þá, eftir hakkaraárásina á hlaup.com. Á mánudaginn fór ég frá MK, fyrir Kársnesið og eftir stígnum inn allan Fossvoginn að sjoppunni og til baka í MK. Það voru rúmir 10 km, tími 63 mín. Veðrið var frábært og playlistinn góður svo ég var í góðu stuði. Í dag fór ég styttra en ég ætlaði í upphafi, aðallega vegna kuldans en vindurinn nísti í gegnum merg og bein. Skrönglaðist þó 7 km. Hjartahlaupið er á sunnudaginn og ég mæti bara ef veðrið verður gott.
Reykjavíkurmaraþon
Reykjavíkurmaraþonið, 10 km, er mjög skemmtilegt hlaup og á heimsmælikvarða. Að hlaupi loknu spjallaði ég við franska konu sem kom hingað um langan veg gagngert til að taka sjálf þátt í 10 km og fara svo með börnin sín í Latabæjarhlaup. Hún hrósaði þessu öllu í hástert. Í hlaupinu ríkti almenn gleði og bros á flestum andlitum. Hlaupið er mjög vel skipulagt, hvatningin frábær og hlaupaleiðin skemmtileg. Undirbúningur minn vikuna fyrir fólst aðallega í að skokka í 60 mínútur á þriðjudeginum, fara rólega 4 km á fimmtudaginn, skólpa úr hlaupagallanum, klippa táneglurnar og nudda fætur með góðu kremi, sofa vel og hvílast og borða létt og hollt dagana fyrir hlaupið. Ég bægði markvisst frá mér stressi, leti, úrtölum og niðurrifshugsunum sem leituðu á. Um morguninn vaknaði ég snemma, borðaði minn hafragraut með eplum og hörfræolíu eins og venjulega en sleppti sveskjunum og sötraði powerrade með. Tók svo eina rippedfuel töflu og var til í slaginn. Tilfinningin að hlaupi loknu var góð, ég hafði reynt almennilega á mig, var ómeidd og endurnærð og afar stolt af sjálfri mér að hafa náð takmarkinu sem ég setti mér. Ég mæti aftur á næsta ári með nýtt markmið.
10 km RM 2012
Skemmtilegt hlaup, frábært veður og stemning. Var með blóðbragð í munni eftir endasprettinn sem var rosalegur og Odda tók á móti mér í markinu og spurði hvort ég þyrfti að gubba… Ég stefndi á að vera undir 60 mín og náði því. Úrslit:
Tíminn er:
168 59:06 7119 Steinunn Inga Óttarsdóttir
Playlistinn fyrir RM2012
This is love – Will.i.am
September – Earth Wind and Fire
Domino – Jessie J
I´m alive club remix – Celine Dion, Blondie
Where have you been – Rihanna
Release me – Agnes
Tried yah luv – Third World
We found love – Rihanna
Please dont go – Mike Posner
Qween – Retro Stefson
No superstar – Remedy P&R
Please dont go – Hermes House Band
Niggaz in Paris – Jay-Z, Kayne West
Vouge – Madonna
Addiction – Medina
10 km
Ég er búin að skrá mig í Reykjavíkurmaraþonið í ár, 10 km. Það var ótrúlega gaman í fyrra og ég stefni á að skemmta mér eins vel núna. Engin miskunn, nú verð ég undir 60 mín! Planið er að skokka a.m.k. annan hvern dag fram að hlaupinu en hingað til hef ég lullað þetta 1-2-3svar í viku í rólegheitum. Ég þarf að einbeita mér að því að taka spretti til að efla þolið og auka hraðann aðeins. Í fyrra var ég rosalega einbeitt í hollu mataræði en núna er ég ekki eins staðföst, óreglulegt sumarfæði á ferðalögum og lausmjólka rauðvínsbeljur taka sinn toll. Ætlaði að skrá skokkhringi undanfarinna daga til að halda mér við efnið en það er vírus á hlaup.com…
Kvennahlaupið 2012
Skrapp í kvennahlaupið á laugardaginn en var ekki sérlega vel undirbúin. Átti ekki einu sinni orkustöng til að naga áður en hlaupið hófst og fór því þessa 10 km eingöngu fyrir eigin vélarafli. Enda var ég fljótlega orðin rangeyg, rennsveitt og lafmóð, þurfti að stoppa til að kasta mæðinni og reima annan skóinn, og síðustu 2 km voru erfiðastir. En mér tókst að vera undir 60 mín! (59.56) og var lengst af á góðum hraða en það kom töf eða hik hjá mér í lokin þar sem markið var ekki alveg auðfundið. Veðrið var frábært og svo heitt að ég skokkaði í skugganum þar sem því var viðkomið. Ég gleymdi alveg að taka mynd. Eftir hlaupið voru svo dýrindis veitingar hjá Þuru og Skúla að vanda.
Icelandair-hlaupið
Kópavogsvöllur
Ekki hefur viðrað sérlega vel til útihlaupa í desember og janúar. Þá þarf að grípa til annarra ráða því ekki dugir að hreyfa sig ekki neitt. Fyrsta tilraun mín 2012 til að halda áfram að skokka tvisvar-þrisvar í viku eins og sl. haust, fór fram á Kópavogsvelli í vikunni en þar er þessi fína hlaupabraut, 400 m, rudd og slétt og fín. 
Lissabon-blíða
Í dag fórum við MK-kellur 8 km í einmuna blíðu. Við erum gallharðar og stefnum nú á gamlárshlaup ÍR 2011.



