Í vonda slagviðrinu í dag leitar hugurinn til sumarsins sem leið alltof fljótt. Brátt fer húsbíllinn í skjól og útilegudótið í geymsluna. Eru allir búnir að lesa ferðasöguna?
Útivist
Sumarið á enda
Það er ljóst að haustið er að læðast að. Það kemur með hressandi hlaupatúra innan- og utanbæjar, bláber og slátur, kertaljós, hlýtt teppi og góða bók. Endurfundir við hressar Þórshafnarstelpur, samveru með systrum og fjölskyldu. Fyrirhugað er ferðalag til útlanda. Og annir í starfi og námi. Ég hlakka til.Ferðasagan
Ferðasaga sumarsins 2011 er komin á síðuna í máli og myndum. Sjá hér til hægri (Ferðasögur, Húsbílareisa 2011) eða hér.
Uppgjör
Samtals skrönglaðist ég í ágúst 56,6 km og æfingatími er samanlagður 8,46 klst. Það er ekki sérlega mikill tími, eða ca. 2 klst á viku. September verður betri.
Hjartadagurinn
Loksins fór ég út að skokka eftir langa hvíld. Ég er svo ánægð með RM að ég hef setið mest á rassinum síðan og stært mig af afrekinu. Heiðmörkin heillaði í góða veðrinu í gær og þar var skondrast eftir grýttum krákustígum og svitnað sæmilega. Nú er stefnan tekin á Hjartadagshlaup, sunnudaginn 25. sept., það hvetur mann heilmikið að hafa markmið til að stefna að, helst vil ég hlaupa hraðar en síðast… Er einhver sem vill koma með mér? Allir komast 5 km með smáundirbúningi, hver fer á sínum hraða og ekkert stress! Hjartað þarf að pumpa, lungun þrá súrefni, vöðvarnir liðkast og mýkjast við hreyfingu!
10 km eins og ekkert sé
Ég get hlaupið tíu km, án þess að stoppa og kasta mæðinni! Ég komst að því í Reykjavíkurmaraþoninu í dag þegar ég tók í fyrsta skipti þátt í opinberum íþróttaviðburði. Veðrið var eins og best verður á kosið og stemningin frábær, hvatningarhróp og gleðilæti á hverju horni svo maður var næstum hrærður. Slökkviliðsmenn fá fimm stjörnur frá mér en þeir hlupu sveittir og stæltir í útigalla með fatlaða í kerru. Ég var nr 2778 í röðinni af 4307 konum. Og tíminn (lokatími og „flögutími“):
| 2778 | 7095 | Steinunn Inga Óttarsdóttir | IS200 | F | 40 – 49 ára | 340 | 01:07:17 | 01:04:17 |
Maraþon, já sæll!
Ég er búin að skrá mig í Reykjavíkurmaraþon, 20. ágúst. Ætla að skrönglast 10 km hvað sem tautar og raular, vona að ég lifi það af og að starfsmenn hlaupsins verði ekki farnir heim þegar ég kem í mark. Nú þarf maður víst að fara að æfa sig, við Þóra hlupum rólega 5,6 km í blíðunni í dag og tókum stigann í tveimur lotum.
Sumarfrí
Ég hef verið á sumarferðalagi um Snæfellsnes undanfarna daga í dásamlegu veðri og skemmtilegum félagsskap. Það er mjög eftirminnilegt að hafa farið upp á topp á Snæfellsjökli í glampandi sól og útsýnið var stórkostlegt. Ég ætla að vera dugleg að hreyfa mig í sumar og helsta afrekið hingað til er skokk frá Hellissandi til Ólafsvíkur, samtals um 9 km. Það var hressandi, hljóp í gegnum tryllt kríuvarp og í miklum mótvindi. Heiti potturinn á Ólafsvík var æðislegur!
8,6 km
Í dag skokkaði ég í kringum Elliðavatn með Brynjari, Heiðari og Signe. Það er nákvæmlega 8,6 km langur hringur. Veðrið var yndislegt, hlýtt og milt. Ég hélt að þetta yrði alltof löng vegalengd fyrir mig og að ég þyrfti að ganga helminginn af leiðinni þar sem ég hef verið löt að trimma undanfarið og yfirleitt látið 3-5 km duga á viku… En það var ekki nándar nærri eins erfitt og ég hélt. Og ég var ekki síðust!
Móskarðshnjúkar
Í dag gengum við á Móskarðshnjúka (667 mys) í sólskininu, vestari tindana. Það var ansi hvasst eftir því sem ofar dró. Útsýnið var stórkostlegt. Þetta er skemmtileg leið og við vorum um 4 tíma að klöngrast þetta. Brynjar var með allar græjur, flottan bakboka, orkugel, aukaföt og vatnskút með slöngu. Í pokanum var m.a. dúnvesti sem kom í góðar þarfir því vindurinn uppi var ískaldur.

