Bjarni Bernharður er mörgum kunnur fyrir ljóðabækur sínar sem hann hefur mestmegnis gefið ötullega út sjálfur. Í árslok 2014 kom út heildarsafn og úrval ljóða hans, Tímasprengja. Myndskreytt af honum sjálfum.
Ekki fer á milli mála að ljóðmælandi er víðast Bjarni Bernharður sjálfur enda rödd hans sterk og einlæg í öllum ljóðunum. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er tíminn honum hugleikinn.
Horft er um öxl til þeirra daga sem voru myrkir í lífinu og hann er fullur þakklætis fyrir að hafa komist heill frá „náttglöpum“, „heimi blæðandi myrkurs“ og „sýrunóttum“. En fram undan eru bjartir tímar, kyrrlátt ævikvöld í góðum friði við guð og menn við að skapa og njóta lífsins. Bjarni Bernharður hefur víða sagt frá lífshlaupi sínu sem er skrautlegt og einkennist m.a. af ofbeldi, geðveiki og fíkniefnaneyslu. Hann segist þó vera gæfumaður og „hamingjuhrólfur“ og horfir sáttur um öxl: „fleyi siglt / til víkur / við ljúfan / sálarbyr/ útlit fyrir sálarfrið“ (84).
Þjóðfélagsrýni er snar þáttur í ljóðagerð Bjarna Bernharðs. Sem dæmi mætti nefna ljóðið Þjóðlíf sem fjallar um misrétti, græðgi og andlega tómhyggju í þjóðarvitundinni (206). Mörg önnur ljóð eru á svipuðum nótum, þau einkennast af ríkri réttlætiskennd og innilegri von um jöfnuð og bræðralag. En þau hitta ekki í mark vegna þess að í ádeiluljóðum Bjarna er margnotað myndmál sem ekki hefur neitt nýtt fram að færa, þar birtast hriktandi stoðir þjóðarbúsins, hagkerfi í molum, skuldafen, blóm í byssukjafta o.s.frv. Það vantar ferska hugsun, frumleg efnistök og hið óvænta í ljóðin.
En Bjarni er svellkaldur og yrkir ótrauður um lífsins tafl, múra einsemdar, hug sem sveiflast eða flýgur, vor lífsins, akur lífsins, aldingarð ástarinnar og orð á hvítri örk eins og það hafi bara aldrei verið gert áður.
Menningarstig þjóðarinnar, einkum staða bókmennta, er áberandi þema í ljóðum Bjarna Bernharðs. Hann hefur löngum verið utangarðsmaður í skáldskapariðkun sinni og hvorki hlotið náð fyrir augum bókmenntaelítunnar, gagnrýnenda né útgefenda. Þess bera nokkur ljóð glögg merki og stundum tekur reiðin öll völd:
„Ritstýra forlagsins glennti klofið / og sagði: komiði, komiði strákar / með póstmódernísku skaufana …“
(129). Þá fær bókmenntaþátturinn Kiljan kaldar kveðjur í ljóðinu Herra og frú Egilz sem er algerlega grímulaust beint að Agli Helgasyni, umsjónarmanni þáttarins (132-133). Eitt ljóðið heitir Gagnrýnandinn og endurspeglar vægast sagt lúna klisju:
Harmar mjög
sitt lífshlaup
skúffuskáldið.
Ungur
átti sér draum
um sigra á bókmenntasviði.
Í dag
leigupenni
blautlegur bókarýnir
á morgunblaði
hjávillu sinni trúr.
(198)
Bókina prýða málverk Bjarna Bernharðs sem eru litrík og skemmtileg. Á bókarkápu lýsir hann því yfir að hann ætli nú að snúa baki við ljóðagerð og sinna myndlist og ævisagnaritun framvegis. Gott og vel.
„… ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðnum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum…“ (161).
Þetta brot er úr nýrri og áhrifamikilli skáldsögu Kristínar Ómarsdóttur sem ber heitið Flækingurinn. Þar segir frá unglingspiltinum Hrafni (stundum kallaður Óskar eða Georg Washington Jensen), útilegumanni nútímans og sprautufíkli sem þvælist um götur Reykjavíkur í leit að mat og dópi. Þessi ógæfusami piltur hittir margs konar fólk á vegi sínum, flest er á jaðri samfélagsins eins og hann sjálfur. Þegar sagan hefst býr hann á einhvers konar sambýli eða athvarfi fyrir fíkla og ræður bjargvætturinn Laufey þar ríkjum. Brátt hrökklast hann þaðan, hreiðrar um sig í geymslu í kjallara í dansskóla, lendir svo í slagtogi við alls konar furðufugla og fyrir ýmist ásetning eða misskilning kemst hann í kast við lögin. Sögunni lýkur svo þar sem hún hófst, í húsi Laufeyjar, með absúrd drápsenu sem minnir mest á bíóhasar, en raunveruleiki og jarðtenging eru býsna langt undan í þessu skáldverki.
Framvinda sögunnar markast af ráfi Hrafns um bæinn og samskiptum hans við misruglaðar persónur, dóprausi og ranghugmyndum, ofbeldi og brostnum draumum. Stíllinn er mjög ljóðrænn og fallegur, senur eru margar súrrealískar enda rambar sögumaður á mörkum vímu og veruleika.
Hrafn er mállaus og skrifar á blað það sem honum liggur á hjarta. Hann missti málið/tunguna á einhvern óljósan hátt og var beittur kynferðisofbeldi í uppvextinum. Sjálfsmynd hans er verulega brengluð og mörkuð af erfiðri æsku og vímuefnanotkun: „Er ofbeldi stafróf mitt og sú tjáning sem fólk skilur?“ spurði ég sjálfan mig, þakklátur fyrir að mega skilja sjálfan mig án aðstoðar milliliðs. Úff, ég hefði ekki boðið í það hefði ég þurft á túlki að halda til að skilja mig. Felldi ég tár hlógu allir og ég mest. Það hafði ég reynt: að gráta ef ráðist var á mig. Berði ég frá mér hlógu fáir og fólk bugtaði sig jafnvel fyrir mér. Með ofbeldi öðlaðist ég vald, virðingu“ (127).
Sagan gerist um vetur, tilveran er grá og köld. Fíklarnir búa við ofbeldi, útskúfun og auðmýkingu alla daga en á milli koma góðar stundir, sérkennileg vinátta og samkennd skapast og ástin kviknar, sjúkleg og ofbeldisfull. Hrafn lætur dagana líða við að redda sér einhverju ætilegu, vímuefnum og lyfjum, fara á bókasafnið til að lesa dánartilkynningar á netinu eða dotta með þykka bók, skreppa á klósett á bensínstöð eða í kirkju og dorma á dýnu þess á milli. Hann ruglar svo saman reytum við hinn svarta Engilbjart og týndu stúlkuna Emmu en í félagsskap þeirra fara hjólin að snúast. Hrafn er vissulega viðsjárverður gaur og ekki með öllum mjalla en Engilbjartur er stórhættulegur, snarvitlaus og siðblindur.
Þegar þeir félagar hafa brotist inn til að redda sér pening eða fundið matarafganga í ruslatunnum, fyllt vatnsbrúsa og innbyrt einhver eiturlyf, eru þeir alsælir og gerast heimspekilegir í pælingum sínum, m.a. um samfélagið sem þeir sniðganga og afneita. „Eignarétturinn er atvinnuskapandi,“ sagði Engilbjartur eitt sinn, „og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ „Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“ spurði ég sjálfan mig nú, því ég var lengi að hugsa og bregðast við upplýsingum frá öðrum. Og hvað skapar hann mörgum eignaleysi og fátækt? Eignarétturinn drífur samfélagið áfram um leið og hann liggur á því eins og mara“ (159).
Þeir fóstbræður eiga mögnuð samtöl í ruglinu en hrista svo af sér slenið og halda í ævintýraför þar sem ættingjar og vinir fá makleg málagjöld í grátbroslegum ofbeldisatriðum sem varpa ljósi á bæði sjúklega hugsun fíkilsins og meðvirkni og skilningsleysi fórnarlambanna.
Útigangsmönnum í höfuðborginni fer fjölgandi en um þessar mundir eru a.m.k. 200 manns heimilislausir árið um kring og enn fleiri á götunni tímabundið. Er flækingslífið heilbrigðisvandamál, félagslegur vandi eða vandi hvers og eins? Hver ber ábyrgðina? Þetta er ekki einfalt mál og engin lausn í sjónmáli. Kristín dregur upp nöturlega mynd í Flækingnum af skuggalegum heimi sem fæstir þekkja og fólki sem við kannski finnum til með en viljum sem minnst af vita. Og á listilega íronískan hátt stangast útskúfun og einmanaleiki persóna sögunnar á við frelsis- og sjálfstæðishugmyndir þeirra sjálfra.
Tími flækingsins er runninn upp, hugsjónirnar eru dauðar, heimur hvíta mannsins er liðinn undir lok, segir Engilbjartur sem hatar bláeygt gelgjupoopp og allt sem er hvítt. En er líf flækingsins æðsta stig tilverunnar? Er hann frjáls? Hvort er það hugrekki eða hugleysi að velja þá braut í lífinu? Þeim sem hafa í huga að leggjast út er ráðlagt að skoða lista í handbók útigangsmannsins sem birtist á bls. 263–4 í bókinni. Þar kemur fram að gott er að eiga m.a. kertisstubb og kveikjara, snæri og kúbein, trefil og vatnsþéttan skófatnað, skrúfjárn, teppi og samanbrotinn plastpoka. Og svo er bara að smæla framan í heiminn: Bless vinna, fjölskylda, eignir, ábyrgð og skuldir! Hæ, frelsi?
Blátt blóð, í leit að kátu sæði eftir Oddnýju Eir er gullfalleg bók hvar sem á hana er litið. Hún er í litlu broti, fallegur og eigulegur prentgripur, með bláu letri og bláum millisíðum, þunnum pappír, óvenjulegri leturgerð og stílhreinni og táknrænni bókarkápu með margræðum titli. Innihaldið er einnig fagurt, ljóðrænt, sárt, berort og fyndið. Formið er svokölluð esseyja, frekar sjaldséð bókmenntaform sem er eiginlega hvorki skáldsaga, smásaga né ritgerð en líkist þeim systrum sínum samt. Þetta er afmarkað verk, persónulegt og knappt, aðeins rúmar hundrað síður. Yfirlýstur tilgangur sögumanns er að ljá langvinnum og misheppnuðum tilraunum sínum til að bæta úr barnleysi einhverja merkingu. Þemað er femínískt, fjallað er um egglos, getnað, meðgöngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, hið kvenlega og karllega í lífinu. Verkið er afar persónulegt, aðalsöguhetjan er greinilega Oddný sjálf og hún er bæði einlæg í frásögn sinni og harla miskunnarlaus við sjálfa sig. Hún lýsir biturleika sínum og sorg hispurslaust, og ást sinni, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það hrærir viðkvæmar sálir:
„Rétt áður en ég sofnaði með munúðina enn í mér óskaði ég þess að það hefði orðið getnaður. Ég hafði óskað þess áður. Oft. Alltaf. Að eitthvað yrði til þess að sæðið streymdi kátt og frjótt inn í kvið minn, að blóð okkar blandaðist og ég fengi að sjá hann glaðan sinna barninu sínu, kenna því fuglamálið og hundamálið og öll hin málin sem hann einn skildi“ (56).
Verkið skiptist upp í stutta og áhrifaríka kafla, sem heita t.d. Karlmennskan, Kvenleikinn, Fullnægingar, Játningar, Séfferhundur, Bænaduft, Kvika… Allt snýst um að verða barnshafandi og margvíslegra skýringa er leitað þegar það gengur ekki. Örvæntingin grípur kærustuparið heljartökum. Svo ótal margt minnir á það sem upp á vantar til að verða „venjuleg fjölskylda“ að það verður óbærilegt. Sambýlismaðurinn gengur líka í gegnum þjáningar vegna þessa og svo hart er gengið fram að brátt þolir parið ekki álagið lengur. Ófrjóseminni í sambandinu fylgja ásakanir, skömm, missir og sársauki sem lýst er einstaklega fallega og blátt áfram. Í bókarlok vakna bjartar vonir til þess eins að deyja og þá er ekkert orðið eftir nema uppgjöf, en líka sátt og það eftirsóknarverða ástand að vænta einskis og verða þannig frjáls. Blátt blóð er bæði listileg og lostafull bók sem þarf að liggja á hverju náttborði.
„… ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðnum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum…“ (161).
Þetta brot er úr nýrri og áhrifamikilli skáldsögu Kristínar Ómarsdóttir sem ber heitið Flækingurinn. Þar segir frá unglingspiltinum Hrafni (stundum kallaður Óskar eða Georg Washington Jensen), útilegumanni nútímans og sprautufíkli sem þvælist um götur Reykjavíkur í leit að mat og dópi. Þessi ógæfusami piltur hittir margs konar fólk á vegi sínum, flest er á jaðri samfélagsins eins og hann sjálfur. Þegar sagan hefst býr hann á einhvers konar sambýli eða athvarfi fyrir fíkla og ræður bjargvætturinn Laufey þar ríkjum. Brátt hrökklast hann þaðan, hreiðrar um sig í geymslu í kjallara í dansskóla, lendir svo í slagtogi við alls konar furðufugla og fyrir ýmist ásetning eða misskilning kemst hann í kast við lögin. Sögunni lýkur svo þar sem hún hófst, í húsi Laufeyjar, með absúrd drápsenu sem minnir mest á bíóhasar, en raunveruleiki og jarðtenging eru býsna langt undan í þessu skáldverki.
Framvinda sögunnar markast af ráfi Hrafns um bæinn og samskiptum hans við misruglaðar persónur, dóprausi og ranghugmyndum, ofbeldi og brostnum draumum. Stíllinn er mjög ljóðrænn og fallegur, senur eru margar súrrealískar enda rambar sögumaður á mörkum vímu og veruleika.
Hrafn er mállaus og skrifar á blað það sem honum liggur á hjarta. Hann missti málið/tunguna á einhvern óljósan hátt og var beittur kynferðisofbeldi í uppvextinum. Sjálfsmynd hans er verulega brengluð og mörkuð af erfiðri æsku og vímuefnanotkun: „Er ofbeldi stafróf mitt og sú tjáning sem fólk skilur?“ spurði ég sjálfan mig, þakklátur fyrir að mega skilja sjálfan mig án aðstoðar milliliðs. Úff, ég hefði ekki boðið í það hefði ég þurft á túlki að halda til að skilja mig. Felldi ég tár hlógu allir og ég mest. Það hafði ég reynt: að gráta ef ráðist var á mig. Berði ég frá mér hlógu fáir og fólk bugtaði sig jafnvel fyrir mér. Með ofbeldi öðlaðist ég vald, virðingu“ (127).
Sagan gerist um vetur, tilveran er grá og köld. Fíklarnir búa við ofbeldi, útskúfun og auðmýkingu alla daga en á milli koma góðar stundir, sérkennileg vinátta og samkennd skapast og ástin kviknar, sjúkleg og ofbeldisfull. Hrafn lætur dagana líða við að redda sér einhverju ætilegu, vímuefnum og lyfjum, fara á bókasafnið til að lesa dánartilkynningar á netinu eða dotta með þykka bók, skreppa á klósett á bensínstöð eða í kirkju og dorma á dýnu þess á milli. Hann ruglar svo saman reytum við hinn svarta Engilbjart og týndu stúlkuna Emmu en í félagsskap þeirra fara hjólin að snúast. Hrafn er vissulega viðsjárverður gaur og ekki með öllum mjalla en Engilbjartur er stórhættulegur, snarvitlaus og siðblindur.
Þegar þeir félagar hafa brotist inn til að redda sér pening eða fundið matarafganga í ruslatunnum, fyllt vatnsbrúsa og innbyrt einhver eiturlyf, eru þeir alsælir og gerast heimspekilegir í pælingum sínum, m.a. um samfélagið sem þeir sniðganga og afneita. „Eignarétturinn er atvinnuskapandi,“ sagði Engilbjartur eitt sinn, „og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ „Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“ spurði ég sjálfan mig nú, því ég var lengi að hugsa og bregðast við upplýsingum frá öðrum. Og hvað skapar hann mörgum eignaleysi og fátækt? Eignarétturinn drífur samfélagið áfram um leið og hann liggur á því eins og mara“ (159). Þeir fóstbræður eiga mögnuð samtöl í ruglinu en hrista svo af sér slenið og halda í ævintýraför þar sem ættingjar og vinir fá makleg málagjöld í grátbroslegum ofbeldisatriðum sem varpa ljósi á bæði sjúklega hugsun fíkilsins og meðvirkni og skilningsleysi fórnarlambanna.
Útigangsmönnum í höfuðborginni fer fjölgandi en um þessar mundir eru a.m.k. 200 manns heimilislaus árið um kring og enn fleiri á götunni tímabundið. Er flækingslífið heilbrigðisvandamál, félagslegur vandi eða vandi hvers og eins? Hver ber ábyrgðina? Þetta er ekki einfalt mál og engin lausn í sjónmáli. Kristín dregur upp nöturlega mynd í Flækingnum af skuggalegum heimi sem fæstir þekkja og fólki sem við kannski finnum til með en viljum sem minnst af vita. Og á listilega íronískan hátt stangast útskúfun og einmanaleiki persóna sögunnar á við frelsis- og sjálfstæðishugmyndir þeirra sjálfra.
Tími flækingsins er runninn upp, hugsjónirnar eru dauðar, heimur hvíta mannsins er liðinn undir lok, segir Engilbjartur sem hatar bláeygt gelgjupoopp og allt sem er hvítt. En er líf flækingsins æðsta stig tilverunnar? Er hann frjáls? Hvort er það hugrekki eða hugleysi að velja þá braut í lífinu? Þeim sem hafa í huga að leggjast út er ráðlagt að skoða lista í handbók útigangsmannsins sem birtist bls. 263-4 í bókinni. Þar kemur fram að gott er að eiga m.a. kertisstubb og kveikjara, snæri og kúbein, trefil og vatnsþéttan skófatnað, skrúfjárn, teppi og samanbrotinn plastpoka. Og svo er bara að smæla framan í heiminn: Bless vinna, fjölskylda, eignir, ábyrgð og skuldir! Hæ, frelsi?
Öræfi Ófeigs Sigurðssonar, doðranturinn sem seldist í bílförmum og hreppti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2014, er ekki létt spennusaga eins og sumir gætu hafa haldið eftir lestur káputextans, heldur þungavigt sem reynir svo sannarlega á þolrif lesenda.Söguþráðurinn er bæði krókóttur og grýttur og hvað eftir annað liggur manni við að gefast upp. Inn á milli reynast þó vera greiðar götur, mjúkir sandar og tærar lindir sem gaman er að staldra við áður en haldið er aftur út í illfærurnar. Bókin skiptist í nokkra hluta, Drauma, Fjársjóði, Leyndardóma og Eftirleit, auk formála, Post scriptum og Eftirmála höfundar. Sögumaður lætur móðan mása um allt milli himins og jarðar; trú og tungumál, skáldskap, náttúru landsins og eðli þjóðarinnar og það eru innblásin varnaðarorð um þróun mannlífs og búsetu í þessu landi.
Persónurnar eru aðallega Öræfingar sjálfir, þrautgóðir og raungóðir. Dregin er upp mynd af hinum rómantíska íslenska sauðfjárbónda sem lifir í takt við náttúruna, þekkir drýlin í straumnum, vöðin og jöklana, veðrið, jarðfræðina og skepnurnar. Ógleymanlegir eru Tvískerjabræður, Jón föðurbróðir, tragískur túristamorðingi og landvörðurinn Snorra-Edda. Svo er það Dr. Lassi, lesbískur dýralæknir sem heldur utan um skrásetningu frásagnarinnar; furðuleg persóna, fantasía eða kannski bara óráð. Bernharður Fingurbjörg, örnefnafræðingur og doktorsnemi, leitast við að tengjast fortíð sinni í gegnum náttúruna og skilja táknfræði örnefna, hann gengur inn í jökulinn þar sem fegurðin ríkir ein en endar í kaosi og kastrasjón, lífs eða liðinn í undarlegri öskju eða kofforti á köggladekkjum sem gæti haft bæði margrætt og óljóst tákngildi.
Sagan er óreiðukennd og taumlaus, blandin fornum stíl og frásagnarhætti, textinn ryðst áfram og ærir óstöðugan. Fyrir koma langdregnir kaflar, t.d. um dauðarokk, og upptalning á íslenskum náttúrufræðingum. Þá er víða vitnað í gamlar heimildir sem sýndar eru í nýju samhengi, t.d. (óþarflega) langur kafli úr Annálum um sjálfsmorð forfeðranna sem afhjúpar öræfin innra með okkur, angist, þunglyndi og geðveiki.
Sögumannsröddin er víðóma, stórskorni dýralæknirinn skráir söguna eftir þýðingu „Túlku“ á frásögn Bernharðs sem skrifaði bréf til „höfundar“. Söguþráður er teygður á milli súrra sena, fyndni, frumlegra tilþrifa í efni og stíl, og harmsagna, ádeilu og predikana. Margfaldur í roði byggir sögumaður upp framvinduna og rífur hana jafnharðan niður og honum liggur mikið á hjarta.Í bakgrunni eru örlagaþrungnir (karl)karakterar eins og t.d. kafteinn Koch sem hafði með sér íslenska hesta á Grænlandsjökul í harmrænni hrakfallareisu sinni 1912, Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, sem skrifaði um eðli skriðjökla sem hefði tryggt honum heimsfrægð ef það hefði verið birt á hans dögum, skáldið Ormarr sem birtist langdrukkinn, dvergvaxinn og tussulegur og á snilldarkvæði á bls. 174 og loks hinn ógæfulegi Fastagestur á Sirkus en rödd hans minnir held ég mest á höfundinn af hinum fjölmörgu röddum verksins. Hann fer á kostum, t.d. þegar hann fær orðið í túristarútunni:
„Fyrst liggur leiðin austur yfir Hellisheiðina, sagði Fastagestur í hljóðnemann, þar er vanmetin fegurð; á Hellisheiði undruðust þeir Eggert og Bjarni yfir óvæntri fegurðinni þegar þeir áttu leið um hana um miðja 18du öld en Reykvíkingar sjá ekki þessa fegurð, þeir sjá bara námur og gróða sem eru í raun eyðilegging og sóun, og er nú fegurðin í augum Eggerts og Bjarna sundurgrafin og boruð og liggja þar gagnslausir vegir þvers og kurs um sundurtættan mosann og hraunið, og endalaus rör og raflínur og háspennumöstur útum allt, þar er og torfærubraut og drullupyttir, þar eru hálf fjöll, opnar námur og ekkert nema virkjanir og verksmiðjur, allt saman minnisvarðar um eðli Íslendinga“ (196).
Það eru margar skemmtilegar pælingar í verkinu, s.s. hvað verður um örnefni sem er sökkt í uppistöðulón? Hvað er topotime? Er villiféð örugglega útdautt? Hvað er líkt með Sámi og hundi Kafka? Er íslenski bóndinn ríkisstyrktur böðull og dýraníðingur? Skógrækt ríkisins eða Órækt ríkisins? Textinn flæðir yfir bakka sína líkt og Skeiðaráin, „höfuðskepna Öræfinga“, og hrifsar lesandann með sér, stundum liggur honum jafnvel við drukknun en loks nær hann landi og getur þá ekki annað en dáðst að krafti flaumsins:
„örnefni sem tákn, sagði ég upphátt þarna á dúandi kláfinum yfir beljandi jökulvatninu, þarna varð mér í fyrsta sinn ljóst að það var raunhæfur möguleiki að klára doktorsritgerðina, ég var orðinn hræddur um að ferðin til Mávabyggða væri skálkaskjól fyrir hugmyndaleysi og söknuð og alls enginn rannsóknarleiðangur, og þótt ég klári aldrei ritgerðina er það leitin og uppgötvanirnar sem skipta mig mestu máli, að ég sé á hreyfingu, ég stækki svið mitt, hafi óvissuna sem mitt vitaljós… alltíeinu fann ég fyrir óöryggi á kláfinum yfir fljótandi dauða mínum, köldum og fögrum, það var óttinn við táknin, allan heiminn handan við táknin, undir flaut jökulkalt fljót af táknum, örnefnum… sennilega var ekkert handan við táknin nema tómið og ríkidæmi algleymisins, ég greip um höfuðið og æpti, penninn féll ofan í strauminn, Fuck fældist við, ég æpti eins og Ópið eftir Munch á kláfinum yfir jökulvatni táknanna, sólin roðaði austurhimininn og varð jökullinn sem sollinn blóði, grágrænt jökulfljótið svall undir mér en ég og Fuck dúuðum í lausu lofti sturlaðir af tóminu bak við táknin… (284–5)
Sumir kaflar bókarinnar eru svo listilegir að hraustustu menn geta vart varist tárum. Aðrir svo sýrðir að manni er skapi næst að gefast upp. Eina ráðið er að lesa þessa bók h æ g t, í lotum, gefa henni tíma og hleypa brýnum boðskapnum inn í hjartað. Sannarlega hrjóstrug öræfi en svona líka dáfalleg.
Dauðinn er víst það eina sem við getum reitt okkur á í þessu lífi. Hann er þrátt fyrir það furðu mikið tabú í nútímasamfélagi. Á öldum áður var nálægð dauðans hversdagsleg, fólk lá sjúkdóms- og banaleguna heima hjá sér, slasaðir voru færðir heim í baðstofu til aðhlynningar og börn fæddust í mömmubóli. Með sjúkdómavæðingu, lyfjaframleiðslu og sérnámi í læknisfræði færðist dauðinn inn á sjúkrastofnanir. Sjúklingurinn varð til sem viðfang skýrslu og rannsókna, settur í sótthreinsað umhverfi og meðhöndlaður með klínískum aðferðum. Nánustu aðstandendur áttu ekki að þvælast fyrir, læknirinn átti lokaorðið því hans var valdið og þekkingin. Á allra síðustu árum hefur þróunin orðið sú að dauðvona fólk fær að vera heima hjá sér ef það kýs eins lengi og unnt er og aðstandendur fá að vera með í ferlinu.
Þrátt fyrir þá staðreynd að dauðinn bíður okkar allra er hann ekki mikið ræddur svona hvunndags en með útbreiðslu samfélagsmiðla hefur hann ratað á netið. Nú er svo komið að ekki er óalgengt að fylgjast með sjúkdómsbaráttu og dauða á netinu og stundum flýgur andlátsfregnin hraðar á facebook en um símalínurnar. Vilborg Davíðsdóttir bloggaði um það á sínum tíma hvernig krabbamein í heila lék eiginmann hennar og dró loks til dauða í ársbyrjun 2013. Pistlar hennar vöktu athygli fjölmiðla, lesendur þökkuðu henni fyrir skrifin og deildu með henni eigin reynslu af ástvinamissi (162). Þessi reynsla Vilborgar varð síðan efni í bókina Ástin, drekinn og dauðinn sem kom út á dögunum. Bókin er byggð upp eins og ævintýri þar sem prinsinn og prinsessan una glöð við sitt þar til drekinn ógurlegi vaknar og slær til halanum. Úrvinnsla Vilborgar á þessu efni er einstaklega vönduð og skemmst er frá því að segja að bókin sker hvaða harðjaxl sem er í hjartað. Hún er vel skrifuð og aldrei væmin, myndræn og skáldleg og um leið er hún ofurraunsæ. Í gegnum nákvæmar frásagnir af tölvusneiðmyndum Björgvins, vonum hans og vonbrigðum, lyfjagjöf og flökurleika, kvíða og ótta, útlitsbreytingum, málstoli og verkstoli má lesa hversu gríðarlegt farg er lagt á aðstandendur. Og ekki síður eftir á, við að takast á við tilveruna að nýju, snúa til vinnu, kljást við erfðamál, garfa í lífeyrisréttindum o.fl. Af frásögn Vilborgar má ráða að þeim hjónum hafi lánast að nota tímann vel, horfa á björtu hliðarnar og reyna að æðrast ekki. Boðskapur bókarinnar er skýr, hann snýst um að lifa í núinu, njóta stundarinnar og reyna að skilja hversu dýmæt litlu augnablikin eru, því þau eru lífið sjálft (265).
Dauðinn er sígilt yrkisefni í bókmenntum, sveipaður ógn, grimmum goðsögnum og óhugnanlegu tákn- og myndmáli. Það er löngu tímabært að svipta hann tabúhulunni, horfast í augu við hann sem hluta af lífinu og taka honum eins og hann er. Sorg og dauða fylgir ekki bara táraflóð, sorg og reiði heldur líka æðruleysi og nýr lærdómur. Um það fjallar Vilborg ákaflega vel og viturlega. Áttatíu lítrar er víst meðaltalið af tárum sem við úthellum yfir ævina (235) og hluta þeirra mun lesandinn vafalítið fella við lestur þessarar fallegu bókar. Birt í Kvennablaðinu, 3. apríl 2015
Elísabet Jökulsdóttir á að baki langan feril sem ljóðskáld og rithöfundur og hefur ort um ást og geðveiki á einstaklega einlægan og berorðan hátt. Ekki hefur hún notið stórra styrkja eða fyrirgreiðslna við skáldskapariðkun sína og jafnan gefið bækur sínar út sjálf en nú hefur hún hlotið Fjöruverðlaun og Lesendaverðlaun DV sem er fagnaðarefni, bæði verðskuldað og tímabært.
Í nýrri ljóðabók, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014), lýsir hún ástarsambandi við ofbeldismann með beinskeyttum myndum og skýru myndmáli, allt frá spennuþrungnu tilhugalífi til heiftarlegra sambandsslita. Hún birtist berskjölduð og nakin í ljóðum sínum, innan um naívar og blautar píkuteikningar sem endurspegla heita ástarþrána, greddu og losta sem oft er ruglað saman við ástina sjálfa.
Upphafsljóð bókarinnar, „Alvörukonan“, sýnir eðlislæga löngun eftir því að vera elskaður eins og maður er, sem stangast harkalega á við þá staðalmynd sem fólki hættir til að spegla sig í og birtist í háhælaskónum, meikinu og korselettinu sem karlinn færir konunni áður en hún veit af. Viðvörunarljósin fara að blikka en eru hunsuð og fyrr en varir er karlinn fluttur inn.
Fljótlega fer að bera á hnökrum í sambúðinni en þroskað fólk í nýju ástarsambandi vill láta hlutina ganga vel, ekki ergja sig á smáatriðum, ekki gera sömu mistökin aftur og lætur því ýmislegt yfir sig ganga. Ástin er djúp og sjóðheit, eins og sést t.d. í fallegu ljóði sem heitir „Kærastinn minn“ (21) og lýsir brynju sem karlinn hefur komið sér upp til að komast hjá sársauka í lífinu. Stundum er gaman hjá skötuhjúunum en oft er rifist og stundum slegist, mestmegnis einkennist sambandið af gagnkvæmum leiðindum og endalausum vonbrigðum.
Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).
Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:
Kaffiskvettan
Hann skvetti framan í mig kaffi
einhverra hluta vegna stend ég
við kústaskápinn og ég stend þar
þangað til ég er búin að fá vitið aftur
og nú er þetta búið
fyrst þetta er byrjað
því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi
það verður bara meira næst
og ég ætla ekki að bíða eftir því
svo ég opna skápinn
tek út kústinn
og flýg burt.
(62)
Slitur úr orðabók fugla (2014) er fjórða ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur. Hún fer sér hægt í ljóðagerðinni en ferill hennar spannar nú tuttugu ár. Í nýju bókinni eru 33 ljóð sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt eins og titillinn gefur til kynna. Hér birtast m.a. kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga þessir fuglar við okkur erindi.
Hér er á ferð útpæld, þematísk og heildstæð ljóðabók með skemmtilegum vinklum. Myndmálið tengist þemanu náið, fugl er algengt tákn í bókmenntum sem skírskotar í ýmsar áttir en stendur oft fyrir frelsi og frelsisþrá. Myndmálið er skýrt og einkennist af vísdómi og fáguðum smekk, ljóðlínurnar haganlega smíðaðar, húmor aldrei langt undan og niðurstaðan oft óvænt, ef ekki íronísk.
Táknum eins og vængjum, fjöðrum, hvössum goggum og krepptum klóm bregður fyrir í ljóðunum og yfir flögrar lúmsk ádeila sem birtist m.a. í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum. Vísanir eru víða, t.d. í bókmenntir fyrri alda, s.s. Egils sögu, sumar skýrðar í athugasemdum í bókarlok, aðrar svífa yfir vötnum þar til þær tengjast einhverju í huganum sem kalla má almenna þekkingu (miðaldra fólks), eins og t.d. „litla gula fræ / það var ég sem fann þig / svona hnöttótt og skínandi / og stútfullt af möguleikum“ (8).
Eftirfarandi er gott dæmi um ljóð úr bókinni. Hér talar geirfuglinn en eins og kunnugt er dó hann út um miðja 19. öld vegna ofveiði, hann var eltur uppi ófleygur og varnarlaus. Í ljóðinu lýsir fuglinn örvæntingu sinni og feigð. Formið er frjálst en takturinn minnir á forna bragarhætti:
geirfugl
(ertu aftur farinn að gráta?)
skerið mitt sokkið
öndvegið víðsýna
leikvangur ljóssins
og hreiðurklöppin mín fegurst allra
hjarta mitt skelfur
líkt og dauðaþögnin
rétt fyrir jarðskjálftann mikla
angistin nístir sem
logandi teinn
eggið mitt kólnar
á skötuskeri
tjóðraður við
minn titrandi skugga
bíð ég komu mannanna
með bareflin
brugðnu
(25)
Það er alltaf von á góðu frá Guðrúnu Hannesdóttur. Á meðan skáldskapur eins og Slitur úr orðabók fugla er til á Íslandi þarf ekki að óttast að ljóðið hljóti sömu örlög og geirfuglinn.
Ofbeldi og vanræksla gagnvart börnum er mun stærra vandamál í samfélagi okkar en við gerum okkur almennt grein fyrir. Börn sem alast upp við slíkt atlæti bera þess merki þegar þau vaxa úr grasi og eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Í Segulskekkju, fyrstu skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, segir frá konu sem hefur lent í ýmsu í uppeldinu og sambandinu við móður sína, Siggý, sem hún tignar og hræðist í senn.
Geðveiki, „leikhúsleg tilþrif“ (44) og furðulegt uppeldi hafa sett mark sitt á Hildi sem í æsku veit aldrei hvernig aðkoman er heima, hvort mamman er með réttu ráði, hvort fjölskylda er að flytja búferlum eina ferðina enn eða hvort Pétur stóri bróðir hefur fengið nóg og er farinn. Eina ráðið sem hún gat gripið svo hún hrapaði ekki fram af brúninni með Siggý var að slíta öll tengsl við hana. Byrja síðan að byggja upp sjálfsmynd, sætta sig við orðinn hlut og stefna fram á við.
En afleiðingar uppeldisins eru ekki auðveldlega umflúnar; bæling, sjálfsmorðshugleiðingar og sjálfshatur verða hennar fylgifiskar, tilfinningaleg flatneskja, höfnunarkennd og skömm heltaka hana.
Þetta er afskaplega vel skrifuð og falleg saga þótt hún lýsir angist og grimmd, sem verður átakanlegast þegar sjónarhorn barnsins ræður. Í tuttugasta kafla er brugðið upp mynd af heimilinu þar sem þær mæðgur bjuggu síðast saman, þar eru ömurleikinn og hjálparleysið hyldjúp og yfirþyrmandi en því er lýst með myndmáli sem er bæði fagurt og frumlegt.
Dýr koma víða fyrir í textanum og eru táknræn, bæði fuglar, ýmist vængstýfðir eða kramdir, kettir og köngulær. Gullbrá skýtur upp kolli en hún þurfti sem kunnugt er að prófa graut, stól og rúm til að vita hvort hún passaði inn á heimilið og Lína langsokkur á óborganlega senu í sögunni, sterkasta fyrirmynd sem til er. Stíllinn er svo ljóðrænn að sumir kaflarnir gætu staðið einir og sér sem ljóð:
„Regndroparnir eru hreint ekki svo slæmur félagsskapur. Þeir eru taktfastir og það er hægt að stóla á komu þeirra. Yfir dáleiðandi slætti þeirra velti ég fyrir mér hvort hægt sé að vera með áfalla- og streituröskun alla ævi, frá barnæsku og fram í elli. Hvort slík hugtök geti átt við um almenna líðan. Þrumu- og regnguðinn Indra hefur líklega haft auga með mér frá barnsaldri. Þegar ég heyri í honum kalla til mín af himnum og hann rífur upp festinguna verð ég undarlega sátt við það að búa undir þessum himni “ (43).
Við andlát Siggýjar skríður Hildur í skjól í hús hennar á Flatey á Breiðafirði. Þar gerir hún upp við minningarnar og stefnir kannski í átt að frelsandi uppgjöri og sátt og jafnvel ást í kaupbæti en þó er ekkert víst í þeim efnum vegna segulskekkjunnar í lífinu. En í bókarlok er Hildur a.m.k. farin að hallast frekar að því að lifa en deyja.
Sögumaður spyr guð í örvæntingu hvar skekkjumörkin liggi, hvar segulnálin sé (87) og í hvaða átt skuli halda. Eru engin takmörk fyrir hvað er lagt á sumt fólk? Það er ljóst að hér er um keðjuverkun og vítahring að ræða, undir yfirborðinu er þetta ættarsaga fjögurra kynslóða sem allar eru áttavilltar og hafa orðið fyrir einhverju tilfinningalegu hnjaski sem erfitt er að bæta, amman er þögul og lokuð, mamman klikkuð, Hildur skemmd og sonur hennar sjálfsagt eitthvað flæktur þótt hann segist vera kúl.
Fólk reynir að komast undan sársaukanum á ýmsa vegu, með kaldhæðni, vímu eða trú á guð, ástina og fyrirgefninguna. Siggý, með allt sitt rugl og kenjar, er eina manneskjan í ættinni sem hefur kjark til að biðjast fyrirgefningar, þótt það sé eftir dauðann. Vonandi nær Hildur áttum, samúð lesandans er með henni og öllum vanræktum börnum heimsins.
Söguþráður Rogastanz eftir Ingibjörgu Reynisdóttur er í stórum dráttum á þessa leið: Einhleyp og barnlaus kona (42) sem er smá brussa og drekkur aðeins of mikið, býr í 101 og á skrautlegan vinahóp, hittir draumaprinsinn en þarf að yfirstíga ýmsar hindranir, s.s. fordóma og afbrýðisemi, til að geta höndlað hamingjuna. Allt hljómar þetta frekar ófrumlega en kemur kannski ekki að sök í bókarkorni ef efnistök, mál og stíll eru nýstárleg eða spennandi, erindið brýnt eða hægt er að bjarga sér fyrir horn með góðum húmor. Því er bara ekki að heilsa í þessari bók.
Það slær lesandann strax að sagan er að mestu skrifuð í nútíð sem virkar yfirmáta ankannalegt. Það er eins og verið sé að lesa handrit að sjónvarpþáttum eða fyrirmæli í leikriti:
„Sara veit hvorki í þennan heim né annan. Við hlið hennar sefur næturgestur eins og ungbarn, vafinn í mjúka dúnsæng. Það hvílir ró yfir hlýlegri íbúðinni. Á gömlum tekkskenk hringsnýst vínylplata á eikarklæddum „vintage“ Pioneer-plötuspilara frá árinu 1975. Nálin í spilaranum hjakkar í djúpri rispu á ágætu lagi hljómsveitarinnar Smokie, Living next door to Alice. Á sófaborðinu standa tvö vínglös ásamt tómri rauðvínsflösku. Karlmannsjakki hangir á stólbaki og taska Söru liggur opin í sófanum“ (5).
Persónurnar eru kynntar til sögu með ítarlegri upprifjun á fortíð þeirra sem gerir lítið fyrir framvinduna og lengir söguna sem er alveg nógu löng fyrir (334 bls). Gallerýið er ansi skrautlegt, enda lífið svo skemmtilegt og fjölbreytt hér á landi, besti vinurinn er hommi, besta vinkonan er dönsk lesbía. Þegar Sara keyrir vinkonuna í mæðraskoðun rekst hún utan í bíl nágrannans sem þá ryðst inn í söguna og gerist ansi fyrirferðarmikill. Hann er karlrembusvín eins og þau gerast verst, með bjórbauk í annarri hendinni og fjarstýringuna í hinni. Og Borislav, eins og hann heitir, er útlendingur í ofanálag, verkamaður sem býr í Breiðholtinu og ætlar að verða ríkur af Tupperware-sölu. Er hægt að vera fyrirlitlegri á mælikvarða lopatreflanna? Tilgangurinn með yfirgangi hans í sögunni er væntanlega sá að vekja athygli á veikri stöðu margra kvenna og varpa ljósi á meðvirkni Söru en þetta verður afskaplega tuggið og þreytt þema til lengdar.
Stíllinn er tilþrifalaus og flatur, ég man eftir einu skemmtilegu orðasambandi í allri sögunni, það er þegar nál sem hjakkar í bilaðri plötu verður hvíldinni fegin. Mig rak í rogastans þegar allt fór upp í loft í bókarlok og sagan endar í óvissu, eins og von sé á annarri seríu í þessari sápuóperu. Vonandi verður ekki af því, ekki vildi ég hitta neina af þessum persónum aftur. Það vekur athygli að á bókarkápu segir: Þessi saga byggist á persónum og atburðum sem eiga sér stað í raunveruleikanum. Er það eitthvað sérstakt?