ljóð

Beinhvít blöð, vot af tárum

Út er komin ný ljóðabók eftir Ásdísi Óladóttur (f. 1967). Fyrsta ljóðabók Ásdísar, Birta nætur, kom út 1995. Úrval úr ljóðum hennar, Sunnudagsbíltúr, var gefið út 2015 þannig að á næsta ári spannar skáldferill hennar 30 ár. 

Nýja ljóðabókin heitir Rifsberjadalurinn. Hún skiptist í tvo hluta, Allt nema ég og Á nefi mínu hvílir regnhlíf. Fyrri hlutinn er bálkur sem lýsir glímu ljóðmælanda við ranghugmyndir, sektarkennd og ofsóknaræði; raddir heyrast í höfðinu og sjálfsvígshugsanir leita á. Þetta eru raunsæisleg og hreinskilin ljóð, ómyrk í máli um hvernig geðveiki nær undirtökum, um einhvers konar lækningu með lyfjum („Lífæð mín 30 mg“) og einhverjum bata. 

Kláraði námið 

en fékk enga stjörnu

á rassinn.

Minna veik

og varð minna

og minna veik.

Var komin 

í rifsberjadalinn

eða á lyfið

sem ég tók inn.

Rifsberjadalur hefur skemmtilega tengingu við lyfið Risperdal sem virkar á flest einkenni geðklofa og er notað við bráðum og langvinnum geðtruflunum. Dalur þessi er væntanlega sólríkur og notalegur staður þar sem hægt er að leita skjóls, svipað og að vappa inn í Víðihlíð í samnefndu ljóði Megasar. 

Í seinni hluta bókarinnar kveður við öðruvísi tón og skáldlegri. Þar eru japönsk ljóð skrifuð á blöð kirsuberjatrjánna, draumar eru fiskar sem eru dregnir á land og glerbrotum rignir um nótt. En sársaukinn er enn til staðar og einsemdin alltumlykjandi: „allt í góðu lagi nema ég“ (46).

Ljóð sem heitir Samtal fjallar um orð og þar er „nú-na“ endurtekið stef. Því lífið er stutt og dauðinn þess borgun, eins og annað skáld kvað forðum, og boðskapurinn er að allt okkar streð verður fyrr en varir gleymt og grafið.

ÆVI

Maðkur,

sandmaðkur

skilur eftir sig 

á leirunni 

flókna

slóð,

minnisvarða 

um ferð.

Það fellur að.

Síðast kom út ljóðabók frá Ásdísi 2020, Óstöðvandi skilaboð, þar sem einsemdin er einnig alls ráðandi. Sársaukinn er mikill í báðum þessum bókum og skáldkonan veltir fyrir sér hvort orðin nái almennilega utan um hann. Dregin eru upp eftirminnileg mynd: Orðin fæðast og falla: „á beinhvít blöð / vot af tárum“.

Prísundarfiskar og annálamyrkur

Í nýjustu ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Kallfæri, eru um 60 ljóð. Aftast eru nokkrar skýringar. Guðrún á brýnt erindi, hún þarf sannarlega að komast í kallfæri við lesendur og nú er það okkar að hlusta. 

Ljóðin eru mörg hver flugbeitt og tekin er skýr afstaða gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og og hvers kyns yfirgangi. Sum bera með sér söknuð eftir fortíð eða tengjast náttúrunni; þar blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja. Víða er frost og ís í ljóðunum, vetrarhörkur og klakahröngl og „rabarbarastóðið fyrir utan kreppir tærnar í angist” (35).  Rödd ljóðmælanda er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint. 

Fyrstu tvö ljóðin í bókinni draga fram liðinn tíma sem mörgum er ókunnur og svipað þema er í ljóðinu „myrkur” á bls. 55. Í amstri daganna, umferðarnið og síbylju, heyrist ekki hátt í birtingarhljómi, fjaðraþyt eða fornu tauti og skrjáfi en við ættum kannski að leggja eyrun við og muna uppruna okkar og fortíð. 

Þriðja ljóðið „tónverk í smíðum” er í sama dúr. Þar eru fyrirboðar þess að verið er að eyðileggja náttúruna með endalausri græðgi. Áður en við er litið er búið að leggja landið okkar undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur.  Orðið prísundarfiskur kemur þar fyrir;  lax sem elst upp í keri eða kví.

Í  ljóðinu „Jeríkó, þaulæft atriði” er vísað til þess að stríð hafa verið háð um aldir og þau bitna mest á börnum. Lúmskt fyndið er ljóð um internetið (já, reynið bara að yrkja eitthvað bitastætt um það óskáldlega fyrirbæri) og yfirvofandi endalok þess.  Og ljóð um hlátur kvenna snerti mig, það minnir á lífsbaráttu formæðra okkar og upp rifjuðust ummæli skáldkonunnar Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim – konur óttast að karlar drepi þær.

VINDHANAHLÁTUR

í þann tíð hlógu konur

hvorki dátt né lengi

kannski stöku álfkona á nýársnótt

eða stúlka í hópi barna

undir rökkursvefninn

í þessu landi var hlátur jafn galinn

og vindhani á bæjarburst

hefði ekki lafað þar lengi

nema ryðgaður skakkur

með óþolandi ískri

til einkis að tjasla við hann

slitinn úr öllu samhengi við vindáttina

og nauðsynleg jafnaðargerð

eins gott að sleppa honum alveg

(32)

Guðrún er meistari í orðasmíð og hugrenningatengslum eins og ótal dæmi sýna; „reynið bara að segja upphátt: þrír vetur í röð … og fallið er bratt niður í dimmt annálamyrkur” (36). 

Ekki eiga mávar sér marga málsvara en Guðrún dregur upp mynd af þeim, leitandi sér eilíflega að góðum stað til að deyja á.  Ruslahaugarnir þar sem þeir dvelja löngum eru friðsæll staður; með volgri vélarolíu  og ryðrauðum salla sem fellur hljóðlaust (41). Allt á sinn tilverurétt í heimsmyndinni.

Lljóðin í Kallfæri eru ort af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Þau eru hvert öðru betra. Ég staldraði oft við mörg þeirra og naut þess að lesa þau, s.s. telos, gullgerðarlist og „dátarnir staðföstu. 

Bókin endar á himnabréfi til lesenda en skv. gamalli trú voru það bréf sem skrifuð voru á himnum og bárust síðan til manna. Þeir sem komust yfir slík bréf töldust hólpnir í þessu lífi og öðrum (61). Í Kallfæri er sannarlega reynt að koma himnabréfinu til okkar, vara okkur við og veita sáluhjálp. En við þurfum að leggja eyrun við.

Gamalt þulubrot

 

29187203_836896113168657_619012986169720832_o

Oddný Guðmundsdóttir

1908-1983

(mynd úr Iðunni, 1933)

 

 

Bráðum kemur pósturinn með bréfið til mín.

Ég sópa og þvæ í kotinu, og sól í gluggann skín.

Ég sópa allan bæinn og segi: Afi minn,

viltu að ég geri við gamla stakkinn þinn?

Viltu, að ég segi þér sögur, litla Björg?

Sögur eða ævintýr, ég kann þau svo mörg.

Sögur verða gamlar, en ein er alltaf ný:

Aldrei kemur bréfið, þó ég bíði eftir því.

Ofurfínlegt lítið ljóð…

komdu

fylltu hús mitt litum heitum

hlæjandi litum

kyntu rauðan eld brenndu mig

 

ein skínandi perla

ein stund af lífi

handan hversdagsleikans.

 

Langt úr fjarska yljar hann nú

unaður þess sem aldrei gerðist.

segir Unnur Eiríksdóttir í ofurfínlegu litlu ljóði, Úr fjarska, sem engu að síður segir margt um kvæðalag hennar. Sannleikurinn er sá að yrkisefni, orðfæri hennar má ekki verða rómantískt um of (Jónsvökudans, Logar), þarf á að halda efnivið verulegrar reynslu og tilfinningalífs til að takast til hlítar. Ekki lætur henni heldur alls kostar að yrkja út af „vandamálum“ heims og mannlífs, pólitískum tilefnum (Martin Luther King, Lúmúmba, Víetnam) þótt hún freisti þess í þriðja þætti bókarinnar, ljóðum sem i sjálfu sér eru allvel gerð.

Ólafur Jónsson (1936-1984), fjallaði um ljóðabók Unnar Eiríksdóttur, Í skjóli háskans (1971), í Vísi, 1. febrúar 1972 og sagði henni í leiðinni aðeins til.  Ég velti hins vegar fyrir mér hvað það er sem er ofurfínlegt og lítið í þessu samhengi, þetta er reyndar ekki ljóð eftir Unni heldur brot úr þremur ljóðum hennar. Svo heldur hann áfram:

„Unnur Eiríksdóttir hefur áður birt skáldskap, Ijóð og sögur, í blöðum og tímaritum, og ein skáldsaga eftir hana held ég að hafi komið út, Villibirta, árið 1969. Sú bók fór framhjá mér á sínum tíma. En Ijóð hennar, Í skjóli háskans, er einkar viðfelldinn lestur, vandaður og smekklegur texti það sem hann nær: Unnur reynist einn af þeim höfundum er maður hefur af lauslegan pata úr blöðum en kemur reyndar á óvart í bókarlíki.“

Unnur (1921-1976) sendi svo frá sér smásagnasafnið Hvítmánuð 1974 sem fékk litla sem enga umfjöllun. Helstu yrkisefni Unnar eru konur, samskipti, sambönd, frelsi og tilvist.

Hún þýddi m.a. Friedrich Durrenmatt, Jean Paul Sartre og Colette.

Hér má lesa þrjú ljóð eftir Unni og smásöguna Konan og dagurinn, sem birtist í 19. júní 1976.

Screen Shot 2018-03-04 at 10.34.54

Unnur Eiríksdóttir

 

 

Yfir Áfallaheiðina

lox_hallgrim_16-03-_732349y

Hallgrímur Helgason mynd: Librarius

Í skáldverki eftir Hallgrím Helgason býst maður alltaf við miklu stuði. Von er á orðaleikjum sem hann er meistari í, þær systur tvíræðni og kaldhæðni eru mættar, óvæntu sjónarhorni er beitt t á hvunndaginn, húmorinn er bullandi, ádeilan sjóðandi, nýyrði og níðyrði hvert um annað þvert og allt þetta leysir úr læðingi góðan fíling. Í nýju ljóðabókinni, Fiskur af himni, má finna þetta allt á sínum stað, auk nýmetis.

Laus undan fargi

Skáldævisaga Hallgríms Sjóveikur í Munchen, sem út kom 2015 og fjallaði um fortíð, minni og tilurð skálds, olli fjaðrafoki m.a. vegna þess að þar segir hann frá því þegar honum var nauðgað sem „Ungum Manni“. Kauði komst að því að heimurinn var ekki bara gelgjuraunir, bólur og bömmer; hann var beinlínis hættulegur. Hallgrímur skilaði skömminni með látum þrjátíu og fimm árum síðar, þá var gríman felld, sár reynsla afhjúpuð og töffaraskapurinn laut í lægra haldi. Um leið birtust ný svipbrigði hjá skáldinu, mildari rödd og hreinni tónn sem þegar tók að klingja í síðustu ljóðabók, Lukku, sem Hallgrímur orti óbundið eins og laus undan þungu fargi.

Í sjávarháska

Nýja bókin, Fiskur af himni, 03.11.2014-03.11.2015, samanstendur af ljóðum ortum á þessu tiltekna tímabili, í tímaröð og án titils en merkt dögunum sem þau verða til á. Hér er róið á dýpri og persónulegri mið en nokkurn tímann áður í verkum Hallgríms en „úthafshljóð“ trillan lendir í miklum sjávarháska. Framan af er þó hversdagsleg ró yfir ljóðunum, árstíðir koma og fara, góðar fréttir berast og lífið gengur sinn vanagang. Í ljóðinu frá 28.11.14 má sjá dæmi um kunnuglega, póstmóderníska nýyrðasmíði Hallgíms og smellnar myndir, s.s. „verkþögul amma, að feta kynslóðann, grjótþunguð hlíð, hamrablár frændgarður, frá tólgartíð, hríðarhali, stríðniguðir…“ Ljóðin eru einföld og skýr, myndræn og sposk.

07.07.15

Strandarefur skýst upp úr fjörunni

og skoppar upp urðina

brúnn með hvítan hala

Einmitt þannig dröttumst við

með veturinn í eftirdragi

alltof langt inni í sumarið

(63)

01.01.15

Á nýársdagsmorgun í nýföllnum snjó

geng ég fram á huggulegt lítið flugslys

svartrjúkandi brunaþúst

í bómullarmjöllinni miðri

Rek síðan augun

í yfirsnjóuð fótsporin í kring

og man að einmitt hér

er brotlendingarstaður hins liðna

Hé koma eyjarskeggjar saman

til að fylgjast með árunum farast

ég greini rjúkandi kolin

af ap jún sept nóv

(37)

Frá sorg til sáttar

En þann 26.9.15 skipast veður í lofti. Áfall dynur yfir, lítið barn deyr og skáldið þarf að leita á náðir ljóðsins til að lægja öldurnar í huga sér. Yrkja sig frá reiði og sorg til sáttar. Ljóðin miðla þessum sterku tilfinningum af djúpri einlægni hins sorgmædda manns, „dauðinn er svo lélegur / í líkindareikningi / Svo ömurlega lélegur“ (85) og með orðsnilli skáldsins: „Við setjum undir okkur hausinn / og látum gömul húskarlagen / vísa okkur veginn / yfir Áfallaheiðina“ (88). Það er litla barnið; andvana fætt og varalitað af óvini lífsins (90), sem er eins og fiskur af himni, kaldur og heimtur úr hafi. Fiskum hefur rignt af himni í raunveruleikanum, kvikmyndum og skáldskap, það hefur hugsanlega óljósa, táknræna eða yfirnáttúrulega merkingu en er fyrst og fremst ógnvekjandi atburður og tilgangslaus sóun.

Tíminn og ljóðið

Í næstsíðasta ljóði bókarinnar hefur skáldið ort í átt að hægum bata. Sálarró og viska þess sem hefur reynt margt birtist í ljóðlínum eins og „Bernskan er blóm / sem blómgast í skugga / og þolir verst þá birtu / sem bjó hana til“ (11) „Listin er líf okkar / með augum annarra“ (12), „Allir foreldrar eru hálfvitar / þeir halda að börn séu börn“ (57) og „Því lengst það lifir / sem lítið deyr“ (97). En að lokum er vitnað í fleyg orð Vilborgar Dagbjartsdóttur sem eiga einkar vel við:

Lífið er stærra en dauðinn

og dregur sig aðeins í hlé

rétt á meðan hann athafnar sig

en flæðir síðan

þeim mun kröftugar fram

í allri sinni miskunnarlausu

ofanjarðargleði

En það að vera harmþrunginn

eða sorgbitinn

er ekki það sama

og að vera óhamingjusamur

(101)

Fyrir réttum tuttugu árum sló Hallgrímur um sig í hinu skammlífa tímariti Fjölni með frasanum fræga: „ljóðið er halt og gengur með hæku.“ Hann er sjálfur kominn ansi nálægt hefðbundnu yrkisefni og sígildu ljóðmáli, hallur undir einfaldleika og formleysi, en þó aldrei „geðleysi“. Í Fiski af himni birtist persónuleg, yfirveguð og notaleg hlið á Hallgrími. Í einlægum ljóðum segir frá hvunndagslífi sem skyndilega fer á hvolf, þema sem allir geta tengt sig við. Og eru nokkur meðul betri við sorg en tíminn og ljóðið?

 

Birt í Kvennablaðinu, 15 nóv 2017


Beittur kjarninn stendur einn eftir

„Í ljóðheimi Kristínar er ekkert eins og maður heldur,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir, gagnrýnandi, um nýjustu ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningargluggum.

Þurfum við á ljóðum að halda? Hafa ljóðskáld sérstöku hlutverki að gegna í samfélaginu? Eiga þau að yrkja til að létta fólki lífið, benda á fegurðina, leika sér með tungumálið, hugga og líkna?  Eða eiga þau að bægja frá okkur áhyggjum og kvíða, halda valdi og ofbeldi í skefjum? Er samt ekki langbest að ljóðið sé stillt, smart, hnyttið, krúttlegt, ekki of djúpt, ekki of flókið eða óskiljanlegt? Eiga ljóðskáld yfirleitt nokkuð erindi við valdhafana, samborgarana, lesendurna, mig persónulega með öllum þessum litlu og snyrtilega hönnuðu ljóðabókum sem koma út á nokkurra ára fresti í takmörkuðu upplagi? Hver má annars vera að því að lesa ljóð, er ekki alltaf brjálað að gera? Jú, það er vangefið mikið að gera, en það er svo mikið hjal og fjas og síbylja í gangi; hjakk, klisjur og frasar; merking orða er útjöskuð og margtuggin. En þannig er ljóð nefnilega ekki, þegar vel tekst til. Þess vegna lifir það, þess vegna þurfum við á því að halda. Og þá snúum við okkur að ljóðabók sem gæti breytt heiminum okkar.

Ekkert froðusnakk

Feril Kristínar Ómarsdóttur, ljóðskálds og rithöfundar með meiru, hófst með látum fyrir sléttum 30 árum með ljóðabókinni Í húsinu okkar er þoka sem hún gaf út sjálf og leikritinu Draumar á hvolfi sem sigraði í leikritasamkeppni Þjóðleikhússins 1987. Síðan þá hefur hún verið afkastamikil á sviði bókmennta, skrifað skáldsögur og ljóðabækur auk leikrita, m.a. fyrir útvarp, og smásagna og hlotið margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín sem eru einkar frumleg og hafa alveg sérstæðan karakter.

Áttunda og nýjasta ljóðabók Kristínar heitir Kóngulær í sýningargluggum og er knálega ort og myrkt, ekkert léttmeti eða froðusnakk frekar en fyrri daginn og við fyrstu sýn er erfitt að átta sig á hvað þessir brotakenndu og furðulegu textar eiga að merkja. Bókin skiptist í 5 hluta, einn þeirra heitir „úr dagbók“, og er að sögn höfundar persónulegur bálkur, en í heild eru ljóðin í bókinni tæplega sextíu. Þau fjalla um samtíma, samhengi og samfélag; eru myndræn, táknþrungin og brjóta upp hið viðtekna. Þau falla ekki að hefðbundnum væntingum um samband orða og hluta og eru þess vegna torskilin  og áleitin og ofan í kaupið fáránlega fögur á einhvern seiðandi hátt.

Hverdagslegt klukkulíferni

Hefðbundin sjónarmið er hvergi að finna í þessari bók né stirðnað orðalag eða kunnuglegar myndir. Við sjáum krakka þræða saman varirnar með nál og tvinna, hafmeyjar með glerbrjóst stinga hausnum uppúr sjónum, himinninn er svangur og tannlaus, trúnaðarmaður stafrófsins segir kvöldfréttir og herskip flytja peysur og sokka til landsins. Fremst í bókinni eru einkunnarorð þar sem lesanda er boðið að líkamnast upp á nýtt áður en stigið er inn í launhelgar kóngulónna sem syngja í fyrsta ljóði bókarinnar, sem er svo fallegt þegar Kristín les það:

(hlustið! Viðsjá, 9.október 2017)

Þarna er tónninn sleginn, með undarlegum orðum, endurtekningum, furðum og óvæntum atburðum. Lesandinn er staddur á stað þar sem allt getur gerst en sýningarstjóri er við völd.  Stað þar sem við erum vélmenni og líkneski og setjumst til borðs í dúkkuhúsi, hjakkandi í hversdagslegu klukkulíferni; verðir spenna boga og miða á okkur og lögreglan innsiglar eldhúsið, það eru yfirheyrslur og handtökur og við erum dregin fyrir dómara, við snyrtum hugarfarið og rekjum upp hugsanirnar til að komast af. Þetta er ansi drungaleg sýn, eiginlega óhugnanleg og leiðir hugann að distópíum eins og í Sögu þernunnar (Handmaids Tale) og 1984 þar sem firringin og valdið hafa náð yfirhöndinni yfir mennskunni.

Vélræn kerfi

Boðskapur, myndmál og hugmyndafræði Kóngulóa í sýningargluggum smella inn í samfélagsumræðuna nú um stundir þegar verið er að draga valdið í efa, rýna í skrifræðisleg ferli og vélræn kerfi, þegar venjulegt fólk ræðst til atlögu ef réttlætiskennd þeirra er misboðið. Það er hamrað á fátækt, óréttlæti og grimmd í þessum ljóðum, myndmálið tengist líkamlegu ofbeldi og kvöl; höfuð eru afskorin, fingur klipptir af, flísar standa í augum, fingur er brotnir, gubbað í skál, þjáningin hverfur ekki, rýtingur er rekinn i hjartað. „Herra dómari“ er fulltrúi valdsins og honum er sama þótt mjólk renni úr geirvörtum utangarðskonunnar (54). En hvað getur maður sosum gert annað en skrifað dagbók, gert leikfimiæfingar, keypt í matinn (93); verið kónguló sem hniprar sig í sýningarglugga þar sem er ekkert líf, ekkert skjól. Það er þó örlítil vonarglæta, rétt á meðan „byltingarstelpur“ kasta eggjum í veggina, næst kasta þær í andlitin.

Bölsýnn lambaleggur

Ef við gefum ljóðunum tíma og alúð opnast þau og tengjast á margvíslegan hátt með endurtekningu bæði orða, mynda og hendinga, eins og vefur. Orð eins og „glerbrjóst“ kemur fyrir í nokkrum ljóðum, óvenjulegt orð og undarleg hugmynd sem vekur margvísleg hughrif. Orð og fyrirbæri tengd valdi, þ.e. yfirheyrsla, lífverðir, leikbrúða, lögregla, herskip og vegabréfsáritun, eru hér og þar í gegnum bókina. Endurtekningarnar skapa tilfinningu bæði fyrir heild og vélrænum takti. Tvö ljóð í röð heita „kveðja“, hér er dæmi um frumlegar myndir sem láta mann ekki í friði, sérkennilegan húmor og óvænt samhengi:

„hönd hvílir á diski
glös standa vörð við sorgardúk
einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg
höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar
svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

sósan teiknar varir á dúkinn

ég gaf hönd mína fyrir málsverð
hugsar skuggavera klædd döprum fötum
kápufóðrið: grátmúrinn

hve langa stund það tekur því að kveðja
hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun
notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

ekki skilja mig eftir
hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði“ (45)

 

Ljóð eins og „Hindranir yfirstignar, við vélmennin , yfirlýsing, boðflenna, ilmur“; ég vildi geta lesið þau öll hér en það er víst fleira efni í þættinum.

Og hvað er „minnisflís“? Allavega, hlutskipti skáldsins:

„moldin geymir orð sem ólíkt mér þekkja vitjunartímann

hinar ólíku árstíðir

þau stinga sér upp úr jörðinni í þessari bók

sofa í öðrum

tíminn er naumur

mér ber að huga að moldinni

sem ég er búin til úr

bregðast við éljum, sólskini, regni – “

(85)

Eitt ljóð heitir „gluggakistur“, og kveikir hugrenningar um hvernig má borga reikningana þegar allt um þrýtur, hvernig allt er falt og sá sterkari neytir yfirburða sinna. Og ljóðið „kústaskápur fasistans“ má túlka sem svo að byltingin éti börnin sín og hvernig alltaf má snúa á valdið. Óhugnaður er alltaf yfirvofandi í þessum ljóðum, þjáningin er alls staðar, endalaus og sjálfvirk. Í ljóðinu „handtaka“ tala veggir,  innilokunarkenndin er yfirþyrmandi, það er engin undankomuleið.

 

„næst tóku veggirnir mig höndum

til varnar hagsmunum þínum

kallaðu okkur virkið

mæltu veggirnir og þrengdu að höfði mínu

múmíu úr spýtum og brestum

haustflís gætir mín“ (56)

Í ljóðum Kristínar hefur allur óþarfi verið skorinn burt, það er skerpt á stökum orðum sem stingast upp af blaðsíðunum, bara kjarninn stendur eftir, gljáandi og beittur og lesendum er látið eftir að kljúfa hann. Stundum er lykil að túlkun að finna í titli ljóðs en hann getur líka verið villuljós. Í ljóðheimi Kristínar er ekkert eins maður heldur, ekkert er víst nema þar má búast við alls konar usla og undrum.

Viðsjá, 9.október 2017

Sárabindi á heiminn

screen-shot-2017-10-11-at-13-34-44

Ný ljóðabók eftir Dag Hjartarson, margverðlaunað ungskáld. Heilbrigð og mannbætandi lesning, segir Steinunn Inga Óttarsdóttir.

Heilaskurðaðgerðin er lítil, sítrónugul ljóðabók eftir Dag Hjartarson (f. 1986) sem hefur skv. tísti skáldsins verið 5 ár í smíðum og kostar 1990 krónur „eins og máltíð á Rikki Chan“. Hún inniheldur 23 tilfinningarík ljóð um ást, sjúkdóm og dauða. Í lengsta ljóðinu, sem ber samnefndan titil, situr ljóðmælandi við sjúkrabeð unnustunnar og hugsar um hvernig pappír, sem dregur í sig orð og tár, getur verið sárabindi á heiminn. Ferlið frá veikindum til bata er klínískt og krónólógískt, sagan er rakin frá því sjúkdómurinn greinist; niðurstöðurnar eru svarthvítar myndir af „brothættu landslagi“ sem vísa dauðanum til vegar (13); að segulómun lokinni er komið inn á skurðstofu og loks tekur við sjúkrahúslega þar sem morfíni er dælt í æð og umbúðum vafið um samansaumað höfuðleður.

Dagur hefur gott vald á myndmáli, það er skapandi og frumlegt en aldrei væmið eða klisjulegt. Dauðar flugur í kirkjuglugga eru myndrænar, sólin hefur þurrkað sálir þeirra upp en „eftir liggja fislétt hylki … eins og stafir í nýju stafrófi / fyrir sálmaskáld“ (18) og minni ömmu raknar upp eins og peysa sem hún prjónaði forðum, mynstrin í lífi hennar hverfa og nöfn verða lausir þræðir (19). Gott dæmi um hátt skáldsins má sjá í eftirfarandi ljóði:

Næturkrem

þú fórst í Kringluna
að leita að næturkremi

og ég gat ekki hætt að hugsa
hvað það væri fallegt
að til væru sérstök krem
úr myrkri
og að einmitt þú
– konan sem ég elskaði –
skyldir hafa þig sérstaklega til
fyrir drauma

(12)

Tungutak og hugmyndir snúast lipurlega um heildstætt þema, þar sem nafnið á heilaæxlinu er eins og óskiljanlegt götuheiti í alsnjóa borg, fjarlægir vitar blikka til viðvörunar og við höfnina standa gámar fullir af depurð.

Ljóðin í Heilaskurðaðgerðinni eru falslaus og huggandi, það er ekki vaðið inn í sársauka og ótta með dramatískum lýsingum eða tilfinningaklámi heldur er merking sköpuð með myndrænum samstæðum og einlægni. Hér er engin beisk ádeila, engin stríð átök við form né efni, en allt gengur leikandi upp því það er talað beint frá hjartanu. Hreinlega heilbrigð og  mannbætandi lesning.

JPV forlag, 2017

36 bls

 

Kvennablaðið, 11. okt. 2017

Ofurseld

Eins og ég er nú lítil ljóðakelling… ofurseld ljóðum Kr.Óm.

 

„amma þín skuldaði sjónvarpinu pening og þú erfðir skuldina

sast hlekkjuð fyrir framan tækið en óskaðir þér að liggja hjá mér

og tókst sjálfsmynd á myndavélina og sendir systrum þínum

og mér og ég lagði ljósmyndina hjá gleraugunum á koddann

klæddi mig úr sokkunum og sofnaði – vært – eins og safngripur“

(51)

Bölsýnn lambaleggur

iceland-poet338x450

Kristín Ómarsdóttir, mynd: http://www.ralphmag.org/GW/reindeer-woods.html

Er að böggla saman ritdómi fyrir rúv um ljóðabók Kristínar Ómarsdóttur, Kóngulær í sýningarglugga. Þetta er kvöld númer þrjú sem ég sit við að skrifa, helaum í öxlinni og að auki hrollkalt þar sem ofnarnir eru í ólagi í húsinu. Mig vantar bara berkla og óendurgoldna ást til að uppfylla staðalmyndina. Það er nógur efniviður í amk 20 síðna ritgerð um Kóngulærnar. Er stórhrifin af þessu til dæmis:

hönd hvílir á diski

glös standa vörð við sorgardúk

einnig logarnir sem með hraði eldast, gestirnir kveðja

 

höndin á diskinum minnir bölsýnan á lambalegg

höndin á diskinum minnir bölsýnina á lambalegg

 

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleiku kökurnar

svo fagurt snerti hún snitturnar – bleikar kökur

 

sósan teiknar varir á dúkinn

 

ég gaf hönd mína fyrir málsverð

hugsar skuggavera klædd döprum fötum

kápufóðrið: grátmúrinn

 

hve langa stund það tekur því að kveðja

hugsar fylgdarkonan og stingur augunum í vasann, brýtur saman eyrun

notar varirnar í kossa á mjúkar kinnar úr hörðnuðu regni

 

skuggarnir, eins og farartækin úti, sameinast regninu

 

ekki skilja mig eftir

hvíslar höndin væri hún ekki stödd hér heldur í ljóði

(45)