bókmenntagagnrýni

Að brenna húsið til að sjá mánann

„Maður man og á í höfði sínu dýrindis upptökur og bara kveikir á og fer þangað“, segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, í sjálfsævisögu sinni, Stúlka með höfuð. Sagan er smiðshöggið í ættarsöguþríleik en formæður hennar voru stúlkur með fingur og maga.

Einlæg og nærgöngul

Stulkamedhofud-175x261Í sjálfsævisögum  ganga höfundar misjafnlega nærri sjálfum sér enda markmið og tilgangur þeirra margvíslegur. Sjónarhornið ræður miklu og áhugavert að skoða hvað ratar í ævisögu og hverju er sleppt til að búa til ímynd eða sjálfsmynd úr brotakenndum minningum. Aðferðirnar eru mismunandi, margir fegra og göfga sögu sína, fæstir afhjúpa lífshlaup sitt grímulaust en fela heldur og bæla það sem ekki kemur þeim vel í heildarmyndinni, loks er sumu hreinlega stungið undir stól. En skemmst er frá því að segja að einlæg og nærgöngul sjálfsævisaga eins og Þórunnar er sjaldséð og mikill happafengur.

Tíminn er ekki lína

Sagan hefst í föðurhúsum, Tóta litla elst upp meðal sjö systkina, pabbinn er flugkappi, móðirin einkabarn og stúdent. Farið er yfir skólaárin, samband  foreldranna sem endar með sársaukafullum skilnaði, sumarstörfin, sveitadvölina og fiskvinnuna, vinkonurnar, sjensana og menntaskólann. Þá er heimdraganum hleypt, utanlandsferðir, námsárin og svo hjónalíf og barneign. Lífshlaupið er dæmigert (a.m.k. framan af) fyrir manneskju sem fædd er á Íslandi um miðja síðustu öld og sett í skáldlegt og þroskað samhengi, líkt og hjá fleiri höfundum af 68-kynslóð sem skrifa nú í óða önn minningabækur sínar.

Mesta áherslan er á æskuna og fram yfir tvítugt, einkum á það tráma sem skilnaður foreldranna var. Þegar hún kemst til vits og ára tekur bóhemlífið við með ýmsum tilfæringum og skemmtilegum tilraunum. Sagan er ekki alveg í krónískri röð heldur kvikna hugrenningar hver af annarri og tengjast á ýmsa vegu. Tíminn er heldur ekki lína, „Þetta eru tvenn ímynduð lönd, fortíðin og framtíðin. Hrygglengjan er föst í núinu, vængirnir dreyma sig burt. Hvor í sína átt“ (315).

Skrýtin gimbur

Þórunn hefur mikinn húmor fyrir sjálfri sér og kallar sig skrýtna gimbur, galning og lukkugæs. Hún hefur líka húmor fyrir lífinu og kokkar enga sorgarsúpu eins og hún orðar það þrátt fyrir erfiðleika og skakkaföll og vill ekki að skrifa ljótt um samferðafólk sitt. Hér eru engir skandalar, ekkert slúður eða illmælgi. Allir eru yndislegir, fagrir og góðir á sinn hátt í minningunni. Það er hins vegar galli að alltof margir  eru nefndir til sögunnar í svip og hér hefði mátt skerpa línur, sérstaklega í kaflanum um menntaskólaárin.

Foreldrarnir fá skilning og samúð þrátt fyrir brotalamir sínar, því frá þeim kemur sitthvað sem gerir mann að því sem maður er. Þórunn segir að sér hafi í gegnum árin tekist að stilla saman ólíka heima foreldra sinna og þannig vanist mótsögnum í sjálfri sér og  lífinu (162). Það er stórt skref í lífi og þroska sérhverrar manneskju.

„Gangandi taugaþúfa“

Einlægnin í sögunni er einstök, það nennir enginn að lesa prakkaralegar drengjabækur, glansmyndakenndar frægðarsögur eða karlagrobb eftir að hafa lesið Stúlku með höfuð. Og höfuðið er stórt, það er „gangandi taugaþúfa“, fullt af alls konar hugsunum og minningum; um Reykjavík síðustu aldar, laugardagsbaðið og sveskjugraut í vömbinni, uppeldisaðferðir og atlæti kynslóðar sem hafði lifað heimstyrjöld – um veröld sem  var.

Það er svo margt sem hefur áhrif á þroskann og sjálfsmyndina, margs konar áföll og sigrar, álit annarra, tíska og hippamenning, hass og sýra, vinátta, kynlíf og ástarsambönd en á endanum kemst stúlkuhausinn furðu heill frá þessu öllu. Sjálfsmyndin hefur breyst frá bólóttum og viðkvæmum gleraugnaglámi sem er skrýtinn að innan og ömurlegur í leikfimi yfir í fallega og lífsreynda konu sem er þakklát fyrir gjafir lífsins.

Frábær stílisti

Stíllinn er ljóðrænn, fyndinn og tregafullur, fullur af dásamlegu trúnaðartrausti. Orðfærið er mjög skemmtilegt, forneskjulegt og frumlegt í senn, enda Þórunn frábær stílisti. Sem dæmi mætti nefna að taka trú dýrúðar (gerast grænmetisæta), mánatíðir (blæðingar), eiga flugpabba, að landlasta o.m.fl.

Bókina prýða bæði ljósmyndir (af sparihliðunum) og teikningar Þórunnar sjálfrar sem gefa sögunni enn frekar yfirbragð nándar og trausts .Víða er stuðst við gömul bréf og jafnvel gægst í facebook til að athuga hvað orðið hefur um gamla kærasta. Og öllu brasinu slegið upp í grín: „Hvað er maður alltaf að reyna að útskýra allt. Böl sagnfræðinámsins. Böl mannlífsins“ (259).

Líkaminn og kynhvötin

Saga Þórunnar er mjög líkamleg, hún er öðrum þræði um ástarsambönd, kynþroska og hormóna, blæðingar, afmeyjun og fullnægingar. Allt það sem þvælist endalaust fyrir stúlku með kristilegt uppeldi,  sem hefur lesið rómantískar ástarsögur og er alin upp við borgaralegt siðferði.

Líkaminn og kynhvötin eru alls staðar í textanum og húmor og viska alltumlykjandi: „Ég man pissandi píkurnar á kúnum, svo líkar manns eigin sem kona getur aldrei séð gera slíkt hið sama. Víst eru til speglar en á þá pissar maður ei“ (147).

Erfðasyndin

Syndin er lævís og lipur og leggst af þunga á stelpuskjátuna, hún ætlar að stela pening fyrir sælgæti, þorir ekki að lúra hjá svölum Eyjapeyja því þá er hún svo mikil hóra og svo kremur hún hjörtu aðdáenda sinna. Og nú nagar hún sig í handarbökin yfir að hafa sleppt mörgum góðum sjens vegna misskilinnar tryggðar og niðurdrepandi sektarkenndar.

Langan tíma tekur að losna undan uppeldi og samfélagi þar sem bæling er alls ráðandi og dyggð barnsins felst í að láta lítið fyrir sér fara, ekki biðja um neitt, vera ekki fyrir. Strangleiki föðurins býr til endalausar sjálfsásakanir, ástarsorg móðurinnar býr til fælni við náin kynni og hvort tveggja fylgir alla ævi.

Útlínur minnisins

Sorgin knýr dyra eins og gengur og setið er í ekkjudómi eftir góðan mann sem lést sviplega og var öllum harmdauði. Fram kemur að hann vildi ekki vera í bókinni svo sagan endar þar sem hann kemur til skjalanna. Sagan er drifin áfram í sorg eftir hann og fjarvera hans er kvika sem sífellt minnir á sig, þannig er lesanda aftur og aftur kippt inn í nútíðina. Það er auðséð að sögumaður er enn að fóta sig í nýrri tilveru eftir missinn, reyna að leggja drög að nýrri framtíð og takast á við ný verkefni með sátt og fyrirgefningu í farteskinu.

Þórunn Jarla hefur lært hvað það er að elska, missa, gráta og sakna og að gleðjast um leið yfir öllu því fallega og góða sem lífið hefur upp á að bjóða:

„…því ég er orðin gangandi æðruleysi. Þegar Eggert dó hætti allt að skipta máli. Líka hvort ég lifi eða dey eða þjáist. Þið getið ekki klipið mig með glóandi töngum, ég flýg burt, er úr eter og hverf sem skuggi fyrir sólu. Stundum þarf að brenna húsið til að sjá mánann“ (194).

 

Stúlka með höfuð, sjálfsævisaga

JPV, 2015

321 bls

Birt í Kvennablaðinu, 19 des. 2015

Varasamir Vottar. Um píslir og upprisu Mikaels T

„Vottar Jehóva trúa því að meginreglur Biblíunnar gagnist fólki enn í dag. (Jesaja 48:17, 18) Þess vegna fylgjum við meginreglum hennar í hvívetna. Sem dæmi varar Biblían okkur við því að stunda nokkuð sem saurgar huga okkar og líkama. Við reykjum því hvorki né neytum eiturlyfja. (2. Korintubréf 7:1) Við forðumst einnig það sem Biblían fordæmir sérstaklega svo sem ofdrykkju, kynferðislegt siðleysi og þjófnað. – 1. Korintubréf 6:9-11.“
 
(Varðturninn, nóvember 2015, bls 5)

Bók Mikaels Torfasonar, Týnd í Paradís, er tileinkuð Guðmundi Bjarnasyni, barnaskurðlækni, sem tókst naumlega að bjarga honum sem ungabarni frá bráðum bana en foreldrar hans hefðu bannað nauðsynlega blóðgjöf vegna trúarskoðana.

Bernska Mikaels einkenndist því af langvarandi veikindum, spítalavist, sprautum og stólpípum. Hann gat ekki kúkað og nærðist ekki, var bundinn niður í sjúkrarúm og þjáðist mjög. Þegar hann stálpaðist og fór að átta sig á aðstæðum sínum varð hann reiður ungur maður.

Skrautlegt lið
Bókin er „númer eitt“ í ritröð um uppvöxt Mikaels Torfasonar. Hann er ekki nema fjögurra ára þegar bókinni lýkur en forfeðrum hans eru gerð góð skil enda skrautlegt lið. Hjá flestum gerist það í lífinu að sátt skapast og hægt er að fyrirgefa feilsporin, bæði sjálfum sér og öðrum. Sögumaður er um síðir kominn á þann stað: „Nú vil ég ekki lengur að reiðin byrgi mér sýn. Ég er kominn yfir fertugt…Það er kominn tími til að ég horfist í augu við æsku mína í Vottum Jehóva og dvölina á Barnaspítala Hringsins“ (65).

Það er af nógu að taka í ættarsögu Mikaels. Hann er kominn af fátæku fólki sem hokraði á örreytiskotum eins og flestir Íslendingar. Bullandi alkóhólismi einkennir fjölskyldulífið ásamt óuppgerðri og sársaukafullri fortíð.

Settur í tossabekk
Móðir Mikaels, Hulda Fríða, horfði upp á föður sinn drekka sig í hel, hann var snarbilaður kvíðasjúklingur og fíkill sem hélt fjölskyldunni í helgreipum. Besta setning bókarinnar er um hann: „Örlagadísirnar höguðu því svo að það var óttinn við dauðann sem drap hann að lokum“ (38).Torfi, faðir Mikaels, er alkóhólisti, harður nagli sem kemur úr braggahverfinu, angandi af basli og fúkkalykt. Ekki bætir stórlega brenglað skólakerfi úr skák. Í Miðbæjarskólanum í Reykjavík voru nemendur brennimerktir til lífstíðar með því að raða þeim í tossabekki. Sagan af námsferli Torfa er hreinlega hjartaskerandi.

Engin Paradísarheimt
Foreldrar Mikaels eru ungir og áttavilltir í lífinu, blankir og beygðir og koma frá brotnum heimilum. Torfi er stefnulaus vingull og djammari og verður heltekinn af hugmyndafræði Votta Jehóva. Þegar hann gengur til liðs við þá hættir hann öllu fylleríi og kvennafari en tekur að ráðskast með fjölskyldu sína eins og versti einræðisherra, harðbannar jólahald og afmælisveislur og er tilbúinn til að fórna lífi sonar síns svo litla fjölskyldan geti öll lifað saman í Paradís eilíflega. Hulda Fríða sveiflast í örvæntingu á milli fýlu- og æðiskasta og hefur enga styrk til að rísa gegn innblásnum trúarhita manns síns sem stefnir á frama innan samtakanna. Þau undu allengi við ógnarstjórn Vottanna en trúin dofnaði nokkuð þegar Paradísarheimtin átti sér ekki stað árið 1975 eins og spáð hafði verið.

Ekki skáldsaga?
Þetta er ekki skáldsaga heldur þroskasaga eða endurminningar og uppgjör við fortíðina, „sönn“ saga soðin upp úr bernskuminningum, læknaskýrslum, viðtölum og skálduðum senum sem hljóta að vera byggðar á upplýsingum frá foreldrum höfundar og fleirum.

Stíllinn er talmálskenndur og þrunginn gamalli reiði og heitum sannfæringarkrafti. Sannleikurinn skal dreginn fram með góðu eða illu og hann er einlægur, hrár og umbúðalaus. Þeir sem óska eftir stílgaldri, dulúð, tvíræðni, orðheppni og ljóðrænu leita annað. Það virkar frekar ankannalegt að nota ekki eiginnöfn afa og ömmu og foreldranna: „Mömmu leið illa þegar hún kyssti pabba fyrst og hann fálmaði eftir líkama hennar“ (43). Sjónarhorn barnsins rekst á sjónarhorn þroskaðs sögumanns, það passar ekki alls staðar og gengur t.d. illa upp að súmma með þessum hætti inn á einkalíf unga parsins.

Varasamir Vottar
Saga fjölskyldunnar tengist náið hugmyndafræði Vottanna „sem allt viti borið fólk á Íslandi fyrirleit.“ Þeir sem þekkja þar til hljóta  að kannast við ýmsar persónur, t.d. Georg Fjölni, Örn Svavarsson og séra Sigurbjörn biskup sem var ekki par hrifinn af brölti Vottanna. Sögu og starfsemi samtakanna er lýst ítarlega í bókinni og þar er dregið fram það versta í þeirra boðskap, s.s. íhaldssamt viðhorf þeirra til kvenna, ofdrykkju og siðleysis ásamt óskhyggju um þúsund ára ríki.

Þótt söfnuðurinn sé ekki sérlega stór á Íslandi sker hann sig úr öðrum trúfélögum, m.a. vegna áherslu á trúboð og afar strangra reglna um framferði og trúariðkun. Safnaðarmeðlimir eru reknir brott ef þeir brjóta af sér og eru þá útilokaðir frá margboðuðu fyrirmyndarríki. Þannig er fólki haldið niðri með ógn og hótunum um brottrekstur úr Paradís. Mikael er harður á því að Vottarnir séu stórhættuleg samtök, ekki síst fyrir ungt fólk og áhrifagjarnt.

Ekkert væl
Eftir ótal erfiðleika hefur nú skapast sátt í fjölskyldunni. Miðaldra sögumaður horfir yfir farinn veg, sér hluti í nýju ljósi, finnur skýringar og sér orsakasamhengi sem hann áður kom ekki auga á. Reynslan hefur mótað hann og þroskað en reiðin stjórnar ekki lengur lífi hans.

Að lestri loknum situr eftir hversu auðvelt er að ánetjast trúarhópum sem gína yfir ungu fólki með bókstafstrú, skýrar reglur, reglufasta virðingarröð og framavon og fórna fyrir það öllu, lífi barna sinna og sínu eigin. Boðskapur um að vera útvalinn og eignast nýtt líf í trúnni skýtur fljótt rótum í frjóum huga ungs fólks sem á sér enga von um betri framtíð. Nákvæmlega það hefur verið að gerast í heiminum öllum undanfarin ár með uppgangi margs konar öfgafullra trúar- og þjóðernishópa sem svífast einskis.

Engin miskunn
Það situr líka eftir hvað Mikael er vægðarlaus við foreldra sína í bókinni, þeir eru algerlega afhjúpaðir og koma naktir fram með alla sína bresti. En það er gert af skilningi og samúð, uppeldi og samfélag eru dregin til  ábyrgðar. Týnd í Paradís er bók sem er hressilega laus við tilfinningaklám, fordóma og vælutón. Þetta er hreinskilnisleg frásögn af píslum og upprisu höfuðengilsins Mikaels sem Jehóva sendi forðum til jarðarinnar og varð síðar mannkynslausnari. Sagan er nærgöngul og kröftug, hún fjallar um samfélag sem bregst sínu fólki, um trúna sem akkeri og helsi í senn og um ást, fíkn og fyrirgefningu á öllum tímum.

Endurminningar

Sögur, 2015

258 bls.
Birt í Kvennablaðinu, 27. nóv. 2015

Ástin á snjallsímaöld, #tístogbast

Það er eitthvað lausbeislað og einlægt í ljóðum Eydísar Blöndal (f. 1994). Fyrsta ljóðabók hennar, Tíst og bast, kom út á dögunum hjá „Lús, forlagi sem fær fólk til að klóra sér í hausnum“. Eydís heldur bókinni hressilega á lofti á tístinu, þar kemur m.a. fram að hún hefur verið nefnd í Kiljunni og Rás 2 og ratað á metsölulista Eymundsson.

12270278_10153724748399328_746557452_n

Engir stuðlar skilja mig

Yrkisefni Eydísar er ástin, eða ástleysið öllu heldur, og einkaheimur ungmennisins sem er skítugt herbergi, pítsukassar og 101. Myndmálið er hrátt og einfalt, töffaralegt og slangrað. Lúið, gamalt og stirðnað form eldri höfunda nær ekki yfir veruleikann lengur;  „engin orð ná dýptinni / og engir stuðlar skilja mig“. Rímið er stundum með í för, tilraunakennt og frjálslega farið með, ekkert bindur unga og óstýriláta hugsun niður.

Ljóðin sveiflast milli sælla minninga og sjálfsvorkunnar („ringluð sál og hjarta sem blæðir“) og sjálfshaturs: „mikið djöfulli getur þú verið heimsk“. Þetta er enginn væminn unglingakveðskapur, þarna eru þroskaðar hugmyndir, alvöruinnihald og brennandi andi. Örsnögg mynd segir meira en mörg orð: „ég hálf tóm, þú hálf fullur“. Og það er hárbeittur tónn í ljóði sem ber tvírætt nafn: „amen, nr 4“ og ætti að vera skyldulesning fyrir alla (karla).

Ástin í símanum

Tvö ljóð bera nafnið „Harmleikur á snjallsímaöld“. Það er orðið alltof auðvelt að fylgjast með símtalaskránni og kveljast  yfir að enginn hafi hringt, minnsta mál að senda eldheit eða reiðiþrungin sms og bíða svo í angist eftir svari og  yfirþyrmandi sárt að fylgjast með fyrrverandi á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Ástarsorg er gnægtarbrunnur fyrir skáld og rithöfunda eins og dæmin sanna.

Ástarljóðin eru gullfalleg, t.d. Varúð: þetta ljóð er um kynlíf. Og hér er skemmtileg mynd sem gengur vel upp:

„þvottavél

ég hélt ég væri þvottavél

og tróð inn í mig
óhreinustu drullusokkum borgarinnar
í von um að bjarga þeim

trúið mér
það virkar aldrei“

Tilraun framkvæmd

Í bókinni eru tæplega 40 ljóð. Lokakafli bókarinnar ber heitið Ástarsorg. Hverfistregða einsleitrar stúlku. Tilraun framkvæmd þarna um árið. Ljóðin í þessum hluta eru númeruð líkt og í skýrslu, tilraunin endar í kafla „3.4. Sátt“ og lokakafinn er nr. „4. Niðurstöður og úrvinnsla.“ Það er ekkert nýtt að ljóðið sé notað eins og þerapía fyrir hrellda sál en í þessari bók verður að segjast að það er býsna vel gert. Með nákvæmri klínískri tilraun fást svellkaldar og óhagganlegar niðurstöður og það er ein aðferð til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar eins og höfnun, reiði og sorg. Tíst og bast er fyrirtaks frumraun ungs höfundar sem á örugglega eftir að gera fleiri tilraunir í lífinu.

Ljóð

Lús, 2015

Ekkert blaðsíðutal

Birt í Kvennablaðinu, 20. nóv. 2015

Napóleon norðursins. Um Íslands eina kóng

Átjánda öldin hefur löngum verið talin eitt mesta hörmungatímabil í sögu Íslands. Náttúruhamfarir, farsóttir, einokun og stéttskipt samfélag einkenndu tímabilið og mesta furða að landsmenn skuli ekki barasta hafa geispað golunni, allir með tölu. En þeir þrjóskuðust við, þá eins og nú, og hjörðu áfram í sárri fátækt, eymd og volæði. En þrátt fyrir allt gerðist það á þessum tíma að hugmyndir um sögulegan samtíma og einstaklingsvitund brutust fram og róttækar breytingar urðu á efni og formi bókmenntanna.

Þegar Jörgen Jörgensen, nefndur Jörundur hundadagakonungur, kom til Íslands sumarið 1809 í viðskiptaerindum, var hér heldur dauflegt um að litast. Í Reykjavík bjuggu um 400 manns og var heldur lágt á þeim risið. Íslendingar þorðu ekki að eiga vöruskipti við Jörund og félaga hans vegna einokunar Dana, svo hann hreinlega hrifsaði völdin af stiftamtmanni og lýsti því yfir að dönsk yfirráð væru fallin úr gildi.

Í tvo mánuði ríkti hann yfir landinu, gaf út tilskipanir á báða bóga, veitti föngum sakaruppgift og strikaði út skuldir eins og enginn væri morgundagurinn. Þessu stutta blómaskeiði lauk þegar hann var snautlega settur af og þar réðu gróðasjónarmið einnig för ásamt undirliggjandi ótta valdhafa við almenna uppreisn og frekari byltingu.

Ekki ber öllum saman um að þessi maður sé Jörgen Jörgensen. Önnur mynd og óhuggulegri var til á Þjóðminjasafni Íslands (Þjms. 18974 / MMS 18974) en hefur ekki sést lengi.

Einar Már Guðmundsson fjallar um Jörund  í nýjustu skáldsögu sinni, Hundadögum, sem einnig kemur út á dönsku þessa dagana í þýðingu hins eitursnjalla Eriks Skyum Nielsen. Lífshlaup Jörundar er sannarlega skrautlegt og gjöfult viðfangsefni. Einar Már er þó ekki fyrstur til þess  að sækja í þennan frjóa efnivið og sennilega ekki síðastur. Áður hafa m.a. bæði Ragnar Arnalds (Eldhuginn, 2005) og Sarah Blakewell (2015) skrifað skáldsögur um skrautlegan feril Jörundar.  Og leikrit Jónasar Árnasonar, Þið munið  hann Jörund, sem fyrst var sett upp í Iðnó 1970 smaug beint inn í hjörtu þjóðarinnar á sínum tíma. Það hefur margoft verið sett á fjalirnar síðan, síðast 2014 í leikgerð Eddu Þórarinsdóttur, og rataði ísjónvarp 1994. Auk þess skrifaði Jörundur sjálfur ævisögu sína í nokkrum útgáfum eftir því hvernig lá á honum. Svo það hlýtur að vera tímaspursmál hvenær gerð verður stórmynd um stormasama ævi og örlög þessa margbrotna manns.

Hundadagar-175x268Efnistök Einars Más eru af öðrum toga en fyrirrennara hans; þau eru frumlegri, fjölskrúðugri, skáldlegri og meira skapandi en áður hefur sést. Jörundur er breysk persóna, hann er myndarlegur, vel greindur en ógæfusamur ævintýramaður sem hrekst í ólgusjó fíknar og metorðagirndar en á sér líka betri hliðar.

Ástæðurnar fyrir byltingunni á Íslandi eru í raun viðskiptahagsmunir, það er engin rómantíseruð frelsishugmynd þar að baki. Einar Már tengir byltingu Jörgens við búsáhaldabyltinguna 200 árum síðar, þegar óheiðarleg viðskipti með sýndarmilljarða urðu efnahag þjóðarinnar að fjörtjóni til frambúðar og forsætisráðherra kallaði almenning skríl, líkt og enski skipherrann sem setur sig á háan hest gagnvart þegnum Jörundar, og leggur út af þeim samanburði um eðli manns, sögu og skáldskapar.

Sögumaðurinn er alls staðar nálægur á notalegum spjallnótum. Hann er kammó og kærulaus og slær um sig með orðum eins og díll, djobb og gaur . Hann er ýmist „við“ eða „ég“ og hefur yfirsýn yfir orsök og afleiðingu, liðna tíma og núið. Hann fer á flug í pælingum um skáldskap og veruleika, sögu og túlkun. Persónurnar anda og lifa í gegnum hann, ætli það séu nema tvö bein samtöl í allri bókinni?

Aldagamalt ryk er dustað af gulnuðum skjölum, þau eru dregin úr gömlu þurrlegu samhengi og skeytt saman á ný svo úr verður skrautleg, eldfjörug og kostuleg saga sem minnir um margt á svonefndar skálkasögur sem voru vinsælar á bernskudögum  skáldsögunnar.

Sögumaður snýr upp á tímann eins og hann lystir „af því að saga okkar er í aðra röndina andleg  og ekkert er í réttri röð þegar fram líða stundir“ (190). Bítlarnir og Jörundur eru nefndir í sömu andránni og Jón Steingrímsson, hinn magnaði eldklerkur, er sömuleiðis leiddur fram en Jón hafði verið dauður í tuttugu ár þegar Jörundur kom til landsins.

Fleiri nafnkunnir menn koma við sögu, m.a. Magnús Stephensen, konungshollur tækifærissinni og fulltrúi valdastéttarinnar á Íslandi, og Finnur Magnússon, sem fékk skjótan frama sem leyndarskjalavörður Danakonungs, féll svo úr háum sessi og var ekki gæfusamur í einkalífinu, skuldugur og einmana.

Svo er fylgst með Guðrúnu Johnsen, ægifagurri ástkonu Jörundar sem þráir að vera hefðarmær en endar sem betlikona, hrekst milli manna og ræður minnstu um örlög sín sjálf. Sögufrægar persónur eru sýndar í nýju ljósi, t.d. hefur Íslandsvinurinn mikli, hinn kunni SirJoseph Banks, svifið um mannkynssöguna á rómantískri ímynd en reynist svo ekki allur þar sem hann er séður.

Undir öllum kammóheitunum, gáskanum og skapandi heimildaúrvinnslunni lúrir ádeila á nýlendustefnu, kúgun og stéttaskiptingu og hrokann sem hélt ástandinu við og gerir enn.Veislan fræga í Viðey sem Ólafur Stephensen hélt Jörundi og félögum dregur skýrt fram muninn á ríkidæmi valdhafa og kjörum alþýðunnar.

Kort af Íslandi frá 1761

Íslenskir embættismenn höfðu skömm á valdabrölti Jörundar nema þeir sem nutu góðs af eða þorðu ekki annað „af ótta við að hann myndi sigra en urðu þá enn hræddari stuttu síðar þegar ljóst var að hann hafði tapað“ (199). Alþýðan tók þessu eins og hverju öðru hundsbiti, vön því í gegnum aldir að beygja sig undir yfirvaldið mótþróalaust og vera ekki spurð álits á neinu. Einar Már færir listilega saman líkindin með fortíð og nútíma og sýnir að valdapólitíkin er alltaf söm við sig.

Var Jörundur hundadagakonungur fulltrúi nýrra tíma, djarfur ofurhugi, misskilinn snillingur og frelsishetja? Eða gróðapungur, götustrákur og föðurlandssvikari? Hvað sem því líður var yfirlýstur tilgangur hans að bæta ástandið á Íslandi og að tryggja landsbúum frið og hamingju sem þeir hafa lítið haft af að segja til þessa“ (194).

Það er ekki fyrr en í fangelsi sem raunveruleg ásýnd spillingar, kúgunar og einokunar á Íslandi skýrist fyrir Jörundi. Eldheitar ræður hans um frelsi og réttlæti, frjáls viðskipti og jafnan rétt manna streyma skyndilega fram. Þá nær mikilmennskubrjálæðið hámarki, þá er hann Napóleon norðursins, Íslands eini kóngur fyrr og síðar.

Jörundi er fylgt áfram eftir Íslandsævintýrið í útlegð að endimörkum heimsins og til dauðadags. Mynd af honum og konu hans, hinni ungu og drykkfelldu Nóru, er talin steypt í brúarsporð í bænum Ross í Tasmaníu, „útskorin eins og kóngur og drottning á spilum“ (333). Mynd Jörundar lifir væntanlega í skáldskap Einars Más meðan bækur eru enn lesnar á Íslandi.

Skáldsaga Mál og menning, 2015 341 bls

Gullfalleg bókarkápa: Alexandra Buhl / Forlagið

Birt í Kvennablaðinu, 15. nóv. 2015

Kvennablaðið lengi lifi

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar

KVENNABLAÐIÐ er tveggja ára!

44 ritdóma hef ég skrifað og lesið allavega helmingi fleiri bækur mér til skemmtunar og yndisauka.

Til að styrkja Kvennablaðið sem berst í bökkum má gauka að því afmælisgjöf, smellið hér!

Ömurlegt að vera ungur

Kvennablaðið

Ein versta mögulega martröð sem hugsast getur er að eitís komi aftur. Að maður verði á ný sveimhuga pípusvælandi gleraugnaglámur í Flóarfrakka sötrandi bjórlíki úr glerlíki á eilífum bömmer yfir kjarnorkuvopnum, með Egó-kasettu eða eitthvað þaðan af verra í vasadiskóinu. Hallgrímur Helgason, einn allra skemmtilegasti, frumlegasti og frjóasti rithöfundur landsins, horfist óhikað í augu við þessa martröð í nýjustu bók sinni, Sjóveikur í München. Hér er á ferð íslenska útgáfan afPortrait of the Artist as a Young Man, sem söguhetjan les í lestarferð á vit örlaga sinna í hinu alvörugefna og reglufasta Þýskalandi. Hér er allt á fullu, fengist við fortíð og minni, tilurð skálds, ást og list, lönd og þjóðir af blússandi krafti.

Menningarlaus mysingsþjóð
Það þarf svo sannarlega kjark og þor til að fást við þetta skelfilega tímabil í mannkynssögunni. Aðalpersónan er unglingstötur sem fyrirlítur samtíð sína og samlanda, tískuna og tónlistina og rís gegn öllu draslinu, hann er „álfur á afajakka“ (83) sem veit ekki sitt rjúkandi ráð, „undarleg blanda af uppreisn og íhaldssemi, Johnny Rotten og Ronald Reagan…ljóshært barn í karlafötum“ (28).

Kalt stríð ríkir milli austurs og vesturs, Berlínarmúrinn hefur staðið í tuttugu ár, tákn um aðskilnað og ofbeldi, og austurhluti Þýskalands er á valdi alræðis kommúnismans í sinni verstu mynd. Þó þrífast þar leikhús og óperur, listakademíur, kaffhús og knæpur. Ísland er sömuleiðis klofið í komma og íhald en þar er eitt kaffihús og þrír matsölustaðir, ein útvarpsrás og ekkert sjónvarp á fimmtudögum, enginn hefur bragðað pasta og helsta kennileiti borgarinnar, himinhár kirkjuturn, hefur verið í smíðum á fjórða áratug. Það er ekki nema von að Íslendingnum finnist hann vera af menningarlausri mysingsþjóð í samanburði við þýska osta (23).

800px-München_PanoramaAð ganga við höfuðstaf
Heimóttarskapur og nesjamennska fylgja Íslendingnum hvert sem hann fer, þótt hann reyni að bera sig mannalega. Einangrun föðurlandsins, slök þýskukunnátta og dökk fortíð kúgaðrar nýlenduþjóðar takast sífellt á við vandlega innrætt þjóðarstoltið og aldagamla skáldskaparhefð eins og sést þegar Ungur og félagar fylgjast með framgangi fótboltahetjunnar Ásgeirs Sigurvinssonar í stórleik með Bayern München:

Í samanburðinum voru þeir, Íslendingarnir þrír í stúkunni, allir frá sama sveitabænum sem kúrði með átján burstum undir hárri klettahlíð efst á hnettinum. Þeir voru jafnsjaldgæfir og geimverur, töluðu tungu sem enginn skildi, voru frá landi sem enginn þekkti, stokktroðnir af hugmyndum, upplifunum og reynslu sem engin leið var að þýða, eða koma til skila, því nánast enginn jarðarbúi hafði komið til þessa hnattar sem Ísland var. Þeir voru ekki grænir og ekki eineygðir, þeir féllu svosem í fjöldann, en næðist af þeim innrauð mynd mátti glöggt sjá jöklana sem þeir báru á herðum sér, fjármerkt eyrun, óveðrið í augunum og ættartalnaböndin sem ófust um háls þeirra, líkt og væru þeir fornfálegur þjóðflokkur úr Kákasusfjöllum sem gekk við höfuðstaf og blakaði brageyrum, hefðbundnum á höndum og fótum, svo ekki sé minnst á skepnuna sem fylgdi þeim hvert sem þeir fóru, og hvorki var kýr né ær né lamb heldur land, ferfætt land, sem þeir fyrirurðu sig fyrir á kránni og í lestinni…(140-141).

Mállaus í Munkaborg
Ungur Maður (svo heitir aðalpersónan) er í listnámi í Munkaborg á því andstyggilega ári 1981. Einn og mállaus lendir hann í ýmsum svaðilförum, kynnist bæði sjálfum sér og öðru fólki, s.s. öðrum íslenskum námsmönnum (aðallega montrössum úr MR), kafar í listræna áhrifavalda og tekur út andlegar og líkamlegar þjáningar í leit að sjálfum sér. „Einhvern tímann yrði hann eitthvað en núna var hann ekkert. Hann var vofa framtíðar“ (56).

Skemmst er frá því að segja að saga Ungs Manns er stórskemmtileg og söguþráðurinn óborganlegur. Ljóst má vera að verkið er byggt á ævi höfundar en það fellur hvorki undir hefðbundnar endurminningar né sjálfsævisögu, þetta er skáldævisaga sem skipar sér á bekk með dulmögnuðum bernskubókum höfunda á borð við Málfríði Einarsdóttur, Guðberg Bergsson og Sigurð Pálsson en efnistökin eru önnur, ný og skapandi.

KvennablaðiðSviptur sakleysinu
Ungum er hvergi hlíft og engin miskunn sýnd, ekkert er dregið undan af einsemd hans, örvæntingu og niðurlægingu, senurnar eru svo vandræðalegar að sker í hjartað. Og flest er víst meira og minna satt ef marka má nýleg viðtöl við höfundinn sjálfan nema kannski þessi eilífu og dularfullu uppköst sem hrjá Ungan. Þetta eru snöggar ælugusur, prentsvartar og tjörukenndar spýjur sem hann geymir í glasi og laumast með í kápuvasa og tákna fæðingu skálds og listamanns, gróteskar dembur sem ýmist storkna eins og hraun eða kveikja elda og ryðjast fram af knýjandi tjáningarþörf. Hvörf verða í sögunni þegar Ungum er nauðgað á jólanótt, með þeim skelfilega atburði breytist allt, „sakleysis vegna hafði sakleysið verið tekið frá honum“. Þá verður æluglasið, sem geymir skáldskaparmjöðinn, bjargvættur hans og sáluhjálp.

HægðaLíf annarra
Það er sama hvar gripið er niður í sögunni, alls staðar er kröftugur stíll, óvæntar og úthugsaðar tengingar og vísanir; taktur, hrynjandi og stuðlasetning og brakandi ferskt myndmál. Frasar eins og miskunnsamur Bæverji, að vera svallþyrstur, kunna háspennulínur eftir Nietzsche eða sinna bólueftirliti gleðja langeygan lesanda. Eftirfarandi brot lýsir vel anda sögunnar, það birtir þýska þjóðarsál í samspili við heimssýn Ungs Manns innan um ískalt háð og lúmska orðaleiki:

Hann opnaði fram og mætti augum klósettvarðarins, steingráum kúlnagötum umkringdum fitugu hári og rauðflekkóttri undirhöku, sem ljómuðu af því sem hann tók fyrir stórþjóðafyrirlitningu en var að líkindum eftirstríðsbiturð. Prjónarnir stóðu kyrrir í höndum hennar uns hann hafði reitt fram hálft mark í tágakörfuna. Til hvers voru þessir klósettverðir? Borgin virtist full af þessum pirruðu eldri konum sem stóðu vaktir um hægðalíf annarra. Var þetta líka hluti af uppgjörinu? Var Þjóðverjum ekki nóg að þurfa að horfast í augu við eigin skít á hverjum degi? Þurftu þeir líka að vita af því að einhver stæði um hann heiðursvörð? Eða var þetta kannski atvinnubótavinna fyrir gamla verði úr fangabúðunum? Að minnsta kosti tókst þeim að hræða úr manni líftóruna í hvert sinn sem maður þurfti á salernið. (30)

Hið sjónræna högg
Ungur er eins og aðrir Frónbúar fjötraður við landsteina sem enginn kemst út fyrir hvernig sem hann reynir, sveitamaður sem er fastur undir jökli að eilífu. Því hvað eru akademíur, óperuhallir og kastalar samanborið við Esjuna og Snæfellsjökul séðan úr fjörunni? „Hann var Íslendingur, hann komst ekki undan því, og eftir heilan vetur á meginlandinu, inn og út úr lestar- og listagöngum, var þetta það sem heltók hann þannig að sál hans víbraði líkt og glansandi bjalla, með skæru gylltu hljóði, eftir hið sjónræna högg“ (312).

Kalt stríð, latir hippar
Hallgrímur er ómyrkur í máli um hið hvimleiða kalda stríð og áhrif þess á íslenska menningu. Hipparnir og 68-kynslóðin sem nú eru orðin að sjálfumglaðri og værukærri elítu og millistétt fá líka að heyra það og anarkistar fá makið um bakið. Sagt er frá oki snilldar Laxness sem er enn í fullu fjöri, hvernig getur nokkur maður skrifað eins og hann? Og hvernig gat nokkur maður málað eins og Munch eða verið djarfur eins og Duchamp? Það er von að Ungum Manni fallist hendur.

En hann býr vel að góðu veganesti út í lífsbaráttuna; heilsteyptum foreldrum, gæðalegri ömmu og meinfyndnum afa er reistur óbrotgjarn minnisvarði um kynslóð með önnur gildi og aðrar minningar. Það eru einmitt minningagreinar, það séríslenska fyrirbæri að kveðja hvern einasta mann sem deyr á síðum dagblaðanna, sem opna skáldæðina hjá Ungum. Þegar hann er búinn að skrifa um afa sinn er hann strax kominn með hugmynd að fleiri minningagreinum. „Það þyrfti bara einhver að deyja fyrst“ (324).

JPV

Flott bókarkápa!

Birt í Kvennablaðinu, 24. október 2015

Bindið niður trampólínin, komið grillunum í skjól!

Á votviðrasömu hausti er Stormviðvörun send út til landsmanna, þriðja ljóðabók reykvískrar skáldkonu, Kristínar Svövu Tómasdóttur. Áður hefur hún samið tvær ljóðabækur sem vöktu athygli fyrir hressilegt tungutak og róttækni. Frumraunin Blótgælur (2007) ruddist fram með látum; ælu, djammi og kaldhæðinni ádeilu á lífsstíl og neyslu. Næsta bók, Skrælingjasýningin(2011) þótti hárbeitt og ögrandi. Í Stormviðvörun hafa ljóðin styst, meitlast og mildast, ádeilan er ekki lengur hvöss og klúr. Alls eru 18 ljóð í bókinni sem fjalla um margvíslegt efni, s.s. land, þjóð og fortíð.

Dapureygður klyfjahestur og horfnir heildsalar

Titilljóðið er aftast í bókinni, það rífur í þegar maður hyggst leggja bókina frá sér og maður flettir aftur á fyrstu síðu til að lesa öll ljóðin aftur og aftur. Myndhverfingar ljóðsins eru drungalegar; sálin er dapureygður klyfjahestur, melankólían er ræktuð einsog hjartfólgin planta og líkaminn er eins og stór, þunglamalegur björn sem þráir að leggjast í híði. Tilfinningin sem skapast fyrir komandi vetri er þrungin þreytu og kvíða.

Í nokkrum ljóðum leitar fortíðin á, t.d. í „Passé 3: Rómantískt ljóð um kapítalista fortíðarinnar“ þar sem horfnir heildsalar koma við sögu en þeir eru orðnir sígilt tákn græðgi og efnishyggju. Í „Passé 4: Vér sigurvegarar“ er brugðið upp skuggalegri heimssýn, einhver hnýsist stöðugt í og ráðskast með líf okkar, við höfum tapað en hvers eigum við að gjalda?

Eftirfarandi er vel byggt og myndrænt ljóð sem sýnir vel húmorinn og þau frábæru tök sem Kristín Svava hefur á ljóðmálinu.

Gróðurhús

Geislavirkur birtukúpull
yfir snævi þakinni jörð

þrisvar á sólarhring er slökkt
svo plönturnar haldi að það sé komin nótt
leggst þá þunglyndi yfir mennska þegna
þessa varma lands
(13)

Sukk og froða
Myndmál flestra ljóðanna er einfalt, mest beinar myndir sem leyna þó á sér, t.d. „vonum að heimurinn tortímist í neistaflugi frá millistykkinu“ (8). Upphafsljóðið, „Böbblí í Vúlvunni“, er mjög í anda þeirrar róttækni og orku sem einkenndi fyrri ljóðabækur Kristínar Svövu. Ádeilan á neyslu og efnishyggju er umbúðalaus. Orðræða bókhaldsins birtist þar innan um allt sukkið og froðuna; rekstrarreikningur, risna og prósentur; og svo er bara að sækja um frest til að hægt sé að halda áfram að elska draslið og djönkið, efnisheiminn og ofgnóttina.

Lykt af brauðtertum
Það ríkir víða gleði í ljóðum Kristínar Svövu enda eru tilefnin ærin. Í ljóðinu „Austurvöllur á kistulagningardaginn“ er föstudagur með tilheyrandi grilli og gleði; tannlaus börn, stelpur í þynnku og fótbrotnir rónar í huggulegri sumarstemningu í Reykjavík og sorgin er víðs fjarri. Á gamlárskvöld hristir maður af sér grámann í opnu og lífshættulegu rými en fermingarveislan er hins vegar fyrirkvíðanleg, þar er lykt af brauðtertum og gömlu fólki og búið að læsa dyrunum.

Fossaljóð
„Upp við fossinn Lubba“ er náttúruljóð, nýtt innlegg í fossakvæði íslenskra (karl)skálda sem skipta tugum. Hér er ekki verið að dásama fossinn, fegurð hans og afl, heldur er hann tengdur við héraðsmót og fyllibyttur, ættbók og súra rigningu. Ljóðið er byggt á sífelldri endurtekningu sem minnir á vatnsnið. En í lokaerindinu hefur náttúrunni verið misboðið svo mjög að heimsendir blasir við.

Veðurhorfur næsta sólarhring
Það er af nógu að taka í Stormviðvörun, ljóðin eru ekki heildstæð eða þematengd en standa vel fyrir sínu hvert og eitt. Í titilljóðinu er vitnað í þunglyndislegan veðurfræðing sem kemst þannig að orði: „Dagurinn á morgun verður verri en það þýðir ekki að dagurinn í dag sé ekki slæmur“. Stormurinn er ekki brostinn á af fullum þunga en hann er í vændum og þá verða engin grið gefin.

Ljóð
Bjartur, 2015
36 bls

Birt í Kvennablaðinu, 17. okt. 2015

„Ekki einu sinni Georg Orwell hefði getað séð þetta fyrir“

Henrik Pattersson, oftast kallaður HP, er þrítugur smákrimmi í Stokkhólmi, latur, lyginn og sjálfelskur. Hann þráir heitast að ná árangri í einhverju og fá hrós og viðurkenningu, helst fyrirhafnarlaust. Á heimleið í skítuga íbúðarholu sína einn daginn finnur hann silfurlitan síma sem hann samstundis stingur á sig.  Það reynist afdrifaríkt því áður en hann veit af er hann orðinn þátttakandi í  hættulegum ARG-leik sem fer fram í gegnum símann. Spennufíknin heltekur hann en brátt tekur „Leikurinn“ öll völd og hann á fótum fjör að launa.Bubble-175x286

Bækur Anders de la Motte um fyrirbærið ARG (Alternative Reality Game) eru þrjár og heita [geim], [buzz] og [bubble], allt kunnugleg heiti á fyrirbærum í rafheimum.  Síðasta bókin í geimtrílógíunni sem svo er nefnd kom út á Íslandi í ár hjá Vöku-Helgafelli/Forlaginu. Bækurnar hafa slegið í gegn víða um lönd en ekki fengið mikla athygli hérlendis þrátt fyrir grípandi söguþráð og aktúelt efni. Plottið snýst að stórum hluta um upplýsingaflóðið á netinu, hvernig heimsmynd fólks, ímynd þess og neysla eru mótuð og stjórnað af fjölmiðlum, valdhöfum, hagsmunaaðilum og markaðsöflum.Buzz-175x286

Nú er það svo að miklu magni af persónuupplýsingum er safnað í opinbera gagnagrunna, t.d. hjá sjúkrahúsum, skólum og bönkum, tryggingafélögum, lögreglu og skattstjóra, svo örfá dæmi séu nefnd. Net- og símanotendur leggja svo sjálfir hugsunarlaust til upplýsingar í púkkið með netvafri sínu og bæta við myndum, færslum og tístum, „lækum“ og leikjum, staðsetningum, athugasemdum og deilingum. Hægt er að kortleggja neyslumynstur, netvenjur og netnotkun hvers einasta manns í minnstu smáatriðum. Og sárafáir hafa áhyggjur af persónuvernd á netinu þótt bæði tölvu- og símanotkun auðveldi aðgengi að einkahögum og geri stöðugt eftirlit í rauninni afar auðvelt.

Ef engar hömlur eru á varðveislu og notkun netupplýsinga er hægt að kaupa þær á svimandi háu verði eða komast yfir þær með öðrum leiðum til að ná fólki á sitt vald. Stórfyrirtæki eru viljug til að greiða stjarnfræðilegar upphæðir fyrir þessi gögn og nota þau við markaðssetningu, ímyndarsköpun og skoðanamyndun, og það er einmitt það sem geimtrílógían snýst um og deilir á.  Netógn eins og trjójuhestar, hakkarar og tölvuveirur, fyrir utan dróna, njósnir og eftirlitsmyndavélar og guð má vita hvað, eru alvöruógn og netglæpir eru alvöruglæpir. Þetta brýna efni fjallar de la Motte um af miklum áhuga og fagmennsku en hann vann við netöryggismál áður en hann sneri sér að ritstörfum.

geim_175

„Nútímamaðurinn, sem telur sig vera svo frelsisunnandi og er svo annt um friðhelgi einkalífsins, kortleggur bæði sjálfan sig, skoðanir sínar og einkalíf af fúsum og frjálsum vilja. Ekki einu sinni Georg Orwell hefði getað séð þetta fyrir …“ [buzz], bls. 189.

HP er algjör lúði og hegðar sér oftast eins og óþekkur krakki en hann er ágætlega gefinn, fyndinn og orðheppinn. Myndmálið er skemmtilegt og orðaforðinn einkennist af slangri og stælum: „Hann átti sem sagt ekki um annað að velja en að kúldrast áfram í íbúðinni eins og einhver fucking Anna Frank“ (158). Þýðandinn, Jón Daníelsson, hefur lagt sig fram við að ná töffaraskapnum, húmornum og tæknimenningunni yfir á hressilega íslensku. Allar kaflafyrirsagnir eru á ensku og tengjast m.a. frösum úr bíómyndum, tölvuleikjum og  tónlist sem gefa textanum afslappað og kæruleysislegt yfirbragð.

Það má búast við sífellt fleiri bókum og bíómyndum um net og skjámenningu í náinni framtíð enda tæknin farin að hafa veruleg áhrif á daglegt líf fólks. Og hafðu hugfast áður en þú „lækar“ og deilir þessari grein, að „Stóri bróðir“ fylgist með þér.

Birt í Kvennablaðinu, 30. ágúst 2015

Ástir vitavarðarins

Hverfum aftur í tímann um heila öld og yfir hálfan hnöttinn, alla leið til Ástralíu. Stríðshetjan Tom Sherbourne gerist vitavörður á afskekktri eyju í leit að sálarró eftir erfiða æsku og hörmungar heimstyrjaldarinnar fyrri. Hann unir hag sínum vel í einverunni en þegar hann hittir hina ungu og ástríðufullu Isabel verða tímamót í lífi hans. Þau fella hugi saman, giftast og flytja út í eyjuna. Hjónabandið er ástríkt en Isabel missir þrásinnis fóstur og er farin að örvænta um að þau eignist nokkurn tímann afkomanda þegar bát rekur að eyjunni. Um borð er lík og grátandi ungabarn. Tom og Isabel standa þá frammi fyrir erfiðu vali. Er siðferðið annað fjarri mannabyggð? Gilda reglurnar bara þegar einhver sér til? Er ástin réttlæting alls?

Þetta er í stuttu máli plottið í spennu- og ástarsögunni Ljós af hafi, fyrstu skáldsögu ástralska höfundarins Margot L. Stedman sem vermt hefur metsölulista um heim allan. Sagan nær slíkum heljartökum á lesandanum að þótt hún sé löng og á köflum svolítið yfirdrifin og hæg er ekki hægt að leggja hana frá sér fyrr en ljóst er hver málalokin verða. Persónur sögunnar eru tragískar og þannig úr garði gerðar að það er ekki hægt annað en að samsama sig við þær og hafa samúð með misviturlegum ákvörðunum þeirra. Isabel er tilfinningavera, rómantísk og hvatvís en Tom er skynsemin og reglufestan uppmáluð. Dulur og ábyrgðarfullur finnur hann langþráðan frið við að fylgja rútínu og skýrum reglum við vitavörsluna og lítur svo á að það sé hlutverk hans að vernda konu sína fyrir öllu illu, þótt það geti kostað hann lífið.

Ljos_af_hafi-175x275

Skrautlegar aukapersónur tínast inn á sögusviðið eftir því sem atburðarásin verður dramatískari og þær eru dregnar skýrum dráttum. Það er auðvelt að hrífast með sögunni, bæði eru umhverfis- og samfélagslýsingar heillandi og á efninu eru ýmsar spennandi siðferðislegar og sammannlegar hliðar.

Á frummálinu heitir bókin The Light between Oceans; eyjan þar sem vitinn er liggur að tveimur höfum og titill bókarinnar undirstrikar það sem skilur Isael og Tom að. Það rúmast ekki í íslensku þýðingunni á titlinum en gerir sosum ekki mikið til. Þýðing Guðna Kolbeinssonar er óaðfinnanleg eins og hans er von og vísa.

Það er eitthvað sjarmerandi við vita. Teinréttur og draugalegur varpar hann ljósi út á hafið til verndar sjófarendum. Í bókmenntum hefur viti mörg og mismunandi tákngildi, hann er bæði fastur punktur í tilverunni og útvörður siðmenningar, tákn styrks og skjóls en líka innilokunar. Í huga Toms öðlast vitinn táknræna merkingu þegar hann kvelst af sálarangist vegna þeirra þjáninga sem hann hefur valdið öðrum: „Hann beindi athyglinni að snúningi geislans og hló beisklega að þeirri tilhugsun að stefnan á honum þýddi að eyjan sjálf var alltaf í myrkri. Viti er fyrir aðra, getur ekki lýst upp svæðið sem næst honum er“ (224).

Ljós af hafi er áhrifarík og dramatísk saga sem hefur dimman undirtón um stríð, ást og missi. Hún hreyfir við lesandanum, knýr hann til að taka afstöðu og krefst svara um hvort mögulegt og réttlætanlegt sé að byggja líf sitt á blekkingum og sorg og óhamingju annarra þegar eigin sálarheill er í húfi.

Nú er bíómynd í vændum eftir bókinni með Aliciu Vikaner og Michael Fassbinder í hlutverkum Isabel og Toms. Þegar er byrjað að markaðssetja myndina og er hennar er beðið með mikilli óþreyju. Það verður spennandi að sjá hvort hún verður eins mögnuð og bókin.

Birt í Kvennablaðinu, 18. júlí 2015

Upphitun fyrir annað og betra?

 Í nýjustu bók Lizu Marklund, Hamingjuvegi, glíma blaðakonan Annika Bengtzon og Nina Hoffman rannsóknarfulltrúi við sérkennilegt og sorglegt mál um leið og ritstjóri Kvöldblaðsins sætir netofsóknum og gömul mál og persónur úr fyrri bókum skjóta upp kolli. Upphaf sögunnar er hrikalega ofbeldisfullt og varla hægt að stauta sig fram úr því án þess að verða hálfóglatt. Stjórnmálamaðurinn Lerberg finnst alvarlega limlestur á heimili sínu eftir ótrúlegar pyntingar og konan hans er horfin sporlaust. Börn þeirra hjóna eru kynnt til sögunnar, örvingluð og yfirgefin enda þau hugsanlega í vondu fóstri en það er kaldhæðnisleg og sænskuskotin ádeila á einkavæðingu og kapítalisma að Lerberg hafði einmitt barist fyrir því á sínum stjórnmálaferli að félagsþjónusta og fósturheimili yrðu lögð niður.

Þær stöllur Annika og Nina rannsaka málið en verður lítið ágengt, m.a. þar sem einkalífið tekur sitt pláss. Í því stússi er Annika mannleg og breysk persóna sem auðvelt er að láta sér þykja vænt um. Hún þarf m.a. að glíma við illskeyttan fyrrverandi eiginmann, stjúpbörn núverandi sambýlismanns og léttklikkaða systur svo hún hefur í mörg horn að líta. Nina á að baki flókna fortíð og á erfitt með umgengni við annað fólk, en það er jú þekkt minni úr nýlegum skandinavískum bókmenntum og kvikmyndum að lögreglukonur þurfa að vera hálfskrýtnar og næstum fatlaðar í samskiptum til að vera trúverðugar.

Stieg Larsson var einna fyrstur til að lýsa tölvunotkun sögupersóna ítarlega í sínum frægu bókum, til að undirstrika ráðsnilli þeirra á tækniöld. Nú hafa margir tekið upp þetta trix sem virkaði flókið og spennandi þegar var verið að lýsa glæpum á netinu og starfsaðferðum hakkara en er ekki sérlega áhugavert þegar verið er að teygja lopann: „Hendur hennar sveimuðu ofan við lyklaborðið, hún vissi ekki hvernig forritin virkuðu en grundvallaratriðin hlutu að vera eins og á PC-tölvu. Neðst á skjánum var röð af táknum fyrir ýmis forrit, þau stækkuðu þegar hún færði bendilinn yfir þau. Hún smellti á pósthólfið, í innhólfinu var eitt skeyti“(356).

Annika Bengtzon er heillandi sögupersóna, hún er eldklár hörkunagli, hirðuleysisleg í útliti en hugurinn er sístarfandi. Hún er fyrsta kvenkyns aðalpersóna í sænskri glæpasagnaflóru og í bókum um hana er fókusinn jafnan á stöðu kvenna og barna. Bækur Lizu Marklund um þessa eldkláru blaðakonu hafa selst í 15 milljónum eintaka og verið þýddar á 30 tungumál. Þýðing Ísaks Harðarsonar er ágæt, þyrfti ekki að vera samræmi milli titilsins Hamingjuvegar (Lyckliga gatan) og þeirrar Hamingjugötu sem verður endastöðin í lok bókarinnar?

Hamingjuvegur er hörkuspennandi bók og stendur alveg fyrir sínu en er langt í frá besta bók Lizu Marklund. Maður hefur á tilfinningunni að hún sé upphitun fyrir næstu bók þar sem margir lausir endar þvælast fyrir í sögulok. Fyrrverandi eiginmaður Anniku hefur t.d. eitthvað misjafnt í hyggju, Valter starfsnemi í fjölmiðlun, er kynntur til sögu en gufar svo bara upp og kannski fær Annika stöðuhækkun innan skamms. Hún hefur allavega ekki sagt sitt síðasta orð og næstu bók verður tekið fagnandi.

Birt í Kvennablaðinu, 12. júlí 2015