gagnrýni

Veröld sem var

Forlagið

Er mönnum ekki farið að fatast flugið þegar þeir eru farnir að skrifa endurminningar sínar? Verður það nokkurn tímann annað en sjálfsupphafning og naflakrafl? Pétur Gunnarsson skrifar nú nostalgíska bók um námsár sín erlendis og fyrstu árin sem skáld og kallar Veraldarsögu sína. Pétur er fyrir löngu orðin kanóna í hópi íslenskra  rithöfunda en hann kom fram með hvelli á áttunda áratugnum og á að baki glæstan feril. Hann er af ´68-kynslóðinni frægu en mörgum af þeirri kynslóð finnst nú kominn tími á að horfa um öxl, spyrja sig hvar dagar lífsins hafi lit sínum glatað og hvað sitji eftir af gamla, hippalega eldmóðnum. Þetta er skáldævisögulegt verk um ungan mann (og konu  hans, Hrafnhildi) á mótunarárum, ofið saman við sögu heimspekinnar sem jafnframt er saga mannsins sem hugsandi veru, útleggingar á pólitískri hugmyndafræði og fræðikenningum, gömul bréf og ljósmyndir saman við sögur af skemmtilegu fólki eins og t.d. Óla Torfa, hringjaranum óstundvísa. Allt skrifað á gullaldaríslensku með tilþrifum, t.d. pastamikil kona, smjattandi sandalar, karlpeningur sem „hafði lítið breyst frá apadögum því frumglæði alls sem hann tók sér fyrir hendur var keppni“, og gömul  hjón sem nú eru löngu dáin en „lifa óbrotgjörn í eilífu teboði“.  Tíminn í sögunni er flæðandi og skrykkjóttur, eitt atvik rifjar upp annað en allir þræðir koma saman að lokum. Þótt það séu mestmegnis karlar sem koma við þessa sögu,  fær kvennabaráttan örlítið rúm, hún hófst um þessar mundir og bæði kynin þurftu að skilgreina sig upp á nýtt:

„Hér var það Kvinde, kend din krop sem allt snerist um. Líkami konunnar. Sem var eins konar nýlenda sem karlaveldið hafði um aldir lagt hald á, skilgreint og dómínerað. Nú hafði landið lýst yfir sjálfstæði og landgæðin voru loks notuð fyrir eigendurna sjálfa. Í ljós kom eitt og annað sem karlar höfðu aldrei tekið með í reikninginn en gat gert konuna sjálfbæra í sælulegu tilliti. Sæðisbankar lánuðu fúslega þetta lítilræði sem karlmaðurinn leggur til, konan var einfær um afganginn. Var ekki táknrænt að eitt helsta karlgoð tímans, John Lennon, var orðinn að eins konar viðhengi þar sem hann hjúfraði sig í fósturstellingu að Yoko sinni Ono“ (83).

Það er gaman að lýsingum á stemningunni á stúdentagörðunum, baráttu námsmanna við skrifræðið í Frans; skrifstofunornir sem krefjast stimplaðra vottorða og staðfestra ljósrita; og úthlutunarreglur LÍN sem voru lítið skárri þá en nú. Hugljúf og rómantísk er frásögnin af sumarputtaferðalagi unga parsins um Evrópu sem innfæddir sýndu bæði traust og ómælda gestrisni. Þar er hippahugsjónin í algleymi, slíkt ferðalag er óhugsandi nú þegar túrisminn tröllríður öllu.

Í Veraldarsögunni skýrist tilurð fyrstu ljóða Péturs sem eru lituð af ádeilu, uppreisnaranda verkalýðsins og ástríðu fyrir betra mannlífi og réttlátara þjóðfélagi. Pælt er í margvíslegri hugmyndafræði, t.d. vinnunni sem kúgunartæki, kenningum Marx, Kants og Jesúsar frá Nasaret, áhrifum Bítlanna, og firringu mannsins frá tímum Grikkja og Rómverja til vorra daga.  Og hvernig neyslan sættir alþýðuna við hlutskipti sitt (143) sem er gömul saga og ný, hvernig bækur berast milli manna, hvernig ljóð verða til. Veraldarsaga Péturs er bæði um veröld hans og okkar, þroskasaga pilts og skálds og óður um ástina til Hrafnhildar en það gæti verið gaman að heyra hennar hlið á þessu tímabili í lífi þeirra. Og sagan er líka um það kraftaverk að verða foreldri, bæta enn einu barni í þessa voluðu veröld og þar endar sagan. Eini gallinn á þessari bók er hvað hún er stutt. Sumar bækur eru hæpaðar upp í fjölmiðlum meðan aðrar fara með veggjum. Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar  fer hljótt í hógværð sinni, vönduð, notaleg og mannbætandi lesning.

Ástin, taflið og tungumálið

Astarmeistarinn-175x260

Anna og Fjölnir sem bæði hafa  lent í hrakningum á vegum ástarinnar rekast af tilviljun hvort á annað í hinni fögru Grímsey. Það væri kannski alveg tilvalið að þau þreifuðu fyrir sér en í staðinn veðja þau sín á milli um ástina, að þau hvort í sínu lagi finni ástarmeistara sem getur kennt þeim að elska, án ótta. Leiðir skilja og veðmálið gengur út á að í  hvert sinn sem þau hitta einhvern sem gæti verið meistari í ást skrifa þau hvort öðru bréf og í hverju bréfi er einn leikur í skák. En er einhver íþrótt eins langt frá því að vera sexí? Annað kemur á daginn, bókin löðrar í daðri og erótík, myndmálið er ferskt, textinn á fallegu tungumáli og snilldartaktar í hörkuspennandi  skák, sem svo sannarlega hefur aldrei verið tefld áður, kóróna verkið.

Ástarmeistarinn er fjórða skáldsaga Oddnýjar Eirar en hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir verk sín. Rauði þráðurinn í þessari bók er leitin að grundvelli ástarinnar, reynt er að skilja ástina í öllum sínum margvíslegu myndum og fjalla um sambandið milli ástar, valds og tungumáls. Fyrri hluti bókarinnar samanstendur af bréfum og skákleikjum og smátt og smátt kynnast skötuhjúin betur og takast á við bælingu sína, skömm, höfnunarótta og ástarfælni. Minningar streyma fram, draumar eru raktir og ráðnir, de Sade kemur m.a. við sögu ásamt ástkonunum frægu, þeim Önnu Karenínu og Önnu frá Stóru-Borg; Nietzsche og Simone de Beauvoir svífa yfir og heimsfrægar skákkonur skjóta upp kolli. Í seinni hlutanum dregur til tíðinda og ástarmeistararnir birtast með kenningar sínar og kynþokka. Öllu ægir saman í sjóðandi ástarpotti þar sem kynorkan vellur og kraumar svo úr verður ögrandi texti, heillandi persónur og hugljúf atburðarás.

Anna og Fjölnir birtast sem venjulegar og breyskar manneskjur. Fjölnir er bangsalegur útbrunninn sálfræðingur, grimmur „fræðarefur“ (20). Hann hefur unun af að leika sér með orð og hugmyndir, er jarðbundinn og leitandi og hefur farið illa út úr hjónabandi. Hluta sögunnar dvelur hann við rannsóknir og ritstörf í Odda en þangað barst einmitt skákin fyrst til Íslands (135)! Krísa hans felst m.a. í því að hann er í biðstöðu í lífinu og konur virðast elska hann annaðhvort bara sem elskhuga eða andlegan bróður. Hann er orðinn þreyttur á  að veita fagleg ráð og sýna skilning. Hann þráir að vera elskaður og að verða meiri karlmaður en menntamaður.

Anna er heilari, jógaiðkandi og nýaldarsinni, stöðnuð í einsemd og framan af sögu er hún ansi forn í háttum. Þegar hún heimsækir Fjölni í Odda hugsar hún með sér hvort hún sé hrifin af honum og hvers vegna „skyldi hún þá ekki gefast honum?“  sem er furðulega gamaldags hugsun. Hún óttast mest að geta aldrei elskað framar en þegar hún stígur yfir sín eigin mörk með hinum unga og graða Einari, verður hún frjáls, eins og laus undan aldagömlu oki. Tungumál kynlífs þeirra vísar í bókmenntir frá fyrri hluta síðustu aldar, hér er komin samfarasenan sem aldrei var skrifuð í Önnu frá Stóru-Borg. Myndmálið tengist allt smiðjunni þar sem ástarfundurinn fer fram, járnið er hamrað, kraftmikil kvika breytist í sindrandi gjall, „limurinn enn beinstífur eins og nýhert stál“ og snípurinn eins og nýsmíðaður koparhnappur (176-7).  Tungumálinu er beitt á óvenjulegan og skapandi hátt svo úr verður nýtt ástarmál. Fleiri kynlífssenur eru svona fallegar en spurning vaknar um hvort ekki megi segja typpi og píka í bók? Limur og sköp verða að teljast frekar tepruleg orð í frumlegri og ögrandi skáldsögu á 21. öld.

Tafl er líkt og ástin tveggja manna spil (114). Ástin er valdatafl og spennan milli Önnu og Fjölnis vex eftir því sem líður á söguna, getur þetta endað vel? Þegar Fjölnir býður Önnu jafntefli er hún með unnið tafl. Hún er drottning ástarinnar, hún hefur leyst orku úr læðingi og sigrast á óttanum.  En hver er þá kóngurinn? Það er nóg um að hugsa  eftir lestur þessarar afbragðsgóðu bókar. Er til ást án einurðar? Eru hugur og  hjarta eitt? Er hægt að elska án ótta? Ryður ástin sársaukanum burt? Ástarmeistarinn svarar  brennandi spurningum æstra lesenda á sinn hátt, látið hann ekki framhjá ykkur fara.

Fallinn engill

Englaryk-Forlagið

Unglingsstúlkan Alma setur allt á annan endann í fjölskyldu sinni og í bænum sem hún býr í. Brugðið er á það ráð að koma henni í meðferð til geðlæknis, samt er hún ekki veik, vandræðagemsi, fíkill, vændiskona eða afbrotaunglingur – nei, hún var týndur sauður sem fann Jesú og vill breiða út fagnaðarerindið.  Er það svo hræðilegt? Það er ekki hægt annað en að taka  undir með geðlækninum sem segir: „Það hefur nú margt enn hrikalegra verið gert í Jesú nafni. Stríð hafa verið háð. Menn pyntaðir. Konur brenndar lifandi“ (53). En boðskapur Jesú á ekki upp á pallborðið í nútímanum, t.d. það að maður eigi ekki að tilbiðja hluti og peninga heldur elska náungann og skipta öllu jafnt  (70). Enginn vill hlusta og Alma er eiginlega kaffærð í vísindalegri rökhyggju og þögguð niður. Foreldrarnir hafa áhyggjur af framtíð dótturinnar, sá sem sker sig úr og brýtur „reglur samfélagsins á erfitt uppdráttar, segir mamman, reglurnar fara eftir aldri, kynferði og fjárhagslegri stöðu“ (177) en mest óttast þeir að missa  hana út í trúarofstæki eða að hún gangi í sértrúarsöfnuð. Helst vilja foreldrarnir skyndilausn sem felst í að kaupa sálfræðimeðferð og „lækna“ hana í snarhasti, svo hægt sé að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Svona er söguþráður Englaryks, nýrrar skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, í stórum dráttum.

Kristindómur er í augum margra Íslendinga eitthvað sem ómar á rúv á sunnudögum og tengist frídögum og jarðarförum í stórfjölskyldunni.  Fæstir eru tilbúnir til að hlusta á trúarboðskap yfir kaffibollanum eða pæla til lengdar í kristilegum kærleiksblómum.  Alma, sem líka er of ung og loftkennd til að hægt sé að taka almennilegt mark á henni, mætir því miklu mótlæti í frelsun sinni, fórnum og baráttu fyrir betri heimi. Í sögunni er ætlunin að velta upp siðferðislegum spurningum og og fjalla um fordóma og margs konar vandamál, s.s. trúarbrögð, framhjáhald, fóstureyðingar,  alkóhólisma og rasisma. „Þið kallið alla Kínverja sem koma frá Asíu. Fólk er kannski frá Taílandi eða Malasíu eða Japan en þið segið bara Kínverjar. Svo getið þið ekki minnst á Indverja án þess að bæta við „rice and curry“ með einhverjum svona kjánalátum. Þið talið um litarhátt fólks eins og smákrakkar. Þið segið: brúnn, svartur, gulur, eins og það sé aðalmálið, eins og það sé sjálfsagt að flokka fólk svona niður. Samt viljið þið ekki kannast við að húðlitur skipti neinu máli, að hvíta fólkið hafi forréttindi…“ (182) segir John, nýbúi í bekknum hennar Ölmu. En einhvern veginn kviknar ekki almennilega í sögunni þrátt fyrir nægan eldivið. Persónurnar eru einfaldar og ná varla að hreyfa nægilega við lesandanum. Foreldrar Ölmu eiga sínar hversdagslegur krísur og gengur ekki vel að rækta hjónabandið, Snæbjörn er þorpsfyllibyttan sem Alma reynir að bjarga með því að boða honum guðs orð og svo er það geðlæknirinn, fulltrúi vísindanna, sem tengist fjölskyldunni á „óvæntan“ hátt. Þetta fólk er einhvern veginn dauflegt og fjarlægt.

Stundum fannst mér ég vera að lesa unglingabók þar sem hvorki mætti fara of djúpt né draga of mikið úr. Ágætis kaflar eru hér og hvar um unglingamenningu og unglinga yfirleitt, þessa skankalöngu klunna sem eru hvorki börn né fullorðnir en vita alveg sínu viti og eiga framtíðina fyrir sér. Bróðir Ölmu, Sigurbjartur, er einn af þeim. Afskaplega geðþekkur unglingur, hangir inn í herberginu sínu með stór áform, er engum háður og hefur hreinsað huga sinn af kynlífsórum. Það er auðvelt að taka undir með honum þegar hann segir: „trúarbrögð eru það sem mótar líf margra í heiminum meira en flest annað og þess vegna væri beinlínis heimskulegt að hafa engan áhuga á þeim“ (114). Hann er heillandi karakter sem er að uppgötva sjálfan sig, m.a. í gegnum kynlíf en sú sena í bókinni er frekar   tepruleg.   Eina persónan sem einhver töggur er í er presturinn. Hann er mannlegur  í afstöðu sinni, breyskur og einmana og á margar góðar ræður sem sýna vel hræsni hans og  yfirdrepsskap. Samskipti hans og Ölmu í fermingarfræðslunni eru bestu sprettirnir í sögunni, þar takast á trú og efahyggja, lítilmagni gegn yfirvaldi, engill gegn stofnun, töfrar og merking gegn stirðnaðri orðræðu og klisjum.

Trúarbrögð er viðkvæmt efni í skáldsögu og eldfimt en býður upp á endalausa möguleika. En þótt lagt sé upp með eitthvað í Englaryki rennur það út í sandinn, sagan verður aldrei nógu grípandi, áleitin, djörf eða grimm til að hreyfa við fólki sem hefur gleymt sínum guði og tapað sér í efnishyggju og sjálfselsku fyrir óralöngu.

Tvífari kominn á kreik

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Ég var svo heppin að ná í eintak af nýjustu ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Hún ber hið skemmtilega heiti Tvífari gerir sig heimakominn sem er ekki síðri titill en á síðustu ljóðabók hans, Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð. Anton Helgi er gamalreyndur í bransanum og kemur nú sterkur inn með hverja ljóðabókina á fætur annarri eftir áratuga hlé frá ritstörfum en hann var öflugur þýðandi, ljóðasmiður og leikritaskáld á síðustu áratugum 20. aldar (sjá hér). Í nýju bókinni er m.a. að finna hversdagslegar myndir úr lífi skálds og meðaljóns, hnyttnar hugmyndir og ádeilubrodd.

Ádeilan beinist ekki síst að sofandahætti og þrælslund sem skáldinu þykir ríkjandi í samfélagi okkar. „Kaffi og ég eitthvað“ (45) dregur upp skonda en beitta mynd af hlýðnum þjóðfélagsþegn sem gerir „allt fyrir samlyndið“ og hlýðir fyrirmælum kaffivélarinnar í blindni. Sama þegnskylda er á ferð í skemmtilega tvíræðu ljóði, „Miðaldra biðskyldumerki“ (10) en þar ríkja einnig hrópandi einsemd og vonleysi sem snerta streng í brjósti lesandans. Samfélagskyldunum er hins vegar gefið langt nef í ljóðinu „Störukeppni sunnan undir vegg“ (30) þar sem eftirlitsmyndavél gýtur auga á manneskju sem gerir sér lítið fyrir og gyrðir niður um sig. „Útsýnið frá Borgartúninu“ er tæpitungulaust og napurt ljóð, landslagið breytist ekki þótt maður sé gjaldþrota hálfviti og blábjáni, barinn þræll húsnæðislána, okurvaxta og vísitalna fram á grafarbakkann og engrar samúðar að vænta.

Nokkur ljóðanna eru býsna beitt þótt þau láti kannski lítið yfir sér. Í ljóðinu „Maður kominn á aldur flettir blaðinu“ er sterk stríðsádeila og þemað minnir á hið sígilda Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Nokkur ljóðanna innihalda pælingar um lífið og tilveruna þar sem greina má söknuð og eftirsjá. Í „Eftirþönkum leiktjaldamálarans“ segir frá helgidögum og merkingu þeirra og því að óvíst er hvaða orð lýsa skáldinu best þegar upp er staðið: „þau sem ég sagði og setti á blað / eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota“ (50). Í einu ljóði er beðið eftir „sektarlausa deginum“ á bókasafni lífsins, þegar bókinni sem útskýrir allt verður skilað, þar sem stendur „hvenær ég á að deyja“ (55). Það er skemmtileg pæling. Ljóðið „Lúr í vagninum“ lýsir lífinu á örskotshraða, allt í einu er tíminn liðinn, búinn, horfinn og gamall maður verður aftur barn. Ísmeygilega kaldhæðni má sjá í tvíræðu og bráðsnjöllu ljóði, sem heitir „Heitstrenging síðasta víkingsins“ (32), þegar milljónasti túristinn stendur í skafrenningi og hríðarkófi í miðjum Kömbunum og við sjáum þá loksins „ljósið“. Og ekki þarf lengur að leita að tilgangi lífsins segir skáldið, því hann er fundinn; hann er auðvitað í mollinu!

Einkunnarorð bókarinnar eru fengin úr bítlalaginu fræga um Eleanor Rigby og einsemd og eftirsjá tengjast augljóslega efni margra ljóðanna. Það er gleðiefni að Tvífarinn er kominn á kreik, hann er kíminn, samsettur úr margbrotinni þjóðarsál, virðist kannski meinlaus en getur verið skeinuhættur.

Einfalt trikk

Piparkokuhusid-175x276

Piparkökuhúsið er fyrsta bók Carin Gerhardsen og kom út í Svíþjóð 2008. Hún er auglýst í fjölmiðlum hér á landi sem „Spennutryllir sumarsins“ og stendur fyllilega undir því.  Bókin hefst á átakanlegri senu þar sem hópur barna níðist á skólafélaga sínum af stakri grimmd. Sjálf segist Gerhardsen hafa orðið fyrir einelti í skóla svo hún þekkir það af eigin raun.  Í sögunni snýr fórnarlamb eineltis aftur áratugum síðar og tekur til við að myrða kvalara sína með grimmdarlegum hætti. Tveir lögreglumenn í Hammarby vinna aðallega að málinu, Sjöberg, sem er viðkunnanlegur vel giftur margra barna faðir, og einhleypi töffarinn Petra Westman sem lendir sjálf í ofbeldisglæp í sögunni. Þau skötuhjú eru sosum engar ofurhetjur og fara lengi villur vegar við lausn málsins. Lesandinn heldur allan tímann að hann viti meira en löggan en niðurstaðan kemur á óvart og eftir á að hyggja er trikkið í því ótrúlega einfalt.

Dagbókarfærslur morðingjans sem fleyga söguþráðinn sýna glöggt að þolandinn hefur beðið mikið tjón á sálu sinni vegna eineltisins. Grimmdin er heiftarleg, morðunum er lýst í smáatriðum og hefndin felst í að láta gerendur og þá sem efndu til ofbeldisins horfast í augu við glæp sinn áður en líftóran er murkuð úr þeim. „Þið eyðilögðuð ekki aðeins bernsku mína, þið rústuðuð öllu mínu lífi. Það sem þið gerðuð … var að eyðileggja heilt líf. Þú dæmdir mig til að lifa vinalausu og gleðisnauðu lífi í algjörri einangrun…“ (209). Eineltið átti sér fyrst stað í leikskóla og kennarinn sem býr í piparkökuhúsinu horfði framhjá því og  taldi það ekki í sínum verkahring að stöðva það. Boðskapur sögunnar er skýr, skeytingarleysið er jafnstór glæpur og ofbeldið sjálft.  Hver er sekur, sá sem sviptir meðbræður sína lífsgleði og sjálfstrausti með síendurteknu andlegu og líkamlegu ofbeldi,  sá sem skiptir sér ekki af eða sá sem hefnir harma sinna?

Nanna B. Þórsdóttir þýddi bókina ágætlega. Carin Gerhardsen hefur skrifað fleiri bækur um lögreglumennina í Hammarby sem njóta mikilla vinsælda þar í landi og væri gaman að fá að fylgjast meira með þeim. Sagan er vissulega hörkuspennandi og  gott er að gæða sér á Piparkökuhúsi með heitum kakóbolla í sumarrigningunni.

Áferð eftir Ófeig

„Jaðrar hverrar miðborgar eru bestu blettirnir, er bara hvar sem engir túristar eru, og pláss fyrir flakkara og náttúrurannsakanda eins og mig, manninn frá landinu sem er alltaf alls staðar, manninn sem er er alltaf innfæddur, kamelljónið… Jaðrarnir já, því þangað sem túristar leita, er okur garanterað. Fyrst er okrað, svo restinni rænt. Þetta er nýtt lögmál. Og jaðrarnir færast út, það er þeirra náttúra. Útþensla heimsins; rotnunin breiðist út frá miðjunni, innan frá. Það er mengun túristanna, afmáning hefðanna, sem byrjar í miðju hverrar borgar og við sérstæð náttúrufyrirbrigði, og dreifir sér síðan um alla jörðina. Hið fagra er fyrst til að rotna. Allar fallegar borgir eru þegar rústir einar, og náttúran niðurtroðin og yfirbyggð. Að ferðast og sjá nýja staði er ekkert merkilegt lengur, það er ekkert nýtt að sjá, allt er eins alls staðar, eða á hraðri leið í þessa einsleitni. Staðsetningar eru smávægilegar. Að fara á framandi slóðir er ekki hægt, allt sama óupprunalega draslið…“ (35)

Rakst á þessa stórskemmtilegu bók (2005) eftir Ófeig Sigurðsson. Sögumaður er einn á þvælingi um heiminn, án annars tilgangs eða fyrirheits en að kynnast landi og þjóð, læra að þekkja sjálfan sig, lenda í ævintýrum, mannast, drepa tímann. Mér sýnist að hann sé kannski í Afganistan eða Suður-Ameríku en það eiginlega skiptir engu máli. Það er farið út á ystu nöf. Sögumaður er oft nær dauða en lífi í öllu ruglinu, fullur og peningalaus, kynnist alls kyns furðufuglum og grimmum örlögum, sér skrýtnar siðvenjur og borðar ógeðslegan mat, lendir í klóm grimmra landamæravarða og verður ástfanginn. Hann pælir og pælir í tilgangi jarðlífsins, eðli mannsins og fáránleikanum í heiminum. Hrikalega fyndnar persónur og aðstæðurnar óborganlegar. Efitr lesturinn situr bæði ælubragð í munni og skítaykt í nösum og það er snilld, Langt síðan ég hef lesið svona krassandi og magnaða ferðasögu, vel skrifaða og eftirminnilega. Áferð myndar tengsl við Áform eftir Houellebecq (2001), þá mögnuðu bók, þar sem túrisminn, markaðshyggjan, einmanaleiki og firring mannsins fara út í átakanlegar öfgar.

Brakið

Brakið, Veröld 2011

Lauk við Brakið eftir Yrsu. Hef verið þokkalega ánægð með sumar Þórubækurnar en ekkki var þetta skemmtileg lesning. Víða kauðslega skrifað, persónur einhliða og grunnar og söguþráðurinn soldið út úr kú. Höfundur fer þó vel með margt, s.s. lýsingar á sorg aðstandenda fórnarlambanna og mörg samtöl eru vel uppbyggð. Sögusviðið er m.a. snekkja útrásarvíkings og þar er helsta spennan í gangi en frekar er dauft uppi á landi þar sem Þóra og hin frekar pirrandi  Bella símamær vaða í vilu og svíma. Þema sögunnar er grægðin og boðskapurinn alveg skýr en endalokin eru einhvern veginn slöpp.  Hér þarf góða ritstjórn og grimman yfirlestur hjá bókaforlaginu því hæfileikar, hugmyndir og frásagnargáfa eru fyrir hendi. Sagan mun fara vel á hvíta tjaldinu, ekki spurning.

Krossgötur

Ný bók Lizu Marklund um blaðakonuna þrautseigu og snjöllu, Anniku Bengtson, heitir á frummáli Du gamla, du fria sem er þýtt sem Krossgötur. Í sögunni er manninum hennar rænt og haldið í gíslingu í myrkviðum Afríku upp á líf og dauða. Sjónarhornið er til skiptis hjá henni og honum og eru kaflarnir sem gerast í gíslingunni gríðarlega spennandi. Sálarstríð og björgunaraðgerðir Anniku er ekki eins spennandi, þar er lopinn teygður með senum eins og „hún pissaði og burstaði í sér tennurnar…“ þar til maður fær alveg nóg. Endirinn er óvæntur og sýnir alveg nýja hlið á þeim hjónum en ég var þeirri stundu fegnust þegar ég lauk við bókina. Ofbeldið er gríðarlegt og spennan oft óbærileg en frásögnin er langdregin og lágreist og þýðingin er víða ansi kæruleysisleg. Í bókinni kemur vel fram snörp ádeila á okkur Vesturlandabúa sem hugsum bara um okkur sjálf og skeytum engu um örlög meðbræða okkar í öðrum heimsálfum. Við stuðlum að vopnasölu, barnaþrælkun og blóðdemantasölu og hirðum arðinn af viðskiptunum til að geta búið enn betur um okkur og makað krókinn. Vondu Vesturlönd.

Meistaraverkið

Ekki er ég sérlega hrifin af Meistaraverkinu eftir Ólaf Gunnarsson. Í bókinni eru 14 smásögur. Mér finnst hreinlega eins og sögurnar hafi verið geymdar í skúffu í áratugi, allavega var í þeim afar gömul sál og gamall tími sem þarf ekki endilega að vera slæmt ef vel er með farið. En það vantar í þær allan kraft, neista, spurn, átök. Þær gerast flestar í fortíðinni og snúast um svekkta og bælda karla, kynslóðabil og ást. Kvenpersónur sagnanna eru þrúgaðar, heimskar eða vergjarnar. Sögurnar eru langdregnar, með fyrirsjáanlega ófyrirsjáanlegu skúbbi í lokin og stíllinn flatur. Þessi bók Ólafs sem annars er í uppáhaldi hjá mér er langt frá því að bera nafn með rentu.

Forlagið