gagnrýni

Tvífari kominn á kreik

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Ég var svo heppin að ná í eintak af nýjustu ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Hún ber hið skemmtilega heiti Tvífari gerir sig heimakominn sem er ekki síðri titill en á síðustu ljóðabók hans, Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð. Anton Helgi er gamalreyndur í bransanum og kemur nú sterkur inn með hverja ljóðabókina á fætur annarri eftir áratuga hlé frá ritstörfum en hann var öflugur þýðandi, ljóðasmiður og leikritaskáld á síðustu áratugum 20. aldar (sjá hér). Í nýju bókinni er m.a. að finna hversdagslegar myndir úr lífi skálds og meðaljóns, hnyttnar hugmyndir og ádeilubrodd.

Ádeilan beinist ekki síst að sofandahætti og þrælslund sem skáldinu þykir ríkjandi í samfélagi okkar. „Kaffi og ég eitthvað“ (45) dregur upp skonda en beitta mynd af hlýðnum þjóðfélagsþegn sem gerir „allt fyrir samlyndið“ og hlýðir fyrirmælum kaffivélarinnar í blindni. Sama þegnskylda er á ferð í skemmtilega tvíræðu ljóði, „Miðaldra biðskyldumerki“ (10) en þar ríkja einnig hrópandi einsemd og vonleysi sem snerta streng í brjósti lesandans. Samfélagskyldunum er hins vegar gefið langt nef í ljóðinu „Störukeppni sunnan undir vegg“ (30) þar sem eftirlitsmyndavél gýtur auga á manneskju sem gerir sér lítið fyrir og gyrðir niður um sig. „Útsýnið frá Borgartúninu“ er tæpitungulaust og napurt ljóð, landslagið breytist ekki þótt maður sé gjaldþrota hálfviti og blábjáni, barinn þræll húsnæðislána, okurvaxta og vísitalna fram á grafarbakkann og engrar samúðar að vænta.

Nokkur ljóðanna eru býsna beitt þótt þau láti kannski lítið yfir sér. Í ljóðinu „Maður kominn á aldur flettir blaðinu“ er sterk stríðsádeila og þemað minnir á hið sígilda Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Nokkur ljóðanna innihalda pælingar um lífið og tilveruna þar sem greina má söknuð og eftirsjá. Í „Eftirþönkum leiktjaldamálarans“ segir frá helgidögum og merkingu þeirra og því að óvíst er hvaða orð lýsa skáldinu best þegar upp er staðið: „þau sem ég sagði og setti á blað / eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota“ (50). Í einu ljóði er beðið eftir „sektarlausa deginum“ á bókasafni lífsins, þegar bókinni sem útskýrir allt verður skilað, þar sem stendur „hvenær ég á að deyja“ (55). Það er skemmtileg pæling. Ljóðið „Lúr í vagninum“ lýsir lífinu á örskotshraða, allt í einu er tíminn liðinn, búinn, horfinn og gamall maður verður aftur barn. Ísmeygilega kaldhæðni má sjá í tvíræðu og bráðsnjöllu ljóði, sem heitir „Heitstrenging síðasta víkingsins“ (32), þegar milljónasti túristinn stendur í skafrenningi og hríðarkófi í miðjum Kömbunum og við sjáum þá loksins „ljósið“. Og ekki þarf lengur að leita að tilgangi lífsins segir skáldið, því hann er fundinn; hann er auðvitað í mollinu!

Einkunnarorð bókarinnar eru fengin úr bítlalaginu fræga um Eleanor Rigby og einsemd og eftirsjá tengjast augljóslega efni margra ljóðanna. Það er gleðiefni að Tvífarinn er kominn á kreik, hann er kíminn, samsettur úr margbrotinni þjóðarsál, virðist kannski meinlaus en getur verið skeinuhættur.

Einfalt trikk

Piparkokuhusid-175x276

Piparkökuhúsið er fyrsta bók Carin Gerhardsen og kom út í Svíþjóð 2008. Hún er auglýst í fjölmiðlum hér á landi sem „Spennutryllir sumarsins“ og stendur fyllilega undir því.  Bókin hefst á átakanlegri senu þar sem hópur barna níðist á skólafélaga sínum af stakri grimmd. Sjálf segist Gerhardsen hafa orðið fyrir einelti í skóla svo hún þekkir það af eigin raun.  Í sögunni snýr fórnarlamb eineltis aftur áratugum síðar og tekur til við að myrða kvalara sína með grimmdarlegum hætti. Tveir lögreglumenn í Hammarby vinna aðallega að málinu, Sjöberg, sem er viðkunnanlegur vel giftur margra barna faðir, og einhleypi töffarinn Petra Westman sem lendir sjálf í ofbeldisglæp í sögunni. Þau skötuhjú eru sosum engar ofurhetjur og fara lengi villur vegar við lausn málsins. Lesandinn heldur allan tímann að hann viti meira en löggan en niðurstaðan kemur á óvart og eftir á að hyggja er trikkið í því ótrúlega einfalt.

Dagbókarfærslur morðingjans sem fleyga söguþráðinn sýna glöggt að þolandinn hefur beðið mikið tjón á sálu sinni vegna eineltisins. Grimmdin er heiftarleg, morðunum er lýst í smáatriðum og hefndin felst í að láta gerendur og þá sem efndu til ofbeldisins horfast í augu við glæp sinn áður en líftóran er murkuð úr þeim. „Þið eyðilögðuð ekki aðeins bernsku mína, þið rústuðuð öllu mínu lífi. Það sem þið gerðuð … var að eyðileggja heilt líf. Þú dæmdir mig til að lifa vinalausu og gleðisnauðu lífi í algjörri einangrun…“ (209). Eineltið átti sér fyrst stað í leikskóla og kennarinn sem býr í piparkökuhúsinu horfði framhjá því og  taldi það ekki í sínum verkahring að stöðva það. Boðskapur sögunnar er skýr, skeytingarleysið er jafnstór glæpur og ofbeldið sjálft.  Hver er sekur, sá sem sviptir meðbræður sína lífsgleði og sjálfstrausti með síendurteknu andlegu og líkamlegu ofbeldi,  sá sem skiptir sér ekki af eða sá sem hefnir harma sinna?

Nanna B. Þórsdóttir þýddi bókina ágætlega. Carin Gerhardsen hefur skrifað fleiri bækur um lögreglumennina í Hammarby sem njóta mikilla vinsælda þar í landi og væri gaman að fá að fylgjast meira með þeim. Sagan er vissulega hörkuspennandi og  gott er að gæða sér á Piparkökuhúsi með heitum kakóbolla í sumarrigningunni.

Áferð eftir Ófeig

„Jaðrar hverrar miðborgar eru bestu blettirnir, er bara hvar sem engir túristar eru, og pláss fyrir flakkara og náttúrurannsakanda eins og mig, manninn frá landinu sem er alltaf alls staðar, manninn sem er er alltaf innfæddur, kamelljónið… Jaðrarnir já, því þangað sem túristar leita, er okur garanterað. Fyrst er okrað, svo restinni rænt. Þetta er nýtt lögmál. Og jaðrarnir færast út, það er þeirra náttúra. Útþensla heimsins; rotnunin breiðist út frá miðjunni, innan frá. Það er mengun túristanna, afmáning hefðanna, sem byrjar í miðju hverrar borgar og við sérstæð náttúrufyrirbrigði, og dreifir sér síðan um alla jörðina. Hið fagra er fyrst til að rotna. Allar fallegar borgir eru þegar rústir einar, og náttúran niðurtroðin og yfirbyggð. Að ferðast og sjá nýja staði er ekkert merkilegt lengur, það er ekkert nýtt að sjá, allt er eins alls staðar, eða á hraðri leið í þessa einsleitni. Staðsetningar eru smávægilegar. Að fara á framandi slóðir er ekki hægt, allt sama óupprunalega draslið…“ (35)

Rakst á þessa stórskemmtilegu bók (2005) eftir Ófeig Sigurðsson. Sögumaður er einn á þvælingi um heiminn, án annars tilgangs eða fyrirheits en að kynnast landi og þjóð, læra að þekkja sjálfan sig, lenda í ævintýrum, mannast, drepa tímann. Mér sýnist að hann sé kannski í Afganistan eða Suður-Ameríku en það eiginlega skiptir engu máli. Það er farið út á ystu nöf. Sögumaður er oft nær dauða en lífi í öllu ruglinu, fullur og peningalaus, kynnist alls kyns furðufuglum og grimmum örlögum, sér skrýtnar siðvenjur og borðar ógeðslegan mat, lendir í klóm grimmra landamæravarða og verður ástfanginn. Hann pælir og pælir í tilgangi jarðlífsins, eðli mannsins og fáránleikanum í heiminum. Hrikalega fyndnar persónur og aðstæðurnar óborganlegar. Efitr lesturinn situr bæði ælubragð í munni og skítaykt í nösum og það er snilld, Langt síðan ég hef lesið svona krassandi og magnaða ferðasögu, vel skrifaða og eftirminnilega. Áferð myndar tengsl við Áform eftir Houellebecq (2001), þá mögnuðu bók, þar sem túrisminn, markaðshyggjan, einmanaleiki og firring mannsins fara út í átakanlegar öfgar.

Brakið

Brakið, Veröld 2011

Lauk við Brakið eftir Yrsu. Hef verið þokkalega ánægð með sumar Þórubækurnar en ekkki var þetta skemmtileg lesning. Víða kauðslega skrifað, persónur einhliða og grunnar og söguþráðurinn soldið út úr kú. Höfundur fer þó vel með margt, s.s. lýsingar á sorg aðstandenda fórnarlambanna og mörg samtöl eru vel uppbyggð. Sögusviðið er m.a. snekkja útrásarvíkings og þar er helsta spennan í gangi en frekar er dauft uppi á landi þar sem Þóra og hin frekar pirrandi  Bella símamær vaða í vilu og svíma. Þema sögunnar er grægðin og boðskapurinn alveg skýr en endalokin eru einhvern veginn slöpp.  Hér þarf góða ritstjórn og grimman yfirlestur hjá bókaforlaginu því hæfileikar, hugmyndir og frásagnargáfa eru fyrir hendi. Sagan mun fara vel á hvíta tjaldinu, ekki spurning.

Krossgötur

Ný bók Lizu Marklund um blaðakonuna þrautseigu og snjöllu, Anniku Bengtson, heitir á frummáli Du gamla, du fria sem er þýtt sem Krossgötur. Í sögunni er manninum hennar rænt og haldið í gíslingu í myrkviðum Afríku upp á líf og dauða. Sjónarhornið er til skiptis hjá henni og honum og eru kaflarnir sem gerast í gíslingunni gríðarlega spennandi. Sálarstríð og björgunaraðgerðir Anniku er ekki eins spennandi, þar er lopinn teygður með senum eins og „hún pissaði og burstaði í sér tennurnar…“ þar til maður fær alveg nóg. Endirinn er óvæntur og sýnir alveg nýja hlið á þeim hjónum en ég var þeirri stundu fegnust þegar ég lauk við bókina. Ofbeldið er gríðarlegt og spennan oft óbærileg en frásögnin er langdregin og lágreist og þýðingin er víða ansi kæruleysisleg. Í bókinni kemur vel fram snörp ádeila á okkur Vesturlandabúa sem hugsum bara um okkur sjálf og skeytum engu um örlög meðbræða okkar í öðrum heimsálfum. Við stuðlum að vopnasölu, barnaþrælkun og blóðdemantasölu og hirðum arðinn af viðskiptunum til að geta búið enn betur um okkur og makað krókinn. Vondu Vesturlönd.

Meistaraverkið

Ekki er ég sérlega hrifin af Meistaraverkinu eftir Ólaf Gunnarsson. Í bókinni eru 14 smásögur. Mér finnst hreinlega eins og sögurnar hafi verið geymdar í skúffu í áratugi, allavega var í þeim afar gömul sál og gamall tími sem þarf ekki endilega að vera slæmt ef vel er með farið. En það vantar í þær allan kraft, neista, spurn, átök. Þær gerast flestar í fortíðinni og snúast um svekkta og bælda karla, kynslóðabil og ást. Kvenpersónur sagnanna eru þrúgaðar, heimskar eða vergjarnar. Sögurnar eru langdregnar, með fyrirsjáanlega ófyrirsjáanlegu skúbbi í lokin og stíllinn flatur. Þessi bók Ólafs sem annars er í uppáhaldi hjá mér er langt frá því að bera nafn með rentu.

Forlagið