bókmenntir

Veröld sem var

Forlagið

Er mönnum ekki farið að fatast flugið þegar þeir eru farnir að skrifa endurminningar sínar? Verður það nokkurn tímann annað en sjálfsupphafning og naflakrafl? Pétur Gunnarsson skrifar nú nostalgíska bók um námsár sín erlendis og fyrstu árin sem skáld og kallar Veraldarsögu sína. Pétur er fyrir löngu orðin kanóna í hópi íslenskra  rithöfunda en hann kom fram með hvelli á áttunda áratugnum og á að baki glæstan feril. Hann er af ´68-kynslóðinni frægu en mörgum af þeirri kynslóð finnst nú kominn tími á að horfa um öxl, spyrja sig hvar dagar lífsins hafi lit sínum glatað og hvað sitji eftir af gamla, hippalega eldmóðnum. Þetta er skáldævisögulegt verk um ungan mann (og konu  hans, Hrafnhildi) á mótunarárum, ofið saman við sögu heimspekinnar sem jafnframt er saga mannsins sem hugsandi veru, útleggingar á pólitískri hugmyndafræði og fræðikenningum, gömul bréf og ljósmyndir saman við sögur af skemmtilegu fólki eins og t.d. Óla Torfa, hringjaranum óstundvísa. Allt skrifað á gullaldaríslensku með tilþrifum, t.d. pastamikil kona, smjattandi sandalar, karlpeningur sem „hafði lítið breyst frá apadögum því frumglæði alls sem hann tók sér fyrir hendur var keppni“, og gömul  hjón sem nú eru löngu dáin en „lifa óbrotgjörn í eilífu teboði“.  Tíminn í sögunni er flæðandi og skrykkjóttur, eitt atvik rifjar upp annað en allir þræðir koma saman að lokum. Þótt það séu mestmegnis karlar sem koma við þessa sögu,  fær kvennabaráttan örlítið rúm, hún hófst um þessar mundir og bæði kynin þurftu að skilgreina sig upp á nýtt:

„Hér var það Kvinde, kend din krop sem allt snerist um. Líkami konunnar. Sem var eins konar nýlenda sem karlaveldið hafði um aldir lagt hald á, skilgreint og dómínerað. Nú hafði landið lýst yfir sjálfstæði og landgæðin voru loks notuð fyrir eigendurna sjálfa. Í ljós kom eitt og annað sem karlar höfðu aldrei tekið með í reikninginn en gat gert konuna sjálfbæra í sælulegu tilliti. Sæðisbankar lánuðu fúslega þetta lítilræði sem karlmaðurinn leggur til, konan var einfær um afganginn. Var ekki táknrænt að eitt helsta karlgoð tímans, John Lennon, var orðinn að eins konar viðhengi þar sem hann hjúfraði sig í fósturstellingu að Yoko sinni Ono“ (83).

Það er gaman að lýsingum á stemningunni á stúdentagörðunum, baráttu námsmanna við skrifræðið í Frans; skrifstofunornir sem krefjast stimplaðra vottorða og staðfestra ljósrita; og úthlutunarreglur LÍN sem voru lítið skárri þá en nú. Hugljúf og rómantísk er frásögnin af sumarputtaferðalagi unga parsins um Evrópu sem innfæddir sýndu bæði traust og ómælda gestrisni. Þar er hippahugsjónin í algleymi, slíkt ferðalag er óhugsandi nú þegar túrisminn tröllríður öllu.

Í Veraldarsögunni skýrist tilurð fyrstu ljóða Péturs sem eru lituð af ádeilu, uppreisnaranda verkalýðsins og ástríðu fyrir betra mannlífi og réttlátara þjóðfélagi. Pælt er í margvíslegri hugmyndafræði, t.d. vinnunni sem kúgunartæki, kenningum Marx, Kants og Jesúsar frá Nasaret, áhrifum Bítlanna, og firringu mannsins frá tímum Grikkja og Rómverja til vorra daga.  Og hvernig neyslan sættir alþýðuna við hlutskipti sitt (143) sem er gömul saga og ný, hvernig bækur berast milli manna, hvernig ljóð verða til. Veraldarsaga Péturs er bæði um veröld hans og okkar, þroskasaga pilts og skálds og óður um ástina til Hrafnhildar en það gæti verið gaman að heyra hennar hlið á þessu tímabili í lífi þeirra. Og sagan er líka um það kraftaverk að verða foreldri, bæta enn einu barni í þessa voluðu veröld og þar endar sagan. Eini gallinn á þessari bók er hvað hún er stutt. Sumar bækur eru hæpaðar upp í fjölmiðlum meðan aðrar fara með veggjum. Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar  fer hljótt í hógværð sinni, vönduð, notaleg og mannbætandi lesning.

Fallinn engill

Englaryk-Forlagið

Unglingsstúlkan Alma setur allt á annan endann í fjölskyldu sinni og í bænum sem hún býr í. Brugðið er á það ráð að koma henni í meðferð til geðlæknis, samt er hún ekki veik, vandræðagemsi, fíkill, vændiskona eða afbrotaunglingur – nei, hún var týndur sauður sem fann Jesú og vill breiða út fagnaðarerindið.  Er það svo hræðilegt? Það er ekki hægt annað en að taka  undir með geðlækninum sem segir: „Það hefur nú margt enn hrikalegra verið gert í Jesú nafni. Stríð hafa verið háð. Menn pyntaðir. Konur brenndar lifandi“ (53). En boðskapur Jesú á ekki upp á pallborðið í nútímanum, t.d. það að maður eigi ekki að tilbiðja hluti og peninga heldur elska náungann og skipta öllu jafnt  (70). Enginn vill hlusta og Alma er eiginlega kaffærð í vísindalegri rökhyggju og þögguð niður. Foreldrarnir hafa áhyggjur af framtíð dótturinnar, sá sem sker sig úr og brýtur „reglur samfélagsins á erfitt uppdráttar, segir mamman, reglurnar fara eftir aldri, kynferði og fjárhagslegri stöðu“ (177) en mest óttast þeir að missa  hana út í trúarofstæki eða að hún gangi í sértrúarsöfnuð. Helst vilja foreldrarnir skyndilausn sem felst í að kaupa sálfræðimeðferð og „lækna“ hana í snarhasti, svo hægt sé að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Svona er söguþráður Englaryks, nýrrar skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, í stórum dráttum.

Kristindómur er í augum margra Íslendinga eitthvað sem ómar á rúv á sunnudögum og tengist frídögum og jarðarförum í stórfjölskyldunni.  Fæstir eru tilbúnir til að hlusta á trúarboðskap yfir kaffibollanum eða pæla til lengdar í kristilegum kærleiksblómum.  Alma, sem líka er of ung og loftkennd til að hægt sé að taka almennilegt mark á henni, mætir því miklu mótlæti í frelsun sinni, fórnum og baráttu fyrir betri heimi. Í sögunni er ætlunin að velta upp siðferðislegum spurningum og og fjalla um fordóma og margs konar vandamál, s.s. trúarbrögð, framhjáhald, fóstureyðingar,  alkóhólisma og rasisma. „Þið kallið alla Kínverja sem koma frá Asíu. Fólk er kannski frá Taílandi eða Malasíu eða Japan en þið segið bara Kínverjar. Svo getið þið ekki minnst á Indverja án þess að bæta við „rice and curry“ með einhverjum svona kjánalátum. Þið talið um litarhátt fólks eins og smákrakkar. Þið segið: brúnn, svartur, gulur, eins og það sé aðalmálið, eins og það sé sjálfsagt að flokka fólk svona niður. Samt viljið þið ekki kannast við að húðlitur skipti neinu máli, að hvíta fólkið hafi forréttindi…“ (182) segir John, nýbúi í bekknum hennar Ölmu. En einhvern veginn kviknar ekki almennilega í sögunni þrátt fyrir nægan eldivið. Persónurnar eru einfaldar og ná varla að hreyfa nægilega við lesandanum. Foreldrar Ölmu eiga sínar hversdagslegur krísur og gengur ekki vel að rækta hjónabandið, Snæbjörn er þorpsfyllibyttan sem Alma reynir að bjarga með því að boða honum guðs orð og svo er það geðlæknirinn, fulltrúi vísindanna, sem tengist fjölskyldunni á „óvæntan“ hátt. Þetta fólk er einhvern veginn dauflegt og fjarlægt.

Stundum fannst mér ég vera að lesa unglingabók þar sem hvorki mætti fara of djúpt né draga of mikið úr. Ágætis kaflar eru hér og hvar um unglingamenningu og unglinga yfirleitt, þessa skankalöngu klunna sem eru hvorki börn né fullorðnir en vita alveg sínu viti og eiga framtíðina fyrir sér. Bróðir Ölmu, Sigurbjartur, er einn af þeim. Afskaplega geðþekkur unglingur, hangir inn í herberginu sínu með stór áform, er engum háður og hefur hreinsað huga sinn af kynlífsórum. Það er auðvelt að taka undir með honum þegar hann segir: „trúarbrögð eru það sem mótar líf margra í heiminum meira en flest annað og þess vegna væri beinlínis heimskulegt að hafa engan áhuga á þeim“ (114). Hann er heillandi karakter sem er að uppgötva sjálfan sig, m.a. í gegnum kynlíf en sú sena í bókinni er frekar   tepruleg.   Eina persónan sem einhver töggur er í er presturinn. Hann er mannlegur  í afstöðu sinni, breyskur og einmana og á margar góðar ræður sem sýna vel hræsni hans og  yfirdrepsskap. Samskipti hans og Ölmu í fermingarfræðslunni eru bestu sprettirnir í sögunni, þar takast á trú og efahyggja, lítilmagni gegn yfirvaldi, engill gegn stofnun, töfrar og merking gegn stirðnaðri orðræðu og klisjum.

Trúarbrögð er viðkvæmt efni í skáldsögu og eldfimt en býður upp á endalausa möguleika. En þótt lagt sé upp með eitthvað í Englaryki rennur það út í sandinn, sagan verður aldrei nógu grípandi, áleitin, djörf eða grimm til að hreyfa við fólki sem hefur gleymt sínum guði og tapað sér í efnishyggju og sjálfselsku fyrir óralöngu.

Tvífari kominn á kreik

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Skáldið. Mynd úr Kvennablaðinu

Ég var svo heppin að ná í eintak af nýjustu ljóðabók Antons Helga Jónssonar. Hún ber hið skemmtilega heiti Tvífari gerir sig heimakominn sem er ekki síðri titill en á síðustu ljóðabók hans, Tannbursti skíðafélagsins og fleiri ljóð. Anton Helgi er gamalreyndur í bransanum og kemur nú sterkur inn með hverja ljóðabókina á fætur annarri eftir áratuga hlé frá ritstörfum en hann var öflugur þýðandi, ljóðasmiður og leikritaskáld á síðustu áratugum 20. aldar (sjá hér). Í nýju bókinni er m.a. að finna hversdagslegar myndir úr lífi skálds og meðaljóns, hnyttnar hugmyndir og ádeilubrodd.

Ádeilan beinist ekki síst að sofandahætti og þrælslund sem skáldinu þykir ríkjandi í samfélagi okkar. „Kaffi og ég eitthvað“ (45) dregur upp skonda en beitta mynd af hlýðnum þjóðfélagsþegn sem gerir „allt fyrir samlyndið“ og hlýðir fyrirmælum kaffivélarinnar í blindni. Sama þegnskylda er á ferð í skemmtilega tvíræðu ljóði, „Miðaldra biðskyldumerki“ (10) en þar ríkja einnig hrópandi einsemd og vonleysi sem snerta streng í brjósti lesandans. Samfélagskyldunum er hins vegar gefið langt nef í ljóðinu „Störukeppni sunnan undir vegg“ (30) þar sem eftirlitsmyndavél gýtur auga á manneskju sem gerir sér lítið fyrir og gyrðir niður um sig. „Útsýnið frá Borgartúninu“ er tæpitungulaust og napurt ljóð, landslagið breytist ekki þótt maður sé gjaldþrota hálfviti og blábjáni, barinn þræll húsnæðislána, okurvaxta og vísitalna fram á grafarbakkann og engrar samúðar að vænta.

Nokkur ljóðanna eru býsna beitt þótt þau láti kannski lítið yfir sér. Í ljóðinu „Maður kominn á aldur flettir blaðinu“ er sterk stríðsádeila og þemað minnir á hið sígilda Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk. Nokkur ljóðanna innihalda pælingar um lífið og tilveruna þar sem greina má söknuð og eftirsjá. Í „Eftirþönkum leiktjaldamálarans“ segir frá helgidögum og merkingu þeirra og því að óvíst er hvaða orð lýsa skáldinu best þegar upp er staðið: „þau sem ég sagði og setti á blað / eða hin sem mér hugkvæmdist ekki að nota“ (50). Í einu ljóði er beðið eftir „sektarlausa deginum“ á bókasafni lífsins, þegar bókinni sem útskýrir allt verður skilað, þar sem stendur „hvenær ég á að deyja“ (55). Það er skemmtileg pæling. Ljóðið „Lúr í vagninum“ lýsir lífinu á örskotshraða, allt í einu er tíminn liðinn, búinn, horfinn og gamall maður verður aftur barn. Ísmeygilega kaldhæðni má sjá í tvíræðu og bráðsnjöllu ljóði, sem heitir „Heitstrenging síðasta víkingsins“ (32), þegar milljónasti túristinn stendur í skafrenningi og hríðarkófi í miðjum Kömbunum og við sjáum þá loksins „ljósið“. Og ekki þarf lengur að leita að tilgangi lífsins segir skáldið, því hann er fundinn; hann er auðvitað í mollinu!

Einkunnarorð bókarinnar eru fengin úr bítlalaginu fræga um Eleanor Rigby og einsemd og eftirsjá tengjast augljóslega efni margra ljóðanna. Það er gleðiefni að Tvífarinn er kominn á kreik, hann er kíminn, samsettur úr margbrotinni þjóðarsál, virðist kannski meinlaus en getur verið skeinuhættur.

Einfalt trikk

Piparkokuhusid-175x276

Piparkökuhúsið er fyrsta bók Carin Gerhardsen og kom út í Svíþjóð 2008. Hún er auglýst í fjölmiðlum hér á landi sem „Spennutryllir sumarsins“ og stendur fyllilega undir því.  Bókin hefst á átakanlegri senu þar sem hópur barna níðist á skólafélaga sínum af stakri grimmd. Sjálf segist Gerhardsen hafa orðið fyrir einelti í skóla svo hún þekkir það af eigin raun.  Í sögunni snýr fórnarlamb eineltis aftur áratugum síðar og tekur til við að myrða kvalara sína með grimmdarlegum hætti. Tveir lögreglumenn í Hammarby vinna aðallega að málinu, Sjöberg, sem er viðkunnanlegur vel giftur margra barna faðir, og einhleypi töffarinn Petra Westman sem lendir sjálf í ofbeldisglæp í sögunni. Þau skötuhjú eru sosum engar ofurhetjur og fara lengi villur vegar við lausn málsins. Lesandinn heldur allan tímann að hann viti meira en löggan en niðurstaðan kemur á óvart og eftir á að hyggja er trikkið í því ótrúlega einfalt.

Dagbókarfærslur morðingjans sem fleyga söguþráðinn sýna glöggt að þolandinn hefur beðið mikið tjón á sálu sinni vegna eineltisins. Grimmdin er heiftarleg, morðunum er lýst í smáatriðum og hefndin felst í að láta gerendur og þá sem efndu til ofbeldisins horfast í augu við glæp sinn áður en líftóran er murkuð úr þeim. „Þið eyðilögðuð ekki aðeins bernsku mína, þið rústuðuð öllu mínu lífi. Það sem þið gerðuð … var að eyðileggja heilt líf. Þú dæmdir mig til að lifa vinalausu og gleðisnauðu lífi í algjörri einangrun…“ (209). Eineltið átti sér fyrst stað í leikskóla og kennarinn sem býr í piparkökuhúsinu horfði framhjá því og  taldi það ekki í sínum verkahring að stöðva það. Boðskapur sögunnar er skýr, skeytingarleysið er jafnstór glæpur og ofbeldið sjálft.  Hver er sekur, sá sem sviptir meðbræður sína lífsgleði og sjálfstrausti með síendurteknu andlegu og líkamlegu ofbeldi,  sá sem skiptir sér ekki af eða sá sem hefnir harma sinna?

Nanna B. Þórsdóttir þýddi bókina ágætlega. Carin Gerhardsen hefur skrifað fleiri bækur um lögreglumennina í Hammarby sem njóta mikilla vinsælda þar í landi og væri gaman að fá að fylgjast meira með þeim. Sagan er vissulega hörkuspennandi og  gott er að gæða sér á Piparkökuhúsi með heitum kakóbolla í sumarrigningunni.

Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga

Sigrún og Friðgeir„Hvernig drukknar maður með börnum sínum?“ Þessi setning úr Ferðasögu Sigrúnar og Friðgeirs (JPV) eftir Sigrúnu Pálsdóttur hefur ómað í höfði mér síðan ég lauk við bókina. Flestar ferðasögur hefjast á brottför að heiman, ævintýrum og sigrum og loks farsælli heimkomu en hér er því ekki að heilsa. Þau hjónakornin fara ung til Bandaríkjanna til náms í læknisfræði í heimstyrjöldinni síðari. Það er ekki auðvelt en allt gengur þeim í haginn enda harðduglegt og metnaðarfullt fólk með brennandi áhuga á að bæta heiminn. En grimm örlög bíða þeirra og það hefur mikil áhrif á mann að vita að þau munu farast ásamt þremur börnum sínum með Goðafossi sem var sökkt af þýskum kafbáti rétt fyrir stríðslok úti fyrir Garðsskaga, þann 10. nóvember 1944. Þvílik sóun og blóðtaka fyrir þjóðina, 24 manneskjur drukknuðu, 19 var bjargað við illan leik. Tónninn fyrir þessi grimmu örlög er sleginn strax á fyrstu blaðsíðum bókarinnar þegar dregin er upp mynd af hollensku farþegaskipi, Voledam, sem varð fyrir kafbátaárás og 77 börn deyja í náttfötunum sínum og björgunarvestum á kaldri haustnóttu, 400 sjómílur vestur af Skotlandi. En engum kom til hugar að slík örlög biðu íslenskra barna þótt ógnin vofði alls staðar yfir.

Þeim hjónum er fylgt eftir í Bandaríkjunum, lýst er fjölskyldulífi þeirra og framgangi við fræga spítala en Friðgeir var fyrsti Íslendingurinn sem lauk doktorsprófi frá Harvard og Sigrún hafði rétt lokið kandídatsári sínu þegar þau sneru heim, ein örfárra kvenkyns lækna á Íslandi. Þau áttu þriggja ára son áður en þau fóru utan, Óla, en Ragnheiður, barnlaus vinkona Sigrúnar, gætti hans meðan þau fóru að leita fyrir sér  um húsnæði og skóla. Það hefur eflaust hefur tekið á þær báðar, Friðgeir fer síðan stutta ferð til  Íslands að sækja Óla og fjölskyldan er sameinuð, Sverrir fæðist og loks Sigrún litla sem er pelabarn í heimferðinni. Sigrún hægir á námi sínu og frama með barneignunum en fjölskyldan er hamingjusöm og allt stefnir í bjarta framtíð.

Stuðst er við margvíslegar heimildir, s.s. hjartaskerandi ljósmyndir og ómetanlega dýrmæt bréfasöfn vina og vandamanna, m.a. bréf milli Sigrúnar og Ragnheiðar, ýmis viðtöl og margvíslegar prentaðar bækur, m.a. greinar um Reykjavík á þessum tíma, framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar, framvindu stríðsins og um innviði Gullfoss til að skapa rétta stemningu og rekja slóð þeirra hjóna. Heimildavinna er hin vandaðasta og er þá sama hvort litið er til tilvísana eða útlegginga af hendi höfundar.Oftast vil ég hafa tilvísanir neðanmáls en í þessu tilviki passa þær aftast. Þar segir m.a. að  lík þeirra Óla og Sverris voru þau einu sem fundust. Saga þeirra Sigrúnar og Friðgeirs er mjög vel skrifuð, hér er ekkert of eða van. Síðasti kaflinn er magnaður, ekkert yfirdrifið, engin væmni, átakanlega sorglegum atburði er lýst eins fallega og hægt er.

„Og myrkrið undir yfirborði sjávar sem verður svartara við hvert orð sem reynir að lýsa því sem þar hefur gerst“ (183).

Fiskarnir hafa enga fætur

Fiskarnir-hafa-enga-fætur-175x275Í bókinni segir Jón Kalman Stefánsson sögu nokkurra kynslóða á Íslandi, í senn sögu tíma og þjóðar. Þetta eru dramatískar sögur, um minningar, gleymsku og bælingu, æsku og elli, ást, harm og dauða með áþekku ljóðrænu og heimspekilegu ívafi og í þríleiknum sínum mikla, með heillandi frásögn, djúpum þönkum, frábærum mannlýsingum og hápólitískum boðskap. Verkið er eins og fögur tónlist, kaflarnir hefjast á alls konar pælingum, um hamingjuna, ástina, karlmennsku tungumálsins og kúgun konunnar, endalokin, sem leiða svo lesandann til persónanna og örlaga þeirra.Svo fallega skrifað þótt endurtekningar séu margar og t.d. orðið dökknandi sé höfundi mjög tamt á tungu.  Keflavík er svartasti staður landsins, kvótinn farinn, herinn farinn, búið að dæma bæinn úr leik. Á Norðfirði eru erfiðir tímar, þung barátta, líf í sjávarplássi er basl og strit og hráslagi, þreyta og svefnleysi taka sinn toll, ástríðan glatast, neistinn slokknar og kona breytist í lifandi múmíu. Sjálfsmynd þjóðarinnar er byggð á blekkingum, hún er þjökuð af minnimáttarkennd, fyrirlítur fortíð sína, torfkofana og fiskihjallana, sjávarútvegurinn stendur undir íslensku efnahagslífi en samt mega hjallarnir ekki sjást frá veginum að nýju flugstöðinni.Kaninn og kvótinn eru svartir blettir á sögu þjóðarinnar, fortíðin rímar ekki við glæstan samtímann, hvað eigum við að gera við hana? (332) Græðgin er svarthol mannsins, okkur er innprentað að við þurfum alltaf meira og meira, óseðjandi fíklar sem er stjórnað af einhverjum hagsmunaöflum sem græða á því að forheimska okkur, halda okkur við efnið. Og við svíkjum þá sem við elskum, svíkjum okkur sjálf og svíkjum uppruna okkar. Það er beittur tónn í þessu frábæra verki Jóns Kalmans í bland við ljóðrænuna, fagran stílinn og harmsöguna.

„Því er þá þannig háttað að öll atvik fortíðar, þau smáu sem stóru, skítlegu sem fallegu, hlátur og snerting handa, allt saman er fyrr eða síðar flautað út af, dæmt til að gleymast, dæmt til dauða, útþurrkunar, en þó einvörðungu vegna þess að enginn man lengur eftir því, hugsar aldrei um það, eða heldur ekki til haga, og þar með verður allt sem við lifðum smám saman að engu, ekki einu sinni lofti, sem er svo sárt, mikil sóun, og ýtir okkur í átt að tilgangsleysinu. Líf mannsins er verður í mesta lagi stakir tónar án lags, tilviljunarkennd hljóð en engin tónlist – er þarna komin ástæðan fyrir því að við ávörpum þig með þessari sögu kynslóða og hundrað ára, þessari sögu, eða plánetu, halastjörnu, þessu dægurlagi, þessum vinsældalista á heimsenda, vegna þess að við viljum að þú vitir að Margrét var einu sinni nakin undir ameríska kjólnum, brjóstin smá, hvelfd, langir, grannvaxnir en sterkir fótleggirnir læstust skömmu síðar utan um Odd, svo þú vitir og gleymir helst aldrei að einu sinni voru allir ungir, svo þú áttir þig á því að öll verðum við einhverntíma að brenna, brenna af ástríðu, hamingju, gleði, réttlæti, þrá, því það er sá eldur sem lýsir upp myrkrið , sem heldur úlfum gleymskunnar fjarri, eldurinn sem hitar upp lífið, svo þú gleymir ekki að finna til, svo þú breytist ekki í mynd á vegg, stól í stofunni, mublu fyrir framan sjónvarpið, í það sem horfir á tölvuskjáinn, í það sem ekki hreyfist, svo þú verðir ekki að því sem tekur tæpast eftir neinu, svo þú dofnir ekki upp og verðir að leiksoppi valdsins, hagsmunaafla, verðir ekki að því sem skiptir litlu máli, dofinn, í besta falli smurning í dularfullu tannhjóli. Brenna, svo eldurinn dofni ekki, hjaðni, kulni, svo veröldin verði ekki að köldum stað, bakhlið mánans“ (300-301).

Mánasteinn

MánasteinnLengi hafði ég beðið nýrrar bókar Sjóns. Mánasteinn segir frá samnefndum dreng í Reykjavík og hefst sagan síðla árs 1918, sem er sögulegt ár: heimstyrjöld lauk, frostaveturinn mikli og Kötlugos, spænska veikin geisaði og Íslendingar urðu fullvalda þjóð. Það er þó ekki verið að fjalla um þessa merku atburði heldur er athyglin á almenningi og samfélaginu sem það bjó í, sögumaður slær úr og í með veruleika og skáldskap og heldur manni sífellt  á tánum, drengurinn er ættfærður í bókarlok en var aldrei til. Máni Steinn er munaðarlaus, vinalaus og utangarðs og hættur í skóla. Hann er óskabarn óhæfunnar sem selur blíðu sína í skúmaskotum og drekkur í sig drama úr bíómyndum, hvort tveggja talið ósiðlegt athæfi. Hin dularfulla Sóla Guðb- er draumadísin en drengurinn gerir varla greinarmun á henni og kvikmyndastjörnum. Örlögin haga því svo að hann verður aðstoðarmaður læknisins og Sólu í Reykjavík í níu daga og þannig gefst færi á að fara í húsvitjun og horfa á bæinn breyta um ásýnd, verða að auðri sviðsmynd fyrir ískyggilega atburði (50). Þá skyndilega er hann orðinn hluti og þátttakandi í samfélaginu en honum er síðan úthýst jafn skyndilega.. Skemmst er frá því að segja að sagan er spennandi og afspyrnu vel skrifuð, lýsingar myndrænar og ljóðrænar  og beiting sjónarhorns minnir margoft á kvikmyndatækni (maðurinn er jú myndavél). Senur eru dimmar og dramatískar og renna vel, t.d. þegar drengurinn býður fóstru sinni í bíó og þegar verið er að fagna fullveldinu, drengurinn gleymir sér  í djúpum bíópælingum undir hástemmdum ræðum, kemur svo auga á myndarlegan matrós og þeir draga sig í hlé inni á lager.  Hræsni og fordómar losna aldeilis úr læðingi þegar drengurinn er gripinn glóðvolgur og látinn taka úr refsingu sína. Kynlífssenur eru ljóslifandi og ekkert dregið undan, ekkert gefið í skyn eða væmið rósamál hér, aðeins köld linsa og kastarar á allt draslið.

Drengurinn leitar skjóls í heimi kvikmyndanna, hann horfir á samfélagið og sjálfan sig þaðan, órar hans og draumar eiga rætur sínar þangað að rekja, í heim myrkurs, vampýra og skuggalegs myndmáls. Bókin er prýdd nokkrum draugalegum myndum, skemmtilegum tilvitnunum og ótal vísunum vítt og breitt. Mögnuð saga og sannarlega biðarinnar virði.

Málarinn eftir Ólaf Gunnarsson

MálarinnÍ Málaranum eftir Ólaf Gunnarsson er mikið drama. Davíð er listmálari, vinsæll og vel stæður en honum finnst ekki hafa fengið þá listrænu viðurkenningu sem hann á skilið. Hann er reikull í ráði, vansæll og ósjálfstæður og alltaf að bera sig saman við aðra listamenn, m.a. Kjarval og því er ekki furða að hann sé í sjálfsmyndarkreppu. Hann þarf líka að sanna sig fyrir tengdapabba sem fyrirvinna fjölskyldunnar og málar því aðallega huggulegar myndir sem seljast vel. Í örvæntingu ákveður hann að mála eina mynd í anda Kjarvals og tekst svona líka vel upp. Myndin selst á uppboði á svimandi háu verði en Davíð er í vondum málum því hann ætlaði að kaupa hana sjálfur og gefa akademíunni og snobbliðinu langt nef. Eftir því sem líður á söguna flækist hann meir og meir inn í aðstæður sem hann ræður ekkert við, Frásögnin er íronísk, hröð og spennan gríðarleg, alltaf vonast maður til að rætist úr fyrir Davíð en hann framkvæmir án þess að hugsa og gerir hvert axarskaftið á fætur öðru enda stjórnast han af annarlegum hvötum. Persónurnar eru sumar dregnar einföldum dráttum (vondir útrásarvíkingar og heildsalar, heiðarlegir iðnaðarmenn), tengdafaðirinn Benedikt  fannst mér samt hressandi og skemmtileg týpa og listamaðurinn Illugi var flottur sem djöfullega góður listamaður. Lesandi sér  tilveruna með augum Davíðs sem er eigingjarn, afbrýðissamur, bitur og þjakaður af minnimáttar- og sektarkennd og ekki vert að gleypa það hrátt sem hann sér og heyrir. Umhverfi og staðhættir sögunnar eru bráðlifandi og allt listilega úr garði gert. Í bókinni er ekki gerð tilraun til að kryfja myndlist sögutímans, 9. áratugarins, sérstaklega en stemningin svífur samt yfir vötnum og hefur lítið breyst held ég, velgengni í bransanum snýst um frumkraft, metnað og dirfsku en ekki síður um að hafa fjársterkan bakhjarl og fá góða dóma í fjölmiðlum. Það truflaði mig ekkert hvort atburðir sögunnar vísa til Hafskipsmálsins eins og það raunverulega var eður ei, atburðarásin var trúverðug og afar spennandi. Undir lokin hefur Davíð alveg tapað glórunni og sagan endar með ósköpum.  Málarinn er hörkugóður reyfari með alvarlegum undirtón og átökum upp á líf og dauða.

Fyrir Lísu

Fyrir Lísu„Gott ætti sá sem væri með abstrakt sál. Mín er meira konkret og hún er svo illa lömuð greyið að hún er afskaplega mikið fyrir. Ég er alltaf að detta um hana. Svo reyni ég að standa upp. Mér gengur best þegar ég er kyrr. Í gröfinni verð ég mest kyrr. Og þá verður loksins búið að jarða afturgönguna í mér.“ (129-130)

Segir Lísa sem ásamt litla bróður var misnotuð af föður sínum um árabil. Martin Montag álpaðist í bílskúrinn til pabba hennar þegar hann var 8 ára saklaus drengur og er síðan stórskemmdur á sálinni. Hvort í sínu lagi reyna þau Lísa að tjasla saman brotunum og lifa eðlilegu lífi og taka til sinna ráða þegar leiðir þeirra liggja saman. Bók Steinunnar Sigurðardóttur, framhaldið af Jójó, Fyrir Lísu, er full af sársauka. Þemað er siðferði og afleiðingar kynferðisofbeldis á fórnarlambið og aðstandendur þess, langvinn áhrif á ástarsamband, vináttu og fjölskyldu. Martin treystir engum, vill ekki eignast börn, hann pínir líkama sinn með áti og svelti og hlaupum og höndlar ekki snertingu, ekki einu sinni frá Petru, yndislegri eiginkonu sinni. Enginn subbuskapur er í bókinni, engar ofbeldislýsingar, heldur bara sálarkvöl sem lýst er á nærfærinn og ljóðrænan hátt. Samtölin eru skrýtin enda persónurnar sér á parti en þau eru skemmtileg og fyndin þótt undir búi átakanleg sorg. Ástin í ýmsum myndum er viðfangsefni sem er Steinunni hugleikið og hún fer afar vel  með. Eins og alltaf í bókum Steinunnar er nóg af rauðvíni, ostum og góðum mat, klassískri tónlist og notalegri stemningu sem er í senn stundarfró og flótti fyrir hrjáðar sögupersónur. Bókin sækir á mann að lestri loknum og smellpassar svona svaðalega í fjölmiðlaumræðuna akkúrat núna.

Fjarveran

Forlagið

Forlagið

Nördaþríleiknum hans Braga Ólafssonar lýkur nú með Fjarverunni (2012) að talið er. Aðalpersónan Ármann Valur tengist Gæludýrunum  frá 2001 og kannast við fólkið úr Sendiherranum (2006) og Handritinu (2010). Ármann V er prófarkarlesari og fær próförk að sögu þar sem sagt er frá atburðum sem gerðust í Gæludýrunum og honum er þar sjálfum lýst af gestgjafanum sem var reyndar fjarverandi. Sjálfur er hann svo að skrifa bók undir dulnefni. Hann stendur í stappi við íbúana í stigaganginum, hittir vini sína og kunningja en reynir líka að forðast þá því helst vill hann vera í friði. Hann klúðrar sambandi við dóttur sína, skreppur til Akureyrar, fantaserar um heillandi konu en kemur sér ekki að verki, gruflar í gömlu sakamáli o.fl. Skáldsagnavefur Braga er með þræði í ýmsar áttir, í algerum hægagangi líður lífið áfram í sérstöku raunsæi sínu, engin stórátök verða nema þegar einhver deyr eða dettur í það. Stíllinn er ljúfur og fallegur og fyndinn, sagan þokast áfram, persónurnar spjalla, fá sér brauðsneið, koma séri í klípu og neyðarlegar aðstæður eða skrifa bréf í rólegheitum. Bragi hefur löngum glímt við tímann í verkum sínum og svo er einnig hér. Tíminn fer í hringi, sögumaður tínir til ýmsar upplýsingar sem munu koma fram síðar og tengir sig við tíma sem hann hefur alvald á. Sérstakt er að sögupersónurnar eru komnar af léttasta skeiði eða á sjötugsaldur en ekki er úr þeim allur kraftur því sjálfur segir höfundurinn í Víðsjá að hann sé ekki alveg búinn að segja skilið við þær. Hann er þó búinn að drepa nokkrar og er dauðinn í sögunni illa lyktandi, einmanalegur og pínlegur. Það hlýtur að vera yndislegt að skrifa svona bók, nostra við hana, vefa hana úr gömlu og nýju efni, tengja og pæla og láta fólk hrekjast og mæta hversdagslegum örlögum sínum. Og mér fannst yndislegt að lesa þessa bók þótt örlög Ármanns og Estherar séu býsna nöturleg en svona er lífið – og dauðinn.