ljóð

Náttmyrkrið

3367923

Treystu náttmyrkrinu

fyrir ferð þinni

 

heitu ástríku

náttmyrkrinu

 

Þá verður ferð þín

full af birtu

 

frá fyrstu línu

til þeirrar síðustu

 

Sigurður Pálsson, 1948-2017

(Ljóð muna rödd, 2016)
Mynd: bokmenntaborgin.is

Fram þjáðir menn í lekum bússum

Hreistur_kapa_prent.inddEf nefna ætti einhvern sem hefur gert íslenskum farandverkamanni almennileg skil í ljóði og myndum, kemur Bubbi Morthens auðvitað fyrst upp í hugann. Töffarinn sem birtist í sjávarþorpinu troðfullur af dópi og hassi og þrælaði sólarhringum saman í akkorði við fiskvinnu. Hann tilheyrði rótlausum verkalýð sem fór pláss úr plássi þegar vantaði fólk í uppgripavinnu í frystihúsum, loðnubræðslum, á togurum eða dagróðrabátum; ílentist hvergi, passaði hvergi. Þetta var áður en fiskveiðikvótinn varð eign sægreifanna með þeim afleiðingum sem allir þekkja.

Farandverkamaðurinn og minningar úr sögu þjóðar eru efniviður ljóðabókar Bubba sem nefnist Hreistur. Bókin sem er tileinkuð fóstru hans og helsta bókmenntapáfa landsins, Silju (Aðalsteinsdóttur) inniheldur 69 nafnlaus og númeruð ljóð og umgjörð þeirra er sjö vökunætur þar sem fortíð vitjar mælandans sem „flæktur í vetrarkvíða“ (1) „fangar ljósfælin botndýr hugans“ (35).

Já, frystihúsið, færibandið og farandverkamaðurinn, allt er það nú gott og blessað en höfum við ekki heyrt þetta allt áður hjá höfundinum? Jú, hrognin eru að koma og ef ég drukkna, drukkna í nótt skjóta upp kolli í Hreistri, þetta þema hefur fylgt Bubba frá upphafi ferils hans seint á síðustu öld og er vörumerki hans. En einhvern veginn hefur hann alltaf lag á að endurnýja sig, koma ferskur inn. Og þetta er harðvítugt efni sem er ekki tæmt, bitur reynsla sem enn á eftir að vinna úr. Vísanir í fyrri verk búa til stemninguna, lesandinn setur sig í stellingar, kominn aftur í tímann, mættur upp á verbúð eftir langa vakt í hvítum stuttermabol með hlandvolgt vokda í kók.

Fiskverkafólkið hírist í fjórtán köldum og subbulegum herbergjum á verbúðinni sem „lykta af fiski, brundi, slori, rakspíra“ (1). Þetta er munaðarlaust, menntunarlaust og skeytingarlaust fólk (3) sem vekur hálfgerðan óhug meðal þorpsbúanna. Sjávarplássin eru í uppgangi á þessum tíma, símstöðin og kaupfélagið á sínum stað, það er næg atvinna og útgerðin blómstrar og það er ball í landlegum. En afturhvarf til hreistraðrar fortíðar er hvorki nostalgískt né fegrað. Þetta er harður heimur sem einkennist m.a. af ofbeldi og vímuefnaneyslu, eins og sjá má í ljóði sem dregur upp mynd af hópnauðgun á verbúðinni; atvik sem brenndi sig í minni ljóðmælandans. Heyrum skáldið fara með ljóð nr 27.

Bubbi les ljóðið 11.23-13.02        http://www.ruv.is/frett/eg-vard-vitni-ad-brutal-naudgun

Ljóðið er grípandi og áhrifamikið. Bubbi hefur sjálfur valið það til upplestrar víða enda smellpassar það inn í þá vaxandi umræðu um kynferðisofbeldi fyrr og nú sem á sér stað í samfélaginu. Í ljóðinu er lýst hinum sundurleita hópi fólks sem dvelur á verbúðinni; krúttlegur prófessor og kona sem segir sögur við „varðeld fiskanna“ en skrýmsli liggur í leyni; ofbeldi á sér stað, eins og „fjólublátt armband“ ber vott um; það er glæpur í gangi og það að hafa ekkert aðhafst hvílir á samviskunni árum saman.

Myndmálið úr mal Bubba samanstendur oftlega af kunnuglegum eignarfallssamsetningum, eins og „ískaldir fingur vetrarins“ og „langir armar myrkursins“. En í Hreistri eru líka ljóðmyndir sem ganga vel upp og eru nýmeti, hressilega jarðtengt og alveg séríslenskt. Ég tíni hér til nokkrar slitrur:

„langir fölgrænir veggir með / blóðblettum vínblettum leifum af uppköstum / voru okkar kjarval (1)

stelpurnar / allar þessar sölkur / með hníf í hendi og hárið frjálst (15)

í þúsund fokkera fjarlægð

var borgin sem við höfðum flúið

(40)

ríkistónlistin barst frá hátalara sem hékk niður úr loftinu

torfbæjarraddir fluttu dánartilkynningar

og jarðarförin var fyrr en varði komin inn til okkar

(40)

fram þjáðir menn í lekum bússum

(53)

sjóveikt viðundur

í óráðinu ljómaði hafið í sökkvandi raunveruleika

spýjan skall á gólfið

hálfmeltar hugmyndir um sjómennskuna

skoluðust eftir þilfari fyrir borð

(62)

Ljóð nr 16 finnst mér gott, líka nr 40, 44, 55. Og að lesa nr 65 er eins og að koma í heimahöfn, það er framlenging á frægasta lagi Bubba sem gaulað er í öllum betri partýum. Hreistur boðar ekki nýjungar í skáldskap, það eru engin átök við form eða efni en vel er farið með. Hreistur er heldur ekki pólitísk bók, það er engin reiði eða ádeila á ferð í þessu uppgjöri heldur stafar einlægni af ljóðunum og jafnvel örlar á viðkvæmni. Hörkuleg ímynd töffarans með stálið og hnífinn hefur dignað og velkst af boðaföllum í lífsins ólgusjó.

Alexandra Buhl annaðist hönnun og umbrot Hreisturs sem er alltof fíngert og nostursamlegt og í hróplegu ósamræmi við hrátt og blautt innihaldið. Og ég verð að segja, sem fyrrum frystihúsgella, að ég hef á tilfinningunni að hreisturgrafíkin sem prýðir bæði bókakápu og blaðsíðurnar snúi öfugt.

 

Víðsjá, 7. sept 2017: http://www.ruv.is/frett/adeilunni-skipt-ut-fyrir-einlaega-vidkvaemni

 

 

Staðir og stef

Sigurdardottir1.jpg

Mynd: toutelisande.fr

Nýjasta bók Steinunnar Sigurðardóttur, Af ljóði ertu komin, er sú níunda í röð ljóðabóka hennar frá því hún kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1969. Tæp 10 ár eru síðan Steinunn sendi síðast frá sér ljóðabók svo aðdáendur hennar voru orðnir ansi langeygir eftir molum frá drottningunni. Þeir verða ekki sviknir af nýju bókinni. Nú er örstutt í að að það verði hálf öld síðan Sífellur, fyrsta ljóðabók Steinunnar, kom út og því finnst mér tilvalið að lesa eitt ljóðanna úr henni.

„Nú skal aðgát höfð
og fólk einungis sært af lipurri einurð og umhyggju,
því nægar eru þær fyrir
þjáningar mannssálarinnar
já sízt á þær bætandi
svo hjálpi mér guð“

Þarna eru þau þegar mætt, kunnugleg stefin; íronía, orðaleikir og vísanir sem síðar urðu meðal helstu höfundareinkenna Steinunnar. Gagnrýnendur tóku bókinni sæmilega en fæstir áttu von á hinum glæsta ferli þessarar nítján ára gömlu skáldkonu.

Óendanleikinn allt um kring

Nýja ljóðabókin er tileinkuð einu flottasta og mest kvótaða skáldi módernismans á Íslandi, Sigfúsi Daðasyni, sem er sjálfsagt mjög sáttur við þann heiður. Bókin skiptist í nokkra hluta eða ljóðaflokka sem tengjast hafi og ást, dauða og sorg. Fyrst eru Siglingaljóð, sem þó eru engir sjómannavalsar. Endilöng manneskja í áralausum bát kemst að því að ástin sem hún þáði var stærri en sú sem hún gaf og að það er ekki alltaf land fyrir stafni, stundum er bara óendanleikinn allt um kring.

Ljóðið „Siglandi“ hittir beint í mark með taktföstum hljómi og hrynjandi og  hnyttnum myndhverfingum, heilsteyptri nýgervingu, um tilfinningarnar sem koma til manns á viðeigandi fleytum, heyrum brot úr því:

„Allt kemur það siglandi til mín:
Síðbúna Ástin á manndrápsfleyi.
Kæruleysispramminn.
Óstöðvandi gufuskipið Sorg.
Dauðinn á tundurspillinum.
Kemur Vonin höktandi á laskaða sanddæluskipinu.
Og Unaðurinn á flotholtinu samsíða.“ (15)

Írónían aldrei langt undan

Í næsta hluta bókarinnar kemur nóvember við sögu í öllum ljóðunum. Og allt er þar forgengilegt, meira að segja „The Girl from Ipanema“, sem bregður fyrir,  sú sem er hávaxin og sólbrún, ung og elskuleg í samnefndu dægurlagi, það sér á henni eins öllu öðru, allt hverfur, allt fer…

Í þeim hluta sem ber nafnið „Um allt og ekkert þvert“, hefjast ljóðin á einmitt orðunum Allt, Ekkert og Þvert. Þetta eru heimspekileg ljóð um kunnugleg stef, um tímann og fleira, og íronían sem Steinunn er þekkt fyrir að beita svo listilega er ekki langt undan:

„Allt er fyrirhöfn
að klína marmelaði á brothætt tekex, tjónka við rugludalla, búa sig á ballið, skreppa á klóið enn eina ferðina,
mála vegginn ófaglærður.

Af því að allt er fyrirhöfn
er maðurinn alltaf þreyttur;

eilíflega á leiðinni að leggja sig.

Þó vill hann allt annað en það þegar tími er kominn til að
leggja sig alveg.

Sitjandi upp við dogg heldur hann dauðahaldi í líftóruna.
Neitar að leggjast út af.

Það er mesta fyrirhöfnin þegar verst stendur á.

Því þá er maðurinn alverst í stakk búinn til að standa
í stórræðum
þegar deyja skal.

Loksins
Eftir lífsins óbilandi fyrirhöfn og málningarbras.“ (43)

Ísmeygileg kaldhæðni kemur í veg fyrir væmni án þess að breiða yfir boðskapinn. Í ljóðaflokknum eru líka þessar íhugulu hendingar sem sitja í manni:

„Af því að ekkert gerist um leið og það gerist,
Er lífið samsett úr andartökum sem við missum af“ (50)

Staðir eru Steinunni hugleiknir í skáldskap, og hér má finna staði fyrirheita, óskastaði, nafnlausa staði og eyðistaði. Kaflinn „Staðbundin ljóð“ sýnir kunnuglega hjartastaði sem eru myndrænir og eiga sér sögu, eins og Vatnsmýrin, Akureyri og Mokka. Í samnefndu ljóði er Ísjakaskipstjóri við Labrador að pæla í þessum fallegu ljóðlínum: „Enn er hjartað bundið í hafi, eyðimörkinni bundið, náttstað og eldi, sandrifi meðfram stjörnum“ (31). Áðurnefndur Sigfús hefði verið ánægður með þetta.

Dauðinn fer í Sundhöllina

Í þeim hluta sem kallast „Hinstu rök“ stígur dauðinn fram sem elskhugi, prakkari, flagari og fyllibytta. Þetta er hefðbundin myndhverfing sem á sér djúpar og alþjóðlegar rætur í bókmenntasögunni. Mynd Steinunnar af kauða er máluð íslenskum sauðalitum, hann fer í Sundhöllina með rakdótið og svo í Alþýðuhúsið með pela í buxnastrengnum. Þótt við reynum að forðast hann, verður hann á vegi okkar um síðir og býður upp í hinsta dans. Þetta hljómar eins og gömul tugga, en það er eitthvað við þetta.

„Dánir vinir“ er ísmeygilega kaldhæðinn ljóðaflokkur eins og sést af eftirfarandi broti sem er mjög Steinunnarlegt: „Dánir vinir vita ekkert í sinn haus, ekki um eftirleikinn, og það er eitt af því sem er svo þreytandi við þá“ (58).

Síðasti hlutinn er svo „Öldutrall“, gullfalleg ljóð þar sem hverflyndar öldur tralla og fjarræn golan sönglar um sorg og söknuð.

Lagt á djúpið

Ljóð Steinunnar Sigurðardóttur eru útpæld, full af einhverju fallegu og ljúfu, bæði lífsreynslu og lífsgleði. Sígild þemu eins og ástin, dauðinn og tíminn sem gætu virkað þreytt og máð, verða alltaf eins og ný í hennar meðförum. Ljóðin eru hlý, gefandi, heimspekileg og mannbætandi. Hún hefur frábært vald á tungumálinu, gjörþekkir mátt orðsins, kraft þess og kynngi. Þótt kímnin sé að vanda með í för liggur sorgin líka „í loftinu allar götur“ – og tengist við æskustaði, Blágresisbrekku og Hrauntjarnir (66).

Af ljóði ertu komin, (athugið að í titlinum er talað til kvenkynsins) er sérlega heilsteypt ljóðabók, hér er ekkert grunnsævi eða gutl, það er lagt á djúpið. Eini gallinn er kannski sá að hún er of stutt, hvert orð og hvert ljóð vandlega valið – við viljum alltaf meira.

Bókmenntagagnrýni · Menning · Víðsjá, 6. janúar 2017

Konan sem orti Konuvísur

Konudagurinn er liðinn, rómantíkin fjaraði út um leið og rósirnar fölnuðu og rjómatertan kláraðist. En bók dagsins er um verk fátækrar vinnukonu sem orti í óðaönn, bæði eftir pöntun og af djúpri skáldskaparást.

 Sumar bækur fá mikla athygli og umfjöllun í fjölmiðlum og eru á allra vörum meðan aðrar fljóta hjá í þögulli hógværð. Ein þeirra sem lætur lítið yfir sér er Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá. Helga var fædd 1877 (ári eftir að Stúlka, fyrsta ljóðabók eftir konu kom út á Íslandi) og lést á tíræðisaldri. Hún naut varla nokkurrar skólagöngu en hafði mikla unun af skáldskap. Helga var vinnukona, lengst af á Grjótá í Fljótshlíð. Hún var ógift og barnalaus, vann hörðum höndum allt sitt líf en orti í sínum fáu frístundum og allmikið safn kvæða liggur eftir hana.

Hér er á ferð bæði úrval og heildarsafn ljóða Helgu í sömu bók, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt. Í bókinni eru ágæt formálsorð eftir ritnefndarkonurnar Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Ástu Þorbjörnsdóttur á Grjótá, sem varpa ljósi á ævi og skáldskap Helgu. Loks er bókarauki úr heimildasafni Þórðar Tómassonar í Skógum um forna búskaparhætti og selstörf. Þann hluta hefði þurft að tengja betur við ævi og samtíma Helgu, sveitungarnir geta eflaust tengt betur við þetta efni en ókunnugir.

Screen Shot 2016-02-24 at 09.18.33

Upp úr glatkistunni

Í ágætum formála Hörpu Rúnar kemur fram að fyrir Helgu hafi ljóðlistin fyrst og fremst verið nytjalist en hún orti mest erfiljóð og tækifæriskvæði. Einnig kemur fram að það er fyrir fórnfúst starf Ástu Grjótárbónda sem kvæði Helgu koma út á bók, annars hefðu þau endað í glatkistunni eins og oft vill verða með kveðskap og skrif alþýðufólks á fyrri öldum.

Kvæði Helgu eru í anda rótgróinnar skáldskaparhefðar, bæði í efnistökum og formi. Tíðindi utan úr hinum stóra heimi og tískustraumar eins og nýrómantík eða formbylting snertu hana ekki baun. En það er aðdáunarvert hvað vinnulúin alþýðukona beitir leikandi létt fyrir sig fjölbreyttum bragarháttum, s.s. braghendum og hringhendum sem eru ekkert lamb að leika sér við:

Óska ég styggðir, last og lygðir
lands frá byggðum snúi fljótt.
En aukist dyggðir, einnig tryggðir
angurs hryggð frá hverfi drótt.

Konuvísur 1915

Orðræða Helgu er lítillát, stillt og vel þegin meðal viðtakenda á sínum tíma. Hún hefur verið helsta skáld sveitarinnar og til hennar var leitað með alls konar tækifæriskveðskap í tíma og ótíma. Helstu þemu í kveðskap hennar eru trú, náttúra og ættjörð. Árið sem konur fengu kosningarétt yrkir hún heillangt kvæði sem hún nefnir Konuvísur þar sem húsfreyjur í Fljótshlíð (en ekki vinnukonur) eru nafngreindar  og kostir þeirra tíundaðir. Í lokaerindinu er skáldið sjálft þó nafnlaust og öðrum ætlað að grafa það upp:

Nafn mitt harla nærgætnir
námsmenn þýða í friði,
sem í anda upplýstir
eru af sólarsmiði.

Helga yrkir ekki margt um sjálfa sig en þó má túlka sum kvæða hennar svo að líf hennar hafi verið dapurlegt á stundum og hún beðið skipbrot í ástamálum.

Að ganga bókafjörur

Nýlega var fjallað um kveðskap Helgu í þættinum Orð um bækur á rás 1 ásamt verkum tveggja annarra skáldkvenna sem einnig hafa farið hljótt í ys daganna en eru minnisverðar. Um útgáfu þessara bóka allra eiga vel við orð Þórunnar J. Valdimarsdóttur á dögunum: „það þarf að ganga á bókafjöru á útmánuðum svo góðar bækur hverfi ekki ólesnar“.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015

137 bls

Birt í Kvennablaðinu, 24. febrúar 2016

Ástin á snjallsímaöld, #tístogbast

Það er eitthvað lausbeislað og einlægt í ljóðum Eydísar Blöndal (f. 1994). Fyrsta ljóðabók hennar, Tíst og bast, kom út á dögunum hjá „Lús, forlagi sem fær fólk til að klóra sér í hausnum“. Eydís heldur bókinni hressilega á lofti á tístinu, þar kemur m.a. fram að hún hefur verið nefnd í Kiljunni og Rás 2 og ratað á metsölulista Eymundsson.

12270278_10153724748399328_746557452_n

Engir stuðlar skilja mig

Yrkisefni Eydísar er ástin, eða ástleysið öllu heldur, og einkaheimur ungmennisins sem er skítugt herbergi, pítsukassar og 101. Myndmálið er hrátt og einfalt, töffaralegt og slangrað. Lúið, gamalt og stirðnað form eldri höfunda nær ekki yfir veruleikann lengur;  „engin orð ná dýptinni / og engir stuðlar skilja mig“. Rímið er stundum með í för, tilraunakennt og frjálslega farið með, ekkert bindur unga og óstýriláta hugsun niður.

Ljóðin sveiflast milli sælla minninga og sjálfsvorkunnar („ringluð sál og hjarta sem blæðir“) og sjálfshaturs: „mikið djöfulli getur þú verið heimsk“. Þetta er enginn væminn unglingakveðskapur, þarna eru þroskaðar hugmyndir, alvöruinnihald og brennandi andi. Örsnögg mynd segir meira en mörg orð: „ég hálf tóm, þú hálf fullur“. Og það er hárbeittur tónn í ljóði sem ber tvírætt nafn: „amen, nr 4“ og ætti að vera skyldulesning fyrir alla (karla).

Ástin í símanum

Tvö ljóð bera nafnið „Harmleikur á snjallsímaöld“. Það er orðið alltof auðvelt að fylgjast með símtalaskránni og kveljast  yfir að enginn hafi hringt, minnsta mál að senda eldheit eða reiðiþrungin sms og bíða svo í angist eftir svari og  yfirþyrmandi sárt að fylgjast með fyrrverandi á Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum. Ástarsorg er gnægtarbrunnur fyrir skáld og rithöfunda eins og dæmin sanna.

Ástarljóðin eru gullfalleg, t.d. Varúð: þetta ljóð er um kynlíf. Og hér er skemmtileg mynd sem gengur vel upp:

„þvottavél

ég hélt ég væri þvottavél

og tróð inn í mig
óhreinustu drullusokkum borgarinnar
í von um að bjarga þeim

trúið mér
það virkar aldrei“

Tilraun framkvæmd

Í bókinni eru tæplega 40 ljóð. Lokakafli bókarinnar ber heitið Ástarsorg. Hverfistregða einsleitrar stúlku. Tilraun framkvæmd þarna um árið. Ljóðin í þessum hluta eru númeruð líkt og í skýrslu, tilraunin endar í kafla „3.4. Sátt“ og lokakafinn er nr. „4. Niðurstöður og úrvinnsla.“ Það er ekkert nýtt að ljóðið sé notað eins og þerapía fyrir hrellda sál en í þessari bók verður að segjast að það er býsna vel gert. Með nákvæmri klínískri tilraun fást svellkaldar og óhagganlegar niðurstöður og það er ein aðferð til að vinna sig í gegnum erfiðar tilfinningar eins og höfnun, reiði og sorg. Tíst og bast er fyrirtaks frumraun ungs höfundar sem á örugglega eftir að gera fleiri tilraunir í lífinu.

Ljóð

Lús, 2015

Ekkert blaðsíðutal

Birt í Kvennablaðinu, 20. nóv. 2015

Bindið niður trampólínin, komið grillunum í skjól!

Á votviðrasömu hausti er Stormviðvörun send út til landsmanna, þriðja ljóðabók reykvískrar skáldkonu, Kristínar Svövu Tómasdóttur. Áður hefur hún samið tvær ljóðabækur sem vöktu athygli fyrir hressilegt tungutak og róttækni. Frumraunin Blótgælur (2007) ruddist fram með látum; ælu, djammi og kaldhæðinni ádeilu á lífsstíl og neyslu. Næsta bók, Skrælingjasýningin(2011) þótti hárbeitt og ögrandi. Í Stormviðvörun hafa ljóðin styst, meitlast og mildast, ádeilan er ekki lengur hvöss og klúr. Alls eru 18 ljóð í bókinni sem fjalla um margvíslegt efni, s.s. land, þjóð og fortíð.

Dapureygður klyfjahestur og horfnir heildsalar

Titilljóðið er aftast í bókinni, það rífur í þegar maður hyggst leggja bókina frá sér og maður flettir aftur á fyrstu síðu til að lesa öll ljóðin aftur og aftur. Myndhverfingar ljóðsins eru drungalegar; sálin er dapureygður klyfjahestur, melankólían er ræktuð einsog hjartfólgin planta og líkaminn er eins og stór, þunglamalegur björn sem þráir að leggjast í híði. Tilfinningin sem skapast fyrir komandi vetri er þrungin þreytu og kvíða.

Í nokkrum ljóðum leitar fortíðin á, t.d. í „Passé 3: Rómantískt ljóð um kapítalista fortíðarinnar“ þar sem horfnir heildsalar koma við sögu en þeir eru orðnir sígilt tákn græðgi og efnishyggju. Í „Passé 4: Vér sigurvegarar“ er brugðið upp skuggalegri heimssýn, einhver hnýsist stöðugt í og ráðskast með líf okkar, við höfum tapað en hvers eigum við að gjalda?

Eftirfarandi er vel byggt og myndrænt ljóð sem sýnir vel húmorinn og þau frábæru tök sem Kristín Svava hefur á ljóðmálinu.

Gróðurhús

Geislavirkur birtukúpull
yfir snævi þakinni jörð

þrisvar á sólarhring er slökkt
svo plönturnar haldi að það sé komin nótt
leggst þá þunglyndi yfir mennska þegna
þessa varma lands
(13)

Sukk og froða
Myndmál flestra ljóðanna er einfalt, mest beinar myndir sem leyna þó á sér, t.d. „vonum að heimurinn tortímist í neistaflugi frá millistykkinu“ (8). Upphafsljóðið, „Böbblí í Vúlvunni“, er mjög í anda þeirrar róttækni og orku sem einkenndi fyrri ljóðabækur Kristínar Svövu. Ádeilan á neyslu og efnishyggju er umbúðalaus. Orðræða bókhaldsins birtist þar innan um allt sukkið og froðuna; rekstrarreikningur, risna og prósentur; og svo er bara að sækja um frest til að hægt sé að halda áfram að elska draslið og djönkið, efnisheiminn og ofgnóttina.

Lykt af brauðtertum
Það ríkir víða gleði í ljóðum Kristínar Svövu enda eru tilefnin ærin. Í ljóðinu „Austurvöllur á kistulagningardaginn“ er föstudagur með tilheyrandi grilli og gleði; tannlaus börn, stelpur í þynnku og fótbrotnir rónar í huggulegri sumarstemningu í Reykjavík og sorgin er víðs fjarri. Á gamlárskvöld hristir maður af sér grámann í opnu og lífshættulegu rými en fermingarveislan er hins vegar fyrirkvíðanleg, þar er lykt af brauðtertum og gömlu fólki og búið að læsa dyrunum.

Fossaljóð
„Upp við fossinn Lubba“ er náttúruljóð, nýtt innlegg í fossakvæði íslenskra (karl)skálda sem skipta tugum. Hér er ekki verið að dásama fossinn, fegurð hans og afl, heldur er hann tengdur við héraðsmót og fyllibyttur, ættbók og súra rigningu. Ljóðið er byggt á sífelldri endurtekningu sem minnir á vatnsnið. En í lokaerindinu hefur náttúrunni verið misboðið svo mjög að heimsendir blasir við.

Veðurhorfur næsta sólarhring
Það er af nógu að taka í Stormviðvörun, ljóðin eru ekki heildstæð eða þematengd en standa vel fyrir sínu hvert og eitt. Í titilljóðinu er vitnað í þunglyndislegan veðurfræðing sem kemst þannig að orði: „Dagurinn á morgun verður verri en það þýðir ekki að dagurinn í dag sé ekki slæmur“. Stormurinn er ekki brostinn á af fullum þunga en hann er í vændum og þá verða engin grið gefin.

Ljóð
Bjartur, 2015
36 bls

Birt í Kvennablaðinu, 17. okt. 2015

„Ritstýra forlagsins glennti út klofið“

Bjarni Bernharður er mörgum kunnur fyrir ljóðabækur sínar sem hann hefur mestmegnis gefið ötullega út sjálfur. Í árslok 2014 kom út heildarsafn og úrval ljóða hans, Tímasprengja. Myndskreytt af honum sjálfum.

Timasprengja

Ekki fer á milli mála að ljóðmælandi er víðast Bjarni Bernharður sjálfur enda rödd hans sterk og einlæg í öllum ljóðunum. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er tíminn honum hugleikinn.

Horft er um öxl til þeirra daga sem voru myrkir í lífinu og hann er fullur þakklætis fyrir að hafa komist heill frá „náttglöpum“, „heimi blæðandi myrkurs“ og „sýrunóttum“. En fram undan eru bjartir tímar, kyrrlátt ævikvöld í góðum friði við guð og menn við að skapa og njóta lífsins. Bjarni Bernharður hefur víða sagt frá lífshlaupi sínu sem er skrautlegt og einkennist m.a. af ofbeldi, geðveiki og fíkniefnaneyslu. Hann segist þó vera gæfumaður og „hamingjuhrólfur“ og horfir sáttur um öxl: „fleyi siglt / til víkur / við ljúfan / sálarbyr/ útlit fyrir sálarfrið“ (84).

Þjóðfélagsrýni er snar þáttur í ljóðagerð Bjarna Bernharðs. Sem dæmi mætti nefna ljóðið Þjóðlíf sem fjallar um misrétti, græðgi og andlega tómhyggju í þjóðarvitundinni (206). Mörg önnur ljóð eru á svipuðum nótum, þau einkennast af ríkri réttlætiskennd og innilegri von um jöfnuð og bræðralag. En þau hitta ekki í mark vegna þess að í ádeiluljóðum Bjarna er margnotað myndmál sem ekki hefur neitt nýtt fram að færa, þar birtast hriktandi stoðir þjóðarbúsins, hagkerfi í molum, skuldafen, blóm í byssukjafta o.s.frv. Það vantar ferska hugsun, frumleg efnistök og hið óvænta í ljóðin.

En Bjarni er svellkaldur og yrkir ótrauður um lífsins tafl, múra einsemdar, hug sem sveiflast eða flýgur, vor lífsins, akur lífsins, aldingarð ástarinnar og orð á hvítri örk eins og það hafi bara aldrei verið gert áður.

Menningarstig þjóðarinnar, einkum staða bókmennta, er áberandi þema í ljóðum Bjarna Bernharðs. Hann hefur löngum verið utangarðsmaður í skáldskapariðkun sinni og hvorki hlotið náð fyrir augum bókmenntaelítunnar, gagnrýnenda né útgefenda. Þess bera nokkur ljóð glögg merki og stundum tekur reiðin öll völd:

„Ritstýra forlagsins glennti klofið / og sagði: komiði, komiði strákar / með póstmódernísku skaufana …“
(129). Þá fær bókmenntaþátturinn Kiljan kaldar kveðjur í ljóðinu Herra og frú Egilz sem er algerlega grímulaust beint að Agli Helgasyni, umsjónarmanni þáttarins (132-133). Eitt ljóðið heitir Gagnrýnandinn og endurspeglar vægast sagt lúna klisju:

Harmar mjög
sitt lífshlaup
skúffuskáldið.

Ungur
átti sér draum
um sigra á bókmenntasviði.

Í dag
leigupenni
blautlegur bókarýnir
á morgunblaði

hjávillu sinni trúr.
(198)

Bókina prýða málverk Bjarna Bernharðs sem eru litrík og skemmtileg. Á bókarkápu lýsir hann því yfir að hann ætli nú að snúa baki við ljóðagerð og sinna myndlist og ævisagnaritun framvegis. Gott og vel.

Birt í Kvennablaðinu 10. júní 2015

„Skipt um sýlinder með köldu blóði“

Mynd_0890266

Elísabet Jökulsdóttir á að baki langan feril sem ljóðskáld og rithöfundur og hefur ort um ást og geðveiki á einstaklega einlægan og berorðan hátt. Ekki hefur hún notið stórra styrkja eða fyrirgreiðslna við skáldskapariðkun sína og jafnan gefið bækur sínar út sjálf en nú hefur hún hlotið Fjöruverðlaun og Lesendaverðlaun DV sem er fagnaðarefni, bæði verðskuldað og tímabært.

Í nýrri ljóðabók, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014), lýsir hún ástarsambandi við ofbeldismann með beinskeyttum myndum og skýru myndmáli, allt frá spennuþrungnu tilhugalífi til heiftarlegra sambandsslita. Hún birtist berskjölduð og nakin í ljóðum sínum, innan um naívar og blautar píkuteikningar sem endurspegla heita ástarþrána, greddu og losta sem oft er ruglað saman við ástina sjálfa.

Upphafsljóð bókarinnar, „Alvörukonan“, sýnir eðlislæga löngun eftir því að vera elskaður eins og maður er, sem stangast harkalega á við þá staðalmynd sem fólki hættir til að spegla sig í og birtist í háhælaskónum, meikinu og korselettinu sem karlinn færir konunni áður en hún veit af. Viðvörunarljósin fara að blikka en eru hunsuð og fyrr en varir er karlinn fluttur inn.

Fljótlega fer að bera á hnökrum í sambúðinni en þroskað fólk í nýju ástarsambandi vill láta hlutina ganga vel, ekki ergja sig á smáatriðum, ekki gera sömu mistökin aftur og lætur því ýmislegt yfir sig ganga. Ástin er djúp og sjóðheit, eins og sést t.d. í fallegu ljóði sem heitir „Kærastinn minn“ (21) og lýsir brynju sem karlinn hefur komið sér upp til að komast hjá sársauka í lífinu. Stundum er gaman hjá skötuhjúunum en oft er rifist og stundum slegist, mestmegnis einkennist sambandið af gagnkvæmum leiðindum og endalausum vonbrigðum.

Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).

Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:

Kaffiskvettan

Hann skvetti framan í mig kaffi
einhverra hluta vegna stend ég
við kústaskápinn og ég stend þar
þangað til ég er búin að fá vitið aftur
og nú er þetta búið
fyrst þetta er byrjað
því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi
það verður bara meira næst
og ég ætla ekki að bíða eftir því
svo ég opna skápinn
tek út kústinn
og flýg burt.
(62)

Birt í Kvennablaðinu, 29. mars 2015

Ekki er það útdautt enn…

400px-Pinguinus_impennus_(Audubon)

Slitur úr orðabók fugla (2014) er fjórða ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur. Hún fer sér hægt í ljóðagerðinni en ferill hennar spannar nú tuttugu ár. Í nýju bókinni eru 33 ljóð sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt eins og titillinn gefur til kynna. Hér birtast m.a. kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga þessir fuglar við okkur erindi.

Hér er á ferð útpæld, þematísk og heildstæð ljóðabók með skemmtilegum vinklum. Myndmálið tengist þemanu náið, fugl er algengt tákn í bókmenntum sem skírskotar í ýmsar áttir en stendur oft fyrir frelsi og frelsisþrá. Myndmálið er skýrt og einkennist af vísdómi og fáguðum smekk, ljóðlínurnar haganlega smíðaðar, húmor aldrei langt undan og niðurstaðan oft óvænt, ef ekki íronísk.

Táknum eins og vængjum, fjöðrum, hvössum goggum og krepptum klóm bregður fyrir í ljóðunum og yfir flögrar lúmsk ádeila sem birtist m.a. í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum. Vísanir eru víða, t.d. í bókmenntir fyrri alda, s.s. Egils sögu, sumar skýrðar í athugasemdum í bókarlok, aðrar svífa yfir vötnum þar til þær tengjast einhverju í huganum sem kalla má almenna þekkingu (miðaldra fólks), eins og t.d. „litla gula fræ / það var ég sem fann þig / svona hnöttótt og skínandi / og stútfullt af möguleikum“ (8).

Eftirfarandi er gott dæmi um ljóð úr bókinni. Hér talar geirfuglinn en eins og kunnugt er dó hann út um miðja 19. öld vegna ofveiði, hann var eltur uppi ófleygur og varnarlaus. Í ljóðinu lýsir fuglinn örvæntingu sinni og feigð. Formið er frjálst en takturinn minnir á forna bragarhætti:

geirfugl

(ertu aftur farinn að gráta?)

skerið mitt sokkið

öndvegið víðsýna

leikvangur ljóssins

og hreiðurklöppin mín fegurst allra

hjarta mitt skelfur

líkt og dauðaþögnin

rétt fyrir jarðskjálftann mikla

angistin nístir sem

logandi teinn

eggið mitt kólnar

á skötuskeri

tjóðraður við

minn titrandi skugga

bíð ég komu mannanna

með bareflin

brugðnu

(25)

Það er alltaf von á góðu frá Guðrúnu Hannesdóttur. Á meðan skáldskapur eins og Slitur úr orðabók fugla er til á Íslandi þarf ekki að óttast að ljóðið hljóti sömu örlög og geirfuglinn.

Birt í Kvennablaðinu 12. mars 2015

Dansað á línunni

Drapa-175x263 Forlagið

Drápa Gerðar Kristnýjar hefst um vetur, um kalda og flæðandi nótt.  Einhver ógn hvílir yfir heiminum, m.a.s. snjórinn er fjandsamlegur í Reykjavík, borginni sem er sokkin og minnir á Sin City, og dularfullur sirkus rennur saman við myrkrið. Illúðlegir trúðar eru á stjái og undarlegur „Ég“, kannski dauðinn eða skrattinn sjálfur sem er stundum hundur en stundum maður með slútandi hatt eða svarta vængi, á stóran þátt í skuggalegri atburðarásinni. Leiðir línudansara og boxara liggja óvænt saman í þessari syndum spilltu veröld og illska, grimmd og dauði taka völdin.

Myndmálið í Drápu er rammgert og vekur strax hugrenningatengsl við hrylling og ofbeldi;  hnífsoddar stingast, nóttin fellur á með hvini eins og öxi, húð er rist upp og skorið er á æðar og sinar. Línudansarinn, fulltrúi fíngerðra hreyfinga, lipurleika og jafnvægislistar, kemst að því að boxarinn er ekki sá bjargvættur sem hann virtist vera en er ekki undankomu auðið.  Hann fær makleg málagjöld í grimmum dauðdaga en allt er þetta til einskis þegar upp er staðið, því  hið illa lyftir sér til flugs og leitar alltaf fyrir sér á nýjum stað.

Öll er drápan er vandlega  ydduð og engu orði ofaukið en það er eitt af einkennum á ljóðum Gerðar hversu fáguð og knöpp þau eru. Margir kunnuglegir frasar birtast í nýjum búningi, t.d. örlöglaus, mín er borgin myrk sem blý, svefn hinna ranglátu og að lofa græsku grafarans. Hér er höfundur í essinu sínu, víðlesinn og margfróður með sinn hárfína og ísmeygilega  húmor. Myndræn nýyrði verða til, eins og  t.d. „grjóteygur“ sem á einkar vel við um snjókarla. Kuldi og vetur eru sérgrein Gerðar og koma fram í mörgum bókum hennar. Veturinn er hér persónugerður á ný og tengist stríði og ofbeldi á mjög ferskan hátt. Og snjöll er t.d. myndin af bárujárni sem bylgjast í straumi (52).

Vísanir eru víða, m.a. í forn kvæði og ný, þjóðsögur og ævintýri, heiðni og kristindóm.  Einnig skjóta taktar úr fornum bragarhætti upp kolli, bæði ljóðstafir, hálfrím og hendingar. Þá voru í drápum jafnan stef til að skapa hrynjandi og svo er einnig í Gerðardrápu, eftirfarandi er endurtekið með óreglulegu millibili og tilbrigðum:

borgin

slegin nóttu

hvarf í kóf

Stefin eru kunnuglegar vörður í skuggaveröld Drápu, skapa draugalegt samhengi og og halda við óhugnaðnum og þeirri heimsendastemningu sem þrumir yfir í ljóðinu.

Það er auðvelt að sökkva sér ofan í Drápu og gleyma sér í myrkraveröld hennar, njóta fegurðar orðanna, kjamsa á myndmáli og stílbrögðum, túlka þetta óræða kvæði og greina óhugnanlegan boðskapinn. Ég komst ekki hjá að velta fyrir mér hvort táknin væru orðin þreytt, klisjuleg og margnotuð. Sirkus er jú flókið fyrirbæri sem hefur löngum verið skáldum hugleikið, þar renna saman list og íþrótt, frelsi og ánauð, gaman og alvara, maður og dýr; kjörinn vettvangur fyrir skáldskap. En Gerður er eins og línudansari og kemst klakklaust yfir klisjurnar.  Myrkusinn er úthugsaður og töfrum slunginn bæði að formi og efni.  Bókarkápan er smekklega hönnuð, blaðsíður sem skipta ljóðinu í kafla eru með naglaförum klóruðum í kistulok en sú hryllingsmynd birtist í kvæðinu. Það er vel splæst í umgjörð þessarar eigulegu ljóðabókar og enginn kotungsbragur á. Víðast eru ekki nema nokkrar línur á blaðsíðu en innihaldið er þeim mun magnaðra.