bókmenntagagnrýni

Ógæfuleg, íslensk þjóð

ThrirSneruAftur-175x269

Guðbergur Bergsson er einna merkastur rithöfunda hér á landi. Ferill hans er langur og skrautlegur og spannar allt frá módernískum umbrotaskáldsögum frá sjöunda áratug síðustu aldar, með hvassri ádeilu á undirlægjuhátt og þjóðrembu, til ljúfsárra endurminningabóka sem villa á sér heimildir og ögrandi og umdeildra ástarsagna, að ógleymdum ljóðum hans og meistaralegum þýðingum.  Guðbergur hefur ekki legið á skoðunum sínum um land og þjóð og er jafnan með vöndinn á lofti. Í nýjustu bók sinni, Þrír sneru aftur, sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014, er höfundurinn á kunnuglegum slóðum. Sagan gerist á fimmta áratug síðustu aldar og segir á ansi kaldhæðinn hátt frá áhrifum hernáms og veru ameríska varnarliðsins á íslenskt þjóðlíf og þeirri djúpu gjá sem myndaðist milli kyrrstæðs bændasamfélags og ungu kynslóðarinnar sem kærði sig hvorki um kotið, bátskelina né eilífðarbaslið lengur.

Sagan gerist framan af á afskekktum sveitabæ þar sem stelpur tvær, sem oftast renna saman í eina, búa með afa sínum og ömmu og önugum syni þeirra hjóna sem hatar þær og öll eru þau að drepast úr leiðindum. Eina tilbreytingin er þegar ferðalangar eiga leið um, tveir góðlátlegir Bretar birtast einn góðan veðurdag og skjóta svo aftur upp kolli síðar sem hermenn, Þjóðverji sem felur sig í hrauninu um tíma og íslenskur umrenningur sem flakkar um landið og  vekur óhug hjá stelpunum. Það er eins og að vera staddur í baðstofunni í Sumarhúsum eða Fæti undir Fótarfæti þegar gamla konan hlýðir stelpunum yfir skræðurnar frá Ríkisútgáfu námsbóka fyrir ferminguna, bækur sem má ekki selja eins og stendur á kápunni, meðan afinn liggur í kör, hlandblautur á dívan. Myndin sem dregin er upp af sveitalífi og búskaparháttum fyrri tíma er svo sannarlega ekki fegruð.

Einangrunin er rofin þegar heimstyrjöldin síðari skellur á og Ísland er hernumið. Mæður stelpnanna  eru löngu stungnar af úr sveitinni í fjörið í þorpinu, þær heillast af hermönnunum og flytja síðan til Ameríku, fyrirheitna landsins. Með aldrinum grípur útþráin stelpurnar líka þrátt fyrir uppeldi í guðsótta og góðum siðum og þær stökkva líka að heiman og er fátt um kveðjur. Gömlu hjónin hokra áfram ásamt syninum og strák úr þorpinu sem hefur hrakist þangað vegna veikinda móður sinnar. Þeir tveir kúra undir súð og lesa í fásinninu á kvöldin bókina Þrír sneru aftur, sem fjallar um skipbrotsmenn í stríðinu.  Lýsingar á því hvernig sú saga þeytist um í hausnum á þeim og hvaða  skilning þeir leggja í hana eru óborganlegar. Á meðan er gamla konan eitthvað að úðra, ung var hún gefin bóndanum sem er til lítils gagns og hún er alvön sjá um búskapinn, trúa á sinn guð og taka því sem að höndum ber. Henni berast bréf frá öðrum breska hermanninum sem dúkkaði upp á bænum sumarið góða forðum og vangaveltur hans um stríðsrekstur og fleira vekja upp hjá henni efasemdir um hlutverk sitt og tilgang með þessu jarðlífi en henni tekst þó oftast að hrista þær af sér með vinnu. Strákurinn fer frá bænum og brátt eru gömlu hjónin, dætur og dætradætur úr sögunni. Strákurinn og sonurinn verða miðja frásagnarinnar í seinni hluta sögunnar þegar nútíminn heldur innreið sína. Sonurinn gengur í barndóm, selur stráknum jörð foreldra sinna og dregst upp í eymd og volæði, „eirðarlaus í óhreinum sængurfötum, þakinn kaunum, sífellt að klóra sér og rífa sig til blóðs og sleikja fingurgómana (178). Strákurinn situr yfir honum og hlustar á endalaust raus hans á daunillum dánarbeði til að fylla í skörð glataðrar æsku og sakleysis. Hann og kona hans koma síðan á fót náttúruvænni hótelþjónustu á jörðinni og þá gerist það ótrúlega, þrír snúa aftur!

Stíll sögunnar er eins og aðdáendur Guðbergs þekkja, þéttur, harkalegur, miskunnarlaus og meinfyndinn. Víða eru skýr tákn og vísanir enda er hér um táknsögu að ræða því hún fjallar um íslenska þjóð sem var fáfróð, einangruð og afskekkt, hreifst með útlendum straumum og hrekst síðan stjórnlaust í endalausum sjávarháska. Persónurnar eru allar nafnlausar og afskaplega ógeðfelldar og lastafullar í lágkúru sinni þar sem þær velkjast um í sögunni. Kona stráksins er t.d. skýr táknmynd fyrir séríslenska græðgi og sjálfbyrgingshátt, gamla konan stendur fyrir fornar hefðir og gömul gildi sem enginn kærir sig lengur um og hafa glatast.

Víða eru gullmolar að hætti Guðbergs, eins og: „Af umræðunum varð hið skringilegasta gaman sem grípur sumt fólk á efri árum þegar fortíðin er mikil en framtíðin stutt. Allt fer eftir því hvort minnið er gott og heilsan sæmileg, en hvað sem minni og heilsu líður verður framtíðin aldrei annað en takmörkuð óvissa sem endar á fullvissu“ (200). Guðbergi er ekkert heilagt og hann lætur gamminn geisa. Íslendingasögurnar og fégráðug þjóðin fá makið um bakið:

„Í þessum sögum var ekki að finna neinar hetjudáðir heldur þann hroka, öfund, hégómlyndi og smámunasemi sem fylgir einangrun eftir að fólk af vissri þjóð hefur slitnað að mestu frá stærri evrópskri menningarheild og myndað sína eigin sögu… Í þessum sagnaheimi, sem minnti á heim nútímans, verðlagði fólk allt. Ættirnar verðlögðu jafnvel manndráp innan þeirra og fjölskyldur mátu bæturnar misjafnlega. Allt fór eftir því hver hafði verið drepinn. Mikið fékkst fyrir dráp á sumum, minna á öðrum“ (208).

Samhliða þemanu um stríðsgróða, undirlægjuhátt og Kanamellur sem sífellt endurtekur sig í sögu þjóðarinnar er fjallað um vanrækslu og ofbeldi, elli og sjúkdóma, hnignun og hrörnandi líkama eins og Guðbergi er einum lagið:

„…þegar angistin nístir holdið fer hugurinn að leita frelsis og tungan fæst til þess að viðurkenna margfaldleika lífsins og grimmdina sem því fylgir. Maður er þá orðinn gamall  og þunglyndur og ófær um að líta á sig með hliðsjón af öðru en sjúkdómunum sem þjá hann, ólíkt því þegar hann var ungur og sá aðeins hreystina og hélt að heilbrigði fælist í hæfileika til að blekkja sjálfan sig, að verða nógu blindur til að sjá ekki hvað leiðir til uppgjafar“ (191).

Kvenfólkið í sögunni hefur lágar hvatir og þráir ekkert heitar en hjónaband, helst með Kananum, og skeytir engu um tilfinningar karlmannanna. Þeir enda í bælinu, hlandblautir og getulausir í kör, ástlausir og einmana. Strákurinn er undir hælnum á konu sinni, pirraður yfir því að hún er honum fremri í flestu og nær sér niðri á henni og föður sínum í leiðinni á óvæntan og kvikindislegan hátt. Boðskapurinn er skýr, hér rekur allt á reiðanum og okkur er ekki viðbjargandi. Menn binda vonir við að ferðaþjónusta komi í staðinn fyrir Kanann, túristar í stað hermanna, þetta reddist og allir græði og verði ríkir. Þó er ekki neinu að treysta:

„Nú sá hún ekki fram á mikla aðsókn, að ekki væri hægt að reiða sig á ferðafólk fremur en annað í þessu landi óstöðugleikans. Allt var óstöðugt: veðurfarið, gengið gjaldmiðilsins, verðlagið, samgöngur og yfirvofandi fellir í fjármálastjórn ríkisins. Það var sama sagan og í landbúnaði áður. Og fiskgengd á miðin fór eftir duttlungum strauma. Jafnvel fjöllin tóku allt í einu upp á einhverjum fjanda, eldgosum og stöðugum jarðskjálftum með frosti fram eftir sumri og kolrugluð trén áttu það jafnvel til að bruma í skyndilegum  hlýindum á miðjum vetri. Konan fór að formæla náttúrunni, allt væri orðið nútímalegt nema hún, hér væri til allt af öllu, allt stæðist samanburð við aðrar þjóðir, framfarir væri hvarvetna, en loftslagið og náttúran eins og aftan úr rassgati“ (206).

Þrátt fyrir ömurleikann og vonleysið er ekki hægt annað en að lesa þessa mögnuðu bók upp til agna til að komast að því hvernig fer fyrir okkar ógæfulegu, íslensku þjóð sem er dregin sundur og saman í nístandi háði og afhjúpuð svona miskunnarlaust og snilldarlega.

Kvennablaðið, 16. janúar 2015  

Ekki lengur aðgengilegt þar

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Hið lummulega 1989

Rúnturinn á Akureyri, í lok níunda áratugarins, herðapúðar og Lindubuff, hversu óskáldlegt er það?! Og skyndikynni sem bera óvæntan ávöxt, hann er skáld og fyllibytta og hún er verksmiðjustelpa, við bætast síðan drumbslegur kærasti og ráðrík amma… Það sem hefði getað orðið hversdagsleg og leiðigjörn ástar- og vandamálasaga frá 1989 verður að sprettharðri og fjörugri skáldsögu hjá Orra Harðarsyni. Hann hefur áður sent frá sér Alkasamfélagið en Stundarfró heitir hans fyrsta skáldsaga og lofar góðu.

Orri tekur efnið föstum tökum og mikil frásagnargleði einkennir söguna. Hann leggur alúð við allar persónur sínar, sem hver og ein glímir við sína fortíðardrauga, og sýnir þeim skilning í hremmingunum sem þær lenda í. Amman á bestu replikkurnar, hún er hörkutól sem hefur reynt margt án þess að fleipra nokkuð um það og stjórnar öllu með harðri hendi. Dísa er töffari og rómantíker, vinnur í súkkulaðiverksmiðjunni og sötrar pepsi meðan hún bíður eftir að grái skífusíminn hringi. Hún er auðveld bráð fyrir Arinbjörn Hvalfjörð, ungskáldið sem sló í gegn og miklar vonir eru bundnar við en hann er hjartaknúsari í gamalli merkingu þess orðs, þaulsætinn á öldurhúsum, rótlaus og forfallinn alki  sem flækist æ meir í eigin lyfavef. Í sjúkum huga hans fara fram rökræður milli meirihlutastjórnar og stjórnarandstöðu; „Máli beggja talaði hann samviskusamlega en gætti þess þó jafnan að stjórnin hefði andstöðuna undir. Sú síðarnefnda var einatt rödd skynseminnar. Það var sjaldnast heillandi að halda með henni“ (32-3). Þannig hrekst hann um í lífsins ólgusjó og sekkur sífellt dýpra. Lýsingar á hugrenningum hans, sem snúast um fíkn, flótta og fráhvörf, eru afskaplega trúverðugar:

„Hann kallaði það háskerpustigið, þetta hárfína ölvunarástand á milli núllstillingar og algleymis. Á því stigi varð  hann framúrskarandi skýr í hugsun og fær í flestan sjó. Ekkert óx honum í augum. Í stað óbærilegs kvíða og miðpunktsfóbíu varð hann miðpunktur alls. Í huganum hafði sitjandi stjórn fengið endurnýjað umboð og í raun unnið stórkostlegan kosningasigur. Tilfinningin var guðdómleg“ (41).

Stíllinn er kjarngóður og kraftmikill, hraður og fyndinn enda stólpagrín gert að persónunum sem þó eru afar ólánssamar. Senurnar eru margar nostalgískar og dæmigerðar fyrir tíðarandann, t.d. situr amman í eldhúsinu með kaffifantinn sinn, svælir sígarettu og hlustar á óskalög sjómanna. Tónlist af grammófóni, kassettum og útvarpi skipar stóran sess í sögunni, látlaust er vitnað í textabrot og snillinga eins og Dylan, Cohen og einnig kunna djassara. Það er bara gaman að því. Málfarið er oft gamaldags en hressilegt og frumleg stílbrögð og myndmál víða. Lausn sögunnar, sem ekki verður upplýst hér, er svolítið út í hött og hreinlega til óþurftar, lesendum er löngu orðið ljóst að þeim Arinbirni og Dísu er ekki skapað nema að skilja. Hvað sem því líður er Stundarfró vel  byggð og skemmtileg saga um sígilt efni, allir  eru jú í leit að einhvers konar stundarfró, hvort sem hún felst í ást, fíkn eða viðurkenningu.

Veröld sem var

Forlagið

Er mönnum ekki farið að fatast flugið þegar þeir eru farnir að skrifa endurminningar sínar? Verður það nokkurn tímann annað en sjálfsupphafning og naflakrafl? Pétur Gunnarsson skrifar nú nostalgíska bók um námsár sín erlendis og fyrstu árin sem skáld og kallar Veraldarsögu sína. Pétur er fyrir löngu orðin kanóna í hópi íslenskra  rithöfunda en hann kom fram með hvelli á áttunda áratugnum og á að baki glæstan feril. Hann er af ´68-kynslóðinni frægu en mörgum af þeirri kynslóð finnst nú kominn tími á að horfa um öxl, spyrja sig hvar dagar lífsins hafi lit sínum glatað og hvað sitji eftir af gamla, hippalega eldmóðnum. Þetta er skáldævisögulegt verk um ungan mann (og konu  hans, Hrafnhildi) á mótunarárum, ofið saman við sögu heimspekinnar sem jafnframt er saga mannsins sem hugsandi veru, útleggingar á pólitískri hugmyndafræði og fræðikenningum, gömul bréf og ljósmyndir saman við sögur af skemmtilegu fólki eins og t.d. Óla Torfa, hringjaranum óstundvísa. Allt skrifað á gullaldaríslensku með tilþrifum, t.d. pastamikil kona, smjattandi sandalar, karlpeningur sem „hafði lítið breyst frá apadögum því frumglæði alls sem hann tók sér fyrir hendur var keppni“, og gömul  hjón sem nú eru löngu dáin en „lifa óbrotgjörn í eilífu teboði“.  Tíminn í sögunni er flæðandi og skrykkjóttur, eitt atvik rifjar upp annað en allir þræðir koma saman að lokum. Þótt það séu mestmegnis karlar sem koma við þessa sögu,  fær kvennabaráttan örlítið rúm, hún hófst um þessar mundir og bæði kynin þurftu að skilgreina sig upp á nýtt:

„Hér var það Kvinde, kend din krop sem allt snerist um. Líkami konunnar. Sem var eins konar nýlenda sem karlaveldið hafði um aldir lagt hald á, skilgreint og dómínerað. Nú hafði landið lýst yfir sjálfstæði og landgæðin voru loks notuð fyrir eigendurna sjálfa. Í ljós kom eitt og annað sem karlar höfðu aldrei tekið með í reikninginn en gat gert konuna sjálfbæra í sælulegu tilliti. Sæðisbankar lánuðu fúslega þetta lítilræði sem karlmaðurinn leggur til, konan var einfær um afganginn. Var ekki táknrænt að eitt helsta karlgoð tímans, John Lennon, var orðinn að eins konar viðhengi þar sem hann hjúfraði sig í fósturstellingu að Yoko sinni Ono“ (83).

Það er gaman að lýsingum á stemningunni á stúdentagörðunum, baráttu námsmanna við skrifræðið í Frans; skrifstofunornir sem krefjast stimplaðra vottorða og staðfestra ljósrita; og úthlutunarreglur LÍN sem voru lítið skárri þá en nú. Hugljúf og rómantísk er frásögnin af sumarputtaferðalagi unga parsins um Evrópu sem innfæddir sýndu bæði traust og ómælda gestrisni. Þar er hippahugsjónin í algleymi, slíkt ferðalag er óhugsandi nú þegar túrisminn tröllríður öllu.

Í Veraldarsögunni skýrist tilurð fyrstu ljóða Péturs sem eru lituð af ádeilu, uppreisnaranda verkalýðsins og ástríðu fyrir betra mannlífi og réttlátara þjóðfélagi. Pælt er í margvíslegri hugmyndafræði, t.d. vinnunni sem kúgunartæki, kenningum Marx, Kants og Jesúsar frá Nasaret, áhrifum Bítlanna, og firringu mannsins frá tímum Grikkja og Rómverja til vorra daga.  Og hvernig neyslan sættir alþýðuna við hlutskipti sitt (143) sem er gömul saga og ný, hvernig bækur berast milli manna, hvernig ljóð verða til. Veraldarsaga Péturs er bæði um veröld hans og okkar, þroskasaga pilts og skálds og óður um ástina til Hrafnhildar en það gæti verið gaman að heyra hennar hlið á þessu tímabili í lífi þeirra. Og sagan er líka um það kraftaverk að verða foreldri, bæta enn einu barni í þessa voluðu veröld og þar endar sagan. Eini gallinn á þessari bók er hvað hún er stutt. Sumar bækur eru hæpaðar upp í fjölmiðlum meðan aðrar fara með veggjum. Veraldarsaga Péturs Gunnarssonar  fer hljótt í hógværð sinni, vönduð, notaleg og mannbætandi lesning.

Ástin, taflið og tungumálið

Astarmeistarinn-175x260

Anna og Fjölnir sem bæði hafa  lent í hrakningum á vegum ástarinnar rekast af tilviljun hvort á annað í hinni fögru Grímsey. Það væri kannski alveg tilvalið að þau þreifuðu fyrir sér en í staðinn veðja þau sín á milli um ástina, að þau hvort í sínu lagi finni ástarmeistara sem getur kennt þeim að elska, án ótta. Leiðir skilja og veðmálið gengur út á að í  hvert sinn sem þau hitta einhvern sem gæti verið meistari í ást skrifa þau hvort öðru bréf og í hverju bréfi er einn leikur í skák. En er einhver íþrótt eins langt frá því að vera sexí? Annað kemur á daginn, bókin löðrar í daðri og erótík, myndmálið er ferskt, textinn á fallegu tungumáli og snilldartaktar í hörkuspennandi  skák, sem svo sannarlega hefur aldrei verið tefld áður, kóróna verkið.

Ástarmeistarinn er fjórða skáldsaga Oddnýjar Eirar en hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir verk sín. Rauði þráðurinn í þessari bók er leitin að grundvelli ástarinnar, reynt er að skilja ástina í öllum sínum margvíslegu myndum og fjalla um sambandið milli ástar, valds og tungumáls. Fyrri hluti bókarinnar samanstendur af bréfum og skákleikjum og smátt og smátt kynnast skötuhjúin betur og takast á við bælingu sína, skömm, höfnunarótta og ástarfælni. Minningar streyma fram, draumar eru raktir og ráðnir, de Sade kemur m.a. við sögu ásamt ástkonunum frægu, þeim Önnu Karenínu og Önnu frá Stóru-Borg; Nietzsche og Simone de Beauvoir svífa yfir og heimsfrægar skákkonur skjóta upp kolli. Í seinni hlutanum dregur til tíðinda og ástarmeistararnir birtast með kenningar sínar og kynþokka. Öllu ægir saman í sjóðandi ástarpotti þar sem kynorkan vellur og kraumar svo úr verður ögrandi texti, heillandi persónur og hugljúf atburðarás.

Anna og Fjölnir birtast sem venjulegar og breyskar manneskjur. Fjölnir er bangsalegur útbrunninn sálfræðingur, grimmur „fræðarefur“ (20). Hann hefur unun af að leika sér með orð og hugmyndir, er jarðbundinn og leitandi og hefur farið illa út úr hjónabandi. Hluta sögunnar dvelur hann við rannsóknir og ritstörf í Odda en þangað barst einmitt skákin fyrst til Íslands (135)! Krísa hans felst m.a. í því að hann er í biðstöðu í lífinu og konur virðast elska hann annaðhvort bara sem elskhuga eða andlegan bróður. Hann er orðinn þreyttur á  að veita fagleg ráð og sýna skilning. Hann þráir að vera elskaður og að verða meiri karlmaður en menntamaður.

Anna er heilari, jógaiðkandi og nýaldarsinni, stöðnuð í einsemd og framan af sögu er hún ansi forn í háttum. Þegar hún heimsækir Fjölni í Odda hugsar hún með sér hvort hún sé hrifin af honum og hvers vegna „skyldi hún þá ekki gefast honum?“  sem er furðulega gamaldags hugsun. Hún óttast mest að geta aldrei elskað framar en þegar hún stígur yfir sín eigin mörk með hinum unga og graða Einari, verður hún frjáls, eins og laus undan aldagömlu oki. Tungumál kynlífs þeirra vísar í bókmenntir frá fyrri hluta síðustu aldar, hér er komin samfarasenan sem aldrei var skrifuð í Önnu frá Stóru-Borg. Myndmálið tengist allt smiðjunni þar sem ástarfundurinn fer fram, járnið er hamrað, kraftmikil kvika breytist í sindrandi gjall, „limurinn enn beinstífur eins og nýhert stál“ og snípurinn eins og nýsmíðaður koparhnappur (176-7).  Tungumálinu er beitt á óvenjulegan og skapandi hátt svo úr verður nýtt ástarmál. Fleiri kynlífssenur eru svona fallegar en spurning vaknar um hvort ekki megi segja typpi og píka í bók? Limur og sköp verða að teljast frekar tepruleg orð í frumlegri og ögrandi skáldsögu á 21. öld.

Tafl er líkt og ástin tveggja manna spil (114). Ástin er valdatafl og spennan milli Önnu og Fjölnis vex eftir því sem líður á söguna, getur þetta endað vel? Þegar Fjölnir býður Önnu jafntefli er hún með unnið tafl. Hún er drottning ástarinnar, hún hefur leyst orku úr læðingi og sigrast á óttanum.  En hver er þá kóngurinn? Það er nóg um að hugsa  eftir lestur þessarar afbragðsgóðu bókar. Er til ást án einurðar? Eru hugur og  hjarta eitt? Er hægt að elska án ótta? Ryður ástin sársaukanum burt? Ástarmeistarinn svarar  brennandi spurningum æstra lesenda á sinn hátt, látið hann ekki framhjá ykkur fara.

Dansað á línunni

Drapa-175x263 Forlagið

Drápa Gerðar Kristnýjar hefst um vetur, um kalda og flæðandi nótt.  Einhver ógn hvílir yfir heiminum, m.a.s. snjórinn er fjandsamlegur í Reykjavík, borginni sem er sokkin og minnir á Sin City, og dularfullur sirkus rennur saman við myrkrið. Illúðlegir trúðar eru á stjái og undarlegur „Ég“, kannski dauðinn eða skrattinn sjálfur sem er stundum hundur en stundum maður með slútandi hatt eða svarta vængi, á stóran þátt í skuggalegri atburðarásinni. Leiðir línudansara og boxara liggja óvænt saman í þessari syndum spilltu veröld og illska, grimmd og dauði taka völdin.

Myndmálið í Drápu er rammgert og vekur strax hugrenningatengsl við hrylling og ofbeldi;  hnífsoddar stingast, nóttin fellur á með hvini eins og öxi, húð er rist upp og skorið er á æðar og sinar. Línudansarinn, fulltrúi fíngerðra hreyfinga, lipurleika og jafnvægislistar, kemst að því að boxarinn er ekki sá bjargvættur sem hann virtist vera en er ekki undankomu auðið.  Hann fær makleg málagjöld í grimmum dauðdaga en allt er þetta til einskis þegar upp er staðið, því  hið illa lyftir sér til flugs og leitar alltaf fyrir sér á nýjum stað.

Öll er drápan er vandlega  ydduð og engu orði ofaukið en það er eitt af einkennum á ljóðum Gerðar hversu fáguð og knöpp þau eru. Margir kunnuglegir frasar birtast í nýjum búningi, t.d. örlöglaus, mín er borgin myrk sem blý, svefn hinna ranglátu og að lofa græsku grafarans. Hér er höfundur í essinu sínu, víðlesinn og margfróður með sinn hárfína og ísmeygilega  húmor. Myndræn nýyrði verða til, eins og  t.d. „grjóteygur“ sem á einkar vel við um snjókarla. Kuldi og vetur eru sérgrein Gerðar og koma fram í mörgum bókum hennar. Veturinn er hér persónugerður á ný og tengist stríði og ofbeldi á mjög ferskan hátt. Og snjöll er t.d. myndin af bárujárni sem bylgjast í straumi (52).

Vísanir eru víða, m.a. í forn kvæði og ný, þjóðsögur og ævintýri, heiðni og kristindóm.  Einnig skjóta taktar úr fornum bragarhætti upp kolli, bæði ljóðstafir, hálfrím og hendingar. Þá voru í drápum jafnan stef til að skapa hrynjandi og svo er einnig í Gerðardrápu, eftirfarandi er endurtekið með óreglulegu millibili og tilbrigðum:

borgin

slegin nóttu

hvarf í kóf

Stefin eru kunnuglegar vörður í skuggaveröld Drápu, skapa draugalegt samhengi og og halda við óhugnaðnum og þeirri heimsendastemningu sem þrumir yfir í ljóðinu.

Það er auðvelt að sökkva sér ofan í Drápu og gleyma sér í myrkraveröld hennar, njóta fegurðar orðanna, kjamsa á myndmáli og stílbrögðum, túlka þetta óræða kvæði og greina óhugnanlegan boðskapinn. Ég komst ekki hjá að velta fyrir mér hvort táknin væru orðin þreytt, klisjuleg og margnotuð. Sirkus er jú flókið fyrirbæri sem hefur löngum verið skáldum hugleikið, þar renna saman list og íþrótt, frelsi og ánauð, gaman og alvara, maður og dýr; kjörinn vettvangur fyrir skáldskap. En Gerður er eins og línudansari og kemst klakklaust yfir klisjurnar.  Myrkusinn er úthugsaður og töfrum slunginn bæði að formi og efni.  Bókarkápan er smekklega hönnuð, blaðsíður sem skipta ljóðinu í kafla eru með naglaförum klóruðum í kistulok en sú hryllingsmynd birtist í kvæðinu. Það er vel splæst í umgjörð þessarar eigulegu ljóðabókar og enginn kotungsbragur á. Víðast eru ekki nema nokkrar línur á blaðsíðu en innihaldið er þeim mun magnaðra.

Fallinn engill

Englaryk-Forlagið

Unglingsstúlkan Alma setur allt á annan endann í fjölskyldu sinni og í bænum sem hún býr í. Brugðið er á það ráð að koma henni í meðferð til geðlæknis, samt er hún ekki veik, vandræðagemsi, fíkill, vændiskona eða afbrotaunglingur – nei, hún var týndur sauður sem fann Jesú og vill breiða út fagnaðarerindið.  Er það svo hræðilegt? Það er ekki hægt annað en að taka  undir með geðlækninum sem segir: „Það hefur nú margt enn hrikalegra verið gert í Jesú nafni. Stríð hafa verið háð. Menn pyntaðir. Konur brenndar lifandi“ (53). En boðskapur Jesú á ekki upp á pallborðið í nútímanum, t.d. það að maður eigi ekki að tilbiðja hluti og peninga heldur elska náungann og skipta öllu jafnt  (70). Enginn vill hlusta og Alma er eiginlega kaffærð í vísindalegri rökhyggju og þögguð niður. Foreldrarnir hafa áhyggjur af framtíð dótturinnar, sá sem sker sig úr og brýtur „reglur samfélagsins á erfitt uppdráttar, segir mamman, reglurnar fara eftir aldri, kynferði og fjárhagslegri stöðu“ (177) en mest óttast þeir að missa  hana út í trúarofstæki eða að hún gangi í sértrúarsöfnuð. Helst vilja foreldrarnir skyndilausn sem felst í að kaupa sálfræðimeðferð og „lækna“ hana í snarhasti, svo hægt sé að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Svona er söguþráður Englaryks, nýrrar skáldsögu Guðrúnar Evu Mínervudóttur, í stórum dráttum.

Kristindómur er í augum margra Íslendinga eitthvað sem ómar á rúv á sunnudögum og tengist frídögum og jarðarförum í stórfjölskyldunni.  Fæstir eru tilbúnir til að hlusta á trúarboðskap yfir kaffibollanum eða pæla til lengdar í kristilegum kærleiksblómum.  Alma, sem líka er of ung og loftkennd til að hægt sé að taka almennilegt mark á henni, mætir því miklu mótlæti í frelsun sinni, fórnum og baráttu fyrir betri heimi. Í sögunni er ætlunin að velta upp siðferðislegum spurningum og og fjalla um fordóma og margs konar vandamál, s.s. trúarbrögð, framhjáhald, fóstureyðingar,  alkóhólisma og rasisma. „Þið kallið alla Kínverja sem koma frá Asíu. Fólk er kannski frá Taílandi eða Malasíu eða Japan en þið segið bara Kínverjar. Svo getið þið ekki minnst á Indverja án þess að bæta við „rice and curry“ með einhverjum svona kjánalátum. Þið talið um litarhátt fólks eins og smákrakkar. Þið segið: brúnn, svartur, gulur, eins og það sé aðalmálið, eins og það sé sjálfsagt að flokka fólk svona niður. Samt viljið þið ekki kannast við að húðlitur skipti neinu máli, að hvíta fólkið hafi forréttindi…“ (182) segir John, nýbúi í bekknum hennar Ölmu. En einhvern veginn kviknar ekki almennilega í sögunni þrátt fyrir nægan eldivið. Persónurnar eru einfaldar og ná varla að hreyfa nægilega við lesandanum. Foreldrar Ölmu eiga sínar hversdagslegur krísur og gengur ekki vel að rækta hjónabandið, Snæbjörn er þorpsfyllibyttan sem Alma reynir að bjarga með því að boða honum guðs orð og svo er það geðlæknirinn, fulltrúi vísindanna, sem tengist fjölskyldunni á „óvæntan“ hátt. Þetta fólk er einhvern veginn dauflegt og fjarlægt.

Stundum fannst mér ég vera að lesa unglingabók þar sem hvorki mætti fara of djúpt né draga of mikið úr. Ágætis kaflar eru hér og hvar um unglingamenningu og unglinga yfirleitt, þessa skankalöngu klunna sem eru hvorki börn né fullorðnir en vita alveg sínu viti og eiga framtíðina fyrir sér. Bróðir Ölmu, Sigurbjartur, er einn af þeim. Afskaplega geðþekkur unglingur, hangir inn í herberginu sínu með stór áform, er engum háður og hefur hreinsað huga sinn af kynlífsórum. Það er auðvelt að taka undir með honum þegar hann segir: „trúarbrögð eru það sem mótar líf margra í heiminum meira en flest annað og þess vegna væri beinlínis heimskulegt að hafa engan áhuga á þeim“ (114). Hann er heillandi karakter sem er að uppgötva sjálfan sig, m.a. í gegnum kynlíf en sú sena í bókinni er frekar   tepruleg.   Eina persónan sem einhver töggur er í er presturinn. Hann er mannlegur  í afstöðu sinni, breyskur og einmana og á margar góðar ræður sem sýna vel hræsni hans og  yfirdrepsskap. Samskipti hans og Ölmu í fermingarfræðslunni eru bestu sprettirnir í sögunni, þar takast á trú og efahyggja, lítilmagni gegn yfirvaldi, engill gegn stofnun, töfrar og merking gegn stirðnaðri orðræðu og klisjum.

Trúarbrögð er viðkvæmt efni í skáldsögu og eldfimt en býður upp á endalausa möguleika. En þótt lagt sé upp með eitthvað í Englaryki rennur það út í sandinn, sagan verður aldrei nógu grípandi, áleitin, djörf eða grimm til að hreyfa við fólki sem hefur gleymt sínum guði og tapað sér í efnishyggju og sjálfselsku fyrir óralöngu.

Hinsta verk nóbelskáldsins

Varla er maður fyrr búinn að lesa síðasta nóbelsverðlaunahöfund þegar búið er að tilkynna þann næsta, hinn franska Modiani sem vonandi verður þýddur sem allra fyrst. Þangað til er hægt að orna sér við smásögur Alice Munro, sem hreppti nóbelinn 2013 en þær komu nýlega komu út í öndvegis þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur.  Seint verður þýðendum fullþakkað sem ekki aðeins búa yfir geysilegri færni á móðurmáli sínu heldur einnig annarri þjóðtungu og leggja á sig ómælda vinnu við að færa íslenskum lesendum bókmenntir á heimsmælikvarða.  Í fróðlegum eftirmála gerir Silja stutta grein fyrir ævi- og skáldferli Alice Munro (f. 1931). Þar segir m.a. að Lífið að leysa (Dear Life) sé 14. og nýjasta bók hennar en Munro hefur tilkynnt að hún sé jafnframt sú síðasta.

lifidadleysa-175x286

Í bókinni eru 10 sögur og 4 þættir sem Munro segir að séu „sjálfsævisögulegar í anda  þó að ekki séu þær endilega að öllu leyti sannar“ (271). Sögur hennar láta lítið  yfir sér í fyrstu, eru óhefðbundnar í byggingu  og tíminn hvikull.  Þær gerast í kanadískum smábæjum, persónurnar eru venjulegt fólk sem enginn tekur eftir á götu, stundum er brugðið upp einu augnabliki í lífi persónu, stundum er rakin þroskasaga en oftast gerist það ekki sem maður á von á í sögunni eða óttast mest.  Ástin er algengt umfjöllunarefni sem ýmist tengist hjónabandi, framhjáhaldi, skömm og/eða einmanakennd.  Samskipti persónanna einkennast oft af vandræðagangi, feimni, bælingu og sekt. Þótt sögur Munro virðist einfaldar á yfirborði eru þær hvorki einfaldar í endursögn, túlkun eða greiningu. Þær kalla á djúpan lestur, aftur og aftur.

„Að skrifa þetta bréf er eins og að stinga bréfi í flösku – og vona að það komist til Japan“ (18) segir í fyrstu sögunni í smásagnasafninu. Lesandi fær í upphafi  innsýn í hjónaband Peters og Gretu sem eru afar ólík. Hún er rómantískur sveimhugi og ljóðskáld  en hann jarðbundinn og yfirvegaður, hún þráir alltaf eitthvað en er þó oftast  sátt við áreiðanlega væntumþykju hans (18). Hún er á leið í stutt frí með dóttur sinni þegar sagan hefst. Í lestarferðinni týnist stelpan meðan Greta stingur sér í koju hjá samferðamanni. Skelfing grípur hana, sektarkenndin gagnvart eiginmanni og barni nístir hana. „Synd. Hún hafði verið með athyglina annars staðar. Einbeitta, gráðuga athygli á öðru en barninu. Synd“ (33), hugsar hún. Dóttirin finnst svo á táknrænum stað, á milli tveggja lestarvagna. En Greta er komin að þolmörkum, eirðarleysi og þrá reka hana áfram og nú þarf hún að marka sér nýja stefnu í lífinu; velja milli þess sem hana langar mest til að gera eða þess sem er barninu fyrir bestu.

Amundsen er einkar eftirminnileg saga og hefur mörg höfundareinkenni Munro. Ung kennslukona byrjar að vinna á berklahæli fyrir börn á hjara veraldar þar sem landslagið er eins og í rússneskri skáldsögu (40). Hún er á kuldalegum stað (eins og titill sögunnar gefur til kynna), það er kalt í herberginu hennar, maturinn er kaldur og rúmteppin fyrir sjúklingana eru örþunn, henni til mikillar furðu. Hún verður ástfangin af lækninum sem eldar frosinn skyndimat handa henni, hrifsar hana til sín, hyggst giftast henni en hrekur hana svo á brott. Frásögnin af því þegar hann slítur trúlofuninni, þar sem þau sitja í bílnum hans, er í undarlegri tímaröð og áherslan er lögð á hvernig rödd hans og fas breytist eftir að sendiferðabílstjóri bankar í bílgluggann á viðkvæmu augnabliki. „Það sem hann var að segja þá var hræðilegt en það var þjáning í föstum tökum hans á stýrinu, hvernig hann greip um það, hvað hann var viðutan og í röddinni. Hvað svo sem hann hafði sagt og meint þá kom það djúpt úr huga hans, úr sama stað og þegar við vorum saman uppi í rúmi. En það á ekki við lengur, eftir að hann hefur talað við annan karlmann. Hann skrúfar upp rúðuna og beinir athygli sinni að bílnum, bakkar honum út úr þessu þrönga stæði og passar að rekast ekki á sendiferðabílinn“ (68).

Í sögunni birtast ólíkir heimar karla og kvenna. Hávaðasömum skógarhöggsmönnum og viskíþambandi verksmiðjukörlum bregður fyrir,  „á kafi í sinni karlaveröld, argandi sínar eigin sögur, ekkert að leita að konum“ (48). Kennslukonan les klassískar skáldsögur í sínum þrönga, sótthreinsaða heimi, börn deyja og á kaffihúsinu er ekkert klósett fyrir konur. Heimur karlanna einkennist af styrk og samstöðu en í veröld kvennanna ríkir sundrung og vanmáttur. Í „kvennabiðsalnum“ á lestarstöðinni birtist hópur æpandi miðskólastúlkna og þar á meðal Mary, sem kennslukonan  kynntist í byrjun sögunnar og sveik loforð sitt við, en Mary „… hefur ekki gleymt. Bara pakkað atvikinu saman og gengið frá því inni í skáp hjá annarri fortíð. Eða kannski er hún ein af þeim sem ræður svona vel við auðmýkingu“ (72). Sjálf er kennslukonan nú svikin og auðmýkt. Löngu seinna rekst hún á lækninn á förnum vegi eins og hún hafði átt von á árum saman. „Ennþá var eins og við gætum komið okkur út úr þessari mannþröng, eins og við gætum eftir augnablik verið saman. Samt viss um að við myndum halda áfram hvort í sína átt. Og það gerðum við“ (73).

Það væri hægt að skrifa langar og lærðar grein um hverja einustu sögu Munro í þessu verki því þær eru allar áleitnar og djúpar. Sjálfsævisögulegu þættirnir fjórir eru mjög áhrifamiklir, ekki síst út frá sálgreiningarsjónarmiði. Móðir Munro veiktist ung af Parkinsonveiki og hún var ekki nema níu ára þegar húsmóðurstörfin lentu á hennar herðum. Hún slapp aldrei alveg frá móður sinni og kveljandi  samviskubitinu yfir að hafa farið frá henni til að gera það sem hana sjálfa langaði til; að læra og skrifa (339). Togstreitan milli skyldu og sköpunarþrár er ennþá hlutskipti margra skáldkvenna.

Týndar konur

Bækur sem gerast í fjarlægum löndum hafa alltaf heillað heimalninginn. Þær lýsa framandi lífi, siðum og trúarbrögðum og hafa vakið mikinn áhuga sannkristinna Vesturlandabúa síðustu ár og sannfært þá um yfirburði eigin menningar. Bækur þessar gerast t.d. í Austurlöndum og segja frá kúgun kvenna í nafni bókstafstrúarbragða, sárri fátækt, misþyrmingum, kynlífsþrælkun og nauðungarhjónaböndum. Oftast snýr ofbeldið og misréttið að konum og börnum. Nú bætist í hópinn bók eftir mexíkóskan rithöfund, Jennifer Clement, sem heitir Beðið fyrir brottnumdum. Clement ólst upp í Mexíkó, sem er einn helsti framleiðslustaður og dreifingarstöð eiturlyfja í heiminum eins og kunnugt er, og skrifar um hlutskipti kvenna þar í landi.

Í bókinni segir frá ungri stúlku sem heitir Ladydi „eins og dána prinsessan“ (202) og býr með meinyrtri og drykkfelldri móður sinni í Guerrero-fjallahéraðinu í Mexíkó. Þær mæðgur hokra við þröngan kost, hitinn er þrúgandi og allt morar af eitruðum köngulóm, snákum, risastórum kakkalökkum, maurum og sporðdrekum, sem þó eru smámunir einir samanborið við þá ógn sem íbúum héraðsins stafar daglega af melludólgum og fíkniefnasölum sem ryðjast inn og nema unglingsstúlkur á brott. Mæður bregða á það ráð að dulbúa dætur sínar sem syni, sverta tennur þeirra og skera hárið til að gera þær óaðlaðandi. Þær hverfa samt ein af annarri en hin gullfallega Paula er sú eina sem snýr aftur, þögul og gengin í barndóm með brunasár eftir sígarettuglóð um allan líkamann. Allir karlmenn í héraðinu sem vettlingi geta valdið eru löngu farnir til Acapulco eða yfir landamærin til Bandaríkjanna í leit að ameríska draumnum. Þetta er land yfirgefinna, varnarlausra og brottnuminna kvenna.

„Týnd kona er bara enn eitt laufið sem hverfur ofan í ræsið í rigningu,“ (63) er viðkvæðið í Mexíkó. Stjórnvöld skeyta engu um grundvallarmannréttindi og láta ofbeldið afskiptalaust enda eru þau gerspillt og vanhæf. Einu viðbrögð þeirra til að sporna við dópframleiðslunni eru að láta herinn úða plöntueitri yfir valmúaakrana en þyrluflugmennirnir óttast að verða skotnir niður og sáldra eitrinu þess í stað yfir fjallaþorpin, skólahúsið og lágreista kofana.

Forlagið

Forlagið

Frá þessum hörmungum er sagt á seiðandi kaldrifjaðan hátt. Tungutakið einkennist af hráu og grimmu raunsæi sem þýðandinn, Ingunn Snædal, kemur afar vel til skila. „Ég bara sneri mér alveg við, innviðunum út, beinin voru utan á mér, og hjartað hékk þarna á miðju brjósti mér eins og heiðursmerki. Þetta var bara einum of mikið, ég varð að hvíla mig … ég vissi að þessi maður gat séð alveg inn í mig, lifrina í mér og mænuna. Hann hefði getað rétt út höndina og hrifsað augað af andliti mínu eins og vínber,“ (57) segir móðir Ladydi á sinn beinskeytta og hispurslausa hátt.

Dregnar eru fram gríðarlegar andstæður á lífskjörum fólks í sögunni, geypilegur munaður andspænis sárustu örbirgð. Hér er ekki snefill af hinu ljúfa suðurameríska töfraraunsæi heldur harður veruleiki, misrétti, ofbeldi og örvænting, og mannslíf er einskis virði. Það er staðreynd að unglingsstúlkum í Mexíkó er rænt á götum úti á degi hverjum, af skólalóðinni og af heimilum sínum og seldar mansali. Þær eru meðal þúsunda fórnarlamba fíkniefnastríðs sem geisað hefur í landinu árum saman.

„Það er frægt um allt Mexíkó að fólkið frá Guerrero-héraði er barmafullt af reiði og álíka hættulegt og hvítur, glær sporðdreki sem felur sig undir koddanum manns“ (21). Ladydi er hörð í horn að taka, hefur ótrúlega aðlögunarhæfileika og gengur í gegnum hverja eldraunina á fætur annarri í sögunni. „Ef einhver vildi búa til tákn eða fána fyrir okkar hluta af heiminum ætti það að vera plastsandali,“ segir mamman (83) en í bókarlok kippir hún rauðu plastsandölunum af fótum Ladydi og hendir þeim út um bílglugga (213). Vonandi táknar það að Ladydi feti nýjar slóðir og að það sé einhver von um framtíð fyrir kvenþjóðina í Mexíkó.