bókmenntir

Svarti hundurinn

„Allt í einu er kominn hundur hingað að sniglast í kringum húsið. Hann er að sjálfsögðu svartur, annars hefði ég orðið undrandi. Ég veit ekki hvaðan hann kemur, líklega úr einu af húsunum sem eru í sama lit og hann. Annars hefur hann augu eins og selur, hann gæti þess vegna verið kominn upp úr sjónum, hvað veit maður. Ég gef honum kleinu út um dyrnar, en það eru líklega mistök því hann horfir á mig eins og ég sé hálfguð. Ég vil ekki vera hálfguð neinnar lífveru, hvað þá alguð. Ábyrgðin sem fylgir slíku er sligandi. Ég vil enga ábyrgð. Forðast meira að segja ábyrgðarbréf. Ef ég fæ tilkynningu um að það sé ábyrgðarbréf á pósthúsinu, þá sæki ég það ekki.“

Suðurglugginn (27-28)

Íslenskar heimsbókmenntir

images

Þýðingar heimsbókmennta á íslensku eru jafnan hvalreki enda gegna þær mikilvægu hlutverki fyrir tungu okkar og menningu. Bandalag þýðenda og túlka (thot.is) hafa frá árinu 2005 efnt til árlegra verðlauna fyrir bestu þýðingu á erlendu skáldverki. Þriggja manna nefnd les þýðingar hvers árs og velur fimm bestu, samhliða tilnefningum til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þýðingarverðlaunin eru afhent í Gljúfrasteini á afmælisdegi Laxness sem jafnframt er dagur bókarinnar, 23. apríl nk. Í ár eru þrjár þýðingar úr ensku, ein úr spænsku og ein úr japönsku (reyndar þýtt úr ensku).

Eftirtaldir þýðendur eru tilnefndir 2014:

Jón St. Kristjánsson er tilnefndur fyrir þýðingu sína á Burial Rites eftir Hannah Kent. Á íslensku nefnist bókin Náðarstund og segir frá síðustu dögum í lífi Agnesar Magnúsdóttur sem dæmd var fyrir morð og tekin af lífi í Húnavatnssýslu, 12. janúar 1830. Hannah Kent er áströlsk og sá strax söguefni í dramatísku lífshlaupi Agnesar. Þýðingin er afbragðsgóð, íslenskum veruleika 19. aldar er komið firnavel til skila á kjarnyrtu máli sem er eiginlega betra en frumtextinn. Jón var tilnefndur til þýðingarverðlaunanna 2011 fyrir Reisubók Gúllívers.

Gyrðir Elíasson er ekki bara listaskáld sjálfur heldur einnig afkastamikill ljóðaþýðandi undanfarin ár, þaulvanur að fást við orð og merkingu, túlkun og stemningu. Hann er tilnefndur fyrir undurfagrar þýðingar sínar á völdum ljóðum hins heimsfræga Shuntaro Tanikawa sem skrifað hefur um 60 bækur af margvíslegu tagi á sinni löngu ævi. Japönsk samtímaljóðlist á íslensku hljómar eins og fjarlægur draumur sem Gyrðir gerir að veruleika. Bókin ber heitið Listin að vera einn og er bæði falleg og djúp, þrungin ljóðrænni lífspeki og léttleika. Gyrðir hreppti verðlaunin 2012 fyrir Tunglið braust inn í húsið.

Kanadíski rithöfundurinn Alice Munro er nóbelsverðlaunahafi í bókmenntum 2014. Hún semur frumlegar smásögur sem fjalla m.a. um konur, ást, firringu, vanrækslu og ofbeldi. Verk hennar hafa ekki áður verið gefin út á íslensku. Sögur Munro eru flóknari og margræðari en virðist við fyrstu sýn. Silja Aðalsteinsdóttir er þaulreyndur þýðandi með einstaklega gott vald á bæði frummáli og íslensku og í þessu smásagnaúrvali, Lífið að leysa, fer hún á kostum.

Hermann Stefánsson þýðir Uppfinningu Morels eftir Adolfo Bioy Casares, argentískan rithöfund (d. 1999). Þessi saga er þekktasta verk Casares en ekki hefur verið þýtt eftir hann áður.Sagan birtist í tímaritinu 1005. Hermann var tilnefndur til þýðingarverðlaunanna fyrir Laura og Julio (2009) en hann hefur frábært vald á tungumálinu. Hann ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því Uppfinning Morels er ekkert áhlaupaverk, heimspekileg vísindaskáldsaga um ást og ódauðleika.

Út í vitann (1927) er eitt af þekktustu verkum ensku skáldkonunnar Virginiu Woolf. Helga Kress þýddi frægasta verk Woolf, Sérherbergi, á íslensku 1983 en þýðing Vitans er frumraun Herdísar Hreiðarsdóttur sem stimplar sig nú rækilega inn. Woolf, sem var hörkufemínisti og langt á undan sinni samtíð, gerði margvíslegar tilraunir með módernisma í verkum sínum, .s.s. með að láta hugsanir persónanna flæða fram, söguþræði var gefið langt nef og atburðarásin hæg og óljós með þungum undirtóni. Stíllinn er lotulangur og flókinn og er þýðing Herdísar einstaklega vel af hendi leyst, vönduð og nákvæm.

Hremmið þessar þýðingar í næstu bókabúð og fylgist með á fimmtudaginn þegar tilkynnt verður hver hlýtur þýðingarverðlaunin 2014!

Birt í Kvennablaðinu, 22. apríl 2015

„Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til“

tramps

„… ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða  að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðnum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum…“ (161).

Þetta brot er úr nýrri og áhrifamikilli skáldsögu Kristínar Ómarsdóttir sem ber heitið Flækingurinn. Þar segir frá unglingspiltinum Hrafni (stundum kallaður Óskar eða Georg Washington Jensen), útilegumanni nútímans og sprautufíkli sem þvælist um götur Reykjavíkur í leit að mat og dópi. Þessi ógæfusami piltur hittir margs konar fólk á vegi sínum, flest er á jaðri samfélagsins eins og hann sjálfur. Þegar sagan hefst býr  hann á einhvers konar sambýli eða athvarfi fyrir fíkla og ræður bjargvætturinn Laufey þar ríkjum. Brátt hrökklast hann þaðan, hreiðrar um sig í geymslu í kjallara í dansskóla, lendir svo í slagtogi við alls konar furðufugla og fyrir ýmist ásetning eða misskilning kemst hann í kast við lögin. Sögunni lýkur svo þar sem hún hófst, í húsi Laufeyjar, með absúrd drápsenu sem minnir mest á bíóhasar, en raunveruleiki og jarðtenging eru býsna langt undan í þessu skáldverki.

Framvinda sögunnar markast af ráfi Hrafns um bæinn og samskiptum hans við misruglaðar persónur,  dóprausi og ranghugmyndum, ofbeldi og brostnum draumum. Stíllinn er mjög ljóðrænn og fallegur, senur eru margar súrrealískar enda rambar sögumaður á mörkum vímu og veruleika.

Hrafn er mállaus og skrifar á blað það sem honum liggur á hjarta. Hann missti málið/tunguna á einhvern óljósan hátt og var beittur kynferðisofbeldi í uppvextinum. Sjálfsmynd hans er verulega brengluð og mörkuð af erfiðri æsku og vímuefnanotkun: „Er ofbeldi stafróf mitt og sú tjáning sem fólk skilur?“ spurði ég sjálfan mig, þakklátur fyrir að mega skilja sjálfan mig án aðstoðar milliliðs. Úff, ég hefði ekki boðið í það hefði ég þurft á túlki að halda til að skilja mig. Felldi ég tár hlógu allir og ég mest. Það hafði ég reynt: að gráta ef ráðist var á mig. Berði ég frá mér hlógu fáir og fólk bugtaði sig jafnvel fyrir mér. Með ofbeldi öðlaðist ég vald, virðingu“ (127).

Sagan gerist um vetur, tilveran er grá og köld.  Fíklarnir búa við ofbeldi, útskúfun og auðmýkingu alla daga en á milli koma góðar stundir, sérkennileg vinátta og samkennd skapast og ástin kviknar, sjúkleg og ofbeldisfull. Hrafn lætur dagana líða við að redda sér einhverju ætilegu, vímuefnum og lyfjum, fara á bókasafnið til að lesa dánartilkynningar á netinu eða dotta með þykka bók, skreppa á klósett á bensínstöð eða í kirkju og dorma á dýnu þess á milli. Hann ruglar svo saman reytum við hinn svarta Engilbjart og týndu stúlkuna Emmu en í félagsskap þeirra fara hjólin að snúast. Hrafn er vissulega viðsjárverður gaur og ekki með öllum mjalla en Engilbjartur er stórhættulegur, snarvitlaus og siðblindur.

Þegar þeir félagar hafa brotist inn til að redda sér pening eða fundið matarafganga í ruslatunnum, fyllt vatnsbrúsa og innbyrt einhver eiturlyf, eru þeir alsælir og gerast heimspekilegir í pælingum sínum, m.a. um samfélagið sem þeir sniðganga og afneita. „Eignarétturinn er atvinnuskapandi,“ sagði Engilbjartur eitt sinn, „og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ „Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“ spurði ég sjálfan mig nú, því ég var lengi að hugsa og bregðast við upplýsingum frá öðrum. Og hvað skapar hann mörgum eignaleysi og fátækt? Eignarétturinn drífur samfélagið áfram um leið og hann liggur á því eins og mara“ (159). Þeir fóstbræður eiga mögnuð samtöl í ruglinu en hrista svo af sér slenið og halda í ævintýraför þar sem ættingjar og vinir fá makleg málagjöld í  grátbroslegum ofbeldisatriðum sem varpa ljósi á bæði sjúklega hugsun fíkilsins og meðvirkni og skilningsleysi fórnarlambanna.

Útigangsmönnum í höfuðborginni fer fjölgandi en um þessar mundir eru a.m.k. 200 manns heimilislaus árið um kring og enn fleiri á götunni tímabundið. Er flækingslífið heilbrigðisvandamál, félagslegur vandi eða vandi hvers og eins? Hver ber ábyrgðina? Þetta er ekki einfalt mál og engin lausn í sjónmáli. Kristín dregur upp nöturlega mynd í Flækingnum af skuggalegum heimi sem fæstir þekkja og fólki sem við kannski finnum til með en viljum sem minnst af vita. Og á listilega íronískan hátt stangast útskúfun og einmanaleiki persóna sögunnar á við frelsis- og sjálfstæðishugmyndir þeirra sjálfra.

Tími flækingsins er runninn upp, hugsjónirnar eru dauðar, heimur hvíta mannsins er liðinn undir lok, segir Engilbjartur sem hatar bláeygt gelgjupoopp og allt sem er hvítt.  En er líf flækingsins æðsta stig tilverunnar? Er hann frjáls? Hvort er það hugrekki eða hugleysi að velja þá braut í lífinu? Þeim sem hafa í huga að leggjast út er ráðlagt að skoða lista í handbók útigangsmannsins sem birtist bls. 263-4 í bókinni. Þar kemur fram að gott er að eiga m.a. kertisstubb og kveikjara, snæri og kúbein, trefil og vatnsþéttan skófatnað, skrúfjárn, teppi og samanbrotinn plastpoka. Og svo er bara að smæla framan í heiminn:  Bless vinna, fjölskylda, eignir, ábyrgð og skuldir! Hæ, frelsi?

Birt í Kvennablaðinu, 16. apríl 2015

„Skipt um sýlinder með köldu blóði“

Mynd_0890266

Elísabet Jökulsdóttir á að baki langan feril sem ljóðskáld og rithöfundur og hefur ort um ást og geðveiki á einstaklega einlægan og berorðan hátt. Ekki hefur hún notið stórra styrkja eða fyrirgreiðslna við skáldskapariðkun sína og jafnan gefið bækur sínar út sjálf en nú hefur hún hlotið Fjöruverðlaun og Lesendaverðlaun DV sem er fagnaðarefni, bæði verðskuldað og tímabært.

Í nýrri ljóðabók, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett (2014), lýsir hún ástarsambandi við ofbeldismann með beinskeyttum myndum og skýru myndmáli, allt frá spennuþrungnu tilhugalífi til heiftarlegra sambandsslita. Hún birtist berskjölduð og nakin í ljóðum sínum, innan um naívar og blautar píkuteikningar sem endurspegla heita ástarþrána, greddu og losta sem oft er ruglað saman við ástina sjálfa.

Upphafsljóð bókarinnar, „Alvörukonan“, sýnir eðlislæga löngun eftir því að vera elskaður eins og maður er, sem stangast harkalega á við þá staðalmynd sem fólki hættir til að spegla sig í og birtist í háhælaskónum, meikinu og korselettinu sem karlinn færir konunni áður en hún veit af. Viðvörunarljósin fara að blikka en eru hunsuð og fyrr en varir er karlinn fluttur inn.

Fljótlega fer að bera á hnökrum í sambúðinni en þroskað fólk í nýju ástarsambandi vill láta hlutina ganga vel, ekki ergja sig á smáatriðum, ekki gera sömu mistökin aftur og lætur því ýmislegt yfir sig ganga. Ástin er djúp og sjóðheit, eins og sést t.d. í fallegu ljóði sem heitir „Kærastinn minn“ (21) og lýsir brynju sem karlinn hefur komið sér upp til að komast hjá sársauka í lífinu. Stundum er gaman hjá skötuhjúunum en oft er rifist og stundum slegist, mestmegnis einkennist sambandið af gagnkvæmum leiðindum og endalausum vonbrigðum.

Í ljóðinu „Mylsnuást“ sést tilfinning sem margar konur í ofbeldissamböndum upplifa: „Ég vildi verða sek og komast í fangelsið mitt. Þar átti hann að heimsækja mig og gefa mér að éta úr lófa sínum, mylsnuna“ (32). Konan þráir að vera samvistum við kærastann og er bæði heyrnarlaus og blind af ást þegar hún lofar honum því að skipta aldrei um sýlinder eins og svo margar sambýliskonur hans hafi gert „með köldu blóði“ (41).

Það er mikil sorg í þessum einlægu og nístandi sársaukafullu ljóðum Elísabetar en það er líka húmor í bland, ekki kaldhæðni heldur kvika, og ástarsagan er grátbrosleg frá upphafi til enda. Eftir lesturinn sat þetta ljóð í mér; ógnvekjandi, átakanlegt og meinfyndið í senn:

Kaffiskvettan

Hann skvetti framan í mig kaffi
einhverra hluta vegna stend ég
við kústaskápinn og ég stend þar
þangað til ég er búin að fá vitið aftur
og nú er þetta búið
fyrst þetta er byrjað
því það á aldrei að fyrirgefa ofbeldi
það verður bara meira næst
og ég ætla ekki að bíða eftir því
svo ég opna skápinn
tek út kústinn
og flýg burt.
(62)

Birt í Kvennablaðinu, 29. mars 2015

Ekki er það útdautt enn…

400px-Pinguinus_impennus_(Audubon)

Slitur úr orðabók fugla (2014) er fjórða ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur. Hún fer sér hægt í ljóðagerðinni en ferill hennar spannar nú tuttugu ár. Í nýju bókinni eru 33 ljóð sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt eins og titillinn gefur til kynna. Hér birtast m.a. kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga þessir fuglar við okkur erindi.

Hér er á ferð útpæld, þematísk og heildstæð ljóðabók með skemmtilegum vinklum. Myndmálið tengist þemanu náið, fugl er algengt tákn í bókmenntum sem skírskotar í ýmsar áttir en stendur oft fyrir frelsi og frelsisþrá. Myndmálið er skýrt og einkennist af vísdómi og fáguðum smekk, ljóðlínurnar haganlega smíðaðar, húmor aldrei langt undan og niðurstaðan oft óvænt, ef ekki íronísk.

Táknum eins og vængjum, fjöðrum, hvössum goggum og krepptum klóm bregður fyrir í ljóðunum og yfir flögrar lúmsk ádeila sem birtist m.a. í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum. Vísanir eru víða, t.d. í bókmenntir fyrri alda, s.s. Egils sögu, sumar skýrðar í athugasemdum í bókarlok, aðrar svífa yfir vötnum þar til þær tengjast einhverju í huganum sem kalla má almenna þekkingu (miðaldra fólks), eins og t.d. „litla gula fræ / það var ég sem fann þig / svona hnöttótt og skínandi / og stútfullt af möguleikum“ (8).

Eftirfarandi er gott dæmi um ljóð úr bókinni. Hér talar geirfuglinn en eins og kunnugt er dó hann út um miðja 19. öld vegna ofveiði, hann var eltur uppi ófleygur og varnarlaus. Í ljóðinu lýsir fuglinn örvæntingu sinni og feigð. Formið er frjálst en takturinn minnir á forna bragarhætti:

geirfugl

(ertu aftur farinn að gráta?)

skerið mitt sokkið

öndvegið víðsýna

leikvangur ljóssins

og hreiðurklöppin mín fegurst allra

hjarta mitt skelfur

líkt og dauðaþögnin

rétt fyrir jarðskjálftann mikla

angistin nístir sem

logandi teinn

eggið mitt kólnar

á skötuskeri

tjóðraður við

minn titrandi skugga

bíð ég komu mannanna

með bareflin

brugðnu

(25)

Það er alltaf von á góðu frá Guðrúnu Hannesdóttur. Á meðan skáldskapur eins og Slitur úr orðabók fugla er til á Íslandi þarf ekki að óttast að ljóðið hljóti sömu örlög og geirfuglinn.

Birt í Kvennablaðinu 12. mars 2015

Að ná áttum

Ofbeldi og vanræksla gagnvart börnum er mun stærra vandamál í samfélagi okkar en við gerum okkur almennt grein fyrir. Börn sem alast upp við slíkt atlæti bera þess merki þegar þau vaxa úr grasi og eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Í Segulskekkju, fyrstu skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur, segir frá konu sem hefur lent í ýmsu í uppeldinu og sambandinu við móður sína, Siggý, sem hún tignar og hræðist í senn.

Segulskekkja-175x274

Geðveiki, „leikhúsleg tilþrif“ (44) og furðulegt uppeldi hafa sett mark sitt á Hildi sem í æsku veit aldrei hvernig aðkoman er heima, hvort mamman er með réttu ráði, hvort fjölskylda er að flytja búferlum eina ferðina enn eða hvort Pétur stóri bróðir hefur fengið nóg og er farinn. Eina ráðið sem hún gat gripið svo hún hrapaði ekki fram af brúninni með Siggý var að slíta öll tengsl við hana. Byrja síðan að byggja upp sjálfsmynd, sætta sig við orðinn hlut og stefna fram á við.

En afleiðingar uppeldisins eru ekki auðveldlega umflúnar; bæling, sjálfsmorðshugleiðingar og sjálfshatur verða hennar fylgifiskar, tilfinningaleg flatneskja, höfnunarkennd og skömm heltaka hana.

Þetta er afskaplega vel skrifuð og falleg saga þótt hún lýsir angist og grimmd, sem verður átakanlegast þegar sjónarhorn barnsins ræður. Í tuttugasta kafla er brugðið upp mynd af heimilinu þar sem þær mæðgur bjuggu síðast saman, þar eru ömurleikinn og hjálparleysið hyldjúp og yfirþyrmandi en því er lýst með myndmáli sem er bæði fagurt og frumlegt.

Dýr koma víða fyrir í textanum og eru táknræn, bæði fuglar, ýmist vængstýfðir eða kramdir, kettir og köngulær. Gullbrá skýtur upp kolli en hún þurfti sem kunnugt er að prófa graut, stól og rúm til að vita hvort hún passaði inn á heimilið og Lína langsokkur á óborganlega senu í sögunni, sterkasta fyrirmynd sem til er. Stíllinn er svo ljóðrænn að sumir kaflarnir gætu staðið einir og sér sem ljóð:

„Regndroparnir eru hreint ekki svo slæmur félagsskapur. Þeir eru taktfastir og það er hægt að stóla á komu þeirra. Yfir dáleiðandi slætti þeirra velti ég fyrir mér hvort hægt sé að vera með áfalla- og streituröskun alla ævi, frá barnæsku og fram í elli. Hvort slík hugtök geti átt við um almenna líðan. Þrumu- og regnguðinn Indra hefur líklega haft auga með mér frá barnsaldri. Þegar ég heyri í honum kalla til mín af himnum og hann rífur upp festinguna verð ég undarlega sátt við það að búa undir þessum himni “ (43).

Við andlát Siggýjar skríður Hildur í skjól í hús hennar á Flatey á Breiðafirði. Þar gerir hún upp við minningarnar og stefnir kannski í átt að frelsandi uppgjöri og sátt og jafnvel ást í kaupbæti en þó er ekkert víst í þeim efnum vegna segulskekkjunnar í lífinu. En í bókarlok er Hildur a.m.k. farin að hallast frekar að því að lifa en deyja.

Sögumaður spyr guð í örvæntingu hvar skekkjumörkin liggi, hvar segulnálin sé (87) og í hvaða átt skuli halda. Eru engin takmörk fyrir hvað er lagt á sumt fólk? Það er ljóst að hér er um keðjuverkun og vítahring að ræða, undir yfirborðinu er þetta ættarsaga fjögurra kynslóða sem allar eru áttavilltar og hafa orðið fyrir einhverju tilfinningalegu hnjaski sem erfitt er að bæta, amman er þögul og lokuð, mamman klikkuð, Hildur skemmd og sonur hennar sjálfsagt eitthvað flæktur þótt hann segist vera kúl.

Fólk reynir að komast undan sársaukanum á ýmsa vegu, með kaldhæðni, vímu eða trú á guð, ástina og fyrirgefninguna. Siggý, með allt sitt rugl og kenjar, er eina manneskjan í ættinni sem hefur kjark til að biðjast fyrirgefningar, þótt það sé eftir dauðann. Vonandi nær Hildur áttum, samúð lesandans er með henni og öllum vanræktum börnum heimsins.

Birt í Kvennablaðinu 2. feb. 2015

Ekki meir!

Rogastanz

Söguþráður Rogastanz eftir Ingibjörgu Reynisdóttur er í stórum dráttum á þessa leið: Einhleyp og barnlaus kona (42) sem er smá brussa og drekkur aðeins of mikið, býr í 101 og á skrautlegan vinahóp, hittir draumaprinsinn en þarf að yfirstíga ýmsar hindranir, s.s. fordóma og afbrýðisemi, til að geta höndlað hamingjuna.  Allt hljómar þetta frekar ófrumlega en kemur kannski ekki að sök í bókarkorni ef efnistök, mál og stíll eru nýstárleg eða spennandi, erindið brýnt eða hægt er að bjarga sér fyrir horn með góðum húmor. Því er bara ekki að heilsa í þessari bók.

Það slær lesandann strax að sagan er að mestu skrifuð í nútíð sem virkar yfirmáta ankannalegt.  Það er eins og verið sé að lesa handrit að sjónvarpþáttum eða fyrirmæli í leikriti:

„Sara veit hvorki í þennan heim né annan. Við hlið hennar  sefur næturgestur eins og ungbarn, vafinn í mjúka dúnsæng. Það hvílir ró yfir hlýlegri íbúðinni. Á gömlum tekkskenk hringsnýst vínylplata á eikarklæddum „vintage“ Pioneer-plötuspilara frá árinu 1975. Nálin í spilaranum hjakkar í djúpri rispu á ágætu lagi hljómsveitarinnar Smokie, Living next door to Alice. Á sófaborðinu standa tvö vínglös ásamt tómri rauðvínsflösku. Karlmannsjakki hangir á stólbaki og taska Söru liggur opin í sófanum“ (5).

Persónurnar eru kynntar til sögu með ítarlegri upprifjun á fortíð þeirra sem gerir lítið fyrir framvinduna og lengir söguna sem er alveg nógu löng fyrir (334 bls).  Gallerýið er ansi skrautlegt, enda lífið svo skemmtilegt og fjölbreytt hér á landi, besti vinurinn er hommi, besta vinkonan er dönsk lesbía. Þegar Sara keyrir vinkonuna í mæðraskoðun rekst hún utan í bíl nágrannans sem þá ryðst inn í söguna og gerist ansi fyrirferðarmikill. Hann er karlrembusvín eins og þau gerast verst, með bjórbauk í annarri hendinni og fjarstýringuna í hinni. Og Borislav, eins og hann heitir, er útlendingur í ofanálag, verkamaður sem býr í Breiðholtinu og ætlar að verða ríkur af Tupperware-sölu. Er hægt að vera fyrirlitlegri á mælikvarða lopatreflanna?  Tilgangurinn með yfirgangi hans í sögunni er væntanlega sá að vekja athygli á veikri stöðu margra kvenna og varpa ljósi á meðvirkni Söru en þetta verður afskaplega tuggið og þreytt þema til lengdar.

Stíllinn er tilþrifalaus og flatur,  ég man eftir einu skemmtilegu orðasambandi í allri sögunni, það er þegar nál sem hjakkar í bilaðri plötu verður hvíldinni fegin. Mig rak í rogastans þegar allt fór upp í loft í bókarlok og sagan endar í óvissu, eins og von sé á annarri seríu í þessari sápuóperu.  Vonandi verður  ekki af því, ekki vildi ég hitta neina af þessum persónum aftur. Það vekur athygli að á bókarkápu segir: Þessi saga byggist á persónum og atburðum sem eiga sér stað í raunveruleikanum. Er það eitthvað sérstakt?

Kvennablaðið, 27. jan. 2015

Ógæfuleg, íslensk þjóð

ThrirSneruAftur-175x269

Guðbergur Bergsson er einna merkastur rithöfunda hér á landi. Ferill hans er langur og skrautlegur og spannar allt frá módernískum umbrotaskáldsögum frá sjöunda áratug síðustu aldar, með hvassri ádeilu á undirlægjuhátt og þjóðrembu, til ljúfsárra endurminningabóka sem villa á sér heimildir og ögrandi og umdeildra ástarsagna, að ógleymdum ljóðum hans og meistaralegum þýðingum.  Guðbergur hefur ekki legið á skoðunum sínum um land og þjóð og er jafnan með vöndinn á lofti. Í nýjustu bók sinni, Þrír sneru aftur, sem tilnefnd er til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2014, er höfundurinn á kunnuglegum slóðum. Sagan gerist á fimmta áratug síðustu aldar og segir á ansi kaldhæðinn hátt frá áhrifum hernáms og veru ameríska varnarliðsins á íslenskt þjóðlíf og þeirri djúpu gjá sem myndaðist milli kyrrstæðs bændasamfélags og ungu kynslóðarinnar sem kærði sig hvorki um kotið, bátskelina né eilífðarbaslið lengur.

Sagan gerist framan af á afskekktum sveitabæ þar sem stelpur tvær, sem oftast renna saman í eina, búa með afa sínum og ömmu og önugum syni þeirra hjóna sem hatar þær og öll eru þau að drepast úr leiðindum. Eina tilbreytingin er þegar ferðalangar eiga leið um, tveir góðlátlegir Bretar birtast einn góðan veðurdag og skjóta svo aftur upp kolli síðar sem hermenn, Þjóðverji sem felur sig í hrauninu um tíma og íslenskur umrenningur sem flakkar um landið og  vekur óhug hjá stelpunum. Það er eins og að vera staddur í baðstofunni í Sumarhúsum eða Fæti undir Fótarfæti þegar gamla konan hlýðir stelpunum yfir skræðurnar frá Ríkisútgáfu námsbóka fyrir ferminguna, bækur sem má ekki selja eins og stendur á kápunni, meðan afinn liggur í kör, hlandblautur á dívan. Myndin sem dregin er upp af sveitalífi og búskaparháttum fyrri tíma er svo sannarlega ekki fegruð.

Einangrunin er rofin þegar heimstyrjöldin síðari skellur á og Ísland er hernumið. Mæður stelpnanna  eru löngu stungnar af úr sveitinni í fjörið í þorpinu, þær heillast af hermönnunum og flytja síðan til Ameríku, fyrirheitna landsins. Með aldrinum grípur útþráin stelpurnar líka þrátt fyrir uppeldi í guðsótta og góðum siðum og þær stökkva líka að heiman og er fátt um kveðjur. Gömlu hjónin hokra áfram ásamt syninum og strák úr þorpinu sem hefur hrakist þangað vegna veikinda móður sinnar. Þeir tveir kúra undir súð og lesa í fásinninu á kvöldin bókina Þrír sneru aftur, sem fjallar um skipbrotsmenn í stríðinu.  Lýsingar á því hvernig sú saga þeytist um í hausnum á þeim og hvaða  skilning þeir leggja í hana eru óborganlegar. Á meðan er gamla konan eitthvað að úðra, ung var hún gefin bóndanum sem er til lítils gagns og hún er alvön sjá um búskapinn, trúa á sinn guð og taka því sem að höndum ber. Henni berast bréf frá öðrum breska hermanninum sem dúkkaði upp á bænum sumarið góða forðum og vangaveltur hans um stríðsrekstur og fleira vekja upp hjá henni efasemdir um hlutverk sitt og tilgang með þessu jarðlífi en henni tekst þó oftast að hrista þær af sér með vinnu. Strákurinn fer frá bænum og brátt eru gömlu hjónin, dætur og dætradætur úr sögunni. Strákurinn og sonurinn verða miðja frásagnarinnar í seinni hluta sögunnar þegar nútíminn heldur innreið sína. Sonurinn gengur í barndóm, selur stráknum jörð foreldra sinna og dregst upp í eymd og volæði, „eirðarlaus í óhreinum sængurfötum, þakinn kaunum, sífellt að klóra sér og rífa sig til blóðs og sleikja fingurgómana (178). Strákurinn situr yfir honum og hlustar á endalaust raus hans á daunillum dánarbeði til að fylla í skörð glataðrar æsku og sakleysis. Hann og kona hans koma síðan á fót náttúruvænni hótelþjónustu á jörðinni og þá gerist það ótrúlega, þrír snúa aftur!

Stíll sögunnar er eins og aðdáendur Guðbergs þekkja, þéttur, harkalegur, miskunnarlaus og meinfyndinn. Víða eru skýr tákn og vísanir enda er hér um táknsögu að ræða því hún fjallar um íslenska þjóð sem var fáfróð, einangruð og afskekkt, hreifst með útlendum straumum og hrekst síðan stjórnlaust í endalausum sjávarháska. Persónurnar eru allar nafnlausar og afskaplega ógeðfelldar og lastafullar í lágkúru sinni þar sem þær velkjast um í sögunni. Kona stráksins er t.d. skýr táknmynd fyrir séríslenska græðgi og sjálfbyrgingshátt, gamla konan stendur fyrir fornar hefðir og gömul gildi sem enginn kærir sig lengur um og hafa glatast.

Víða eru gullmolar að hætti Guðbergs, eins og: „Af umræðunum varð hið skringilegasta gaman sem grípur sumt fólk á efri árum þegar fortíðin er mikil en framtíðin stutt. Allt fer eftir því hvort minnið er gott og heilsan sæmileg, en hvað sem minni og heilsu líður verður framtíðin aldrei annað en takmörkuð óvissa sem endar á fullvissu“ (200). Guðbergi er ekkert heilagt og hann lætur gamminn geisa. Íslendingasögurnar og fégráðug þjóðin fá makið um bakið:

„Í þessum sögum var ekki að finna neinar hetjudáðir heldur þann hroka, öfund, hégómlyndi og smámunasemi sem fylgir einangrun eftir að fólk af vissri þjóð hefur slitnað að mestu frá stærri evrópskri menningarheild og myndað sína eigin sögu… Í þessum sagnaheimi, sem minnti á heim nútímans, verðlagði fólk allt. Ættirnar verðlögðu jafnvel manndráp innan þeirra og fjölskyldur mátu bæturnar misjafnlega. Allt fór eftir því hver hafði verið drepinn. Mikið fékkst fyrir dráp á sumum, minna á öðrum“ (208).

Samhliða þemanu um stríðsgróða, undirlægjuhátt og Kanamellur sem sífellt endurtekur sig í sögu þjóðarinnar er fjallað um vanrækslu og ofbeldi, elli og sjúkdóma, hnignun og hrörnandi líkama eins og Guðbergi er einum lagið:

„…þegar angistin nístir holdið fer hugurinn að leita frelsis og tungan fæst til þess að viðurkenna margfaldleika lífsins og grimmdina sem því fylgir. Maður er þá orðinn gamall  og þunglyndur og ófær um að líta á sig með hliðsjón af öðru en sjúkdómunum sem þjá hann, ólíkt því þegar hann var ungur og sá aðeins hreystina og hélt að heilbrigði fælist í hæfileika til að blekkja sjálfan sig, að verða nógu blindur til að sjá ekki hvað leiðir til uppgjafar“ (191).

Kvenfólkið í sögunni hefur lágar hvatir og þráir ekkert heitar en hjónaband, helst með Kananum, og skeytir engu um tilfinningar karlmannanna. Þeir enda í bælinu, hlandblautir og getulausir í kör, ástlausir og einmana. Strákurinn er undir hælnum á konu sinni, pirraður yfir því að hún er honum fremri í flestu og nær sér niðri á henni og föður sínum í leiðinni á óvæntan og kvikindislegan hátt. Boðskapurinn er skýr, hér rekur allt á reiðanum og okkur er ekki viðbjargandi. Menn binda vonir við að ferðaþjónusta komi í staðinn fyrir Kanann, túristar í stað hermanna, þetta reddist og allir græði og verði ríkir. Þó er ekki neinu að treysta:

„Nú sá hún ekki fram á mikla aðsókn, að ekki væri hægt að reiða sig á ferðafólk fremur en annað í þessu landi óstöðugleikans. Allt var óstöðugt: veðurfarið, gengið gjaldmiðilsins, verðlagið, samgöngur og yfirvofandi fellir í fjármálastjórn ríkisins. Það var sama sagan og í landbúnaði áður. Og fiskgengd á miðin fór eftir duttlungum strauma. Jafnvel fjöllin tóku allt í einu upp á einhverjum fjanda, eldgosum og stöðugum jarðskjálftum með frosti fram eftir sumri og kolrugluð trén áttu það jafnvel til að bruma í skyndilegum  hlýindum á miðjum vetri. Konan fór að formæla náttúrunni, allt væri orðið nútímalegt nema hún, hér væri til allt af öllu, allt stæðist samanburð við aðrar þjóðir, framfarir væri hvarvetna, en loftslagið og náttúran eins og aftan úr rassgati“ (206).

Þrátt fyrir ömurleikann og vonleysið er ekki hægt annað en að lesa þessa mögnuðu bók upp til agna til að komast að því hvernig fer fyrir okkar ógæfulegu, íslensku þjóð sem er dregin sundur og saman í nístandi háði og afhjúpuð svona miskunnarlaust og snilldarlega.

Kvennablaðið, 16. janúar 2015  

Ekki lengur aðgengilegt þar

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Hið lummulega 1989

Rúnturinn á Akureyri, í lok níunda áratugarins, herðapúðar og Lindubuff, hversu óskáldlegt er það?! Og skyndikynni sem bera óvæntan ávöxt, hann er skáld og fyllibytta og hún er verksmiðjustelpa, við bætast síðan drumbslegur kærasti og ráðrík amma… Það sem hefði getað orðið hversdagsleg og leiðigjörn ástar- og vandamálasaga frá 1989 verður að sprettharðri og fjörugri skáldsögu hjá Orra Harðarsyni. Hann hefur áður sent frá sér Alkasamfélagið en Stundarfró heitir hans fyrsta skáldsaga og lofar góðu.

Orri tekur efnið föstum tökum og mikil frásagnargleði einkennir söguna. Hann leggur alúð við allar persónur sínar, sem hver og ein glímir við sína fortíðardrauga, og sýnir þeim skilning í hremmingunum sem þær lenda í. Amman á bestu replikkurnar, hún er hörkutól sem hefur reynt margt án þess að fleipra nokkuð um það og stjórnar öllu með harðri hendi. Dísa er töffari og rómantíker, vinnur í súkkulaðiverksmiðjunni og sötrar pepsi meðan hún bíður eftir að grái skífusíminn hringi. Hún er auðveld bráð fyrir Arinbjörn Hvalfjörð, ungskáldið sem sló í gegn og miklar vonir eru bundnar við en hann er hjartaknúsari í gamalli merkingu þess orðs, þaulsætinn á öldurhúsum, rótlaus og forfallinn alki  sem flækist æ meir í eigin lyfavef. Í sjúkum huga hans fara fram rökræður milli meirihlutastjórnar og stjórnarandstöðu; „Máli beggja talaði hann samviskusamlega en gætti þess þó jafnan að stjórnin hefði andstöðuna undir. Sú síðarnefnda var einatt rödd skynseminnar. Það var sjaldnast heillandi að halda með henni“ (32-3). Þannig hrekst hann um í lífsins ólgusjó og sekkur sífellt dýpra. Lýsingar á hugrenningum hans, sem snúast um fíkn, flótta og fráhvörf, eru afskaplega trúverðugar:

„Hann kallaði það háskerpustigið, þetta hárfína ölvunarástand á milli núllstillingar og algleymis. Á því stigi varð  hann framúrskarandi skýr í hugsun og fær í flestan sjó. Ekkert óx honum í augum. Í stað óbærilegs kvíða og miðpunktsfóbíu varð hann miðpunktur alls. Í huganum hafði sitjandi stjórn fengið endurnýjað umboð og í raun unnið stórkostlegan kosningasigur. Tilfinningin var guðdómleg“ (41).

Stíllinn er kjarngóður og kraftmikill, hraður og fyndinn enda stólpagrín gert að persónunum sem þó eru afar ólánssamar. Senurnar eru margar nostalgískar og dæmigerðar fyrir tíðarandann, t.d. situr amman í eldhúsinu með kaffifantinn sinn, svælir sígarettu og hlustar á óskalög sjómanna. Tónlist af grammófóni, kassettum og útvarpi skipar stóran sess í sögunni, látlaust er vitnað í textabrot og snillinga eins og Dylan, Cohen og einnig kunna djassara. Það er bara gaman að því. Málfarið er oft gamaldags en hressilegt og frumleg stílbrögð og myndmál víða. Lausn sögunnar, sem ekki verður upplýst hér, er svolítið út í hött og hreinlega til óþurftar, lesendum er löngu orðið ljóst að þeim Arinbirni og Dísu er ekki skapað nema að skilja. Hvað sem því líður er Stundarfró vel  byggð og skemmtileg saga um sígilt efni, allir  eru jú í leit að einhvers konar stundarfró, hvort sem hún felst í ást, fíkn eða viðurkenningu.