gagnrýni

Litríkar persónur valsa um skrautlegt svið

Þuríður formaður Einarsdóttir (1777-1863) var merkiskona sem segir frá í ýmsum heimildum. Hún sótti sjó í 66 ár og var formaður á opnum báti á 26 vetrarvertíðum og aldrei fórst nokkur af hennar áhöfn. Til er ævisaga hennar, rituð af henni sjálfri þótt óskrifandi væri (birt í 2. b. Skyggnis).  Til er lýsing á henni höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni fræðaþul sem kenndur er við Minna-Núp (1838-1914) í bókinni Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum sem e.t.v. kemst næst því hvernig hún kom fyrir sjónir. Og bréf og stefnur eru til í hennar nafni því hún lét ekki hlut sinn fyrir neinum, nema einu sinni þegar sýslumaður fékk hana til að bera vitni gegn svonefndum Kambránsmönnum* sem kunnugt er.

Brynjúlfur frá Minna-Núpi Iýsir Þuríði formanni svo:

Þuríður var snemma stórhuga og fljóthuga, skipti sér af öllu og vildi öllu ráða, enda sást það brátt að hún var bæði snarráð og hagráð; vann hún sér því traust þeirra er með henni voru. Hún var brjóstgóð við bágstadda, en óvægin og einbeitt við meiri menn og lét eigi undan neinum; var og einskis manns að yrðast við hana svo var hún orðheppin og gagnorð, enda skynsöm vel; aldrei beitti hún stóryrðum eða illyrðum, þó henni mislíkaði, en þá varð hún fljótmæltari og hraðmælari. Aldrei brá henni svo við neitt, að menn fyndu, að hún tapaði sér. Hún tók svo vel eftir öllu er hún sá og heyrði, að fágætt þótti, svo fljóthuga sem hún þó var, enda hafði hún gott minni; af þessu kom að hún varð vísari en aðrir um marga hluti er um var að ræða. Í þá daga naut alþýða engrar menntunar og Þuríður því eigi heldur, enda var hún meira hneigð fyrir útistörf en innisetu; gengu verk furðu vel undan henni, eigi burðameiri en hún var. Hún var grannvaxin, en þó nokkuð þykk um herðar, í meðallagi há eða vel það. Andlitið var mjög einkennilegt, yfirbragðið mikið, augun hörð og snör, niðurandlitið mjög lítið. Allt látbragð hennar Iýsti óvenjulegu fjöri. Málrómurinn var eigi mjúkur og þó eigi óviðfelldinn. Framburðurinn var djarflegur og áhugalegur. Í flestu þótti hún frábrugðin og einkennileg.

Auður Styrkársdóttir, áður forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, hefur nú skrifað öndvegis bók um Þuríði sem ber titilinn Kona á buxum. Nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns (2024). Þetta er vel stíluð saga og skrifuð af þekkingu á samfélagi þeirra tíma og stöðu alþýðunnar, af innsæi í margvíslegt misrétti sem þá viðgekkst og djúpri samúð með stöðu kvenna, barna og fátækra. Þetta er safaríkt efni að moða úr, nafnkunnar og litríkar persónur valsa um skrautlegt svið átjándu og nítjándu aldar. Tekur höfundur sér víða skáldaleyfi og prjónar skemmtilega í kringum heimildirnar.

Sagan hefst þegar Þuríður er lítil telpa. Hún er snemma kjörkuð og kjaftfor, glögg og útsjónarsöm. Ellefu ára fann hún upp á því að pissa með ærhorni þegar hún var á sjó. Svo er hún komin í stuttbrók innanundir pilsið sem engin kona var þá búin að fatta, bæði vildi hún skýla sér betur og gera gröðum körlum erfiðara fyrir þegar þeir vildu koma fram vilja sínum. Og karlmannsfötum gekk hún jafnan í á seinni árum með hatt á höfði og kallaði sig stundum Þormóð.

Ekki er hún eins sterk og sterkur karlmaður, en hún fiskar meir en aðrir og hún kann allan sjóinn, og svo hefur hún þessa stórkostlega léttu lund. Nú um sumarið gengur hún að slætti að Gaulverjabæ eins og karlmaður og fær karlmannakaup (122).

Það var reyndar ekki óalgengt að konur færu á sjó á þessum tímum. Flestar sóttu sjóinn í eyjabyggðum, s.s. í Breiðafirði, og í Árnessýslu er vitað um einar 17 sjókonur. Þuríður er þeirra kunnust og sú eina sem formannsheiti festist við. Árið 1830 fékk hún verðlaun úr konungssjóði fyrir jarðrækt og sjósókn. Hún mun vera eina konan, sem fékk þessi verðlaun.

Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi  50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt. 

Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi  50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt. 

Sagan er skrifuð á sérlega litríku og  fornlegu máli og lýsingar allar á umhverfi og atburðum svo myndrænar að bragð úr sögunni finnst á tungu og lykt situr í nefi. Nægir að nefna sem dæmi um þetta sérlega lipurlega skrifaðan kafla um aftöku Sigurðar Gottsveinssonar sem var forsprakki Kambránsmanna en sú lýsing er löng og skemmtileg (265 o. áfr.) eða inngöngu hinnar víðförlu Idu Pfeiffer í íslenskan torfbæ: „Hér er aldagamall daunn af fólki og skepnum, votri ull, fúkka og slaga, súrri mjólk og úldnum fiski og ýmsu torkennlegu, sem hið austurríska nef hennar ekki kann að greina, en er aldeilis hroðalegt…“ (293).

Við sögu kemur margt merkisfólk eins og t.d. Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og Valgerður Jónsdóttir biskupsfrú. Ekki er virðingu eða aðdáun fyrir að fara þegar Þuríður veltir fyrir sér hinum frægu Fjölnismönnum sem þóttust koma með frelsi og sjálfstæði til þjóðarinnar en koma alþýðunni alls ekki þannig fyrir sjónir. Þetta hugsar Þuríður:

Jónas. Tómas. Konráð. Brynjólfur. Hvað vita þeir svo sem um okkar hagi? Víst voru þeir hér bornir og barnfæddir, en tæplega rifu þeir fiskiroð og bruddu bein, synir presta og stórbænda allir saman. Og vínþrúgur og fuglasteikurí Kaupinhafn breiða yfir menn þægilegan hægindahjúp. Mér þykir Fjölnir harður í okkar garð…Eða þá kvæðið hans Jónasar: Hvar er þín fornaldar frægð og þá riðu hetjur um héruð! Hefur nokkur maður heyrt annað eins?! Já, frægðin, hún liggur í þeirra mannsmorðum og gripdeildum! Á það minnist ekki skáldið, ef skáld skyldi þá kalla, og ekki minnist Jónas þeirra sem hér hafa þraukað öldum saman og lifað þá voðalegustu eldganga og landskjálfta sem mannkyn man, og lifað samt, og lifað fullt eins góðu lífi og þar sem fuglasteikurnar fljúga sjálfkrafa í munna og vín flýtur um borð. Og svo kallar skáldið þetta kvæði Ísland! Ja svei! (288-9).

Sagan rennur vel og lýsir á trúverðugan hátt lífi og kjörum fólks. Væntanlega hafa fæstar konur á þessum tíma búið yfir þeim styrk sem Þuríður hafði og varð til þess að hún réði sér sjálf mestan part ævinnar. Henni eru lagðar í munn nútímalegar skoðanir, t.d. er skemmtileg sena þegar hún og Jón Sigurðsson rökræða um alþingi. Þuríður stingur kokhraust upp á því við hann að konur fái að sitja á þingi (310-311). Líklega lágu leiðir þeirra þó aldrei saman og þessi hugmynd fékk ekki hljómgrunn fyrr en löngu síðar sem kunnugt er.

Höfundur aflaði sér margvíslegra heimilda við ritun bókarinnar og greinir frá því ítarlega í eftirmála hvernig þær eru nýttar og hvar skáldskapurinn fær að flæða. Þuríður hefur verið einstök manneskja meðan hún var á dögum og er stórskemmtileg sögupersóna með alla sína öfga, sérvisku og ríku réttlætiskennd.

Fram kemur í eftirmála höfundar að nýverið kom út önnur bók um Þuríði formann, Woman, Captain, Rebel eftir Margaret Willson. Sannarlega var Þuríður Kona og Kafteinn og reis gegn feðraveldinu. Frábært er að henni er sómi sýndur með því að gera hana  eftirminnilega og ódauðlega með þessari bók sem óhætt er að mæla með fyrir alla sem unna sögulegum skáldsögum.

*Kambsránið svokallaða var framið aðfararnótt  9. febrúar 1827.  Fjórir grímuklæddir menn brutust inn í baðstofu á bænum Kambi í Flóa, lögðu hendur á bóndann og heimilisfólk hans og hótuðu pyndingum og dauða til þess að fá afhent fé bóndans. Höfðu þeir á brott með sér margt fémætt, m.a. 1000 ríkisdali að sögn bóndans. Vitnisburður Þuríðar m.a. varð til þess að þeir fengu þunga dóma en eftir stóðu uppleyst heimili.

Prísundarfiskar og annálamyrkur

Í nýjustu ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Kallfæri, eru um 60 ljóð. Aftast eru nokkrar skýringar. Guðrún á brýnt erindi, hún þarf sannarlega að komast í kallfæri við lesendur og nú er það okkar að hlusta. 

Ljóðin eru mörg hver flugbeitt og tekin er skýr afstaða gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og og hvers kyns yfirgangi. Sum bera með sér söknuð eftir fortíð eða tengjast náttúrunni; þar blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja. Víða er frost og ís í ljóðunum, vetrarhörkur og klakahröngl og „rabarbarastóðið fyrir utan kreppir tærnar í angist” (35).  Rödd ljóðmælanda er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint. 

Fyrstu tvö ljóðin í bókinni draga fram liðinn tíma sem mörgum er ókunnur og svipað þema er í ljóðinu „myrkur” á bls. 55. Í amstri daganna, umferðarnið og síbylju, heyrist ekki hátt í birtingarhljómi, fjaðraþyt eða fornu tauti og skrjáfi en við ættum kannski að leggja eyrun við og muna uppruna okkar og fortíð. 

Þriðja ljóðið „tónverk í smíðum” er í sama dúr. Þar eru fyrirboðar þess að verið er að eyðileggja náttúruna með endalausri græðgi. Áður en við er litið er búið að leggja landið okkar undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur.  Orðið prísundarfiskur kemur þar fyrir;  lax sem elst upp í keri eða kví.

Í  ljóðinu „Jeríkó, þaulæft atriði” er vísað til þess að stríð hafa verið háð um aldir og þau bitna mest á börnum. Lúmskt fyndið er ljóð um internetið (já, reynið bara að yrkja eitthvað bitastætt um það óskáldlega fyrirbæri) og yfirvofandi endalok þess.  Og ljóð um hlátur kvenna snerti mig, það minnir á lífsbaráttu formæðra okkar og upp rifjuðust ummæli skáldkonunnar Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim – konur óttast að karlar drepi þær.

VINDHANAHLÁTUR

í þann tíð hlógu konur

hvorki dátt né lengi

kannski stöku álfkona á nýársnótt

eða stúlka í hópi barna

undir rökkursvefninn

í þessu landi var hlátur jafn galinn

og vindhani á bæjarburst

hefði ekki lafað þar lengi

nema ryðgaður skakkur

með óþolandi ískri

til einkis að tjasla við hann

slitinn úr öllu samhengi við vindáttina

og nauðsynleg jafnaðargerð

eins gott að sleppa honum alveg

(32)

Guðrún er meistari í orðasmíð og hugrenningatengslum eins og ótal dæmi sýna; „reynið bara að segja upphátt: þrír vetur í röð … og fallið er bratt niður í dimmt annálamyrkur” (36). 

Ekki eiga mávar sér marga málsvara en Guðrún dregur upp mynd af þeim, leitandi sér eilíflega að góðum stað til að deyja á.  Ruslahaugarnir þar sem þeir dvelja löngum eru friðsæll staður; með volgri vélarolíu  og ryðrauðum salla sem fellur hljóðlaust (41). Allt á sinn tilverurétt í heimsmyndinni.

Lljóðin í Kallfæri eru ort af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Þau eru hvert öðru betra. Ég staldraði oft við mörg þeirra og naut þess að lesa þau, s.s. telos, gullgerðarlist og „dátarnir staðföstu. 

Bókin endar á himnabréfi til lesenda en skv. gamalli trú voru það bréf sem skrifuð voru á himnum og bárust síðan til manna. Þeir sem komust yfir slík bréf töldust hólpnir í þessu lífi og öðrum (61). Í Kallfæri er sannarlega reynt að koma himnabréfinu til okkar, vara okkur við og veita sáluhjálp. En við þurfum að leggja eyrun við.

Hinsegin sýnileiki

Skáldsagan Ljósbrot hittir vel á lesendur nú þegar nýbúið er að kjósa forseta Íslands því hún fjallar öðrum þræði um forsetaframboð. En höfundur hefur sagt í viðtali að hugmyndin að bókinni hafi kviknað löngu fyrir forsetakosningarnar sl sumar. Og meginþemað er samkynhneigðar ástir. Samnefnd bíómynd sem verið er að sýna þessa dagana tengist bókinni ekkert!

Önnur aðalpersóna bókarinnar er Kolbrún sem fer í framboðsslag. Hún er frama- og fjölskyldukona með stóra drauma en tilveran snýst á hvolf þegar hún verður skyndilega hugfangin af konu og stefnir þar með öllu í voða. Hin aðalpersónan er Dóra sem elst upp við drykkju föður síns og fálæti móðurinnar og leitar huggunar hjá bestu vinkonunni en brátt kviknar ást á milli þeirra tveggja – ást sem Dóra er hvorki tilbúin til að gangast við né opinbera. Það er óvenjulegt við bókina Ljósbrot að ástir aðalpersónanna eru lesbískar. Ekki veitir af að sýna þannig söguheim líka í íslenskum bókmenntum – þar sem fyndni homminn og trukkalessan eru víðast heldur einsleitar persónur í aukahlutverkum. Það vantar tillfinnanlega meira af fjölbreytileika, ást og umburðarlyndi í þennan heim.

Sagan rennur vel og er þægileg aflestrar, sjónarhornið er til skiptis hjá Kolbrúnu og Dóru sem báðar standa í ströngu.  Sviðsetningar sem snúast um brasið við framboðið eru sannfærandi, teymið í kringum Kolbrúnu er á fullu að framleiða auglýsingar og hanna ímynd til að veiða atkvæði.  Katla heitir konan sem heillar Kolbrúnu. Hún sér um samfélagsmiðlana í framboðsteyminu, löngu komin út, hvílir sátt í sínu skinni. Orka og sjálfsöryggi geisla af henni. Orð hennar endurspegla skynsemi og fordómaleysi:

„Það besta sem ég hef gert var að koma út og ég myndi aldrei breyta því. Ég elska að vera lesbía,“ bætti hún við og brosið færðist yfir andlitið. Það var eitthvað við þetta orð sem sló Kolbrúnu út af laginu. Lesbía. Hún vissi að það var ekki skammaryrði og að það ætti ekki að vekja hjá henni nein sérstök viðbrögð. En hún gat ekki varist þeirri tilfinningu. Eins og þetta orð hefði einhverja stærri og meiri merkingu en flest önnur orð. Að minnsta kosti þegar það kom af vörum Kötlu.“ (69).

Sagan af Dóru og afneitun hennar á eigin tilfinningum er sögð af nærfærni og skilningi á feluleik og togstreitu við að koma út úr skápnum með tilfinningar sínar og kynhneigð. Það er mikið frelsi fólgið í því að hætta feluleik og sjálfshatri og losna við skömmina en það er stórt skref og ekki auðvelt. Unglingar t.d. ættu að geta haft mikið gagn af sögunni og speglað sig í aðstæðum.

„Dóra fann hvernig kökkur fór að myndast í hálsinum. Hún vildi að sjálfsögðu líka vera með Önnu. Tilfinningarnar sem hún fann voru ólíkar öllu sem hún hafði fundið áður. Svona átti henni að líða. En hún vissi samt að þetta væri rangt. Að minnsta kosti fyrir sumum. Þar á meðal foreldrum hennar. Hún hafði heyrt niðrandi tal um samkynhneigða heima hjá sér frá því hún mundi eftir sér. Hún hafði eflaust látið slík orð falla á einhverjum tímapunkti og í því fólst kannski mesta skömmin. Hún samsamaði sig heldur ekki með neinum samkynhneigðum konum. Konum sem voru lesbíur. Henni fannst orðið nánast skítugt. En Önnu virtist ekki líða eins. Hún virtist ekki vitund hrædd við að fólk vissi af þeim tveimur“ (112).

Ingileif Friðriksdóttir hefur áður sent frá sér barnabækur ásamt konu sinni um Úlf og Ylfu. Hún hlaut Uppreisnarverðlaunin 2023 fyrir að auka sýnileika hinsegin fólks í samfélaginu.. Það gerir hún svo sannarlega með þessari bók og því ber að fagna. 

Týpan sem konur falla fyrir?

Hús geta verið býsna ógnvekjandi fyrirbæri, eins og dæmin sanna bæði úr skáldskap og kvikmyndum. Ekki aðeins þau sem eru gömul og niðurnídd með ískrandi hjörum, brakandi stigaþrepum og dimmum kjallara, heldur ekki síður glansandi og stílhreinar nýbyggingar með öllum hugsanlegum þægindum. Slíkt hús er umgjörð ógnþrunginnar spennusögu, Stúlkan á undan (The Girl Before) eftir höfund sem skrifar undir ýmsum nöfnum, að þessu sinni dulnefninu JP Delaney.

Stelpan_a_undan_72Glæsihús í Lundúnum sem hinn vellríki og bráðmyndarlegi ekkill Edward Monkford hannaði og byggði er til leigu. Til að gerast leigjandi þarf viðkomandi að gangast undir ítarlegt persónuleikapróf þar sem spurt er samviskuspurninga á borð við: „Myndirðu fórna þér til þess að bjarga tíu saklausum, ókunnum manneskjum?“ (35). Leigjandinn þarf líka að uppfylla ströng skilyrði um umgengni og svara formlega matsspurningum í hverjum mánuði en leigan er fáránlega lág. Emma og Simon eru par á fallanda fæti og hvorugt þar sem þau eru séð. Þeim tekst að fá leigusamning hjá Monkford en brátt fer húsnæðið að hafa áhrif á líf þeirra og ekki síður arkitektinn, siðblindur og hættulega heillandi. Næsti leigjandi á eftir þeim, hin sakleysislega Jane Cavendish, er að jafna sig eftir erfiða lífsreynslu og fer ekki heldur varhluta af áhrifum hússins, saga  hennar fléttast saman við örlög fyrri leigjenda og brátt er um líf og dauða að tefla. Það verður að segjast að söguþráðurinn er hrikalega spennandi og hrollvekjandi og engin leið að hætta fyrr en sagan er öll.

Hönnun hússins er ætlað að breyta lífi leigjendanna til hins betra og búa þeim fullkomið líf í skjóli frá skarkala umheimsins. Í húsinu eru engar hurðir, engar myndir, engar mottur, engin perustæði. Allt sem þarf er innfellt, sérsmíðað og tölvustýrt.  Hönnunin minnir á dystópíu sem í rauninni er orðin að veruleika í nútímalegri byggingalist. Með úthugsuðum þægindum og nýjustu tækni, sjálfvirkni og sínálægu eftirliti er lífi leigjendanna stjórnað á flauelsmjúkan hátt:

Daglega leggur Húsráðandi til hvaða fötum ég ætti að klæðast með tilliti til veðurs, minnir á stefnumót og fundi og sýnir mér stöðuna á óhreina þvottinum. Ef ég ætla að borða heima sýnir Húsráðandi  mér hvað er til í ísskápnum, bendir á eldurnarmöguleika og upplýsir um hitaeiningafjölda. „Leita“ sér hinsvegar um að sía burt auglýsingar, skotglugga sem bjóða mér upp á flatari kvið, truflandi fréttir, vinsældalista, slúður um smástjörnur, ruslpóst og vafrakökur. Það eru engin bókamerki, engin vafrasaga, engar geymdar upplýsingar. Allt er þurrkað út um leið og ég slekk á skjánum. Það er undarlega frelsandi… (72).

„Húsráðandi“ er app sem fylgir leigusamningnum og auðvelt er að ánetjast þar sem það er bæði hentugt og hagkvæmt. En um leið verður leigjandinn að vera tilbúinn til að breyta lífi sínu, aðlagast húsnæðinu og uppfylla kröfur leigusalans.

Edward hugsar sig um. „Við þurfum að vera agaðri í því að ganga frá snyrtivörunum. Í morgun, til dæmis, sá ég að þú hafðir skilið sjampóið þitt eftir.“

„Ég veit. Ég gleymdi því.“

„Jæja, ekki rífa þig niður. Það krefst sjálfsaga að lifa svona. En ég held að þú sért þegar farin að sjá að umbunin er þess virði.“  (207)

Það er algengt trix í reyfurum sem þessum að skipta sjónarhorni og tíma milli persóna til að skapa spennu. Formúlan  svínvirkar í þessari bók, Emma (fortíð) og Jane (nútíð) hafa orðið til skiptis og lesanda er sannarlega haldið í helgreipum. Engin persóna er þó sérlega geðfelld í þessari sögu. Það er að auki truflandi hversu viljalaus verkfæri kvenpersónurnar eru í höndum Monkfords sem minnir óhugnanlega á sjarmör Fimmtíu grárra skugga; glæsilegur og metnaðarfullur, eins og „afslappaður kennari með mikla kyntöfra“ (58) en undir yfirborðinu er hann einmana, sjúkur og þjáður. Er það týpan sem höfðar til allra kvenna? Líklega, því bókin hefur þotið upp metsölulista í þrjátíu og fimm löndum og endar væntanlega á hvíta tjaldinu.

Ísak Harðarson, hið magnaða skáld, þýðir á íslensku, víðast ágætlega en sums staðar er fljótaskrift á þýðingunni. Titillinn Stúlkan á undan er bein þýðing úr ensku og velta má fyrir sér hvort þýðandi hefði ekki mátt leyfa sér smá skáldaleyfi hér á ylhýrri íslensku. Hvað sem því líður er sagan óhemju spennandi; sjóðheit sumarlesning þar sem maður fær allt fyrir peninginn.

Stúlkan á undan

JPV útgáfa, Forlagið 2017

414 bls.

Þýðandi: Ísak Harðarson

 

Birt í Kvennablaðinu, 21. júlí 2017

Svartholið sem gleypti æskuna

Kalt er á toppnum. Það sannast á Guðmundi Óskarssyni sem sló óvænt í gegn þegar hann samdi hrunsöguna Bankster á hárréttum tíma og hreppti íslensku bókmenntaverðlaunin 2009. Núna kemur önnur bók hans út, Villisumar, stutt skáldsaga eða nóvella (125 bls) þar sem horft er inná við, drengurinn Dagbjartur þroskast og kemst að ýmsu um sjálfan sig, fortíð sína og föður þar sem þeir dvelja saman sumarlangt.

villisumar_72Faðirinn er drykkfelldur og dyntóttur listmálari sem hefur haft lítið saman við son sinn að sælda. Eitt sumar fær Dagbjartur að fara með honum til Frakklands sem aðstoðarmaður. Vinnustofan er kuldaleg og hriplek, í niðurníddu iðnaðarhverfi, og gengur á ýmsu í sambúð feðganna. Löngu síðar fær Dagbjartur boð frá mennta-og menningaryfirvöldum þar í landi en til stendur að halda yfirlitssýningu til minningar um föður hans og á leiðinni þangað rifjast upp villisumarið mikla. Frásögnin er því öll í endurliti, endurminningum er varpað á tjald (6) og einskorðast við sjónarhorn unglingsins.

Vantar kenginn

Allan tímann sem Dagbjartur býr með föður sínum á lesandi von á því að ógæfan dynji yfir enda ýmis teikn á lofti, s.s. óregla, drykkjutúrar, svaðalegur sólbruni og skapofsaköst. Það getur varla verið hollt fyrir ungling að búa með þessum maníska karli sem er ýmist trylltur af gleði eða liggur í þunglyndi í bælinu. Samvistir við hann eru svartholið sem gleypti æskuna og færði drengnum fullorðinsárin (96). Karlinn getur kannski verið sjarmerandi, það er alltaf eitthvað heillandi við þá sem hugsa út fyrir kassann, en hann segir fátt og það vantar meiri keng og kraft í karakterinn.

Dul og fáguð

Frásagnarháttur og stíll láta lítið uppi en gefa margt til kynna, farið er með söguna fram og aftur í tíma en sjónarhorn er agað og bundið við eina persónu sem í ofanálag horfir með skelfingu til villisumarsins. Dramatísk fjölskyldusaga er dregin fáum dráttum, ævisaga rúmast í málsgrein, örlög í einni setningu. Sagan er ekki alveg aðgengileg í fyrstu atrennu, svona dul og fáguð. Viðfangsefnið er gamalkunnugt, samband feðga, alkóhólismi, skapandi sjálfeyðing listamannsins o.s.frv. Ýmislegt er frumlegt í máli og myndrænum stíl: hrollgrófar hreyfingar (12), skuggagæf tré (46) og að vera ástfangi (52). Bókarkápan er úr striga með ámáluðum lit og engin bók eins, sem er skemmtileg pæling. Í hnotskurn er Villisumar saga um sjúkt samband feðga, list og sekt; ljóðræn og tregafull með óvæntu tvisti í lokin.

 

JPV, útgáfa

Kápuhönnun: Halla Sigga

Birt  í Kvennablaðnu, 30. des 2016

Konan sem orti Konuvísur

Konudagurinn er liðinn, rómantíkin fjaraði út um leið og rósirnar fölnuðu og rjómatertan kláraðist. En bók dagsins er um verk fátækrar vinnukonu sem orti í óðaönn, bæði eftir pöntun og af djúpri skáldskaparást.

 Sumar bækur fá mikla athygli og umfjöllun í fjölmiðlum og eru á allra vörum meðan aðrar fljóta hjá í þögulli hógværð. Ein þeirra sem lætur lítið yfir sér er Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá. Helga var fædd 1877 (ári eftir að Stúlka, fyrsta ljóðabók eftir konu kom út á Íslandi) og lést á tíræðisaldri. Hún naut varla nokkurrar skólagöngu en hafði mikla unun af skáldskap. Helga var vinnukona, lengst af á Grjótá í Fljótshlíð. Hún var ógift og barnalaus, vann hörðum höndum allt sitt líf en orti í sínum fáu frístundum og allmikið safn kvæða liggur eftir hana.

Hér er á ferð bæði úrval og heildarsafn ljóða Helgu í sömu bók, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt. Í bókinni eru ágæt formálsorð eftir ritnefndarkonurnar Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Ástu Þorbjörnsdóttur á Grjótá, sem varpa ljósi á ævi og skáldskap Helgu. Loks er bókarauki úr heimildasafni Þórðar Tómassonar í Skógum um forna búskaparhætti og selstörf. Þann hluta hefði þurft að tengja betur við ævi og samtíma Helgu, sveitungarnir geta eflaust tengt betur við þetta efni en ókunnugir.

Screen Shot 2016-02-24 at 09.18.33

Upp úr glatkistunni

Í ágætum formála Hörpu Rúnar kemur fram að fyrir Helgu hafi ljóðlistin fyrst og fremst verið nytjalist en hún orti mest erfiljóð og tækifæriskvæði. Einnig kemur fram að það er fyrir fórnfúst starf Ástu Grjótárbónda sem kvæði Helgu koma út á bók, annars hefðu þau endað í glatkistunni eins og oft vill verða með kveðskap og skrif alþýðufólks á fyrri öldum.

Kvæði Helgu eru í anda rótgróinnar skáldskaparhefðar, bæði í efnistökum og formi. Tíðindi utan úr hinum stóra heimi og tískustraumar eins og nýrómantík eða formbylting snertu hana ekki baun. En það er aðdáunarvert hvað vinnulúin alþýðukona beitir leikandi létt fyrir sig fjölbreyttum bragarháttum, s.s. braghendum og hringhendum sem eru ekkert lamb að leika sér við:

Óska ég styggðir, last og lygðir
lands frá byggðum snúi fljótt.
En aukist dyggðir, einnig tryggðir
angurs hryggð frá hverfi drótt.

Konuvísur 1915

Orðræða Helgu er lítillát, stillt og vel þegin meðal viðtakenda á sínum tíma. Hún hefur verið helsta skáld sveitarinnar og til hennar var leitað með alls konar tækifæriskveðskap í tíma og ótíma. Helstu þemu í kveðskap hennar eru trú, náttúra og ættjörð. Árið sem konur fengu kosningarétt yrkir hún heillangt kvæði sem hún nefnir Konuvísur þar sem húsfreyjur í Fljótshlíð (en ekki vinnukonur) eru nafngreindar  og kostir þeirra tíundaðir. Í lokaerindinu er skáldið sjálft þó nafnlaust og öðrum ætlað að grafa það upp:

Nafn mitt harla nærgætnir
námsmenn þýða í friði,
sem í anda upplýstir
eru af sólarsmiði.

Helga yrkir ekki margt um sjálfa sig en þó má túlka sum kvæða hennar svo að líf hennar hafi verið dapurlegt á stundum og hún beðið skipbrot í ástamálum.

Að ganga bókafjörur

Nýlega var fjallað um kveðskap Helgu í þættinum Orð um bækur á rás 1 ásamt verkum tveggja annarra skáldkvenna sem einnig hafa farið hljótt í ys daganna en eru minnisverðar. Um útgáfu þessara bóka allra eiga vel við orð Þórunnar J. Valdimarsdóttur á dögunum: „það þarf að ganga á bókafjöru á útmánuðum svo góðar bækur hverfi ekki ólesnar“.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015

137 bls

Birt í Kvennablaðinu, 24. febrúar 2016

Síðustu fjörkippir kerlingar

Er gamalt fólk ekki mestmegnis til óþurftar í samfélaginu? Úrelt og afdankað? Hætt á vinnumarkaði og komið á stofnanir þar sem það  hangir á horriminni vælandi um hærri ellistyrk. Það hefur gegnt sínu hlutverki, ætti það ekki bara að vera til friðs? Og ef það fer að hlaupa út undan sér, eyða arfinum eða verða ástfangið, þá er illt í efni.

12493764_682634515213193_3080483639432154021_oStutt skáldsaga, Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen, hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna 2015. Sagan birtist fyrst í tímaritaröðinni 1005 en kemur nú út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Halldóra er enginn nýliði þótt ekki sé hún afkastamikil, frá 1990 sent hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn í knöppum og íronískum stíl. Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið að selja blíðu sína um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís.

Gamlingjar og geldingaást

Hingað til hefur Guðbergur Bergsson aðallega róið á gamlingjamiðin í íslenskum bókmenntum og dregið upp gróteskar myndir sem sýna einsemd, firringu og margrætt eðli mannsins. Í Tvöföldu gleri er fjallað um ellina og stigvaxandi hrörnun líkama og hugar á nærfærnari hátt, um það að hafa ekkert hlutverk í öllum hamaganginum, horfa á samfélagið utan frá, bíða dauðans og taka síðustu fjörkippina.

78 ára gömul kona þreyr þorrann í lítilli íbúð á Lindargötunni. Hún er þokkalega ern og sýslar við sitt, prjónar og hlustar á útvarpið, hittir vini sína sem brátt tína tölunni og fylgist með lífinu fyrir utan gluggann. Óforvarendis kynnist hún manni og tekur upp sambúð við hann, öllum til hrellingar. Kerling þarf reyndar að hugsa sig vel um áður en hún stígur inn í ástina á ný og breytir svona hressilega til í lífinu. Hún óttast að sprengja upp einmanalega veröld sína en vill heldur ekki verða doðanum að bráð (32). Hún hefur hingað til varast sársauka og hikað, alltaf staðið sína plikt og er „siðprútt gamalmenni“ (44).

Ástir eldra fólks eru tabú, einhvers konar geld ást sem stangast á við lífseigar hugmyndir okkar um norm í samfélaginu:

„Sjálft ímyndunarafllið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna“ (52).

Ansi svæsin mynd en í sögunni er þetta bæði  fallegt og sjálfsagt.

Kynslóðabil og hið vélræna líf

Í kyrrstæðu bændasamfélagi á öldum áður skipti aldur engu máli. Fólk lifði og starfaði eins og geta þess og heilsa leyfðu uns það lagðist í kör eða dó. Kynslóðir bjuggu saman og unnu að velferð heildarinnar. Þegar ellin og dauðinn færðust frá heimilinu til stofnana myndaðist rof í samhengið. Í sögunni er kynslóðabilið til gagnrýninnar umfjöllunar, ádeilan er grímulaus og beinist einnig að vélrænu lífi þræls gróðaaflanna:

„Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inn í íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við félagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu. Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál“ (17-18).

Harðsoðin og ljóðræn

Sagan er fallega skrifuð, harðsoðin og ljóðræn í senn, hvert orð er valið af kostgæfni. Myndmálið rímar fullkomlega við efni og þema; konan „hrærir næturkvíðanum út í dimmt kaffið“ (25) og það er „Hem á pollum, ósnertur dagur undir kristal“ (28). Glerið hefur margvíslegt tákngildi, það bæði einangrar og veitir útsýni og birtu, verndar um leið og það er brotgjarnt og skeinuhætt. Skáletruð (gler)brot með þönkum konunnar fleyga textann og þau síðustu bera feigðina í sér; sprungin pera, lekur eldhúskrani, nornagrátt hár og grimmt skammdegismyrkur, minnisleysi og einsemd taka völdin.

Halldóra hefur sýnt að hún er jafnvíg á örsögur og breiðari verk. Það er af ótal mörgu að taka í þessari sögu þótt stutt sé, hún fjallar um tilvist og tilgang, líf og dauða; þrungin speki, lífsreynslu og ríkri réttlætiskennd; tær og hvöss eins og titill hennar ber augljóslega með sér.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015. 75 bls

Birt í Kvennablaðinu, 14. 02. 2016

 

„Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til“

„… ég lifi og starfa sem útigangsmaður í Reykjavík. Starfið felst í því að vera útundan. Ég tel ég megi fullyrða að ég sé bara góður í því og að búðareigendur miðbæjarins gæfu mér meðmæli ef þess væri óskað. Þjóðfélagið þarfnast harms svo venjulegt fólk finni til. Ákveðnum prósentufjölda hverrar kynslóðar verður að ýta út á kant. Mér ber að ganga daglega um bæinn og skapa viðbrögð og tilfinningar hjá samborgurunum…“ (161).

Þetta brot er úr nýrri og áhrifamikilli skáldsögu Kristínar Ómarsdóttur sem ber heitið Flækingurinn. Þar segir frá unglingspiltinum Hrafni (stundum kallaður Óskar eða Georg Washington Jensen), útilegumanni nútímans og sprautufíkli sem þvælist um götur Reykjavíkur í leit að mat og dópi. Þessi ógæfusami piltur hittir margs konar fólk á vegi sínum, flest er á jaðri samfélagsins eins og hann sjálfur. Þegar sagan hefst býr hann á einhvers konar sambýli eða athvarfi fyrir fíkla og ræður bjargvætturinn Laufey þar ríkjum. Brátt hrökklast hann þaðan, hreiðrar um sig í geymslu í kjallara í dansskóla, lendir svo í slagtogi við alls konar furðufugla og fyrir ýmist ásetning eða misskilning kemst hann í kast við lögin. Sögunni lýkur svo þar sem hún hófst, í húsi Laufeyjar, með absúrd drápsenu sem minnir mest á bíóhasar, en raunveruleiki og jarðtenging eru býsna langt undan í þessu skáldverki.

Framvinda sögunnar markast af ráfi Hrafns um bæinn og samskiptum hans við misruglaðar persónur, dóprausi og ranghugmyndum, ofbeldi og brostnum draumum. Stíllinn er mjög ljóðrænn og fallegur, senur eru margar súrrealískar enda rambar sögumaður á mörkum vímu og veruleika.

Hrafn er mállaus og skrifar á blað það sem honum liggur á hjarta. Hann missti málið/tunguna á einhvern óljósan hátt og var beittur kynferðisofbeldi í uppvextinum. Sjálfsmynd hans er verulega brengluð og mörkuð af erfiðri æsku og vímuefnanotkun: „Er ofbeldi stafróf mitt og sú tjáning sem fólk skilur?“ spurði ég sjálfan mig, þakklátur fyrir að mega skilja sjálfan mig án aðstoðar milliliðs. Úff, ég hefði ekki boðið í það hefði ég þurft á túlki að halda til að skilja mig. Felldi ég tár hlógu allir og ég mest. Það hafði ég reynt: að gráta ef ráðist var á mig. Berði ég frá mér hlógu fáir og fólk bugtaði sig jafnvel fyrir mér. Með ofbeldi öðlaðist ég vald, virðingu“ (127).

Sagan gerist um vetur, tilveran er grá og köld. Fíklarnir búa við ofbeldi, útskúfun og auðmýkingu alla daga en á milli koma góðar stundir, sérkennileg vinátta og samkennd skapast og ástin kviknar, sjúkleg og ofbeldisfull. Hrafn lætur dagana líða við að redda sér einhverju ætilegu, vímuefnum og lyfjum, fara á bókasafnið til að lesa dánartilkynningar á netinu eða dotta með þykka bók, skreppa á klósett á bensínstöð eða í kirkju og dorma á dýnu þess á milli. Hann ruglar svo saman reytum við hinn svarta Engilbjart og týndu stúlkuna Emmu en í félagsskap þeirra fara hjólin að snúast. Hrafn er vissulega viðsjárverður gaur og ekki með öllum mjalla en Engilbjartur er stórhættulegur, snarvitlaus og siðblindur.

Þegar þeir félagar hafa brotist inn til að redda sér pening eða fundið matarafganga í ruslatunnum, fyllt vatnsbrúsa og innbyrt einhver eiturlyf, eru þeir alsælir og gerast heimspekilegir í pælingum sínum, m.a. um samfélagið sem þeir sniðganga og afneita. „Eignarétturinn er atvinnuskapandi,“ sagði Engilbjartur eitt sinn, „og skapar störf lögregluþjóna, lögfræðinga, dyravarða, húsvarða, tryggingafólks, öryggisvarða, bankastarfsfólks og fangavarða.“ „Hvað skapar eignarétturinn marga glæpamenn?“ spurði ég sjálfan mig nú, því ég var lengi að hugsa og bregðast við upplýsingum frá öðrum. Og hvað skapar hann mörgum eignaleysi og fátækt? Eignarétturinn drífur samfélagið áfram um leið og hann liggur á því eins og mara“ (159).

Þeir fóstbræður eiga mögnuð samtöl í ruglinu en hrista svo af sér slenið og halda í ævintýraför þar sem ættingjar og vinir fá makleg málagjöld í grátbroslegum ofbeldisatriðum sem varpa ljósi á bæði sjúklega hugsun fíkilsins og meðvirkni og skilningsleysi fórnarlambanna.

Útigangsmönnum í höfuðborginni fer fjölgandi en um þessar mundir eru a.m.k. 200 manns heimilislausir árið um kring og enn fleiri á götunni tímabundið. Er flækingslífið heilbrigðisvandamál, félagslegur vandi eða vandi hvers og eins? Hver ber ábyrgðina? Þetta er ekki einfalt mál og engin lausn í sjónmáli. Kristín dregur upp nöturlega mynd í Flækingnum af skuggalegum heimi sem fæstir þekkja og fólki sem við kannski finnum til með en viljum sem minnst af vita. Og á listilega íronískan hátt stangast útskúfun og einmanaleiki persóna sögunnar á við frelsis- og sjálfstæðishugmyndir þeirra sjálfra.

Tími flækingsins er runninn upp, hugsjónirnar eru dauðar, heimur hvíta mannsins er liðinn undir lok, segir Engilbjartur sem hatar bláeygt gelgjupoopp og allt sem er hvítt. En er líf flækingsins æðsta stig tilverunnar? Er hann frjáls? Hvort er það hugrekki eða hugleysi að velja þá braut í lífinu? Þeim sem hafa í huga að leggjast út er ráðlagt að skoða lista í handbók útigangsmannsins sem birtist á bls. 263–4 í bókinni. Þar kemur fram að gott er að eiga m.a. kertisstubb og kveikjara, snæri og kúbein, trefil og vatnsþéttan skófatnað, skrúfjárn, teppi og samanbrotinn plastpoka. Og svo er bara að smæla framan í heiminn: Bless vinna, fjölskylda, eignir, ábyrgð og skuldir! Hæ, frelsi?

Birt í Kvennablaðinu 16. apríl 2015

Tíðindalítið bókamenntaár (breytt útg.)

Þegar horft er um öxl á bókmenntaárið 2014  má segja að engin stórtíðindi hafi sosum orðið. Nokkrir rithöfundar settust við að semja endurminningar sínar, td Pétur Gunnarsson og Sigurður Pálsson, um námsárin, þroskaferli og glatað sakleysi. Mikil nostalgía er á ferð, 68-kynslóðin er að gera upp fortíðina, orðin makindaleg og sæmilega efnuð millistétt og hefur tapað hugsjónunum í streðinu og saknar eldmóðsins, hippafílingsins, kröfuganganna og þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar fyrir betra þjóðfélagi.

Gullöld 68 kynslóðarinnar er sjálf í brennidepli. Sjávarþorpin eru í tísku, sjoppan, frystihúsið og kaupfélagið eru í hillingum, en undiraldan er ádeila á kvótaruglið og landsbyggðarpólitíkina. Um þetta efni fjalla t.d. Eiríkur Guðmundsson og Jón Kalman vel og vandlega. Mál sem brennur á mörgum (kvenrithöfundum aðallega) er samband mæðgna og uppgjör við uppeldi og fortíð, bælingu og þöggun, misnotkun og ofbeldi, Auður Jónsdóttir á stjörnuleik í því. Kreppa miðaldra karla og kvenna er vinsælt yrkisefni, þar má nefna höfund eins og Steinunni Sigurðardóttur sem tekur á því af list sinni og stílkunnáttu.

Mikið um konur að skrifa um konur, árið 2015 eru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt og þá verður þess minnst á margvíslegan hátt, þá fá þvottakonur uppreisn æru, svo og alþýðukonur sem komu börnum á legg í sárri fátækt, um þetta skrifa td Kristín Steinsdóttir og Kristín Marja Baldursdóttir og halda heiðri formæðranna  á lofti. Líklega verður lífshlaup og ferill fyrstu alþingiskvennanna rifjaður upp, megum eiga von á bók/um um þær. Sögulegar skáldsögur eiga upp á pallborðið enda virðist sem þjóðin sé óðum að týna uppruna sínum, tungu og menningararfi. Á þessum miðum rær Ófeigur Sigurðsson lífróður en mikið var látið með hann á árinu.

Fleiri höfundar Íslands vinna með sjálf og samtíma, tíma og minni, tungumál og bókmenntaarf. Gyrðir var iðinn við kolann á árinu, listaskáld sem hann er, Oddný Eir og Steinunn Sigurðar skrifuðu flottar bækur um ástina,  glæpasögurnar eru samar við sig, þeim fer reyndar frekar fram en hitt og verma jafnan efstu sæti metsölulistanna. Ljóðið blaktir sæmilega og í ár kom myndrænn bálkur frá Gerði Kristnýju sem fékk góða dóma og hefðbundin ljóð Bjarka Karlssonar slógu í gegn 2013 og voru endurútgefin á árinu, en það er afar sjaldgæft, hefðbundið form, rím og stuðlar eiga greinilega upp á pallborðið. Nýir barnabókahöfundar skutust upp á stjörnuhimininn  (leikarar voru áberandi enda hæg heimatökin varðandi markaðssetningu) og þar er fantasían allsráðandi. Nokkur ládeyða er í íslenskri leikritun, enn er verið að setja upp skáldsögur á svið með misjöfnum árangri.

Þau stórtíðindi urðu þó á árinu að Lolita eftir Vladimir Nabokov kom út í íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar. Þá var nýjasta bók Murakami þýdd snarlega, það gerði Ingunn Snædal en áður hefur Uggi Jónsson þýtt verk Murakami afskaplega vel. Um mikilvægi góðra þýðinga á heimsbókmenntum fyrir íslenskar bókmenntir er aldrei of mikið talað.

Vonandi kemur bók frá t.d. Vigdísi Grímsdóttur og Auði Övu á nýju ári, báðar eru höfundar sem búa yfir frumlegri hugsun, eiga brýnt erindi og hafa frábær tök á íslensku máli.

Kiljan á rúv hefur ennþá gríðarleg áhrif á íslenska bókmenntaumræðu, þar sitja karlar og tala við karla um bækur eftir karla. Bókaforlög hafa haldið áfram að renna saman og einleitni eykst, þeir selja sem hafa efni á að auglýsa og í menningarumræðunni safnast völdin á fárra hendur. Undir lok ársins átti sér stað furðuleg umræða um gagnrýnanda Víðsjár, Björn Þór Vilhjálmsson, á facebook og óvænt afhjúpaðist sú hneigð að það yrði að þagga niður í honum þar sem hann þótti ekki þóknanlegur. Sætti hann persónulegum svívirðingum sem hann sem betur fer lét ekkert á sig fá. Nokkrir rithöfundar og málsmetandi menn höfðu hátt um þetta um stund en urðu svo að biðjast afsökunar á þessu undarlega hátterni. Hvert stefnir í bókmenntagagnrýni á Íslandi ef þetta verður lenska?

Það urðu ss engir stórviðburðir á árinu í okkar litla bókmenntaheimi nema að stjórnvöld skutu sig í fótinn með að hækka verð á bókum þrátt fyrir mjög svo fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir sjálfstæða og gagnrýna hugsun, þróun samfélags og tungumáls. Og hvað getum við gert í því? Ádeiluhöfundar eins og Guðbergur Bergsson og Steinar Bragi halda okkur við efnið eins og er, við erum kannski ekki ánægð með að fá á baukinn en þurfum þess svo sannarlega. Er ekki hlutverk bókmennta m.a. að vekja okkur, opna augu okkar, breyta heiminum? Það er löngu kominn tími á öxina frægu, beint í hausinn á okkur.

Álfabækur

Álfabækur Guðlaugs Arasonar. Verður bók framtíðarinnar listmunur í hillu, miniature, minjagripur, skraut?

Hið lummulega 1989

Rúnturinn á Akureyri, í lok níunda áratugarins, herðapúðar og Lindubuff, hversu óskáldlegt er það?! Og skyndikynni sem bera óvæntan ávöxt, hann er skáld og fyllibytta og hún er verksmiðjustelpa, við bætast síðan drumbslegur kærasti og ráðrík amma… Það sem hefði getað orðið hversdagsleg og leiðigjörn ástar- og vandamálasaga frá 1989 verður að sprettharðri og fjörugri skáldsögu hjá Orra Harðarsyni. Hann hefur áður sent frá sér Alkasamfélagið en Stundarfró heitir hans fyrsta skáldsaga og lofar góðu.

Orri tekur efnið föstum tökum og mikil frásagnargleði einkennir söguna. Hann leggur alúð við allar persónur sínar, sem hver og ein glímir við sína fortíðardrauga, og sýnir þeim skilning í hremmingunum sem þær lenda í. Amman á bestu replikkurnar, hún er hörkutól sem hefur reynt margt án þess að fleipra nokkuð um það og stjórnar öllu með harðri hendi. Dísa er töffari og rómantíker, vinnur í súkkulaðiverksmiðjunni og sötrar pepsi meðan hún bíður eftir að grái skífusíminn hringi. Hún er auðveld bráð fyrir Arinbjörn Hvalfjörð, ungskáldið sem sló í gegn og miklar vonir eru bundnar við en hann er hjartaknúsari í gamalli merkingu þess orðs, þaulsætinn á öldurhúsum, rótlaus og forfallinn alki  sem flækist æ meir í eigin lyfavef. Í sjúkum huga hans fara fram rökræður milli meirihlutastjórnar og stjórnarandstöðu; „Máli beggja talaði hann samviskusamlega en gætti þess þó jafnan að stjórnin hefði andstöðuna undir. Sú síðarnefnda var einatt rödd skynseminnar. Það var sjaldnast heillandi að halda með henni“ (32-3). Þannig hrekst hann um í lífsins ólgusjó og sekkur sífellt dýpra. Lýsingar á hugrenningum hans, sem snúast um fíkn, flótta og fráhvörf, eru afskaplega trúverðugar:

„Hann kallaði það háskerpustigið, þetta hárfína ölvunarástand á milli núllstillingar og algleymis. Á því stigi varð  hann framúrskarandi skýr í hugsun og fær í flestan sjó. Ekkert óx honum í augum. Í stað óbærilegs kvíða og miðpunktsfóbíu varð hann miðpunktur alls. Í huganum hafði sitjandi stjórn fengið endurnýjað umboð og í raun unnið stórkostlegan kosningasigur. Tilfinningin var guðdómleg“ (41).

Stíllinn er kjarngóður og kraftmikill, hraður og fyndinn enda stólpagrín gert að persónunum sem þó eru afar ólánssamar. Senurnar eru margar nostalgískar og dæmigerðar fyrir tíðarandann, t.d. situr amman í eldhúsinu með kaffifantinn sinn, svælir sígarettu og hlustar á óskalög sjómanna. Tónlist af grammófóni, kassettum og útvarpi skipar stóran sess í sögunni, látlaust er vitnað í textabrot og snillinga eins og Dylan, Cohen og einnig kunna djassara. Það er bara gaman að því. Málfarið er oft gamaldags en hressilegt og frumleg stílbrögð og myndmál víða. Lausn sögunnar, sem ekki verður upplýst hér, er svolítið út í hött og hreinlega til óþurftar, lesendum er löngu orðið ljóst að þeim Arinbirni og Dísu er ekki skapað nema að skilja. Hvað sem því líður er Stundarfró vel  byggð og skemmtileg saga um sígilt efni, allir  eru jú í leit að einhvers konar stundarfró, hvort sem hún felst í ást, fíkn eða viðurkenningu.